Færslur

Eldborg

Gengið var upp á Stóru-Eldborg undir Geitahlíð, niður hrauntröð suðaustur úr megingígnum, beygt að Litlu-Eldborg, horft niður um gígopið og síðan gengið niður mikla hrauntröð til suðurs í Krýsuvíkurhraun.

Eldborgarrétt

Gamla Krýsuvíkurréttin (Eldborgarrétt).

Eftir að hafa fylgt tröðinni nokkurn spöl, var gengið yfir hraunið til austurs og síðan norðurs, uns komið var í aðra stóra hrauntröð úr gígunum. Hún var gengin upp að rótum. Svæði þetta er einstaklega áhugavert út frá jarðfræðilegum sjónarmiðum, en ekki síst náttúrulegum því í hrauninu hafa fest rætur hinar margvíslegustu plöntur, auk gamburmosans. Hraunin hafa jafnan verið nefnd undir samheitinu Krýsuvíkurhraun, en í rauninni er um nokkur aðskilin hraun að ræða, sem hvert hefur runnið yfir annað, að hluta til eða í heild.

Krýsuvík

Svæðið.

Á hraunakortum af Krýsuvíkurhrauninu en ljóst er að mjög margir hraunstraumar eru settir undir örnefnið Krýsuvíkurhraun. Sjá má hvernig hraunstraumar hafa runnið niður hlíðarnar, s.s. í Sláttudal, en ofan við þær eru einstaklega fallegir eldgígar, sem fáir hafa barið augum. Þeir eru í góðu göngufæri frá Herdísarvíkurveginum, t.d. upp frá Sláttudal eða upp frá Sýslusteini skammt austar.

Eldborgir eru venjulega túlkaðar í eintölu og eru undir Geitahlíð. Stóra-Eldborg er t.a.m. nokkrir gígar þótt einn þeirra sé sýnum myndarlegastur og reistastur.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Þegar staðið er upp á suðuröxl Geitahlíðar sjást gígarnir mjög vel sem og hraunið niður undir þeim. Þetta eru formfagrir gjallgígar á suðvesturenda gígaraðar, sem skildi eftir hraun alla leið til sjávar. Hraunið frá Litlu-Eldborg er talsvert minna. Norðausturhluti gígaraðarinnar sést vel frá Æsubúðum.

Geitahlíð, sem fóstrar eldborgirnar á öxlum sínum, er grágrýtisdyngja. Í suðurhlíðum, ofan við Stóru-Eldborg, er Hvítskeggshvammur, en Æsubúðir efst á hlíðinni.

Æsubúðir

Æsubúðir.

Við þær er gígur fjallsins, alldjúpur. Hvítskeggsvammi og Æsubúðum tengist þjóðsaga af kaupmönnum, sem í búðunum höfðu verslunarstað fyrrum. Við Hvítskeggshvamm bundu þeir skip sín og “mátti til langs tíma sjá festarkeng þar í klöppunum”. Líklegt er að þá hafi ströndin náð upp að fjöllunum, s.s. Herdísarvíkurfjalli, sem telja má líklegt. Ströndin neðan við fjallgarðinn er nýrra hraun, sem runnið hefur neðan af björgunum og fyllt upp og mótað landið neðan við þau. Ofan Stóru-Eldborgar liggur gamla þjóðleiðin milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur, um Deildarháls og Kerlingadal, þar fyrir eru dysjar Herdísar og Krýsu.
Eldborgir undir Geitahlíð eru hluti af gjallgígaröð. Stóra-Eldborg er meðal fegurstu gíga Suðvesturlands. Þær voru friðlýstar 1987, sbr. Stj.tíð. B, nr. 622/1987. Þar s egir m.a. um friðlýsinguna:

Stóra Eldborg

Stóra Eldborg.

”Samkvæmt heimild í 22. gr laga nr. 47/1971, um náttúruvernd, hafa [Umhverfisstofnunar] og náttúruverndarnefnd Grindavíkur ákveðið að friðlýsa sem náttúruvætti Stóru – Eldborg og Litlu – Eldborg undir Geitahlíð, Grindavík, ásamt næsta nágrenni. Mörk hins friðlýsta svæðis eru eftirfarandi:
Að norðan fylgja þau mörkum hrauns og hlíðar, 200 m austur fyrir nyrstu gíga í gígaröð Litlu – Eldborgar. Þaðan hugsast bein lína í austurhorn hrauntraðar frá Litlu – Eldborg um 225 m sunnan borgarinnar. Síðan bein lína í vestnorðvestur að þjóðvegi, eftir honum að vesturjaðri hraunsins frá Stóru – Eldborg. Að vestan fylgja mörkin hraunjaðrinum.

Herdís og Krýsa

Dysjar Herdísar og Krýsu.

Eftirfarandi reglur gilda um svæðið:
Gjalltaka og mannvirkjagerð er óheimil, svo og hvers konar jarðrask, sem breytir eða veldur skemmdum á útliti gíganna. Skylt er vegfarendum að sýna varúð, svo að ekki spillist gróður eða aðrar minjar á hinu friðlýsta svæði umhverfis eldstöðvarnar.”
Eldborg myndast þegar þunnfljótandi kvika kemur upp um kringlótt gosop í fremur stuttum gosum og án kvikustrókavirkni (flæðigos). Umhverfis gosopið hlaðast upp brattir gígveggir úr hraunslettum. Hraunið frá þeim er ýmist hellu- eða apalhraun. Dæmi: Eldborg á Mýrum og þessar eldborgir í Krýsuvík.

Eldborg

Hraun við Eldborgir – kort Jóns Jónssonar.

Hraungos eða flæðigos nefnast þau gos sem nær eingöngu mynda hraun. Slík gos mynda ýmist eldborgir eða dyngjur. Eldborgir myndast við eitt, fremur stutt, flæðigos þegar þunnfljótandi gasrík hraunkvika flæðir upp um eldrás sem verður pípulaga er líður á gosið. Kvikan kraumar í gígskálinni og sýður upp úr henni með nokkru millibili. Við það flæðir kvikan yfir barmana og hlaðast þannig upp mjög reglulegir gígveggir úr nokkurra cm þykkum hraunskánum. Gígveggirnir eru brattir ofan til (40°- 60°) og mynda efst þunna egg og eru þeir aðaleinkenni eldborganna. Eldborgir eru mjög sjaldgæfar utan Íslands.

Þrátt fyrir friðlýsinguna hefur Litlu-Eldborg verið raskað með efnistöku. Svæðið sunnan Stóru-Eldborgar er í sárum eftir stórvirkar vinnuvélar og skammsýni mannanna. Þegar stigið er upp á leifarnar af gígopinu blasir það við, alldjúpt. Stiga eða band þarf til að komast niður. Barmarnir eru allsléttir.

Eldborgarhraun

Eldborgarhraunin.

Gengið var niður stóra hrauntröð vestast í Krýsuvíkurhrauni. Hraunin nefnast því einu nafni, sem fyrr sagði, en hraunið frá Litlu-Eldborg hefur runnið yfir hraunið frá Stóru-Eldborg og er síðarnefnda hraunið því eldra hraun. Annars greinir menn oft um aldur hrauna. Þannig hefur Ögmundarhraun t.d. verið sagt vera frá 1151, en þó hefur að verið aldursgreint frá árinu 1005 með geislakolsmælingum (C14 945 ± 85 ).
Ekki er nákvæmlega vitað um aldur hraunanna. Ofar eru þau úfin, en gróin á milli og eftir því sem neðar og austar dregur. Þau hafa runnið fram af gömlu bjargbrúninni, sem sést neðan við svonefnda Klofninga. Ofan brúnarinnar er t.d. Krýsuvíkurhellir og Bálkahellir ofar. Fleiri hellar og rásir eru í hrauninu, en það hefur verið lítt kannað.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Litla-Eldborg

Leifar gígs Litlu-Eldborgar.