Tag Archive for: Lyngfell

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall er móbergsfjall á Reykjanesskaganum vestanverðum. Það er talið vera vestasti hluti Reykjanesfjallgarðsins, en vestan þess eru stök fell. Fagradalsfjall er aflangt frá austri til vesturs, um 385 metrar á hæð og er þar með hæsta fjall á Reykjanesskaga. Það hefur orðið til á ísöld við gos undir jökli og er smáhraunlag á því ofanverðu, sem gefur til kynna að gosið hafi náð lítið eitt upp úr jöklinum. Fjallið flokkast því sem stapi.

Fagradalsfjall

Stóri-Hrútur í Fagradalsfjalli.

Fagradalsfjallskerfið er fyrst nefnt hjá Mary Gee. Hún dregur fram öll helstu einkenni þess, en það er um flest ólíkt öðrum eldstöðvakerfum á Reykjanesskaga. Kerfið er um fimm kílómetra breitt á milli Svartsengis- og Krýsuvíkurkerfanna. Lengdin er um 15 kílómetrar milli Keilis í norðaustri og Húsafjalls í suðvestri.

Eldgos

Litli-Hrútur við Fagradalsfjall; eldgos 2023.

Sérstaða þess felst í því að eiginlegur sprungusveimur tengist því ekki, og fátt er um misgengissprungur og gjár með norðaustur-suðvestur stefnu. Þar er ekki heldur að finna langar gossprungur. Hins vegar eru þar allmargar skjálftasprungur með norð-suðlæga stefnu. Háhitasvæði tengist því heldur ekki.
Einkennandi gosmyndanir eru dyngjur eða ígildi þeirra, það er stapar, bólstrabergs- og móbergsstrýtur, sem og stuttar gossprungur og snubbóttir móbergshryggir. Langihryggur er þeirra lengstur, um tveir kílómetrar. Tvær stórdyngjur eru í kerfinu, Fagradalsfjall, raunar stapi, vart eldri en frá síðasta jökulskeiði, og Þráinsskjöldur frá síðjökultíma, sjá mynd. Aldursgreiningar á skeljum næst undir breksíuhluta Þráinsskjaldar á Vatnsleysuströnd gáfu aldurinn 12.620±55 og 12.605±50 kolefnisár sem samsvarar um 14.100 almanaksárum.

Land á Reykjanesskaga utanverðum hefur orðið íslaust á Bølling-Allerød hlýskeiði. Það hófst fyrir um 14.500 árum og lauk fyrir 12.500 árum. Eftir fylgdi 1000 ára kuldaskeið, yngri Dryas, með nýrri framrás jökuls. Þetta 3000 ára tímabil er oft nefnt síðjökultími og þá runnu elstu hraunin á utanverðum Reykjanesskaga, þar á meðal Þráinsskjöldur. Þegar hann myndaðist hefur sjávarborð verið um 35 metrum lægra en nú, en skilin milli hrauns og breksíuhluta í honum eru á því dýpi.

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson í FERLIRsferð undir Festisfjalli/Lyngfelli.

Að frátöldum stórdyngjunum eru 30-40 smáfell í Fagradalsfjallskerfinu. Þau eru þó ekki endilega mynduð í jafnmörgum gosum. Sex þeirra, þar á meðal Skála-Mælifell, eru úr öfugt segulmögnuðu, ólivínríku bergi. Aldursgreiningar sýna þau um 90.000 ára, frá segulflöktstíð sem kennd hefur verið við Skála-Mælifell. Af öðrum goseiningum kerfisins má nefna Festarfjall. Þar má sjá gosganginn í sjávarhömrum, Festina sem fæddi það. Gangur úr pikríti með stefnu á Lyngfell (einnig úr pikríti) sést í fjörustálinu nokkru austar en Festin, efalaust aðfærsluæðin. Gossprungan hefur í því tilviki verið um 700 metra löng. Bergið í goseiningum kerfisins er þóleiít, ólivínbasalt og pikrít.

Vatnsheiði

Við op K-9 neðst í Vatnsheiði.

Í kerfinu eru tólf gígar og stuttar gígaraðir frá eftirjökultíma, allt í því vestanverðu, nema ein dyngja á austurjaðrinum, norðan í Hraunsels-Vatnsfelli. Óvíst er hvort gos hafi verið jafnmörg.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni – örnefni.

Elst hraunanna er sennilega Hrólfsvíkurhraun, frægt fyrir fjölda hnyðlinga sem aðallega sjást í einu belti. Líklega hefur gosið byrjað í sjó og þá myndast túffbingurinn í Berjageira upp af Hrólfsvík. Sjór hefur eytt honum að hluta áður en hraunið úr Vatnsheiði lagðist að og varði hann fyrir frekara rofi.

Aðalgosreinin frá eftirjökultíma nær frá Vatnsheiði norðaustur fyrir Fagradalsfjall með tíu hraunum.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – einn gíganna. Kistufell (t.h.) og Hraunssels-Vatnsfell fjær.

Stærst þeirra, að undanskildum Þráinsskildi, eru smádyngjan Vatnsheiði, að mestu leyti úr pikríti, og Borgarhraun úr þóleiíti. Borgarhraun er upprunnið í fjórum gígum suðvestan í Fagradalsfjalli. Önnur hraun eru lítil, en erfitt er þó að ákvarða stærð þeirra, því að yngri hraun hafa lagst yfir þau vestan frá. Yngsta hraunið í kerfinu mun vera Beinavörðuhraun, en það er eldra en Reykjanesgjóskan R~6000.

Á árunum 2021-2023 gaus þrívegis í Fagradalsfjalli, þ.e. í Geldingadölum, við Meradali og við Litla-Hrút. Það þarf þó ekki að koma á óvart því hraun hafa runnið á ýmsum stigum allt umhverfis fjallið.

Heimildir:
-Gee, M. A. M., 1998. Volcanology and Geochemistry of Reykjanes Peninsula: Plume-Mid-Ocean Ridge interaction. Doktorsritgerð, Royal Holloway University of London. 315 bls.
-Kristján Sæmundsson, óbirt gögn 2011.
-Kristján Sæmundsson, 1995b. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi, 1:25.000. Blað 1. Orkustofnun, Hitaveita Suðurnesja og Landmælingar Íslands, Reykjavík.
-Kristján Sæmundsson, 1995c. Um aldur stóru dyngnanna á utanverðum Reykjanesskaga. Eyjar í eldhafi. Afmælisrit til heiðurs Jóni Jónssyni jarðfræðingi. Gott mál, Reykjavík, 165-172.
-Sveinn P. Jakobsson og fleiri, 1978. Petrology of the Western Reykjanes peninsula, Iceland. Journal of Petrology, 19, 669-705.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=65697

Stóri-hrútur

Stóri-Hrútur; útsýni yfir að nýjum gíg ofan Meradala í Fagradalsfjalli.

Festarfjall

Meðfram fræðslufæti Kristjáns Sæmundssonar, jarðfræðings, var gengið um Hraunssand og Skálasand undir Festisfjalli (Festarfjalli), þar sem þjóðsagan er tengist bergganginum og festinni á að hafa gerst.

Festarfjall

„Festin“ í Festarfjalli.

Svæðið lýsir stórbrotinni jarðsögu storkubergs, setbergs og myndbreytts bergs, gefur setlögun fyrri jökulskeiða og forðum sjávarstöðu til kynna og kynnir til sögunnar bergganga, syllur og innskot, sprungufyllingar, frumsteindir og samsetningu þeirra. Sjórinn hefur brotið sér leið inn rúmlega miðja eldstöð með öllum þeim „dásemdum“ sem því fylgir. Jarðfræðin og jarðsagan á nútíma er óvíða bersögulli en undir Festisfjalli.

Kristján ásamt félögum sínum hefur staðsett og aldursgreind svo til öll hraun á Reykjanesskaganum og þótt víða væri leitað. Hann þekkir jarðfræði skagans eins og handabökin á sér, enda kom frá honum í ferðinni hafssjór af fróðleik.
Eftir að hafa farið yfir Slokahraun, sem skv. mælingum Kristjáns er um 2300 ára gamalt (hann hafði drög að jarðfræðikorti af ofanverði Grindavík meðferðis) þar sem m.a. kom fram lega Vatnsheiðahraunsins og nýrra yfirspil Sundhnúkahraunsins, en hið nýjasta, Melhólshraunið, á hins vegar meginefni þess hrauns, sem bærinn stendur á eða við.

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, í með drög að jarðfræðikortinu í FERLIRsferð undir Festisfjalli/Lyngfelli.

Örlög Melhólsins urðu lík og svo margra annarra fallegra gosgíga, að verða rótað upp og ekið undir vegi og hús.
Byrjað byrjað á því að fara niður á vestanverðan Hraunssandinn. Skoðuð voru berglög. Efst trjónar storkubergshraunlag, misþétt, en undir því er aska og gosmöl, þ.e. öfug gossagan. Undir hvorutveggja er móberg frá fyrra ísaldarskeiði. Forvitnilegt er að sjá ísaldarrákirnar á sléttyfirborðs jökul(set)berginu, móbergslagið þar ofan á og enn ofar það sem að framan greinir. Allt sést þetta mjög vel þarna á hraunstöllum þeim er hábáran hefur brotið niður og er smám saman að draga til sín. Víða má sjá bergganga upp í gegnum móbergið sem og sprungur, sem fyllst hafa með setlögum neðanfrá, en gosmöl og ösku ofan frá. Niðri á vestanverðum Hraunssandi er frábær aðstaða til að skoða hraun neðanfrá, þ.e. botninn á því þar sem það hefur runnið yfir og storknað á rakri gosmöl. Neðsta lagið ber þess glögg merki, en síðan þéttist bergið eftir því sem ofar dregur.

Festarfjall

„Festin“ í Festarfjalli neðst.

Hafaldan hafði tekið Dúnknahelli. Hellirinn, sem áður var orðinn nokkuð stór innvortis og með fallegu loftgati, lá nú eins og hrávirði neðan undir berginu. Ægisaldan hafði sprengt hellinn svo að segja frá berginu og skilið hann eftir berrassaðan fyrir verði og vindum.

Þegar gengið var undir Festisfjalli mátti vel sjá „festina“, berggang er gengur upp í gegnum fjallið. Um er að ræða fóðuræð fyrir yngra berg, en Festisfjall er lagskipt og hefur því orðið til í fleiru en einu gosi. Undir eru bólstranir, þá móberg, bólstra- og brotaberg þar fyrir ofan og loks móbergshetta með jökulsorfnu yfirborði. Austan við vestursnösina, sem skilur af Hraunssand og Skálasand þar austar, er annars konar berglag, olivíninnihaldríkara og enn austar brotabergskenndara. Austast er svo enn eitt berglagið.

Festarfjall

Festarfjall – jökulberg.

Jökulberg er undir neðsta bólstraberginu undir Festisfjalli, en annað slíkt lag tekur síðan við að nýju enn austar, undir Lambafelli. Um er að ræða jökulberg frá tveimur jökulskeiðum. Í þeim má vel sjá grannbergið, sem jökulsetið hefur hnoðað undir sig. Það er hnöttótt, en í nálægum móbergslögum má sjá köflóttara nærberg.
Í Rauðskinnu segir að „austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin.“

Festarfjall

FERLIRsfélgar ferðast um neðsta hluta „Festarinnar“ undir Festarfjalli.

Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.
Inn undir bergið eru fallegir smáskútar.
Þar sem ekki var vel fært fótum lítilmátturga manna fyrir sæiðandi ytri snösina var ákveðið að nýta tímann og ganga til baka um Hraunssand og koma inn á Skálasand úr austri, frá Lambastapa.

Strax þegar komið er niður í fjöruna vestan Lambastapa, inn í svonefndar Mávafláar, kom í ljós ódílótt bólstraberg, rauðleitt. Annars var losaralegt brotabergið ráðandi. Jökulbergið er skammt að handan, niðurundir bjargbrúninni. Stigi var notaður til að komast niður af austari jökulbergsstappanum og áfram til vesturs inn á Skálasand. Þar tók við stórkostlegt útsýni um bergið, bæði austanvert Festisfjall og vestanvert Lambafell.

Festarfjall

Festarfjall – sjávarhellir.

Skútar eru víða og sjá má glögglega jökulbergið þar undir. Ofar trjóna skessumyndir, en ljósbrúnar steinmóbergsklessur niðurundir. Þótti við hæfi að nefna þær skessuskít.

Toppurinn á ferðinni var uppgötvun Kristjáns á fóðuræð Lyngfells. Hún liggur upp í gegnum bergið skammt austan markanna, um 170 cm, breið neðst og liggur áleiðis út í sjó. Þar fyrir utan eru há sker er mynda nokkurn veginn hring. Ekki er með öllu útilokað að þau kunni að geyma fornan eldgíg er fóðraði bæði Festisfjall og Lyngfell, eða a.m.k. annað hvort þeirra.
Skammt austar er berggangur, er virðist nokkuð sprunginn. Hann er yngri en bergið umhverfis og virðist hafa fóðrað eldstöðvar ofar í landinu. Við vettvangsskoðun eftir gönguna komu í ljós tvö móbergssvæði sunnan Mókletta er gætu hafa verið afurðir þessa berggangs.

Festarfjall

Sjávarhellir í Festarfjalli.

Allt í ferðinni var hið fróðlegasta. Segja má að hún hafi verið svolítið innlegg í skráningu jarðsögu svæðisins.
Kristján var, sem fyrr sagði, hafsjór fróðleiks. Hann á nú nálægt fimm mánuðum til eftirlaunaaldurs, en virðist aldrei hafa verið frískari í viðleitni sinni og leit að nýjum uppgötvunum um myndun landsins.
Að lokinni göngu var þegið kaffi og meðlæti á Ísólfsskála þar sem farið var yfir helstu áhættuþætti og uppgötvanir ferðarinnar.
Staðreyndin er sú að einungis örfáir núlifandi (og þótt lengra væri leitað) hafa farið þá leið, sem farin var að þessu sinni.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 44 mín.

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík.

Hraunssandur

Gengið var frá Ísólfsskála og fyrir endann á Bjalla, klifið niður Lambastapa og haldið út með ströndinni undir Skálabergi, gengið eftir Skálasandi og Festarfjalli yfir á Hraunssand.

Festisfjall

Undirbúningurinn.

Aðeins er vitað um eina konu, eiginkonu Brands á Skála, sem gengið hefur þessa leið þurrum fótum og þótti mikið afrek. Dæmi er um að vaskir piltar hafi synt út fyrir Lambastapa er þeir voru að stytta sér leið að Skála. Það voru þeir Guðbergur Bergsson og Hinrik bróðir hans. Eftir þessa ferð bættist enn eitt Skálabarnið við; Erling Einarsson og eiginkona hans.

Svæðið er einstakt náttúru- og jarðfræðifyrirbæri, fuglalíf í bergi og hellum (teistan) er mikið og umhverfið stórbrotið. Berggangar sjást á nokkrum stöðum sem og bólstrabergs og móbergsmyndanir. Í daglegu tali var þetta svæði nefnt „Undir Festi“. Hrun er af og til úr fellinu svo hjálmar eru þarna þarfaþing.

Festisfjall

Festarfjall – undirbúningurinn.

Þjóðsaga er til um Festarfjall, en í henni segir að „austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin.
Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.“
Undir Festarfjalli eru nokkrir skútar og sjávarhellar. Einn þeirra er sýnum stærstur. Inni í honum verpir teista og má sjá hana þar í flokkum þegar vel stendur á.

Festisfjall

Sjávarhellir undir Lyngfelli.

Á Hraunsandi var fyrrum unninn sandur og möl, enda má enn sjá leifar malarnámsins ofan við bergið. Fyrirtækið hét Ægissandur og töldu margir það daga nafn sitt af sandströndinni fyrir neðan.
Dunknahellir er undir berginu. Hellirinn hverfur af og til vegna sandburðar, en stutt er síðan hann opnaðist aftur. Nú er komið myndarlegt loftgat í hellinn.
Á kafla er stógrýtt undir bjarginu, en sandur á milli bergganga og -nefja, sem sjórinn leikur við, jafnvel í lágsjávuðu. Það getur því þurft lag til að komast yfir þá og jafnframt þarf að gæta þess vel að lokast ekki inni í básum á milli þeirra. Á leiðinni þurfti að klifra yfir tvær nípur er skaga út úr berginu; Eystri- og Vestarinípu. Að sögn Sigga á Hrauni eru landamerki Hrauns og Ísólfsskála um Eystrinípu. Oft væri ófært neðan við þær, allt eftir því hvernig stæði á sandinum.

Festisfjall

Sjávarhellir undir Festarfjalli.

“Í kringum 1890 fannst þarna á Hraunssandinum rekin á hvolfi frönsk fiskiskúta. Erfitt var að gera sér grein fyrir, hvort áhöfn hefði farist með skipi þessu. En með því að engan mann hafði rekið úr því, var frekar hallast að því, að skip þetta hafi verið yfirgefið, en skipshöfninni bjargað af öðru skipi, áður en það rak upp. Í þennan tíma var gert út frá Ísólfsskála. Þeir bræður, Hjálmar og Brandur Guðmundssynir frá Ísólfsskála, voru þar formenn, með sinn bátinn hvor. Dag nokkurn á vertíðinni voru þeir á sjó austur í Hælsvík. Þar var þá mikið af frönskum fiskiskútum. Ein skúta var þar, sem þeir veittu sérstaka athygli, vegna þess hve segl hennar voru mislit, líkast því sem þau væru bætt. Seinni part þessa dags gekk svo í hvassa s.a. átt með slyddubyl. Þeir bræður héldu til lands, þegar verðrið fór að versna.

Lambastapi

Lambastapi.

Um kvöldið eða nóttina gekk síðan í hvassa s.v. átt. Morguninn eftir, þegar þeir á Ísólfsskála komu niður að sjónum þar, tóku þeir eftir miklu rakaldi þar úti fyrir og eitthvað var í fjörunni. Það var þegar giskað á, að skip hefði strandað vestur á Hraunssandi eða þar í kring og var fljótlega sent af stað að líta eftir þessu. Á leiðinni frá Ísólfsskála og út að Hrauni er mikið af þverhníptum háum klettum meðfram sjónum og sums staðar illt að sjá greinilega niður í fjöruna, enda komust leitarmenn alla leið út að Hrauni, án þess að finna nokkuð.

Dunkshellir

Horft út um Dunkshelli.

Frá Hrauni var svo snúið við aftur sömu leið og bættust þaðan menn við í leitina. Þegar upp að Dunkshelli kom, fannst svo þetta strand, sem áður er getið. Og þeir Ísólfsskálamenn töldu sig þekkja þar aftur frönsku skútuna með bættu seglin, sem þeir sáu í Hælsvík deginum áður. Engan hefi ég hitt, sem kann nánar að segja frá strandi þessu, en nú hefir verið gert.
Fyrir innan Dunkshelli byrjar Hraunssandur og er hann í boga fyrir botni Hraunsvíkurinnar, hátt berg rís alls staðar upp af Hraunssandi, og aðeins á einum stað er hægt að komast niður á sandinn, þar sem klettarnir eru lægstir. Alveg fyrir botni Hraunsvíkur, þegar ströndin byrjar að beygja út að austanverðu, rís Festarfjall upp af sandinum.

Festisfjall

Festisfjall – berggangar.

Í Festi eru Vestri-Nípa og Eystri-Nípa, sem eru mörk milli Hrauns og Ísólfsskála, og frá Eystri-Nípu heitir sandurinn Skálasandur. Munnmæli eru um að í skerjum, sem heita Selasker og eru fram undan Eystri-Nípu, hafi í fyrndinni verið festiboltar fyrir skip og að þarna hafi þá verið skipalega. En miklar breytingar hafa orðið á landslagi þarna, hafi það nokkru sinni verið, því yfirleitt á öllum sandinum er sjaldan svo kyrrt, að hægt sé að lenda þar.
Upp úr 1890 hafði frönsk fiskiskúta siglt upp á Hraunssand og orðið þar til. Það var í besta veðri, svo margir bátar úr Þórkötlustaðahverfinu voru á sjó. Eftir hádegi kom “fransari” siglandi á þær slóðir, sem bátarnir héldu sig helst á, og virtist vilja hafa tal af þeim, því hann sigldi að hverjum bátnum eftir annan, og þeir héldu það vera skipstjórann sem var með köll og bendingar, en enginn á bátunum skildi, hvað hann vildi. Eftir að hafa siglt þannig á milli bátanna nokkra stund tók hann stefnu beint upp á Hraunssand og þar í strand.

Festarfjall

Festarfjall – sjávarhellir.

Magnús Hafliðason bóndi á Hrauni segist muna það, að faðir sinn, Hafliði Magnússon, sem lengi bjó á Hrauni, hafi oft minnst þess franska skips eða siglingu þess, þennan dag. Hann hafði verið í landi um daginn, en bátarnir voru svo nærri landi, að fljótlega var tekið eftir því, þegar franska skipið fór að sigla á milli þeirra, hvers af öðrum. Það þótti strax eftirtektarvert, því venja var að þegar “fransari” sigldi að báti, sem oft hafði komið fyrir, þá var erindið að biðja þá fyrir bréf í póst, eða að hafa viðskipti.

Festarfjall

Lyngfell – forn setlög.

Sérstaklega höfðu þeir frönsku sóst eftir sjóvettlingum. Allt, sem þeir keyptu, var aðallega borgað í kexi. Einstaka sinnum var gefið í staupinu, svo karlarnir höfðu stundum komið góðglaðir í land, berhentir en með kex, og það þótti alltaf góð hlutabót. Þeir frönsku þurftu því að jafnaði ekki að sigla milli margra báta til að fá afgreiðslu. Þess vegna var farið að veita siglingunni athygli, þegar svo skipið tók stefnu til lands. Beið heimafólk á Hrauni þess með eftirvæntingu, hvað skipið ætlaðist fyrir. En þegar svo að siglingin hvarf fyrir hamranefið, sem lengst skagar fram sunnan við Hraunssand, þar sem Dunkshellir er, var séð hvert stefndi.
Hafliði fékk orð fyrir að vera léttur á sér og fljótur á fæti allt fram á elliár, en það hafði hann sagt, að aldrei muni hann hafa verið fljótari uppá Hraunssand en í þetta skipti. En þótt hann væri fljótur, var skipið strandað og landsjórinn búinn að setja það þversum í fjöruna. Öllu verðmæti hafði verið bjargað úr skipi þessu og það svo liðast sundur þarna í fjörunni.

Festisfjall

Festisfjall – Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, að störfum.

Magnús Hafliðason segir og, að Hraunssandur sé oft á mikilli hreyfingu, þannig að sjórinn hreinsi stundum allan sand af einum staðnum og flytji á annan, svo klappirnar verði berar, þar sem sandurinn hverfur. Í einu slíku umróti segir hann að gríðarstórt akkeri hafi sést í klöppunum, en sandurinn hafi hulið það svo fljótt aftur, en ekki hafi unnist tími til að ná því, svo að það týndist aftur. En akkeri þetta telur hann víst að sé af þessu franska skipi.”
Þessi leið, sem farin var, er ekki fyrir ókunnuga. Hún getur verið mjög varasöm, bæði vegna hruns úr berginu og ekki síður vegna óvæntra uppátækja Ægis. Hann á það til að rísa snögglega og óvænt upp og fyrir þá sem ekki þekkja kauða gæti það kostað ýmsar skrokkskjóður eða þaðan af verra.
Eftir gönguna var gengið fram á slökkviliðsstjórann í Grindavík á Klappartúninu með fornleifaskrá fyrir Þórkötlustaðahverfi undir höndum. Þegar að var gáð stóð þar á einum stað um dys Þórkötlu; „Á túninu austan við bæinn er hóll; Þórkötludys. Ekki er nákvæmlega vitað hvar hún er“. Einn göngumanna er jafnframt einn af eigendum Klappar svo þarna bar vel í veiði – Þórkatla gamla hvílir þá eftir allt saman í hól þar í túninu. En skráning þessi var þó tekin með fyrirvara, sjá FERLIR-826.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimildir m.a.:
-Guðsteinn Einarsson – “Frá Suðurnesjum – frásagnir frá liðinni tíð – Frá Valahnúk til Seljabótar”.
-www.reykjanesbaer.is/bokasafn

Hraunssandur

Klifrað niður á Hraunssand.

Festisfjall

Festirfjall (Festarfjall/Festisfjall) er skammt austan við Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála.

Festisfjall

Berggangur undir Festisfjalli.

Um er að ræða einstaklega „myndrænt“ fjall, eða fell öllu heldur ef taka á mið af öðrum nærliggjandi fellum. Það er þverhnípt að sunnanverðu, fram við Hrólfsvíkina, en aflíðandiað norðanverðu, inn til landsins. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin. Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag. Önnur saga segir að tröllkonan í Festisfjalli sé systir tröllkonunnar í Katlahrauni og hafi þær tíðum heimsótt hvora aðra. Heimilisaðstæðum sé þó ólíkt saman að jafna þar sem fyrirfast fjallið er annars vegar og Ketillinn hins vegar, með bergstöndum sínum og hellum.
GöngusvæðiðÓfáir eru sagðir hafa séð tröllsystur þessar, en þó hefur lifað sú saga á Ísólfsskála, sem þær hafa þurft að klofa yfir í heimsóknum sínum, að þaðan hafi útsýnið loftleiðis á stundum þótt kynlegt.
Festarfjall er í raun brimsorfin eldstöð þar sem um helmingur móbergsfjallsins er sorfin burt. Ef vel er að gáð á lágsævi má sjá hinglaga bergstanda utar í Hrólfsvíkinni. Þar mun gígur eldstöðvarinnar hafa verið fyrrum. Hafa ber í huga að þarna er um 11.000 ára gamla jarðmyndun að ræða, sem Ægir hefur herjað á jafn lengi með öllum látum. Mikið er um hnyðlinga í hrauninu ofanvert við bergið og einnig má sjá merki kvikublöndunar í berginu, bæði ofan við Ægissand og í fellinu sjálfu. Bæði í sunnanverðu Festisfjalli og í Lyngfelli má sjá bergganga kvikurásarinnar forðum daga steypta í hlíðar þeirra. Í berginu við Hraunsvík er nokkurt fuglalíf, t.d. lundi, rita og fýll, og á Hraunssandi mikið kríuvarp. Skjólgóð strönd er neðan Festarfjalls.
Festarfjall og nágrannafjöllin eru brimsorfin eldstöð. Í lágfjöru má sjá hringlaga gígstöplana í Hraunsvíkinni. Mikið er um hnyðlinga í hrauninu undir berginu og einnig má sjá merki kvikublöndunar í því. Í berginu við Hraunsvík er nokkurt fuglalíf, t.d. lundi, rita og fýll og á Hraunssandi er mikið kríuvarp.

Heimild m.a.:
-grindavik.is

Hraunsvík