Færslur

Gamli-Kirkjuvogur

“Ósar heitir sá vogur sá hinn mikli, sem hér gengur til austurs inn í landið.
Norðan megin við Ósana, gagnvart Kirkjuvogi, er kölluð preststorfa, því þar er presturinn vanur að fá flutning yfir að Kirkjuvog, þegar hann fer þá leiðina. Gamla-kaupstadagatan-221Litlu innar í Ósnum er einstakur hólmi dálítill, sem heitir Einbúi. Þar á eru rústir af sjómannabúðum, sem líklega hafa verið þar frá Vogi, sem síðar verður getið. Út í einbúa má nú ganga þurrum fótum um fjöruna. Skotbakki er þá næst kallaða þar inn með, og er hann upp undan Kirkjuvogsey, sem er grasi vaxin og eigi mjög lítil,framarlega í Ósunum. Annars kalla men, að ósarnir byrji ei utar en við sker þau, sem liggja norður undan Kirkjuvogstúni, austanverðu. Af hverju nafnið Skotbakki er dregið, gat ég ekki fengið neina sögu um. Þar er flutningur yfir um Ósa, þá ekki er fær hin leiðin vegna brims.

Þegar inn kemur með Ósunum, svo eigi er nema snertu korn að botnum þeirra, verður fyrir nes eitt lítið. Gengur sinn smávogur eða vík upp með því hvoru megin, og er hin eystri víkin nokkuð stærri en hin vestari. Upp undan nesi þessu hefir staðið bæ á hól einum, og eru þar húsarústir miklar. Þær eru nú fullar orðnar af sandi túnið allt upp blásið. Túnið hefur verið stórt mjög, og frá bænum, allskammt þaðan í landsuður, eru rústir, sem líklega eru kirkjurústir. Hefir kirkjan verðið hér um bil 5 faðma löng og 3 faðmar breið. Til kirkjugarðsins sést til og frá, en mjög óglöggt, svo ekki verður hann mældur. Kirkjugarðurinn er alveg upp blásinn; engin sjást þar mannabein og engir legsteinar. Niður á nesinu og með eystri voginum eru stórkostlegar rústir, líklega sjóbúðir, vergögn og þess háttar. Allar eru þær úr grjóti og mikið mannvirki á. Þar hafa verið 5 eða 6 varir ruddar út í hin eystra voginn.
Gamli-Kirkjuvogur-uppdrattur 2014Af rústunum fram á nesinu eru 3 mestar, allar hér um bil kringlóttar, en stutt bil á milli. Það hafa menn fyrir satt, að hér hafi einhvern tíma, ekki fyrir mörgum árum, sézt kjalfar í hellu við voginn, og ætti það vera vottur þess, hversu mjög hér hefði verð sóttur sjór. Nú eru Ósarnir og vogar þessi varla gengir íslenzkum skipum fyrir útgrynni og sandrifjum. Er ei ólíklegt, að frá bæ þessum hafi útræði verið haft í Einbúa, sem fyrr er getið. Vogurinn austan til við nesið heitir Vogur eða Djúpivogur, og bærinn hét í Vogi. Kirkjan hefir verið flutt þaðan að Kirkjuvogi, þar sem nú er hún, fyrir sunnan Ósana. Með kostnaði og fyrirhöfn mætti grafa upp bæinn í Vogi, og væri það máske gjöranda til þess að sjá byggingarlag og húsaskipun, sem þá hefir verið; því þetta hefir auðsjáanlega verið stórbær á sinni tíð. Á seinni tímum hafa sumir kallað rústir þessar Gamla-Kirkjuvog, og má vera, að nafnið Vogur hafi breyzt í Kirkjuvogur, áður en kirkjan var flutt þaðan.

Inn úr Ósunum ganga ýmsir smávogar: Seljavogur, Kýrvogur, Skollavogur og Brunnvogur, en Djúpavog kalla þeir nú nyrzta horn þeirra. Ekki vita menn neitt merkilegt um örnefni þessi.”

Heimild:
-Magnús Grímsson. Fornminjar um Reykjanessskaga. Landnám Ingólfs. Reykjavík 1935-36. Bls. 257-258.

Gamli-Kirkjuvogur

Gamli-Kirkjuvogur.

Básendar

“Skammt suður frá túninu á Stafnesi eru Básendar, þar sem kaupstaðurinn var.
Ganga þar inn í landi tveir vogar, eigi stórir, og neskorn fram á milli. Nes þetta hefir verið slétt og grasi vaxið, þó nú sé það mjög af sér gengið. Það snýr í basendar-221-loftmyndútsuður. Fremst á nesinu sér til rústanna af bænum á Básendum; eru þær eigi stórar mjög, en allglöggar. Vör hefir þar verið niður frá bænum út í hinn nyrðra voginn. Litlu ofar á nesinu er rústin af búðar- og vöruhúsinu. Það hefir snúið frá útnorðri í landsuður, hér um bil 11 faðma á lengd, en 7 faðma á breidd, eftir þeim undirstöðum, sem nú sjást. Að vestanverðu við hús þetta hefir verið hlífðargarður, stór og mikill, fyrir hafsjó. Nokkrum spöl ofar á nesinu hefir íveruhúsið verið. Rústir þess sjást og múrsteinabrot á millum, þó ei svo glöggar, að mældar verði, en garður hefir verið um það hér um bil 10 faðma á breidd, en 20 faðma á lengd. Allar þessar rústir sýnast að hafa verið vandaðar og sterklega gjörðar, mest allt hlaðið af hraungrjóti, enda eru hér góð tök í slíku. Undirstöður húsanna eru eins og garðarnir, hrundar mjög og skörðóttar.

Innsigling á Básendum hefir verið vandrötuð og eigi fær fyrir hafskip nema með vissum vindum, enda hafa þar verið mörg sundmerki og nákvæm, sem sum eru enn í manna minnum og sjást, en sum varla eða alls ekki.
Útsker eru eigi fá fyrir framan vogana, en gott, þegar inn kemur. basendar-hringur-221Kaupskipin áttu að hafa legið í syðra vognum. Voru þau jafnan bundin landfestum, svo að ei máttu snúast fyrir vindi; voru af hverju skipi 4 eða 5 festar; það kölluðu þeir svínbundið. Festar þessar sjást enn, og eru 5 á landskerjum eða landi, en 4 á útskerjum. Ég sá eina þeirra aðeins á nesinu, sem fyrr er getið. Er það járnsúla mikil, greypt niður í klöppina og blýi hleypt í kring; gat er á stólpanum og þar í hringur digur og víður. Járnstólpinn er ferskeyttur, á tvo vegu 12 en hina tvo 15 millimet.; hæð hans frá klöppinni var 32 millimeter, diameter hringsins 53½ millim., en yfir um hringinn var digurðin 23 millimeter. Öll þessi járn voru ryðbrunnin mjög. Festar þær, sem í útskerjum voru, gat ég ei skoðað, því enginn bátur var við hendina, enda sagði mér kunnugur maður, að þær væru með sama hætti og umbúningi allar 9. Að öðrum járnstólpa kom ég, og var hann eins og sá, sem þegar er lýst, nemar þar var hringurinn úr. Ég spurði manninn, því svo væri. Hann sagði, að sjómaður einn svarf hann úr með launung, en Stafnesbóndi komst þó að því um það leyti hann var ónýtur orðinn, hringurinn. Varð bóndi þá reiður, kvaðst ei vilja berja manninn, en á meðan hann lifði, mætti enginn hreifa neitt af menjum þessum. Það hefir ei heldur verið síðan.

basendar - ornefni

Yfir þær festar, sem á útskerjum eru, fellur sjór ætíð, og þar ryðbrenna járnin óðum. Við hinn síðarnefnda járnstólpann, sem ég sá, var á klöppina höggið ASS, en á skeri einu var mér sagt, að væru ótal slík fangamörk. Það er að austanverðu við syðri voginn, en þangað komst ég ei, því bát vantaði, en hásjávað var. Um fjöru kvað mega ganga út á það sker. Útskerin eru alltaf umflotin. Landnorðurhallt við nesið sér rúst af kálgarði, eigi alllitlum; þar var brunnur í, djúpur og góður.  Á botni hans segja menn, að verið hafi eikartré slegin í kross, og svo hver tunnan upp af annarri innan í til þess að eigi félli sandur í brunninn. Nú er það allt komið í sand, en sést þó, hvar brunnurinn var, af grjótþúst dálítilli í útsuðurhorni garðsins. Garðurinn liggur móti suður-útsuðri og er skammt frá Básendum. Upp undan syðra vogsbotninum og fyrir nesinu er grasi vaxin flöt, allfríð; það heitir Brennitorfa, því þar áttu kaupmenn að hafa haft brennur. Nokkru sunnar, upp á hrauninu er hóll hár, sem kallaður er Draughóll. Þar átti að hafa verið dys til forna, og rótuðu sjómenn henni alveg um. Þar fundur þeir lítið fémætt. Spölkorn suður þaðan í hrauninu og ekki rétt fram við sjó eru klettar tveir allháir og nokkurra faðma breitt sund á milli. Þá kalla menn Gálgakletta. Áttu Básendamenn að hafa lagt tré milli klettanna og hengt þar menn á, þegar þá greindi mjög á við einhverja. Er það í munnmælum, að beinum enna hengdu hafi verið kastað í gjótu undir annan klettinn og borið grjót fyrir að framan.”

Heimild:
-Magnús Grímsson: Fornminjar um Reykjanessskaga, bls. 255-257.

Básendar

Á Básendum.