Tag Archive for: Magnús Hafliðason

Selatangar

Jökull Jakobsson gengur hér með Magnúsi Hafliðasyni, Hrauni, um Seltanga, Hraun og Þórkötlustaðanes í Grindavík. Viðtalið var tekið 1973. Um er að ræða úrdrátt.
Magnús Hafliðason„Við erum nú á Selatöngum með Magnúsi Hafliðasyni frá Hrauni. Hér var útræði mikið í gamla daga. Nú sést ekki mikið eftir af því nema búðarrústir, haglega hlaðnar. Það er ákaflega eyðilegt þar sem við erum staddir, en þó fallegt. Við höfum ferðast langan veg um úfið og svart apalhraun og niður að ströndinni þar sem úthafsaldan lemur sandinn. Við erum staddir við Tangarsund.
Þú rerir nú ekki héðan sjálfur Magnús, en þú þekktir menn, sem reru héðan.“
„Ég þekkti aðallega hann Einar Einarsson. Hann var aðkomumaður úr Krýsuvíkurhverfinu. Vermennirnir voru víðs vegar frá en aðallega úr Krýsuvíkurhverfinu. Ég heyrði að hér hafi verið yfir 70 manns mest, þ.a. 26 Jónar og 16 Guðmundar. A.m.k. 14 eða 16 skip gengu héðan, sennilega mest áttæringar. Útgerð lagðist af eftir Básendaflóðið [1799]. Húsin hafa verið vel hlaðin. Menn bjuggu hér á vertíðinni, frá því í febrúar til 11. maí, vetrarvertíðin.
Sennilega hafa verið um 8 menn í hverju húsi og eldhús. Matur hefur mest verið fiskur og skrínukostur. Ekki var mikið skemmtanalíf í þá daga. Fólkið hefur þó ekki þótt leiðinlegt því það þekkti ekkert annað.
Alls staðar átti að vera reimt. Það sagði mér maður, þessi Einar, að vatnskútur hafi verið framan við dyrnar. Guðmundur hafi sofið nær dyrum með höfuð í átt að þeim. Hann rumskaði og snéri sér við. Í því hafi kúturinn tekist á loft og lenti akkúrat þar sem höfuðið hafði verið áður en hann snéri sér við. Hann sagði okkur þetta svona.

Nesið

Þetta var afskaplega meinlaus draugur, hafi það verið einhvör. Þetta átti að hafa verið unglingur sem illa var farið með og menn höfðu verið beðnir fyrir. Einhver maður, sem þóttist vera skyggn, átti að hafa séð hann, hlaðið byssu sína og skorið silfurhnappa af treyju sinni, miðað og skotið í átt að honum. Þá hafi hann séð eldglæringar niður alla heiði og þá á hann að hafa farið hingað.
Einar var formaður hérna, en ég var svo ungur þegar hann var hjá okkur og var að segja okkur þetta. Vermennirnir létu vel yfir sér hér, smíðuðu ausur og klifbera í frístundum sínum.
Misjafnt var hversu róðrar voru langir, fór eftir veðri. Fóru í rökkrinu og komu að landi í myrkri. Allir voru þeir á handfærum. Alltaf var seilað, ef einhver fiskur var. Beinnálar voru á endanum. Ef vel fiskaðist var farið að landi og síðan róið út aftur, kannski einn maður skilinn eftir og hann bar fiskinn á bakinu upp. Fiskurinn var hertur á þessum görðum, sneri upp á morgnana og hvolft á kvöldin. Þeir dysjuðu hann í óþurrkatíð og sneru honum síðan upp þegar þornaði í veðri.
Stundum var seilaBryggjanð útá í vondum veðrum meðan andæft var og síðan sætt lagi til að lenda. Þá var skipið dregið upp á augabragði. Það var ekkert erfitt að seila.
Hér var aldrei saltað, bara hert og allt flutt á hestum. Ég tel ekki ráð að þeir hafi borið fiskinn, ekki að ráði. Vermenn komu allstaðar frá gangandi. Ég man eftir lestarmönnunum þegar þeir komu að sækja hausana í kringum jónsmessuna. Það var aðallega farið að salta þegar ég man eftir. Menn fengu sitt kaup, en það var lítið.“
„Nú erum við komnir heim til Magnúsar Hafliðasonar, heim að Hrauni. Okkur verður starsýnt á myndirnar á veggjunum í stofunni. Á einni myndinni er Magnús og einhverjir fleiri.“
Hraun í Grindavík„Þessi mynd er tekin eftir björgunina á Cap Fagnet. 38 mönnum var bjargað. Ég vaknaði um morgunin um kl. 03:00 við feiknarmikið píp. [Siggi Nonni (Sigurður Gíslason, f: 1923) á Hrauni sagði FERLIR að hann hefði vaknað um nóttina, heyrt flaut og vakið föður sinn, sem hafi barið í þilið hjá Magnúsi. Við það hafi Magnús vaknað og litið út um gluggann.]Þá hafði strandað togari hér úti. Það var látið vita. Þá var komið með björgunartækin og mönnum bjargað með línu. Þetta var í fyrsta skipti sem skotið var af línubyssu á Íslandi. Fyrir það fengum við medalíur.
Þegar bjargað var í Vondufjöru enskur togari fengum við líka medalíur. Þá var aftakabrim. Ég hringdi úti á stöð. Þá var slydduél. Svo fór ég upp eftir og það var ekki neinum blöðum að fletta að þetta var strand. Menn komu í einum hvelli. Allir björguðust nema skipstjórinn, hann drukknaði. [Togarinn Lois, 6. janúar 1947].
Dóttir mín fór út í fjós um kvöldið. Hún kom aftur inn með óvarlega miklu fasi þótt hún væri að jöfnu hæglát. Hún sagðist ekki skilja í ljósi úti á sjó. Ég fór út og sá strax hvers kyns var. Þetta var strand. Ég fór uppeftir með ljós og þá skutu þeir smáragettum í land. Glamrið í skipinu þegar sjórinn var að færa það til á klöppunum, það var mikið. Þegar ég kom heim á tún aftur drapst á ljósavélinni. Ég veit ekki hvað hefði gerst ef dóttir mín hefði ekki séð ljósið akkúrat þarna.
CapÉg fór fyrst á sjó á sjötta ári. Þá fór pabbi með okkur bræður stutt út. Ég réri alltaf með færi á sumrin þegar róið var. Nú er ég 81 árs og reyni að róa enn. Áraskipin voru tíróin fyrst og síðan áttróin, stundum sexróin. Á Hrauni var um 60 manns, margt sveitarmenn úr öllum sveitum. Þá var gaman að lifa. Nú er af sem áður var.
Eftirminnilegur maður að norðan, Jón Bergmann, var hérna. Hann var lögregluþjónn í Hafnarfirði um tíma. Hann var vel hagmæltur. Haldið var uppi glímum í landlegum. Jón lagði þá alla.
Ég man ekki eftir að hér hafi verið sukksamt. Fólkið bjó í búðum, sjóbúðum svona. Vonda veðrið var 1916. Búið var að róa lengi í blíðuveðri. Svo kom þetta veður, eins og skot. Ekki var um annað að gera en grípa árarnar. Þetta var þegar Ester bjargaði fjórum skipshöfnum. Margir misstu skip. Þetta var voðaveður. Enginn maður fórst.
Haldið var út smávegis búskap samhliða útvegi. Svo komu opnu trillurnar, en mér fannst mest gaman af áraskipunum. Það voru góð skip. En það var öðruvísi að geta látið vélarnar koma sér í land. Og verkaskiptingin var önnur. Félagsskapurinn á áraskipunu var betri og allt miklu skemmilegra. Fiskverðið var svo lágt að ekkert hafðist upp í kostnað, á áraskipunum og trillunum lengi framan af.
Fyrir okkur krakkana var ekkert fyrir okkur að gera. Börnin hjálpuðu til við að snúa heyinu. Ég gekk einn vetur að nafninu til í skóla, 29 börn voru í skólanum og einn kennari. Það var úti í Járngerðarstaðahverfi. Svo gengum við til prestsins úti í Staðarhverfi. Ég lærði nú lítið í skóla, heldur smátt. Kennarinn hét Erlendur.
Á jólunum var lítið um að vera, það var kerti og unglingunum þótti gaman að spila þá. Fólk kom hvað til annars og krakkar ólust allir upp á heimilunum. Pabbi og Sæmundur Tómasson á HrauniðJárngerðarstöðum skiptust á heimsóknum um hátíðarnar sitthvort árið. Mikill kunningjaskapur var þarna á millum.“
„Þá erum við komnir út á Þórkötlustaðarnes. Hér hefur líka verið útræði eins og á Selatöngum. Og hér hefur verið bryggja og hér standa tóftir íbúðarhúsa og sitthvað fleira.“
„Hér reri ég alla mína tíð á vertíð. Þá var engin bryggja, bara lendingin þarna. Fiskurinn var borinn upp á þessa velli, hvör upp að sínum skúr og allur fiskur saltaður. Allir höfðu salthús hér.
Seinna kom hér bryggja og vélarnar komu í bátana. Þá var alltaf lent hér og allur fiskur saltaður. Hér í Þórkötlustaðahverfinu var fleira fólk, 6 eða 7 bátar, aðallega áttæringar og teinæringar. Allt gekk ágætlega. Þegar mótorbátarnir komu var ekki tiltækt að vera með bátana hér. Þeir voru fluttir út í Járngerðarstaðahverfi.
Ég var ekki formaður lengi. Pabbi var hér formaður og mikill fiskimaður, Benóný Benónýsson á Þórkötlustöðum, Hjálmar Guðmundsson sem síðar fluttist af Ísólfsskála, Jón Þórarinsson frá Einlandi, Guðmundur Benónýsson, einn af þeim yngri, og Kristinn Jónsson á Brekku og Árni Guðmundsson í Teigi tóku við af þeim eldri. Þetta voru feiknamiklir sjósóknarar og duglegir menn, stórir og hver með sínu móti, allt almennileika menn. Þeir ólust allir uppi við þessa harðneskju. Það þætti víst skrýtið núna, aðbúnaðurinn sem þá var.
Við beittum línuna austur á hrauni og urðum að bera bjóðin út á Nes á morgnana. Það var beitt hrognum og þau þoldu lítið frostið. Þau rifnuðu þá af krókunum þegar farið var að leggja. Þetta gengum við suðureftir á morgnana og heim á kvöldin.

Aldan

Byggðin lagðist af hér þegar mótorar komust í bátana. Þá fluttist útgerðin út í hverfi. Hér var allt fyrir opnu hafi. Allir vildu heldur vera á góðu bátunum.
Hann var voðalaga leiður hérna í vörinni [neðan við Hraun] ef var norðanrok og hátt í, ef var kvika, stóð upp á. Utan við nesið var Einlandssund, sem kallað var.
Ég man aldrei eftir að hafa verið hræddur á sjónum. Oft hefur kvenfólkið heima verið hræddara en þeir sem á sjónum voru. Það kom aldrei neitt fyrir hérna, nema í eitt skiptið. Þá fórust þrír menn í góðu veðri. Báturinn var lítill og þeir voru fimm á. Það sló í baksegl og bátinn hvolfdi, þrír drukknuðu. Það þótti mikið að missa þrjá bændur héðan.
Ekki verður lengur ýtt bát úr vör héðan.“

Heimild:
-Jökull Jakobsson gengur með Magnúsi Hafliðasyni, Hrauni, um Seltanga og Þórkötlustaðanes í Grindavík frá 1973.

Hans Hedtoft

Magnús Hafliðason á Hrauni með björgunarhring Hans Hedtoft.

Selatangar

„Við vorum á leið suður á Reykjanesskaga, ætluðum að koma við hjá Magnúsi Hafliðasyni á Hrauni, þeirri kempu. Ferðinni var heitið að Selatöngum, þar sem gamlar búðatóttir standa enn og vitna um lífsbaráttu fólks með seltu í blóði. Nú hafa þeir safnazt til feðra sinna, sem fundu kröftum sínum viðnám í Tangasundi.

Magnús Hafliðason

Magnús Hafliðason.

„Þarna er Þorbjörn,“ sagði Eyjólfur, „fjall þeirra Grindvíkinga.“
„Þá er nú Esja tilkomumeiri,“ sagði ég.
„Ég reri eina vertíð í Grindavík,“ hélt Eyjólfur áfram, „þú varst þar líka, Jóhannes.“
„Já, ég reri þaðan eina vertíð. Það gekk ágætlega. Eg reri frá Nesi – það hefur verið 1927. Við höfðum útræði um Járngerðarstaðastund. Það gat verið varasamt á opnum árabátum.“
„Hvenær rerir þú frá Grindavík, Eyjólfur?“
„Ég man það nú ekki, jú, það hefur líklega verið 1904. Eg reri úr Þórkötlustaðahverfinu.“
„Það var aldrei stórbrim þessa vertíð,“ sagði Jóhannes.
„Ekki man ég heldur eftir því,“ sagði Eyjólfur.
„Eyjólfur sagði: „Eg þekkti vel Gísla, bróður Magnúsar á Hrauni, og Margréti konu hans Jónsdóttur frá Einlandi. Þetta var ágætisfólk. Ég var heimilisvinur á Einlandi. Við strákarnir vorum allir skotnir í Möggu.“
„Þau eru bæði dáin,“ sagði Jóhannes.
„Já, þau Gísli eru bæði farin,“ sagði Eyjólfur og bætti við: „Hún var glæsileg stúlka. Ég hélt að Margrímur Gíslason ætlaði að ná í hana. Hann varð seinna lögregluþjónn í Reykjavík, mesti myndarmaður. Þá datt engum í hug að keppa við hann. En hún giftist Gísla.“
Jóhannes sagði: „Þeir bjuggu báðir á Hrauni, bræðurnir Gísli og Magnús. Hafliði, faðir þeirra, var lengi formaður.“
selatangar-224„Hann var eftirminnilegur karl,“ sagði Eyjólfur. „Eitt sinn þegar gefin voru saman hjón, bæði ósköp lítil fyrir mann að sjá, var Hafliði svaramaður. Þegar prestur snýr sér að konunni og spyr, hvort hún vilji manninn, svarar hún ekki. Þá er sagt að Hafliði hafi hnippt í hana og sagt: „Segðu já – segðu já – segðu bara já.“
Og hún álpaðist til að segja já.“
„Ætli þetta hafi verið Hákon í Bakka,“ sagði Jóhannes. „Það var kot í túnjaðrinum á Hrauni. Ég held að rústirnar standi ennþá. Hákon reri hjá Hafliða og síðan hjá Magnúsi. Eg held þeir hafi naumast róið nema Hákon væri með.“
Við vorum komnir að Hrauni. Ég snaraðist út úr bílnum, gekk upp tröppurnar og bankaði. Magnús kom til dyra. Hann var ekki eins hress og oft áður. Þegar ég hafði hitt hann, var hann alltaf nýr eins og Passíusálmarnir.
„Nú erum við komnir,“ sagði ég.
„Komnir, hverjir?“
„Eg er með tvo gamla sjómenn úr Grindavík, Eyjólf Eyfells og Jóhannes Kolbeinsson.“
„Jæja,“ sagði Magnús.
„Við erum að fara að Selatöngum. Þú ferð með.“
„Það efast ég um. Það er víst einhver illska hlaupin í mig. Læknirinn segir að það sé eitthvað í öðru nýranu.“
selatangar-226„Nú, finnurðu til,“ spurði ég.
„Onei, ég hef aldrei fundið til.“
„Þetta eru skemmtilegir karlar,“ sagði ég.
„Ha, já er það,“ sagði Magnús og klóraði sér á hvirflinum. Svo strauk hann yfirskeggið og fór í gúmmískóna. Eyjólfur kom í gættina. Þeir heilsuðust. Magnús virti hann fyrir sér. Þeir tóku tal saman. Það var selta í Eyjólfi, hann var ekkert blávatn. Það hefur Magnús fundið. Einu sinni munaði mjóu að Eyjólfur drukknaði í Loftsstaðasundi.
Karlarnir gengu út í bílinn. Ég á eftir. Svo héldum við af stað.
„Eg var hrifinn af Margréti mágkonu þinni á Einlandi, þegar ég var á vertíð hér strákur,“ sagði Eyjólfur.
„Hún hefur verið ung þá,“ sagði Magnús.
„Já, um fermingu,“ sagði Eyjólfur.
„Og varstu skotinn í henni strax,“ sagði Magnús og hló.
Við ókum sem leið lá að Selatöngum.
„Ég sé ekki betur en þú sért sæmilegur til heilsunnar, Magnús,“ sagði ég. Því að nú kjaftaði á honum hver tuska, ekki síður en okkur hinum.
„Ég er alveg stálhraustur,“ fullvissaði hann okkur og sjálfan sig, „mér hefur aldrei orðið misdægurt. En ég á að fara í rannsókn til Snorra Hallgrímssonar. Það er gott að eiga góða menn að. Við hófum farið í rjúpu saman.“
selatangar-226„Þú varst oft á sjó með Hákoni á Bakka,“ sagði ég.
„Ojá,“ sagði Magnús. „En af hverju dettur þér hann í hug?“
„Þeir muna eftir því, þegar hann var giftur.“
„Ha? Hann giftist aldrei.“
„Hvað segirðu?“
Og nú sperrtu Jóhannes og Eyjólfur eyrun.
„Nei, hann bjó með konu, en þau voru aldrei gefin saman í hjónaband.“ Eyjólfur segir honum nú söguna um giftingu litlu hjónanna. Magnús slær á lær sér: „En þetta er ekki rétt. Það voru gift þarna hjón, en þau sögðu bæði nei.“
„Ha?“
„Eg sagði að þau hefðu bæði sagt nei.“
„Nú, og hver voru þau,“ spurði Eyjólfur.
„Það voru Einar Árnason póstur og Katrín Þorkelsdóttir.“
„Var sú gifting ekki ólögleg?“
„Nei, nei. Þetta var látið duga í þá daga. Menn voru ekki að gera veður út af öllum hlutum. Það þótti skrítið. En Hákon bjó með konu sem hét Guðmunda Gísladóttir, þau komust vel af.“
Fagradalsfjall blasti við okkur. Þangað höfðum við Magnús eitt sinn farið, gengið upp á fjallið, litazt um eins og landnámsmenn. Eg benti í áttina þangað.
„Það dregur undir sig,“ sagði Magnús. „Þetta er lengri leið en maður heldur.“
selatangar-228Mig rak minni til þess.
„Einar póstur og Katrín, voru þau lítil,“ spurði Eyjólfur hugsi.
„Já,“ sagði Magnús.
„En Hákon og Guðmunda?“
„Guðmunda var há kona og snör. Hún var köttur þrifinn, og prýðilega útlítandi baðstofan, þó hún væri lítil. En þau Einar bjuggu í moldarkofa.“
„Það hefur þá ekki verið Hákon,“ sagði Eyjólfur. „Það hafa verið Einar og Katrín.“
„Það hafa verið þau,“ sagði Magnús.
„Er Einland uppistandandi?“ spurði Eyjólfur.
„Já, þekkirðu ekki Ísleif Jónsson, verkfræðing í Reykjavík?“
„Við erum skyldir,“ sagði Eyjólfur.
„Jæja,“ sagði Magnús og virti Eyjólf fyrir sér. „Nú sé ég, að það er sami bjarti svipurinn. Hann er að skinna Einlandið upp,“ bætti hann við.
„Já, einmitt,“ sagði Eyjólfur.
Við ókum fram hjá Ísólfsskála, Selatangar eru skammt þar fyrir austan.
Á leiðinni töluðu þeir um sitthvað. Og það var engu líkara en maður væri kominn hálfa öld aftur í tímann. Þeir töluðu um karl einn sem „þótti gott að smakka það“, um fólk, sem „hafði orðið bráðkvatt“.
selatangar-229Og margt fleira skröfuðu þeir, sem ómögulegt var fyrir ókunnugan að henda reiður á. Magnús minntist á konu, sem hafði átt hálfsystur, „og hún varð sama sem bráðkvödd líka.“ Og síðan barst talið að Jóni heitnum á Einlandi, föður Margrétar, og hann varð einnig bráðkvaddur.
„Hann var dugandi sjósóknari,“ sagði Magnús, ,,-áður en hann varð bráðkvaddur.“
„Já og myndarmaður,“ sagði Eyjólfur.
„Og aðsækinn við sjó,“ bætti Magnús við. „En viljið þið ekki sjá leiðið hans Ögmundar, sem hraunið er kennt við. Það stendur norðan við veginn.“
„Förum fyrst niður að Selatöngum.“
„Heyrðu Eyjólfur, lenturðu nokkurn tíma í Stokkseyrardraugnum,“ spurði Magnús.
„Nei, ég var svo ungur. Þegar við strákarnir heyrðum fyrst af honum, treystum við á, að hann kæmist ekki yfir mýrarnar, því að þær voru á ís og flughálar.“
„Hvað ætli þetta hafi verið?“ spurði Magnús.
„Þetta voru engir aumingjar, sem urðu fyrir barðinu á draugnum,“ skaut Jóhannes inn í samtalið. „Fólk var með margvíslegar skýringar,“ sagði Eyjólfur. „Sumir töluðu um kolsýrueitrun í andrúmsloftinu, en það veit enginn.“ „Það flýðu allir úr einni verbúðinni,“ sagði Jóhannes, um leið og bíllinn stöðvaðist við Selatanga.
selatangar-230Við lituðumst um. „Hvar er Magnús?“
„Hann skrapp niður á kampinn að tala við veiðibjölluna,“ sagði Jóhannes.
„Þeir þekkjast, mávurinn og Magnús. Hann er búinn að skjóta þá svo marga um dagana.“
„Honum er ekki fisjað saman,“ sagði Eyjólfur. „Hann er líkur föður sínum, kempukarl.“
Við skoðuðum tóttirnar af verbúðunum og fiskhjöllunum. Í fyrravor var jörðin algræn, þar sem fiskurinn hafði legið við byrgin.
Tólf til fimmtán menn hafa verið við hvern bát, hafði ég lesið mér til. Bragur er til um alla útróðrarmenn, sem eitt sinn voru á Selatöngum, og eru þeir taldir með nafni og hafa þá verið yfir 60. Tóttirnar eru litlar og ég gizkaði á, að þrír til fjórir hefðu verið í hverri verbúð. Þeir sögðu það hefðu minnsta kosti verið sjö, ef ekki fleiri. Af tóttarbrotunum að dæma er hver búð um fimm metrar að lengd og tveir á breidd. Sumar búðirnar hafa jafnvel verið minni. Kannski þeir hafi haft verbúðirnar svona litlar til að halda á sér hita, datt mér í hug. Þarna sáum við einnig hellisskúta. Jóhannes sagði að hellarnir væru reyndar tveir, og hefði annar verið kallaður Sögunarkór, þar sem var smíðað, en hinn Mölunarkór, þar var malað korn.
selatangar-231Selatangar eru skarð eða afdrep í Ögmundarhrauni. Þar fundu Krýsuvíkurmenn hentugt athafnasvæði eftir hraunflóðið mikla.
Dákon var hraunstandur uppi í kampinum á Selatöngum. Í honum voru landamerki milli Ísólfsskála og Krýsuvíkur. Næst austan við Dákon er Vestrihlein, en þá Eystrihlein. Sundið hefur líklega verið vestan undir Eystrihlein og uppsátrið þar beint upp af. Þar upp með hleininni voru bátarnir settir undan sjó. Vegalengdin frá Krýsuvík á Selatanga er um 6-7 km, og um þriðjungur þess vegar apalhraun, svo það hefur ekki verið skipsganga, sem kallað var, að fara þá leið kvölds og morgna. Þess vegna hafa verbúðirnar verið reistar þar. Og enn tala þær sínu máli.
Magnús var kominn í leitirnar. Við horfðum yfir kampinn og sundið. Ólög riðu yfir hleinarnar, en ekki á sundið. Það var hreint.
„Þeir þekktu sjóina, karlarnir,“ sagði Magnús.
„Ungt fólk nú á dögum mundi líklega deyja af einni saman tilhugsuninni að eiga að sofa í svona hreysum,“ sagði ég og virti fyrir mér tóttarbrotin.
„Manneskjan gerir það, sem hún verður að gera,“ sögðu þeir.
„Verbúðirnar hafa verið vindþéttar,“ sagði Eyjólfur.
Ég hryllti mig ósjálfrátt í herðunum. „Þeir hafa sótt í þetta hey og mosa,“ sagði Magnús.
selatangar-234Svo benti hann út á sundið. „Þeir hafa lent eitthvað eftir áttum,“ sagði hann. „Í útsynningi hafa þeir lent vestar, en austar í landnyrðingnum. Það er ekki mikil lá við hleinina núna. Þeir hefðu lent í svona sjó. Þarna er eystri hleinin og þarna sú vestri. Þeir lentu á milli hleinanna, í Tangasundi. Og nú er Dákon horfinn.“
„Það er talsvert brim núna,“ sagði ég. „Þú segir að þeir hefðu lent í þessu.“
„Ætli ekki það, þetta er svaði,“ sagði Magnús. „Þeir kunnu svo sem að bíða eftir lagi. En hafið þið ekki heyrt að hér átti að vera draugur,“ og hann sneri sér að Eyjólfi.
„Jú,“ sögðu þeir.
„Hann var kallaður Tanga-Tómas,“ sagði Magnús.
„Hefurðu séð hann Eyjólfur?“ spurði ég.
„Nei,“ sagði Eyjólfur, „séð hann – nei, nei.“
„Þú ættir að spyrja hann Þórarin Einarsson um hann,“ sagði Magnús. „Hann býr í Höfða á Vatnsleysuströnd. Hann er sonur seinasta formannsins hér á Seljatöngum. Þórarinn er faðir Þorvalds Þórarinssonar, lögfræðings í Reykjavík, svo hann á ekki langt að sækja það, að vera þéttur fyrir!

selatangar-236

Einar, faðir Þórarins, var óbágur að segja frá Tanga-Tómasi. Einu sinni var Einar að smíða ausur úr rótarkylfum hjá okkur á Hrauni, þá sagði hann okkur þessa sögu: Guðmundur, bróðir hans, svaf fyrir framan hann og lá með höfuðið útaf koddanum, en sneri sér við í svefnrofunum, og færðist upp á koddann, en í sömu andránni kom vatnskúturinn, sem þeir höfðu með sér á sjóinn en geymdur var í verbúðinni, af alefli þar sem Guðmundur hafði legið með höfuðið. Þetta bjargaði auðvitað lífi hans.“
„Það var gott að draugurinn drap ekki Guðmund,“ sagði Jóhannes. „Hann átti eftir að eignast 18 börn.“
„Nei, það var ekki hann, þú átt við Guðmund í Nýja Bæ,“ sagði Magnús.
„Já,“ sagði Jóhannes, og áttaði sig. „Guðmundur í Nýja Bæ var Jónsson, hann reri 1917 úr Húshólma, en þeir urðu að lenda hér á Töngunum.“
„Guðmundur í Nýja Bæ var skírleikskarl,“ sagði Magnús, „það var gaman að vera með honum einum. En þegar fleiri voru, varð hann öfgafullur. Lífsbaráttan varð honum þung í skauti, hann varð að treysta á útigang. Tvö barna hans dóu í vetur.“
Við vorum komnir upp á þjóðveginn aftur, og ætluðum sem snöggvast að skreppa að gröf Ögmundar. Á leiðinni þangað segir Magnús allt í einu: „Þessi klettur þarna í hrauninu heitir Latur.“
„Hvers vegna,“ spurði ég.
„Það gekk erfiðlega að miða hann – hann gekk illa fyrir, eins og sagt var. Hann bar lengi í sama stað.“
Og nú blasti við Ögmundarhraun milli Latsfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells og fyllir hálfan dalinn. Niður við sjó stóð bærinn Krýsuvík, en uppi í dalnum Vigdísarvellir, fjallajörð í hvammi með hlíðinni norðvestan við Mælifell. Þar sjást tóttir.
„Ég man vel eftir byggð þar,“ sagði Magnús. „Gömul sögn segir, að smali hafi, þegar hraunið brann, bjargazt upp í Óbrennishólma, sunnarlega í hrauninu, vestan við Húshólma.“
Jóhannes sagði að þjóðsagan um Ögmund væri á þá leið, að hann hafi átt að vinna sér það til kvonfangs að ryðja veg yfir hraunið, en var drepinn að verki loknu. Aðstandendur konunnar treystu sér víst ekki til að vinna á honum fyrr en hann var orðinn örmagna af þreytu. Þá hertu þeir upp hugann og drápu hann. „Ögmundur sofnaði við hraunbrún, þar sem leiðið er og þar drápu þeir hann,“ bætti Magnús um frásögn Jóhannesar. „Nú er hrunið úr leiðinu. Þeir ættu að varðveita það betur. Ég er að vísu ekki fylgjandi því að raska ró þeirra dauðu, en það mætti vel ganga betur um leiðið.“
Ég ætlaði eitthvað að fara að minnast frekar á Ögmund, en þeir fóru þá að tala um sjómennsku í gamla daga og ég komst ekki upp með moðreyk. Það var eins og bíllinn breyttist skyndilega í gamlar verbúðir. Það er munur að róa nú eða áður, sögðu þeir.
ogmundardys-231„Þá var alltaf andæft á árunum,“ sagði Magnús til að uppfræða mig.
„Þá var línan tvö til þrjú pund og geysisterk og vont að draga hana. Einhverjum hefði minnsta kosti þótt það sárt í dag. Sumir fengu blöðrur.
„Betur á bak og báðum áfram“ var sagt þegar austanátt var og vesturfall, og þegar línan festist sló alltaf á bakborðið. Það þurfti alltaf manni meira á bakborða í andófi. Þess vegna var sagt, Betur á bak, þá þurfti að nota árarnar til að róa að línunni.“ Og svona héldu þeir áfram að tala saman um löngu liðna daga. Ögmundur var gleymdur. Eg var að hugsa um að koma við hjá Þórarni gamla í Höfða.
Eyjólfur hafði, okkur öllum á óvart, komið með flösku af líkjör.
Hann var farinn að hvessa, eða setja í, eins og karlarnir hefðu sagt. Eg sá verbúðirnar gömlu fyrir mér, og skinnklædda karlana. Eg hugsaði um það sem Magnús hafði sagt: „Það er ekki mikil lá við hleinina; það heitir öðru nafni: sogadráttur og þar er lending stórháskaleg. Eg mundi vel eftir lýsingum Magnúsar Þórarinssonar, sem oft kom niður á Morgunblað, á meðan hann var og hét. Hann var einbeittur og ákveðinn, með auga á hverjum fingri. Hann var fyrsti mótorbátsformaður í Sandgerði. Það var eins og sjór og reynsla hefðu lagzt á eitt um að tálga persónu hans inn að hörðum kjarnanum.
Magnús tók saman bók, sem heitir „Frá Suðurnesjum“. Merkisrit. Þar segir, að ef skip tók niður að framan, þegar mikil lá var, stóð það strax svo fast, að ómögulegt var að ýta því út aftur, svo þungu. Sogaði þá óðara undan, svo að skipið varð á þurru og lagðist á hliðina. Næsta aðsog fyllti þá skipið, og allt var í voða. Það varð því sífellt að halda þeim á floti og ýta frá fyrir hvert útsog, en halda í kollubandið. Næsta ólag kom svo með skipið aftur, en þrekmennin settu axlirnar við, svo að ekki tæki niður; stóðu þeir oft í þessum stympingum, þó að sjór væri undir hendur eða í axlir, en klofbundnir voru þeir oftast, er þetta starf höfðu.
Þetta hugsaði ég um og myndin skýrðist í huga mínum. Eg sá karlana standa í kampinum á Selatöngum í brók og skinnstakk, hvorttveggja heima saumað úr íslenzkum skinnum. Brókin upp á síður, en stakkurinn niður á læri. Mátti vel svalka í sjó þannig búinn án þess að verða brókarfullur, eins og kallað var ef ofan í brókina rann. Stundum kom fyrir að láin var svo mikil að ólendandi var á venjulegan hátt. Þá var fiskurinn seilaður úti á lóninu, seilarnar bundnar saman og færi hnýtt við, en einum manni falið að gefa út færið og annast seilarnar að óllu leyti.

Dagon-231

Og svo var beðið eftir lagi til að lenda skipinu tómu, tóku þá allir til ára eftir skipun formanns, á þriðju stóröldunni, sem var jafnan hin síðasta í ólaginu, eftir hana kom dálítið hlé á í stórbrotum; var það kallað lag. Þá var róið með fullum krafti, árar lagðar inn í skipið í fljótheitum. Þegar krakaði niður, hlupu allir útbyrðis og brýndu skipinu upp úr sjó, áður en næsta ólag kæmi.
Stundum komu aðrir, sem tækifæri höfðu og hjálpuðu til. Þannig stóðu Selatangar mér fyrir sjónum. Hver myndin tók við af annarri, reis og hneig í huga mínum eins og úthafsaldan við ströndina.
„Ég var oftast aðeins með eitt skinn,“ sagði Magnús upp úr þurru.
„Jæja,“ sagði Eyjólfur.
„Ég var oft holdvotur,“ sagði Magnús.
„Það vorum við aldrei fyrir austan,“sagði Eyjólfur.
„Ojú, maður var oft þvalur, þetta var helvítis vosbúð,“ sagði Magnús. Aftur hljóp í mig hrollur.
Ég var farinn að hlakka til að koma heim og leggjast eins og hundur við sjónvarpið.
selatangar-240Við höfðum ekið fram hjá Ísólfsskála á heimleið. Körlunum hafði ekki orðið orðs vant. Nú töluðu þeir um Guðmund á Háeyri.
Magnús sagði: „„Rólegir drengir, ekki liggur mér á,“ sagði hann þegar var að verða ófært, hann vissi hvað það gilti.“
Eyjólfur sagði: „Guðmundur var kominn að Eyrarbakkasundi og búið að flagga frá, talið ófært. Þá sagði hann: „Við skulum stöðva snöggvast hér rétt utan við sundið,“ og stendur upp og horfir þegjandi fram á brimgarðinn og segir svo enn: „Nei, sko andskotans brimið“ – og rétt í sömu svifum: „Takið brimróður inn,“ og þeir höfðu lífið. Hann umgekkst ólögin eins og leikföng. En þau voru það ekki fyrir óvana,“ bætti Eyjólfur við og vissi af eigin reynslu, hvað hann söng.
Magnús sagði að Guðmundur hefði stundum hikað við að fara inn af ótta við að önnur skip kæmu kannski á eftir og mundu ekki hafa það. Þá segir Eyjólfur: „Jón Sturlaugsson á Stokkseyri hikaði stundum líka, vegna þess að hann bjóst við að aðrir mundu fylgja sér eftir. Hann var einnig afbragðs sjómaður. Og honum var ekki heldur fisjað saman, honum Hafiiða föður þínum. „0, þetta er bara þurraslydda, þurraslydda,
sagði hann…
selatangar-241„Þetta hefur þú heyrt,“ sagði Magnús og glaðnaði við.
Svona göntuðust karlarnir, meðan myrkrið datt á. Þeir töluðu um Berg í Kálfhaga og söðgu, að Guðmundur á Háeyri hefði haft hann handa körlunum sínum til að grínast með. Einhvern tíma segir Bergur, „það er óhætt upp á lífið að róa hjá Guðmundi á Háeyri, en aðköllin ósköpin.“ „Róðu nú Bergur, róðu nú Bergur, og róðu nú helvítið þitt Bergur,“ sagði Guðmundur víst eitt sinn í róðri.
Og í annað skipti bar það til tíðinda, eins og oft var, að bóndi ofan úr sveit fékk að róa hjá Guðmundi tfl að fá í soðið fyrir heimfli sitt. Þegar þeir höfðu ýtt á flot var venja að taka ofan sjóhattinn og lesa sjóferðabæn. Bóndinn hafði bundið á sig hattinn og átti erfitt með að ná honum af sér. Þá kallar Guðmundur formaður og segir: „Ég held þú getir lesið Andrarímur eða einhvern andskotann, þó þú sért með helvítis kúfinn á hausnum.“
Og nú blasir við Hraun. Þarna á ströndinni hafa orðið skipstapar. Magnús hefur áður sagt mér af þeim: Franska togararnum Cap Fagnet, sem strandaði sunnan undir Skarfatöngum aðfaranótt 24. marz 1931, og St. Louis, enskum togara, sem strandaði senmma í janúar 1940 í Vondu fjöru. Öll skipshöfnin var dregin í land í björgunarstól, nema skipstjórinn. Hann kom ekki út úr brúnni nærri strax. Björgunarmenn biðu eftir honum í allt að 10 mínútur áður en hann sást á brúarvængnum. Hann fetaði sig niður á dekkið og fram að vantinum. En þegar hann var kominn að björgunarstólnum, féll hann allt í einu aftur yfir sig og ofan í ólgandi brimlöðrið. Þar varð hann til.
Magús á Hrauni hefur margt séð og margt lifað. Hann hefur marga fjöruna sopið.“

Heimild:
-Morgunblaðið 3. janúar 2000, Matthías Johannessen bls. 95-98.

Selatangar

Sjóbúð og byrgi á Selatöngum.

Hraun

Magnús Hafliðason, útvegsbóndi frá Hrauni í Grindavík, lézt 17. desember 1983, 92 ára að aldri.
Magnús var fæddur á Hrauni 21. nóvember 1891. Hann var sonur hjónanna Sigríðar Jónsdóttur og Magnus HaflidasonHafliða Magnússonar og ólst upp í stórum systkinahópi, aðallega við sjósókn. Fyrri kona hans var Katrín Gísladóttir frá Urriðafossi í Flóa og eignuðust þau fjögur börn, þrjár dætur og einn son. Soninn misstu þau er hann var um tvítugt, en dætur þeirra eru enn á lífi. Árið 1948 giftist hann öðru sinni, Önnu Þórdísi Guðmundsdóttir frá Kálfárvöllum í Staðarsveit á Snæfellsnesi, eftir að hafa misst fyrri konu sína. Magnúsi og Önnu varð ekki barna auðið. Magnús var þekktur, bæði í heimsveit sinni og víðar, fyrir sjómennsku, björgunarstörf og fleira. Sjóinn sótti hann allt fram á efri ár, er heilsa hans brast og hann og Anna Þórdís fluttust á Elli- og vistheimilið Grund í Reykjavík.

Í Morgunblaðinu 6. júní 1982 birtist eftirfarandi viðtal við Magnús.
„Mikið þótti mér alltaf gaman að róa á áraskipunum“, – segir Magnús Hafliðason sem reri frá Grindavík í byrjun aldarinnar. Þeir eru ekki margir í dag sem þekkja af eigin raun sjósóknina á opnu „skipunum“ um aldamótin. Einn þeirra, Magnús Hafliðason, hittum við að máli á Minni-Grund við Blómvallagötuna. Þar býr hann nú ásamt síðari konu sinni, Önnu Guðmundsdóttur, kominn á tíræðisaldur. Þegar blaðamann ber að, býður Magnús til sætis og leggur frá sér bókina Menn og minningar eftir Gylfa Gröndal.
„Já, ég uni mér nú helst við lestur, því fæturnir eru hálf ónýtir að verða. Ég komst lítið á þeim um tíma en er nú farinn að hugsa mér til hreyfings aftur. Annars er best að tala varlega. Þið magnus haflidason-2blaðamennirnir hafið nefnilega orð á ykkur fyrir að ýkja, svona eitthvað smávegis að minnsta kosti,“ segir Magnús og glettnin skín úr augum hans.
Magnús Hafliðason fæddist á Hrauni í Grindavík árið 1891 og bjó þar óslitið fram til ársins 1977 þegar hann, 85 ára gamall, fluttist að Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík.
„Hérna er allt gert fyrir okkur og okkur líður alveg prýðilega. Við erum heppin að fá að vera hér. Þetta er besti staðurinn sem við gátum lent á fyrst við þurftum að hrökklast frá Hrauni. Mig langaði ekkert að fara frá Hrauni. Ég hefði viljað vera þar lengur, en hún Anna mín veiktist og þá var ekki um annað að ræða.“

magnus haflidason-3

Við báðum Magnús að segja okkur frá því umhverfi og þeim aðstæðum sem hann óx upp við. „Pabbi var útgerðarbóndi sem gerði út frá Hrauni. Heiman frá okkur var um hálftíma gangur í lendinguna. Það var oft napurt að ganga um hraunið í nóttinni með línuna á bakinu. Þetta var óttaleg vegleysa. Ég var yngstur sjö systkina, en eitt hafði dáið á fjórða ári. Þó að við fólkið á Hrauni værum vel bjargálna, þættum við líklegast fátæk í dag. Við höfðum bæði kindur og kýr en lifðum aðallega á sjónum, því það er engin hagbeit þarna í kring. Ég ólst upp við það að allir færu á sjó og það þótti sjálfsagt að menn gerðu það. Á þessum tíma voru öngvir skólar, aðeins einn kennari sem kenndi öllum hópnum á staðnum sex mánuði á ári.“
—  Getur þú rifjað upp fyrstu sjóferðina?
„Það get ég já, þó heldur væri það nú lítil sjóferð. Ég var sjö ára og pabbi reri með okkur rétt út fyrir vörina, þar sem ég dró þrjá þyrsklinga. Upp frá þessu fór ég að smáróa með færi og þetta ágerðist alltaf. Í þá daga voru allt áraskip, mestallt áttæringar, tírónir með ellefu manna áhöfn. Það var jafnan lagt upp mjög snemma og lent að kveldi. Lending þarna var vond og oft mjög brimasöm, þannig að í dag þættu þetta varla viðunandi aðstæður. Það var ekkert skjól því skipin voru alfarið opin og öngva hlýju að hafa nema af árinni. Og ekki var nú heldur langt róið, enda fiskurinn nærri. Við byrjuðum ævinlega að leggja línu strax á morgnana og sátum venjulega yfir í klukkustund eða svo, og sat þá hvur við sína ár.“
—  Hvernig var skipseign og aflaskiptingu háttað?
magnus haflidason-5„Sumir áttu skipin einir og aðrir í félagi. Pabbi gerði alltaf út sjálfur með sitt eigið skip, en síðan tókum við Gísli bróðir við af honum. Með okkur reru sveitamenn og aðrir aðkomumenn, en það var mjög algengt að á hvurju skipi væru aðeins tveir eða þrír heimamenn og síðan aðkomumenn. Fyrst reru þeir bara upp á hlut sem þeir verkuðu sjálfir, en síðan komu til sögunnar svokallaðir útgerðarmenn, sem í þá daga var notað um menn sem reru á vertíð upp á ákveðna peningaupphæð sem var alfarið óháð því hvurnig aflaðist. Ógæfu okkar í dag má rekja til þeirrar tilhögunar sem þarna hófst. Nú fara menn bara ekki til fiskjar nema þeir fái ákveðið verð fyrir, óháð öllum aðstæðum, og stofna sífellt til verkfalla. Ég held nú að okkur sé hollara að selja á því verði sem markaðurinn gefur fyrir fiskinn, þó oft sé bölvaður tröppugangur á honum blessuðum.
Þegar ég var að byrja til sjós sem ungur maður, var siður að lesa sjóferðabæn fyrir róður þegar komið var á flot. Þessu var hætt þegar vélarnar komu í skipin. Þá þurfti víst ekki að biðja fyrir sér Hraun 1924-2lengur því vélarnar þóttu svo traustar. Áður var ekki siður að róa á sunnudögum, en sá siður lagðist líka niður með tilkomu vélarinnar.
Þessi breyting varð um svipað leyti og ég kvæntist fyrri konu minni, Katrínu Gísladóttur, en hún lést árið 1945 eftir 25 ára hjónaband. Þetta var á árunum í kringum 1920 og ég mun hafa verið tæplega þrítugur að aldri. Við fengum frekar seint vél í okkar bát, eða ekki fyrr en 1928. Það voru allir svo hræddir við þetta vegna skrúfunnar og hjá okkur var vélin varhugaverðari sökum lendingarinnar sem var óvenju brimasöm. Vélarnar komu fyrr þar sem lendingin var góð.
Ég hef ekkert nema af góðum félagsskap að segja í sjómennskunni á þessum árum. En menn höfðu metnað til að koma skip um sínum sem fyrst á flot, það vantaði ekki. Okkur þótti nú karlmannlegra að vera með fyrri skipum, en svo komu einhver lög sem sögðu fyrir um hvunær mætti róa og hvunær ekki. Það var nú sosum prýðilegt að fá þau lög.“
— Margur á þínu reki hefur komist í’ann krappan um dagana.
Hraun-21„Uss, við lentum aldrei í neinu — aldrei ég. Ég hef ekki enn komist í’ann krappan. Það varð oft strekkingur og stormur. Ég minnist þess að í mars 1916 fóru 4 skip og 38 menn björguðust. Hann rauk bara upp úr hvítalogni á norðan. Þann dag þurftum við að lenda annarstaðar en vant var og sumstaðar drukknuðu menn víst. En ég hef haft mjög gaman af sjónum um dagana og mikið þótti mér alltaf gaman að róa á áraskipunum með samheldnum og góðum mannskap. Sjórinn var alltaf við túngarðinn og gekk oft upp í tún hjá okkur í brimaveðri, en hann var alltaf fallegur, sjórinn.“
— Hvernig líst þér á sjómennskuna í dag?

Hraun-loftmynd

„Þetta er ekkert líkt því sem var, væni minn, en samt verða slysin ekkert síður. Þau eru voðaleg, þessi slys. Ég reri einar fimmtíu vertíðir án þess að nokkuð sérstakt kæmi upp, svona sem blaðamatur, sjáðu. Það þurfti líka alltaf aðgæslu og það tíökaðist ekki að fjasa útaf smáslettum. Ég er ekki frá því að það sé einhver óstjórn á hlutunum í dag. Þeir skemmdu alveg vertíðina í vetur með einhverju banni og svo gefa þeir þá skýringu að sjórinn sé kaldur. Nú, hann hefur varla kólnað svo mjög frá því sem hann var á minni tíð. Og svo fjölga þeir bara skipunum þó þau séu alltof mörg og ráðherrann ræður ekki við neitt, enda hafa ráðherrarnir fæstir á sjó komið og vita ekki hvurnig þessu hagar til. Ég held þeir ættu frekar að reyna að nota eitthvað þessa fiskifræðinga okkar.“
— Gerir þú þér einhvern dagamun á sjómannadaginn?
„Nei, ég fer ekkert. Ég er bíllaus og kemst ekkert gangandi. Ég dúsa bara heima, enda er ég ekki lengur neinn sjómaður. Það lifir enginn upp aftur það sem hann er búinn að lifa. Mér þótti gaman á sjónum og langar alltaf aftur í huganum, en svona valtur á fótunum er ég engum til gagns. Annars er ekkert að mér nema þessi fótafúi.“

Heimild:
-Morgunblaðið 6. júní 1982, bls. 36-37.
-Morgunblaðið 24. desember 1983, bls. 3.

Hans Hedtoft

Magnús Hafliðason á Hrauni með björgunarhring Hans Hedtoft.

Hraun

Meðfylgjandi grein birtist í Morgunblaðinu 22. des. 1963 undir fyrirsögninni „Í stríði á Fagradalsfjalli„:

„Þarna í víkinni við kambinn er hrönn af vikri,“ sagði Magnús. „Allt kemur þetta úr Surtsey. Það eru meiri ósköpin sem hún gýs frá sér. Það er eins og það sé dálítið móberg i vikrinum.“„

Langholl-221

En hvað er þetta?“ spurði ég og benti á stóra, rauða belgi, sem lágu í fjörunni.
„Þetta eru rússablöðrur,“ svaraði hann. „Þeir nota þær á reknetin.“
„Ætlarðu ekki að hirða þær?“
„Nei, það fæst ekkert fyrir þær.“
„Eigum við þá ekki að stinga á þeim og hleypa loftinu út?“
„Nei, það fer allt vestur í þessari átt. Það er nóg samt.“

 

Við stóðum í fjörunni fyrir neðan túnið og töluðum við Magnús Hafliðason á Hrauni, þann garp. Ég hafði komið hingað áður fyrir tveimur árum og átt samtal við Magnús sjötugan, en ætlaði nú að ganga með honum á Fagradalsfjall og skjóta rjúpur í jólamatinn; ætlaði þó að vísu ekki að skjóta sjálfur því eg er í Rjúpnafélagi Jónasar Hallgrímssonar, en langaði að sjá hvernig þessi nafntogaða skytta gengi til verks.
Lois-221Og svo voru fjöllin eins og segull í desemberskuggunum; veðrið eins og á vordegi, hlýr andvari af austri, þurrt en skýjað. Þar sem við stóðum í fjörunni og horfðum út á hafið fundum við glöggt, að við þurftum ekki að bera neinn kvíðboga fyrir því að hann mundi skella saman á fjallinu, öldurnar teygðu sig upp í vikurinn, engin þeirra hvít í föll, þetta var hroði. Ég rifjaði upp fyrir mér það sem Magnús hafði sagt mér um franska togarann sem hér straedaði 1931 ag spurði hann nú, hvar togarinn hefði lent. Það vatnaði yfir Skarfatanga beint út af Víkurkambinum:
„Þarna var það,“ sagði hann og benti.
„Í túnfætinum?“ spurði ég undrandi.
magnus Haflidason-21„Já. Það var engu líkara en þeir ætluðu að leggja honum hér í hlaðinu,“ sagði Magnús og brosti í skeggið. Svo benti hann austur fjöruna, þar sem reis allmikið fjall og gekk í sjó fram. „Þetta er Festi,“ sagði hann. „Bjarni Sæmundsson sagði að hún væri eitt sérkennilegasta fjall á landinu. Hún er laus í sér og kolbrunnin, það hrynur stanzlaust úr henni“ — benti síðan í fjöruna nær túninu:  „Og þarna strandaði brezki togarinn Lois í ársbyrjun 1945, ef ég man rétt. Ég hef aldrei sagt þér frá því. í hitteð fyrra töluðum við bara um fransmanninn. Þegar hann strandaði var bræluvindur af landsunnan, en þegar Englendingurinn sigldi upp var logn þó brimið væri óskaplegt, eitt hið mesta sem ég man eftir. Hann sleit úr sér snjó, en samt virtist engin sérstök ástæða til að sigla upp í fjöru. En brimið var aftök. Það var frekar smástreymt, en sjórinn samt tekinn að falla uþp á tún með hálfföllnum sjó að, svo mikið var brimið. Kvöldið áður var ég einn heima, því dæturnar voru á barnaballi. Ég háttaði snemma og las í bók, en húsið skalf svo og nötraði að ég gat ekki lesið í köflum. Ég óttaðist um telpurnar, en þær komu heim um nóttina og einhvern veginn gátum við sofnað, þrátt fyrir veðrið. En svo blálygndi hann um hádegi næsta dag. Um níuleytið þá um kvöldið strandaði togarinn. Skömmu áður sagði ég við telpurnar: „Þið skuluð fara að hátta, þið vöktuð svo lengi fram eftir í nótt.“ Stuttu síðar kemur Ingi björg dóttir mín upp með óvanalega miklu fasi má segja, því hún er heldur róleg, og segir: „Það er eitthvert ljós að sjá í Festi, og eins og verið sé að vagga því til.“ Mér datt strax í hug að skip væri komið upp í fjöruna, gekk út og horfði austur með landi. Þá sá ég ljós og ekki um að villast að það var á skipi. Ég flýtti mér upp eftir að athuga hvað hafði gerzt og þegar ég kom á strandstaðinn heyrði ég köllin í körlunum.
Langihryggur-221Og þú hefðir átt að heyra skröltið í togaranum, þegar hann veltist á klöppinni. Áður en ég fór á strandstaðinn hafði ég gert björgunarmönnum í Grindavík aðvart, og komu þeir von bráðar. En þó logn væri, var brimið svo mikið að mér datt sem snöggvast í hug að enginn maður mundi komast heilu og höldnu gegnum rótið. Svo mikið var brimið að mannskapurinn varð að halda í tóið, því ekki var viðlit að binda það. En samt var öllum bjargað nema skipstjóranum, og voru þeir komnir heim í hús um miðnætti. Ég tel að skipstjórinn hefði átt að komast af eins og hinir, en það var eins og hann kærði sig ekki um það.
Sjórinn var mörg ár að vinna á togaranum. Við höfðum svolítið upp úr þessu strandi, gátum sótt okkur kol fram eftir vetri og kynt. Flestum finnst hlýjan góð, sama hvaðan hún kemur, en þó verð ég að segja að ég hef alltaf kunnað bezt við mig að vera dálítið þvalur.“
Langihryggur-222En ferðin að Hrauni var ekki farin í þeim tilgangi að standa í fjörunni og láta tímann ganga sér úr greipum. Við kvöddum nú frú Önnu, konu Magnúsar, sem alltaf er opinn faðmur hlýju og gestrisni þegar maður kemur í heimsókn, og lögðum af stað að Borgarhrauni. Magnús sagði okkur á leiðinni nokkur örnefni og væri tómt mál að rifja þau hér upp: Húsafell, Fiskidalsfjall, Tryppalágar, Þorbjörn — nei, ég hefði annars átt að nefna hann fyrstan, því hann heyrir frekar til leiðinni frá Keflavíkurvegi að Grindavík en þeirri sem við nú fórum. Þorbjörn er sterkt nafn, en óvanalegt á fjalli. Mér finnst fjall með því nafni hljóti að vera traust og innhverft.
Og áfram var haldið. Við skildum bílinn eftir við þjóðveginn, gengum yfir Borgarhraunið í átt til Fagradalsfjalls og fórum heldur hægt, því Magnús sagðist vera orðinn þessi veraldarinnar ræfill. Samt þótti okkur hann ganga nógu hratt, með byssu um öxl og prik í hendi, og áttum við fullt í fangi með að halda í við hann. Leiðin yfir hraunið er sæmilega greiðfær — og þó. Magnús stanzar, litast um og segir: „Þetta er nú heldur tuðrótt leið, hér hafa goðin einhvern tima reiðzt.“ Pikkaði svo með prikinu í grænan mosann og leitaði að sprungu.
Kastid-221„Þær liggja allar frá útsuðri í landnorður,“ sagði hann, „það eru meiri katlarnir, sem hér eru á hverju strái. Allt hefur þetta land logað á sinni tíð. Sagnir eru meira að segja til urri eldsumbrot á þessum slóðum eftir landnámsóld. Þegar snjór liggur yfir hrauninu, er víðast hvar autt yfir holunum af trekki og hlýju sem kemur neðan frá. Undir Reykjanesinu er ekkert nema holrúm og eldur, og þar hafa kyndararnir líklega nóg að gera. Þið ættuð að sjá eldgígina við Tófubrunna og Latshóla, ef þar er ekki eitthvað óhreint undir veit ég ekki hvar það ætti að vera. Og ég hef oft séð hvernig húðar yfir holurnar hér í hrauninu af þunnum vatnsklaka. Fyrir norðan Þorbjörn rýkur úr jörð, þar eru hverir. Hér rýkur þó ekki. Bezt gæti ég trúað því, að Surtur kæmi ekki að sunnan, heldur héðan að ofan.

 

Kastid-223

Hann hefur bara haft sig upp þarna suður frá í þetta sinn.“ Hann leit norður um og benti með prikinu á Fagradalsfjall: „Hér var þoka í gær,“ sagði hann, „og sá ekki í loft. En nú er veðrið eins og bezt verður á kosið. Þetta má kalla heppni. Það fer fínasti farðinn af svona ferðalagi þegar veðrið er vont.“
Síðan héldum við áfram og gengum fram hjá álitlegum grasflötum, sem Magnús nefndi Tryppalágar.
„Hvað hefurðu skotið flestar rjúpur á dag?“ spurði ég.
„Sextíu,“ svaraði hann.
„En á hausti?“
„O, ég hef komizt upp í fjögur hundruð. Það er svolítið starf að bera sextíu rjúpur þessa leið,“ bætti hann við og benti á nyrztu brún Fagradalsfjalls: „Þarna er aftökustaður rjúpunnar,“ sagði hann.
„Þú étur auðvitað oft rjúpur ?“ spurði ég.
„Nei, mér þykir hún ekki góð. Það er of mikið grasbragð af henni. Svið eru betri. En beztir eru mávsungar. Þeir eru lostæti. En nú vantar líklega snjóinn. Hérna skeljaði um daginn, þegar fönn lá yfir hrauninu. Þá fórum við fimm saman og fengum tuttugu rjúpur, ég rakst af tilviljun á smáhóp og náði þeim öllum, þær voru tíu. Kristinn Stefánsson var óheppinn, hann fékk aðeins eina, þó er hann góð skytta. En Snorri læknir gat ekki komið, hann þurfti að fara utan á kongress. Mér líkar vel við þá báða, þeir eru prúðir og kurteisir eins og allir menntamenn eru nú á dögum, það er eitthvað annað en kaup mennirnir í gamla daga. Já, og svo þykir mér hangikjöt ágætt og miklu betra en rjúpur. En eigum við ekki að slá í, okkur miðar ekkert áfram með þessu móti. Áðúr var hún í stórum breiðum eins og fugl í bjargi. Þá kom hún á kvöldin niður í hraun, ef norðanátt var, en nú er eins og hún staldri ekkert við.“
Rjupa-221Hann tók nú á rás og engu líkara en hann hlypi, ég heyrði að hann muldraði í barm sér: „Þetta er meiri gangurinn, hálftuðrótt fyrir lassa eins og mig.“
Við litum til baka. Bíllinn var horfinn úr augsýn og fram undan blasti við fjallið og hækkaði eftir því sem nær dró. Magnús hafði þungar áhyggjur af landsmálum og talaði um pólitík meðan við gengum síðasta spölihn að fjallinu. Hann sagðist strax hafa gert sér grein fyrir því að uppbótakerfið mundi steypa landinu. „En maður skilur þetta víst ekki,“ sagði hann mæðulega, „það er ljóti atvinnuvegurinn þessi stjórnmál. Þeir standa upp, kreppa hnefana, rífast, bera þungar sakir hver á annan, setjast aftur, ganga út í horn, takast í hendur, klappast á, og þá syngur hún annað bjallan hjá þeim. Og svo borgar landið brúsann.“
Fagradalsfjall-225Nú vorum við komnir í Selskál, sem er kriki við fjallsræturnar. Þaðan er gengið upp Görnina, sem svo er kölluð. Hún sker fjallið eins og renna, og þegar upp er komið liggur hún eftir því endilöngu, slétt og greiðfær með grösum og lyngi, en vestur úr henni rís Kast, allhátt fjall og bratt í rætur.
„Það var þægilegra að komast á Skálafell,“ sagði ég á leiðinni upp Görnina.
„Jæja-já,“ sagði Magnús.
„Ég fór í jeppa.“
„Það eru ófá jeppaförin í landinu,“ svaraði hann. „Þú hefur auðvitað verið að leita að veiðibjöllueggjum?“ bætti hann við.
„Nei, ég var að horfa yfir landið.“
„Það er mörg matarholan í landinu,“ sagði hann. „En fyrst þú ert að hugsa um landið, þá er bjart í dag, og við verðum komnir upp áður en mistrið læðist yfir hraunið.“ Ég var hættur að spyrja um rjúpuna, hún skipti ekki lengur máli. „Þessi fjöll eru banaþúfa margra vaskra drengja,“ sagði hann þegar upp var komið.
„Nú hvers vegna?“ spurði ég.
Magnus Haflidason-22Í vesturslakka Kastsins fórst flugvél Andrews, yfirhershöfðingja Bandaríkjanna í Evrópu í stríðinu. Ég kom ekki að flakinu fyrr en nokkru síðar. Í norðausturhorni Fagradalsfjalls, þar sem heitir Langhóll, fórst enskur flugbátur í stríðinu. Þangað hef ég síðar komið og skotið rjúpur í flakinu. Ekki hef ég orðið var við annað kvikt á þessum slysastöðum. Og hérna suðuraf heitir Langihryggur og gengur út úr Borgarfjalli, þar fórst enn ein flugvélin í stríðinu. Ég var með þeim fyrstu sem komu á staðinn. Það var ljót aðkoma. Það var eins og fjöllin hefðu gengið í lið með Þjóðverjunum og líkast því að þau hafi gert gyllingar til að ná sem flestum flugvélum bandamanna. En nú er farið að fyrnast yfir þessa atburði. Og sem betur fer ætti fáum að standa ógn af hálendinu, eins og tæknin er orðin, ja nema auðvitað blessaðri rjúpunni. Hún nýtur ekki góðs af tækninni, nema síður sé.“
Við báðum Magnús að segja okkur frá aðkomunni á Langahrygg. Hann sagði:

Langihryggur

Á slysstað í Langahrygg.

„Við Ísólfur í Ísólfsskála höfðum séð flakið tilsýndar, þar sem það lá norðaustan í hryggnum. Englendingar báðu okkur að koma með sér og við fórum í skriðdreka yfir hraunið, það var heldur svona tuðrótt. Þegar við komum að flakinu lágu tólf flugmenn, Bretar og Bandaríkjamenn, dauðir til og frá í brekkunni, brunnir eða limlestir.
Brezku hermennirnir höfðu ekki leyfi til að ganga að flakinu og biðu átekta eftir foringja sínum. En fyrst ég var kominn á staðinn vildi ég skoða brakið og vegsummerki. Ég sagði við sjálfan mig: Ef þeir reka mig burt, þá er ég farinn og læt þá um þetta. En þeir hreyfðu hvorki legg né lið til að koma í veg fyrir að ég gengi inn í brakið og virti fyrir mér þessa hörmulegu sjón. En það er bezt ég fari ekki út í að lýsa þessu nánar fyrir þér. Þú getur hvort eð er ekki birt það á prenti. Það er yfirþyrmandi. Alúminíum hafði runnið um brekkuna eins og lýsi og var nú storknað að sjá, fallhlífar lágu á víð og dreif, skór, Kastid-229fótur.
Líkin voru vafin inn í fallhlífarnar og flutt til byggða. Það voru þung spor. Nú er flakið horfið, fjallið byrjað að gróa upp og tíminn hefur grætt sárin. Og nú glottir aftur til.“
Þegar við gengum norður Görnina gerði hann svolitla kælu af austri. Engin rjúpa sjáanleg, enda höfðum við meiri áhuga á fjallinu, þar sem Andrews fórst með fylgdarliði sínu, og punktur var settur fyrir aftan einn kapítula styrjaldarsögunnar. Ekki vildi Magnús ganga á slysstaðinn. „Það er óartarkrókur,“ sagði hann. Við stóðum nokkra stund og blíndum á fjallið, horfðum svo niður á hraunbreiðuna fyrir neðan okkur og undruðumst hvað flugvél hershöfðingjans hefur flogið lágt, þegar slysið varð. Engir þeirra höfðu komið áður til Íslands, þeir voru ókunnugir feigð þess og fjöllum. Í sumar voru liðin 20 ár frá því slysið varð. Ég rifjaði það upp með sjálfum mér. Ég hafði alltaf haldið að flugvél Andrews hefði lent á Keili.
Þess vegna hef ég oft litið hann hornauga, en nú varð mér ljóst að ég hafði haft hann fyrir rangri sök. Þannig leiðir tíminn staðreyndirnar í ljós, og nú finnst mér Andrews-221Keilir fallegri og tignarlegri en nokkru sinni fyrr. Ég mundi eftir jarðarför hershöfðingjans og manna hans, við drengirnir stóðum niður við Austurvöll, ef ég man rétt, og horfðum á líkkisturnar fjórtán, þar sem þær voru bornar út úr Dómkirkjunni, hlustuðum á sorgarlögin, virtum fyrir okkur heiðursvörðinn. Þannig eltum við stríðið, það er partur af lífi okkar, óljós minning, skuggi þeirrar sólar sem nefnd er æska.
Slysið varð mánudaginn 3. maí 1943, en vegna strangrar ritskoðunar var ekki skýrt frá því í íslenzkum blöðum fyrr en þremur dögum síðar. Þá hafði Morgunblaðið fengið fréttina frá Washington. Auk hershöfðingjans og fylgdarmanna hans fórst lútherski biskupinn Adna Wright Leonard, sem var á ferðalagi að heimsækja hersveitir Bandaríkjamanna um allan heim. Skömmu áður hafði Spellmann, þáverandi biskup en nú verandi kardináli, farið svipaða för á vegum kaþólsku kirkjunnar.

Andrews-memorial

Augljóst er af fyrirsögn fréttarinnar í Morgunblaðinu, að hún hefur verið öllum kunn, þegar hún loks var birt. Þar stendur: „Fjórtán (svo) manns voru í flugvjel Andrews hershöfðingja.“ Hvorki í þessari fyrstu frétt af slysinu né nánari frásögn daginn eftir er sagt frá því, hvar flugvél hershöfðingjans hafi farizt og margt annað þykir manni nú vanta í frásögnina. Sá sem komst af hét George Eisel frá Colombia. Hann var afturskytta í Liberator-flugvél hershöfðingjans og sat fastur í stélinu í 26 klukkustundir. Hann hafði oft áður komizt í hann krappan, hafði t. d. bjargazt þegar flugvél hans var skotin niður yfir Túnis og þrír félagar hans farizt. Flugvélar hans höfðu gert loftárásir á borgir í Norður-Afríku, Þýzkalandi, Frakklandi og Ítalíu. í stuttu samtali sem Ívar Guðmundsson átti við hann segir hann m. a. um slysið:
„Við flugum meðfram ströndinni og yfir marga tanga, en svo kom að því að einn þeirra skagaði of langt upp í loftið og við rákumst á.“ Hann telur að allir mennirnir hafi dáið um leið og vélin rakst á fjallið. Hann heyrði ekki til ‘Uokkurs manns og þó missti hann aldrei meðvitund þann tíma sem hann var í flakinu.

Kastid-331

Hann segir að skyggni hafi ekki verið nema um 12 metrar. Hann segir að eldur hafi komið upp í flugvélinni og hafi honum ekki dottið annað að í hug en hann mundi  brenna inni, „en þá kom hellirigning og kæfði eldinn í flugvélarflakinu.“ Einhvern tíma hefði nú sú rigning verið talin til jartegna. Það tók leitarmennina klukkustund að ná Eisel úr stélinu, þar beið hann þyrstur og svangur. Magnús sagði okkur frá því að hann hefði heyrt, að Eisel hefði farizt nokkru síðar í flug slysi. Við gutum augum í síðasta sinn til slysabrekkunnar í Kasti, þá bætti Magnús við: „Það eru meiri vinnubrögðin þessi stríð.“
Við gengum nú upp úr Görninni, fylgdum bröttum skorningum og fikruðum okkur upp á nyrzta og hæsta hluta Fagradalsfjalls. „Ef hún er ekki við skaflana hér,“ sagði Magnús, „þá er hún hvergi.“
„Er ekki vissara að hvísla?“ spurði ég.
Hann hló. „Nei,“ sagði hann og gekk enn hraðar upp hlíðina. Ég var einnig farinn að skimast um eftir rjúpu. Og mér fannst ég sjá hana alls staðar, í mosanum, við steinana, þeir voru margir með hvítum skellum. Mér fannst þeir hía á okkur. Eins og straumkast árinnar verður að narti fisks í eftirvæntingargómum laxveiðimannsins, þannig verða hvítskellóttir steinar að rjúpum í skimandi augum skyttunnar.
„Hefurðu nokkurn tíma séð fálka hér á fjallinu?“ spurði ég.
„Já,“ sagði Magnús, „ég hef séð fálka slá rjúpu hér á fjallinu, en það er sjaldgæft.“ „Finnst þér þú ekki stundum vera í hlutverki fálkans?“ „Það getur svo sem verið. Þegar fálkinn kemur sópast rjúpan í burtu, en það hefur engin áhrif á rjúpuna, þó ég komi. Hún heldur sig bara við skaflana og….“ Prikið festist við grjóthnullung.
„Og hvað?“ spurði ég.
„Og bíður, bíður. Er það ekki það sem við gerum öll.“ Losaði prikið, hélt áfram og þagði.
„Við Ísólfur í Ísólfsskála sáum tvær arnir í haust, þegar verið var að leggja Krýsuvíkurveginn,“ sagði hann svo upp úr þurru, eins og til að breyta um umræðuefni. „Önilur hafði komið á hverjum morgni og stefnt á Krýsuvíkurberg, og einn morguninn sáum við tvær saman. Líklega hafa þær verið að leita sér að æti.“
Kastid-frett-229Nú færðist brimmóða yfir landið og það fékk einhvern óræðan blámisturssvip, sem gerði það fjarlægara en áður. Það var ekki lengur fjallabjart yfir auðninni. Morguninn hafði verið rauður í skýjum, þetta var yndislegur dagur, magnaður af dul lands og sagna. Hamrabelti blöstu við norðan Kasts, þar eru Gálgaklettar. Þar voru hengdir ræningjar sem héldu til við Þorbjörn gamla.
Og enn fjölgaði hvítu skellunum á steinunum og ég fór að velta því fyrir mér hvort guð hefði svona fínan húmor eða hvort þetta grín væri bara tilviljun.
Magnús ymti að gömlum dögum. „Ég hef alltaf séð eftir árabátunum,“ sagði hann, „og veiztu af hverju? Ég komst einu sinni yfir hundrað kíló. Þá brá mér kynju við. Ég fór að hugleiða hvað hefði valdið þessum ofvexti — jú. Við höfðum fengið vélbáta og lagt niður árarnar. Það var oft glatt á hjalla á gömlu árabátunum og gaman að sigla í góðu leiði. Fiskurinn var borinn upp klappirnar fyrir neðan bæinn, þeir voru í brókum upp undir hendur og skinnstökkum og bundið yfir um mittið til þess þeir yrðu ekki brókarfullir. Þeir báru tólf þorska í einu og enginn taldi eftir sér að bera upp fiskinn. Nú bykir allt erfitt. Skiptivöll ur heitir pa.rtur af túninu fyrir neðan Hraun. Þar deildu þeir út hlutunum. En það var ekkert upp úr þessu að hafa, þó við fiskuðum 500 skippund yfir vertiðina og gerðum að öllu Sjálfir. Þetta fór bara í kaupmennina og þeir voru eins og sjórinn. Lengi tekur sjórinn við.
En nú held ég að þorskurinn sé að ganga til þurrðar, það er ekki annað að formerkja. Áður fylltist allt af fiski, þegar sílin komu. Fyrst þegar ég byrjaði að róa fengum við oft á annað hundrað fiska í 15 möskva djúp net, en nú eru þeir með þetta 30—36 möskva djúp nælonnet og fá einhverja glefsu í eitt og eitt net. Nú sést ekki fiskur á þeim slóðum þar sem við veiddum mest. En fiskifræðingarnir trúa ekki að fiskurinn sé að ganga til þurrðar, það er aðalatriðið. Kannski við getum lifað á bjartsýni þeirra.“
„Var þetta ekki sæmilegt upp úr fyrri heimsstyrjöldinni?“ spurði ég.
„Jú, það var miklu betra en síðar varð. Um 1930 súnkaði fiskurinn í verði og þá byrjaði kreppan.“
Við vorum varla komnir upp á fjallsbrúnina þegar Magnús stanzaði, bandaði til min hendi og sagði: „Þarna er ein —,“ hlóð byssuna, miðaði og — bang.
Þegar Magnús kallaði sá ég dýrið dauðamóða teygja úr skaflhvítum hálsinum, tvö augu sem störðu á okkur í 30—40 metra fjarlægð. Þau báðu ekki um líf, þessi augu, nei horfðu Kastid-frett-3bara á okkur, spurðu. Og svarið kom. Þegar við komum að rjúpunni þar sem hún lá dauð í grænum mosa milli hraungrjóts, beygði Magnús sig niður og sagði: „Þetta er einhver síðgotungur, hún er enn með svartar fjaðrir.“ Svo leit hann á mig og spurði glottaralega:
„Ekki sást þú hana á undan mér?“
Það var nú lítill munur orðinn á rjúpunni og hvítskellóttum steinunum. En blóðið golpaðist ekki upp úr þeim.
Við gengum skimandi vestur fjallið, en sáum ekki fleiri rjúpur. Þessari styrjöld lyktaði með ósigri þeirrar einu rjúpu, sem á fjallinu var þennan dag. Þegar við komum á móts við Kast á heimleið fórum við aftur að tala um flugslysin, enda voru þau ofarlega í hugum okkar. Og þá sagði Magnús: „Það er eins og allt sé fyrirfram ákveðið og hnitmiðað niður. Amma mín, Guðbjörg Gísladóttir frá Lambafelli undir Austur-Eyjafjöllum, sagði mér einhverju sinni frá harðduglegum fiskiformanni, sem alltaf gat sagt hásetum sínum fyrir um, hvað þeir mundu fá til hlutar. En svo einn vetur segist hann ekkert geta sagt þeim. Hann segir að sig hafi dreymt, að hann væri í úlpu með fjórtán hnepslum, en hnapparnir allir skornir af. Annað gæti hann ekki sagt þeim. Skip hans fórst í fyrsta eða öðrum róðri með allri áhöfn, fjórtán mönnum.
Með þetta dularfulla veganesti héldum við til byggða.“ –
M.

Heimild:
-Morgunblaðið, 22. des. 1963, Í stríði á Fagradaldsfjalli, bls. 1, 3 og 5.

Magnús Hafliðason

Magnús Hafliðason – Fæddur 21. nóvember 1891, dáinn 17. desember 1983.