Magnús Jónsson skrifaði um „Hafnfirðinga árið 1902“ í jólablað Alþýðublaðsins árið 1959. Um var að ræða framhald skrifa hans í sama blað árið 1958.
Verður nú haldið áfram þar sem frá var horfið.
52. Góðtemplarahúsið. Það er margra atkvæða orð og því styttingin Gúttó venjulega látin nægja. Þetta er fyrsta samkomuhúsið sem Góðtemplarar hér á landi reistu, byggt 1886. Talið er að þá hefði það rúmað alla íbúa bæjarins. Þá var það þó lítið annað en salurinn, því að þverálmurnar voru byggðar síðar. Íbúð var þar engin. Yfir inngöngudyrunum í salinn — sem þá voru tvennar — var loft og grindur fyrir framan, eins og í kirkjunum sumum. í húsinu var að sjálfsögðu oft dansað og leiknir sjónleikir, svo sem Prestskosningin, eftir Hafnfirðinginn Þorstein Egilsson, Skugga-Sveinn og Nýársnóttin, svo að þau helztu séu nefnd. Þetta hús hefur þannig verið helzti samkomu- og skemmtistaður Hafnfirðinga í rúm 70 ár, þótt önnur hús hafi nú tekið við því hlutverki að nokkru.
53. Dvergasteinn. Það nafn má segja að haldist enn á húsinu, sem er á þessum stað, en annars er það talið Suðurgata 6. Þarna bjuggu hjónin Jón Jónsson steinsmiður — eða múrari síðar — og Sigurborg Sigurðardóttir. Árið 1902 eignuðust þau sitt eina barn, Guðmund, sem nú er sjávarútvegsmálaráðherra, kvæntur Guðfinnur Sigurðardóttur. Þetta ár kom í Fjörðinn — í Dvergastein — Árni, bróðir Sigurborgar. Hann var trésmiður og kvæntist Sylvíu Ísaksdóttur. Í Dvergasteini var líka Vilborg Guðmundsdóttir, móðir þeirra systkina og svo önnur fjölskylda: Agnes, sem þá var búin að missa Bjarna mann sinn, en var með dóttur þeirra, Elínu. Einnig var þar Guðlaug Guðmundsdóttir, systir Agnesar og Vilborgar. Ein þessara systra var Margrét yfirsetukona, sem síðar verður getið.
54. Sýslumannshúsið. Það stendur enn og telst eiginlega óbreytt, því að í svo frábrugðnum stíl er viðbyggingin. Húsið er talið nr. 8 við Suðurgötu. Þá var sýslumaður — með aðsetur í þessu húsi — Páll Einarsson, sem síðar varð fyrsti borgarstjóri Reykjavíkur. Hann bjó þá með fyrri konu sinni, Sigríði, dóttur Árna Thorsteinson landfógeta. Þau áttu tvö börn, Kristínu og Árna. Líka ólu þau upp Sigrúnu Eiríksdóttur. Á sýslumannsheimilinu voru tvær vinnukonur, Ingileif Sigurðardóttir Backmann, sem giftist Ólafi Böðvarssyni, sem áður var getið, og Arnleif Guðmundsdóttir. Þá var og Árni Þorsteinsson, síðar bíóeigandi, nýkominn til sýslumannsins. Eftir að Sigríður Árnadóttir dó, kvæntist Páll Sigríði dóttur fyrirrennara síns, Franz sýslumanns Siemsen. Síðasti sýslumaðurinn sem jafnframt notaði þetta hús til íbúðar fyrir sig, var Magnús Jónsson. Margir minnast hans fyrir góða viðkynningu á löngum embættisferli.

Strandgata og Lækurinn. Einarsbúð, Verslun Einars Þorgilssonar og Co stendur enn þó búið sé að fjarlægja viðbyggingu. Hús Dvergs við Lækinn eru horfið.
55. Svæði eitt var í Firðinum sem nefnt var Moldarflötin. Hún takmarkaðist að norðan af læknum, að vestan af götunni — eða Mölinni — og að sunnan og suðaustan af sýslumannstúninu, en þar fyrir ofan var, og er að nokkru enn, kálgarðurinn frá Dvergasteini. Stundum varð gott skautasvell á þessu svæði, og notuðu Hafnfirðingar sér það.
Árið 1902 var eitt hús komið á Moldarflötina, í suðurhornið. Það hefur nú verið rifið vegna breytts skipulags. Það mun hafa verið byggt af „Útgerðarfélaginu við Hafnarfjörð“, sem Einar Þorgilsson var framkvæmdastjóri fyrir. Þetta félag var stofnað aldamótaárið og gerði út kútterana Surprise og Litlu-Rósu og svo Róbert, sem það hafði á leigu.

Dvergur 1912.
Þegar félagið leystist upp, eftir að Litla-Rósa fórst, eignuðust þeir húsið Einar Þorgilsson og Bergur Jónsson skipstjóri á Surprise.
Og nú hafa tvö fyrirtæki fyrir löngu lagt undir sig Moldarflötina, Einar Þorgilsson & Co. og h.f. Dvergur. Þá eiga að vera taldar upp allar byggingar fyrir sunnan læk, nema þau fáu peningshús sem um var að ræða og svo hjallar og þessháttar.
56. Brú. Sá bær stóð nánast þar sem nú er húsið Strandgata 39. Brúin yfir lækinn var þar hjá, því að hann beygði til norðurs eða norðvesturs, eins og áður hefur verið minnzt á. Á Brú bjuggu hjónin Helgi Þórðarson og Herdís Magnúsdóttir. Börnin sem heima voru: Jónína Þuríður, Hendrika Júlía, Magnús og Albert. Þar var líka Einar Snorrason lausamaður. Elzta barnið, Hermann, var farinn að heiman. Þessi hjón fluttu til Reykjavíkur um 1911.
57. Þar sem þessi bær stóð er nú húsið Strandgata 41. Hann var áður kenndur við Kolfinnu nokkra eða Gunnu Kolfinnu, eins og hún mun hafa verið nefnd. Þegar hér er komið var þessi kona dáin, en í bænum bjó Bjarni Sigurðsson sonur hennar. Hjá honum var Gíslína Sigríður, en foreldrar hennar voru Guðrún Vigdís, systir Bjarna og Einars, auknefndur söngur. Þar var líka Nikólína Kristín Snorradóttir, með dóttur sína, Álfheiði Ágústu Sveinbjarnardóttur. Nikólína var systir Elínar í Gerðinu (nr. 65). Í þessum bæ var líka Sólveig Þórðardóttir. Hún var ein af þeim sem alltaf voru vinnandi hjá öðrum, án þess að hugsa mikið um hvort nokkuð fengist í aðra hönd.
58. Á þessum stað er nú húsið Mjósund 1. Bærinn sem þarna var hét eiginlega Miðhús, þótt stundum væri hann kenndur við Elís Jón Stefánsson sem bjó þar með móður sinni, Þórunni Þorsteinsdóttur. Hann kvæntist seinna og átti eina dóttur, Stefaníu.
59. Hús sem byggt var þetta ár, 1902. Þar bjuggu hjónin Sveinn Magnússon bátasmiður og Eyvör Snorradóttir. Hjá þeim var dóttir þeirra, Theodóra Kristín, veitingakona, sem giftist Árna Sighvatssyni kaupmanni. Snorri, sonur Sveins og Eyvarar, var dáinn, en þarna voru tvö börn hans, Ingibjörg Magnea, sem gift er Guðjóni Jónssyni kaupmanni og Magnús sem kvæntist Sigríði Erlendsdóttur. Hún á enn heima á þessum stað, Strandgötu 47, en húsið frá 1902, sem var lítið, er nokkur hluti þess húss. Elzta barn Theodóru var fætt: Björn S. Stefensen. Tveggja sona Sveins og Eyvarar er getið annars staðar, Þorsteins (nr. 44) og Sigmundur (nr. 104).
60. Byggðarendi. Þar var byggt upp um þetta leyti, og var húsið talið Lækjargata 3. Það hefur nú verið rifið. Þar bjuggu hjónin Ólafur Jónsson og Sigríður D. Guðmundsdóttir. Sonur þeirra var farinn, en þar var Hafliða Gunnarsdóttir, móðir Sigríðar. Svo var þar vinnukona, Sigríður Rósa, dóttir Þorláks í Hamarskoti.
61. Lækjarkot. Þar er nú húsið Lækjargata 9. Þar bjuggu barnlaus hjón, Ólafur Bjarnason og Guðrún Oddleifsdóttir. Fósturdóttir þeirra, Ólafía, mun ekki hafa verið komin til þeirra.

Strandgata – A) Hús Kristins Vigfússonar, fátækarfulltr. BSR – hús um tíma.
B) Hús Guðjóns Magnússonar, skósmiðs, nú búið að rífa það.
C) Hús Ingvars Guðmundssonar, sem um tíma var stýrimaður á kútter Surprise. Nú í eigu Brunabótafélags Íslands.
D) Hús Theódóru greiðasölukonu. Síðar eign Magnúsar Snorrasonar, skipstj.
E) Hús Einars Þorsteinssonar, sem lengi var háseti á kútter Surprise.
62. Þessi bær var einnig nefndur Lækjarkot, enda stóðu bæirnir saman. Þar bjó Anna Katrín Árnadóttir, ekkja Þorvaldar Ólafssonar frá Ási. Börnin: Vilborg, giftist fyrst Guðmundi Guðmundssyni frá Hellu, en nú gift Stefáni Backmann, sem einnig var minnst á áður (nr. 50), Ólafur, nú þingvörður, kvæntur Sigrúnu Eiríksdóttur, og Þorvaldur, dó ungur.
63. Þetta hús var eins og Byggðarendahúsið rifið fyrir afmælishátíð kaupstaðarins, sumarið 1958, enda orðið hrörlegt. Það hét á Grund, en jafnframt var nafnið Bossakot til á því áður. Þar bjó Helgi Bjarnason og var þá, eins og lengstum, einhleypur. Hann kvæntist þó síðar, Kristínu Einarsdóttur. Árið 1902 urðu leigjendaskipti á Grund. Þorvaldur Erlendsson fór þaðan og byggði, eins og áður er talað um (nr. 43). Þá komu tvær fjölskyldur í Fjörðinn og settust báðar að á Grund. Annað voru hjónin Gamalíel Kristjánsson og Ólína Hannesdóttir. Þau voru með dætur sínar þjár, Ingibjörgu Sigríði, Guðmundínu Lilju og Guðrúnu Maríu. Eftir að Ólína dó, kvæntist Gamalíel aftur. Hin fjölskyldan sem hér um ræðir, voru hjónin Einar Einarsson og Jóhanna Örnólfsdóttir. Börnin sem heima voru: Kristrún, giftist fyrst Guðna Benediktssyni, sem áður var minnst á (nr. 49), en síðar Sigurði Magnússyni skósmið, Einar og Jóhanna.
64. Þetta hús var talið Austurgata 46. Eftir því sem bezt verður vitað var það nýtt við árslok 1902, en sumarið 1958 var það flutt burtu af þessum stað og upp í Kaplakrika. Hjónin sem þarna bjuggu 1902 hétu Þórður Ólafsson og Guðbjörg Guðmundsdóttir. Þrjú eru talin börn þeirra: Valgerður, Ketill og Engilbert. Þar var líka lausakona, Jórunn Halldórsdóttir. Ef til vill hefur það verið Jórunn sú sem áður var hjá Finni Gíslasyni og var systir Jóhönnu í Þorkelsbæ (nr. 79). Um nafn hússins hefur alla tíð verið óákveðið. Í manntalinu frá 1902 er það nefnt Þórðarhús, síðar á Balanum eða Hólnum, eða þá á Grund.
Þegar timburhús voru byggð áður fyrr, var það algengt að grindin var tegld til, sem kallað var, á rúmgóðum stað, annars staðar en húsið átti að standa. Þessi húsgrind fékk þá meðhöndlun niðri á Moldarflöt (55).
65. Bær þessi hét að réttu lagi Hraungerði, og var það nafn vel til fundið. Í daglegu tali er það þó aðeins nefnt Gerðið. Þar er nú talið Hverfisgata 52 B. Í Gerðinu bjó Elín Snorradóttir, ekkja Friðriks Eriðrikssonar. Eldri sonur hennar var farinn, en þar var Helga dóttir hennar og Helgi E. Thorlacíus sonur hennar — Elínar — en ekki Friðriksson. Svo var þar gamall maður, Guðmundur Erlendsson frá Hagakoti, faðir Jóhönnu sem lengi var hjá Hendrik J. Hansen (nr. 92).
66. Það er alltaf nefnt á Bala, þótt í manntalinu frá 1901, sem tekið er upp í Sögu Hafnarfjarðar, sé bærinn kenndur við húsbóndann. Þar bjuggu hjónin Narfi Jóhannesson stýrimaður, sonur Guðlaugar sem áður var minnst á (nr. 19) og Sigríður Þórðardóttir. Börnin sem fædd voru: Jóhannes, sjómaður, Jakob, Magnea, Guðlaug og Sveinssína. Síðar verður minnst á maka sumra þessara systkina. Sveinssína og maður hennar, Stefán Helgason, búa á Bala, sem nú er talið Austurgata 43. Um aldamótin var faðir Sigríðar þarna einnig: Þórður Þórðarson frá Höll í Garðahverfi. Ófædd voru Sigurþór og Björney Elisabet.
67. Þetta hús stóð þar sem nú er húsið Austurgata 48. Þar bjó Kristinn Vigfússon trésmiður, síðar bæjarfulltrúi og fátækrafulltrúi. Kona hans var Katrín Eysteinsdóttir, systir Pálínu konu Ólafs Garða og Ingibjargar sem einnig var minnzt á áður (nr. 13). Anna, móðir Kristins, var þarna og eldri dóttir hjónanna, Anna Sigurrós, var fædd. Hún er gift Katli Gíslasyni. Vigfúsína var ekki fædd.
68. Þar er nú húsið Austurgata 36. Í bænum sem þarna var bjó Jón Árnason Mathiesen, verzlunarmaður við Brydes-verzlun. Kona hans hét Guðrún Jensdóttir. Þau voru barnlaus og fósturdæturnar ekki komnar til þeirra. Samt var þar fleira í heimili: Jóhannes V. Jónsson, Jón Diðrik Jónsson — hann fór til Ameríku — Sesselja Helgadóttir og Karólína Árnadóttir. Hún flutti oft um set og er árið áður talin hjá Vilborgu systur sinni á Hóli.
69. Einarsbœr. Ekkert hús mun vera nákvæmlega á sama stað og sá bær stóð, en það var lítið eitt ofar en húsið Austurgata 33 er. Þar bjuggu hjónin Einar Þorsteinsson og Geirlaug Bjarnadóttir. Elzta barn þeirra var fætt, Bjarni, sem dó um fermingaraldur. Síðar fæddust Þorsteinn og Guðrún. Hjá þessum hjónum var Hansína Linnet, hálfsystir Einars (sammæðra — börn Þuríðar Einarsdóttur). Hansína giftist Agnari Magnússyni skipstjóra.
70. Helgahús. Það stóð þar sem enn er pósthúsið, Strandgata 35. Þar bjuggu hjónin Helgi Sigurðsson og Sigríður, sem var Jónsdóttir, en oftast kennd við mann sinn eftir að hún giftist. Börnin sem heima voru: Sesselja Engilrós, sem giftist Hans Sigurbjarnarsyni, sem drukknaði þegar togarinn Gullfoss fórst, 1944, Árni, ræðismaður Íslands i Chicago, Guðrún, giftist Jóhanni Helgasyni, og Jón, tvíburi við hana, ókvæntur. Yngst er Ragnheiður, sem býr með Óskari Breiðfjörð Jónssyni.
71. Húsið, sem stendur á þessum stað nú — Strandgata 33 — er gamalt og e. t. v. neðri hæðin sú sama og 1902. Þar voru aðeins hjónin Kristján Guðnason skósmiður og Þórdís Bjarnadóttir, systir bræðranna á Hamri og Agnesar, fyrri konu Eyjólfs Illugasonar. Lilja, dóttir þessara hjóna, var farin, gift Árna Jónssyni timburkaupmanni í Reykjavík, dóttursyni Árna hreppstjóra Hildibrandssonar. Húsið var lengi nefnt Hekla.
72. Á þessum stað er nú húsið Strandgata 31. Húsið, sem þarna stóð, var nefnt Ragnheiðarhús. Þá var minni tækni við að slétta úr hrauninu, og stóð það uppi á kletti, sem a. m. k. börnin kölluðu Ragnheiðarhól. Þetta var kennt við Ragnheiði Björnsdóttur ljósmóður. Hún var þó ekki nefnd þannig, heldur Ragnheiður yfirsetukona. Þá var með öðrum orðum sjaldan talað um trésmiði, járnsmíði eða ljósmæður, heldur snikkara, klénsmiði og yfirsetukonur. Ragnheiður mun hafa verið dáin þegar hér er komið, en í húsinu bjó Margrét Friðriksdóttir, ekkja Péturs Þorlákssonar. Önnur af dætrum hennar var hjá henni, Friðrika Þorláksína, sent giftist Helga Jónssyni frá Tungu.
Tvær fjölskyldur fóru úr Ragnheiðarhúsi 1902, Hallgrímur Jónsson, sem getið var um á Jófríðarstöðum, og Sigmundur Sveinsson skósmiður, sem síðar verður talað um. Aðrar tvær þeim, en þau voru: Jón og Engilráð, sem nefnd var með þeim fyrstu í þessari ritsmíð, og Eyjólfur á Brúsastöðum, sem nefndur verður með þeim síðustu. En hjá þessum hjónum voru tveir fóstursynir: Valdimar Eyjólfsson, sonarsonur þeirra, og Jón Rósant Jónsson, sem kvæntist Hallberu Petrínu Hjörleifsdóttur. Fjölskyldur eru komnar þangað við árslok: Guðmundur Guðmundsson, kenndur við Deild á Akranesi, og kona hans, Kristjana Kristjánsdóttir. Börnin sem hjá þeim voru: Guðrún, Óskar og Kristinn. Þetta fólk flutti til Reykjavíkur og Guðmundur og Kristjana skildu. Hitt voru ung hjón, Snorri Frímann Friðriksson, sonur Elínar í Gerðinu, og Sigríður Eyjólfína Steingrímsdóttir. Þau byrjuðu þarna búskap sinn.
73. Þetta hús stendur enn sem Austurgata 31, en mun hafa verið lengt. Þar bjó Guðrún Sigvaldadóttir, ekkja Jóhanns Baldvinssonar. Börnin: Guðbergur, nú málari í Reykjavík, Sigurgeir, pípulagningamaður, Reykjavík, Þórunn, giftist Jóni Hanssyni — Þau fóru til Englands — og Málfríður. Á tímabili síðar var þetta hús nefnt Hagakot.
74. Á þessum stað er nú húsið Austurgata 29 B. Þar bjó þá — og til dauðadags 1947 — Sigurður Jónsson. Þar sem það er svo algengt nafn, var hann nefndur lóðs, til frekari skilgreiningar, þótt aldrei stundaði hann það starf, heldur faðir hans og Gísli bróðir hans. Sigurður bjó þá með fyrri konu sinni, Guðnýju Ágústu Gísladóttur. Börnin, sem fædd voru: Gísli, Guðmunda Lilja og svo Jón, sem staðið hefur framarlega í verkalýðshreyfingunni. Á þessu heimili var vinnukona, Jóhanna Símonardóttir, sem giftist Marjóni Benediktssyni sem áður var getið (nr. 49), og lausakona, Oddný Jónsdóttir. Síðar fæddust í þessu hjónabandi Sigurður, Kristján og Valgeir. Eftir að Ágústa dó, kvæntist Sigurður Þórólínu Þórðardóttur. Börnin frá því hjónabandi: Sigurlína Svanhvít, Þórunn, Ágústa, Ásta og Þórður.
75. Þar sem þetta hús stóð er nú húsið Austurgata 27 B. Þar bjuggu hjónin Kristján Friðriksson og Kristín Þórðardóttir. Börnin voru farin frá 76. Þessi bær var af sumum nefndur Langi bærinn, þótt varla hafi lengdin verið mikil, nema e. t. v. miðað við breiddina. Hann stóð nálægt þar sem nú er húsið Hverfisgata 36. Þar bjó Kristín Þorsteinsdóttir, ekkja Níelsar Friðrikssonar. Hún var með Þorstein son þeirra. Þar var líka Kristín Ásbjarnardóttir, sem skömmu síðar byggði bæinn sinn ofan og austan við bæinn á Snös-inni (nr. 80). Margir muna eftir Kristínu þessari. Hún vildi ekki láta neitt fara forgörðum.
76. Þessi bær var af sumum nefndur Langibærinn, þótt varla hafi lengdin verið mikil, nema e.t.v. miðað við breiddina. Hann stóð nálægt þar sem nú er húsið Hverfisgata 36. Þar bjó Kristín Þorsteinsdóttir, ekkja Níelsar Friðrikssonar. Hún var með Þorsteinson þeirra. Þar var líka Kristín Ásbjarnardóttir, sem skömmu síðar byggði bæinn sinn ofan og austan við bæinn á Snösinni (nr. 80). Margir muna eftir Kristínu þessari. Hún vildi ekki láta neitt fara forgörðum.
77. Um þetta leyti var farið að kenna þennan bæ við þáverandi húsráðanda þar, Elentínus Þorsteinsson. Eldra nafn var Guðnabœr, en þriggja barna Guðna þess er hér getið, Kristínar, móður Marjóns og Þorláks, Kristjáns (nr. 71) og Guðrúnar í Efra-Brúarhrauni. Þar sem þessi bær stóð er nú húsið Austurgata 27. Elentínus bjó með Ingibjörgu Sigurðardóttur. Þau áttu saman einn son, Óskar Sigurð, sem nú er prestur í Noregi.
78. Þar sem þessi bær stóð er nú húsið Gunnarssund 6. Þangað voru þá komin hjónin Sveinn Gíslason og Helga Kristin Davíðsdóttir. Börnin: Dýrfinna Kristín, giftist til Raufarhafnar, Davíð Valdimar, dó ungur, Guðjón Kristinn, kvæntist Kristensu Arngrímsdóttur, Sigurrós Guðný, nú lengi formaður verkakvennafélagsins giftist Magnúsi Kjartanssyni, og Jónas, forstjóri í Dverg, kvæntur Guðrúnu Jónsdóttur.
79. Þorkelsbœr. Þar er nú húsið Hverfisgata 30, en þar sem það er alveg á sama stað og bærinn var og lokar því Gunnarssundinu, þarf það að færast. Þarna bjuggu hjónin Þorkell Snorrason og Jóhanna Halldórsdóttir. Þau voru barnlaus, en tvö af fósturbörnunum voru komin til þeirra, Sólveig J. Eiríksdóttir, sem giftist Guðmundi Hólm — og áttu þau síðan heima á þessum stað til dauðadags — og Kristinn Pétursson Auðunssonar (sbr. nr. 20), síðar skósmiður. Þar var líka gömul kona, Kristín Halldórsdóttir, og að lokum skal getið um Guðmund Guðmundsson, sem alltaf var kenndur við Hól í Garðahverfi. Hann leigði hjá „blessuðum gömlu Þorkelshússhjónunum“, en svo voru þau nefnd af einni nágrannakonunni og munu hafa verið vel látin.
80. Það var í daglegu tali nefnt á Snösinni, en í kirkjubókum Hábær. Hann stóð á klettinum vestan við þar sent nú er húsið Hverfisgata 31, eða nokkru vestar en sá klettur nær nú. Þar urðu íbúaskipti 1902. Tómas Halldórsson skósmiður flutti þaðan til Reykjavíkur með fjölskyldu sína, en þá komu þangað hjónin Eyjólfur Árnason og Guðrún Gottsveinsdóttir. Þau áttu eina dóttur barna, Sigríði Árnýju, sem giftist Magnúsi Böðvarssyni. Líka var á Snösinni Sigríður nokkur Pétursdóttir.
81. Bær Bjarna Markússonar. Þar er nú húsið Hverfisgata 24. Bjarni bjó á þessum stað um fjölda ára. Kona hans hét Guðlaug Þorsteinsdóttir og var systir Einars, sent áður er getið (nr. 69), en Bjarni var sonur Kristínar Halldórsdóttur (nr. 79). Framtíðin, börnin voru Magnús bryggjuvörður, sem kvæntist Kristínu Jóhannesdóttur, og Þuríður Engilrós, gift Eyjólfi Bjarnasyni frá Katrínarkoti. Þarna leigði þá — og um mörg ár — Magnús Nikulásson. Hann fékkst nokkuð við seglasaum. Áður var gengið heim til Bjarna frá Austurgötunni og áður en hún var komin þá frá gangstígnum upp að Þorkelsbæ og Snösinni, þ.e. Gunnarssundið — þar sem Sigurður lóðs, Kristján Friðriksson og Kristín Þorsteinsdóttir fóru. Þar var mikið af kálgörðum, en að vestan, meðfram gangstígnum heim til Bjarna Markússonar, var Einarsgerðið, túnskiki með klettum og gjótum og hlykkjóttum grjótgarði í kring. Leifar þess er bletturinn fyrir neðan gamla elliheimilið.

Húsin eru frá vinstri, Gunnarssund 1 þar sem áður stóð Gunnarsbær, Gunnarssund 3, Gunnarssund 4 og Gunnarssund 6.
82. Og þá er komið að Gunnarsbœnum. Gunnar Gunnarsson hafði þá misst konu sína, Margréti Sigurðardóttur, en bjó með ráðskonu, Guðlaugu Vigfúsdóttur. Börn Gunnars voru farin að heiman nema það yngsta, Þórarinn, sem enn á heima á sama stað, Gunnarssundi 1. (Kvonföng, sjá síðar). Það elzta, Jón Hjörtur, drukknaði aldamótaárið, en Jón Hjörtur sonur hans, nú kvæntur Guðríði Einarsdóttur, var þá hjá Gunnari afa sínum. Þarna er líka talin önnur fjölskylda: Steinunn Jónsdóttir, ekkja Jóns Hjartar Gunnarssonar með Gunnar son þeirra sem kvæntist Guðnýju Sæmundsdóttur. Þriðja barn Jóns Hjartar eldra og Steinunnar er Margrét, sem þá var í Reykjavík hjá Önnu föðursystur sinni. Hún — Margrét — giftist Jóhanni Tómassyni, hálfbróður Sigfúsar, sem getið var á Steinum (nr. 23). Tveir synir Gunnars eru ótaldir, Vilhjálmur, sem kominn var til Bíldudals, og Sigurjón til Patreksfjarðar, en hefur nú verið í Hafnarfirði frá 1907, kvæntur Jónfríði Halldórsdóttur.
83. Markúsarbœr. Þar byggði Þórður læknir Edilonsson síðar húsið Strandgötu 29, og er það nú Sjálfstæðishúsið. En í þessum litla bæ sem þarna var, bjó ekkjan Anna Markúsdóttir, með syni sínum Markúsi Brynjólfssyni, sem þá var enn ókvæntur. Hann var stundum kenndur við Brandsbæ, því að þau komu þaðan.
84. Ingibjargarbœr. Þar bjó „Ingibjörg ekkjan“, þ. e. Ingibjörg Þorsteinsdóttir, ekkja Guðmundar Einarssonar. Tvö af börnunum voru hjá henni, Þórdís, sem svo flutti til Reykjavíkur og Þorsteinn, sem kvæntist Guðrúnu Jónsdóttur frá Urriðakoti. Þau bjuggu á þessum stað — Strandgötu 27 — til dauðadags. Hjá Ingibjörgu var líka ekkjan Helga Jónsdóttir.
85. Hús þetta var byggt um þetta leyti og er að réttu lagi nr. 23 við Strandgötu. Þó má vera, að það hafi ekki verið byggt upp að nýju þá, heldur eldra húsi breytt, breikkað og sett á það brotið þak. Þarna bjó Hans Ditlev Linnet, sonur Linnets gamla kaupmanns, sem síðar verður minnzt á (nr. 95). Hans Ditlev bjó með ráðskonu, Kristínu Jónsdóttur. Hjá þeim voru tvö af börnunum, sem þau áttu saman, Lilja Kristín, sem giftist Vilhelm Bernhöft bakara og Gunnar Hafstein, sem kvæntist Rósu Jóhannsdóttur, en Rannveig ílentist austanfjalls. Hans Ditlev átti fleiri börn: Hansínu sem áður er getið (nr. 69), aðra Hansínu, sem giftist Þórði Bjarnasyni kaupmanni frá Reykhólum og Kristján bæjarfógeta í Vestmannaeyjum. Linnet byggði nokkru eftir þetta húsið Linnetsstíg 3, og var þar það sem eftir var æfinnar.
86. Brúarhraun. Lækurinn féll áður vestar til sjávar en nú. Brúin var þar sem nú er apótekið (þar af nafnið Brú á kotinu nr. 56) og áður var hún enn vestar og þar af dregið nafnið Brúarhraun. Brúarhraunshúsið stóð rétt vestan við húsið sem skrifað var um hér á undan. En þegar Strandgatan var steypt, var hún lögð beinni á þessu svæði og húsið flutt burt í heilu lagi. Það er nú múrhúðað og óþekkjanlegt, sem Öldugata 27. Þarna bjuggu hjónin Magnús Halldórsson og Steinunn Einarsdóttir. Þau áttu tvær dætur, Hallgerði, sem dó tvítug á jóladag 1908 og Halldóru sem einnig dó ógift og barnlaus. Uppi á loftinu í Brúarhrauni voru löngum einhverjir leigjendur, oft tveir karlmenn, og þannig var það þetta umrædda ár. Annar var Guðmundur, sonur Guðmundar Hóls (sjá 79).
Reyndar virðast fáir muna eftir honum, en hann mun hafa verið mikið á sjó. Hinn var gamall maður sem Árni hét, Gíslason. Sennilega er það Árni sá sem kenndur er við Kringlu í Grímsnesi. Tveggja sona hans — hálfbræðra — er áður getið, Sigurðar (nr. 16) og Eyjólfs (nr. 80) og eitt sinn bjó hann líka með Kristínu Halldórsdóttur (nr. 79). Þau bjuggu á Brú (56), sem þá var stundum nefnt á Kringlu. Með Kristínu átti Árni Guðrúnu, sem giftist Ólafi Grímssyni, bróður Stefáns, sem getið var um í Nýjabæ (nr. 14). Marín, alsystir Eyjólfs, var þá austur í Grímsnesi og Guðbjörg var heldur ekki í Firðinum. Hún var alsystir Sigurðar. Fyrir framan hvert þessara fjögurra síðasttalinna kota — sem stóðu nokkurn veginn í röð — var kálgarður. Á milli Brúarhrauns og Arahúss (nr. 89) var gangstígurinn upp að tveim næstu kotum.
87. Jörginarbœr. Á þeim stað byggði Oddur Pétursson frá Hóli í Garðahverfi, húsið Austurgötu 24 B. Í bænum bjó ekkjan Jörgína Kristjánsdóttir, með dóttur sína, Guðlaugu Magnúsdóttur. Hin börnin ólust upp annars staðar: Stefán, sem þá var í Mosfellssveitinni, síðar bóndi i Litla-Lambhaga í Hraunum og Margrét, gift Bjarna Erlendssyni í Víðistöðum.
88. Þetta hús var stundum nefnt Brúarhraun, eða Efra-Brúarhraun, til aðgreiningar frá hinu. Þar er nú húsið Austurgata 22 B. Þar bjó Guðrún Guðnadóttir, ekkja Þorsteins Guðmundssonar. Tvö af börnum hennar voru hjá henni, Nikólína og svo Sigurður, sem mest auglýsti „málverk til tækilærisgjafa“. Þar var líka Þorsteinn Jónsson, sem svo kvæntist Nikólínu og María Guðmundsdóttir, systir „Péturs í fóninum.“ Ólafur, sonur Guðrúnar var þá í Keflavík.
89. Kotið sem stóð þarna, hét upphaflega Götuprýði, enda var enginn kálgarður fyrir framan það eins og hin, heldur stóð það alveg fram við götuna. Hinum megin var uppfylling, sem sjórinn náði upp að. Var það „mannvirki“ nefnt Arahússtétt, því að nafnið Arahús festist fljótlega við húsið, eftir að Ari Jónsson frá Stokkseyri kom þangað um 1857 og gerðist verzlunarstjóri í Hafnarfirði.
Þuríður formaður var þá hjá honum við verzlunarstörf um skeið. Árið 1902 var gamla Arahúsið rifið, en byggt tveggja hæða timburhús með skúrþaki. En þar sem það var byggt alveg á sama stað, varð það að víkja, þegar Strandgötunni var breytt, og var þá rifið. Ekki hefur þá bræður Jóelssyni skort leigjendur í sitt nýja hús, því að við árslok 1902 virðast hafa verið þar sex fjölskyldur. Fyrst skal nefna Ingvar Jóelsson, sem var skipstjóri, en rak dálitla verzlun síðari árin. Kona hans hét Halldóra Torfadóttir. Hjá þeim var einkasonur þeirra, Jóel Friðrik, sem kvæntur er Valgerði Erlendsdóttur, systur Sigríðar, sem minnzt var á áður (nr. 59).
90. Á þessum stað eða örlítið neðar er nú húsið Strandgata 19. Þar bjuggu hjónin Einar Jóhannesson Hansen — sem Einarsgerðið fyrrnefnda var kennt við — (sjá 81) og Jensína Árnadóttir. Börnin: Árni, dó ungur, Jón verkstjóri, Þórunn giftist Agli frá Hellu (nr. 24), Jóhannes, varð seinni maður Steinunnar Pálmadóttur, og Guðrún, varð fyrri kona Þórarins Gunnarssonar (nr. 82). Einar Jóhannesson andaðist í febrúar 1921, og var lík hans það fyrsta, sem jarðsett var í kirkjugarðinum uppi á Öldum. Áður voru Hafnfirðingar eins og kunnugt er jarðsettir í Garðakirkjugarði.

„Linnetsverslun“ við Sýslumannsveginn eða Sjávargötuna sem nú er Strandgata í Hafnarfirði. Tvær bryggjur eru á myndinni, þá fremri átti Jes Th. Christensen kaupmaður en hina átti H. A. Linnet kaupmaður. Húsið lengst til vinstri er fisksöltunarhús Jóns Jónssonar útvegsbónda í Hraunprýði og Ólafs Þorvaldssonar í Ólafsbæ. Næst því er vörugeymsluhús Linnets með gaflinn fram að firðinum en við hliðina á því er láleistur fiskgeymsluskúr Linnets. Á milli geymsluskúrsins og vörugeymslunar var stígur sem lá upp að byggðinni fyrir ofan. Íbúðar- og verslunarhús Linnets nýr framhliðinni að fjörunni.
91. Linnets-fjósið. Það var lítið, varla fyrir fleiri en tvær kýr, og stóð utan í kletti. (Fjóskletti, sbr. Sögu Hfj. bls. 394). Ekki var það ásjálegt, mestmegnis úr torfi og grjóti. Þarna er nú blómabúðin við Strandgötuna, og þætti víst ekki vel fara á að hafa þar fjós nú. Það var kennt við Linnet eldra (sjá 95).
92. Hendrikshús. Það stendur enn, og mun hafa verið óvanalegt á þeim tíma að hafnfirzkt einbýlishús slagaði svo hátt upp í dönsku eða hálf-dönsku verzlnarhúsin að stærð. Þar bjuggu hjónin Hendrik Jóhannesson Hansen — bróðir Einars — og Jónína Jónsdóttir. Þau áttu eina dóttur barna, Hendriku, sem giftist Ólafi bónda Runólfssyni og átti heima á þessum stað — Strandgötu 17 — til dauðadags. Hjá Hendrik var þá Jón, sem þá var nefndur föðurnafni sínu — Árnason — og jafnvel nafn afa hans nefnt líka, til aðgreiningar frá Jóni Árnasyni Mathiesen. En síðari hluta ævinnar var hann nefndur Jón Welding.
93. Hraunprýði. Þar er nú húsið Linnetsstígur 2. Hraunprýðis-húsið stendur þó enn og er nú talið Hverfisgata 18, því að þangað lét Sigurður Ólafsson kennari flytja það, árið 1919. Hér verður nú gerð nokkur undantekning og minnzt fyrst á fólk, sem var þarna fyrir aldamótin, þótt það væri farið úr Hraunprýði, þegar hér er komið, og sumt yfir móðuna miklu. Það voru hjónin Jón Jónsson útvegsbóndi og Þórunn Gunnarsdóttir, systir Gunnars í Gunnarsbæ (nr. 82). Fimm barna þessara hjóna er áður getið, en þau eru þessi, eftir aldursröð: Ólafur (nr. 60), Jónína (nr. 92), Daníel (nr. 46), Jóhannes (nr. 68), og Ágúst (nr. 46). Önnur börn Jóns í Hraunprýði voru Brynjólfur og Sigurjón, sem fóru til Ameríku, Pétur, verzlunarmaður í Rvík, sem lifði lengst þessara sysktina, og það yngsta, Sigríður, sem dó ung. En nú var kominn að Hraunprýði ungur maður og röskur, Kristinn Kristjánsson skipstjóri, þá með fyrri konu sinni, Rannveigu Jónsdóttur. Þrjú af börnum þeirra voru fædd: Kristrún, sem varð fyrri kona Friðfinns Stefánssonar (33) en dó skömmu síðar, Kristján, síðar skipstjóri, kvæntur danskri konu, Sigrid, og Kristveig Þórunn. Yngsta systkinið, Þóra, — sem er tvígift — var ekki fædd. Kristinn og Rannveig skildu og hann kvæntist síðar Helgu Jónsdóttur og átti með henni Jóhann og Kristin.
Árið 1902 komu í Hraunprýði foreldrar Rannveigar, Jón Guðmundsson og síðari kona hans, Vilborg Jónsdóttir. Hjá þeim var Vilborg Eiríksdóttir, sem svo giftist Eyjólfi Þorbjörnssyni, og svo Þórður nokkur Grímsson próventukarl. (En ekki fleiri, það athugist áður en lengra er lesið.) Jón og Vilborg komu frá Setbergi, og við þau — eða hann sérstaklega — var kennd Setbergsættin. Hann mun hafa átt frá fyrra hjónabandi tvær dætur sem fóru til Ameríku og Guðrúnu, sem síðar verður getið, og Egil og svo Eirík, föður Helgu í Stekk og Vilborgar yngri „hér“ í Hraunprýði. Börn frá seinna hjónabandi: Jón trésmiður, — tók sér nafnið Setberg — Guðjón og Guðmundur, sem kvæntist Guðrúnu systur Ingvars Guðmundssonar (nr. 103) og bjó í Hlíð í Garðahverfi, og þrjár systur sem áður er getið, Elín (nr. 21), Sigríður (nr. 70) og Kristín (nr. 85), Vilborg, sem bjó á Laug í Biskupstungum, Ingveldur sem bjó á Þorbjarnarstöðum í Hraunum og Sigurbjörg sem bjó í Urriðakoti og áttu báðar fjölda barna, og svo yngsta barn Jóns á Setbergi, Rannveig áðurnefnd. Ekki þætti gerlegt nú á tímum að þrjár fjölskyldur væru til heimilis í þessu húsi, en svo var það þó 1902, en að vísu ekki nema það eina ár. Þá komu þangað úr Vatnsleysustrandarhreppi hjónin Ólafur Þorkelsson og Herdís Hannesdóttir, sem enn er á lífi. Elzta barn þeirra, Guðrún, gift Eyjólfi Kristinssyni, varð eftir í Flekkuvík, en hjá þeim var Þorkell sonur þeirra, sem dó um fermingaraldur. Þar var líka Valgerður Ólafsdóttir frá Hlíðsnesi, sem margir muna eftir. Ólafur og Herdís áttu síðar Þórhildi og Ólínu. Hún drukknaði. Ólafur byggði árið 1903 húsið Kirkjuveg 13.
94. Þetta hús, ásamt húsunum 95, 96 og 100, var eign Hans Adolph Linnets og síðar dánarbús hans til 1896, en voru nú komin í eigu Jörgen F. F. Hansens (nr. 102). Hús þetta tók lengra fram en önnur, var svart og sennilega ekki ásjálegt að ytra útliti. Það mun lítið hafa verið notað þegar hér var komið, en í Sögu Hafnarfjarðar er gerð nákvæm grein fyrir hvernig Linnet eldri notaði það á velmaktardögum sínum. Hafði það verið saltgeymsluhús, loftið notað fyrir heyhlöðu og í norðurendanum fjós og jafnvel líka hesthús.
95. Hið gamla verzlunar- og íbúðarhús Hans Adolph Linnets. Hafði íbúðin verið í norðurenda hússins, en verzlunin í suðurendanum. Eftir að Hans Adolph dó, rak sonur hans, Hans Ditlev (85), verzlunina í tvö ár. Frá 1898 verzlaði þar enginn, og stóð húsið autt og ónotað að mestu, þar til það var rifið eftir skemmdir í bruna árið 1911. Fyrir ofan húsið stóð reyniviðarhrísla sem þótti stór og merkileg. Var þó aðalástæðan sú, hversu óvíða þessháttar sást þá. Aðeins trjágarðurinn við suðurgafl sýslumannshússins mun hafa verið kominn. Það sjást víðar hríslur í Hafnarfirði nú. Þar sem þetta hús stóð, er nú fiskverkunarhús á horni Linnetsstígs og Strandgötu.
96. Þetta hús var í þá daga nefnt Rauða pakkhúsið, og hefur því sjálfsagt verið rauðmálað. Það var veggjahátt, eftir því sem þá gerðist, enda yngst húsanna á þessu svæði þá og stendur enn. Það er á milli fiskverkunarhússsins sent síðast var getið og húss, sem einnig er haft til svipaðra nota nú, en var byggt sem Rafmagnsstöð Hafnarfjarðar. Það var góð skemmtun hafnfirzku barnanna á þessum árum að reyna að hitta með bolta í bitann, sem stendur fram úr húsgaflinum efst.
Nú skal farið upp á milli tveggja pakkhúsa.
97. Við suðurgafl hússins nr. 102 stóð lítill hjallur og svo þessi bær hinum megin við hjallinn, eða e.t.v. örlítið ofar. Eða svo þetta sé staðsett enn betur: hefði húsið Austurgata 16 verið byggt þá, hefði það rekið vesturhornið í bæinn. Þótt hann væri stundum kenndur við húsbóndann þar, hét hann réttu nafni Ólafsbær, kenndur við Ólaf Þorvaldsson fiskimatsmann, tengdaföður Önnu Katrínu Árnadóttur (nr. 62). Sigríður Pálsdóttir, sem einnig er getið áður (89), var fósturdóttir Ólafs þessa og ráðskona hjá honum síðustu ár hans. Hún erfði þennan bæ og átti hann enn þegar hér er komið. En þar bjó Knútur Bjarnason með ráðskonu, Guðbjörgu Ólafsdóttur. Reyndar vissu ekki margir hennar fulla nafn, því að hún var ávallt nefnd Bjarga. Knútur er mörgum nokkuð minnistæður. Hann saumaði skinnklæði. Áfengisneyzla hafði alltaf þau áhrif á hann, að hann grét. Hann byggði skömmu síðar sinn eiginn bæ, þarna skammt fyrir ofan.
98. Þessi bær er stundum í kirkjubókum nefndur Hraungerði, en sjaldan mun það hafa heyrst í daglegu tali. Þarna bjuggu barnlaus hjón, Jón Sigurðsson, bróðir Helga áðurnefnds (nr.) 70), og Hólmfríður Magnúsdóttir. Þau ólu upp Guðfinnu, dóttur Péturs Auðunssonar (sbr. 20). Hún var hjá þeim þá, en fór til Ameríku. Jón byggði nokkru síðar hús á þessum stað. Það stendur enn sem Austurgata 13, en er ekki notað til íbúðar.
99. Jörundarhús. Það stendur enn, mitt á milli Austurgötu og Hverfisgötu og er talið Austurgata 15. Þar voru tvær fjölskyldur 1902. Annað var Jörundur Þórðarson smiður og kona hans, Margrét yfirsetukonu Guðmundsdóttir. Þau áttu eina dóttur barna, Emilíu Láru, sem enn á heima í þessu húsi. Hin fjölskyldan voru hjónin Guðmundur Jóelsson, bróðir bræðranna í Arahúsi (nr. 89), og Guðlaug Illugadóttir. Börn þeirra, Þórunn og Sigurður, voru fædd, en ekki Óskar. Hann var mállaus.
100. Vestan við Rauða pakkhúsið var hús sem sneri eins og það, en var grámálað, eldra og veggjalægra. Saltskúr var við efri enda þess.
101. Geymsluhús eða þess háttar, frekar lítið og lágkúrulegt og sneri öfugt við hin pakkhúsin, hliðinni að sjónum. Fyrst áttu þetta hús Ólafur Þorvaldsson og Jón í Hraunprýði og næst bræðurnir Einar og Hendrik J. Hansen, og var það í því tímabili nefnt Bræðrapakkhúsið. En svo að aftur sé minnzt á fasteignakaup Jörgen F. F. Hansens, þá keypti hann fyrir aldamótin eftirtalin hús: 1. ( 95) íbúðarhús með verzlunarbúð og geymsluhúsi. 2. ( 96) Hið stóra og nýja pakkhús, tvíloftað. 3. (100) Vesturpakkhúsið með saltskúr. 4. ( 94) Salthúsið. 5. ( 91) Fjós og hænsnahús. Svo að ekkert sé undan skilið, skal þess getið, að þetta hænsnahús stóð efst á túnblettinum þar sem reyniviðarhríslan var, fyrir ofan gamla verzlunarhúsið. En því skrifast þetta hér, að um aldamótin keypti Hansen einnig þetta hús, Bræðrapakkhúsið.
102. Þetta hús stendur enn sem Austurgata 12, og mun vera að mestu óbreytt að utan, frá því sem það var þá. Það var byggt af Ólafi Jónssyni borgara og þótti stórt. En þegar hér er komið var það eign Jörgen F. F. Hansens. Hann bjó þarna og verzlaði þar líka, en ekki í íbúðar- og verzlunarhúsi tengdaföður síns. Hansen var búinn að missa fyrri konu sína, Regine, dóttir H. A. Linnets, en var nú kvæntur systur hennar, Henriette Ykdolfine. Fyrra hjónabandið var barnlaust, en dæturnar frá því síðara voru heima: Regína, sem giftist Fritz Berentsen trésmíðameistara, og Kristín. Hún fór til útlanda. Tvo syni áttu þau: Hans Jörgen Christian Ferdínand Friðrik Valdimar, sem varð framkvæmdastjóri í Reykjavík, og Hans Jörgen Ferdínand Friðrik Lorents Christian, sem verzlaði í Hafnarfirði sent kunnugt er, þar sem áður var Brydes-verzlun. Heyrzt hefur að ástæðan fyrir nafnafjölda þessara bræðra væri sú, að faðir þeirra hafi ætlað að koma prestinum í bobba við skírnarathöfnina — hvað ekki tókst.
103. Hús þetta stóð fyrir vestan næsttalið hús hér á undan, í sömu stefnu. Það var nokkuð stórt, en ekkert hús er alveg á þeim stað nú. Eigandinn, Jón Steingrímsson, sem síðar verður getið, bjó ekki í því, en árið 1902 kom þangað Ingvar Guðmundsson. Séu einhverjir á lífi, þegar þetta er ritað, af þeim sem búnir voru að stofna heimili 1902, er þess getið. Ingvar er í þeim fámenna hópi. Hjá honum var Rebekka tengdamóðir hans og tvö af börnunum, Þorgils Jónatan og Rebekka, sem gift er Jóni Andréssyni, sem áður var getið (nr. 11). Mið-barn Ingvars frá þessu hjónabandi, Guðmundur, var annars staðar. En hjá Ingvari var líka Halldór Hatlsen, nú yfirlæknir. Þau voru systkinabörn, hann og fyrri kona Ingvars, Halldóra Þorgilsdóttir, sent þá var fyrir skömmu dáin. Svo var þar María Njálsdóttir, en þau voru að miklu leyti fósturbörn Rebekku eldri, Halldór Hansen og hún. Þar var ennfremur Ingibjörg Símonardóttir, sem giftist Guðmundi Þorbjörnssyni. Jóhönnu systur hennar hefur áður verið getið (74) og bræðra Guðmundar, Eyjólfs (93) og Marteins (21). Ingvar Guðmundsson byggði síðar húsið Strandgötu 45. Hann er nú kvæntur Guðrúnu Andrésdóttur, sem einnig var minnzt á áður (nr. 6).
104. Á þessum stað er nú húsið Strandgata 7. Húsið, sent stóð þar 1902, hét að réttu lagi Theodórshús, kennt við Theodór Mathiesen. Áður stóð Árnahúsið þarna, kennt við Árna, föður Tlteodórs þessa, Jóns (nr. 68), Önnu Katrínar (nr. 62) og Jensínu (90), sem áður er getið, og Matthíasar skósmiðs, sem þá var enn í Reykjavík, en hann var faðir Jóns kaupmanns, Theódórs læknis og Árna verzlarstjóra. Bróðir Árna Mathiesen eldra var Matthías, sem fyrstur byggði suður á Möl (húsið 34) og var faðir Bjarna hringjara í Reykjavík. Enginn af Mathiesensættinni var þó í þessu húsi 1902. Jóhann Björnsson fór þaðan það ár með fjölskyldu sína, en við árslok er kominn þangað Sigmundur Sveinsson skósmiður, sem, eins og áður er getið, var í Ragnheiðarhúsi (nr. 72). Einnig var getið um tvö systkin hans, Þorstein (44) og Theodóru (59) og svo Snorra (59), sem var dáinn, en Þorgrímur, bróðir þeirra, var ekki í Firðinum þá. Kona Sigmundar hét Kristín Símonardóttir. Elzta barn þeirra var fætt: Sesselja. Fleira var í heimili: Sigurður Símonarson, Benedikt Friðriksson og Elín Egilsdóttir, hálfsystir Kristínar. Sigmundur varð seinna húsvörður Miðbæjarskólans í Reykjavík og er enn á lífi.
105. Filippusarbeer. Þar er nú húsið Austurgata 8. Þar bjuggu hjónin Filippus Filippusson og Ragnheiður Þórarinsdóttir. Þau voru barnlaus, en hjá þeim var María, systir Steinunnar konu Vigfúsar Gestssonar (51). Hún var með son sinn, Hafliða Jón Hafliðason, nú skipasmið í Reykjavík.
106. Þessi bær stóð ekki langt frá þar sem nú er húsið Hverfisgata 6 A. Þar bjó Sigríður Steingrímsdóttir, ekkja Torfa Jónssonar hafnsögumanns, með Steingrími syni þeirra. Hann stundaði barnakennslu, kaupmennsku o. fl. og var lengi formaður sóknarnefndar þjóðkirkjusafnaðarins. Hann kvæntist Ólafíu Hallgrímsdóttur.
107. Á þessum stað er nú húsið Hverfisgata 8 — þar sem fyrst var byggt hús 1902. Það gerði áðurnefndur (104) Jóhann Björnsson. Kona hans hét Guðrún Þorbjörnsdóttir. Þeirra börn: Guðbjörn, fór út með hollenzkum togara 1914 og drukknaði nokkru síðar, Guðríður Ágústa, nú í Reykjavík, Björn, kvæntist Guðnýju Jónsdóttur. Önnur fjölskylda var einnig í þessu húsi: Ung hjón, Björn Benediktsson bróðir Þorláks og þeirra bræðra, og Helga Halldórsdóttir. Eftir lát hennar kvæntist Björn aftur.
108. Á þessum stað er nú húsið Hverfisgata 11. Þessi bær mun stundum hafa verið nefndur Hansensbær, af hverju sem það hefur verið. Þarna urðu ibúaskipti 1902. Hjón, sem síðar verður talað um, Sigurður Friðriksson og Oddný Eiríksdóttir, fóru þaðan, en |>á komu þangað mæðgurnar Kristín Einarsdóttir og Sigríður Jósepsdóttir, sem giftist Markúsi Brynjólfssyni (nr. 83). Þær voru með fósturson sinn, Gunnlaug Hildibrandsson, sem kvæntist Oddnýju Níelsdóttur, systur Þorsteins í „Langa bænum“ (76). Líka komu í þennan bæ, þótt lítill væri, hjónin Hildibrandur Gunnlaugsson — faðir Gunnlaugs — og Guðrún Hermannsdóttir, sem enn er á lífi, en hún var ekki móðir Gunnlaugs. Hjá þeim var hins vegar Eiríkur sonur hennar, en ekki Hildibrandsson. Þrír synir voru fæddir, af börnunum, sem þau áttu saman, Snæbjörn Sveinþór, sem drukknaði í Veiðibjöllustrandinu, 1924, Hermann Karl, sem dó af skotsári, og Valdimar, símalagningamaður. Síðar fæddust Katrín, Valgerður og Gísli. Hildibrandur var bróðir Solveigar konu Stefáns snikkara (33).
109. Oftast nefnt „á Hól“, hvað sem allri málfræði líður. Hafnfirðingar voru — eða eru — heldur ekki einir um að sleppa i-inu aftan af í þessu tilfelli. Þarna bjuggu þá — og til dauðadags löngu síðar — hjónin Guðmundur Einarsson og Vilborg Stefanía Árnadóttir. Húsið er Hverfisgata 13. Börnin: Helga, giftist Júlíusi Jónssyni á Eyrarhrauni, Einar, Sigurvin og Guðrún, sem giftist Pétri Magnússyni bifreiðarstjóra. Guðmundur fæddist árið eftir. Elzta barnið, Sigurður, sem kvæntist Guðnýju Guðvarðardóttur, var þá austur á Fljótsdalshéraði. Einar fór til Hollands með Guðbirni áðurnefndum (107) og var um fjölda ára í siglingum um öll heimsins höf, að segja má, en er nú aftur kominn til æskustöðva sinna.
110. Þorhelsbœr. Þar er nú húsið Reykjavíkurvegur 4 B. Þessi bær og þau tvö hús, sem getið verður um hér næst á eftir, voru oft nefnd sameiginlega á Stakkstæðinu. Í þessum bæ bjuggu hjónin Þorkell Jónsson og Guðrún Þorgeirsdóttir. Eldri sonurinn, Þorsteinn, var farinn að heiman. Hann kvæntist Agnesi, dóttur Theodórs Mathiesen (sjá 104). Hinn var Guðjón, sem kvæntist Guðjónsínu Andrésdóttur (sjá 11). Hjá þessum hjónum var líka Anna, dóttir Þorláks í Hamarskoti. Hún giftist Indriða Guðmundssyni, bróður Brands, sem aðeins var minnzt á áður líka (49). Hér er og talin Ingibjörg Grímsdóttir frá Vífilsstöðum með Vífil Guðmann fósturson sinn. Síðar var hún í Ólafsbæ (97) og loks í Illugahúsi (124) hjá Helga Jakobssyni og Helgu Hannesdóttur, sem urðu síðustu ábúendur í Hamarskoti.
Ætlunin er að lok þessara hugleiðinga birtist að ári (1960).
Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 1959, 19.12.1959, Magnús Jónsson – Hafnfirðingar árið 1902, bls. 14-18.