Færslur

Hafnarfjörður

Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 1966, “Við veginn” – Magnús Jónsson, bls. 21:

“Ein af mestu umferðaræðum landsins er sem kunnugt er vegurinn milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Verður í þessu greinarkorni rabbað um eitt og annað, sem í hugann kemur á hluta af þeirri leið, þótt lesandinn megi ekki búast við að verða að miklum mun fróðari eftir lesturinn en áður.

Magnús Jónsson

Magnús Jónsson.

Nú liggur þar steyptur vegur, en á fyrsta tugi aldarinnar og lengur stóð þar yfir vegarlagning sem leysti reiðgötuna af hólmi, því að um eiginlega lagða vegi var ekki að ræða hér á landi áður fyrr, heldur troðninga, sem ekki voru mótaðir af mannshöndinni, nema e.t.v. nokkrum steinum rutt frá. Þó varð ekki komizt hjá víðtækara verki, þar sem brunahraun þöktu stór landsvæði. En þar hafa menn lyft huganum frá bakraun og tilbreytingarlausum átökum við hnullunga og eggjagrjót með myndum þjóðsagna: Ósk um að berserkir — sem tæpast voru mannlegar verur — fengju rutt vegi um þessa farartálma á svipstundu svo að segja. Samkvæmt þjóðtrúnni gerðist slíkt bæði í Berskerkjahrauni á Snæfellsnesi og í Ögmundarhrauni, sem snemma í byggðarsögu landsins rann í sjó fram milli Krýsuvíkur og Grindavíkur. Er þar auðséð, hvar hægt en óstöðvandi hraunrennslið hefur umkringt mannvirki, — en það er önnur saga.
En hvað sem líður fyrstu myndun lestaveganna í hraununum, þá voru þeir „framtíðarvegir‘, sem fullnægðu kröfum kynslóðanna, sem ekki þekktu annað betra. Öðru máli var að gegna með mýrarkenndan jarðveg. Verið gæti, að margur lestarmaður hafi með nokkurri furðu hugleitt þá tilhögun skaparans, að nautgripunum skyldi veitast svo furðu auðvelt að ösla um þau fen og foræði, sem klyfjahestarnir hans urðu að krækja fyrir, já, oft um langan veg, þótt ekki bæru þeir alltaf þunga úttekt úr kaupstaðnum. „Betri er krókur en kelda“, segir máltækið. Og því er það, að einhverjir fyrstu lagðir vegir voru hinar svonefndu brýr, sem lagðar voru stytztu leið yfir mýrarfláka víða um land. Er eitt slíkt örnefni til hér í nágrenni Hafnarfjarðar, sem er „Dysjabrú’. Er það vegarkaflinn þaðan sem hrauninu sleppir og að Garðaholti. Þetta mannvirki er að sjálfsögðu kennt við Dysjar, eitt þekktasta býli Garðahrepps.

Í þéttbýlinu

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1903.

Þegar halda skyldi t. d. frá Reykjavík til Suðurnesja, var farið um Hafnarfjörð með sjónum. Við Arahús — nánast þar sem nú er Strandgata 21 — var æði stutt bilið á milli sjávarmálsins og hins byggða bóls. Þegar suður fyrir lækinn kom tók við samfelld möl, allt að Hamrinum syðri. Þótt sjávarmöl sé þreytandi manna- og hestafótum, hefur hún ýmsa kosti. Leikvöllur barnaskólans frá 1902 var t. d. þakinn þykku lagi af henni. Varð sársaukinn hverfandi lítill, þótt dottið væri á hnéð í áflogum, þar sem hver steinn var svo afsleppur að hann ýttist frá. Fátt er líka heppilegra til að drýgja með steinsteypu en hrein möl úr fjörunni. En nú er velmegunin svo mikil, að sjaldan er talað um að drýgja nokkurn skapaðan hlut í þeirri merkingu. Gatan sveigði fljótlega upp á við, þar sem enn er farið að Ásmundarbakaríi og Prentsmiðju Hafnarfjarðar, því næst þar sem er Suðurgata 24, en síðan skáhallt upp hallann í átt til sjávar. Fljótlega hallaði því undan fæti aftur og var þá komið á Flensborgarmöl.
Algengt vegarstæði er „milli hrauns og hlíða“, t.d. upp í Kaldársel, en hér hefur það sennilega verið bezt „milli mýrar og malar“, ef svo mætti segja. Síðan lá leiðin með sjónum, líkt og þegar nú er farið að verksmiðjunni Lýsi og mjöl, og reyndar alveg suður að Hvaleyri. Var svo farið beint af augum framhjá Hjörtskoti og komið niður þar, sem síðar var sandnámið verðmæta og umdeilda.

Byggðin að baki

Kapellan

Kapellan – sjá má leifar Alfaraleiðarinnar, sem lá framhjá henni.

Þá tekur hraunið við. Það er með ávölum klettabungum og gróðri sízt minni en í Hafnarfjarðarhrauni. Er m. a. athyglisvert að skoða, hve langir geta orðið leggir blómanna, sem vaxa í klettasprungunum og teygja sig í birtuna. — Nokkurn veginn sézt hvar lestavegurinn liggur, allmiklu nær sjónum en hinir, og hafa hófar og mannsfætur jafnvel unnið nokkuð á sléttum klöppunum. Þó er vegna gróðurs hraunsins ekki eins auðvelt að fylgja þessari slóð í Hellnahrauninu eins og var til skamms tíma, þegar í Kapelluhraunið kom. Það er miklu yngra, sennilega runnið á 12. öld að áliti jarðfræðinga, ólíkt hinu fyrra að allri gerð og liggur ofan á því. Í annálum er hraunbreiðan öll nefnd Nýjahraun. Í því er lítill gróður annar en mosi, og þess vegna var það, að elzta leiðin um það sást svo vel. Hún þaktist öll grasi og öðrum lággróðri eins og græn rönd um gráan mosann, frá norðri til suðurs, sundurslitin af nýrri veginum sunnan til í hrauninu, — lá þar upp fyrir hann.

Selsvellir

Alfaraleiðin.

Flest sagnorð um þann hluta þessarar hraunbreiðu, sem hér er átt við, mætti hafa í þátíð. Hraunið er þar tæpast lengur til, en hefur verið rutt, flutt og sléttað með stórvirkum vélum. Enn hefur þó verið þyrmt mannvirkinu gamla, Kapellunni, sem hraunið næst sjónum dregur nafn af. Í Jólablaði Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1961 er ýtarleg grein um mannvirki þetta eftir Ólaf Þ. Kristjánsson skólastjóra. Það var vorið 1950 að lítið líkneski fannst þar af einum dýrlinga kaþólsku kirkjunnar, heilagri Barböru. Þótti hún góð til áheita gegn hvers konar eldsvoða, sprengingum og þvíumlíku. Þar sem, eins og áður er sagt, að hraunið rann eftir landnámstíð, verður manni ósjálfrátt að tengja þennan dýrling einnig bæn gegn eldgosum og hraunrennsli.

Suðurnesjavegur

Suðurnesjavegurinn vestan Straums.

Vart er hægt að hugsa sér meiri andstæður en hljóðlátt bænarandarp innan veggja þessa litla frumstæða húss og svo þau gífurlegu umsvif nútímans, sem fyrirhuguð eru svo að segja á þessum stað, þar sem er álverksmiðjan. Er þá að engu orðin hin kyrrláta fegurð byggðarlagsins í Hraununum, sem svo er nefnt. Hraunin taka við þar sem Kapelluhrauni sleppir. Kapellan lá alveg við elzta veginn — reiðgötuna, — nýrri vegurinn var ofan við hana, en sá nýjasti — steypti — er fáa metra neðan við.
Í Hraununum voru allmargir bæir, en þó aldrei kirkjustaður. Er nú aðeins Straumur í byggð og Óttarsstaðir tveir. Bærinn í Þýzkubúð stendur enn, og ber hann og nánasta umhverfið vitni um hinn hverfandi eiginleika, nægjusemi. Ofar, þar sem vegirnir liggja nú, voru m. a. Stóri- og Litli-Lambhagi og Þorbjarnarstaðir.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur við Alfaraleið.

Efst liggur reiðgatan gamla, en nú verður aftur erfiðara um vik að fylgja henni. Hraunið, sem við nú erum komin í, er ein af stærri hraunbreiðunum og nefnist Almenningur. Er það álíka gróið og Hellnahraun, en líkist enn meira Hafnarfjarðarhrauni. Elzti vegurinn liggur þar fjærst sjónum eins og áður er sagt, en nýrri vegurinn hjá rauðamelsnámunum og síðan klettaborginni Smalaskála. Steypti vegurinn er enn neðar. Við elzta veginn, nokkru nær Hafnarfirði en rauðamelurinn er tekinn, er vatnsbólið Gvendarbrunnur. Þar var tilvalinn áningarstaður, alltaf vatn og svo grasi gróið sléttlendi umhverfis.
Er slíkt óvíða að finna á Reykjanesskaga, og bendir m.a. til þess hið langa nafn hreppsins, sem við nú nálgumst, Vatnsleysustrandarhrepps. En hér hvílumst við (til næstu jóla?) Hér hefur líka Guðmundur biskup Arason hvílt lúin bein, eftir að hafa vígt vatnslind þessa, öldum og óbornum til blessunar. Og hér umhverfis vatnsbólið sat einn bekkur úr Barnaskóla Hafnarfjarðar fyrir 30 árum, ásamt kennaranum, Friðrik Bjarnasyni. Fölleitur, brúneygur drengur úr þeim hópi hefur stundum farið þangað síðan.”

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 24.12.1966, Við veginn – Magnús Jónsson, bls. 21.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Gamli barnaskólinn fyrir miðju.

Krýsuvíkurkirkja

Þórður Jónsson frá Eyrarbakka skrifaði um “Ferð til Krýsuvíkur” í Heimilisblaðið árið 1945:
“Kæri lesandi,

Ég get hugsað mér, að þú segir við sjálfan þig — kannski líka upphátt — að nóg sé komið af skrifum um Krýsuvík, að óþarft sé þar við að bæta. En ég er nú á annarri skoðun. Þess vegna tek ég mér nú penna í hönd, en lofa því um leið að vera ósköp fáorður, líka vegna þess að langar blaða- og tímaritsgreinar eru mínir verstu óvinir.

krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn.

Fyrir stuttu síðan komu til mín tveir vinir mínir, þeir bræðurnir Baldur og Sigurður prentarar, synir Jóns Helgasonar prentsmiðjueiganda. Þeir voru að leggja upp í skemmtiferð til Krýsuvíkur og buðu mér að koma með. Fyrir mig var vissulega vandi velboðnu að neita. Ég var hálf lasinn og lítt fær til ferðalaga. Ég hafði margheitið því að fara til Krýsuvíkur undir eins og þangað væri komin bílfær vegur, og nú er því langþráðu marki náð, marki allra sannra framfaramanna, en jafnframt hræðilegur þyrnir í augum allra afturhaldsafla Suðurlands. Hafi þeir allir þökk fyrir, sem unnið hafa að því þjóðþrifamáli.
Eftir lítilsháttar athugun á heilsu minni stóðst ég ekki freistinguna og settist upp í bílinn hjá þeim bræðrum og sá um leið og ég settist í dúnmjúkt sæti bílsins, að ég hreinlega var dauðans matur, ef ég gæti ekki setið þar þenna stutta spöl til Krýsuvíkur.
Eftir að hafa gengið vel frá öllu, er tilheyrði þessu ferðalagi, var ekið sem leið liggur suður Hafnarfjarðarveg, og suður á hinn nýja Krýsuvíkurveg.
Leiðinlegt að geta ekki komið við í hinu fagra Hellisgerði. En tíminn leyfði ekki slíkan „lúxus”, því að áliðið var dags. En fyrirheitna landið, Krýsuvík, varð að meta mest af öllu.
Hinn nýji Krýsuvíkurvegur er einhver fallegasti og bezt gerði vegur, sem ég hef séð. Að þeirri vegabyggingu hafa áreiðanlega unnið þeir menn, sem verkinu voru vaxnir.
Vegkantar og uppfylling á jafn ósléttu landi eru snilldarverk. Það er ekki sök þeirra, sem hlaðið hafa þennan fallega veg, þótt hann sé með sama miðaldalaginu og aðrir vegir sem lagðir hafa verið á landi hér síðustu áratugina, að engin leið er nútíma flutningatækjum að mætast á þeim nema á vissum stöðum — útskotunum svonefndum — þar sem hve verður að bíða eftir öðrum. Sjá allir, hvers ramgallað slíkt fyrirkomulag er.

Hellan

Krýsuvíkurvegur um Helluna…

Það er skiljanlegt, að allt á þetta að vera til sparnaðar. En það vita þeir, sem við veglagningar hafa unnið, að vegkantarnir eru víðast hvar langdýrasti hluti vegarins, og minnstu munar, ef efni til uppfyllingar til staðarins, hvort vegurinn er nokkrum sentimetrum breiðari. Þetta fyrirkomulag á hinum nýju vegum, sem hér er drepið á, er áreiðanlega mjög vafasöm búhyggindi. Næstu kynslóðir munu ekki sætta sig við svona vegi með sífellt stækkandi flutningatæki, og endirinn verður að óhjákvæmilegt verður að endurbyggja alla þessa vegi, og það jafnvel áður en langt um líður.
Eins og tekið var fram í upphafi, hefur töluvert verið skrifað nú á seinni árum Krýsuvík. Um nytsemi Krýsuvíkurvegar sem samgöngubót til austurhéraðanna skrifaði bezt og rækilegast Árni Eylands í hitteðfyrra í Alþýðublaðið. Einnig skrifaði Árni Óla blaðamaður um staðinn Krýsuvík í Lesbók Morgunblaðsins fyrir nokkrum, sömuleiðis birtist í blaðinu „Reykjanes í fyrra mjög fróðleg grein um Krýsuvík og nágrenni, en því miður hef ég gleymt nafni höfundar. Og síðast en ekki sízt má nefna rit Geirs Gígja um rannsóknir hans á Kleifarvatni.
Það er ekkert undarlegt, þótt mönnum verði tíðrætt um Krýsuvík. Mönnum er ljóst, að Krýsuvík á sína sögu engu síður en aðrir landshlutar þessa lands. Hvert hérað velur til sína fræðimenn að skrifa sína sögu allt frá landnámstíð. Þessar héraðssögur verða ómetanlegur fróðleikur komandi kynslóðum.
Krýsuvík var heil sveit — hreppur — og heil kirkjusókn allt frá landnámstíð. Þar hafa áreiðanlega lifað og starfað mætir dugnaðarmennn, engu síður en í öðrum landshlutum. En nú er þar ekkert, sem minnir á fornar hetjudáðir. Þessi sveit, sem er svo að segja nefið á höfuðstað þessa lands og fjölennum sjávarþorpum, allt um kring, er látm leggjast í eyði. Fólkið sættir sig ekki við omaldarbúskaparlagið, þegar það kynnist netra á næstu grösum, og flýr sveitina sína fögru, og hún leggst í algjöra auðn. Afturhaldssamir valdhafar spyrna við af öllum og sálarkröftum að nokkuð sé gert í samgöngumálum eða öðru til þess að Krýsuvík geti haldið áfram að framfleyta íbúum sínum og ekki er langt síðan, að einn höfuðpaur Reykjavíkur kallaði í einu dagblaðinu vegalagninguna til Krýsuvíkur, Krýsuvíkurvitleysu með stórum stöfum gæsalappalaust, og kinnroðalaust, ef til vill hefur hann ekki að hægt er að rækta í Krýsuvík þúsnundir hesta af töðu, ásamt fjölda annara nytjajurta, sem hér yrði of langt upp að telja.

Krýsuvík

Krýsuvík – áveituskurðir. Arnarfell fjær.

Þegar miðað er við það að Krýsuvík var heill hreppur og heil kirkjusókn, verður ekki annað sagt en þar sé ömurlegt yfir að líta. Þar sjást engin fögur mannvirki, engin fegurð ema fegurð náttúrunnar, sem ávallt mun verða hin sama, hvernig sem er mennirnir fara með landið. En eigi að síður er þetta Krýsuvíkurland úsældarlegt og albúið að veita börnum sínum fæði og klæði. Kafloðin gömlu túnin bera þess ljósan vott, að þau séu þess albúin að veita ríkulega uppskeru, þótt engin mannleg hönd hafi sýnt þeim minnstu rækt árum saman. Mýrar og móar, sem þarna eru, gefa fyrirheit um að ekki skuli þeirra hlutur eftir liggja með afraksturinn, ef mennirnir vilja leggja til ofurlítið af orku sinni til hjálpar sér og óefað mætti minnast jarðhitans þarna, en hve mikils virði hann er í Krýsuvík brestur þekkingu um að dæma.
Það má því heita, að í augum vegfarandans. séu útþurrkaðar allar menjar þess, að þarna hafi verið mannabyggð. Þar sem bæirnir hafa staðið, sjást tóftarbrot hálf- og alfallin, og eru nú grasi vaxin. Aðeins kirkjan er eftir og sætir furðu, að hún skuli hafa staðið af sér alla storma eyðileggingarinnar. Að kirkjunni vík ég síðar.

Krýsuvík

Krýsuvík 1920.

Eins og kunnugt er, hefur einn maður af síðustu kynslóð Krýsuvíkurbyggðar aldrei yfirgefið þetta byggðarlag. Hann virðist hafa verið bundinn þessu byggðarlagi órjúfandi böndum tryggðar og vináttu. Þessi aldraði merkismaður heitir Magnús Ólafsson. Hann er nú — að mig minnir — 73 ára að aldri og hefur átt heima í Krýsuvík óslitið í 55 ár að undanteknum nokkrum vikum úr sumum þessum árum. Eftir að öll hús byggðarinnar voru fallin og rifin flutti hann sig í gömlu kirkjuna og hefur búið þar síðan, og má vel vera að sú sé orsökin, að kirkjan hefur ekki hlotið sömu örlög og önnur hús á þessum stað.
Þarna vorum við félagar þá komnir heim á hið forna höfðingjasetur Krýsuvík eftir röskan klukkustundar akstur frá Reykjavík, það sem áður var margra klukkustunda ferð.
Nei, það var engin lygi, að það væri búið að færa þessa sveit nær menningunni.
tJti fyrir kirkjudyrum sat hinn aldraði húsbóndi og tók, mjög vingjarnlega kveðju okkar ferðalanganna.
Ég fór að telja á fingrum mér hve mörg ár væru nú liðin síðan ég kom þarna síðast, síðan í febrúar 1896 (ég var þá á sextánda ári). Vildi þá útkoman verða nálægt fjörutíu og níu og hálft ár. Jú, það skeður nú margt á skemmri tíma. Mér varð hugsað til þessarar fyrri komu minnar samanborið við þessa komu mína á þennan stað. Nú var sólbjartur sumardagur, en þá hörku norðanbylur og snjór í hné eða meir. Ég strákhnokki með allan minn veraldarauð í strigapoka á bakinu og að auki rúma krónu í buddunni sem farareyri og gat naumast staðið uppréttur undir þeim ofurþunga. En hveraig voru nú ástæðurnar? Bezt að koma öllum þessum reikningum á hreint. Nú var ég þó létt klæddur með hendur í vösum, en annað setzt á bak mér engu léttara en pokinn í fyrri daga. Gamla konan Elli var nú
farin að gerast áleitin en frábitin öllum ástaratlotum og lagaskilnaði, og þó ekki um annað að gera en lúta valdi hennar — gömlu konunnar. Þegar öllu var á botninn hvolftvar þá líklega pokinn með tilheyrandi öllu viðkunnanlegri en slíkt konuríki. Að öllu þessu fljótlega athuguðu settist ég hjá gamla manninum við kirkjudyrnar og tók að spyrja hann spjörunum úr. Mér varð fljótt ljóst, að þarna var maður, sem vert var að kynnast og tala við, bráðgreindur maður og alúðlegur, sem þekkti sögu þessarar sveitar langt aftur í tímann eins og fingur sína. Það hefði vissulega verið gaman og gagnlegt að mega tala við Magnús í ró og næði og jafnvel ferðast með honum þarna um nágrennið. En tími okkar félaga var naumur og nokkuð áliðið dags.

Krýsuvíkurkirkja

Legsteinn Árna Gíslasonar – eftir brunann.

Ég labbaði um kirkjugarðinn með Magnúsi. Hann benti mér á leiði, sem hann sagði, að síðast hefði verið jarðað í. Austan undir kirkjugaflinum varð mér starsýnt á eitt leiði sökum þess að það var eina leiðið í kirkjugarðinum, sem á var lítilsháttar minnismerki.
Er það þó ekki annað en trégirðing komin að falli. Magnús sagði mér, að þarna væri jarðaður Árni sýslumaður Gíslason, en hann bjó í Krýsuvík um nokkurra ára skeið, sem kunnugt er, og var hann þar húsbóndi, er mig bar að garði, sem fyrr segir. Og nutum við, ég og félagar mínir, hinnar mestu gestrisni óg höfðingsskapar, sem Árni sýslumaður var kunnur fyrir á sinni tíð. Svona eru örlögin. Nú var ég allt í einu staddur við legstað míns forna gestgjafa og ég hörfaði skref aftur á bak. Þarna mátti ég ekki stíga með skó á fótum á jafn helgan stað og bæla græna grasið umhverfis leiðið hans, ef til vill raskaði ég með því grafarró hins mæta manns.
Ég bað Magnús að lofa okkur að sjá kirkjuna, sem nú er íbúðarhús hans, og var það auðsótt. Þarna var þá rúm hans við austurgafl framan verðan. Það var þá ekki annað en húsgaflinn, sem aðskildi höfðalagið og leiði hans forna húsbónda, Árna sýslumanns.

Krýsuvíkurkirkja

Uppbygging Krýsuvíkurkirkju 2020.

Það er ekkert ýkja langt frá veruleikanum, að þar hvíli húsbóndinn og þjónninn við sama höfðalagið, þótt annar sé lífs en hinn liðinn. Sjaldgæft er þetta, en Magnús hefur tekið ástfóstri við kirkju og kirkjugarðinn og allt annað í Krýsuvík.
Mér er í barnsminni, að ég heyrði talað um hinn stórbrotna búferlaflutning Árna sýslumanns austan frá Kirkjubæjarklaustri og til Krýsuvíkur. Hann var sýslumaður Skaftfellinga og bjó stórbúi á Kirkjubæjarklaustri. Það má nærri geta að slíkir búferlaflutningur á þeirri tíð var engum heiglum hent öll þessi vegalengd og allar þær stórár, og allt varð að flýtja á hestum (á klökkum) sundleggja hestana og ferja á smábát allan farangur yfir stórvötnin. Hvernig mundi nútímakynslóðinni geðjast að slíkum vinnubrögðum? Ég heyrði talað um, að sauðfé Árna sýslumanns hefði verið um 1200 talsins, er hann fluttist að Krýsuvík. Ef það væri satt, hafa eflaust ekki margir bændur á Íslandi verið fjárfleiri en hann á þeirri tíð. Árni sýslumaður var faðir hins vinssæla læknis Skúla, sem lengi var héraðslæknir í efri hluta Árnessýslu. En synir Skúla eru þeir Sigurður magister og ritstjóri og Árni húsgagnasmíðameistari í Reykjavík.
Mér er sagt, að nú sé Hafnarjarðarbær eigandi Krýsuvíkur. Er það vel farið, að það land lenti hjá því bæjarfélagi, úr því að íslenzka ríkið var ekki svo framtakssamt að eignast það. Það er sagt að Hafnfirðingar hafi í huga stór áform í Krýsuvík, enda eru þar margbrotnir ræktunarmöguleikar. Hafnfirðingar eru líka allra manna líklegastir til þess að bæta þessum eyðijörðum í Krýsuvík upp giftuleysi liðinna ára.
Ég get ekki lokið svo við þessar hugleiðingar mínar um Krýsuvík, að ég minnist ekki ofurlítið frekar á kirkjuna og kirkjugarðinn þar. Kirkjan þar og kirkjugarðurinn eru í mínum augum helgir dómar, og þessa helgudóma má með engu móti eyðileggja. Kirkjugarðinn verður að girða og breyta í fagran trjá- og skrúðgarð og vanda þar allt til
sem bezt. Kirkjuna verður að byggja að nýju í sama formi og hún er, og á sama stað. Kirkjan á sjálf víst ekki grænan eyri sér til endurbyggingar, en hvað munar íslenska ríkið um slíka smámuni.

Krýsuvíkurkirkja

Endurnýjuð Krýsuvíkurkirkja við Iðnskólann í Hafnarfirði.

Það er verið að reisa úr rústum gamlar kofarústir inn um alla afrétti og við skömmum liðnar kynslóðir fyrir trassaskap og vanrækslu í meðferð verðmæta – sem við köllum svo – hví skildum við þá á þessari mennta- og menningaröld fara að eyðileggja allar menjar um forna frægð Krýsuvíkur? Ég á vont með að trúa því, að noklkur Íslendingur nú á tímum væri svo auðvirðulega nískur að telja eftir nokkrar krónur til endurbyggingar á kirkjunni í Krýsuvík, þótt sú kirkja yrði aldrei notuð til messugjörða. Það er heldur vissulega ekki meining mín.

Krýsuvíkurkirkja

Ný Krýsuvíkurkirkja komin á sinn stað.

Að endingu þetta: Það verður líka að byggja sómasamlegt hús í Krýsuvík handa hinum aldraða Magnúsi Ólafssyni, ef hann æskir þess að fá að vera þar það sem eftir er lífdaganna, gamla manninum, sem sýnt hefur þessu plássi hina frábæru tryggð.
Ég þakka svo Magnúsi Ólafssyni fyrir vinarþel og kurteisi og ef til vill á ég eftir að hitta hann aftur í Krýsuvík, mér til ánægju og fróðleiks.”

Heimild:
-Heimilisblaðið, 25. árg. Reykjavík, okt.-nóv. 1945, Þórður Jónsson frá Eyrarbakka – Ferð til Krýsuvíkur, 10.-11. tbls, bls. 172-174 og 193.

Heimilsblaðið 1945

Heimilisblaðið 1945.

Magnús Jónsson

Í handritaðri bók Magnúsar Jónssonar “Bær í byrjun aldar – Hafnarfjörður“, sem hann gaf út árið 1967 á eigin kostnað, kemur margt fróðlegt fram.

Úr formála fyrstu útgáfu segir:

Magnús Jónsson
“Á þessu verki, sem hér kemur fyrir almenningssjónir, eru ýmsir ágallar. Er það fyrst til að taka, að betur hefði verið farið á að miða við aldamótin, heldur en við árslok 1902, sem hér er gert aðallega. Þar er því aðeins til að svara, að fyrsta hvatningin til þess starfs, var athugun á korti af Hafnarfirði frá því ári. Birtist það hér á bls. VI.
Þá er einnig fjölskyldunum sem hér er gerð grein fyrir, gert misjafnlega hátt undir höfði. Er það bæði til að dreifa ónógri þolinmæði við að leita upplýsinga, og að fallið er í þá freistni að skrifa sumt ýtarlegar en samkvæmt meginreglunni. Þessi meginregla er sú, að nefna fæðingarár og -stað húrráðenda, giftingarár o.fl.
Einnig börn og hverjum þau giftust, séu þau fædd fyrir árslok 1902. Síðan ýmist dánarár húsráðenda eða flutningsár burtu úr bænum, t.d. til Reykjavíkur, ef um það er að ræða. Á stöku stað er leiðst út í að láta nokkur hrósyrði eða aðrar athugasemdir falla, en allt slíkt eru vandrataðir vegir, sem ef til vill væru betur ófarnir.

Magnús Jónsson

Magnús Jónsson fæddist í Hafnarfirði 10. júlí 1926. Hann ólst upp í Hafnarfirði.
Að loknu skyldunámi hóf hann störf hjá Raftækjaverksmiðjunni Rafha, lærði bókband og lauk sveinspróf frá Iðnskólanum í Reykjavík 1953.
Útskrifaðist frá Kennaraskólanum
1957. Lauk eins árs námskeiði í
bókasafnsfræðum í Kaupmannahöfn
1962. Stundaði almenn kennslustörf með hléum til ársins 1980. Starfaði á árunum 1962-1967 í bókasafni Hafnarfjarðar. Loks var Magnús minjavörður við Byggðasafn Hafnarfjarðar árin 1980-1995. Auk þess starfaði hann nítján sumur í kirkjugarði Hafnarfjarðar.
Magnús starfaði mikið af félagsmálum og bar hæst ártuga störf innan Góðtemplarareglunnar og Kvæðamannafélags Hafnarfjarðar.
Magnús var mikill áhugamaður um sögu Hafnarfjarðar og er höfundur bókanna „Bær í byrjun aldar“ og „Hundrað Hafnfirðingar“ I, II og III.
Magnús lést á Sólvangi 3. febrúar
2000.

Reynt hefur verið að afla mynda, og hefðu þær orðið skýrari með venjulegri prentun. Myndastærðir eru tvær, annarsvegar húsráðendur og hins vegar gamalmenni, einhleypingar og fólk sem ekki var fyllilega komið út á lífið. Oft er aðeins til mynd af öðru hjónanna.
Ekki þarf orum að því að eyða, að margir hafa verið ónáðaðir með spurningum og fleiru í þessu sambandi. Er hér með beðið afsökunar á því og þökkuð góð fyyrirgreiðsla.
Stundum ber ekki saman kirkjubókum og svo upplýsingum þeirra sem næstir standa. Er hér farið eftir því fyrrnefnda, en ofan og aftan við þau orð eða ártöl er lítið spurningarmerki.”

Um aðra útgáfu segir:
“Um þessa útgáfu er lítið að segja. Hún er svipuð hinni fyrri, sem kom út fyrir jólin 1967 og seldist strax upp. Hér er þó reynt að búa svo um hnútana að myndirnar verði skýrari.”

Hafnarfirði 16.9. 1970
Magnús Jónsson.

Í bókinni eru taldir upp bæirnir í Hafnarfirði um og eftir aldarmótin 1900:

1. Vesturkot
2. Halldórskot
3. Hvaleyri – heimajörðin
4. Tjarnarkot
5. Hjörtskot
6. Óseyri
7. Bær Hannesar Jóhannssonar
8. Ásbúð I (Halldór Helgason)
9. Ásbúð II (Guðm. Sigvaldason
10. Melshús
11. Brandsbær
12. Flensborg
13. Hábær
14. Nýibær
15. Skuld
16. Litla kotið
17. Holt
18. Mýrarhús I (Guðlaug Narfad.)
19. Mýrarhús II (Guðm. Ólafsson)
20. Jófríðarstaðir I (Þorvarður)
21. Jófríðarstaðir II (Hólmfríður o.fl.)
22. Steinar
23. Hella
24. Hamar
25. Bær Sigríðar Ísaksd. (Miðengi)
26. Bjarnabær – á Hamri
27. Gíslashús – Bjarnasonar
28. Hús Ólafs Garða
29. Bær Jóns Vigfússonar
30. Björnshús – Bjarnasonar
31. Hamarskot
32. Stefánshús
33. Á Mölinni
34. Undirhamar
35. Klúbburinn

Hafnarfjörður 1902

Hafnarfjörður 1902.

36. Proppé-bakaríið
37. Barnaskólahúsið
38. Blöndalshús
39. Ögmundarhús
40. Hús Daníels frá Hraunprýði
41. Hús Eyjólfs Illugasonar
42. Hús Jóns Jónssonar Lauga
43. Hús sem Þorv. Erlendsson byggði
44. Hús Sveins Auðunssonar
45. Hús Vigfúsar Gestssonar
46. Dvergasteinn
47. Sýslumannshúsið
48. Brú
49. Kolfinnubær
50. Kofinn – Miðhús
51. Hús Sveins Magnússonar
52. Byggðarendi
53. Lækjarkot I (Ólafur Bjarnason)
54. Lækjarkot II (Anna K. Árnad.)
55. Bossakotshús – Grund
56. Á Hólnum – Balanum
57. Gerðið
58. Bali
59. Hús Kristins Vigfússonar
60. Bær Jóns Á. Mattiesson
61. Bær Einars Þorsteinssonar
62. Helgahús
63. Hús Kristbj. Guðnasonar – Hekla
64. Ragnheiðarhús
65. Hús Guðrúnar Sigvaldad. (Hagakot)
66. Bær Sigurðar lóðs
67. Bær Kristjáns Friðrikssonar
68. Bær Krístínar Þorsteinsdóttur
69. Elentínusarbær (áður Guðnabær)
70. Steinsbær (áður Bened.bær)
71. Þorkelsbær – Snorrasonar
72. Á Snösinni – Hábær
73. Bær Bjarna Markússonar
74. Gunnarsbær
75. Markúsarbær
76. Ingibjargarbær
77. Hús Hans D. Linnet
78. Brúarhraun
79. Jörgínarbær
80. Efra Brúarhraun

Magnús Jónsson

Bæjarlisti bókarinnar I.

81. Arahús
82. Hús Einars Jóhannessonar
83. Hendrikshús
84. Hraunprýði
85. Ólafsbær – Knútsbær
86. Bær Jóns Sigurðs. (Hraungerði)
87. Jörundarhús
88. Hús Hansens kaupmanns
89. Beykishúsið gamla?
90. Theodórshús
91. Filippusarbær
92. Bær Sigríðar Steingrímsd.
93. Bær Jóhanns Björnssonar
94. Stundum nefnt Hansensbær
95. Á Hól
96. Þorkelsbær – Jónssonar
97. Þorlákshús – á Stakkstæðinu
98. Finnshús
99. Brekkubær (?) (Þórður Björnsson)
100. Hús Jóns Steingrímssonar
101. Efstakot(ið)
102. Hús Steingríms Jónssonar
103. Klettur (Þorst. Þorsteinssonar)
104. Níelsarhús
105. Bær Ólafs Sigurðssonar
106. Daðakot (Magnús Auðuns.)
107. Hraun
108. Bær Erlendar Marteinssonar
109. Illugahús (síðar Kóngsgerði)
110. Veðrás
111. Sigmundarhús
112. Krókur
113. Oddsbær
114. Hús Jóns Þórðars. frá Hliði
115. Flygeringshús
116. Sívertsenshús
117. Lóðsbær – Gísla
118. Guðnýjarbær
119. Mörk (Sigurgeir Gíslason)
120. Hús þar sem nú er svæðið gegnt Merkugötu 11
121. Hús Guðmundar Helgasonar
122. Bær Kristjáns Auðunssonar
123. “Svartiskóli” (Hrómundur)
124. Klofi
125. Árnahús

Magnús Jónsson

Bæjarlisti bókarinnar II.

126. Gesthús I (Einar Ólafsson)
127. Gesthús II (Bjarni Ásmunds. o.fl.)
128. Hús Guðm. Halldórss. járnsmiðs
129. Klettur (Ólafur Jónsson)
130. Svendborg
131. Langeyri
132. Brúsastaðir

Magnús Jónsson

Magnús Jónsson.

Til skaða er hversu meðfylgjandi uppdráttur af herforingjaráðskorti Dana 1902 er óskýr (þess tíma tækni).

Í minningargrein um Magnús 11. febrúar 2000 segir m.a.:
“Magnús Jónsson fæddist í Hafnarfirði 10. júlí 1926. Hann lést á Sjúkrahúsinu Sólvangi 3. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Jón Helgason, f. 27.6. 1895 í Litlabæ, Vatnsleysustrandarhreppi, d. 30.12. 1986, og Halla Kristín Magnúsdóttir, f. 18.2. 1894 í Merkinesi, Akranesi, d. 16.7. 1985. Heimili þeirra var á Hverfisgötu 21b, Hafnarfirði frá 1922-1983. Auk Magnúsar eignuðust þau hjónin dreng árið 1924, sem lést 2ja daga gamall.
Árið 1959 kvæntist Magnús Dagnýju Pedersen, f. 8.10. 1926 í Resen, Skive Landsogn, Danmörku, og lifir hún mann sinn. Foreldrar hennar voru: Anna og Gravers Pedersen. Börn Magnúsar og Dagnýjar eru þrjú: 1) Jón viðskiptafræðingur, f. 7.11. 1960, kvæntur Helen P. Brown, markaðsfræðingi, f. 13.2. 1960. Synir þeirra eru: Stefán Daníel, f. 1988, og Davíð Þór, f. 1991. Þau eru búsett í Garðabæ. 2) Halla, læknaritari, f. 12.12. 1964, gift Þórði Bragasyni skrifstofumanni, f. 23.9. 1965. Börn þeirra eru Magnús, f. 1991, Bragi, f. 1993, og Ingibjörg, f. 1997. Þau eru búsett í Hafnarfirði. 3) Anna tannlæknir, f. 19.5. 1970, gift Guðmundi Jóhannssyni, sagn- og viðskiptafræðingi, f. 10.7. 1963. Sonur þeirra er Helgi, f. 1997. Þau eru búsett í Reykjavík.

Magnús ólst upp í Hafnarfirði. Að loknu skyldunámi hóf hann störf hjá Raftækjaverksmiðjunni Rafha, lærði bókband og lauk sveinspróf frá Iðnskólanum í Reykjavík 1953. Útskrifaðist frá Kennaraskólanum 1957. Lauk eins árs námskeiði í bókasafnsfræðum í Kaupmannahöfn 1962. Stundaði almenn kennslustörf með hléum til ársins 1980 í Reykjavík, Hafnarfirði, Bessastaðahreppi og á Vatnsleysuströnd. Starfaði á árunum 1962-1967 í bókasafni Hafnarfjarðar. Loks var Magnús minjavörður við Byggðasafn Hafnarfjarðar árin 1980-1995. Auk þess starfaði hann nítján sumur í kirkjugarði Hafnarfjarðar. Magnús starfaði mikið af félagsmálum og bar hæst ártuga störf innan Góðtemplarareglunnar og Kvæðamannafélags Hafnarfjarðar. Magnús var mikill áhugamaður um sögu Hafnarfjarðar og er höfundur bókanna “Bær í byrjun aldar” og “Hundrað Hafnfirðingar” I, II og III.

Magnús og Dagný bjuggu allan sinn búskap í Hafnarfirði, lengst af á Skúlaskeiði 6.”

Hafnarfjörður

Heimildir:
-Bær í byrjun aldar, Magnús Jónsson – Hafnarfjörður, Skuggsjá, gefið út á kostnað höfundar 1970.
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/518317/
-https://www.fjardarfrettir.is/wp-content/uploads/pdf/FF-2017-46-vef.pdf

Magnús Jónsson

Magnús Jónsson.