Færslur

Sloki

Gengið var um Slokahraun eftir svonefndum Eyrarvegi er náði frá vesturtúngarðinum á Hrauni og með ströndinni út í Þórkötlustaðanes. Sigurður Gíslason á Hrauni, sem nú er orðinn blindur að mestu, lýsti leiðinni nákvæmlega áður en lagt var af stað. Með í för var sonur hans, Gísli Sigurðsson.

Slokahraun

Slokahraun – Slokagarðar.

Að sögn Sigurðar lá Eyrarvegur austan við svonefndar Hrossbeinalágar. Ofan við þær er varða og hóll, Sögunarhóll. Þar undir lá gatan áfram inn á hraunið, yfir að Klöpp og síðan áfram suður í Nes. Bæirnir í Klöpp og Buðlunga stóðu framar í kampinum og var gatan skammt neðan við bæina sjávarmegin sem og Þorkötlustaði. Út frá ströndinni var um 500-600 m sandfjara, sem nú er horfin. Gatan fór síðan upp fyrir kampinn í Bótinni. Þar var nefnt Skarð, sem nú er fyrir neðan Sólbakka. Eftir flóðið 1925 flæddu bæirnir vestast í Þorkötlustaðahverfi og voru bæirnir í framhaldi af því færðir ofar á túnin. Fjörusandinum var síðar mokað í burtu (eftir 1930) og sjórinn hætti að fága steininn í Klapparfjörunni. Eftir það hafði hann einungis berar klappirnar til að leika sér að.
BuðlunguvörUndir kampinum neðan við Buðlungu eru Vötnin, en svo var sjá staður nefndur þar sem ferskt vatn flæðir undan klöppunum. Skiptivöllurinn var skammt austar, upp af Buðlunguvörinni. Næsta lón vestan við vörina hét Svalbarði. Hjálmar á Þórkötlustöðum lenti oft upp í Svalbarði á leið inn í vörina og braut þá skip sín þar meira og minna. Stórgrýti er undan klöppinni.

Byrgin og garðarnir vestan við Hraunstúnið eru minjar fiskverkunar frá Hrauni. Mannvirkin voru líka mikið notuð frá Skálholtsbiskupsstól. Garðarnir suður í Nesi voru einnig allir meira og minna byggðir frá Hrauni. Skálholt var jafnan með eitt eða tvö skip á Hrauni. Þau lentu einnig suður í Nesi eins og Hraunsskipin, en frá bænum voru einnig jafnan tvö skip úti Nesi.

Slok

Varða við Sögunarhól.

Sögunarhóll er þar sem varðan er. Rekaviðurinn úr fjörunni var sagaður þar úr rekanum. Voru menn stundum heilu dagana að saga og vinnan viðinn. Þeir geymdu sýru í vörðunni til að hafa eitthvað að drekka. Hún er hol á innan og þar var sýran geymd.
Þegar komið var að byrgjunum og görðunum austast í Slokahrauni mátti sjá að mannvirkin eru misheil. Hraunið er hins vegar mjög gróft og því hafa hleðslurnar haldið sér nokkuð vel. Þær eru á afmörkuðu svæði ofan við Markabás. Hann er landamerki Þórkötlustaða og Hrauns. Hádegisklettur er austan við Markabás og Hádegistangi fram af honum og út í sjóinn. Þá kemur Skarfaklettur, en hann er sennilega best sýnilega kennileitið í fjörunni. gengur talsvert langt út í sjó.

Cap Fagnet

Cap Fagnet á strandsstað.

Við Skarfaklett hafa orðið tvö skipsströnd svo sögur fara af. Hinn 9. maí 1926 strandaði kútter Hákon frá Reykjavík norðan undir tanganum. Skipverjar björguðust og komust inn í Blásíðubás um síðir. Franski togarinn Cap Fagnet strandaði sunnan undir Skarfatanga aðfararnótt 24. mars 1932. Þá varð einnig mannbjörg, en strandið varð frægt í sögu björgunarsveitarinnar í Grindavík, vegna þess að þá voru í fyrsta skipti notuð fluglínutæki, og tókst notkun þeirra sem best varð á kosið. Þrjátíu og áta mönnu var bjargað í land. Nokkur eftirmáli urðu af strandinu, sum harla spaugileg.

Slok

Slokahraun – fiskbyrgi.

Vestar í hrauninu eru aðrir garðar, sumir verulega háir. Þessir garðar voru notaðir af austurbæjunum í Þórkötlustaðahverfi, en auk Klappar, Buðlungu og Þórkötlustaðabæjanna þriggja má þarna telja Einland, Móa og nokkur kot, s.s. Hraunkot. Þessir garðar voru einnig notaðir til fiskverkunar.
Til er lýsing á flóðinu mikla árið 1925. Þá urðu bæirnir við ströndina umflotnir vatni, fiskur og þang flutu langt á land upp og hús brotnuðu í atganginum. Á einum bæjanna rifnaði fjósið frá og sjá mátti þarfanautið fljóta baulandi á brott út í iðuna á bás sínum. Eftir þetta voru bæjarhúsin færð lengra á land upp, sem fyrr segir í lýsingu Sigurðar.

Eyrargata

Eyrargata.

Út af Slokanum er talið að eitt af stóru slysunum hafi orðið. Þá fórst Þuríður formaður þar með allri áhöfn. Slokin draga nafn sitt af slokrhljóðinu er sjórinn skellur undir hraunhellunni, sem hann hefur safnað lábörðu grágrýtinu upp á í háan kamp.

Þegar Eyrarvegurinn var genginn til vesturs, í eins líkum farvegi og unt var, mátti vel gera sér í hugarlund hvernig sjómennirnir gengu þessa leið árla morguns fyrr á öldum, hljóðlega og án óþarfa skrafs, sem einkennir suman nútímanninn, í einfaldri röð og sá fremsti haldið á lukt með kolu í. Lagt hefur verið af stað um kl. 4 að morgni og gangan út í Þórkötlustaðanesið varaði í u.þ.b. klukkustund. Þegar staldrað var við á Slokatá, austast á Slokanum, og litið til baka mátti næstum því sjá sjómennina líða þar um veginn, hægt og hljóðlega.
Frábært veður. Birtan var ógleymanleg. Þetta var eitt af þeim augnablikum lífsins, sem aldrei gleymast.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.