Þann 1. júlí opnaði “Markaðsstofa Suðurnesja” nýja skrifstofu ferðamála í Reykjanessbæ á afskekktum stað. Um var að ræða nýtt látún á eldri stöpul. Samhliða opnuninni var ný vefsíða opinberuð. Með því var verið, skv. kynningu, að bæta vefsíðuna www.reykjanes.is (enda ekki vanþörf á). Vefsíðan sú hefur hvorki verið fugl né fiskur um langt skeið. Við fyrstu sýn lofar nýja vefsíðan reyndar litlu umfram það sem var, en ekki skal vanmeta viljann… Reyndar á slíkt hið sama um aðrar sambærilegar vefsíður hér á landi.
Hér var sem sagt verið að sameina Ferðamálsamtök Suðurnesja og Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjanesbæ á einum stað. En hvers vegna? Og hvað með hin sveitarfélögin á svæðinu, sem hvert um sig gera sér miklar vonir um frambærilega markaðssetningu – t.d. Grindavík með alla sína fjölbeytilegu og margvíslegu möguleika, eða Garður með allar sínar áþreifanlegu mannvistarleifar og sögu, eða Sandgerði með allt sjónumrýdda dýraríkið, eða Hafnir með alla sjósóknarsöguna, þjóðsögurnar og selstöðurnar.
Opnunin var skv. bókinni; bæjarstjóri Reykjanesbæjar mætti við athöfnina, en aðrir bæjarstjórar á Suðurnesjum féllu í skuggann. Líklega verður að telja það thingsins tákn. Reyndar er sárt til þess að vita því svæðin – allra bæjarstjóranna í heild sinni – bíður upp á eina áhugaverðustu ferða- og afþreyingamöguleika sem ÍSLAND hefur fram að færa; stórbrotna náttúru, óraskað umhverfi, víðerni sem á sér fáa líka, hraunhella, minjar frá upphafi landnáms og veðurfar til þess að njóta alls þessa allt árið um kring.
Í litskrúðugum, og eflaust rándýrum, kynningar- og ferðapésum einstakra landshluta er getið um fjölmargt fánýtið sem gleymst hefur að tengja við nándina, fólkið og vettvangsraunveruleikann sjálfan. Til er þó dæmi um hið gagnstæða. Ekki má gleyma því að á Suðurnesjum liggur raunveruleiki ferðamannavaxtarins þegar horft er til landsins í heild. Um svæðið fer mikill meginhluti allra ferðamanna til og frá landinu. Ferðaþjónustuaðilar miða á krepputímum í auknum mæli tilboð sín við að nýta umhverfi dvalarstaða gestanna á sem hagkvæmastan hátt. Svæðið í heild bíður því margfaldrar nýtingar frá því sem verið hefur – ef rétt er að málum staðið.
Í kynningu með fréttinni um opnun MS segir m.a.: “Markaðsstofa Suðurnesja var stofnuð í byrjun þessa árs að frumkvæði Ferðamálasamtaka Suðurnesja. [Hafa ber í huga að fyrrum formaður Ferðamálasamtakanna er nú í forsvari fyrir Markaðasstofuna.] Tilgangur hennar er að innleiða faglegt og samræmt markaðsstarf meðal ferðaþjónustuaðila á Suðurnesjum, byggja upp öflugan gagnabanka um hvaðeina er lýtur að þjónustu við ferðamenn og markaðssetja Suðurnes og Reykjanesið fyrir ferðamönnum. Er upplýsingamiðstöðin liður í þeirri áætlun. Markaðsstofan mun einnig hafa með höndum samskipti við opinbera aðila eins og Ferðamálastofu um markaðssetningu svæðisins erlendis og innanlands.”
Svo mörg voru þau orð… Í rauninni eru bæði Ferðamálastofa og Samtök ferðamálasamtaka lítið annað en hjóm eitt þegar horft er til nýtingar þeirra fjármuna, sem til þeirra er varið. Þess vegna er ekki bara þörf heldur og nauðsyn á að endurskoða margt og betrumbæta frá því sem verið hefur.
FERLIR vill að því tilefni minna á a.m.k. þrennt; í fyrsta lagi ætti það að vera hlutverk svæðisbundinnar “Markaðsstofu” að sýna frumkvæði við að leita uppi áhugaverð viðfangsefni og virkja einstaklinga er hafa eitthvað áhugavert og markvert fram að bjóða, styðja þá og styrkja. Í öðru lagi að koma á framfæri og kynna áhugaverða möguleika og nýtingu svæðisins til áhugasamra sem og ferðamanna er vilja nýta sér svæðið með einum eða öðrum hætti, og í þriðja lagi að samhæfa alla þá, hvort sem um er að ræða fagaðila, opinbera styrktaraðila eða áhugasamt fólk um svæðið í sameiginlegri viðleytni til að koma upplýsingum og fróðleik um það til væntanlegra neytenda. Á allt þetta skortir verulega eins og staðan er í dag. Litskrúðugur og rándýr kynningarbæklingur gerir lítið fyrir Suðurnesin ef áður lýst bæklun hráir ferðamálaferlið í heild.
FERLIR hefur kynnt sér hvað aðrir landshlutar hafa verið að gera – og hafa áhuga á að gera til að kynna og laða að ferðamenn, innlenda og útlenda. Af viðtölum við ferðaþjónustuaðila er augljóst að mikil vakning er fyrir ferðalögum landsmanna innanlands. Í Skaftafellli hefur ferðamönnum t.a.m. fjölgað til mikilla muna á milli ára. Sömu sögu er að segja af öðrum helstu áfangastöðum ferðamanna á landinu. Ferðaþjónustuaðilar nýta sér í auknum mæli nándina og allt sem hún hefur upp á að bjóða.
Þegar skoðaðar eru aðstæður og möguleikar einstakra landshluta í samhengi hlutanna má segja að möguleikar Reykjanesskagans séu bæði einstaklega stórkostlegir og stórlega vanmetnir. Sú vitund og vitneskja, ef tekið er mið af frumkvæði og eftirfylgni, virðist ekki hafa skilað sér til aðstandenda “Markaðsstofu Suðurnesja” – hingað til að minnsta kosti. Að vísu má geta einstakra frumkvæðisverkefna, sem vakið hafa athygli, s.s. útgáfa heilstæðs gönguleiðakorts af svæðinu, sem notið hefur æ meiri vinsælda, stikun á mörgum þeirra, útgáfa bæklinga um einstakar fornar þjóðleiðir og styrki til einstakra verkefna því tengdu – en miklu mun betur má gera í þeim efnum.
Hafa ber í huga að Reykjanesskaginn hefur upp á allt að bjóða, sem aðrir landshlutar eru hvað stoltastir af. Ef áhugi væri t.d. að auka verðmæti svæðisins sögulega séð m.t.t. þess að laða að ferðamenn framtíðarinnar, mætti með tiltölulega litlum tilkostnaði byggja upp eina selstöðu (af þeim 255 er finna má leifar af) og eina verstöð (af þeim 87 er finna má leifar af), eina fjárborg (af u.þ.b. 90) til að gefa innlendum og útlendum ferðamönnum svolitla innsýn í aldargamla búskaparsögu þjóðarinnar. Verstöðin við Bolungarvík og aðsóknin að henni ætti varla að letja hlutaðeigandi til verkefnanna.
Þegar framangreint er lesið ber að hafa í huga að markmið FERLIRs hefur um áratuga skeið fyrst og fremst að leita heimilda og fróðleiks, skoða vettvang, upplýsa og leggja sitt af mörkum til að ferðaþónustan á Reykjanesskaganum megi eflast og dafna. Allt efnið á vefsíðunni, u.þ.b. 3000 síður, er lesendum að kostnaðarlausu. Telja verður það a.m.k. svolítið verðugt framlagt í framangreindri viðleytni.