Færslur

Flóki

Gengið var frá Bláfjallavegi norður Tvíbollahraun ofan við Markraka. Stefnan var tekin á Markarakahelli norðan Markraka og Dauðadalahella þar skammt vestar.

Dauðadalahellar

Í Dauðadalahellum.

Stuttur gangur er frá bílastæði við veginn niður að austanverðum Markraka, veðurbörðum melhæðum er standa upp úr hrauninu, eða hraununum réttara sagt, því þarna umhverfis eru nokkur hraun auk Tvíbollahrauns, s.s. Hellnahraun eldra og yngra og Þríhnúkahraun. Vestan við Markraka heita hraunin Skúlatúnshraun, en Tvíbollahraun og Þríhnúkahraun að austan og norðanverðu.
Jón Jónsson, jarðfræðingur (1983) segir aldur Tvíbollahrauns vera frá því um 875 eða þar um kring. Tvíbollahraun gæti því verið fyrsta hraunið sem rann á Íslandi eftir að búseta hófst og hellar þess þá fyrstu hellar sem mynduðust hér á landi á sögulegum tíma.

Dauðadalahellar

Í Dauðadalahellum.

Hellarás Dauðadalahellanna svonefndu er í einni hrauntröðinni, u.þ.b. 500 metra langri. Lengstu hellisbútarnir eru nokkrir tugir metrar, en í nokkrum þeirra er hátt til lofts. Einnig er litadýrð nokkur á köflum. Ekki er fært í alla hellisbútana án þess að síga og eru sumir þeirra lítt eða ekkert kannaðir. Hellarnir eru flestir litlir fyrir utan Flóka og Hjartartröð, sem er nokkru vestar.
Markrakahellir er efsti hluti hraunrásarinnar. Haldið var inn eftir hellinum, en hann lokast fljótlega. Falleg hraunbrigði eru í hellinum.
Dauðadalahellar eru skammt vestar. Meginhellirinn er innan við tiltölulega lítið op er opnast út í lágt, gróið, jarðfall. Fallegir brúnir litir prýða hellinn sem og rennilegir hraunbekkir. Raunar liggja rásirnar hingað og þangað og þyrfti góðan tíma til að skoða þær allar.

Dauðadalahellar

Í Dauðadalahellum.

Dauðadalahellar mynduðust eftir að hraun rann frá Grindarskörðum vestur að Skúlatúni. Hellarnir áttu það til að reynast villugjarnir fyrir sauðfé sem leitaði þar skjóls en komst ekki aftur út eins og nafn Dauðadala gefur til kynna.
Flóki er langstærsti hellir, sem fundist hefur í Dauðadölum. Heildarlengd hans er um 900 metrar og er hann einn sérkennilegasti og margflóknasti hraunhellir hér á landi. Flóki teygir ganga sína víða og lengd meginrásarinnar því aðeins um einn þriðji af heildarlengd hellsins. Op á hellinum eru fjölmörg og er hann hið skemmtilegasta völundarhús. Flóki er einn örfárra hella á landinu sem hægt er að villast í.
Bakaleiðin var gengin um Dauðadalastíg. Hann liggur á milli Kaldársels og Kerlingaskarðs um Dauðadali, um vestanverðan lághrygg Markraka og áfram yfir Bláfjallaveg, um nokkuð slétt mosavaxið helluhraunið.
Á Markraka eru landamerki Garðabæjar, Hafnarfjarðar og Grindavíkur.
Gangan tók 1 klst og 11 mín. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Hraunhellar á Íslandi – Björn Hróarsson 1990.

Daudadalahellar-21

Í Dauðadalahellum.