Færslur

Eldborg

Gengið var frá Trölladyngju á Núpshlíðarhálsi um Eldborg og Einihlíðar með stefnu á Mávahlíðar og Mávahlíðarhnúk. Þaðan var haldið yfir að Fjallsgjá norðan við Fjallið eina norðan Hrútargjárdyngju og endað á Krýsuvíkurvegi.

Dóruhellir

Dóruhellir.

Trölladyngjan er 375 m.y.s. Hún er formfagurt móbergsfjall. Í dyngjunni eru miklar eldstöðvar, bæði að sunnan- og norðanverðu. Hraun hafa runnið þaðan bæði í norður og suður, meðal annars Afstapahraun. Þar er og mikill jarðhiti á ýmsum stöðum, t.d. í Sogunum. Um þau rennur Sogalækur.
Höskuldarvellir er grasslétta yfir hrauninu vestur af Trölladyngju. Þangað liggur farvegur frá Sogalæk. Rennur hann niður á vellina í leysingum og hefur myndað það mikla landflæmi og gróðurbreiðu með framburði sínum. Höskuldarvellir munu vera ein stærsta samfellda graslendi í Gullbringusýslu eða um 100 ha.

Eldborg

Eldborgin í dag.

Eldborgin norðan Trölladyngju hefur verið afmynduð með efnistöku. Sennilega hefur hún einhvern tímann verið eitt af djásnum Reykjanesskagans. Ef væntumþykjan og virðingin fyrir umhverfi og náttúru hefðu orðið efnishyggjunni yfirsterkari þegar ákvörðun um eyðilegginguna var tekin, væri Eldborgin nú margfalt verðmætari en krónurnar, sem fengust fyrir kápuna af henni á sínum tíma. En skaðinn verður ekki bættur, úr því sem komið er. Nú stendur Eldborgin þarna sem minnisvarði og þörf áminning um hvað ber að varast í umgengi við náttúruna. Ekki meira um það að sinni.

Mávahlíðar

Mávahlíðar.

Fallegir eldgígar eru utan í Dyngjuhálsi, eða Dyngjura

na eins og hann er stundum nefndur. Lambafellið sást vel á vinstri hönd, en framundan sást einnig vel til Einihlíða. Fallegt er að sjá hvernig hraunstraumurinn hefur runnið niður hlíðarnar og elfan storknað í hlíðunum. Ofan við þær er nokkuð úfið hraun, en vönum greiðfært. Suðaustar blasa Mávahlíðar við. Nýrra hraunið er norðvestan við hlíðarnar, mikið jarðfall og hár hraunbakki við þær norðanverðar. Eldra hraun og grónara er ofan (sunnan) við Mávahlíðar. Gígarnir, sem það hefur komið úr, eru litlir og mynda röð samhliða sprungureininni. Frá Mávahlíðum sést vel upp í Hrúthólma, gróin skjöld í hrauninnu. Sunnar er Hrútfellið.

Mávahlíð

Mávahlíð – stígur.

Gengið var yfir að Mávahlíðahnúki austan Mávahlíða og síðan strikið tekið frá vatnsstæði við gamla götu eftir tiltölulega sléttu, en eyðilegu, helluhrauni með úfnum hraunkanti á hægri hönd. Þegar honum sleppti tók við gróið hraun með fallegum hraunæðum. Í einni þeirra var beinagrind. Leggur af dýrinu var tekin með. Við greiningu á Keldum kom í ljós að um var að ræða hrossabógslegg. Óvíst var um aldur. Beinagrindin var ekki langt frá Stórhöfðastígnum frá Stórhöfða áleiðis upp á Ketilsstíg, ofan við Mávahlíðar og Hrútafell. Annað hvort hefur hrossið orðið til þarna við gömlu leiðina, eða refaveiðimenn hafa borið þar út hræ af hrossi til að egna fyrir ref.

Hálsar

Hraunin milli Hálsa – loftmynd.

Skammt austar er falleg og tilkomumikil gjá, hér nefnd Konugjá, einu kvenveru hópsins að þessu sinni til heiðurs. Í gjánni er stór skúti, sem opnast hefur þegar jörðinn klofnaði og gjáin myndaðist, líkt og Hundraðmetrahellirinn ofan við Helgadal. Hann var nefndur Dóruhellir. Skútinn, sem er hinn skjólsælasti, verður að teljast álitlegur til samkomuhalds. Ofar í hæðinni eru nokkrir hellar. Að þessu sinni var gengið niður með hæðinni til austurs, að fallegum gervigíg, sem var líkt og hásæti í laginu – tilvalinn hópmyndastaður.

Suðaustar blasti Fjallið eina við í allri sinni reisn, en norðar opnaðist Fjallgjáin.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Hún er ein af nokkrum gjám á svæðinu, en sú stærsta og lengsta. Víða er hún mjög djúp og sumsstaðar mjög breið, ekki ólík Almannagjá á köflum.
Gangan endaði á Krýsuvíkurvegi, sem fyrr sagði.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-www.reykjanes.is

Trölladyngja

Mávahlíðar og Trölladyngja fjær.