Tag Archive for: Meitlar

Óttarsstaðasel
Gengið var frá Rauðamel að fjölfarinni Alfaraleiðinni á milli Innesja og Útnesja. Henni var fylgt að Gvendarbrunni, einum þeirra mörgu brunna, sem Guðmundur góði vígði í sinni tíð.
Norðvestan brunnsins er Gvendarbrunnshæð.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðafjárskjól.

Sunnan í því er ónefnt fjárskjól frá Óttarsstöðum, hlaðið fyrir skúta. Skammt vestan brunnsins var beygt s Óttarstaðaselsstíg. Önnur nöfn á stígnum eru Skógarstígur og Raftastígur (og stundum Rauðamelsstígur). Skömmu eftir að komið fyrir sporðinn á Selhrauni þegar yfir línuveginn var komið, var beygt út af honum til vesturs með fallegum hraunhól. Gengið var inn í stóra sprungu og síðan inn eftir henni þangað til komið var að stóru jarðfalli. Þar blasti við mikil hleðsla fyrir víðum skúta. Haldið var upp úr jarðfallinu og beygt til norðvesturs.

Brennisel

Brennisel.

Eftir stutta göngu yfir tiltölulega gróið hraun var komið upp á hraunhól. Norðan hans var jarðfall og í því mikil vegghleðsla, algerlega heil. Utar er hleðsla fyrir skúta, en í miðju jarðfallinu er greinileg tótt. Hún sést ekki yfir sumarið því birkið vex svo til alveg yfir hana og yllir jarðfallið. Þarna er sennilega um Brennisel að ræða, sem gamlar heimildir eru til um. Það var sel notað til kolagerðar, en ofar í Almenningunum var hrístaka svo til allra bæja með ströndinni, allt fram á 19. öld. Ef vel er leitað þarna skammt norðar má finna enn eldra og líklegt kolasel, í lægð við hraunhól. Hleðslurnar eru vel mosavaxnar og erfitt að greina þær, en tótt er enn greinileg handan við hleðslurnar. Sama er að segja um þetta sel og hið fyrra, gróðurinn þekur það nú alveg yfir sumartímann.

Álfakirkja

Álfakirkja.

Sunnan Brennisels er mikill krosstapi, sennilega þriðji Krosstapinn á þessu svæði, sem getið er um. Hann ber heitið Álfakirkja. Í honum norðanverðum er fjárhellir með hleðslum fyrir munna. Ef haldið er til austurs frá Álfakirkjunni, að Óttarsstaðaselsstíg og honum fylgt spölkorn til suðurs má sjá vörðu á hægri hönd. Hún stendur við jarðfall og neðan hennar eru vandlegar hleðslur fyrir skúta. Hann er lágur mjög en víður um sig. Hrísrunni vex fyrir opið og því er mjög erfitt að komast að honum yfir sumartímann.

Óttarsstaðasel

Meitlaskjól.

Nokkru sunnar eru Meitlarnir, Stóri-Meitill og Litli-Meitill. Þetta eru greinileg fjárskjól í hlofnum hraunhólum vestan stígsins (Meitlaskjól). Rétt eftir að gengið er yfir Stóruhæðir og skömmu áður en komið er upp úr litlu dalverpi við svonefnda Meitla og í Óttarsstaðasel má sjá lítinn fjárhelli vinstra megin við stíginn, Meitlahelli eða Meitlaskjól. Hleðslur eru fyrir munnanum og framan við opið. Líklega hafa þær verið notaðar sem kví því þarna er gott skjól fyrir suðaustanáttinni. Óttarsstaðasel eru rústir tveggja seljahúsa og snúa þau göflum saman. Aðrar dyrnar hafa snúið í austur og hinar í vestur. Göng og tvær vistarverur hafa verið í hvoru húsi. Í seljum á Reykjanesskaga voru vistarveran venjulega með sama inngang og búr eða geymsla, en eldhúsið til hliðar með sérinngangi.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – nátthagi.

Vatnsstæðið er rétt hjá tóttunum í austur. Í vestur er hraunhryggur og vestan í honum er stórt fjárskjól með miklum hleðslum. Vel má greina hlaðinn stekk sunnan við selið og sunnan þess er greinilegur nátthagi.
Í litlum skúta suðvestan við vatnsstæðið er einnig gott vatn að finna. Þar vestan við er Þúfuhóll og Þúfhólsskjól vestan í honum. Hjá hólnum liggur Rauðhólastígur að Tóhólum og Rauðhól. Í Tóhólum er Tóhólahellir og í Rauðhól er Rauðhólshellir. Stígurinn liggur síðan um Skógarnef yfir á Mosana hjá Bögguklettum um Dyngnahraun, hjá Lambafellunum að Eldborg, um Jónsbrennur undir Trölladyngju að Höskuldarvöllum.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðasel – Þúfhólsskjól.

Annar Mosastígur liggur frá Óttarsstaðaselsstíg norðan við Bekkina áleiðis upp í Skógarnef. Þá götu fóru Hraunamenn er þá vantaði mosa til eldiviðar.
Vestan við Óttarsstaðarsel, í uþ.b. 15 mín. fjarlægð, er Lónakotssel. Í því eru þrjár byggingar. Auk Lónakotssels voru þar sel frá tveimur hjáleigum Óttarstaða, Eyðikoti og Kolbeinskoti. Austan við Óttarsstaðasel, í u.þ.b. 20 mín. fjarlægð, er Straumssel. Þar var búið fram á miðja 19. öld, eða þangað til bærinn brann. Enn austar eru gömul sel frá Þorbjarnarstöðum, Gjásel og Fornasel. Nýlega var grafið í tvær tóttir þess síðarnefnda og kom í ljós að þær voru frá 1500-1600.
Frábært veður.

Óttarsstaðasel

Tóftir Óttarsstaðasels.

Meitlar

Sigurður Kristinsson skrifaði um „Meitlana“ í Morgunblaðið árið 1990:
meitlar - kort„Séður norðaustan frá, t.d. frá Hveradölum, virðist Stórimeitill (521 m) vera töluvert hamrafjall, en svo er þó aðeins á þá hlið, því hann er aðliðandi til annarra hliða. Suður frá honum er lægri háls (360 m) sem tengir hann við Litlameitil (467 m). Þeir eru báðir úr móbergi. Líta má á þá ásamt Stakahnúk og Gráuhnúkum sem einstakt fjall umlukið hraunum. Vestan að þeim öllum er samhangandi brekka um 80 m há. Undir henni miðri heitir Stórihvammur. Vestan í Litlameitli er klettur sem heitir Votaberg, oft dökkur af raka á sumrin. Við suðurenda hans eru friðlýstar rústir af seli frá Þorlákshöfn.
En Stórimeitill er allt öðruvísi en fjöllin í kring og á vart sinn líka. Gígur er ofan í koll hans a.m.k. 50 m djúpur og er snarbratt nema þar sem skarð er að norðanverðu. Sést gígurinn hvergi fyrr en komið er á brún hans. Skarð er í norðurbrún gígsins og virðist sem hraun hafi runnið þar út. Þetta gefur Stórameitli vissan eldborgarsvip að hluta. En hann er til orðinn á ísöld og því er hvergi laust gjall þar að finna. Fyrir neðan skarðið í gígnum er lítill dalur og nær hann að Gráuhnúkum. Hann heitir því einkennilega nafni Stóridalur, en réttara væri að nefna hann Stórahvamm.
Besta gönguleiðin á Stórameitil er að fara upp eftir dálitlu viki sem gengur inn í brekkuna áðurnefndu skammt fyrir sunnan Stakahnúk.“

Heimild:
-Morgunblaðið 17. mars 1990, bls. 12.

Litli-Meitill

Litli-Meitill.