FERLIR hefur þegar fundið í heimildum og staðsett 250 selstöður í fyrrum landnámi Ingólfs. Ekki er þar með sagt að láta skuli staðar numið. Ekki eru nema 3 ár síðan eitthundraðasta selstaðan var staðsett svo ýmislegt hefur áorkast síðan – aðallega vegna þrautseigju og dugnaðar þátttakenda. Ljóst er og að ekki eru enn öll kurl komin til grafar hvað þennan minjaflokk varðar. Það, sem valdið hefur nokkrum erfiðleikum og orðoð tilefni fleiri leitarspora en ella hefði þurft, eru misvísandi lýsingar, bæði eldri og nýrri.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir m.a. eftirfarandi um jörðina Tindsstaði: „Selstaða er í heimalandi.“ Guðmundur Runólfsson sýslumaður réttaði um þrætuskika milli Tindsstaða og Mela á Kjalarnesi þann 30. og 31. maí 1763. Skv. heimildum á selstaða frá Melum að hafa verið í Melaseljadal í hlíðum Tindstaðafjalls. Þar var og kofi á bannárunum, notaður til brugggerðar. Líklegt er að kofinn hafi verið í selstöðinni.
Ætlunin var að fara upp í dalinn um Þjóðskarð með stefnu á Þjófagil og jafnvel upp í Tindstaðadal ofan við Kerlingargil. Meginmarkmiðið var að reyna að staðsetja selstöðuna, sem jafnframt gat hugsanlega hafa verið selstaða frá Melum sbr. Jarðabókina 1703. Sú átti þó að hafa verið í Mela-Seljadal, en svæði það er um ræðir virðist hafa fyrrum verið óskipt land jarðanna. Áður hafði verið haft samband við Sigurbjörn Hjaltason, bónda á Kiðafelli, en hann þekkir svæðið manna gleggst. Tók hann af allan vafa hvar Mela-Seljadal væri að finna í margberglagamynduðum hlíðunum ofan við svonefnt Tinnuskarð (Tindaskarð), sem skv. örnefnalýsingu fyrir Mela mun heita Melaskarð.
Áður en lagt var af stað var litið á ýmis gögn og heimildir. Í sáttargerð frá 7. maí 1529 fékk Erlendur bóndi Þorvarðsson séra Þórði Einarssyni jörðina Mela á Kjalarnesi. Þórður tók við jörðinni fyrir hönd barna Orms Einarssonar en um var að ræða ógreiddar eftirstöðvar vegna vígsbóta eftir hann.
Minnst er á selstöðu Mela upp í Esju í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Mela Seljadalur, og eru þeir hagar að mestu aleyddir af skriðum.“
Í kaupbréfi sem talið er vera frá því um 1509 seldi Árni Brandsson Kolbeini Ófeigssyni í umboði Þorvarðs lögmanns Erlendssonar jörðina Tindstaði í Saurbæjarþingum fyrir 20 hundruð en Þorvarður skyldi greiða 21 hundrað í lausafé.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir m.a. eftirfarandi um jörðina Tindsstaði: „Selstaða er í heimalandi.“
Guðmundur Runólfsson sýslumaður réttaði um þrætuskika milli Tindsstaða og Mela á Kjalarnesi þann 30. og 31. maí 1763. Deilan virðist hafa staðið um það, hvort land milli Þverár og Kleifa/Kleifar [bæði nöfnin notuð] tilheyrði Melum eða
Tindsstöðum. Neðanmáls í Jarðatali Johnsens frá 1847 segir að í jarðamatinu 1802 komi fram að með Tindsstöðum sé hafður eyðipartur úr Mýdal [Miðdal] í Kjósarhreppi, svokallaður Mýdalspartur, sem sé konungseign. Mýdalspartur var svo seldur með konungsúrskurði 5. júní 1833.
Í jarðamatinu 1804 kemur eftirfarandi fram um jörðina Tindsstaði: „Med denne Jord [þ.e. Tindsstöðum] benyttes tillige en öde Gaards Part inden Reinevalle Rep Middalspart kaldet.“
Landamerkjabréf fyrir jörðina Tindsstaði var undirritað 27. maí 1890. Það var þinglesið 3. júní sama ár: „1. Að norðanverðu milli Tindstaða eru mörkin sem Miðdalsá ræður. 2. Að austanverðu milli Tindstaða og Miðdalskots eru mörkin Kerlingargil og gamall lækjarfarvegur sem vatn hefur runnið í til forna niður í Miðdalsá.
3. Að sunnanverðu milli Tindstaðadals og Bleikdals eru mörkin eptir fjallsbrún og sem vötnun hallar. 4. Vestanverðu það sem Kleifar og Klettabrún ræður upp til hnefa. Landið frá Klettabrún inn að Þverá er sameignarland Tindstaða og Melamanna samkvæmt sáttargjörð anno 1763 – 31. maí.“ Undir þetta landamerkjabréf skrifaði fulltrúi eigenda Mela og fulltrúar þjóðjarðarinnar Morastaða og eigandi Saurbæjarjarða.
Í fasteignamatinu 1916-1918 segir að land Tindsstaða sé há og brött fjallshlíð og að nægt sumarland sé handa öllum fénaði. Að landi Tindsstaða liggur Melbær í Kjós sem er sameign við Tindsstaði og hafði verið notaður þaðan um langan tíma. Þess vegna er Melbær talinn með er heyafli Tindsstaða er metinn. Meðal kosta Tindsstaða er talið skógarítak sem er þó í fjarlægð.
Þann 20. júní 1927 var gengið frá landamerkjabréfi varðandi mörk jarðanna Ytri– og Innri-Tindsstaða. Bréfið var þinglesið 23. júní 1927. Mörkunum er þannig lýst: „Vestanverðu við há Dýjadalshnúk beina línu í Nóngilslæk þar sem hann rennur ofan af Tind[a, strikað yfir]staðadalsbrún og svo eftir Nóngilslæk niður fyrir tún, síðan eftir fornum lækjarfarveg ofan í Miðdalsá.“
Í fasteignamatinu 1932 kemur fram að býlið Melbær (Miðdalspartur) í Kjósarhreppi sé í eigu Daníels Magnússonar á Tindsstöðum.
Eftir þetta koma, skv. upplýsingum Sigurbjörns, landamerkjabréf frá 2. júní 1921, júní 1922 og 15. nóv. 1928. Ekki er þar getið um minjar við efrimörk þau, sem hér var ætlunin að huga að.
Egill Jónasson Stardal getur nokkurra selja í grein sinni Esja og nágrenni sem birtist í Árbók Ferðafélags Íslands árið 1985. Þar stendur m.a.:“Skammt fyrir vestan Tindstaðabæi sem eru ystu bæir í Kjalarnesshreppi kemur lítil á úr Esjunni sem heitir Þverá og upp með henni er Melaseljadalur.“ Hér virðast áttir eitthvað hafa spillst því Mela-Seljadalur er í norðvestur frá Tindstöðum.
Einnig kom fram í vitnisburðum að Melasel væri í Mela-Seljadal utan við Þverá. Vitnið Álfheiður Þórarinsdóttir nefndi ákveðinn mann sem þar hafði haft í seli en annars virðist selstaðan ekki hafa verið nýtt svo vitnin minntust. Einnig höfðu sum vitni heyrt um Tindsstaðasel á Tindsstaðadal en ekkert þeirra virðist hafa vitað um notkun á því.
Í Jarðatali Johnsens frá 1847 kemur fram að jörðin Melar hafi hjáleigurnar; Útkot, Niðurkot og Norðurkot. Jafnframt kemur fram að hjáleiganna er ekki getið fyrr enn 1802.
Landamerkjabréf fyrir Mela og Norðurkot var undirritað 28. maí 1890 og því var þinglýst 3. júní sama ár. Í því stendur m.a.: „1. Mörkin að sunnan milli Hjarðarness og Melatorfunnar, fyrst úr jarðföstum steini með þúfu á, (vörðu) við sjóinn á jarðnefinu lítið eitt fyrir sunnan svokallaðan markalæk og svo þaðan beina stefnu í torfvörðu á mýrunum og svo þaðan beina stefnu í vörðu á miðjum stóra Sandhól, og þaðan beina stefnu í há fjallsbrúnina beina stefnu sem vötnum hallar til norðurs í Litlahnúk sem er fyrir vestan Díadalshnúk og niður í Þverá þar sem hún fellur í Melaseljadal og sem Þverá ræður niður í Kiðafellsá og svo sem Kiðafellsá ræður allt til sjávar, og svo sem fjara ræður allt suður að Hjarðarnesslandi sem áður er greint. 2. Landið frá Þverá allt fram á Kleifar eða Klettabrún er sameignarland Melamanna og Tindstaða samkvæmt sáttargjörð Anno 1763 þann 31. maí.“ Enginn er hjer viðstaddur sem eigandi eða umráðamaður Útkots og er honum því geymdur rjettur. Þessa landamerkjaskrá óskum við undirskrifaðir að þeir sem lönd eiga til móts við oss vildu undirskrifa. Þetta landamerkjabréf var samþykkt af umboðsmanni Hjarðarness. Á eftir undirskriftum þeirra eru veittar upplýsingar um slægjuland Mela, Niðurkots, Norðurkots og Útkots.
Í fasteignamatinu 1916-1918 eru Norðurkot og Niðurkot talin með Melum. Í lýsingu á landi jarðarinnar kemur m.a. fram að hlíðin sé brött, skriðótt og klettótt. Meðal kosta jarðarinnar er t.d. talið upp að sumarhagar séu nægir og að hún eigi upprekstur í Blikdal. Meðal ókosta er m.a nefnt beituítak Saurbæjar og að jörðin Útkot sé sameign. Í umfjöllun fasteignamatsins um tún eyðijarðarinnar Útkots er þess getið að hún eigi annað óskipt í Melalandi.
Landamerkjabréf sem lýsti mörkunum milli Mela og Norðurkots og Niðurkots var undirritað 2. júní 1921. Því var þinglýst sama dag. Samkvæmt því eru landamerki jarðanna eftirfarandi: „Að ofan úr Gilbotni ræður lækurinn milli bæjanna til sjávar, að því undanskildu, að landstykkið svokallað Sölvaflatir, sem tilheyra Melum eru fyrir norðan læk, en fylgja nú Norðurkoti, þess í stað fylgir Melum, það úr Niðurkotstúni er nefnist Skipaflöt og mannvirki þau er þar eru, hús og hlaða og ræður beinstefna úr torfvörðu við skurð fyrir ofan túnið í norðurhorn á kálgarði til sjávar; að ofan ræður nefndur skurður í lækinn. Hagbeit fyrir utan tún og slæjuland er óskipt land, sömuleiðis fjörubeit, allur reki, beitutekja selveiði og hver önnur hlunnindi til fjalls og fjöru og hefir hvor ábúandi, heimild að hagnýta eftir samkomulagi hlutfallslega eftir jarðarstærð meðan ekki verður skipt, eða öðruvísi umsemst.“
Brugghús mun hafa verið í Mela-Seljadal á þeim tímum þegar bændurnir brugguðu í friði, meðan Blöndal var suður með sjó en Björn sálugi Blöndal var lögreglueftirlitsmaður með landabruggi þá. Það var á allra vitorði, að nokkrir þarna í nánd stunduðu lítilsháttar brugg sér til búdrýginda, en allt voru þetta heiðursmenn, og aldrei fannst brugghúsið, fyrr en sólheitan sumardag einn að maður nokkur skapp í fjallgöngu á Dýjadalshnúk í Esju. Á niðurleið gekk hann yfir Melaseljadal, og sá þá lækjarsprænu koma undan einhverri þúst. Við nánari athugun kom í ljós hið haganlegasta brugghús með landalögum í mörgum brúsum og tunnum á stokkunum. Lækurinn var leiddur í gegnum húsið til hagræðingar.
Í örnefnalýsingu fyrir Tindstaði segir m.a.: „Þverá myndast í Tindstaðadal. Er yfirleitt lækur, en getur orðið ljót stundum. Hún er á merkjum móti Melahverfi og rennur svo í Kiðafellsá rétt fyrir ofan Kiðafell. Þegar farið er upp á Mela-Seljadal, er farið um þetta Klif. Á dalnum var haft í seli áður fyrr.“
Í örnefnalýsingu fyrir Mela segir m.a.: „Inn af brúninni og klettunum, séð frá Norðurkoti, er alldjúp og löng kvos, sem heitir Mela-Seljadalur ofan við Bollann og Hjalla. Eftir honum rennur Þverá.“ Að framansögðu mætti ætla að Mela-Seljadalur og Tindstaðadalur væri einn og sá sami. Svo mun þó ekki vera.
Þá segir: „Klifið er við endann á Mela-Seljadal. Þegar kemur yfir Melagilið, tekur Norðurkot við. Frá því eru flatir niður með læknum rétt fyrir neðan tún. Þær heita Sölvaflatir. Þar var slétt tún með læknum, og voru þar þurrkuð söl. Niðurkot er beint niður af Norðurkoti, niður við sjó, og Niðurkotsmýri var fyrir neðan hæðina milli bæjanna. Í Niðurkoti var síðast þurrabúðarfólk rétt fyrir aldamót. Nyrzti hluti gamla túnsins hét Aukatún.
Í Melafjalli upp af bænum eru skörð. Lækurinn, sem rennur um Melagil, kemur um Stekkjarskarð í brúninni, en nokkru innar er stórt skarð í klettana, sem heitir Þjóðskarð. Vestar er far í berginu eða plötunni, sem heitir Skessuspor. Milli þessara skarða er venjulega nefnt „Milli skarða“.
Ekki er minnst á sel í örnefnalýsingu Mela, en hins vegar í örnefnalýsingu fyrir Tindstaði. Í Jarðabókinni er þessu öfugt farið; getið um selstöður frá báðum bæjunum. Landamerkin eru þó enn við Þverá. Spurningin er hvort um tvær selstöður geti verið að ræða, sem teljast verður líklegra.
Gengið var tvisvar sinnum áleiðis upp að mögulegum selstöðum er að framan greinir. Fyrst var gengið um Þjóðskarð. Ofan þess er glögg gata er kemur undan hlíðinni skammt austar, frá gömlu alfaraleiðinni undir hlíðunum ofan við Mela. Líklegt má telja að sú leið hafi verið farin með nytjar frá selinu, enda bæði greiðfærari og betur aflíðandi en selstígurinn um Melagil (Tinnuskarð) er síðar verður getið um. Stígnum var fylgt upp brúnirnar. Augljóst var að þarna var um fyrrum valda og fjölfarna götu að ræða. Hún er aflíðandi upp hlíð. Kindagata liggur undir hlíðinni. Þegar götunni var fylgt lá hún beint upp að gili ofan við Melagil, svonefnt Stekkjarskarð í örnefnalýsingu Mela. Þar var hin selvænlegasta selstaða, en engar tóftir (að því er virtist). Í skarðinu eru fallegt stuðlaberg. Undir því er skjólgott. Þar virðist hafa verið stekkur fyrrum. Utan við skarðið er vel gróið grasi, en all þýft. Einn staður þar gæti bent til að hafa verið manngerður, en erfitt er að fullyrða um það. Annar litur er á gróðrinum þar en umhverfis, auk þess sem hvergi gæti verið um ákjósanlegri selstöðu að ræða; gróið skarðið sem álitlegur nátthagi, ummerki eru þar og um stekk, auk þess sem það er og gnægt vatns. Stígurinn fyrrnefndi lá beina leiða að staðnum.
Þá var haldið bæði út með hlíðum og upp með skarðinu þar sem mun vera Mela-Seljadalur. Þrátt fyrir leit í dalnum, sem í rauninni er gróin kvos eða lægð undir hlíð ofan við Stekkjarskarð, fundust ekki mannvistarleifar. Lækur rennur um dalinn. Í honum ofanverðum eru verulegar dýjar.
Haldið var til suðurs að Þverá og henni fylgt upp í Tindstaðadal. Dalurinn sá er hinn „seljalegasti“ á að líta, vel gróinn og skjólgóður, auk þess sem lækur rennur um hann miðjan, áleiðis niður í Kerlingagil. Þrátt fyrir víðatæka leit um dalinn fundust hvergi selsleifar. Einn staður kom þó öðrum meira til greina, þ.e. skjólsæl lund undir brekkubrún, en ekki var hægt að greina þar mannvistarleifar með fullri vissu.
Hlíðinni var fylgt til baka að Mela-Seljadal, en þrátt fyrir endurtekna leit þar, fundust engar mannvistarleifar með staðfestu. Haldið var niður eftir Stekkjarskarði og selstígnum fyrrnefnda fylgt til baka. Neðar greindist hann í tvennt; annars vegar að fyrrnefndri leið og hins vegar niður Melaskarð (Tinnuskarð). Í skarðinu var stígurinn vel greinilegur alla leið niður á láglendið. Í miðju skarðinu er tindlaga berggangur og annar svipaður skammt utar, vestar. Undir skarðinu að austanverðu mótar fyrir stekkjarleifum.
Gamla veginum um Hvalfjörð var fylgt að upphafsstað. Hann er vel greinilegur undir hlíðinni, u.þ.b. 150-200 cm breiður. Svo virðist sam gamla þjóðleiðin undir hlíðunum hafi verið lagfærð og aðlöguð fyrstu sjálfrennireiðinni.
Samkvæmt upplýsingum Sigurbjörns bónda mun fyrsta póstferð á bíl frá Reykjavík til Akureyrar hafa verið 1933 og að „seinfarið hafi verið um Kjalarnes því þurft hefði verið að fara um moldarstíga undir Esju“. Í bók Halldórs á Reynivöllum segir að haustið 1929 hafi vegur um Kjalarnes verið kominn inn fyrir Tíðarskarð.
Um haustið 1929 var nýr vegur kominn á Kjalarnes og rétt inn fyrir Tíðarskarð. Endaði hann við heimreiðina að Hjarðarnesi. Gamli þjóðvegurinn var mun ofar en nú er, í fjallsrótum Esju. Kjósarhreppur lánaði fé til verksins til að flýta framkvæmdum. Á sama ári var brúin yfir Kiðafellsá byggð. Vegsamband ökutækja um Hvalfjörð komst á árið 1934, eða fyrir u.þ.b. 75 árum. Vegstæðið er þó fjarri því að vera það sama og nú er, sem fyrr segir. Gaman er því að fylga eftir gamla vegstæðinu suðaustan við Tíðarskarð með fjallsrótunum, allt að Kiðafellsánni.
Í bakaleiðinni voru skoðaðar merkilegar stríðsminjar við Tíðarskarð og litið á Kjalnesingarréttirnar; Saurbæjarréttina og Arnarhamarsréttina sunnan við skarðið.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.
Heimildir m.a.:
-504 Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, 3. b., s. 381.