Gengið var eftir Melabergsleið (Hvalsnesleið), upp að Vatnshólavörðu og síðan var leiðinni fylgt áfram um Miðnesheiðina að hringtorginu austan við Leifsstöð.
Vatnshólavarðan sést vel frá Melabergsvötum. Þegar komið var framhjá þeim blasti Leifsstöðin við – inngöngudyr ferðamanna til Íslands. Á leiðinni var tækifærið notað og vöngum velt yfir stöðu og framtíð ferðaþjónustunnar á svæðinu.
Undanfarin ár hefur ferðamönnum fjölgað verulega hér á landi. Fjöldi þeirra er nú um 360.000 á ársgrundvelli og hefur verið að fjölga um 12-14% að jafnaði á milli ára. Ekki er því langt að bíða þangað til fjöldi þeirra verður kominn í milljónamarkið. Áður en það verður þurfa hagsmunaðilar ferðaþjónustunnar þó væntanlega að vera búnir að ákveða hvernig þeir vilja stýra ferðamennskunni og ferðum gestanna hér um land með hliðsjón að undirbúningi á einstökum svæðum.
Í ljósi breytinga í atvinnumálum og nær ótæmandi möguleikum á Suðurnesjum er ljóst að mikilvægt er að stuðla að eflingu atvinnulífsins t.d. með verulega aukinni þjónustu. Það er m.a. hægt að gera með því að nýta þá ótrúlegu kosti sem svæðið býður upp á. Aðstaðan er einnig mjög góð til fiskeldis, og svo er nauðsynlegt að hlúa að þeirri starfsemi sem fyrir er, þ.á.m. sjávarútvegi og iðnaði. Til að mæta samdrætti í starfsemi á Keflavíkurflugvelli þarf að skapa ný störf í öðrum greinum, einkum iðnaði og þjónustu, ekki síst ferðaþjónustugreinum.
Eitt af forgangsverkefnunum er að að skapa Suðurnesjum jákvæða ímynd í hugum fólks og nýta vel þá kosti sem svæðið hefur upp á bjóða, s.s. alþjóðaflugvöllinn og nágrenni hans, orkulindir til iðnaðarframleiðslu, ágæta hafnaraðstöðu og hina einstöku sagnfræðilegu, náttúru- og jarðfræðilegu möguleika til að stórefla ferðaþjónustu, helsta vaxtarbroddinn í íslensku atvinnulífi.
Hingað til hefur mikið verið fjallað um vilja til aðgerða. Sumu hefur og verið komið í framkvæmd. Í skýrslum, sem gerðar hafa verið og gefnar út á undanförnum árum um þetta efni, má t.d. lesa um;
a) hugleiðingar Samgönguráðuneytisins frá árinu 2002 þar sem fjallað er um framtíðarsýn í íslenskri ferðaþjónustu og m.a. fjallað um ímynd Íslands, umhverfismál, gæða- og öryggismál, menntamál, samgöngumál, byggðamál, skipulag ferðamála, rekstrarumhverfi og markaðsmál. Þá segir að meginþættir ferðaþjónustu séu fjórir: ferðafólkið, fyrirtæki og stofnanir, opinber þjónusta og áfangastaðurinn. Hugmyndafræði sjálfbærrar þróunnar er lögð til grundvallar framtíðarsýninni.
b) efni Ferðamálaráðs Íslands 2002 um Auðlindina Ísland með hliðsjón af ferðaþjónustsvæðum þar sem markaðssvsæðin eru skilgreind, sérstaða þeirra dregin fram, teknar saman fyrirliggjandi upplýsingar, seglar skilgreindir og tillögur gerðar.
c) framsetningu Samgönguráðuneytisins um íslenska strandmenningu árið 2004 þar sem er fjallað um gæðaferðaþjónustu, markaðsrannsóknir og frumkvöðlastarf.
d) fróðleik frá samgönguráðuneytsiins um menningartengda ferðaþjónustu 2002 þar sem er fjallað um íslenska menningu og ferðaþjónustu sem og nútímamenningu Íslendinga og nauðsyn stefnumörkunar.
e) tillögur samgönguráðuneytisins um stefnumörkun íslenskrar ferðaþjónustu 1996 þar sem er kannað með áhuga og möguleika hinna einstöku þjóða að nýta sér Ísland sem ferðamannaland.
f) og einnig má sjá rit frá ferðamálaráðstefnu Reykjavíkurborgar 2004 þar sem ræddir voru styrkleikar og veikleikar Reykjavíkur skilgreindir og gerðar tillögur um markaðassetningu borgarinnar til ferðamanna.
En svo virðist sem eitt nærtækasta, en jafnframt eitt áhugaverðasta ferðamannasvæðið (a.m.k. fyrir Íslendinga), hafi orðið mikið til útundan, þ.e. Suðurnesin og Reykjanesskaginn allur. Yfirleitt er getið um að þar sé “útsýni mikið og fagurt”, þar megi finna “áhugaverða staði” og eru þrír slíkir jafnan nefndir til sögunnar, þ.e. Svartsengi, Bláa lónið og Reykjanesviti (Gunnuhver m.a.). Jafnframt að á svæðinu sé fuglalíf og strandir.
Í raun býður svæðið upp á allflest það sem aðrir landshlutar hafa upp á að bjóða, hvort sem lýtur að jarðfræði, náttúru, menningu eða sögu. Dvalartími útlendinga er að styttast og margir koma hingað í öðrum tilgangi en áður, þ.e. til ráðstefnu eða fundarhalda eða í viðskiptaerindum. Þetta fólk þarf oft að bíða hálfan eða heilan dag eftir flugi. Hvaða svæði er þá nærtækara til að nota því til handa en Suðurnesin? Þar er hægt að fara í stuttar ferðir, hvort sem er akandi eða gangandi, skoða fallega hraunhella, þjóðsagnakennda staði, ómótstæðilega náttúru, fuglabjörg, minjar frá upphafi búsetu, nútímahraun, gamlar leiðir markaðar í bergið, eldgíga, atvinnu- og byggðasöguna, verstöðvar, sjóslys, drauga- og huldufólksstaði og svona mætti lengi telja – eða einfaldlega njóta útiveru í fallegu umhverfi. Þá eru afþreyingarmöguleikar sennilega hvergi meiri en á þessu svæði.
En þetta er s.s. allt vitað – og meira til – og eflaust munu hlutaðeigandi aðilar ætla að nýta sér þetta allt til handa framtíðargestunum að utan sem og landsmönnum öllum.
Umhverfið rann saman við vangavelturnar og ferðahugleiðingarnar á leiðinni, en veðrið var frábært.