Eftir u.þ.b. fimm mínútna göngu var komið að hárri vörðu með klofi, líkt og “Stúlkur” vestan gömlu Hafna. Hún var í línu í vörðu ofan við Merkinesvörina austari. Varðan var greinlega hlaðin upp úr annarri. Fótur hennar, mun stærri og hringlaga, sást enn. Austan hennar var hlaðið byrgi refaskyttu. Það var greinilega hlaðið úr eldra mannvirki, sporöskjulaga gerði. Norðan þess var gamalt gerði eða jafnvel stekkur með leiðigarði. Gæti einnig hafa verið rúningsrétt. Ekki var að sjá að mótaði fyrir öðrum mannvirkjum þarna. Ekki er minnst á þessar mannvistarleifar í örnefnalýsingum. Þær voru rissaðar upp og GPS-punktar teknir.
Gengið var vestur yfir sandinn og kíkt á og utan í alla hóla á leiðinni. Oft sást móta fyrir gömlum föllnum hleðslum, sem bæði gátu hafa verið refagildrur eða vörður. Ljóst er að landið þarna hefur tekið miklum breytingum frá fyrri tíð. Vörðulína á hraunhólum sást liggja til suðurs uppi á sandinum, frá Höfnum áleiðis að Sandfellshæð.
Við landamerki Kalmanstjarnar sáust vörður í línu frá Prestastígnum í átt að Merkinesi. Einungis var um vörðubrot að ræða, sumstaðar veruleg, utan í hraunhólum. Vörðunum var fylgt áleiðis að Merkinesi. Önnur vörðuð leið lá norðan þjóðvegarins til vesturs. Mótaði fyrir henni milli varða og vörðubrota. Sennilega er þar um að ræða götu á milli bæjanna Kalmanstjarnar (Junkaragerðis) og Merkiness. Heil varða var við götuna ofan við gróinn hól á sjávarkambinum (kemur við sögu síðar).
Neðan hans er Skiptivík, en inn í hana rak m.a. skipshöfn af árabát, sem lengi hafði verið í hafvillum á fyrri hluta 20. aldar. Segir af sjóferð þeirri í Rauðskinnu. Var áhöfnin talin af og m.a. verið haldin skyggnilýsingarfundur að Merkinesi sem og minningarathöfn um áhöfnina áður en hana bar þar að landi – sæmilega lifandi. Kokkurinn hafði verið kenndur við brugggerð, sem hafði komið sér að góðum notum í volkinu því hann kunni þess vegna að eima vatn úr sjó og gat þannig haldið lífi í bátsverjum.
Á hólnum ofan við Skiptivík er varða, sem fyrr er nefnd. Við hólinn er t.d. kennd ástarsaga vel metinnar bóndadóttur nokkurrrar og óbreytts vinnumanns, annars vegar í Höfnum og hins vegar að Kalmanstjörn, en þeim var meinað að eigast sökum stéttarmunar. Hittust þau þó jafnan við hólinn og áttu þar með sér góðar stundir.
Götunni var fylgt að görðunum vestan við Merkines. Þar var fyrst fyrir gamall vörslugarður, sem grjót hafði verið hirt úr. Lá hann efst við bæjartúnin frá vestri til austurs. Þegar komið var inn á túnið sást brunnur þar undir hól. Þar mun Merkinesbrunnurinn vera. Hann er brotinn niður í klöppina. Gætir þar sjávarfalla líkt og í svo mörgum öðrum brunnum á Reykjanesi.
Tekið var hús á ábúandanum, Bjarna Marteinssyni, en hann ólst upp að Merkinesi ásamt Viljhálmi Vilhjálmssyni, þeim síðar ástsæla sögnvara. Afi Bjarna var Guðmundur Sigvaldason, bóndi á Merkisteini. Þá bjó Vilhjálmur Hinrik í Merkinesi. Bjarni brást vel við og leiðbeindi þátttakendum um heimasvæðið.
Bjarni sagði tvíbýlt hafa verið fyrrum á Merkinesi; annars vegar Merkines (Vesturbær) og hins vegar Merkisteinn (Austurbær). Kotbýlið Bjarg hafi verið ofar, en húsið (timburhús) hafi verið rifið að hluta og grindin ásamt öðru borin út í Hafnir og síðan áfram til Keflavíkur.
Túnflötin austan Merkisteins var nefnd Sigla. Sérhver blettur, hóll og lægð hétu eitthvað í þá gömlu daga. Annars hefði landslag túnanna og umhverfisins mest mótast af sandinum, sem fauk ofan af Hafnasandi, en gréri síðan upp. Mikill munur væri á gróðri nú og þá var, á ekki lengri tíma. Til dæmis væri krækiberjalyng nú svo til við bæjardyrnar, en áður þurftu börnin að fara langan veg upp í heiði tl berja. Vel má sjá þess merki umbreytinganna við hina mörgu fallega hlöðnu garða, sem þarna eru. Þar hefur sandurinn fokið að görðunum innanverðum.
Gengið var að sjóbúð vestast í túninu. Bjarni sagði mannhæðaháa garða hafa verið þarna áður fyrr, en sjórinn hefði brotið þá niður að mestu. Þó má enn sjá móta fyrir hluta þeirra. Sjóbúðin stendur enn heilleg og er ágætt minnismerki hins liðna. Bjarni sagði ömmu hans hafa unnið við salfiskverkun í búðinni. Hún hafi látist við þá vinnu er hún var að bera fisk á þurrkvöllinn vestan búðarinnar.
Þá var gengið að stórfallegum brunni, er getið er í örnefnalýsingum, ofar í túninu. Gengið er ofan í brunninn á þrepum. Hann er u.þ.b. tveggja mannhæða hár og fallega hlaðinn. Bjarni taldi brunninn ævagamlan og hans væri getið í gömlum heimildum. Mundi hann eftir því að byggt var þak yfir brunninn og á því voru á því dyr og skjár. Kristján Eldjárn hafi eitt sinn komið að Merkinesi, m.a. til að kíkja á brunninn. Er hann líkur Írskrabrunni á Snæfellsnesi.
Á hól vestan við brunninn er tóft útihúss. Skammt frá henni er álfhóll, sem aldrei mátti hrófla við. Bjarni sagði Hinrik eitt sinn hafa hringt í hann til Reykjavíkur og beðið hann um að koma í hvelli og fjarlægja herfi, sem hann hafði skilið eftir á hólnum, því annars kynni eitthvað slæmt henda. Skömmu síðar gerði mikið flóð svo flæddi í bæinn. Vildi fólk tengja það herfinu á hólnum.
Austar er aðalvörin til seinni tíma. Ofan við hana er forn tóft og vestan hennar eru beitninga- og verkunarhúsin (steypt að hluta). Bjarni sagðist einungis muna eftir tóftinni óyfirbyggðri eins og hún er nú. Margar minningar væru hins vegar tengdar verkunarhúsunum. Hinrik hafi m.a. notað þau til bátasmíða og þangað hafi hauslaust lík, sem rak upp í vörina, verið borið eftir fundinn. Jafnan hafi húsin þótt draugaleg, a.m.k. í hugum barnanna á bæjunum. Tóku þau stundum á sig stóran krók eftir að dimma tók til að þurfa ekki að fara nálægt þeim. Bjarni rifjaði upp sögu af því að álagasteinn hafði verið fjarlægður af hól þeim, sem hlaðið byrgi stendur á norðvestan við bæjarhúsin. Fljótlega eftir það hafi orðið hvert mannslátið eftir annað í fjölskyldunni. Var það talið hafa tengst tilfærslu steinsins. Afi hans hafði sagt að mikilvægt væri að viðhalda byrginu, en það væri nú farið að láta verulega á sjá.
Við vörina var steyptur varnargarður og hlaðin bryggja, en sjórinn er nú búinn að brjóta hvortveggja niður. Þó má sjá móta fyrir hvorutveggju ef vel er að gáð.
Við gamla garðinn var nýrekinn rekaviðardrumbur. Á honum héngu sérkennilega, en fallegar, skeljar. Bjarni sagðist telja að um svonefnt “helsingjanef” væri að ræða, en það hafi verið trú manna að helsingjar, sem enginn vissu hvaðan kæmu, ættu þar uppruna sinn (gömul þjóðsaga).
Drumburinn væri nýrekinn. Víst er að skeljarnar voru fallegar á að líta – og virtust lifandi er þær voru ausnar sjó. Þær héngu á einhvers konar sogarmi, en út úr þeim komu einhvers konar klær – áhrifaríkt.
Bjarni sagði allar vörður á svæðinu hafa haft einhverja þýðingu, ýmist sem mið eða leiðarvörður. Gæti hann nefnt mörg dæmi þess efnis. M.a. væri sagt frá mörgum þeirra í Rauðskinnu. Austar með ströndinni er Hlein, skerjarani, á landamerkum Merkiness. Ofan við Hlein er Mönguhola, lægð í strandbrúnina (sjá aðra FERLIRslýsingu).
Göngunni lauk við bátagarðinn. Bjarni sagði bátana hafa verið tekna upp úr vörinni og borna inn fyrir garðinn þar sem þeir voru jafnan hafðir í skjóli um veturinn.
Austar eru tóftir af fjárhúsi, sem enn stóð er Bjarni var að alast þarna upp, fyrrum verbúð, en norðan við garðinn eru matjurtargarðar.
Handan við heimtröðina að vestanverðu, utan í svonefndum Bratt, voru miklir rófugarðar á árum áður. Rófurnar hafi m.a. verið seldar beint til kaupenda í bænum.
Bjarna var þökkuð leiðsögnin. Ákveðið var að FERLIR kæmi fjótlega aftur að Merkinesi með það fyrir augum að rissa upp minjasvæðið, en það mun ekki hafa verið gert áður. Ljóst er að þarna eru margar merkilegar minjar, auk þess sem halda þarf örnefnunum til haga svo sem kostur er.
Frábært veður – stilla og hiti. Gangan tók 3 klst og 3 mín – í rólegheitum.