Færslur

Seldalur

Gengið var frá Bleiksteinshöfða norðvestan við Hvaleyrarvatn, um Kaldársel og endað við Kershelli.

Selhöfði

Selhöfði – fjárborg.

Bleiksteinshöfði ber nafn af hinum bleika lit er slær á brekkuna. Hún er í rauninni melar. Höfðinn er einn af mörgum á þessu svæði, s.s. Húshöfði, Selhöfði, Stórhöfði, Fremstihöfði og Miðhöfði. Að þessu sinni var gengið niður að Hvaleyrarseli suðaustan við Hvaleyrarvatn. Þar höfðu Hvaleyrrabændur í seli fram undir aldamótin 1900, en þá varð þar hörmulegur atburður er selsráðskonan fannst illa leikin við vatnsborðið. Var talið að nykur, sem bjó í vatninu, hafi orsakað lát stúlkunnar. Ássel er þarna skammt austar.
Gengið var yfir að tóftum vestan í Húshöfða, beitarhúsi frá Ófriðarstöðum, og síðan haldið upp á Selhöfða. Á honum eru leifar fjárborgar og væntanlega stekks. Sunnan undir höfðanum, í Seldal, er hlaðið gerði, gæti hafa verið stekkur. Seldalur hefur verið vel gróinn áður, en er nú að mestu flag.

Rauðshellir

FERLIRsfélagar við Rauðshelli.

Gengið var upp á Húshöfða. Af honum er ágætt útsýni yfir Stórhöfðastíginn þar sem hann liggur suður um hraunið sunnan fjallsins. Haldið var niður af höfðanum sunnanmeginn og hraunkantur Stórhöfðahrauns rakinn upp í Kaldársel.
Í Kaldárseli var litið á staðinn þar sem gamla selið hafði staðið norðan við Kaldá, haldið austur með Lambagjánni að Helgadal og kíkt í Rauðshelli. Þar var þá mannfagnaður mikill, enda hellirinn tilvalinn staður til samkomuhalds.
Selvogsgatan var rakin niður Mosa og með suðurbrún Smyrlabúðarhrauns að Kershelli norðan Sléttuhlíðar.

Rauðshellir

Rauðshellir.