Tag Archive for: Miðdalur

Miðdalur

Ætlunin var að ganga um Miðdal frá Fremstadal og inn í Innstadal. Þar átti að skoða betur aðstöðu útilegumanna, sem höfðust við í dalnum um miðja 18. öld. Enn má sjá minjar í og undir hamri norðan í dalnum, auk þess sem óvíða er litadýrðin meiri en í nálægu Hveragili.
ÖlkeldanDalir þessir hafa einnig verið nefndir Hengladalir. Um þá rennur Hengladalaáin. Dalir þessir hafa einnig verið nefndir Hengladalir. Í Miðdal (Þrengslum) er Ölkelda. Sagt er að hver sá sem laugar lasinn líkamshluta í keldunni muni alheill verða.

Fyrsta hindrunin var skapillur starfsmaður Orkuveitunnar. Sagði hann FERLIRsþátttakendur ekkert eiga með það að gera að fara um svæðið – þetta væri vinnusvæði. Ekki var þó að sjá að maðurinn væri að vinna, einungis að leggja sig fram við að brúka kjaft við saklausa skoðendur. Til þess hafði hann bæði ökutæki og búnað frá Orkuveitunni – og eflaust á fullu kaupi. Ef þetta er dæmigert viðmót starfsfólks orkuversins á Hellisheiði gagnvart áhugasömu göngufólki um Hengilssvæðið þá þarf það hið sama að endurmeta afstöðu sína til umgengisréttarins við landið. Virkjunarheimild felur ekki í sér rétt til að rífa kjaft við allt og alla.

Litskrúð

Hengill er eitt svipmestu fjöllum í grennd við Reykjavík. Hengill telst til stapafjalla en er mjög sprunginn og hagaður. Hæstur er hann að norðanvestanverðu þar sem heitir Skeggi eða Vörðu Skeggi (803m yfir sjávarmáli). Hengill er aðallega úr móbergi en grágrýtishrúður er uppi á honum. Í sleggju sem gengur uppi á fjallinu er líparít. Jarðhiti er utan í Hengli á nokkrum stöðum. Sunnan við Hengil eru þrjú dalverpi. Vestastur er innsti dalur, þá Miðdalur en Fremstidalur er austastur. Úr þeim fellur Hengladalaá. Í innsta dal, sem liggur milli Hengils og Skarðsmýrarfjalls (597 m.y.s.), er einn mesti gufuhver landsins.
Í ÞrengslumVíðar er jarðhiti í Hengladölum. Þar er einnig ölkelda, sem fyrr sagði. Örskammt norðvestur af gufuhvernum í Innstadal er hár móbergsklettur og ofarlega í honum hellirinn sem í eru mannvistarleifar. En ekki er fært í hann nema góðum klettamönnum. Ýmsar sagnir eru til um útilegumenn í Henglinum fyrr á öldum (sjá meira HÉR).

Þegar komið er fyrir Litla Skarðsmýrarfjall er komið inn í Fremstadal, flatlendan og grösugan. Haldið var upp með ánni og þar til heldur þrengist um og var þá komið í Miðdal. Þar inn af er skarð er Þrengsli heita. Í Þrengslunum er ölkeldan. Þegar að henni var komið var að henni mátti sjá að um var að ræða hverauga með um 100° heitu vatni. Út frá því og umhverfis höfðu orðið til stallaðar og sepalaga kísilmyndanir í ýmsum litum. Þegar vatn úr keldunni var borið við augun varð sá hinn sami alsjáandi. Annar bar vatn úr henni á enni sér og mundi hann samstundist hvað hafði gerst fyrir a.m.k. tveimur dögum síðan. Það er því ljóst að sögur af heilsusamleika ölkelduvatnsins eru meira en bara orðin tóm.

Hengill

Slóðin heldur áfram með suðurhlið dalsins sem er grasi gróinn og sléttur, girtur fjöllum allan hringinn, Hengillinn í allri sinni dýrð til norðurs. Til norðvesturs gengur gil upp í Hengilinn með tignarlegum klettabeltum þar má ganga á Vörðu-Skeggja þó ekki sé það stikuð leið. Að austanverðu er gróið hraun, þar þrengist dalurinn. Lækur rennur eftir dalnum sem verður að Hengladalsá og síðar Varmá, lækjarvatnið er gott til að fylla á drykkjarílát. Í hrauninu er vegprestur sem skiptir leiðum, önnur áfram til austurs yfir á Ölkelduháls, hin til norðurs upp á Vörðu-Skeggja.

Lækur

Áður en farið er í Þrengslin þarf að komast yfir ánna, annað hvort með því að stikla hana eða vaða. Ef menn eru í góðum gönguskóm má víða fara hana á ferðinni og í stóru skrefi án þess að verða svo mikið sem rakir í fæturnar. Þetta er ekki meira vatnsfall en svo. Best er að fara um Þrengslin norðan árinnar vegna þess að hinu megin eru klettar og brattir melar, auk þess minna að sjá.

Í ÞrengslunumEftir að hafa hækkað sig eilítið í Þrengslunum er komið upp í Innstadal og þar gæti þurft enn og aftur að komast yfir Hengladalaánna, á sama hátt og áður en þarna er nokkuð auðvelt að stikla hana. Þarna í Þrengslunum er mikil litadýrð norðan árinnar. Þar er önnur ölkelda og lindaraugu líkt og víða í dölunum.

Hengilssvæðið er á miðju vestra gosbelti landsins, sem nær frá Reykjanesi að Langjökli. Berggrunnur er að mestu móberg sem myndast hefur í gosum undir jökli á síðustu jökulskeiðum ísaldar. Grafningsmegin á svæðinu er röð móbergshryggja sem fylgja ríkjandi sprungustefnu NASV og ganga út í Þingvallavatn.
GígurÁ Hengilssvæðinu eru þrjú eldstöðvakerfi með megineldstöðvum, hverum og laugum. Þetta eru Hveragerðiseldstöð, Hrómundartindskerfi og Hengilskerfi sem er yngst og virkast. Eftir ísöld eru þekkt fjögur til fimm sprungugos á svæðinu. Síðast gaus fyrir um 2.000 árum á 30 km langri sprungu sem náði frá Þrengslum, um Hellisheiði, Innstadal og í Sandey í Þingvallavatni. Þá rann yngsta hraunið á Hellisheiði og Nesjahraun í Grafningi.
Síðast voru umbrot í Hengilskerfinu árið 1789. Þá gliðnaði og seig spilda á sprungubelti sem liggur yfir Dyrafjöll og Hestvík og norður yfir Þingvallavatn milli Almannagjár og Hrafnagjár.
Þá seig land um einn til tvo metra. Hverir og laugar finnast í öllum eldstöðvakerfunum, en þó mest í Hengilskerfinu. Þekktustu hverasvæðin eru í Reykjadal, á Ölkelduhálsi, ofan við Nesjavelli og í Innstadal.

Litadýrð

Kristján hóf störf hjá Jarðhitadeild Orkustofnunar, forvera ÍSOR, árið 1960. Hann lauk doktorsprófi í jarðfræði frá Háskólanum í Köln árið 1966 og var aðalviðfangsefni hans var kortlagning á jarðfræði Hengilsins. Kristján hefur verði með afkastamestu jarðfræðingum landsins. Hann hefur kortlagt drjúgan hluta þess í meiri smáatriðum en áður hafði verið gert og með vísindastörfum sínum lagt þung lóð á vogarskálar nútímaskilnings á jarðfræði landsins og þeim öflum sem móta hana. Megináherslan í starfi Kristjáns hefur þó falist jarðhitaleit vítt og breitt um land. Er óhætt að segja að enginn einn maður hafi átt jafndrjúgan þátt í þeim mikla árangri sem náðst hefur á því sviði á Íslandi og Kristján. Fáar eru þær hitaveitur þar sem hann hefur ekki komið að málum.

Fyrir landnám óx birkiskógur með fjölbreyttum undirgróðri upp í 3-400 metra yfir sjávarmáli á svæðinu. Ofar tók við harðgerður og lágvaxinn fjallagróður og samfelld gróðurþekja náði upp í 5-600 metra hæð. Smám saman breyttist gróðurfar í kjölfar kólnandi veðurfars, skógarnytja og búsetu. Nú er samfellt birkikjarr á afmörkuðum svæðum upp af Þingvallavatni. Birkistofninn er kræklóttur og lágvaxinn en getur þó náð tveggja metra hæð. Fjölbreytni í gróðri er allmikil, en grasaættin er einkennandi og útbreiddust. Margar gerðir mólendis eru á svæðinu, en það er mest áberandi í Grafningi. Í Ölfusi er land grösugra, en graslendi nær þó sjaldnast yfir stór samfelld svæði. Á láglendi eru stærstu votlendissvæðin við Villingavatn, Króksmýri og í Dælum austan við Úlfljótsvatnsfjall, auk minni mýrlenda við tjarnir og læki. Allstórt og fjölbreytt flóasvæði er í Fremstadal.
VetrarblómMýrastör er jafnan ríkjandi tegund í mýrum. Strjáll bersvæðisgróður vex á melum, en tegundafjöldi er þó mikill. Þar má nefna geldingahnapp, lambagras, blávingul, blóðberg, músareyra, holurt og holtasóley. Í Nesjahrauni er samfelld breiða af gamburmosa, sem er landnámsplanta á hraunum. Mosinn myndar jarðveg fyrir aðrar tegundir og þar dafna krækilyng, bláberjalyng, blávingull, kornsúra, móasef, túnvingull, hvítmaðra, grávíðir og fleiri tegundir.

Ölkelda (úr öl + kelda sem þýðir í fornnorsku „uppspretta“ eða „lind“) er uppspretta vatns sem inniheldur koltvísýring, en hann á uppruna sinn í storknandi kviku í iðrum Jarðar. Koldíoxíði kemur úr storknandi kviku í iðrum jarðar. Ef menn taka vatn með sér úr ölkeldu dofnar kolsýran fljótt ef vatnið er ekki geymt í lofttæmdum umbúðum. Vatnið úr ölkeldum þykir hressandi drukkið á staðnum og er vatnið ýmist heitt eða kalt. Ölkeldur finnast um allan heim og eru sumar þeirra þekktar sem heilsulindir (Sigurður Þórarinsson, 1978).

Ölkeldur eru kaldar eða rétt volgar uppsprettur sem finnast á háhitasvæðum og oft í jöðrum þeirra. Yfirleitt eru þær járnmengaðar og bragðvondar og vatnið rauðbrúnleitt, jafnvel svo liti heilu lækina. Vatn úr þeim köldustu sem mest ólga af kolsýrunni er drekkandi þótt brúnleitt sé.

Lóuegg

Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá 18. öld, er fjallað um ölkeldur á Snæfellsnesi. Þar telja þeir ölkeldur bæta Snæfellsnesi þann missi að hafa ekki neitt heitt vatn. Í ferðabókinni eru ölkeldur skilgreindar sem „uppsprettur sem eru auðugar af málmsöltum og með bragðmiklu vatni“. Eggert og Bjarni reyndu að flytja ölkelduvatn með sér til Kaupmannahafnar en vatnið skemmdist á leiðinni. Þeir félagar álitu að ölkeldur gætu orðið til mikilla hagsbóta fyrir Íslendinga því í öðrum löndum væru hressingarhæli oft byggð nálægt ölkeldum. Enn hefur þó lítið verið gert til að nýta það ölkelduvatn sem finnst á Íslandi.

Í HveragiliGufu- og leirhverir finnast aðeins á háhitasvæðum. Í raun er um samskonar hveri að ræða og því eru þeir oft flokkaðir saman. Í leirhverum nær vatnið upp í hvernum en í gufuhverum er svo djúpt á grunnvatnið að ekkert vatn er sýnilegt. Í gufuhverum leitar vatn yfir suðumarki til yfirborðsins og streymir þar út sem gufa. Í raun getur sami hverinn verið bæði gufu- og leirhver, bara ekki á sama tíma. Í miklum þurrkum getur leirhver þornað upp og orðið að gufuhver. Leir hveranna samanstendur af vatni og soðnu umbreyttu bergi.
Vatnshverir eru einkennandi fyrir lághitasvæði en finnast líka í einhverju mæli á háhitasvæðum. Vatnshverir á sama jarðhitasvæðinu liggja oftast nær í beinni línu eða í þyrpingum sem ná frá tugum til hundruð metra í lengd. Venjulega má þá finna sprungu undir hveraröðinni sem gefur til kynna að heita vatnið eigi upptök sín þar.

SkjólHellir útilegumannanna var skoðaður sem og undirliggjandi minjar. Undir stórum steini mátti sjá votta fyrir hleðslum. Bæði höfðu þær fallið inn á gólfið og regnvatn hafði fært sand og möl inn í skúta sem þar er. Staðurinn hefur verið hið ágætasta afdrep fyrir þá sem vildu leynast fyrir ferðum fólks um Innstadal því ekkert af því hefði átt erindi þangað að hömrunum.
Til baka var gengið frá upprunalindum Hengladalaárinnar og meðfram henni að upphafsstað.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Ölkeldan

Hrútadalur

Í Jarðabókinni 1703 segir m.a. um Miðdal, fremsta bæ Kjósarinnar:
„Jörðin er afdeild í fjögur býli, þrjú af þeim, sem þó eru þrír aðgreindir bæir, standa öll til samans og kallast öll heimajarðar nafninu; Middalur-21fjórða stendur á túninu góðan snert frá hinum, og er kallað Miðdalskot.“ Ekki er getið um selstöðu frá Miðdalsbæjunum í Jarðabókinni. Fjölmargar selstöður eru þó þekktar á Reykjanesskaganum sem ekki er getið í þeirri ágætu bók. Annað hvort hafa þær verið aflagðar fyrir skráninguna (sem reyndar fór fram í Kjósinni „17. júní og og næstu daga árið 1705“, eða voru upp teknar upp síðar. Einn var sá dalur í sveitinni, sem FERLIR hafði ekki gaumgæft, en það er Hrútadalur inn af Miðdal. Stefnan var tekin þangað, m.a. til að ganga úr skugga um hvort þar gætu leynst minjar eður ei.
Miðdalur mun áður hafa heitið
Mýdalur [Mýrdalur]. „Mýrdalur heitir jörðin í ævagömlum máldaga Saurbæjarkirkju á Kjalarnesi frá c. 1220 (Fbra. I), en Mýdalur í máldaga frá c. 1269 (Fbrs. II, 64 – (Þessi tilvitnun á einmitt við Mýdal i Kjós, en ekki Miðdal í Mosfellssveit (sbr. registur við Fbrs.jII)), Vilkinsmáld. og síðan optastnær, þar á meðal í A. M. Þykir þvi rétt að halda því nafni, þótt Mýrdalur sé eldra.“
Hrutadalur-22Áður en haldið var upp í hinn hömrumgirta Hrútadal var bóndinn í Miðdal tekinn tali. Aðspurður um selstöðu frá bænum spurði hann á móti hvað selstaða væri. Að því útskýrðu sagðist hann ekki minnast þess að slíkt útgerð hafi verið frá Miðdal. Hins vegar væru tóftir skammt ofan bæjarins er bentu til þess að þar hafi verið hálfkirkja og jafnvel grafreitur. Ofan fjallsbrúnarinnar þar efra væru tóftir er með góðum vilja mætti greina sem slíkar. Líklega hefði þar verið sauðakofi eða beitarhús. Það væri þó vel þess virði að skoða nánar. Ekki kannaðist hann við minjar í Hrútadal. Aðspurður um staðsetningu Miðdalskots benti hann á stað þar sem heimkeyrslan að bænum kemur á þjóðveginn skammt norðvestar. Sagði hann að þar hefðu áður verið tóftir, en þær hefðu verið jafnaðar út þegar vegurinn var lagður og túnið sléttað. Bóndinn í Miðdal var bæði vinsamlegur og áhugasamur um efnið, ekki síst þegar upplýst var að FERLIR væri ekki að skrá fornleifar á svæðinu heldur væri umleitunin fyrst og fremst fyrir forvitninnar sakir.
Neðst í Hrútadal vottar fyrir hleðslum stekks. Ekki eru aðrar minjar þar sýnilegar. Gengið var alveg upp í dalinn til að sannreyna fyrirliggjandi vitneskju.
Hrutadalur-23Efst í dalnum var sest niður og rifjuð upp eftirfarandi frásögn af atburðum er áttu sér stað í Miðdalskoti fyrrum:
„Kjósin er sveit, sem leynir á sér. Laxá rennur fram til sjávar um megindalinn, breiða byggð og búsældarlega, en út frá honum ganga suður í Esjuna aðrir dalir smærri, umgirtir dökkum og skuggalegum hamraveggjum og snarbröttuna hlíðum. Fannir, sem liggja lengi sumars í dalbotnum og fjallaskálum norðan í Esjunni, gera svip þessara afdala enn hrikalegri. Ósjálfrátt flýgur manni í hug, að hér hafi verið heimkynni trölla í forneskju. Einn þessara dala, sem gengur suður úr Kjósinni utanverðri, liggur í stórum sveig að fjallabaki, og horfir annað mynni hans vestur til Hvalfjarðar. í miðjum þessum dal, sem sker hálendið þannig sundur, er bærinn Miðdalur í kreppu hárra fjalla. Þar sér ekki sól fimmtán vikur í skammdeginu, ,og er þó enn skemmri sólargangur á sumum öðrum bæjum í Kjósinni, þeim sem í hrikalegustu nágrenni eru við suðurfjöllin. Annar bær, sem nú er kominn í eyði, var í grennd við Miðdal. Þar hét Miðdalskot, Ekki munu dalbúarnir hafa verið miklir efnamenn að jafnaði, en börðu furðanlega ofan af fyrir sér, og margir voru grónari við torfuna en títt var um þetta leyti. Búin voru smá og húsakynnin lágreist, en fólkið var þrautseigt og æðrulaust. Á síðari hluta vetrar fóru þeir karlmenn, sem heimangengt áttu, til sjóróðra á Seltjarnarnesi, Álftanesi og Vatnsleysuströnd, en kvenfólk og unglingar sinnti bústofninum heima og beið vorkomunnar, sem æðioft dróst svo lengi, að skörð voru komin í hjörðina, þegar sólin tók að ylja hlíðarnar og grænar nálar, hlaðnar frjómagni, gægðust loks upp úr moldinni.
Hrutadalur-24Í kringum 1820 bjó í Miðdal roskinn bóndi, Þorsteinn Þórðarson að nafni. Var hann maður ólæs og lítt kunnandi og enginn skörungur. Hann var ekkill og hafði misst tvær konur sínar, Þuríði Björnsdóttur og Guðrúnu Gissurardóttur, en bjó nú með uppkomnum börnum sinum. Heima hjá honum voru enn Björn og Kristín, bæði börn fyrri konunnar, og Eyjólfur, sonur seinni konunnar. Kristín hafði alizt upp frá frumbernsku hjá frænda sínum einum, Árna bónda Jónssyni á Sandi og í Eyjum, en farið til föður síns að Miðdal, er hún var um tvítugt. Nú var hún fyrir innan stokk hjá þeim feðgum, komin talsvert á þrítugsaldur. Kristínu í Miðdal er svo lýst, að hún var lág vexti, en mjög þrekin, hárið jarpt og sítt, augun stór og blágrá á lit, nefið meðalstórt og þykkt að framan, kinnbeinin há og munnur nokkuð stór, hakan breið og framstæð, hendur breiðar, hörundið fölt, en þó nokkur dreyri í kinnum. Björn, bróðir hennar, sem var á svipuðum aldri, var nokkru hærri vexti og mjög grannur, hárið dökkjarpt og hrokkið og skörin klippt í kring, augun blágrá, nefið hátt og breitt að framan, andlitið stutt og kringluleitt og litaraftið dökkt, kinnbein nokkuð há og skeggið lítið sem ekkert.
Í Miðdalskoti bjó annar ekkill, Björn Hallvarðsson, og hjá honum var uppeldispiltur, honnum vandabundinn, Ásmundur Gissurarson að nafni. Hann var um tvítugt. Ráðskona Björns hét Sólveig og var systir bónda. Ásmundur í Miðdalskoti lagði nokkurn hug á Kristínu, en fyrirstaða virðist hafa verið af hennar hálfu. Hefur pilturinn í Kotinu sjálfsagt verið örsnauður, en einhver efni í garði í Miðdal.
Svo gerðist það seint á engjaslætti sumarið 1819, að Kristín varð léttari að barni, og vissu menn eigi, hver vera mundi faðir þess. Morguninn eftir að barnið fæddist, gaf Björn í Miðdal sig á tal við Ásmund og kallsaði það við hann, hvort hann vildi ekki gangast við faðerninu. Ekki gat hann þess, hvers vegna hann bað Ásmund að gangast við barninu, en sagði þó, „að það stæði illa á því“. Ásmundur tók lítt undir þetta. Þó vísaði hann ekki tilmælunum með öllu á bug, enda var að því vikið um leið, að hann gæti fengið Kristínu fyrir konu. Þegar Þorsteinn, faðir Kristínar, færði þetta einnig í tal við hann, vísaði hann til Björns, fóstra síns, og Sólveigar, systur hans. Ræddi Þorsteinn síðan við þau í tómi, og að því samtali loknu töluðu þau við Ásmund, og hvöttu þau hann heldur til þess að víkjast vel við bón nágrannans og „hjálpa upp á karlinn kærleikans vegna“. Þegar séra Gestur Þorláksson í Móum spurði svo Ásmund, hvort hann vildi meðganga barnið, svaraði hann: „Það held ég.“ Var síðan aldrei á þetta minnzt, hvorki fyrr né síðar, enda dó barnið eftir fáar vikur. Engu var vikið að Ásmundi fyrir þennan greiða, og ekki varð honum fremur ágengt með Kristínu eftir en áður, þrátt fyrir þann ádrátt, sem hann hafði fengið. Þóttist hann frekar kenna kulda en hlýju hjá Miðdalssystkinum, en þó einkum henni. Ekki er ljóst, hvort orðrómur barst út um það, að barnið hefði verið rangfeðrað, en ekki er það ólíklegt, þar sem það var á vitorði fólks á tveimur bæjum. Menn kunnu engu betur að þegja yfir leyndarmálum þá en nú. Enginn reki var samt gerður að því að grafast fyrir um sannleikann.
Nú liðu nokkur misseri. Annan dag páska veturinn 1822 bar gest að garði í Miðdal. Var það vinnumaður af Kjalarnesi og hét Torfi Steinólfsson.
Miðdalsmenn voru ekki farnir til róðra, og voru þeir feðgar allir úti í heygarði eða annars staðar við gegningar, en Kristín var í baðstofu og virtist sjúk. Kvöld var komið og rokkið í baðstofunni. Heyrði gesturinn, að stúlkan stundi og hljóðaði lítið eitt, líkt og hún hefði létta jóðsótt. Að nokkurri stundu liðinni snaraðist Björn, bróðir hennar, inn í baðstofuna, og um svipað leyti datt allt í dúnalogn. Nokkru síðar komu þeir Þorsteinn og Eyjólfur inn, og svaf fólkið af nóttina, eins og ekkert hefði í skorizt, og ekki var neinnar hjálpar leitað afbæjar.
Hrutadalur-25Litlu síðar barst sá kvittur bæ frá bæ um Kjós og Kjalarnes, að Kristín í Miðdal hefði alið barn á laun og borið út, og fylgdi sögunni óviðfelldinn orðrómur um faðerni þess. Þegar séra Þorlákur Loftsson í Móum, sem nýlega var orðinn prestur í Kjalarnesþingum, heyrði þennan orðróm hjá sóknarbörnum sínum, skrifaði hann Lofti hreppstjóra Guðmundssyni á Neðra-Hálsi og fór þess á leit við hann, að hann færi að Miðdal og krefðist þess að sjá barnið. Innti Loftur hreppstjóri þetta erindi röggsamlega af hendi, færði presti burðinn út að Móum, en hann lét sýslumanninn, Ólaf Finsen, son Hannesar biskups, vita, hvernig komið var.
Talsverðar embættisannir hvíldu á sýslumanni um þetta leyti, en eigi að síður hélt hann með föruneyti sínu upp að Miðdal, svo skjótt sem við varð komið. Var heimilisfólkið yfirheyrt, og kannaðist það allt við, að Kristín hefði alið ófullburða fóstur, sem það vissi, að Björn var faðir að. Kristín og Björn gengust undir eins við þessu og könnuðust við burðinn, sem hafður var til sýnis við yfirheyrsluna. Kvaðst Kristín hafa alið burðinn lífvana að hálfnuðum meðgöngutíma og hefði enginn verið í baðstofunni, þegar það gerðist, nema Torfi Steinólfsson, en Björn hefði komið að, í sömu andrá og hún varð léttari. Engir höfðu séð fóstrið, nema Kristín og Björn, er sagðist hafa grafið það í moldina undir rúmi móðurinnar. Nú rifjaðist líka upp fyrri barneign Kristínar, en Björn neitaði, að hann hefði átt það barn. Kristín bar einnig á móti því og vitnaði til prestsþjónustubókarinnar: „Kirkjubókin útvísar það!“
Að þessu dagsverki loknu skipaði sýslumaður Birni bónda í Miðdalskoti og Ólafi bónda Andréssyni í Eilífsdal að taka við systkinunum og hafa þau í varðhaldi um nóttina, en flytja síðan. snemma næsta morguns að Hálsi til Lofts hreppstjóra, sem ekki hafði komið að Miðdal þennan dag sökum lasleika.
Hrutadalur-26Daginn eftir setti sýslumaður rétt að Neðra-Hálsi, og var þá sjálfur hreppstjórinn kvaddur til þess að segja frá hlutdeild sinni í því, að þetta komst upp. Loftur Guðmundsson var röggsamur bóndi og dugandi hreppstjóri og líklega sízt eftirbátur annarra starfsbræðra sinna. Þess vegna er frásögn hans af Miðdalsförinni dágóð mynd af því, hvernig hreppstjórar á þessum árum brugðust við, þegar þeim bar að höndum einhvern meiri vanda en að ráðstafa hreppakerlingum eða byggja út kotkörlum. Ekkert skorti á, að hann ræki erindi sitt af dugnaði, og milli línanna má lesa talsverð drýgindi yfir því, hvernig hann tók á málinu.
Óneitanlega er lýsing hans á tiltektum sínum allhláleg, þrátt fyrir alvöru heimsóknarinnar að Miðdal. En það hefur hreppstjórinn áreiðanlega ekki fundið. Birtist frásögnin hér orðrétt, svo að hún missi einskis í: „Þriðjudaginn fyrstan í einmánuði fór ég af stað að Miðdal af tali fólks um þetta tilfelli, einsamall í versta veðri, og undir eins og ég kom þangað, sagðist ég vera kominn einn og skyldi Kristín Þorsteinsdóttir láta í ljós við mig, það sem hún hefði fætt, og ég krafðist þess af henni að láta það til, svo yel sem af Birni Þorsteinssyni, hróður hennar, að hann segði ’til þess. Þá kom tregða á og stanz. Ég varð þá alvarlegri við þau, og sagðist ég lofa þá járnunum — ekki á morgun, heldur hinn daginn. Svo var kveikt Ijós, og Björn för þá að grafa til undir rúmi Kristínar — ég má segja rúmlega hálft annað kvartil niður í gólfið. Björn kom þá með fóstrið úr gryfjunni og fylgjuna áfasta við og lagði upp á grafarbarminn og sagði: „Þarna er það!“ Undir eins fer ég með hnén nærri á gólfið, tek þetta upp í lúku mína og slít fylgjuna frá fóstrinu og segi við Björn: 

Hrutadalur-27

„Láttu þetta ofan í gryfjuna aftur!“ Svo stend ég upp með þetta og skoða fóstrið. Sá ég þá á því, að það voru á því augnatóftir, nef og enni í mannslíki. Heldur sýndist mér vera eins og kambur eða röst upp úr höfðinu, en afturdregið frá hausnum með fjórum löppum. Á þeim urðu þrjár klær, eftir sem mér sýndist. Ég fór svo með fóstrið rétt að andlitinu á Kristínu og krafðist af henni að segja mér það sannasta um það, hvort þetta væri það, sem hún hefði fætt og ekki annað, og svaraði hún því óhikað: Já. Tók ég svo stokk og lét það þar í, vafið innan í ull. Fór ég svo þaðan út að Móum með það til prestsins, séra Þorláks Loftssonar, og afhenti honum það og beiddi hann að láta það ei forberast, svo að fleiri gætu séð það og hann gæfi það öðrum til kynna.
Enn á ný sýndu valdsmennirnir móðurinni fóstrið, sem nú var búið að reiða fram og aftur um héraðið, og jafnframt skoðuðu þeir það sjálfir, ásamt réttarvitnunum. Kvaðst Loftur þekkja það aftur, þótt það væri) orðið samanskroppið og visið og brotnar af því klærnar þrjár, sem hann hafði séð á því. Nú þótti allt fullrannsakað, er vék að þessum barnsburði, og var því farið að leita að föður fyrra barnsins, sem Kristín hafði átt. Ásmundur Gissurarson harðneitaði því, að hann hefði átt það, enda meðgekk Miðdalsfólk, að Björn hefði líka verið faðir að því. Þegar Þorsteinn, faðir systkinanna, var að því spurður, hvers vegna hann hefði ekki stíað systkinunum í sundur, þegar svo var komið, kvaðst hann að sönnu hafa ýjað að því við Kristínu, en hún hefði talið það þarflaust, því að þau myndu ekki hrasa í annað sinn. Vegna fávizku sinnar og dugnaðarleysis hefði hann ekki leitað aðstoðar annarra til þess að skilja þau. — Gruna má þó, að hitt hafi eins miklu valdið, að karl hafi horft í það að missa annaðhvort systkinanna frá bústörfum.
Hrutadalur-28Loks var málið tekið í dóm. Pétur Pétursson, bóndi í Eyjum, var skipaður sækjandi, en Gísli Skæringsson, bóndi á Hvítanesi, verjandi. Lítið mun hafa orðið um sókn og vörn, enda var slíkt að jafnaði formsatriði, sem litlu eða engu breytti. Var dómur kveðinn upp og Björn og Kristín talin hafa fyrirgert lífi sínu. Þessum líflátsdómi skyldi þó vikið undir atkvæði æðri dómstóls og leitað konungs náðar. Þorsteini var gert að greiða tuttugu ríkisdali í sekt til Kjósarhrepps. Nokkrum vikum síðar staðfestí landsyfirréttur þennan dóm, að öðru leyti en því, að lausafé systkinanna skyldi falla til konungs og sekt Þorsteins var lækkuð. í tíu dali. Um haustið staðfesti hæstiréttur dóm landsyfirréttar. Horfði nú illa fyrir systkinunum frá Miðdal. Þó var ekki öll von úti. Enn hafði ekki reynt á konungsnáðina. Varla hefur þess þó verið vænzt, að þau systkinin slyppu við langa fangelsisvist í Kaupmannahöfn. En að þessu sinni var óvenjulega skjótt við vikizt í stjórnarskrifstofunum dönsku. Konungur náðaði systkinin þegar þetta sama haust og akvað, að hýðing, þrisvar sinnum tuttugu og sjö vandarhögg, skyldi koma í stað dauðarefsingarinnar. Það var vissulega nokkuð ströng refsing, ef hún var harkalega á lögð, en tók þó fljótt af. Þorsteinn mun hafa hrökklazt frá búskap í Miðdal um þetta leyti eða litlu síðar. En margt af því fólki, sem þarna kom við sögu, bjó síðar á Kjalarnesi og í Kjós. Þorsteinn dó úr ellilasleika hjá Eyjólfi, syni sínum, er gerðist bóndi á Mora-Stöðum. Ásmundur Gissurarson bjó lengi í Stekkjarkoti á Kjalarnesi, öðru nafni Bjargi, skammt frá Saurbæ. Björn bjó í Snússu og átti að konu — bróðurdóttur hreppstjórans, er sótti hann heim í Miðdal á útmánuðum 1822.“
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Helztu heimildir: Dóma- og þingabók Gullbringu- og Kjósarsýslu, prestsþjónustubækur og sóknarmanntöl Kjalarnesþinga og Reynivalla Annál 19. aldar, Landsyfirvéttardómar.)

Heimild:
-Jarðabók ÁM og PV 1703, III. bindi, Kaupmannahöfn 1923-1924, bls. 385.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 37. árg., 1923, bls. 34.
-Frjáls þjóð, 8. árg 1959, 4. tbl. bls. 4 og 7.

Miðdalur

Miðdalur og Hrútadalur – kort.

Miðdalur

Ákveðið var að fylgja mjög gamalli götu upp frá Geithálsi framhjá Sólheimakoti, undir Hríshöfða, framhjá Djúpadal og Myrkurtjörn áleiðis inn í Seljadal.
Gatan sést mjög vel á köflum, en á nokkrum Gatanstöðum hefur trjám verið plantað í hana, einkum utan við Sauðhúsahvamm og undir Hríshöfða. Nefnd gata kemur inn á aðra er liggur áleiðis upp í Seljadal um sunnanvert Búrfell, framhjá Búrfellskoti, og norðan Leirtjarnar
. Götunar mætast norðvestan Silungartjarnar.
Til baka var gengið með Selvatni niður að Sólheimakoti.
Tryggvi Einarsson í Miðdal skráði örnefni í Miðdalslandi. Þar segir m.a. um svæðið, sem gatan liggur um: „Örnefni í Miðdalslandi sunnan gamla-Þingvallavegar. Frá mörkum Geitháls í austanverða Sólheimatjörn og úr suðurenda Sólheimatjarnar rennur Augnlækur um Markholt í Dugguós. Austan við Augnlæk er Sólheimamýri. Upp að norðurenda Sólheimatjarnar er Háabrekka, ofan við Háubrekku eru Brekkubrúnir, sunnan við Brekkubrúnir er fallegur hvammur er Sauðhúsahvammur heitir. Ofan við Sauðhúsahvamm eru sauðhús er afi minn byggði. Móts við Sauðhúsahvamm er kriki er Fífukrókur heitir.
BeitarhúsSkammt suður af Fífukrók er Sólheimakot, hjáleiga frá Miðdal, sést þar vel fyrir veggjum. Ofan við Sólheimakot er Sólheimamelur, sunnan við Sólheimamel er mýri er Dugguósmýri heitir. Ofan við Sólheimabrúnir. Frá Selvatni að Dugguósmýri rennur Dugguós í alldjúpu gljúfri er Dugguósgljúfur heitir. Norður af Selvatnsenda er mýrarfláki er Sauðhúsamýri heitir. Úr norð-vestur horni Sauðhúsamýrar liggur lægðardrag niður að Sauðhúsahvammi er Gíslalág heitir, úr Sauðhúsamýri rennur lækur í vestanvert Selvatn er Sauðhúsamýrarlækur heitir. Norður af Sauðhúsamýri er allstór heiði sem Heytjarnarheiði heitir. Í norð-austur horni Heytjarnarheiðar er Heytjörn, lítil tjörn, í henni vex hávaxinn gróður sem kallaður var Rauðólfur. Gras þetta er mjóvaxið og var oft slegið, þótti það hafa lækningarmátt við búfjárkvillum.
MannvirkiAustan við Heytjörn er smá klettaborg með grasþúfu sem Heytjarnarþúfa heitir. Frá miðju Selvatni austan Sauðhúsamýrar er Langimelur, skammt austur af suðurenda Langamels rennur Hrútslækur í Selvatn. Hrútslækur á upptök austan við Löngubrekkuhorn, þarna er allstór mýri er Hrútslækjarmýri heitir. Austan við Hrútslæk skagar grýtt holt út í Selvatnið sem Bleikjunef heitir. Nokkru austar við Selvatn skagar annað holt út í vatnið, það heitir Urriðanef. Milli Bleikjunefs og Urriðanefs er vík er Litla-Selsvík heitir. Norður af Litlu-Selsvík er Litla-Sel, sést aðeins móta fyrir rústum þar. Ofan við Litla-Sel er Litlaselshæð. Austur af Selvatnsenda er Víkursel, talið vera frá Vík á Seltjarnarnesi, sést þar fyrir selstóftum. Norður af Víkurseli eru Selbrúnir.

Selásvarða

Austan við Víkurselsbrúnir er allstór ás, er Selás heitir [á honum er varða; Selásvarða]. Norð-vestur undir Selás er Seldalur. Austan við Selsás er tjörn er Helgutjörn heitir. Sunnan undir Selás er valllendislágar er Urðarlágar heita, þar eru upptök Urðarlágarlækjar sem rennur í austurenda Selvatns. Nokkru norðar rennur Sellækur í Selvatn. Úr eystri Selvatnsenda í Lyklafellskoll eru landamörk milli Miðdals og Elliðakots.
Austan við áðurnefndan Hrútslæk er Hrútslækjarmýri. Norður af upptökum Hrútslækjar er Langabrekka. Milli Löngubrekku og Langamels er Langamýri. Norður af Löngumýri er Borgarholt, þar var hjáleiga frá Miðdal. Austan við Borgarholt er mýrarkriki er Borgarholtsmýri heitir. Suð-vestan við Borgarholt er mýrarsund er Borgarholtskelda heitir. Á Borgarholti er jarðfastur bergdrangur sem Borgarholt dregur nafn sitt af og heitir Borgin.
MyrkurtjörnNorðan við Borgarholt er stór hæð sem Hríshöfði heitir. Vestan í Hríshöfða er Hríshöfðabrekka. Vestur af norð-vestur horni Hríshöfða er hringlaga holt sem Holtið-Eina heitir, þar er nú nýbýlið Dalland. Milli Einholts og Borgarholts er Borgarholtsmýri. Undir norð-vestur horni Hríshöfða er uppsprettulind sem Kaldakvísl heitir, er Kaldakvísl raunveruleg upptök Bæjarlækjar. [Á Hríshöfða eru tóftir; fjárhús og manngert eyktarmark eða dys. Umhverfis mannvirkið fremst á höfðanum er bátslaga hleðsla. úsfreyjan á Dal taldi að fjárhúsin hafi verið frá Miðdal. Þau eru tvískipt með heykumli í austurenda. Þeim svipar mjög til fjárhúsanna (beitarhúsann) ofan við Sauðhúsahvamm við Sólheimakot, bæði að stærð og gerð. Húsin virðast hafa verið í notkun á svipuðum tíma og gætu hafa verið byggð af sömu mönnum.]
LeiðinNorðan við Holtið-Eina og Hríshöfða er mýri sem Hríshöfðavik heitir. Austan við Hríshöfðavik undir smáhæð er Gamli-Stekkur, sést þar vel fyrir Stekkjartóftum. Austur af Gamla-Stekk er lágur ás, norður að gamla-Þingvallavegi er Rjúpnaás heitir. Austur af Rjúpnaás er Efri-Djúpidalur, sá konunglegi dalur; árið 1907 sá faðir minn Einar Guðmundsson í Miðdal að öllu leyti um aðbúnað og móttöku Friðriks VIII, Danakonungs á leið sinni til Þingvalla. Var dalurinn allur flöggum prýddur, byggður var eldhússkúr en matarveisla í tjaldbúðum. Fékk faðir minn lof fyrir stundvísi og aðbúnað allan. Spölkorn suður af Djúpadal er Hríshöfðadalur.“
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Miðdal, Tryggvi Einarsson í Miðdal skráði.
-Húsfreyjan á Dallandi.
-Jón Svanþórsson.

Selvatnh

Selbrúnir

Í „Skráning fornleifa í Mosfellsbæ 2006„, skráða af Þjóðminjasafni Íslands, segir eftirfarandi um sögu Miðdals:

Miðdalur

Miðdalur – kort 1908.

„Miðdalur hefur trúlega verið í eigu Viðeyjarklausturs en er fyrst getið í Fógetareikningum 1547-52 sem „Mýdall“ eða „Mijdall“, þá í eigu konungs. Árið 1704 er hún ennþá konungsjörð og ábúandi einn (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 289-91). Árið 1847 er Mið­dalur hins vegar kominn í bændaeign og býr eigandinn þar sjálfur (J. Johnsen).
Einhvern tíma á árunum 1938-57 var jörðinni skipt í Miðdal I og II. Skv. Fasteignabók 1957 er Miðdalur II þó í eyði og nýtt frá Dallandi en í Eyðijarðaskrá 1963 kemur fram að Dalland var myndað úr Miðdal II og nýtt af eiganda. Jarðaskrá Landnáms ríkisins staðfestir að Miðdalur II var ekki í ábúð þegar byrjað var að halda jarðaskrár 1958 og hefur ekki verið síðan. Miðdalur I er hins vegar ennþá í ábúð.

Búrfellskot

Búrfellskot.

Þess ber að geta að fyrr á öldum hafa margar hjáleigur heyrt undir Miðdal.
Flestar virðast þó hafa farið í eyði snemma, jafnvel fyrir 1700. Má þar nefna Miðdalkot, Sólheimakot, Borgarholt eða Borgarkot, Búrfellskot og Búrfell.
Loks má nefna að sögu­legur viðburður átti sér stað í Efri-Djúpadal í landareign Miðdals, við konungsheimsóknina árið 1907, og segir Tryggvi Einarsson bóndi frá því í Örnefna­lýsingu: „…sá faðir minn Einar Guðmundsson í Miðdal að öllu leyti um aðbúnað og móttöku Friðriks VIII, Danakonuns á leið sinni til Þingvalla. Var dalurinn allur flöggum prýddur, byggður var eldhússkúr en matarveisla í tjaldbúðum. Fékk faðir minn lof fyrir stundvísi og aðbúnað allan“ (Tryggvi Einarsson).“

Í „Örnefnalýsingu fyrir Miðdal„, skráð af Tryggva Einarssyni Miðdal, segir um svæðið norðan og austan Selvatns:

Litla-sel

Tóft ofan við Litlu-Selsvík.

„Frá miðju Selvatni austan Sauðhúsamýrar er Langimelur, skammt austur af suðurenda Langamels rennur Hrútslækur í Selvatn. Hrútslækur á upptök austan við Löngubrekkuhorn, þarna er allstór mýri er Hrútslækjarmýri heitir. Austan við Hrútslæk skagar grýtt holt út í Selvatnið sem Bleikjunef heitir. Nokkru austar við Selvatn skagar annað holt út í vatnið, það heitir Urriðanef. Milli Bleikjunefs og Urriðanefs er vík er Litla-Selsvík heitir. Norður af Litlu-Selsvík er Litla-Sel, sést aðeins móta fyrir rústum þar. Ofan við Litla-Sel er Litlaselshæð. Austur af Selvatnsenda er Víkursel, talið vera frá Vík á Seltjarnarnesi, sést þar fyrir selstóftum. Norður af Víkurseli eru Selbrúnir.

Víkursel

Víkursel.

Austan við áðurnefndan Hrútslæk er Hrútslækjarmýri. Norður af upptökum Hrútslækjar er Langabrekka. Milli Löngubrekku og Langamels er Langamýri. Norður af Löngumýri er Borgarholt, þar var hjáleiga frá Miðdal. Austan við Borgarholt er mýrarkriki er Borgarholtsmýri heitir. Suðvestan við Borgarholt er mýrarsund er Borgarholtskelda heitir. Á Borgarholti er jarðfastur bergdrangur sem Borgarholt dregur nafn sitt af og heitir Borgin. Norðan við Borgarholt er stór hæð sem Hríshöfði heitir. Vestan í Hríshöfða er Hríshöfðabrekka. Vestur af norðvestur horni Hríshöfða er hringlaga holt sem Holtið-Eina heitir, þar er nú nýbýlið Dalland. Milli Einholts og Borgarholts er Borgarholtsmýri. Undir norðvestur horni Hríshöfða er uppsprettulind sem Kaldakvísl heitir, er Kaldakvísl raunveruleg upptök Bæjarlækjar. Norðan við Holtið-Eina og Hríshöfða er mýri sem Hríshöfðavik heitir. Austan við Hríshöfðavik undir smáhæð er Gamli-Stekkur, sést þar vel fyrir Stekkjartóftum. Austur af Gamla-Stekk er lágur ás, norður að gamla-Þingvallavegi er Rjúpnaás.

Djúpidalur

Djúpidalur.

Austur af Rjúpnaás er Efri-Djúpidalur. Sá konunglegi dalur, árið 1907 sá faðir minn Einar Guðmundsson í Miðdal að öllu leyti um aðbúnað og móttöku Friðriks VIII, Danakonungs á leið sinni til Þingvalla. Var dalurinn allur flöggum prýddur, byggður var eldhússkúr en matarveisla í tjaldbúðum. Fékk faðir minn lof fyrir stundvísi og aðbúnað allan.

Selbrúnir

„Borg“ í Selbrúnum.

Spölkorn suður af Djúpadal er Hríshöfðadalur. Austan við Víkurselsbrúnir er allstór ás, er Selás heitir. Norðvestur undir Selás er Seldalur. Austan við Selsás er tjörn er Helgutjörn heitir. Sunnan undir Selás er valllendislágar er Urðarlágar heita, þar eru upptök Urðarlágarlækjar sem rennur í austurenda Selvatns. Nokkru norðar rennur Sellækur í Selvatn. Úr eystri Selvatnsenda í Lykklafellskoll eru landamörk milli Miðdals og Elliðakots. Suðaustur af Urriðarlágarbotninum (svo) eru Vörðhólar. Vestan undir Vörðhólum er allstór dalur er Vörðhóladalur (heitir. Sunnan við Vörðhóla er greni með fallegu skotbyrgi. All langt norður af Lyklafelli eru Klettabrúnir sem Klettabelti heita, spölkorn austur af Klettabeltum er jarðfastur bergstöpull sem Litli-Klakkur heitir. Nokkru austar er stærri bergstöpull sem Stóri-Klakkur heitir.“

Selvatn

Selvatn – málverk Ásgríms Jónssonar 1956. Sjá myndina fyrir neðan.

Tryggvi Einarsson getur ekki um fjárborg í Selbrúnum. Borgarmynd er þó þarna í dag, árið 2021, ca. 15 metra frá sumarbústað, sem þar hefur verið byggður, allhrörlegur. Fjárborgin þessi kemur heldur ekki fram í „Skráning fornleifa í Mosfellsbæ“ 2006. Í Þjóðminjalögunum frá 2001 sagði í 11. grein: „Þeim minjum, sem friðlýstar eru, skal fylgja 20 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum fornleifa og umhverfis nema kveðið sé á um annað.“ Fjárborgin hefur ekki verið friðlýst. Hennar er heldur ekki getið í „Skráningu fornleifa í Mosfellsbæ 2006“, skráð af Þjóðminjasafni Íslands.

Selvatn

Selvatn – steinn Ásgríms Jónssonar.

Í Minjalögum frá 2012 segir hins vegar í 22. grein: „Fornleifum sem eru friðlýstar skal fylgja 100 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum þeirra og umhverfis nema kveðið sé á um annað. Hvers konar röskun, byggingarframkvæmdir eða aðrar framkvæmdir á friðhelguðu svæði umhverfis friðlýstar fornleifar eru óheimilar án leyfis Minjastofnunar Íslands. Friðhelgað svæði umhverfis aðrar fornleifar, sem ekki eru friðlýstar en njóta friðunar, skal vera 15 metrar nema annað sé ákveðið“. Sumarbústaðurinn hefur væntanlega verið byggður fyrir 2012.
Líklegasta skýringin á vanskráningu „fjárborgarinnar“ að hún hafi verið hlaðin eftir 2006. Handbragðið á hleðslunum bendir m.a. til þess. A.m.k. sést hún ekki á loftmynd af svæðinu frá 1954.

Árnakróksrétt

Árnakróksrétt.

Tryggvi Einarsson frá Miðdal skráði „Örnefni í landi Elliðakots í Mosfellssveit“. Þar getur hann um aðra fornleif skammt sunnar, þ.e. Árnakróksrétt: „Landamörk Elliðakots að norðan eru þar sem Dugguós rennur í Hólmsá.
Svo Dugguós í vesturenda Selvatn. Skammt vestan við mitt Selvatn eru stórgrýtisklettar, sem Veiðiklettar heita. Nokkru ofar við vatnið er Árnakrókslækur.
Austan við Sellækjarupptök er allstór klettahóll, sem Árnakrókshóll heitir. Austur af Árnakrókshól er allstór valllendiskriki, sem Árnakrókur heitir. Á klapparsvæði norður af Árnakrók er Árnakróksrétt (að mestu uppi standandi), var skilarétt Mosfellinga. Var flutt að Hafravatni um síðustu aldamót. Heitir nú Hafravatnsrétt. Árnakróksrétt var annáluð fyrir brennivínsþamb og hæfileg slagsmál. Sótti þar að fjölmenni úr Reykjavík og nágrenni og vakað alla réttanóttina.“ Í „Aldaskil“ eftir Árna Óla, á bls. 243, er minnst á tilurð nafnsins Árnakrókur. „Þarna fannst maður úr Laugardalum helfrosinn í Króknum svokallaða sem aftur breyttist í Árnakrók“.

Fossvallarétt

Fossvallarétt ofan Lækjarbotna.

Fossvallarétt ofan Lækjarbotna  tók við af Hafravatnsrétt fyrir afrétt Seltjarnarneshrepps hins forna haustið 1986 eftir að Hafravatnsrétt hafði verið lögð niður en hún hafði verið lögrétt allt frá 1902 þegar Árnakróksrétt, skammt frá Selvatni, var aflögð (skömmu eftir aldarmótin 1900).

Heimildir:
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ 2006, skráð af Þjóðminjasafni Íslands.
-Örnefnalýsing fyrir Miðdal – Tryggvi Einarsson.
-Örnefnalýsing fyrir Elliðakot – Tryggvi Einarsson.
-Þjóðminjalög 2001 nr. 107 31. maí.
-Minjalög frá 2012.

Selbrúnir

„Fjárborg“ í Selbrúnum.

Vindássel

Eftirfarandi upplýsingar má lesa í „Fornleifaskráning í Kjósarhreppi III“ – I. bindi, um bæina Káranes, Káraneskot, Laxárnes, Miðdal, Miðdalskot, Hækingsdal og Vindás.

Káranes
Káranes
20 hdr 1673, Jarðabréf, 19. 20 hdr 1705. Káranes er komið í byggð árið 1705 samkvæmt Jarðabók Árna og Páls en Káraneskot, hjáleiga, virðist ekki í byggð þetta sama ár. Þó er vísbending í texta um að þar sé engu að síður tvíbýli. Þar segir: „Ábúandinn Grímur Magnússon, býr á hálfri. Annar Loftur Bjarnason, býr á hálfri.“ JÁM III, 409-410. Árið 1397 segir í máldaga Meðalfellskirkju: „a xxc j heimalandi. Leiguland Þat er ad Hurdarbaki heitir. …Þar liggia vnder tiunder af Hurdarbaki oc Karanesi oc lysitollar. So gropttur.“ DI IV, 115-116. Rjómabú var á jörðinni. Örnefnaskrá, 2. 1705: Landþröng er mikil, og bólgna vötn yfir mestallan haga um vetur, og gjörist því jörðin vetrarþúng í mesta máta.“ JÁM III, 410. 1840: „Heyskapur er þar nokkur á bökkum líkt og á hinu kotinu og landslag sama.“ SSGK, 258.
Túnakort 1917: Tún 3,7 teigar, garðar 1000 m2 . Allt sléttað.
„Fyrir austan bæjarhúsin er Áarhóll við vað [Höfðavað] á ánni, og svo er hóll heima við bæ, sem heitir Bæjarhóll,“ segir í örnefnaskrá. Káranes er um 2 km austan við Laxárnes, um 1,8 km NNA við Meðalfell og um 300 m suðvestan við Laxá. Samkvæmt Pétri Lárussyni bónda í Káranesi var gamli bærinn fast SSV við núverandi íbúðarhús 2010).
Káranes var byggt úr landi Meðalfells. Káranesbær er í Túnakort Káraness og Káraneskots frá árinu 1917 í miðjum Laxárdal á lágu holti sem stendur 2-10 m upp úr mýrinni og snýr NNA-SSV.
Á bæjarhólnum er íbúðarhús sem byggt var 1965-1967 og sléttað tún. „Hann [Hestgangur] var sunnan við gamla íbúðarhúsið, sem var sunnan við núverandi íbúðarhús,“ segir í svörum við spurningum um örnefnaskrá. Í grein eftir Halldór Jónsson um Jón Halldórsson í Káranesi segir m.a.: „Íbúðarhús 10×12 al. með veggjum að hálfu leyti steyptum og að hálfu leyti úr timbri, járnvarið með kjallara undir (einlyft),“. Bæjarhóll Káraness er um 40 m á lengd, um 20 m á breidd, 1-3 m á hæð og snýr NNA-SSV. Hóllinn er að mestu sléttað grasigróið tún/lóð umhverfis núverandi íbúðarhús. Útihús voru nyrst í bæjarröðinni og hestgangur syðst.

Káranes

Laxá í Kjos, Káranes og Káraneskot.

Íbúðarhúsið var byggt á árunum 1965-1967 og stendur á miðjum hólnum þar sem útihús voru áður. Þegar húsið var byggt komu í ljós í grunni þess gólfskánir og hleðslur eldri bæjar. Ekki virðist vera kjallari undir nýja húsinu. Á meðan verið var að byggja nýja húsið stóð gamli bærinn fast sunnan við það. Gamli bærinn var svo rifinn árið 1968 en grunnur hans finnst enn undir sverði. Gamli bærinn var byggður um 1896 og lá bæjarröðin NNA-SSV með framhlið til VNV. Bærinn var timburhús með hlöðnum kjallara en seinna voru steyptir veggir utan um bæinn. Húsið var um 60 m2 að flatarmáli á þremur hæðum þ.e. Kjallari, jarðhæð og ris.
Þegar bærinn var rifinn voru lítil eldiviðargeymsla og smíðaskúr áföst honum að norðanverðu (sem höfðu verið byggð við húsið eftir 1896). Gengið var um aðalinngang til austurs inn í eldiviðargeymsluna. Þegar inn var komið var gengið til hægri inn í bæinn sjálfan til suðurs. Framdyr og kjallaratröppur voru hlið við hlið vestarlega á norðurhlið bæjarins. Tröppur voru vestar og dyr inn á gang á jarðhæð austar. Þegar Pétur Lárusson, bóndi í Káranesi, man fyrst eftir sér voru þrjú herbergi í kjallara. Kartöflugeymsla, þvottahús og mjölgeymsla. Mjölgeymslan varð seinna baðherbergi. Á tímabili var einnig olíukynding í kjallaranum. Á jarðhæð voru tvö herbergi til vesturs og eldhús og stofa til austurs. Gangur var á milli eldhúss og nyrðra herbergis og herbergjanna tveggja. Þar var gengið upp í ris. Í risinu voru geymsluloft og eitt svefnherbergi. Eina loftræstingin í húsinu voru litlar túður í veggjunum sem fylltar voru með tuskum á vetrum.

Káraneskot
Hjáleiga Káraness, ekki í byggð árið 1705 þegar Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er skrifuð. JÁM III, 409. Í Jarðabók Johnsens frá 1847 er Káraneskot skráð sem hjáleiga. Þar segir í neðanmálsgrein. „Sýslumaður skiptir dýrleikanum jafnt niður á milli Káraness og kotsins, 10 h.á hvoru.“ JJ, 99. 1840: „… niður á flatlendi, á flötum hávaða við lítið seg; hefir allsæmilegan heyskap og mýrlendi til beitar, ekki mikið.“ segir í Sýslu- og sóknalýsingum Gullbringu- og Kjósasýslna. SSGK, 257.
Samkvæmt túnakorti frá árinu 1917 var Káraneskot um 290 m SSV við Káranes. Það var nálægt því sem núverandi íbúðarhús í Káraneskoti stendur, um 280 m SSV við Káranes. Á þessu svæði er nýlegt íbúðarhús ásamt umfangsmiklum útihúsum og malarplani fast norðan við íbúðarhúsið. Sunnan við íbúðarhúsið er sléttað tún.
Enginn greinilegur bæjarhóll er sjáanlegur á svæðinu vegna bygginga, sléttunar og trjágróðurs. Samkvæmt Pétri Lárussyni heimildamanni stóð eldri torfbær á svipuðum stað og yngra steinsteypt hús sem byggt var um 1930. Í steinhúsinu var kjallari, jarðhæð og ris en fjósið og hlaðan voru stakstæð og byggð úr torfi og grjóti. Þessi hús voru rifin á seinni hluta 20. aldar þegar núverandi hús voru byggð. Samkvæmt túnakorti virðist svæðið sem torfbærinn stóð á vera um 40×40 m að stærð. Bærinn sjálfur var um 22 m á lengd, um 10 m á breidd og snéri austur-vestur. Um fimm hús/rými virðast hafa verið í gamla bænum en nákvæmt hlutverk þeirra er óþekkt. Ekki er alveg ljóst hversu lengi hefur verið búið í Káraneskoti en hugsanlega hefur byggð ekki verið það lengi á þessum stað að náðst hafi að byggjast upp greinilegur bæjarhóll.

Laxárnes
Laxárnes
16 hdr 1705. Laxveiði góð árið 1705, þá sagt að áður hafi selveiði verið til hlunninda.
1483: Jarðarinnar er getið í sölubréfi. DI V, 800. 1507: Jarðarinnar er getið í dómabréfi, þá virðist jörðin vera í Saurbæjarkirkjusókn. DI VIII, 146.
Flóakot: Hjáleiga í byggð fyrir 1685 samkvæmt Jarðabók Árna og Páls. Í bókinni Kjósarmenn segir frá því er kotið er aftur byggt upp um 1861 og var í byggð til 1870. Þar hefur ekki verið búið síðan. JÁM III, 398; Kjósarmenn, 451.
Melkot: Hjáleiga frá 1843-1849 og frá 1864-1882. Kjósarmenn, 444. HÞ telur Laxárnes réttara en Laxanes. HÞ:“Rannsókn og leiðrjettingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi“.
Árbók 1923, 34. 1705: „Engjar eru öngvar, so annarstaðar þarf til að kaupa ut supra.“ JÁM III, 398. Túnakort 1917: Tún 3,8 teigar, allt sléttað, garðar 820 m2.
„Móinn við voginn er kargþýfður, kafloðinn með háum bökkum við sjó, og brotnað því nokkuð. Mjóst er orðið milli bakkans og vestur túnsins við garðlagshornið um 16 metra. Þaðan norður eftir er túnefnið mikið og gott. Túnið alt afgirt.“
Bærinn Laxárnes var um 2 km vestan við Káranes, um 200 m norðvestan og neðan við Hvalfjarðarveg 47 og um 50 m NNA við Sauðhól þar sem nú (2010) eru mikil steinsteypt útihús. Í bókinni Ljósmyndir segir svo: „Hús voru mjög ljeleg á jörðinni, er Ingvar [Bjarni Ingvar Jónsson] tók við [1928]. Kom hann sjer upp íbúðarhúsi úr timbri, steinsteypta heyhlöðu væna með áföstu fjósi, og
eina steinsteypta votheyshlöðu reisti hann. Enn fremur hefir hann byggt litla heyhlöðu við fjárhús með veggjum úr torfi og grjóti og með járnþaki. Kom þessi hlaða í stað lítillar og mjög lélegrar
heyhlöðu, er þar var áður.“ Á því svæði sem gamli bærinn stóð eru slétt malarplan, gamalt timburhús frá 1934 og umfangsmikil steinsteypt útihús með bárujárnsþaki. Ekkert sést til bæjarhóls vegna sléttunar og þeirra miklu útihúsa sem risu árið 1977.
Laxárnes er ekki lengur í byggð en landið er nýtt fyrir hrossabeit. Samkvæmt Pétri Lárussyni bónda í Káranesi var hefðbundnum kúabúskap hætt í Laxárnesi í kring um 1980 en jörðin er enn leigð út og landið vel nýtt.

Melkot

Melkot

Melkot – tóftir.

Í Jarðabók Johnsen frá árinu 1847 segir í neðanmálsgrein: „Prestur nefnir Melkot, sem nýbýli, en þareð þess hvorki er getið 1802 né af sýslumanni, er því hér sleppt.“ Melkot er einnig nefnt í örnefnaskrá Laxárness: „Eftir holtinu liggur nýr vegur. Suður af austurenda þess við Skorá eru rústir eftir Melkot, og þar aðeins neðar með ánni er hvammur, sem oft var matazt í á engjum. Hann heitir Matarbolli.“ Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: „Í Saurbæjarsókn í Laxárnesslandi voru áður fyrr bæirnir Flóakot [010] og Melkot, hvorttveggja þurrabúðir.“ Í Kjósarmenn segir um Melkot: „Árni Jónsson og kona hans Guðrún Einarsdóttir bjuggu í Melkoti, húsmannsbæ í Blönduholtslandi, 1843-49. […] Guðmundur [Guðmundsson] bjó í Melkoti 1864-82, en fluttist síðan til Reykjavíkur […].“ Samkvæmt Kjósamönnum var Melkot í Blönduholtslandi en þar sem það er allsstaðar annarsstaðar talið með Laxárnesi er þetta líklegast bara villa. Það er um 1,4 km sunnan við Laxárnesbæ, um 80 m austan við Skorá og um 400 m suðvestan við Meðalfellsveg. Melkot var byggt á 1-3 m háu grasigrónu holti á austurbakka Skorár sem liggur norðaustursuðvestur. Fast norðaustan við holtið eru 5-6 samsíða skurðir og tún sem liggja norðvestur-suðaustur.

Mýdalur (Miðdalur)
Miðdalur
40 hdr 1705. Í Jarðabókinni frá 1705 er jörðin samanlagt metin á 40 hdr en henni var skipt í fjögur býli, þrír aðgreindir bæjir sem standa þó allir saman og heita allir Mýdalur. Fjórða býlið stendur á túninu og er nefnt Miðdalskot. Einnig er getið um eyðihjáleigu á bænum sem ekki er vitað hvar var.
JÁM III, 385-389. Kirkjunnar 002 í Mýdal er fyrst getið í máldaga Saurbæjarkirkju frá um 1220: „[í Saurbæ] liggia tiundir til millum blikdals ar. Oc æilifsdals ar. Nema af eyri. Oc vr myrdal. Ef þar bua landeigendr. Þa sculu þeir taka sina tiund heima oc hiona sinna allra. En ef leiglendingar bua þar eða hiabuðar menn. Þa scal j saurbæ þeirra tiund gialldaz oc hiona þeirra. Ef þav giora skiptingar tiund.“ DI I 402. Varðveist hefur máldagi kirkjunnar frá því um haustið 1269: „Mariu kirkia j mydal a .x. Hundrard j lande og ku eina.“ DI II, 64. Kirkjunnar er enn getið í máldaga Saurbæjarkirkju frá um 1315: „[til Saurbæjar] liggia tijundir til millum blikdalzär oc eilyfsdalzar nema af eyri og yr mydal ef þar bua landeigenndur. Skulu þeir taka heima tijund sijna oc allra hiona sinna. Enn ef leiglenndijngar bua þar eda hiabudamenn þa skal j saurbæ gialldast tijunnd þeirra oc hiona þeirra. Ef þau giora skiptijnngar tijunnd“ DI III, 32. Í máldaga kirkjunnar frá um 1367 segir að krikjan eigi: „xc j lande og viij ær,“ DI III, 219. Í máldaga Saurbæjarkirkju frá um 1379 segir: “ [til Saurbæjar] liggur tijund til millum blikdalzär og dalzär nema af eyri og mydal,“ DI III, 342. 1397:
Kirkjan er nefnd í máldaga Saurbæjarkirkju, DI IV, 114-115. 1397: „a xc j landi Þar skal syngia annan hvern dag helgann oc hinn fiorda hvern ottusong. Xvij aurar skulu lvkast j tijdaoffur og skal heima takst tiund Heimamanna.lysa skal fyrer loghelga messudaga svo Mariumesso vns lydur.“ DI IV, 115. 1468: Landamerkjabréf milli Eilífsdals og Mýdals. DI V, 516. [1491-1518]: Mydals kirkiu maldagi. Maríu kirkia j Mydal aa .x.c j heimalandi og viij ær en Jon Palsson lagdi til suo .iiij. Kugilldi voru.“ DI VII, 54. Jörðin átti uppsátursítak í landi Mela nálægt Kiðafellsárós. Konungur átti 6 hdr af jörðinni sem var árið 1847 metin á 36 hdr. JJ, 100. „Mýrdalskot [GK-333:001] er fyrst nefnt 1802, en áður hlýtur það að vera talið með undir höfuðjörðunni, sem með Mýrdals parti var talin 40 h. Öll (A.M.) og parturinn þarí útaf fyrir sig 6 h., með 36 al. 1sk. 1 kúg. … Annars segir þar, að eyðijörðin „Efri-Mýdalur“ sé yrkt bæði frá Mýdal og Mýdalskoti.“ JJnm, 100. Jörðin heitir nú Miðdalur. Mýdalskot hjáleiga, lögð undir Mýdal. HÞ telur Mýdalsnafnið réttast: HÞ:“Rannsókn og leiðrjettingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi“ Árbók fornleifafélagsins 1923, 34. 1705: „Tún, engjar og hagar eru sífeldum skriðum undir orpnar, sem árlega spilla, og er jafnan fyrir því hætt, jafnvel heygörðum og fjósum þeirra Sölmundar og Guðlaugs. … Engjar eru annars litlar mjög, snöggvar og grýttar. Landþröng er mikil. Hætt er fyrir snjóflóðum og foruðum.“ JÁM III, 388. 1917: Tún 3,3 teigar, garðar 550m2. Mestallt tún á Miðdal er slétt.

Miðdalur

Miðdalur.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín er Miðdalur metinn á 40 hdr árið 1705. Þar segir m.a.: „Jörðin er afdeild í fjögur býli, þrjú af þeim, sem þó eru þrír aðgreindir bæir, standa öll til samans og kallast öll heimajarðar nafninu; fjórða stendur í túninu góðan snert frá hinum, og er kallað Mïdalskot.“ Gamli bærinn í Miðdal sem merktur er inn á túnakort frá 1917 stóð 10-15 m norðan við íbúðarhúsið sem byggt var árið 1921 sem stendur enn sem hluti af fjósi og um 30 m ASA við núverandi íbúðarhús í Miðdal sem byggt var á seinnihluta 20. aldar. Bærinn stóð um 5 m
austan við íbúðarhúsið frá 1921 þar sem hlaðan stendur núna.
Nákvæm staðsetning bæjanna sem stóðu þétt saman samkvæmt Jarðabók Árna og Páls er óþekkt en líklegast hafa þeir staðið á svipuðum stað og bærinn sem sýndur er á túnakorti frá 1917. Á þessu svæði er nýtt hátæknifjós, hlaða og sléttað malarplan. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir m.a.: „Þegar Guðmundur Brynjólfsson kemur að Miðdal [1921], kaupir hann jörðina og einnig Miðdalskot fyrir kr. 7000,00 og fylgdu kaupunum sex ær og ein kýr. Á báðum býlum var eiginlega allt í rústum og öll hús að kalla mátti komin að falli. … Hann reisti allstórt íbúðarhús úr steinsteypu með áfastri steinsteyptri heyhlöðu og tveim litlum votheysgryfjum steyptum, fjós yfir tuttugu gripi og áburðarkjallara undir fjósinu, ennfremur byggði hann litla fjárhúshlöðu og aðra hlöðu rjett við bæjarhúsin, en þessar hlöður og tilheyrandi gripahús byggði hann með veggjum úr torfi og grjóti með járnþökum.“
Samkvæmt túnakorti frá árinu 1917 var svæðið sem bærinn og aðrar tengdar byggingar og garðar stóðu á um 50×40 m stórt og snéri VNV-ASA. Ekkert sést til bæjarhóls vegna framkvæmda á 20. öld. Ekki er þó útilokað að einhverjar mannvistarleifar leynist enn undir sverði VNV við núverandi útihús og undir þeim eldri sem byggð voru um eða eftir 1921 norðarlega á bæjarstæðinu.

Hálfkirkja

Miðdalur

Miðdalur.

Heimild er um hálfkirkju að Miðdal. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1705 segir: „Hjer hefur áður hálfkirkja verið, og er hún aflögð fyrir löngu, so sjötigir menn minnast valla að húsið var uppi, og þó voru tíðir löngu fyr aflagðar.“ Í örnefnaskrá segir: „Brekka beint upp af bæ heitir Kirkjubrekka.“ Í viðbótum við örnefnaskrá segir einnig: „Kirkjubrekka: Eitt sinn var kirkja í Miðdal. Ef til vill hefur hún staðið undir þessari brekku. Ekki er vitað um grafreiti í Miðdal, nema að einn maður er jarðaður í þessari brekku. Grímur man eftir þúfu sem sagt var leiði þessa manns.“ Nákvæm staðsetning hálfkirkjunnar og leiðisins er óþekkt en líklegast var kirkjan heima við bæ. Kirkjubrekka er um 100 m NNA við bæjarstæði og þó nokkuð ofarlega í hlíðinni ofan við bæ svo ekki er líklegt að brekkan tengist kirkjunni beint þó sjálft örnefnið tengist henni óneitanlega. Kirkjubrekka er vel grasigróin, nokkuð slétt og hallar í 5-20° til suðvestur.
MÝ(R)DALUR Á KJALARNESI (K) – Maríu (SAURBÆJARÞING) – HÁLFKIRKJA [um 1220]: „[í Saurbæ] liggia tiundir til millum blikdals ar. Oc æilifsdals ar. Nema af eyri. Oc vr myrdal. Ef þar bua landeigendr. Þa sculu þeir taka sina tiund heima oc hiona sinna allra. En ef leiglendingar bua Þar eða hiabuðar menn. Þa scal j saurbæ þeirra tiund gialldaz oc hiona þeirra. Ef þav giora skiptingar tiund,“. Máld DI I 402 [Saurbæjar]. [haustið 1269]: „Mariu kirkia j mydal a .x. Hundrard j lande og ku eina. Þar skal syngia annan hvern dag loghelgan. Ok enn fiorda hvern ottv song og kavpa .xviij. Avrum ad presti ur savrbæ og skal heima týund allra heima manna Lysa skal fyrer loghelga daga fra mariv messv. Vnz lidr paska vikv,“. Máld DI II 64. [1315]: „[til Saurbæjar] liggia tijundir til millum blikdalzär oc eilyfsdalzar nema af eyri og yr mydal ef þar bua landeigenndur. Skulu þeir taka heima tijund sijna oc allra hiona sinna. Enn ef leiglenndijngar bua þar eda hiabudamenn þa skal j saurbæ gialldast tijunnd þeirra oc hiona þeirra. Ef þau giora skiptijnngar tijunnd,“. Máld DI III 32 [Saurbæjar].
[1367]: „xlvi. Mariukirkia j Mydal a xc j lande og viij ær. Les Vilchinsbok. Vtann hier stendur suo. Skal lukazt atian aurar j tijdaoffur preste j Saurbæ. Annad ber saman,“. Hítardalsbók DI III 219. [1379]: „[til Saurbæjar] liggur tijund til millum blikdalzär og dalzär nema af eyri og mydal ef þar bua landeigendur. Þa skulu þeir taka sina tijund heima og allra hiona sinna,“. Máld DI III 342, Máld DI IX 17 [Saurbæjar]. 1397: [sbr [1379]]; Máld DI IV 114-115 [Saurbæjar]. 1397: „a xc j landi. Þar skal syngia annan hvern dag helgann oc hinn fiorda hvern ottusong. Xvij aurar skulu lvkast j tijdaoffur og skal heima takst tiund Heimamanna. Lysa skal fyrer loghelga messudaga svo Mariumesso vns lydur,“. Máld DI IV 115. [1491-1518]: „Mydals kirkiu maldagi. Maríu kirkia j Mydal aa .x.c j heimalandi og viij ær en Jon Palsson lagdi til suo .iiij. Kugilldi voru. Þar skal syngia annan huern dag helgan og hinn fiorda huern ottusaung. Xvij avrar skulu lukast j tidaoffur og skal heima tkast tiund heimamanna. Lysa skal fyrir laughelga messudaga,“. Máld DI VII, 54 [AM 238 4to, bl. 133 (Bessastaðabók)].
1575: Gíslamáldagi. „Hälfkirkian i Mijdal.ä xc.i heimalande. Jtem iiij mälnijtu kugilldj. Jtem lijtel klucka. Jørdenn xxxc. Lausagötz xxxjc.“ DI XV, 634. {1598: hálfkirkja; AM 263 fol. Bl. 63, 64}. Heimild óljós. Í Kirkjubrekku eru tvær þústir og óljósar leifar, hugsanlega garður. Ólíklegt er þó að umræddar leifar séu af hálfkirkjunni enda staðsetningin ólíkleg vegna mikils halla í brekkunni og fjarlægðar frá bæjarstæði.

Efri-Mýdalur
Í Jarðatali Johnsen frá árinu 1847 segir í neðanmálsgrein: „Annars segir þar, að eyðijörðin „Efri-Mýdalur“ sé yrkt bæði frá Mýdal og Mýdalskoti.“ Efri-Miðdals er Fjárhústóft GK-332:006, horft til suðurs ekki getið með þessu nafni í öðrum heimildum, hvorki í Jarðabók Árna og Páls frá 1705 eða í yngri heimildum og hefur því hugsanlega aðeins verið í byggð um stutt skeið. Þó er talað um í Jarðabók Árna og Páls að Miðdalsjörðinni sé skipt í fjögur býli og að þrír aðskildir bæir séu allir á svipuðum stað. Ekki er ólíklegt að Efri-Mýdalur hafi verið einn að þessum bæjum. Ekkert er lengur vitað um hvar eyðibýlið stóð og hvorki eru þekkt örnefni sem gætu gefið vísbendingar um staðsetninguna né heldur eru rústir innan Miðdals sem gætu bent til bústaðar. Ekkert sést til fornleifa.

Helguhóll (huldufólksbústaður)

Helguhóll

Helguhóll í Miðdal.

„Vatn fellur til Miðdalsár; þá er næst Hrútatunga. Vestan við hana heitir Illagil að ofan. Þá tekur við breið tunga, er heitir Skessutungur ofan til, en Helguhólstungur neðan til. Neðan til í þeim er grjóthóll, sem heitir Helguhóll,“ segir í örnefnaskrá. Í athugasemdum og viðbótum við örnefnaskrá segir að huldufólk hafi búið í Helguhól. Helguhóll er náttúruleg klettastrýta í sunnanverðum Miðdal, um 1,4 km sunnan við bæ og um 930 m SSV við Grjótstekk. Strýtan er mjög greinileg neðarlega í fjallshlíð Tindstaðahnúks. Hún er um 100x 50 m stór, 10-20 m há og snýr norðaustur-suðvestur. Toppur hennar er ógróinn. Á þessu svæði er fjallshlíðin vel grasigróin og mýrlend og hallar í 10-30° til norðaustur.

Mýdalskot

Miðdalskot

Miðdalskot.

1705, er Mýrdal (GK-332) skipt í fjögur býli, þrír aðgreindir bæir sem standa þó allir saman og heita allir Mýdalur. Fjórða býlið stendur á túninu og er nefnt Miðdalskot. Konungur átti 6 hdr af jörðinni. 1847: Hjáleiga Mýdals GK-332. „Mýrdalskot … áður hlýtur það að vera talið með undir höfuðjörðinni, sem með Mýrdals parti var talin 40 h. Öll (A.M.) og parturinn þarí útaf fyrir sig 6 h., með 36 al. 1sk. 1 kúg.“ JJnm, 100.
1917: Meirihluti túna í kotinu er slétt.
Miðdalskot var um 100 m VSV við eldri Miðdalsbæ sem byggður var fyrir 1921 og um 80 m suðvestan við núverandi íbúðarhús í Miðdal sem byggt var á seinni hluta 20. aldar. Um kotið segir svo í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson sem gefin var út árið 1953: „Baðstofa og bæjarhús öll voru með afbrigðum ljeleg í Miðdalskoti og allt í rauninni að falli komið, er þessi hjón [Gestur Bjarnason og Guðrún Stefánsdóttir] fóru þaðan, vorið 1921. Vorið 1921 var svo Miðdalskotið sameinað Miðdalnum …“ Á þessu svæði er sléttað tún og liggur Eyrarfjallsvegur að Eilífsdal ANA við túnið. Engar leifar Miðdalskots sjást lengur og engar leifar í heimatúni þess. Ekki er ólíklegt að mannvistarleifar kunni að leynast undir sverði. Samkvæmt túnakorti voru um 8 hólf/hús í bæjarröðinni sem var um 30 x 20 m stór og snéri norðvestur-suðaustur. Trúlega hefur verið gengið inn í bæ að suðvestan.

Hækíngsdalur
Hækingsdalur
30 hdr. 1705. Bænhús var á jörðinni. Eyðihjáleigur tvær 1705, Sauðhús og Háamýri. JÁM III, 419-422. Bændaeign. 30 hdr. 1847. JJ, 100. 1237: Í Sturlungasögu er getið um mann úr Hækingsdal. Sturlunga saga I, 405 og 407. Varðveist hefur landamerkjabréf Vindáss GK-347:001 frá því um 1270 þar sem getið er merkja milli Vindáss og Hækingsdals. DI II, 81-82. Samkvæmt Hannesi Þorsteinssyni er Hækingsdallur réttnefni. „Rannsókn og leiðrjettingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi“.
Árbók 1923, 34. 1705: „Túnunum hverutveggjum spillir skriða og snjóflóð, og er fyrir því árlegur háski, kostar og oft erfiði af að moka. Enginu spillir ogso skriða.“ JÁM III,
421. 1840: „… Þar er heyskapur nokkur, en beitiland arðgott, einkum á sumrum og landrými …“Sýslu- og sóknarlýsingar Gullbringu- og Kjósarsýslu, 256.
Gamli bærinn í Hækingsdal var nálega þar sem íbúðarhúsið á jörðinni stendur nú. Gamli bærinn var þó örlítið vestar, þ.e. austasti hluti hans var við vesturjaðar íbúðarhúss og náði til vesturs, milli þess og útihúss sem nú hefur verið rifið. Greinilegur bæjarhóll er að sunnan og vestan. Aðrar hliðar hans fjara út inn í landslagið.
Bæjarhóllinn er 50 X 30 m að stærð og 1-1,5 m á hæð. Hann snýr norðvestur-suðaustur. Grunnur núverandi íbúðarhúss var grafinn ofan í bæjarhólinn að hluta til og nú (2003) er að mestu bara hlað og grasflöt þar sem gamli bærinn stóð.
Gamli bærinn var burstabær með fjórum burstum. Vestasta burstin var rifin um 1950 en fram að því var búið í gamla bænum. Umrædd burst var rifin þegar útihús var byggt vestan bæjar en hinar burstirnar þrjár stóðu lengi. Kjallari var undir 2 burstunum. Fjós var sambyggt bæ að aftan austast. Innangengt var í það úr bæjargöngunum. Árið 1976 var teiknuð upp afstöðumynd af túninu í Hækingsdal eftir tilsögn Hannesar Guðbrandssonar. Þar er teiknuð mynd af bænum. Austast var fjós og fast fram af því Reykkofi (gamalt eldhús), vestan við fjósið kom skemma, svo búr, þá gangur stofa og eldhús. Vestast var skúr og síðan lítið sund svo mókofi og fjóshlaða fast við bæinn.

Selflatir (sel)

Selflatir

Sel við Selflatir.

Í Jarðabók Árna og Páls frá 1705 segir: „Selstöðu á jörðin í sínu eigin landi góða, þar sem heita Selsvellir á Geitahlíð.“ Í örnefnaskrá segir m.a.: „Neðan við Brattafell eru Selflatir. Þar var sel áður fyrr og sá enn fyrir tóftum, þar til aurskriða lagði þær undir fyrir nokkrum árum. Sel þetta er rúmlega 2 km frá bænum.“ Í svörum við spurningaskrá Þjóðháttadeildar um Hækingsdal segir einnig: „Eitt sel enn er í suðaustur frá bæjardyrunum í Hækingsdal. Það sel tilheyrði Hækingsdal, það stendur á Selflötum vestan undir Brattafjalli í Kjósarskarði.“
Selflatir eru 20-30 m austan við Laxá í norðvesturhlíð Brattafells um 3,7 km SSV við Hækingsdal. Selflatir eru grasigróin fjallshlíð og fjallsrætur Brattafells austan við Laxá upp af Þórufossi. Brekkan hallar 5-30° í VNV.
Samkvæmt Guðbrandi Hannessyni, heimildamanni, er selið horfið undir skriður. Engar tóftir eða líklegar þústir sjást á Selflötum eða í nágrenni þeirra norðan við Brattafellsgilslæk. Innst inni í Brattafellsgilinu gætu þó verið leifar fast undir suðurbrún gilsins á suðurbakka Brattafellsgilslækjar á svæði sem er um 14×10 m að flatarmáli. Þar er hugsanlega lítil rétt eða aðhald, sem nú (2011) er fullt af jarðvegi. Brúnin hallar 50-80° í norðvestur. Þar er lítið annað en óljós ferköntuð dæld sem er um 4×1,5-2 m að innanmáli og 0,2-0,5 m á dýpt, með hugsanlegum grjóthleðslum í köntum. Um 4 m norðar á suðurbakka Brattafellsgilslækjar er 0,2-0,5 m há þýfð og ávöl þúst B sem er um 8×7 m að flatarmáli. Ekki er útilokað að fornleifar finnist undir sverði en þó gæti einnig verið aðeins um náttúrumyndun að ræða. Í grasinu glittir víða í grjót en engar greinilegar vegghleðslur.

Sel

Hækingsdalssel

Hækingsdalssel ofan Blautaflóa.

„Upp af Blautaflóa var gamalt sel og má rétt marka það í brekkunni,“ segir í athugasemdum og viðbótum við örnefnaskrá. Norðaustan og upp af Blautaflóa við rætur Hornafells er þúfnaþyrping um 2,3 km NNV við bæ og um 2 km norðaustan við Vindáshlíð. Á þessu svæði er grasigróin mýri og þurrlendi á gróinni aurkeilu lækjar sem rennur í suðvestur ofan úr Hornafelli, nokkuð sléttlent en þúfur hér og þar. Brekkunni hallar 5-10° til vesturs.
Engar greinilegar tóftir eru á svæðinu. Þar er hins vegar um 0,2-0,4 m há þúfnaþyrping á svæði sem er um 16 x 14 m stórt og snýr gróflega norðvestursuðaustur. Engin greinileg hólf er hægt að sjá út úr þúfunum en þó glittir þar víða í grjót.

Vindás
Vindás
20 hdr 1705. Bústaður sóknarprests í Kjós gefin af kóngi eftir að bærinn að Reynivöllum eyðilagðist í skriðum og snjólflóði árið 1664. JÁM III, 422-423.
Varðveist hefur landamerkjabréf jarðarinnar frá því um 1270. Um landamerki milli Vindáss og Reynivalla annarsvegar og Vindáss og Hækingsdals hinsvegar. DI II, 81-82. 1352/1397 og um 1478 á Reynivallakirkja skjólgarð GK-347:034 í landi jarðarinnar ásamt kastar skurði GK-347:011. (DI III 70-71, DI IV, 116-117, DI VI,
178-79). 1705: „Engjar eru nær öngvar, sem þessari jörðu fylgdi áður hún var prestunum gefin, og brúkar því presturinn engið, sem óskpilt varð eftir, þá beneficium fordjarfaðist, so mikið af því og lítið sem hönum líkar. Högum spilla skriður.“ JÁM III, 422-423.
1840: „… Heyskaparlítil jörð með stóru og þýfðu túni. Þar er allgott beitarland um sumar og vetur og skógarblettur af smáviði í Sandfellshlíð.“

Vindás

Vindás.

Vindásbærinn er í Laxárdal austan við Laxá og VNV undir Sandfelli. Hann er um 3 km SSA við Reynivelli 348:001 og um 5,5 km VNV við Hækingsdal 346:001. Leifar af bæjarhólnum eru nú (2011) um 10 sunnan við gamla fjósið og um 70 m suðvestan við yngsta íbúðarhúsið sem byggt var árið 1952. Í landi Vindáss er sumarbúðir KFUM og KFUK en þær eru staðsettar rúma 3 km suðaustan við bæ 001 rétt norðvestan við landamerki Vindáss og Hækingsdals. Þar sem gamli bærinn stóð er sléttað tún, steinsteypt fjós, einföld röð af háum lauftrjám og slétt malarplan þar fast fyrir sunnan en þar eru m.a. geymdar heyrúllur og vélar. Samkvæmt bókinni Kjósarmenn eftir Harald Pétursson var tvíbýli að Vindási frá um 1820 og fram til 1884. Ekki er ljóst hvort búið var á tveimur stakstæðum bæjum eða ekki. Ekki er útilokað að annar bærinn hafi staðið þar sem heitir Ljóskollutóft en engar heimildir hafa fundist um slíkt. Gamli bærinn er nú (2011) horfinn vegna bygginga sem reistar voru á 20. öld.
Samkvæmt Magnúsi Lárussyni, heimildamanni, byggði Ólafur Einarsson (í Vindási 1905-1944) steinsteypt hús á bæjarhólnum, t.d. votheyshlöðu sem og tvær heyhlöður úr torfi og grjóti á fyrri hluta 20. aldar. Ekki er lengur búið að staðaldri í Vindási en tún eru enn nýtt til sláttu og sem beitiland fyrir hesta. Samkvæmt túnakorti frá 1917 var bæjarröðin um 30×40 m stór og snéri gróflega norðursuður. Í túninu sunnan við malarplanið eru í dag (2011) óljósar leifar bæjarhólsins sem er um 30×25 m að flatarmáli, 0,2-0,5 m á hæð og snýr austurvestur. Engar greinilegar dældir eru í hólnum en mjög líklegt er að fornleifar finnist þar undir sverði. Að minnsta kosti 5-10 m af lengd norðurhluta gamla bæjarhólsins virðist horfinn undir malarplan og útihús.

Vindássel (sel)

Vindássel

Vindássel – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1705 segir: „Selstöðu á jörðin í sínu eigin landi, en brúkast þó ekki, heldur í selstöðu þeirri, er beneficio tilheyrir á Seljadal [skráð undir númerinu GK-348b:001 sem hluti af Seljadal],“. Í svörum Hannesar Guðbrandssonar bónda í Hækingsdal við spurningum Þjóðháttadeildar segir einnig um sel frá Vindási: „Vindássel var einnig til þarna vestur af Sandfelli. Á Vindásflóum stendur það. Einn flóinn heitir Selflói þar sem selið hefur staðið líklega.“ Vindássel fannst ekki á flóunum austur og norðaustur af Sognsseli um 2 km austur af bæ í Vindási. Flóarnir norðan við Sandfell og Sandfellstjörn eru mjög deigir og á mörgum stöðum mjög rofnir í drullu- og sandflög. Selflói er ekki nefndur í örnefnaskrá Vindáss svo staðsetning selsins er mjög óljós. Ekki er útilokað að það sé horfið vegna rofs eða sokkið í þúfur og mýri.

Svínaskarðsvegur (leið)

Svínaskarðsvegur

Svínaskarðsvegur.

„Svínaskarðsvegur sem var mjög fjölfarinn á sumrin bæði af Kjósverjum, og þó einkum þeim sem ferðuðust á hestum milli Reykjavíkur og norðurog vesturlandsins, lá yfir Laxá á Norðlingavaði, upp Klifsnes, Vindáshlíð, Sandfellsmela norðan við Sandfell, sunnan við Hryggi, vestan við Dauðsmannsbrekku og síðan áfram yfir að Hvalfirði [í landi Fossár]. Þessi vegur meðan hann lá um Vindásland, var alltaf í daglegu tali nefndur Þjóðvegur,“ segir í örnefnaskrá. Svínaskarðsvegur sést ennþá vel austan, norðaustan og norðan við Sandfell og á Reynivallahálsi um 2 km austan við bæjarhól og um 140 m austan við Sandfellstjörn. Slóðinn liggur að mestu um sendna og grýtta mela og mosagróna móa. Svínaskarðsvegur er 2-5 m breiður malarvegur eða slóði sem liggur frá Laxá í suðri upp Vindáshlíð norður fyrir Sandfell að austanverðu að landamerkjum Vindáss í norðri. Vegurinn hefur verið um 4,5 km á lengd í Vindáslandi. Vegurinn er ennþá vel greinilegur mest alla leiðina frá brekkunum ofan við sumarbúðirnar í Vindáshlíð að landamerkjum í norðri.

Selstígur (leið)

Selsstígur

Selsstígurinn ofan Sandfells. Gatnamót eru við Svínaskarðsveg.

„Selstígur lá yfir Ása, austan við Eystri Hvammamýri, upp Múla og Múlahorn vestan við Sandfell, og þar á þjóðveginn. Í framhaldi af Selstíg lá gata norður yfir Hryggi, að Seljadal. Eins og nafnið bendir til mun Selstígur í fyrstu einkum hafa verið notaður til selfara, því Sogn átti sel við Sandfellstjörn sunnanverða, en Vindás átti sel í Seljadal, skammt vestur af Skálafelli. Einnig var hey flutt niður Selstíg, þegar heyjað var uppi á Vindásflóum, en það mun hafa verið stundað nokkuð einkum þegar tvíbýli var á Vindási. Allmikil umferð var um Selstíg meðan búið var á Seljadal. Einnig fóru hann margir sem leið áttu yfir Reynivallaháls.“
Samkvæmt Magnúsi Lárussyni, heimildamanni, var beygt út af leið suðvestan undir Múla þegar farið var Selstíg. Þá var farið upp með Múlalæk um 200 m norðan við Hústóftir og um 1,5 km suðaustan við bæ. Selstígur lá um grýtta bratta fjallshlíð, grasigróna móa og gróðurlausa grýtta mela. Selstígur lá upp með Múlalæk í norðaustur en þegar komið var upp á brúnina var beygt í NNA meðfram Sandfelli.
Gengið var um stíginn í boga meðfram Sandfellinu norðvestan verðu og norður fyrir það sunnan við Sandfellstjörn í ANA, en stígurinn tengdist Svínaskarðsleið 046 um 2,1 km austan við bæ og 300 m suðaustan við Sandfellsvatn. Stígurinn hefur verið um 2 km á lengd.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Kjósarhreppi III: I. bindi; Káranes, Káraneskot, Laxárnes, Miðdalur, Miðdalskot, Hækingsdalur og Vindás. Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2012.

Laxárnes

Laxárnes.