Tag Archive for: Miðengi

Grjóti

Hjalti Harðarsson sendi FERLIR eftirfarandi:

„Ég hef haft gagn og gaman af samantekt ykkar um Garðahverfi.

Hausastaðakot

Hausastaðakot.

Móðurforeldrar mínir, Lovísa Guðmundsdóttir og Tryggvi Gunnarsson, bjuggu í Grjóta í Garðahverfi alla sína búskapartíð frá 1925 (skv. byggingarbréfi). Afi og amma (Tryggvi og Lovísa) tóku töluvert af myndum fram eftir tuttugustu öld. Afi framkallaði og stækkaði myndirnar sjálfur. Ég á í fórum mínum nokkrar myndir sem þau tóku; þær elstu frá árinu 1924. Etv. er áhugi fyrir hendi á einhverjum af þessum myndum.
Ég læt hér fylgja í viðhengi pdf-skjal sem ég tók saman s.l. haust með myndum frá Grjóta og nágrenni. Nú í sumar er verið að gera upp íbúðarhúsið í Grjóta í samráði við Minjastofnun.“

Garðahverfi

Garðahverfi – bæir 1907.Í skýrslu um „Verndarsvæði í byggð – Garðahverfi á Álftanesi; tillaga og greiðnargerð„, frá árinu 2017 segir m.a. um sögu hverfisins: „Garðar voru kirkjujörð og höfðu í kringum sig umfangsmikla hjáleigubyggð á 15. – 18. öld. Um 1800 var því sem næst allt land Garðasóknar í eigu kirkjunnar eða krúnunnar. Garðar voru svokallað gæðabrauð sem nutu góðs af nálægð sinni við Bessastaði og var Garðasókn ellefta tekjuhæsta sóknin á landinu af 179 sóknum árið 1737. Þrátt fyrir þá miklu fækkun fólks sem varð á Íslandi á 18. öld þá fjölgaði í Garðahverfi um þriðjung á öldinni. Það endurspeglar þá búsetuþróun sem þá átti sér stað á Íslandi almennt, þar sem fólk flykktist úr sveitunum til sjávarsíðunnar. Þannig hélst fjöldi lögbýla og hjáleigna stöðugur en tómthúsum fjölgaði mikið.

Garðahverfi

Garðahverfi.

Hjáleigubæir við Garða voru flestir smáir og jafnvel mörg heimili á hverjum þeirra. Fjöldi býla hefur tekið litlum breytingum í gegnum tíðina og bæjarstæðin lítið breyst. Hins vegar tók fjöldi bústaða miklum breytingum því ábúendur jarða leyfðu stundum byggingu þurrabúða í landi sínu en þessir íbúar urðu að treysta algjörlega á sjávarfang eða vinnu fyrir aðra.
Á Álftanesi, þ.m.t. Garðahverfi, voru karlar fleiri en konur en annars staðar á Íslandi voru konur um fimmtungi fleiri. Ástæðan gæti legið í mikilli sjósókn en hún var aðallega stunduð af karlmönnum. Sérstaða Álftaness var ennfremur fólgin í yngri aldurssamsetningu íbúa en annars staðar á landinu. Hlutfall barna 10 ára og yngri var mun hærra en landsmeðaltalið. Það bendir til þess að sjávaraflinn hafi ef til vill dregið úr sulti og harðindum og lífslíkur ungbarna því verið meiri en ella.

Garðahverfi

Garðahverfi.

Segja má að blómatími Álftaness hafi verið á 19. öld. Íbúum fjölgaði þar meira en annars staðar á landinu og útgerð og verslun blómstraði. Þar sem möguleikar voru á útræði byggðust upp litlir byggðarkjarnar og voru t.d. sex býli í kringum Dysjar og 32 manns skráðir þar til heimilis. Í manntalinu 1845 eru flestir heimilisbændur skráðir bændur með grasnytjar eða fiskarar og ljóst að allmargir stunduðu hvoru tveggja. Íbúum fækkaði svo aftur eftir aldamótin 1900 í kjölfar sóknar breskra togara á miðin og hruns í fiskveiðum. Þilskipaútgerðin og síðar togaraútgerðin leiddi síðan til fólksflutninga til aðalútgerðarstaðanna og á skömmum tíma fjölgaði íbúum Hafnarfjarðar úr 374 í 1351. Margt af því fólki sem þangað flutti var þurrabúðafólk úr Garðahverfi og Bessastaðahreppi.

Garðar

Garðar í Garðahverfi.

Að Görðum var róið úr heimavör árið um kring en það kallast heimræði. Vegna þessa kann að hafa verið auðveldara að manna báta en á verstöðvum. Garðahverfi var ekki sjávarpláss í hefðbundnum skilningi heldur fremur viðleguver. Sjómenn fengu inni á lögbýlum og hjáleigum og greiddu fyrir vissa þjónustu. Þó virðist sem þar hafi eitt útver eða verstöð verið á 17. öld við svokallaða Óskarbúð en þaðan réri rösklega tugur báta þegar mest var. Að auki virðist sem íbúar hafi lifað jöfnum höndum af sjósókn og landbúnaði, því einungis 2 bæir af 31 lifðu þá eingöngu af búskap. Við sjósóknina var einkum notast við tvíæringa og hefur lítil notkun stærri báta verið útskýrð með því að útvegsmenn hafi viljað dreifa áhætt-unni og forðast að fá tóman feræring heim. Skúli Magnússon landfógeti skýrir þetta þó fremur þannig að menn hafi viljað vera eigin húsbændur og engum öðrum háðir. Þá er fátækt einnig nefnd sem orsakavaldur og getuleysi til að smíða og halda við stærri bátum.

Grjóti

Grjóti.

Vertíðir mótuðust af fiskgengd á slóðir. Vetrarvertíðin var mikilvægust og aflabrögðin mest. Hún hófst um 14. mars og stóð til 11. maí. Vorvertíðin tók þá strax við til hádegis á Jónsmessu. Yfir sumarið var jafnan lítið róið enda oftast lítinn afla að hafa og næg störf við búskapinn. Haustvertíðin byrjaði á Mikjálsmessu hinn 29. september, stóð fram á Þorláksmessu og var eingöngu stunduð af heimamönnum. Lokadagar vertíðanna voru hátíðardagar þar sem boðið var upp á kaffi, lummur, pönnukökur, brennivín og kjötsúpu. Sagt er að Garðhverfingar hafi þótt harðir í sjósókn sinni og síður látið veður hamla sér og róið fyrr en margir aðrir.

Grjóti

Grjóti.

Hrognkelsaveiðar voru stundaðar frá Garðahverfi en svæðið var eitt fengsælasta á Íslandi til slíkra veiða. Hrognkelsi voru mikilvæg til beita og fundust í nýtanlegu magni frá mars og fram í júlí. Grásleppuhrogn voru tínd í höndunum á stórstraumsfjöru þar sem þau voru fest við stóra steina en hrognkelsi voru einnig veidd með höndum eða sting. Sölvatekja voru mikilvæg hlunnindi en það fékkst næstum jafnhátt verði fyrir vætt (40kg) af sölvum eins og einum hlut af fullfermdu tveggja manna fari. Söl voru tínd og þurrkuð til sölu, en voru einnig notuð til að drýgja hey og komu jafnvel í staðinn fyrir hey. Vísbending um mikilvægi þessara hlunninda eru svokallaðir Péturssteinar við Hausastaðagranda, en þeir eru taldir vera jarðamerki milli prestssetursins og nágrannajarða til afmörkunar á réttindum til sölva sem vaxa í fjörunni. Sölvatekja var mikil á Hausastaðagranda, en hann náði um kílómetra út í fjörð og kom aðeins upp úr á fjöru.

Grjóti

Grjóti.

Elstu byggingar á svæðinu eru Garðakirkja og Garðaholt og þær eru jafnamt stærstar og íburðarmestar. Flest íbúðarhús á svæðinu eru fulltrúar húsakynna alþýðufólks; fremur látlaus, lítil og lágreist timburhús, klædd bárujárni. Þökin eru einföld hallandi mænisþök og húsin eru oft reyst á steyptum grunni sem einnig er kjallari. Byggðin er smágerð og húsin yfirleitt stakstæð og mynda litlar þyrpingar. Stíll flestra húsanna endurspeglar upprunalegt útlit. Þó er nokkuð algengt að byggt hafa verið við húsin eða þau bætt með einhverjum hætti, oft í samræmi við upprunalegan stíl.
Yngri húsin eru flest úr steinsteypu, í ýmsum stílum og yfir það heila nokkuð látlaus. Þrátt fyrir að þau séu ekki endilega í sama stíl og eldri húsinu eru þau lítið áberandi innan svæðisins. Söguleg gæði byggðarinnar hafa því haldið sér vel og menningarlandslag byggðarinnar sem hér hefur verið lýst er nokkuð heilsteypt. Garðahverfið hefur því haldist merkilega óspillt og upprunalegt í gegnum tíðina.

Grjóti

Grjóti – byggt árið 19019 og því aldursfriðað.

Hjáleigubyggð líkt og Garðahverfi státar af hefur mikið menningarsögulegt gildi sem hefur sterkar vísanir í sögu þjóðarinnar og lifnaðarhætti fyrri tíma. Samkvæmt fornleifaskráningu eru mjög margar og merkilegar minjar um búsetu að finna í Garðahverfi. Þær tengjast atvinnuháttum, s.s. sjósókn og búskap, samgöngum og menningarlegum þáttum á borð við trúarlíf, skólahald og jafnvel réttarsögu.

Garðakirkja

Garðakirkja.

Garðakirkja er merkilegur kirkjustaður með langa sögu, sem teygir anga sína víða, s.s. með frumkvöðlastarfi í kartöflurækt. Kirkjustaðurinn hefur jafnframt verið miðstöð mannlífs og menntunar. Saga skólastarfs er einnig merkileg á svæðinu með minjum um Hausastaðaskóla, fyrsta heimavistarskólann.
Eins og áður hefur komið fram er sjaldséð að hjáleigubyggð hafi varðveist jafn vel og í Garðahverfi og ekkert dæmi um slíkt á suðvesturhorninu. Einnig hafa hvergi minjar varðveist í jafn ríku mæli, því víðast hvar hafa bæir byggst upp við verstöðvar og uppbygging þeirra og hafnarmannvirkja meðfram ströndinni hafa orðið þess valdandi að fáar minjar eru enn varðveittar.
Auk alls þessa hefur byggðin verið girt af með görðum, bæði túngörðum og varnargörðum meðfram sjónum. Í fornleifaskrá kemur fram að mannvirki af þessu tagi hafi tíðkast frá fornu fari. Elstu minjar á svæðinu eru frá landnámi og líklegt er talið að hér hafi staðið vísir af þorpi á síðmiðöldum. Óhætt sé að segja að menningarsögulegt landslag af þessu tagi sé fátítt „ef ekki einstakt”. Menningarlandslagið í Garðahverfi, þar sem saman koma innbyrðis tengsl manngerðra minja, náttúrufars og sögu, myndar verðmæta heild. Slík heild hefur áhrif á varðveislugildi húsa á svæðinu og segir sögu byggðar á svæðinu. Því hefur menningarsögulegt gildi Garðahverfisins hátt varðveislugildi.“

Grjóti
Í „Húsakönnun – Garðahverfi á Álftanesi“ frá því í desember 2016 segir m.a.: „Byggðin í Garðahverfi hefur lítið breyst um langt skeið. Garðar voru kirkjujörð sem hafði í kring um sig umfangsmikla hjáleigubyggð á 15.-18. öld. Um 1800 var því sem næst allt land Garðasóknar í eigu kirkjunnar eða krúnunnar. Garðar voru svokallað gæðabrauð sem nutu góðs af nálægð sinni við Bessastaði og var Garðasókn ellefta tekjuhæsta sóknin á landinu af 179 sóknum árið 1737. Á Álftanesi voru þá tvö megin höfuðból, Garðar og Bessastaðir. Höfuðbólin töldust bæði til Álftaneshrepps allt til 1878 þegar þeim var skipt í Garðahrepp og Bessastaðahrepp. Önnur lögbýli árið 1703 voru Hausastaðir, Bakki og Dysjar en auk þess var búið á Pálshúsum, Nýabæ, Miðengi, Ráðagerði, Móakoti, Hlíð, Koti og Hausastöðum.
Grjóti
Þrátt fyrir þá miklu fækkun fólks sem varð á Íslandi á 18. öld þá fjölgaði í Garðahverfi um þriðjung á öldinni. Það endurspeglar þá búsetuþróun sem þá átti sér stað á Íslandi þar sem fólk flykktist úr sveitunum til sjávarsíðunnar. Þannig hélst fjöldi lögbýla og hjáleiga stöðugur en tómthúsum fjölgaði mikið.
Hjáleigubæir við Garða voru flestir smáir og jafnvel mörg heimili á hverjum þeirra. Fjöldi býla hefur tekið litlum breytingum í gegnum tíðina og bæjarstæðin lítið breyst. Hins vegar tók fjöldi bústaða miklum breytingum því ábúendur jarða leyfðu stundum byggingu þurrabúða í landi sínu en þessir íbúar urðu að treysta algjörlega á sjávarfang eða vinnu fyrir aðra.
Byggðin var nokkuð þétt og vel tengd saman því götur voru á milli allra bæja og allir vegir lágu til Garðalindar þangað sem íbúar sóttu vatn til fjóss og bæjar. Garðalindin var eina lindin sem aldrei þraut. Íbúar vörðust sífellt ágangi sjávar og voru meðal annars byggðir sjávarvarnargarðar, en sums staðar, til dæmis að Bakka hefur þurft að færa bæinn þrisvar sinnum frá sjónum svo vitað sé.
Á Álftanesi, þ.m.t. Garðahverfi, voru karlar fleiri en konur en annars staðar á Íslandi voru konur um fimmtungi fleiri. Ástæðan gæti legið í mikilli sjósókn en hún var aðallega stunduð af karlmönnum.
Grjóti
Sérstaða Álftaness var ennfremur fólgin í yngri aldurssamsetningu íbúa en annars staðar á landinu. Hlutfall barna 10 ára og yngri var mun hærra en landsmeðaltalið. Það bendir til þess að sjávaraflinn hafi ef til vill dregið úr sulti og harðindum og lífslíkur ungbarna því verið meiri.
Segja má að blómatími Álftaness hafi verið á 19. öld. Íbúum fjölgaði þar meira en annars staðar á landinu og útgerð og verslun blómgaðist. Þar sem möguleikar voru á útræði byggðust upp litlir byggðarkjarnar og voru t.d. sex býli í kringum Dysjar og 32 manns skráðir þar til heimilis. Í manntalinu 1845 eru flestir heimilisbændur skráðir bændur með grasnytjar eða fiskarar og ljóst að allmargir stunduðu hvoru tveggja. Íbúum fækkaði svo aftur eftir aldamótin 1900 í kjölfar sóknar breskra togara á miðin og hruns í fiskveiðum.
Þilskipaútgerðin og síðar togaraútgerðin leiddi síðan til fólksflutninga til aðalútgerðarstaðanna og á skömmum tíma fjölgaði íbúum Hafnarfjarðar úr 374 í 1351. Margt af því fólki sem þangað flutti var þurrabúðafólk úr Garðahverfi og Bessastaðahreppi.
Grjóti.
Minjar í Garðahverfi á Álftanesi eru einstakar og menningarlandslagið sem þar hefur varðveist er fáséð. Hægt er að rekja rætur byggðarinnar aftur á miðaldir hið minnsta og þar er að finna margt merkilegra minja m.a. um sjósókn, samgöngur, búskap, skólahald, trúarlíf og jafnvel réttarsögu. Byggðin var girt af með hlöðnum görðum en mikið grjót er á holtinu sem hægt var að nýta í bæði byggingar og garðagerð.
Grjóti
Varnargarður var gerður meðfram sjónum og hinn mikli Garðatúngarður teygði sig frá Balatjörn í suðaustri, um Desjamýri og Garðaholt, til Skógtjarnar í norðvestri. Fleiri dæmi má taka um minjar sem þarna má finna, bæjarhóla, varir, brunna, útihús, garða, stekki, fjárrétt, fjárborg, gerði, kirkjugarð, aftökustað, steina með áletrunum og fornar leiðir. Auðveldlega má sjá rústir Hausastaðaskóla sem reistur var árið 1759 og var sérstaklega ætlaður almúgabörnum.
Í Garðahverfi hefur bæði verið stundaður landbúnaður og útræði en flest býlin eru landlítil. Byggðin, sem var orðin svo þétt, að vísir var kominn að litlu þorpi, var girt af með görðum og varnargarðar lágu með sjónum. Hér má sjá túnakort frá 1918 sem sýnir byggðina eins og hún er í upphafi 20 aldar.“

Um Hausastaðakot segir:

Hausastaðir

Hausastaðir.

„Hausastaðakot var hjáleiga sem lá undir Hausastöðum fram um 1640 en í eigu Garðakirkju eins og aðrar jarðir í Garðahverfi. Við gerð Jarðabókar árið 1703 var ábúandi Nikulás Jónsson og hjá honum sex menn í heimili. Skv. Manntali bjó þar árið 1801 nafni hans sem var jarðnæðislaus húsmaður og fiskari með konu og tvö börn en annar ábúandi var Árni Jónsson bóndi og fiskari með konu og eitt barn. Í Manntali 1816 var ábúandi einn, Gísli Sigurðsson, með þrjá í heimili en 1845 hafði aftur fjölgað í Koti eins og jörðin var einnig kölluð. Þar voru Ólafur Erlendsson hreppstjóri og fiskari og Helga Gamalíelsdóttir, fyrrverandi vinnukona í Miðengi, börn þeirra tvö, tvær vinnukonur og niðurseta. Tómthúsmennirnir voru tveir, báðir með konur og má ætla að önnur hjónin hafi átt heimili í þurrabúðinni Grjóta (188-9). Í Jarðatali 1847 er tilgreindur einn ábúandi og jörðin enn sögð kirkjueign. Hún er nefnd í Jarðabók 1861 og hélst skv. Fasteignabókum undir kirkjunni 1932 og 1942-4. Í Fasteignamati ríkisins má sjá að jörðin er enn í byggð en liggur nú undir Grjóta sem áður var þurrabúð (191-9). Núverandi eigandi Tryggvi Gunnarsson býr í Grjóta. Hausastaðakot var miðja vegu milli Grjóta og Hausastaða.
Grjóti
Jarðardýrleiki var óviss árið 1703 en landskuld 40 álnir, borguð með tveimur fiskavættum í kaupstað. Kúgildi var eitt, greitt í smjöri til Garðastaðar og uppyngdi staðarhaldari það. Í búpeningi átti bóndi eitt hross og eina kú en fóðrast gátu tvær. Kvaðir voru hestlán, dagsláttur, hrísshestur og mannslán allt árið. Ábúandi lagði sjálfur til húsavið en hafði móskurð í landi staðarins. Dýrleikinn var enn óviss 1847, landskuldin hin sama og kúgildið eitt en 1861 var jörðin talin 6,4 ný hundruð. 1932 var verð hennar með húsakosti 36 hundruð kr., kúgildi tvö, sauðir tíu og hrossið eitt. Afrakstur 1160 m² matjurtagarða voru 15 tunnur á ári. Jörðin hafði hrognkelsaveiði og útræði en uppsátur var í Hausastaðakotsvör (191-17). Á árunum 1942-4 hafði landverðið hækkað í 45 hundruð kr., í bústofninum voru fimm nautgripir, 14 sauðir og eitt hross og garðávextir um 13 tunnur á ári. Jörðin hélt fyrri hlunnindum. Árið 1918 var tún Hausastaðakots 1 ha en hafði 1932 stækkað í 1,5 ha og fengust af því 70 hestburðir af töðu en 104 á árunum 1942-4. Norðaustan megin var Garðatúngarður (185-42)/ 190-34) en girt var umhverfis allt túnið. Austan í því var Grjóti og þarnæst land Hlíðar en að vestan voru Hausastaðir. Spilda frá Hausastaðakotstúni teygði sig milli þess og Móakots niður að sjó.“

Grjóti
Í Morgunblaðinu 1977 fjallar Gísli Sigurðsson um Garðahverfi undir fyrirsögninni „Innan um grásleppu og lambær í Garðahverfi„:
„Garðahreppur, sem síðan í fyrra heitir Garðabær, er kenndur við kirkjustaðinn Garða. Það var meiriháttar jörð og átti til dæmis að verulegu leyti það land, sem Hafnarfjarðarbæ hefur byggst á. En umhverfis Garða hefur verið og er enn talsverður fjöldi smábýla og þurrabúða og mynda Garðahverfið svonefnda.
Af holtinu ofan við Garðahverfið er víðsýnt yfir Reykjavíkursvæðið, Álftanes, Garðabæ, Hafnarfjörð og strandlengjan suður með sjó blasir við þaðan. Ugglaust má deila um, hvaða staður á þessu mesta þéttbýlissvæði landsins sé fallegastur, en mín skoðun er sú, að í grænum hallanum, þar sem þessi litlu kot kúra, sé ein fegurst perla náttúrufegurðar — ekki bara á Reykjavíkursvæðinu, heldur á landinu öllu.
Grjóti
En fegurðin verður ekki látin í frystikistur fremur en bókvitið í askana hér áður fyrr. Framtíð Garðahverfis er óljós á þessari stundu og miklar líkur á, aðafdrifarík tímamót séu framundan. Staðreyndin er sumsé sú, að það er að verulegu leyti gamalt fólk, sem býr í örsmáu bárujárnshúsunum, sem standa þarna innan um grjót og gras. Ekki tekur meira en fimm mínútur að aka út eftir þangað úr Garðabæ, eftir malbikuðum veginum til Bessastaða og framhjá lúxusvillunum, sem tyllt hefur verið niður í hraunið af mikilli nærfærni við náttúruna. Á Garðaholtinu er beygt útaf malbikinu og allt í einu er maður kominn í annan heim, sem ber keim af Selvogi eða Hornströndum. Það er eins og steinsteypuöldin hafi aldrei náð þangað, — sem betur fer ætti maður líklega að álykta.
Grjóti
Þessi staður ber með sér andblæ löngu liðins tíma; áranna eftirfyrra stríð og kreppuáranna, þegar þrjátíu fermetra hús þóttu fullboðleg. Að sjálfsögðu voru þar hvorki baðherbergi né þvottahús, sjaldnast rennandi vatn — og rafmagnið kom löngu síðar. Fyrir utan kirkjujörðina Garða, var meðalstærð býla í Garðahverfi um 30 hektarar og þar var allt með talið: Tún, grjótflákar og beitiland. Það voru og eru kotbýli, þegar miðað er við landstærð jarða í sveitum almennt og búskapurinn hlaut að verða smár í sniðum. Áður fyrr voru hlunnindin fólgin í návist hafsins; grásleppa og jafnvel þorskur voru rétt utan við landsteinana. Þá réru allir sem róið gátu. Nú eru hlunnindin fólgin í návist þéttbýlisins og flestir verkfærir menn á sæmilegum aldri sækja vinnu til nágranna bæjanna.
Samkvæmt íbúaskrá frá síðasta ári, búa samtals 53 manneskjurá 18 bæjum og húsum í Garðahverfi. Aðeins vantar einn íbúa til viðbótar og þá væru að jafnaði þrír til heimilis á hverjum bæ. Á þremur bæjum teljast aldraðar konur einsetubændur og í einu húsi er einsetumaður. Meðalaldurinn er hár; margt af þessu fólki fór að búa um 1930 og er komið á áttræðisaldur og þar yfir Túnin í Garðahverfi ná saman og mynda fallega heild. En sú ræktun, sem þarna má sjá, var komin um og fyrir stríð og síðan hefur litið gerst. Flest íbúðarhúsin eru líka frá þeim tíma.
Auðvelt er að gera því skóna, að þarna yrði geysilega eftirsótt byggingarland. En ekkert skipulag hefur verið gert, sem nær yfir Garðahverfi. Á jörðunum er leyfilegt að byggja upp, ef þess yrði óskað, en nýbýli eða ný hús þar fyrir utan eru ekki leyfð, meðan skipulag er ekki til. En auðséð er að hverju stefnir. Rétt austan við hverfið eru útmörk Hafnarfjarðarbæjar, þar sem blokkir og raðhús sækja fram eins og óvígur her.
Grjóti
Ennþá er þó hægt að njóta þess á fallegum vordegi að koma niður á fjörukambinn hjá Katrínarkoti og sjá Gunnar í Breiðholti koma að landi, drekkhlaðinn af grásleppu. Ilmur af seltu og fiski berst frá ránum, þar sem grásleppan hangir og fáeinum skrefum þaðan eru lambær að gæða sér á grængresi í Hausastaðatúninu. Kristján í Miðengi er líka að huga að lambánum sínum, hálfníræður og ofar í hverfinu situr Tryggvi í Grjóta úti undir vegg og greiðir úr grásleppuneti. Hann vantar aðeins tvö ár í áttrætt. Og í Króki stendur Þorbjörg úti við vallgróinn bæjarvegginn og minnir á gömlu konuna í Brekkukoti í sögu Laxness.
GrjótiÞessi bær býr yfir rómantískri fegurð í sátt og samlyndi við náttúruná, en ekki eru aðrir til heimilis þar en Þorbjörg. Aðeins örfá skref þaðan er félagsheimiliðá Garðaholti, þar sem nútíðin býr; blótar Mammon með ærslum, fylliríi og öskrandi hávaða og á eftir man enginn hvar hann hefur verið. En það er önnur saga.
Að sjálfsögðu er tómt mál að tala um að varðveita alla skapaða hluti, sem eftir standa frá liðnum tíma. Hitt er svo annað mál, að það er óþarft að farga því öllu og væri óneitanlega skemmtilegt að geta varðveitt þó ekki væri nema einhvern hluta Garðahverfisins. Í því sambandi kemur mér sérstaklega í hug bærinn í Miðengi; íbúðarhús, sem er örsmátt á mælikvarða nútíðar og samsvarar að flatarmáli einu sæmilegu herbergi. Samt þótti það gott framfaraspor á sinni tíð og í húsum af þessu tagi ólust jafnvel upp stórir barnahópar.
Guðmann Magnússon á Dysjum, sem verið hefur hreppstjóri i Garðahreppi þar til á síðasta ári að byggðin fékk kaupstaðarréttindi er innfæddur í Garðahverfinu og hefur alla ævi átt þar heima.
Hann sagði, þegar framtíð Garðahverfis bar á góma: „Ég á von á, að hér risi þéttbýli. Helzt vildi ég að hverfið yrði friðað, en varla er hægt að búast við að það verði gert. Garðaholtið verður tekið undir íbúðarbyggingar og svo verður saxað á ræktaða landið unz ekkert verður eftir. Þetta var allt land Garðakirkju og því heyrir það undir jarðeignaheild ríkisins. En ábúðin á jörðunum er til lífstíðar. Það lítur út fyrir að Garðahverfið í núverandi mynd sé deyjandi byggð og að þar muni koma þéttbýli í staðinn, enda fallegt byggingarland — að minnsta kosti meðan túnin eru græn og ósnortin.“

Grjóti
Í skýrslum er Grjóti jafnan nefndur sem Hausastaðakot. Þar segir m.a.: „Byggingarár 1909, Garðav. Hausastaðakot. Tegund: Timbur. Klæðning: Bárujárn. Þakgerð: Mænisþak. Þakklæðning: Bárujárn. Undirstaða: Hlaðin í múr. Íbúðarhúsið í Hausastaðakoti er friðað skv. ákvæðum laga nr. 80/2012. Óheimilt er að raska friðuðum húsum og mannvirkjum, spilla þeim eða breyta, rífa þau eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunar Íslands.
Byggingarlist: Einfalt alþýðuhús. Menningarsögulegt gildi Íbúðarhús: löng saga búsetu. Umhverfisgildi: Hluti menningarlandslags. Upprunaleiki: Form og útlit húss hefur haldist vel þrátt fyrir viðbyggingu. Ástand: Ágætt. Varðveislugildi: Varðveislugildi vegna yfirbragðs byggðar. Niðurstaða varðveislumats: Hús er friðað (blátt)

GrjótiByggingarár 1935 Garðav. hlaða Hausastaðakots

Tegund: Steinsteypt, upphafleg gerð húss. Klæðning: Bárujárn. Þakgerð: Mænisþak. Þakklæðning: Bárujárn. Undirstaða: Steinsteypt. Útlit: Einlyft. Sambyggð hlaða, geymsla og rústir af hlöðu. Ekki lengur í landbúnaðarnotum. Byggingarlist: Einfalt byggingarlag. Menningarsögulegt gildi: Hlaða og útihús. Umhverfisgildi: Hluti landbúnaðarlandslags. Upprunaleiki: Útlit hússins nálægt upprunalegu útliti. Ástand: Ágætt en mætti við viðhaldi. Varðveislugildi: Varðveislugildi vegna yfirbragðs byggðar.

Grjóti

Grjóti – endurbætur í ágúst 2022.

Niðurstaða varðveislumats: Samstæð hús og heild sem lagt er til að vernda með hverfisvernd í deiliskipulagi (gult)“.

Grjóti

Grjóti í október 2022. Verktakinn, Gunnar Ingi Jónsson frá Bæjarhúsum ehf, stendur við húsið.

Heimildir:
-Skýrsla: Verndarsvæði í byggð – Garðahverfi á Álftanesi; tillaga og greinargerð 2017.
-Húsakönnun: Garðahverfi á Álftanesi, desember 2016.
-Morgunblaðið, 31. tbl. 28.08.1977, Innan um grásleppu og lambær í Garðahverfi, Gísli Sigurðsson, bls. 7-10.
-Hjalti Hjartarson.
Grjóti

Garðaholt

Í Fornleifaskráningu Garðabæjar 2009 segir m.a. um Miðengi, Hlíð og Móakot:

Miðengi var Garðakirkjueign. 1703: Hjáleiga Garða. Ekki hluti af Hafnarfirði „Gamli menn segja, að Miðengi sje fyrst bygt úr Hlíðarlandi ekki fyrir fullum 100 árum, og hefur í manna vinni verið hálft fyrirsvar, áður en Sr. Ólafur tó það var violenter satir; imó mag. Jón Widalin man og veit að þar hefur hálft fyrirsvar verið.“ JÁM III, 187
1918: Tún 1,4 teigar og kálgarðar 1180 m2″.

Hlíð

Miðengi og nágrenni – Túnakort 1918.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Á Túnkakorti 1918 má sjá gamla bæjarstæðið sunnarlega í Miðengistúni, nálægt sjónum. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Miðengi er niður frá Háteigi, og er sama heimreið að báðum bæjunum. Húsið í Miðengi stendur u.þ.b. 40-50 m fyrir ofan fjöru. Það var byggt fast aftan (norðaustan) við gamla bærinn (þ.e. þar sem hann var).“ […] Skv. Fornleifaskráningu 1984 stóð gamli bærinn beint framan við núverandi íbúðarhús, þar sem hlaðið er nú […]“.
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Bærinn á Túnakortinu samanstendur af um sex torfhúsum en eitt þeirra er opin tóft.
Stefnan er suðvestur-norðaustur. Skrásetjari segir: „Hafa bæjarhúsin vísað til suðvesturs, út á sjóinn og má sjá á hleðsluraðir, niðurtroðnar í hlaðinu.“ Skv. Fasteignabók voru timburhús komin í Miðengi árið 1932.“ Ekki kemur fram í skráningu RT og RKT hvort bæjarhóll sjáist eða hvert ástand minjanna sé í dag.

Garðaholt

Garðaholt – örnefni – ÓSÁ.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Á Túnakorti 1918 eru útihús rétt vestan við bæinn, m.a. svolítið ferhyrnt steinhús. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Fjós og hlaða eru u.þ.b. 10 m vestur af íbúðarhúsinu. 100 ára gamall skúr er áfastur fjósinu að sunnan. Séra Hens Pálsson í Görðum lét flytja skúr þennan frá útskálum.“ […] Jens var prestur í Görðum á tímabilinu 1895-1912.“

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Á Túnakorti 1918 má sjá tvo kálgarða framan við bæjarhúsin […] í Miðengi. Sá vestari við útihúsin er líklega sá sem skv. Örnefnalýsingu 1976-7 heitir „Fjósgarður.““

Garðaholt

Garðaholt

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Á Túnakorti 1918 er kálgarður suðaustan við bæjarhúsin, líklega sá sem kallaður er Framgarður í Örnefnalýsingu 1976-7: „Rétt suður af bænum er Framgarður, kálgarður, aflagður fyrir nokkrum árum.“ […] Skv. Fornleifaskráningu 1984 er garðurinn „beint suður af íbúðarhúsinu“…“
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Garðurinn á Túnakortinu er með hlöðnum veggjum, ferhyrndur og hefur stefnuna suðvestur-norðaustur. Kemur það heim við Fornleifaskráningu: „ferhyrndur, grjóthlaðinn garður, sem vísar á lengdina í átt til sjávar“, þ.e. í suðvestur. Utanlengd hans er um 32 m en breiddin 13,6 m. Vesturendinn er betur varðveittur, hæð 0,8 m.“

Miðengi

Miðengi.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Á Túnakorti 1918 má sjá að varnargarður er neðan Miðengistúns og út frá honum liggja girðingar kringum túnið. Skv. Fasteignabók var Miðengi árið 1932 umgirt túngarði og hagagirðingu […] Miðengistúngarður hét sá hluti sjógarðsins sem var þarna, skv. Örnefnaskrá 1964 „þykkur og mikill“ […] Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Á bakkanum er grjótgarður til varna ágangi sjávar.“ […] Neðan túnsins er breið klapparfjara og klapparnef fram í sjó. Þarna er ekkert landbrot en flæðir oft inn á lágt land innan við kambinn.“

Miðengi

Miðengi – útihús 2021.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Á Túnakorti 1918 sýnist vera breitt hlið á sjóvarnargarðinum þar sem Sjávargata endar en þar fyrir neðan er líklega Miðengisvör. Skv. Örnefnaskrá 1964 var hún „næst fyrir austan Hlíðarvarirnar. Einnig grýtt.“ […].
Miðengisklappir hétu „klappirnar í Miðengisvör“ […] og í sjónum fram undan henni var Miðengissker, e.t.v. sama og Miðengishryggur […]. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Vörin, nefnd Miðengisvör af bæ, er beint niður undan húsinu. Ofan hennar er hlið á garðinum, og voru bátarnir settir um það upp á tún, þegar vont var á vetrum. Miðengisklappir heita stórar klappir, sem ganga fram í sjó vestan við Miðengisvör. Miðengissker er fram af þeim. Svolítið bil verður milli klappanna og skersins. Á flóði fellur alveg yfir Miðengissker.“

Garðahverfi

Miðengi.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Á Túnakortinu 1918 má sjá lítið ferhyrnt mannvirki byggt utan í sjógarðinn, e.t.v. grjóthlaðið naust.“

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Á Túnakorti 1918 sést brunnur utarlega í túninu, suðaustan bæjarstæðisins, nálægt mörkum Miðengis og Garða. Miðengisbrunnur er nefndur í Örnefnaskrá 1964, neðan og sunnan bæjarins. Ekki gott vatn.“ […] Skv. Örnefnalýsingu 1976-7 var hann „u.þ.b. 20-25 m norðaustur af hólnum“, þar sem sjóbúð var áður ,,á kampinum milli Miðengis og
Garða […] Af heimafólki var hann bara nefndur Brunnur. Vont vatn þótti í honum og saltblandað.“ Vettvangslýsing á aðstæðum fylgir ekki skráningu RT og RKT.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Á Túnakorti 1918 má sjá götu liggja frá bæjarhúsum, suðvestur milli garða og niður að sjó. Virðist vera hlið á sjógarðinum þar sem gatan endar. Væntanlega er þetta leiðin sem lýst er í Örnefnalýsingu 1976-7: „Gatan liggur frá íbúðarhúsinu á milli Framgarðs og Fjósgarðs, og skiptist hún neðan garðanna. Liggur Sjávargata beint niður að vörinni, en Brunngata suður að brunni“

Garðahverfi

Miðengisbrunnur.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Skv. Örnefnaskrá 1964 var Miðengisbrunnur „neðan og sunnan bæjarins“ […] og lá Miðengisbrunngata neðan frá honum „heim til bæjar“ […] Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Gata liggur frá íbúðarhúsinu á milli Framgarðs og Fjósgarðs, og skiptist hún neðan garðanna. Liggur Sjávargata beint niður að vörinni en Brunngata suður að brunni.“

„Þá á Miðengi land uppi á Garðholti, og tilheyra því bæði Völvuleiði [á líklega að vera Mæðgnadys]og Presthóll […] Á háholtinu, suðaustan við Garðholtsveg (þ.e. vegarins (svo) yfir holtið), er þúfa sem kölluð er Völvuleiði.“ segir í örnefnaskrá KE. „hér fyrir ofan prestssetrið á Garðaholti…er Völvuleiði, sem fornar sagnir eru um að þar sé grafin Völva (spákona) sem farið hafi um í heiðini. En við leit finnast þar engar menjar eða leifar af nokkru tagi, “ segir í FF.

Garðahverfi

Presthóll.

„Syðst á Garðaholti heitir Holtsendi, þar sem nú eru geysimiklar sandgryfjur. Það, sem mest ber á á holtinu, er, að á því sunnarlega er smáhæð, sem heitir Völvuleiði,“ segir í örnefnaskrá AG. Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Skv. fornleifaskráningu 1984 er Völvuleiði „uppi á háhæð vestan við þjóðveginn út á Álftanesi, sunnan vegar út að Görðum, syðst á Garðaholti.“
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Þar er miðlungsgrýttur melur, nokkuð grösugur allt um kring. Hóllinn sést greinilega langt að, grænni en umhverfið og stendur hátt.“
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „[Hóllinn] er grasivaxinn en sjá má grjót og hola er í honum miðjum. Hann er um 11 m að lengd og breidd og snýr í austur (100°) út úr holunni.“

Völvuleiði

Völvuleiði.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Í Örnefnalýsingu 1958 segir: „Það, sem mest ber á holtinu, er, að á því sunnarlega er smáhæð, sem heitir Völvuleiði. Heldur vestar, austanvert, þar sem Garðavegur kemur á Álftanesveg, er grasigróinn klapparhóll, ber að norðan og vestan. Þessi hóll heitir Presthóll. Þar hlóð sr. Jón Loftsson, sem hér var prestur 1562, vörðu og dvaldi þar öllum stundum.“ […] Skv. Örnefnaskrá 1964 er þetta „grágrýtisklapparhóll við vegamót Garðaholts- og Álftanesvegar“ […] en í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Presthóll er stór klettahóll, klofinn endilangs, í krikanum austan við Garðaholtsveg, þar sem hann liggur af Álftanesvegi.“ […] Kristján Eldjárn skoðaði hólinn árið 1978: „Þar sem vegurinn út á Álftanes liggur yfir Garðaholtið er til vinstri handar (þegar út á nesið er ekið) dálítill klettahóll, (eða kannski réttara að segja klappahóll), sem heitir Presthóll. Um hann eru þjóðsögur og mun vera huldufólk í.“ Kannski Garðapresturinn hafi átt vingott við það en hóllinn er enn á sínum stað.“

Garðahverfi

Miðengi 2013.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Á Túnakorti 1918 má sjá lítið ferhyrnt torfhús við girðingu í norðvesturjaðri Miðengistúns. Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: „U.þ.b. 50 m norðvestur af hlöðunni, út við girðingu, milli Hlíðar og Miðengis, er kindakofi, sem tekur um 30 fjár.“

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Í Örnefnalýsingu frá 1958 segir: „Fram af Miðengi er Miðengisbryggja. Það er þangi vaxin flúð. Þar utar er Hlíðarsker […].“ […] Þetta er náttúruleg bryggja af sama tagi og voru við Bakka, Dysjar og Hausastaði.“

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Á Túnakorti 1918 eru tvö samföst útihús rétt vestan við bæinn. Þau eru líklega úr steini og hafa stefnuna suðvestur-norðaustur.“ Ekki er frekari lýsing á aðstæðum í skráningu RT og RKT.

Garðar

Garðar – túngarður – Hlíð utar og Hliðsnes fjærst.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Götusteinn var skv. örnefnaskrá 1964 „steinn er lá við götuna milli Hlíðar og Miðengis. Á steini þessum voru þau ummæli, að hann mætti ekki hreyfa.“ […] Við þetta gerir Kristján Eiríksson athugasemd í Örnefnalýsingu 1976-7: „Nokkuð stór steinn er í Miðengistúni, fast vestan við brunngötuna frá Hlíð. G.S. Nefnir hann Götustein í lýsingu sinni. Kristján [Eyjólfsson í Miðengi] segir það rangt, en man ekki rétta nafnið“ […] Steinninn er enn á sama stað.“

Hlíð 1565: Á lista yfir byggðar hjáleigur í landi Garða. „Hlid byggd Hakone fyrer iij. Vætter fiska. Mannslán og formennska á skilenn. Er med hiáleigunne eitt kugillde. Enn adur voru þar tvo.“ DI XIV, 438.
Garðakirkjueign. 1397: Eign kirkjunnar á Görðum. DI IV, 107. 1703: Hjáleiga Garða. Ekki hluti af Hafnarfirði „Hlíð var so sem lögbýli áður en Miðengi var þar frá tekið og var þar þá fyrirsvar að menn meina.“ JÁM III, 187.
1918: „Tún 1,4 teigar og kálgarðar 1200 m2“

Hlíð

Hlíð.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Á Túnakortinu 1918 má sjá þyrpingu húsa í gamla bæjarstæðinu í Hlíð og er hinn svo kallaði Hlíðar-Vesturbær væntanlega vestanmegin. Hann skiptist í tvennt, austara húsið aflangt og hólfast aftur í tvennt. Þetta eru torfhús með standþili og snúa í suðvestur. Af Fasteignabókum má sjá að komið var timburhús árið 1932 […] og járnvarið 1942-4 […] Skv. Örnefnaskrá 1964 voru bæirnir tveir: „Býli í Garðahverfi, hjáleiga frá Görðum, þar var jafnaðarlegast tvíbýli.“ […] Við þetta bætir Örnefnalýsing 1976-7: „Húsið í Hlíð er u.þ.b. 150 m beint í norður frá Miðengi, en nokkru lengra frá sjó. í Hlíð var tvíbýli til 1924, en þá fær Gísli Guðjónsson alla jörðina og reisir þá hús það, er nú stendur. Þar hefur að vísu verið stækkað síðan. Fjós og hlaða er rétt norðan þess. Íbúðarhúsið stendur á sama stað og Austurbærinn í Hlíð var áður, en fjósið og hlaðan, þar sem Vesturbærinn stóð.““

Hlíð

Hlíð.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Austan megin í bæjarstæðinu, til hliðar við Hlíðar-Vesturbæ […] er á Túnakorti 1918 stór bygging, líklega svo kallaður Hlíðar-Austurbær. Hann skiptist í sex hluta. Fremst eru tvö aflöng hús sem hvort um sig hólfast í tvennt og virðist snúa í suðvestur. Þvert á norðausturgafl suðaustara hússins liggur minna aflangt hús og samfast við hlið þess annað stærra. Húsin eru úr torfi og e.t.v. með standþili. Skv. Örnefnalýsingu 1976-7 stóðu bæirnir fram til ársins 1924 en þá var reist nýtt íbúðarhús á þeim stað sem Austurbærinn var áður, um „150 m beint í norður frá Miðengi, en nokkru lengra frá sjó“ […] og kemur það heim við staðsetningu bæjarins á kortinu.“

Garðahverfi

Karkur.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Á Túnakorti 1918 liggja fimm samfastir kálgarðar með hlöðnum veggjum kringum bæjarhúsin að norðaustan, norðvestan og suðvestan. Af þeim er væntanlega kominn stóri kálgarðurinn sem í Örnefnalýsingu 1976-7 er sagður vera „fast vestan við íbúðarhúsið“ sem Gísli Guðjónsson reisti 1924 í stæði gamla Austurbæjarins […].“ Vettvangslýsing á minjunum fylgir ekki skráningu RT og RKT.
Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Hluti garðsins fannst við fornleifaskráningu 1984 framan eða „norðvestan við bæinn í Hlíð en skrásetjari taldi þar vera gömlu heimakálgarðhleðsluna. Þarna er „yfirgróin grjóthleðsla, nú mjög lág“ og nær um 30 m til norðurs framan eða vestan „við núverandi íbúðarhús […] þar kemur aðeins horn í hleðsluna til austurs“, síðan heldur hún áfram um 16 m til norðurs“.
Hleðslan „myndar bakka þarna í túnið“ og er „uppfyllt að austan“.“

Móakot

Móakot – grunnur sjóbúðar.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Skv. Örnefnaskrá 1964 var Hlíðarkot hjáleiga eða þurrabúð frá Hlíð og stóð vestan Hlíðarbæjanna „samhliða, með stétt“ […], skv. Örnefnalýsingu 1976-7 ,,fast austan við Vesturbæinn. Kotið var löngu komið í eyði, þegar Gísli [Guðjónsson] kom að Hlíð“ 1924 […] Skv. Fornleifaskráningu 1984 var það í hlaðinu á Hlíð. Minjarnar eru þó horfnar og í þeirra stað komin geymsla.“

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Brunnur í grjótinu mitt á milli Grjóta og Hlíðar hét Karkur. Í hann safnaðist eingöngu rigningarvatn. Annars var vatn í Hlíð aðallega sótt í Garðalind. […] Skv. Fornleifaskráningu 1984 er Karkur „um miðja vegu milli bæjanna“ og „grýtt allt í kring.“ Vatnsbólið var notað í minni Tryggva Gunnarssonar í Grjóta, þá „um 3 álnir á dýpt“. Brunnurinn er „um 0,75 í þvermál – ekki greinilega kringlóttur“, markaður með grjóti „á allar hliðar og sá í vatn, en hann er nú byrgður með fleka“.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Á Túnakorti 1918 má sjá götu sem byrjar við skemmu suðaustan Hlíðar-Austurbæjar og liggur þaðan suður um tún bæjanna og gegnum hlaðið í Miðengi. Líklega er þetta Hlíðarbrunngata eða Brunngata sem skv. Örnefnaskrá 1964 lá frá Hlíð og Miðengi að Garðalind ,,því þangað var sótt gott neysluvatn“ […] Skv. Örnefnalýsingu 1976-7 „lá brunngata frá Hlíð niður fyrir neðan Miðengi og þaðan austur í Garðalind“ og var vatn í Hlíð aðallega sótt þangað.“

Garðaholt

Garðaholt – Götur.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Á Túnakorti 1918 eru gerði í túninu austan Hlíðarbæja upp við Garðatúngarð. Við suðausturenda þess syðsta er hústóft úr torfi og grjóti, aflöng með stefnuna suðvestur-norðaustur. Trúlega er þetta Gata sem skv. Örnefnaskrá 1964 var „þurrabúð við vestur túngarð Garða, ofan við Hlíðarbæi“ […] Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Í suðaustur (u.þ.b. 150 m) frá íbúðarhúsinu var grasbýli, sem hét Gata. Hún fór í eyði um síðustu aldamót, og féll þá túnið undir Austurbæinn í Hlíð. Var þá byggður þar á tóftunum bær yfir karl og kerlingu á vegum hreppsins. Þau fóru þaðan um 1925, og keypti þá Gísli [Guðjónsson] bæinn og hefur haft hann fyrir fjárhús síðan og gert á honum ýmsar breytingar.“ Gísli mundi eftir bænum í Götu en „Götuland girðir að mestu land Miðengis af til austurs. Spildan frá Götu, sem ræktuð er ofan Miðengistúns, er nefnd Götuvöllur, og tilheyrir hún Hlíð.“ […] Skv. Fornleifaskráningu 1984 er Gata í eða við suðurhorn garðs „beint upp af Miðengi í suðaustur frá Hlíð“.“
Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Allt um kring er slétt graslendi og aflíðandi halli… Þarna eru tvö fjárhús úr torfi og grjóti með trégafla að ofan og bárujárnsþaki. Aftara eða austara húsið er um 5 m langt að utan og vísar í suðvestur (240°) en hitt húsið kemur hornrétt framan eða vestan á það. Suðurendi garðhleðslunnar liggur nokkurn veginn á mitt austara húsið. Væntanlega eru þetta húsin sem Gísli byggðu á bæjartóftunum.“

Garðar

Garðaholt – loftmynd 1954.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Á Túnakorti 1918 sést hvernig girt er í kringum allt Hlíðartún með görðum og girðingum. Meðfram Hlíðartröðum sem liggja frá Garðatúngarði til bæja er garður hlaðinn suðvestur að heimakálgarðshleðslunni. Annar garður sem er enn austar skilur milli Götu og Háteigs. Frá honum liggur síðan girðing í vestur milli Götu og Miðengis og við bæjarstæði Hlíðar byrjar aftur garður sem nær suðvestur að sjó. Þar er sjóvarnargarðurinn hlaðinn eftir öllum sjávarkambinum framhjá Hlíðarvörum og hefur framhald hans varðveist neðan Móakots. Rétt austan varanna liggur girðing upp frá sjógarðinum að heimakálgarðshleðslunni og nokkru vestan þeirra liggur landamerkja girðing milli Hlíðar og Móakots. Hún endar við austurvegg Móakotstraða sem liggja áfram norðaustur að Garðatúngarði. Skv. Fasteignabókum eru túngarðar og hagagirðingar við Hlíð árið 1932 […] og áfram 1942-4 […] Við Fornleifaskráningu 1984 fannst hluti Garðatúngarðs ofan Hlíðar en hleðslubrotið endar ofan við Grjótahúsið. Þetta er „þurr grjóthleðsla, þakin skófum og nokkuð gömul að sjá, […] nú innan girðingar Hlíðarmegin á um 70 m kafla eða að heimkeyrslu Hlíðar – og síðan áfram svolítinn spöl“.“

Miðengi

Hlíð – sjóvarnargarður.

„Á sjávarbakkanum fyrir Hlíðartúni lét Gísli hlaða sjóvarnargarð á árunum 1928 – 38. Var hann bæði hlaðinn úr fjörugrjóti og grjóti, sem tekið var upp úr túninu. Grjótið í túninu var tekið upp með svonefndum grjótgálga, en slík verkfæri fluttust þá hingað til lands frá Noregi. Voru þeir ýmist gerðir af þrem eða fjórum löngum spýtum (u. þ. b. 3 – 4 m löngum). Spýturnar mættust í oddi, og var ein lengri og til stuðnings (tvær í fjögurra spýtna gálga). Efst í gálganum var þrískorin blökk og önnur tvískorin rétt fyrir neðan hana. Neðarlega á gálganum voru svo tannhjólin (tvö), og var sveifin fest á svera járnteina á milli aðalspýtnanna. Á endann á vírnum var fest stór járnkjaftatöng til að grípa um steinana. Á veturna var grjótið klofið í hæfilega hleðslusteina. Fyrst voru klappaðar raufir í steinana með stuttu millibili. Mátti það helzt ekki vera lengra en spönn. Til þessa var notaður sérstakur klöppuhamar. Þá voru stálfleygar reknir niður í holurnar. Oddurinn mátti ekki nema við botn holunnar, því þá kom ekki þvinga á steininn. Til að koma í veg fyrir það var sett gyrði báðum megin á fleyginn, og þrýstist það til hliðanna, um leið og fleygurinn var rekinn niður. Eftir að fleygunum hafði verið fest í raufunum, var rekið nokkuð jafnt á fleygaröðina. Klofnuðu steinarnir þá af þvinguninni, og urðu kantarnir merkilega sléttir. Steinarnir, sem voru klofnir, voru fyrst og fremst grágrýti,“ segir í Örnefnalýsingu KE.

Hlíð

Hlíð – sjóvarnagarður og varir.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Á Túnakorti 1918 virðist mega sjá varir sitt hvorum megin við enda sjávargötunnar frá Hlíðarbæjum. Í Örnefnaskrá 1964 eru nefndar Hlíðarvör vestri eða Vesturbæjarvör sem „tilheyrði vesturbænum í Hlíð“ […] og Hlíðarvör eystri eða Austurbæjarvör sem ,,tilheyrði Austurbænum“ […]. Vesturbæjarvör er líklega rétt fyrir neðan Hlíðarbúð. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Í fjörunni, beint niður af húsinu, er Hlíðarvör. Þar er fjaran nokkuð slétt, en safnaðist í hana stórgrýti á vetrum. Þurfti því að ryðja hana á vorin. Hlið var á garðinum fyrir ofan vörina, og voru bátarnir settir um það upp á tún, ef sjógangur var mikill.“ […] Umrætt bátahlið má sjá á Túnakortinu þar sem gatan endar milli vara og er það nokkuð breitt.“

„Þurrabúðin Sólheimar var byggð örskammt norðaustan við Grjóta, og braut ábúandinn svolítinn blett í kringum húsið, og er hann nefndur Sólheimagerði. Húsið sjálft er sem næst því, sem heimreiðin í Grjóta er nú,“ segir í örnefnaskrá KE. Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Sólheimar voru við heimkeyrsluna að Grjóta, rétt utan Garðatúngarðs að sögn Tryggva Gunnarssonar. Þar var tómthús en engar minjar fundust við Fornleifaskráningu árið 1984 […] Sólheimar eru ekki nefndir í heimildum fyrri alda og því ekki vitað hvenær þeir voru í ábúð. Eitthvað af tómthúsfólkinu sem getið er um í Hlíð í Manntölum 1801 […] og 1845 […] hefur þó e.t.v. haldið til í þessu húsi.“

Hlíð

Hlíð – Grjóti og Holt – Túnakort 1918.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Skv. Örnefnaskrá 1964 var Holt „þurrabúð í Garðahverfi, ofan Hlíðarbæja“ eða „hjáleiga vestan við Götu“ Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Í háaustur frá Hlíð er Holt. þar er nú stórt timburhús, byggt nálægt 1942. Rétt fyrir norðan það er pakkhús. Gamli bærinn í Holti stóð u.þ.b. 20 m í suður frá íbúðarhúsinu, sem nú er. Svolítið gerði var í kringum og hann og kálgarður í því, framan við bæinn. Sá bær fór í eyði rétt fyrir aldamótin 1900, og var Holt ekki aftur í byggð, fyrr en reist var húsið, sem nú er. Holt stendur rétt ofan við túngarðinn í Hlíð (þ.e. garðinn, sem Garðaprestar létu hlaða ofan túna í Garðahverfi).“ …“ Þurrabúðin Holt var eina 150-200 m norðvestur af Háteigi, og verður þess nánar getið síðar“

Miðengi

Miðengi – loftmynd.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Á Túnakorti liggur stór ræktarblettur út frá Garðatúngarðiog Illugagerði ofan Hlíðar. Hann er óreglulegur í lögun en þó nokkurn veginn ferhyrndur, umkringdur hlöðnum veggjum, með stefnu norðvestur-suðaustur. Þetta mun vera Holtsgerði en skv. Örnefnaskrá 1964 ræktaði Eyjólfur Eyjólfsson það
umhverfis Holtsbæinn. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Gamli bærinn í Holti stóð u.þ.b. 20 m í suður frá íbúðarhúsinu, sem nú er. Svolítið gerði var í kringum hann og kálgarður í því, framan við bæinn.“ […] Trúlega er þetta grjóthlaðni ferhyrndi garðurinn sem fannst við Fornleifaskráningu 1984. Hann liggur beint í suður út frá núverandi Holti, í smáþýfi þar sem er grýtt á köflum.“

Hlíð

Hlíð.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „[Holtsgerði] er um 30×32 m að stærð með stefnu í vestur, veggirnir 1,8 m á breidd.“
Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Rétt við norðurhorn kúagerðis, í miðjum Garðatúngarði, er á Túnakortinu 1918 sýndur ferhyrndur kálgarður með grjóthlöðnum veggjum og stefnu með túngarðinum. Þetta er trúlega Illugagerði sem skv. Örnefnaskrá 1964 var „rétt hjá Holtsgerði“, þ.e. stóra garðinum sem sést austan við það á kortinu . […] Illugagerði var „ræktað […] þarna á holtinu. Það gerði Illugi Brynjólfsson, er bjó um aldamótin 1900 í Holti“ […] en þess má geta að alnafni hans og e.t.v. ættingi var bóndi á nágrannabænum Ráðagerði skv. Manntali 1816 […] og bjó þar fram um miðja 19. öldina […]. Garðurinn fannst við Fornleifaskráningu 1984 og er nánar tiltekið staðsettur framan og vestan við núverandi Holt.“

Móakot

Móakot – loftmynd.

Móakot er nefnt árið 1698, Árbók 1929, 6. Garðakirkjueign.
1703: Hjáleiga Garða. Ekki hluti af Hafnarfirði. „… er bygð úr Hlíðarlandi fyrst i þeirra manna minni, sem nú lifa.“ JÁM III, 188
1930: Fer í eyði.
1918: Tún 1 teigur og 800 m2″.

Móakot

Móakot.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Á Túnakorti 1918 sést bæjarstæði Móakots nokkurn veginn í miðju túni, suðvestan Hausastaðakots og norðvestan Hlíðarbæja. Skv. Örnefnaskrá 1964 var býlið „hjáleiga frá Görðum. Ofar en Hlíð.“ […] en í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Móakot var u.þ.b. 150 m suðvestur af Hausastaðakoti. Það fór í eyði um 1930. Svolítill blettur kringum kotið var nefndur Móakotstún. Bæjartóftirnar eru í landi Haustastaðakots, en túninu er skipt á milli Hlíðar og Haustasaðakots, og á Hlíð eystri hlutann.“ […] Við Fornleifaskráningu 1984 var Móakot staðsett „norðvestur af Grjóta, norðan við Hlíð […] slétt tún fyrir vestan og norðan – aflíðandi gróin en grýtt brekka að baki.“
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Á Túnakortinu hólfast bærinn í fernt, byggingarefnið er torf en standþil á tveimur framhúsum, stærstu hólfunum, en þau snúa suðvestur að sjónum. Það kemur heim við lýsingu skrásetjara sem segir lengd bæjarhúsa til vesturs vera 5,85 m og þau hafa vísað göflum út á sjó. Aðeins mótar fyrir veggjum, um 1 m á breidd. Skv. Fasteignabók stóð þessi torfbær enn árið 1932.“

Garðar

Móakot – tóftir.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Á Túnakorti 1918 virðist mega sjá vör fyrir enda götunnar sem liggur frá Móakoti að sjó. Skv. Örnefnaskrá 1964 var Móakotsvör „nokkru sunnar en Hausastaðavör vestust varanna, innan Hausastaðagranda“ og Móakotsklappir eða Móakotssker voru „rétt við Móakotsvörina“ […] Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Móakotsvör er beint niður undan tóftunum“, þ.e. bæjartóftunum.“

„Rétt fyrir austan (u.þ.b. 8 m) endann á Stíflisgarði, Katrínarkotsmegin, var Hausastaðabrunnur. Í hann var sótt vatn frá Hausastöðum, Katrínarkoti og Hausastaðakoti og stundum einnig frá Grjóta og Móakoti. Ekki þraut í þessum brunni fyrr en á seinni árum. Einar 6-7 tröppur voru niður í brunninn. Hausastaðabrunnur lagðist af um 1927 … Slóðar frá bæjunum að Hausastaðabrunni nefndust Brunngötur. Var eins frá hverjum bæ.“ Búið er að raska brunngötunum með sléttun og vegagerð, t.a.m. með Sjávargötu.

Móakot

Móakot.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Túnakortið 1918 sýnir kálgarða suðvestan, sunnan og suðaustan bæjarins en skv. Fornleifaskráningu 1984 eru hleðslur kálgarðs og kartöflugarðs vestur af bæjarhúsalengjunni.“
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Kálgarðurinn er beint vestur af hústóftinni en í suðurenda hans aflangur kartöflugarður og girðing milli þeirra. Frá húsinu eru um 26 m að vesturvegg kálgarðsins og 3 m í norðurvegginn sem er um 29 m langur að girðingu. Garðurinn virðist opinn til austurs. Stallur hefur myndast við frambrún kálgarðshleðslunnar. Kartöflugarðurinn er um 34 x 7 m að innanmáli með stefnuna vestur-austur. Garðveggirnar eru 1-1,5 m á breidd, grjóthlaðnir í austurhlutanum.“

Móakot

Móakot – brunnur.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: „Í þýfi um 17 m norðaustur frá Móakoti fannst við Fornleifaskráningu 1984 brunnur. Hann er hringlaga, um 1 m í þvermál og 1,5 m niður að vatnsyfirborði. Hann er hlaðinn úr grjóti og stendur opinn en gaddavír hefur verið settur fyrir.“

„Hausastaðakambur var ofan þessara vara … Og Skiptivöllurinn með búðum og hjöllum bæjanna … Móakotsbúð var á Hausastaðakambi, búð og hjallur frá Móakoti, við Skiptivöllinn,“ segir í
Örnefni og leiðir í Garðabæ. Móakotsbúð hefur að líkindum verið upp af Móakotsvör, sem er rúmlega 120 m suðvestur af bæ.

Móakot

Bátar í fjörunni neðan Móakots.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Skv. Túnakorti 1918 liggja traðir úr austurhorni Móakotstúns beint norðaustur framhjá Grjóta og út að hliði í Garðatúngarði sem í Örnefnaskrá 1964 er nefnt Móakotshlið eða Grjótahlið.“

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Á Túnakorti 1918 sést að girt er kringum allt Móakotstún og liggur sjógarður eftir sjávarkampinum. Skv. Fasteignabók var þar túngarður og hagagirðing árið 1932.“
Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: „Hluti varnargarðsins fannst við Fornleifaskráningu 1984: „Niður við sjóinn vestan við Hlíð […]. Fallega hlaðinn grjótgarður“, um 1,2 m á hæð og 1,5 m á breidd og nær frá girðingu milli Hlíðar og Grjóta.“

Heimild:
-Fornleifaskráning Garðabæjar 2009.

Móakot

Móakot – kálgarður.