Færslur

Flekkuvík

Á Flekkuvíkurheiði er falleg hólaþyrping sem ber við himinn sé komið að þeim úr norðri. Þeir heita Miðmundahólar. Vestan undir hólunum er tóft, sem ekki virðist vera til í örnefnalýsingum eða fornleifaskrám. Ofan hólanna eru Miðmundalágar. Norðvestur af Miðmundahólum er Tvívörðuhóll.

Miðmundahólar

Tóftin í Miðmundahólum.

Strandarvegurinn leggur skammt neðan við hann. Vestur undir Tvívörðuhól er Mundastekkur, líklega frá Flekkuvík fyrrum.
Tóftin undir Miðmundahól er óvenjuleg og enginn stekkur sést þar í fljótu bragði. Hún er í landi Flekkuvíkur. Að þessu sinni var ekki leitað grannt að fleiri mannaverkum, en það verður gert fljótlega.
Nafnið á hólunum, Miðmundahólar, benda til eyktarmarks frá Flekkukvík (miðmund = sól kl 13:30). Það verður þó að teljast ólíklegt því hólarnir benda ekki til miðmundar frá þeim bæ. Í orðabókum getur „miðmund“ bæði átt við um tíma (sólargang) og vegalengdir. Spurningin var því hvort þarna gæti verðið miðsvæðis á kirkjuvegi milli Vatnsleysu og Kálfatjarnar – sem getur jú passað. En alfaraleiðin (Almenningsvegurinn) liggur þarna snöggtum neðar en hólarnir, eða fyrir neðan Strandarveginn. Það er því útilokað að hólarnir séu miðsvæðis á kirkjugötu því krókur var að fara upp að þeim.
TóftÁ hvaða miðsvæði voru Miðmundahólar? Gætu þeir hafa verið “miðmund” frá öðrum Vatnsleysubæjanna þótt í öðru landi hafa verið. Dæmi eru jú um slíkt. Eftir hvaða Munda heitir “Mundastekkur” undir Tvívörðuhól? Gæti nafnið verið stytting úr “Miðmundastekkur”? Er möguleiki að nöfn hafi víxlast á hólunum? Hver gæti tilgangur tóftarinnar fyrstnefndu hafa verið?
Allt þetta og meira til er meðal þess sem skoðað verður á næstunni. Ef einhver veit eða getur gefið upplýsingar um framangreint er sá hinn sami beðinn um að hafa samband við ferlir@ferlir.is. Einhver áhugi á menningarleifum svæðisins hlýtur að vera til staðar – hjá einhverjum að minnsta kosti!

Heimild:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir, 1995, bls. 25 og 27.

Miðmundahólar

Strandarheiði

Ofan Arnarvörðu í Strandarheiði (Flekkuvíkurheiði) eru Miðmundahólar og ofan þeirra Miðmundalágar. “Hólarnir eru ekki eyktarmark frá Flekkuvík sem mætti ætla við fyrstu sýn né heldur eyktarmark frá öðrum bæjum í grennd að því er virðist.
TóftÍ Orðabók Menningarsjóðs segir að í fornu og úreltu máli geti miðmunda (ao.) þýtt “mitt á milli es!, og á jafnt við um tíma og vegalengdir, þannig að hólarnir gætu staðið miðja vegu á milli einhverra staða”.
Þegar umhverfið var skoðað mátti ganga að Miðmundastekk vísum undir Þrívörðuhól. Ofar liggur Almenningsvegurinn. Skammt ofan hans, vestan (sunnan) Arnarvörðu er varða á klapparholti. Þarna hefur að öllum líkindum  verið um landamerkjavörðu að ræða. Vörðufóturinn hefur verið stór (er heillegur), en úr vörðunni hefur verið búin til refagildra, sem síðan hefur verið aflöguð. Gangurinn sést vel og fallhellan er við leifarnar. Líklegt er að þarna séu mörk Flekkuvíkur og Kálfatjarnar. Mitt á milli þessarar vörðu og annarrar austar  (norðar) er önnur eins. Vörðufóturinn er eins og hinn, en grjót hefur verið tekið úr vörðunni, væntanlega í Eiríksveginn, sem er skammt frá. Þarna eru líklega mörk Flekkuvíkur og Kálfatjarnar. Flekkuvíkurselsstígurinn liggur upp heiðina rétt sunnan við vörðuna. Miðmundahólar gætu því hafa tekið nafn af því að vera miðsvæðis í miðju Flekkuvíkurlandi.

Varða

Önnur gata liggur af Almenningsveginum skammt ofar, áleiðis niður í Flekkuvík. Henni var fylgt langleiðina niður að bæ. Ofanvert er gatan mjög greinileg, en verður óljósari er nær dregur bæjum. Varða, gróin, er á hól á miðri leið. Gatan liggur austan við hólinn og sameinast Flekkuvíkurselsstígnum skammt neðar.
Þegar Miðmundahólar voru skoðaðir sást falleg gróin tóft sunnan undir hólunum. Hún hefur verið ca. 120 x 480 cm með op mót suðri, að Miðmundalágum, sem væntanlega hefur verið nátthagi. Þessi tóft gæti verið smalaskáli og tengst Miðmundastekk skammt norðar í heiðinni.
Lágarnar eru grasi vaxnar og ljóst að þarna hefur verið allgóð beit fyrrum.
Spóinn lék fluglistir sem mest hann lét, rjúpan flaug á millum með allan ungaskarann og krækiberin sáust stækka.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Í Miðmundalágum