Færslur

Dalurinn

Í Fjarðarpóstinum 2. mars 2023 er m.a. fjallað um “Fornminjar eyðilagðar í Hamranesi – Minjaverði hafði verið bent á að minjarnar væru ekki á minjakorti – Minjastofnun með málið í skoðun“.

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum 2019.

“Þar sem nú rís Hamraneshverfið er svæði sem kallaðist Dalurinn eða Ásflatir eða jafnvel Hellisdalur. Um það má m.a. lesa í örnefnalýsingum Gísla Sigurðssonar og Ara Gíslasonar. Þar er fjárskjól sem hefur verið nefnt Hellirinn eða eins og Gísli nefnir það Hellishraunsskjól en hraunið í dalnum er nefnt Hellishraun. Þetta svæði var í landi bæjarins Áss undir Ásfjalli. Skjólið, sem í raun var aðkoma að hellinum var að sögn Gísla vel hlaðið en hrunið þegar hann skráði upplýsingarnar á síðustu öld.

Dalurinn

Dalurinn – fjárskjól; ratleikjaspjald 2021.

Í þessum helli var eitt merkið í Ratleik Hafnarfjarðar 2021 og var þá forstöðumanni Byggðasafnsins bent á að fjárskjólið væri ekki merkt á minjakorti bæjarins sem þá hafði nýlega verið birt. Var þá upplýst að fjárskjólið væri þó skráð. Bæjarstjóri, Rósa Guðbjartsdóttir fékk afhent fyrsta Ratleikskortið þar sem fjárskjólið er merkt. Ekki er til deiliskipulag af svæðinu þar sem fjárskjólið er, en hverfið er að mestu hannað sem þróunarreitir þar sem lóðarhafar fá að koma sjálfir með tillögu að deiliskipulagi. Í aðalskipulagi var svæðið merkt sem íbúðasvæði þar til á breyttu aðalskipulagi frá 4. maí 2021 er svæðið er merkt sem miðsvæði.

DalurinnVið skoðun á svæðinu í síðustu viku má sjá að öll ummerki um fjárskjólið eru horfin og hellirinn hefur verið brotinn niður af hluta og lögð hefur verið sver lögn þarna um. Á tillögu að deiliskipulagi fyrir þetta svæði má sjá að þvert yfir svæðið er gert ráð fyrir kvöð um lagnaleið en merkingar á minjunum vantar inn á deiliskipulagið.

Í bréfi til umhverfis- og skipulagssviðs Hafnarfjarðar þann 20. júlí 2020 svaraði Minjastofnun erindi skipulagsfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar þar sem óskað var eftir umsögn stofnunarinnar um tillögu að aðalskipulagsbreytingu sem náði til svæðis í Hamranesi (og var samþykkt 4. maí 2021 eins og nefnt er hér að ofan). Þar segir m.a.: „Á svæðinu eru skráðar einar minjar (nr. 2061-1), fjárskýli sem er fyrirhleðsla við hraunhelli. Taka þarf tillit til minjanna þegar kemur að deiliskipulagsvinnu.“

DalurinnSigurður Haraldsson, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs, segist ekki hafa vitað af minjunum og viti ekki hvers vegna ábending Minjastofnunar hafi ekki komist til skila í
skipulagsvinnuna. Hann nefndi þó að notast hafði verið við minjaskráningu á vef fyrir Hafnarfjörð, www.map.is/hafnarfjordur en þar eru þessar minjar ekki merktar inn. Málið yrði þó skoðað.

Minjavörður Reykjaness hjá Minjastofnun, Þór Ingólfsson Hjaltalín, sagði í svari við fyrirspurn Fjarðarfrétta ætla að skoða skemmdir á minjunum og taka málið fyrir hjá stofnununni.
Í minjaskráningu Atla Rúnarssonar frá 14.10.2019 er fjárskjólið sagt í landi Hvaleyrar og ástand sagt illgreinanlegt. Hætta er sögð vegna byggingaframkvæmda og í lýsingu er haft eftir lýsingu í athugasemdum Katrínar Gunnarsdóttur í fornleifaskráningu frá 2005: „Þar sem hleðslur fjárhellisins hafa hrunið niður og varla mögulegt að segja til um hvar og hvernig þær hafa verið, er ekki ástæða til að varðveita hellinn sem heimild um búsetuhætti fyrir tíma.“

DalurinnÍ pistli „Dalurinn – Hellishraunsskjól“ á www.ferlir.is skrifar Ómar Smári Ármannsson fornleifafræðingur og sérfræðingur í mannvistarminjum á Reykjanesi 12. febrúar 2019: „Þrátt fyrir framangreinda umsögn er full ástæða til að varðveita fjárskjólið sem og svæðið þar umleikis, ekki síst vegna þess að þarna er um að ræða eitt af fáum fjárskjólum, þeim mikilvægu mannvirkjum frá fyrri tíð, í landi Hafnarfjarðar“.

Dæmi eru um skráðar minjar sem finna má á korti en eru ekki merktar inn á deiliskipulag og smalaskjól sem finna má við Tinhellu er t.d. inn á athafnalóð og í minjaskráningu eru þær ekki sagðar í neinni hættu. Þá eru líka dæmi um að náttúruminjar séu ekki skráðar eins og Litli Rauðimelur en hann er rétt við Stóra Rauðamelsnámurnar sem nú er fyrirhugað að stækka vegna hafnargerðar í Straumsvík. Liggur fyrir deiliskipulagsbreyting vegna þessa án þess að Litla Rauðamels sé getið í umhverfisskýrslu.

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum 2023.

Þá eru fleiri fornminjar óskráðar í bæjarlandinu, m.a. fjárskjól við Stórhöfða sem gæti verið í hættu vegna fyrirhugaðs reiðstígs sem veitt hefur verið framkvæmdaleyfi fyrir án þess að deiliskipulag liggi fyrir eða að málið hafi verið kynnt almenningi.
Virðist eins og áhugi fyrir fornminjum og náttúruminjum sé lítill í stjórnsýslunni og þykir mörgum vont að vita til þess að minjar séu eyðilagðar án þess að leitað hafi verið eftir áliti og samþykki Minjastofnunar.”

FERLIR fjallaði um eyðileggingu fjárskjólsins, sjá HÉR. Einnig hafði verið fjallað um fjárskjólið á vefsíðunni mörgum árum fyrr, bæði HÉR  og HÉR.

Dalurinn

Svar Hafnarfjarðarbæjar við eyðileggingunni.

Í bréfi Hafnarfjarðarbæjar 17. mars 2023; Efni: “Svar við fyrirspurn Minjastofnunar vegna eyðileggingu á minjum á lóðinni Hringhamar 16 í Hamranesi“, segir: “Í bréfi frá Minjastofnun dags. 2. mars s.l. er óskað eftir frekari upplýsingum um aðdraganda og orsakir þess að minjar sem stofnunin benti á í bréfi sínu dags. 20. júlí 2020 að þyrfti að taka tillit til í deiliskipulagsvinnu hefðu verið eyðilagðar. Bréf frá því 2020 var sent vegna breytinga á aðalskipulagi Hafnarfjarðar vegna Hamraneshverfis.
Umhverfis- og skipulagssvið harmar að fornminjarnar hafa verið eyðilagðar og engar afsakanir til sem réttlæta það, þarna er um mannleg mistök að ræða.

Skipulag í Hamraneshverfi var unnið með óhefðbundnum hætti. gert var rammaskipulag þar sem svæðið var reitað niður og reitunum var úthlutað til verktaka og þeir sáu síðan um að deiliskipuleggja sinn reit og byggja. Götur og lagnir voru lagðar í samræmi við rammaskipulagið. Þessi vinnubrögð verða ekki reynd aftur þar sem margt hefur gengið á og farið úrskeiðis og flækjustig eru mörg.

Dalurinn

Fjárhellirinn í Dalnum.

Í deiluskipulagi sem nú er í afgreiðslu hjá Skipulagsstofnun er gerð grein fyrir gatnakerfi, stígum og stofnanalóðum hverfisins og það varð út undan þegar úthlutaðir reitir voru deiliskipulagðir. Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir að á lóðinni Hringhamri 16 verði grunn- og leikskóli. Áður en deiliskipulagsvinna þessi hófst var búið að ákveða að leggja lögn þvert á lóðina. Við þá vinnu voru minjarnar eyðilagðar. Um er að ræða regnvatnslögn sem á að miðla vatni innan lóðarinnar.
Framkvæmdarleyfi fyrir gatna- og lagnavinnu í Hamraneshverfi var gefið út af skipulagsfulltrúa á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa þann 3. mars 2021.
Því miður láðist að merka þessar minjar inn á kortagrunna sveitarfélagsins sem og inn á aðalaskipulagið með þeim afleiðingum sem nú er raunin.” – Anna Margrét Tómasdóttir, Verkefnastjóri

Dalurinn

Dalurinn – fjárskjólið.

Í bréfi Minjastofnunar 10. maí 2023; Efni: “Hamranes í Hafnarfirði, götur, stígar, stofnanalóðir og veitur – tillaga að deiliskipulagi“, segir: “Í tölvupósti 11. apríl 2023 óskar Anna Margrét Tómasdóttir hjá umhverfis- og skipulagssviði hafnarfjarðarbæjar eftir umsögn Minjastofnunar Íslands um ofangreinda deiliskipulagstillögu. Fylgigagn var skipulagsuppdráttur dagsettur í janúar 2023. Fornleifaskráning liggur fyrir á svæðinu; Heiðrún Eva Konráðsdóttir: Hafnarfjörður, Hamranes. Fornleifaskráning vegna deiliskipulags (Byggðasafn Hafnarfjarðar 2019). Fornleifaskráin er fullnægjandi fyrir afgreiðslu deiliskupulagsins, sbr. 16. gr. Laga um menningarminjar nr. 80/2012. Samkvæmt henni eru einar skráðar minjar á skipulagssvæðinu, fjárskýli nr. 2061-1, sem er fyrirhleðsla við hraunhelli.

Dalurinn

Bréf Minjastofnunar.

Með bréfi dagsett 30 júlí 2020 gaf Minjastofnun umsgögn um ofangreint svæði vegna breytinga á aðalskipulagi. var þá vakin athygli á þessum minjum, að gæta þyrfti að þeim við frekari deiliskupulagsvinnu. Deiliskipulagið var hins vegar ekki sent til umsagnar Minjastofnunar á auglýsingatíma þess, Þann 23. febrúar 2023 fékk Minjastofnun svo ábendingu um að friðaðar minjar í Hamranesi hefðu verið eyðilegðar og reyndist það vera ofangreint fjárskýli. Eftir að tilkynnt var um málið fóru starfsmenn Minjastofnunar á vettvang til að athuga um ástand minjanna. Ljóst er að minjarnar hafa verið eyðilagðar vegna framkvæmda á svæðinu og er það mat stofnunarinnar að þær verði ekki lagaðar eða komið í fyrra horf. Í kjölfarið óskaði Minjastofnun Íslands eftir skýringum hjá Hafnarfjarðarbæ, með bréfi dagsett 2. mars 2023, þar sem óskað var eftir upplýsingum um aðdraganda og orsakir þess atviks. Svar Hafnarfjarðarbæjar barst með bréfi dagsett 17. mars 2023. Minjastofnun telur skýringar sem þar eru raktar fullnægjandi og er ljóst að um mannleg mistök er að ræða. Mikilvægt er að tryggja að gott verklag komi í veg fyrir slys af þessu tagi í framtíðinni. Með bréfi þessu er friðun minjanna (fjárskýlis nr. 2061-1) aflétt, sbr. 25. hr. laga um menningarminjar, þar sem segir: “Minjastofnun Íslands er heimilt að afnema friðun fornleifa sem byggist á aldursákvæðum þessara laga”. Fyrirliggjandi skráning minjanna telst fullnægjandi rannsókn.
Minjastofnun Íslands hefur ekki frekari athugasemdir við ofangreint deiliskipulag.” – Þór Hjaltalín, minjavörður Reykjaness

Þór Hjaltalín

Þór Hjaltalín.

Í svari Þórs Hjaltalíns við fyrirspurn fréttastjóra Fjarðarfrétta dags 23. ágúst 2023 kemur eftirfarandi fram:”Sæll Gísli. Verkferlar og samskipti eru hér í stöðugri þróun og skoðun til að lágmarka hættuna á að minjar skemmist af vangá, en ef það gerist er það auðvitað áminning til okkar allra.
Eins og rakið er í bréfi bæjarins var skipulagið fyrir Hamraneshverfið unnið með óhefðbundnum hætti (rammaskipulag), sem reyndist illa og segjast þau hverfa frá þeim vinnubrögðum í framtíðinni, sem er vel.
Ef minjar eru skemmdar, þá kemur vissulega til álita að kæra. Eftir að hafa farið yfir málið hér innanhúss varð niðurstaðan hins vegar sú að reyna að laga vinnubrögð/samskipti þannig að slys af þessu tagi endurtaki sig ekki.
Við eigum í reglulegum samtölum við byggingar- og skipulagsfulltrúa hringin í kringum landið sem miða að því að tryggja vernd menningarminja og það á við um Hafnarfjarðarbæ eins og önnur sveitarfélög. Nú liggur fyrir vönduð heildarskráning minja í Hafnarfirði og stöndum við því mun betur að vígi varðandi vernd fornleifa en við gerðum fyrir örfáum árum síðan. En það kom því miður ekki í veg fyrir að þessar minjar skemmdust. Slík mál lítum við ávallt alvarlegum augum og eins og ég nefndi verður reynt að bæta vinnlag til að lágmarka hættuna á slíkt endurtaki sig.”

Guðni Gíslason

Guðni Gíslason, fréttastjóri Fjarðarfétta.

Viðbrögð fréttastjóra/ritstjóra Fjarðarfrétta voru:
“Sæll og takk fyrir svarið.
Teljast þetta eðlileg viðbrögð Minjastofnunar? Engin viðurlög? Engin áminning?
Já, mannleg mistök, þrátt fyrir að Hafnarfjarðarbæ hefði verið upplýst sérstaklega um minjarnar af Minjastofnun og að þær hafi verið skráðar fyrir Byggðasafn Hafnarfjarðar. Forstöðumanni Byggðasafns var bent á að minjarnar væru ekki inn á minjakorti Hafnarfjarðar á map.is en hann gerði ekkert í því.
Það varð til þess að starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar sáu minjarnar ekki á minjakorti.
Minjarnar höfðu verið í Ratleik Hafnarfjarðar þar sem bæjarstjóri fékk fyrsta kortið.
Er hægt að kalla þetta mistök? Ef svo er getum við búist við að miklu fleiri minjar hverfi.”

Með góðri kveðju,
Guðni Gíslason, útgefandi/ritstjóri

FERLIR sendi Minjastofnun eftirfarandi fyrirspurn í ágústmánuði s.l.: “Sæl, getið þið upplýst um hver voru viðbrögð Minjastofnunar við svari Hafnarfjarðarbæjar v/fyrirspurn hennar um eyðileggingu fjárskjóls í Dalnum norðan Hamraness s.l. vor?” Minjatofnun hefur ekki talið ástæðu til svara.

Fornleifaskráning katrínarFERLIR tekur undir svör fréttastjóra/ritstjóra Fjarðarfrétta. Viðbrögð og svör minjavarðar Reykjaness[kaga] verða að teljast sérstaklega léttvæg í ljósi eyðileggingar fornminja í umdæmi Hafnarfjarðar þar sem fyrir lá staðfest vitneskja um þær þrátt fyrir fullyrðingar um annað. Ljóst er að starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar hefur verið vanhæft til verka, en skýringar á misferlinu er að hluta til við stofnunina að sakast. Strax þegar fyrirhugaðar voru framkvæmdir á svæðinu hefði átt að merkja þekkt minjasvæðið til að koma í veg fyrir eyðilegginguna, en það var ekki gert. Þá verður að telja viðbrögðin harla máttlaus í ljósi þeirra verðmæta, sem stofnunni ber að vernda, en aðrir komast upp með því að raska með þeirri einni afsökun að um “mannleg mistök” hafi verið að ræða, sérstaklega í ljósi þess að allar nauðsynlegar upplýsingar lágu fyrir um minjarnar. “Teljast þetta eðlileg viðbrögð Minjastofnunar? Engin viðurlög? Engin áminning?” Þessi dæmalausu viðbrögð eru fordæmi til framtíðar? “Minjastofnun telur skýringar sem að framan eru raktar fullnægjandi vegna þess að um mannleg mistök hafi verið að ræða”. Ljóst er að Minjastofnun þarf að líta sér nær þegar kemur að málum sem þessu.

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum 2002.

Í Lögum um menningarminjar 2012 nr. 80 29. júní segir m.a. í 23. gr. laganna: “Ef fyrirsjáanlegt er að minjastaður spillist vegna breyttrar landnotkunar eða framkvæmda skal framkvæmdaraðili eða viðkomandi sveitarfélag gera Minjastofnun Íslands viðvart með sannanlegum hætti með minnst fjögurra vikna fyrirvara áður en áætlaðar framkvæmdir hefjast og lýsa þeim breytingum er af framkvæmd mun leiða. Minjastofnun Íslands ákveður að undangenginni vettvangskönnun hvort frekari rannsóknar er þörf, hvort gera skuli tillögu um friðlýsingu eða hvort fornleifarnar megi víkja og þá með hvaða skilmálum. Óheimilt er að veita leyfi til framkvæmda fyrr en ákvörðun Minjastofnunar Íslands liggur fyrir.”
Þá segir í 25. gr.: “Minjastofnun Íslands er heimilt að afnema friðun fornleifa sem byggist á aldursákvæðum þessara laga.” Í lögunum er hvergi gert ráð fyrir affriðun þegar um eyðilagðar  fornleifar er að ræða, enda er það ekki hlutverk Minjastofnunar að fyrirgefa skemmdarvörgum eða veita þeim syndaaflausn, líkt og tíðkaðist fyrrum í kaþólskri trú.

Heimildir:
-Fjarðarpósturinn 2. mars 2023, Fornminjar eyðilagðar í Hamranesi, bls. 10.
-Bréf Hafnarfjarðarbæjar 17. mars 2023; Efni: Svar við fyrirspurn Minjastofnunar vegna eyðileggingu á minjum á lóðinni Hringhamar 16 í Hamranesi.
-Bréf Minjastofnunar 10. maí 2023; Efni: Hamranes í Hafnarfirði, götur, stígar, stofnanalóðir og veitur – tillaga að deiliskipulagi.
-Lög um menningarminjar 2012 nr. 80 29. júní.

Hellishraunsskjól

Hellishraunsskjólið fyrrum.

Kaldársel

Fróðlegt er að sjá skráningu Minjastofnunar á Kaldárseli. Skv. henni var selið vestan við fyrsta hús KFUM og K frá árinu 1925 þar sem fyrrum var hestagerði (stekkurinn).

Kaldársel 1932

Kaldársel 1932. Tóftir selsins hægra megin.

Á gömlum myndum, allt til 1936, sjást selstóftirnar vel austan við húsið. Daniel Bruun bæði teiknaði og ljósmyndaði selið um 1880. Ef vettvangurinn er skoðaður er augljóst hvar selið var, bæði má þar enn sjá garða og tóftir þess. Grjótið úr tóftunum fór undir gólf viðbyggingar hússins.
Fornleifaskráning þessi lýsir, líkt og svo margar aðrar, litlum metnaði hlutaðeigandi….

Kaldársel

Kaldársel – uppdráttur Minjastofnunar.

eldgos

Í Fréttablaðið.is 5. mars 2021 mátti lesa eftirfarandi “frétt”; “Minjar í hættu samkvæmt spá um hraunrennsli”. Þar segir m.a.:

EldgisYfirlitskort Minjastofnunar er unnið út frá þeim minjum sem eru þekktar og eru á skrá hjá stofnuninni en fleiri minjar er að finna á svæðinu þar sem heildarskráning fornleifa á svæðinu hefur ekki farið fram.
Fornleifafræðingar Minjastofnunar eru í kapphlaupi við tímann að skrá minjar sem eru í hættu miðað við hraunrennslisspá. Enn á eftir skrá margar minjar sem gætu glatast að eilífu komi til eldgoss.

“Fjölmargar friðaðar og friðlýstar minjar eru á óróasvæðinu og enn á eftir að skrá margar minjar með fullnægjandi hætti að sögn Sólrúnar Ingu Traustadóttur fornleifafræðings. Hætta er á að þær glatist að eilífu komi til eldgoss.

Eldgos
„Fjöldi þekktra friðaðra minja er á svæðinu. Minjarnar tilheyra ýmsum minjaflokkum en helst er að nefna fjölmörg sel, bæði frá bæjum sunnan- og norðanvert á Reykjanesskaganum,“ útskýrir Sólrún. Hún segir helstu selin í hættu vera Dalssel við Fagradalsfjall, Knarrarnessel, Auðnasel, Fornasel, Rauðhólasel, Seltó, Kolhólasel, Oddafellssel nyrðra og syðra sem eru sunnan Reykjanesbrautar.

Ekki er talið líklegt að gos hefjist á næstu klukkustundum og lauk gosóróanum sem hófst um klukkan 14:20 á miðvikudag um miðnætti þann sama dag.

„Nú er viðvarandi skjálftavirkni á svæðinu en óróinn var bara á miðvikudag,“ segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur, í samtali við Fréttablaðið.”

Staðreyndirnar eru hins vegar þessar:

Kringlumýri

Kringlumýri ofan Krýsuvíkur – með elstu mannvistarleifum á Íslandi.

Í fyrsta lagi; Minjastofnun hefur sýnt minjum á svæðinu takmarkaðan áhuga í gegnum tíðina, jafnvel svo jaðrar við vanrækslu, þrátt fyrir þrálátar ábendingar. Eitt svarið við einni slíkri ábendingu var t.d.: “Það eru engar merkilegar minjar á svæðinu”.

Í öðru lagi; Minjastofnun hefur hingað til ekki haft einn sérstakan minjavörð er gætt hefur hagsmuni svæðisins sérstaklega, líkt og um aðra landshluta.

Seltó

Kort Sesseljar af Seltó og nágrenni.

Í þriðja lagi; Minjastofnun á að vita að áhugasamir einstaklingar, umfram starfsfólk hennar, hefur bæði skoðað, skráð, ljósmyndað, teiknað upp og fjallað opinberlega um allar mikilvægar minjar á svæðinu. Má þar t.d. nefna Sesselju Guðmundsdóttur o.fl. Þessir aðilar hafa haldið skrár, þ.á.m. hnitaskrár, af öllum fornminjunum. Stofnunin hefur hins vegar haft lítinn áhuga á samvinnu við þetta fólk, a.m.k. hingað til.

Sel

Sel vestan Esju – ÓSÁ.

Í fjórða lagi; Minjastofnun má vita að allar selstöðurnar á svæðinu hafa þegar verið skráðar, hnitsettar, ljósmyndaðar og teiknaðar upp. Heimildir um það liggja fyrir í opinberum skrám, öðrum en hennar.

Í fimmta lagi; Seltó var ekki selstaða í eiginlegum skilningi, líkt og þekktist í heiðinni. Staðurinn var að vísu nytjastaður til hrístöku fyrrum, líkt og nafnið bendir til, þótt þar finnast engar minjar þess í dag.

Í sjötta lagi; Ef Minjastofnun vildi leggja áherslu á minjasvæði á mögulegu gossvæði ætti starfsfólkið að beina athygli sinni  fyrst og fremst að Selsvöllum, en mér að vitandi hefur starfsmaður stofnunarinnar varla stigið þar niður fæti þrátt fyrir aldarlýsingar ferðalanga og sagnir þeirra fyrrum af minjunum þar sem og handavinnu áhugasamra einstaklinga um mikilvægi þeirra í hinu sögulega samhengi svæðisins.

Hraun

Refagildra við Hraun.

Í áttunda lagi; Fáir vita t.d. að fjárborgir á Reykjanesskagnum eru 134 talsins, fornar refagildrur 91 og sels og selstöður 402, réttir 122 o.s.frv.  Efast er um að Minjastofnun hafi yfirlit um allar þær minjar, hvað þá allar mannvistaðleifarnar er finna má í hellum á svæðinu.

Í níunda lagi mætti Minjastofnun gjarnan líta sér nær þegar kemur að umræðu um minjar á Reykjanesskaga.

Fyrir áhugasama vil ég vekja athygli á vefsíðunni www.ferlir.is sem hefur fjallað um örnefni, leitir að mannvistarleifum, hversu ómerkilegar sem þar kynnu að virðast, á Reykjanesskaga um áratuga skeið…

Heimild:
-Fréttablaðið.is 5. mars 2021, Minjar í hættu samkvæmt spá um hraunrennsli.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.