Tag Archive for: minjavarsla

Þjóðminjasafnið

Í Tímariti Máls og menningar árið 1966 er viðtal við Kristján Eldjárn, þáverandi þjóðminjavörð, undir fyrirsögninni „Ísland hefur enga forsögu„:

Tímarit Máls og menningar 1966„Kristján Eldjárn er löngu þjóðkunnur. Hann fæddist 6. des. 1916 að Tjöm í Svarfaðardal, lauk stúdentsprófi á Akureyri 1936, stundaði nám í fornleifafræði við Háskólann í Kaupmannahöfn 1936—39, kenndi við Menntaskólann á Akureyri 1939—41, lauk meistaraprófi í íslenzkum fræðum frá Háskóla Íslands 1944 og doktorsprófi við sama skóla 1956. Gerðist safnvörður í Þjóðminjasafni 1945, skipaður þjóðminjavörður 1947. Hefur gert allmarga uppgrefti hér á landi og tekið þátt í fornleifarannsóknum á Grænlandi og víðar erlendis. Gaf út bókina Gengið á reka 1948, Kuml og haugfé 1956, Staka steina 1958 og Hundrað ár í Þjóðminjasajni 1962. Hefur auk þess skrifað margar greinar í Árbók hins íslenzka fornleifafélags og nokkuð í erlend tímarit.
Hin síðari ár hefur margt verið ritað um forsögu og uppruna Íslendinga og komið fram nýstárlegar kenningar sem vakið hafa ágreining, en jafnframt aukinn áhuga almennings. Hér í tímaritinu hafa m.a. birzt greinar um þetta efni að undanförnu. Það hefur nú snúið sér til Kristjáns Eldjárns og leitað í spurningaformi álits hans sem fornleifafræðings á elztu sögu Íslendinga.

Hvað er fornleifafrœði? Er hún vísindi eða skáldskapur?

Kristján Eldjárn

Kristján Eldjárn.

Fornleifafræði er vísindi, og má segja að hún sé á mörkum þess sem nú er kallað hugvísindi og raunvísindi. Sumir hafa reyndar illan bifur á þessum orðum og vilja láta hugvísindin kallast frœði og raunvísindin aðeins vísindi. En fornleifafræðin er þá bæði fræði og vísindi. Fráleitt væri að kalla fornleifafræðina skáldskap, þótt niðurstöður hennar hafi oft orðið tilefni skáldskapar, og þá á ég við raunverulegan skáldskap eins og hjá Johannes V. Jensen, til dæmis að taka, en ekki heilaspuna, sem ýmist kallar sig skáldskap eða
vísindi, en er hvorugt. Og sjálfsagður hlutur er það, að fornleifafræðingi er nauðsynlegt að hafa auðuga innlifunargáfu, geta séð sýnir, en fari hann að sjá ofsjónir hættir hann að vera fræðimaður og verður þó ekki skáld að heldur. Það eru til fornleifafræðingar sem líkt og aldrei koma aftur upp úr holunni sem þeir hafa grafið sig niður í, aðrir sem aldrei virðast geta tyllt tá á fast land. Hvorirtveggju eru jafnómögulegir.

Þjóðminjasafnið

Þjóðminjasafnið.

Það er ekki áhlaupaverk að skapa heild, samhangandi menningarsögu úr þeim einhæfu brotabrotum, sem varðveitzt hafa. En húsið er þó að verða fokhelt, svo verður það tilbúið undir tréverk og einhvern tíma verður hægt að mála og dúkleggja. Ég þarf varla að taka fram, að ég er hér að tala um fornleifafræði almennt, ekki íslenzka fornleifafræði.

Nokkrir hafa leitt hugann að forsögu Íslands. Ég minnist skrifa Einars Benediktssonar. Hann kynnti sér hella á Suðurlandi og sagðist geta sannað með rökum að margir þeirra vœru eldri en hin norrœna landssaga. Hefur sú fullyrðing verið hrakin?
Það er einkennilegt og eiginlega sálfræðilegt rannsóknarefni, hvernig þessi hellarómantík Brynjúlfs frá Minna-Núpi (blessuð sé og verði hans minning hér í Þjóðminjasafni) og Einars Benediktssonar hefur runnið inn í Íslendinga. Menn halda dauðahaldi í þessar getgátur og hafa þær fyrir helgar kýr.

Einar taldi sig hafa fundið í einum hellinum, í Hellnatúni í Asahreppi, rómverskt letur frá 4. öld. Hefur það verið tekið til frekari athugunar?

Hellir

Krossmark á vegg í manngerðum helli á Suðurlandi.

Já, vissulega. Matthías Þórðarson rannsakaði fjölmarga manngerða hella í Árnessýslu og Rangárvallasýslu og skrifaði um þá framúrskarandi skýra greinargerð í Árbók fornleifafélagsins 1930—31. Það sem Einar Benediktsson sá í Hellnatúnshelli og las S J G IV og þýddi Saeculo Jesu Generationis Quarto, er í rauninni fangamark S J S, Sigurðar Jónssonar eða þvíumlíkt, vafalítið frá 17. eða 18. öld.

Þú komst einu sinni svo að orði um Jón Sigfússon á Bragðavöllum, þann er fann fyrsta rómverska peninginn, að hann hafi lengt sögu Íslands um 500 ár aftur í tímann. Hafa rannsóknir leitt eitthvað í ljós síðan er gefi vitneskju um þetta tímabil eða fylli þar í eyðurnar?
Það er langt síðan ég skildi, hvílík gífuryrði ég hafði látið mér um munn fara um þessa lengingu íslenzkrar sögu aftur í tímann. Ekkert hefur heldur komið í ljós síðan, sem réttlætt gæti svo glannaleg orð.

Rómverskir

Rómverskur peningur. Rómverskur koparpeningur fundinn á Bragðavöllum í Hamarsfirði í Suður-Múlasýslu. Peningurinn er sleginn í borginni Cyzicus í Litlu-Asíu í tíð Aurelians keisara er ríkti í Rómaveldi á árunum 270-275 eftir Krist. Peningurinn fannst árið 1933 í uppblásnum og eyddum fornbæjarrústum hjá Bragðavöllum og þar hafði fundist annar rómverskur peningur árið 1905. Aðrir hlutir, sem fundist hafa á þessum stað, eru hins vegar dæmigerðir norrænir gripir, sem algengt er að finna í fornbæjarústum hérlendis, perlur úr steinasörvi, klébergsbrot úr pottum og einfaldir smáhlutir. Þessir peningar hafa orðið kveikjan að þeirri hugmynd, að Rómverjar hinir fornu hafi komið til Íslands á 3. eða 4. öld eftir Krist og haft hér einhverja viðdvöl. Það verður þó vart ráðið af þessum peningum né öðrum rómverskum, sem hér hafa fundist. Engar aðrar rómverskar minjar hafa fundist hér og peningar eru vafasamir til tímasetningar nema aftur í tímann. Þriðji rómverski peningurinn fannst einn sér fyrir mynni Hvaldals austanvert við Lón í Austur-Skaftafellssýslu og hinn fjórði fannst árið 1966 við rannsóknir á byggðarleifum frá söguöld í Hvítárholti í Hrunamannahreppi.

Þú taldir allar líkur benda til um rómversku peningana sem fundust á Austfjörðum, að þeir hefðu borizt með brezk-rómversku skipi er þangað hefði hrakizt um 290 þegar mynt þessi var algeng. Nú hefur fundizt nýr rómverskur peningur á allt öðrum stað, Hvítárholti í Hreppum, ekki við strendur heldur inni í landi. Getur þá lengur gilt sama skýring og áður, eða hafa Rómverjar verið hér víðar á ferð kringum 300, og hví þá ekki höggvið letur í hella eins og Einar Benediktsson þóttist sjá?

Ég held enn að það sé engan veginn fráleitt, að skip frá rómverska skattlandinu Britanníu hafi hrakizt hingað til lands um 300 e. Kr. og rómversku peningarnir þrír frá Austfjörðum hafi þá orðið hér eftir, og þá sennilega miklu fleiri, og landnámsmenn hafi svo fundið þá, þegar þeir komu til landsins mörg hundruð árum seinna. Satt að segja finnst mér þetta eðlileg skýring. Peningurinn frá Hvítárholti er eins og hann væri úr sömu pyngju og hinir, og það held ég víst að hann sé. Allir þessir peningar hafa að líkindum komið hingað til landsins í sama sinn. Hitt er svo annað mál, að þeir hafa vel getað borizt hingað á annan hátt en þann, sem ég nefndi. Einhver Íslendingur eða landnámsmaður á leið til Íslands hefur getað verið í Englandi og komizt yfir hrúgu af þessum gömlu peningum þar og haft þá með sér hingað út. Önnur hvor þessara skýringa mun vera sú rétta.
Þegar við héldum víkingafundinn hér í Reykjavík 1956, vorum við svo heppnir að hafa með okkur hinn heimsfræga og stórsérkennilega fomleifafræðing, prófessor Gordon Childe. Í blaðaviðtali var hann að því spurður, hvernig á því stæði, að aldrei hefðu fundizt minjar eftir steinaldarmenn á Íslandi. Gordon Childe svaraði stutt og laggott: „Lélegir fornleifafræðingar“.

Landnáma

Landnáma.

Þú vilt ekki teygja fornfrœðina of langt út í skáldskap. Víkjum þá að þeim tímum sem nœr liggja. Fram á okkar daga treystu menn á Ara fróða og Landnámu og á sanngildi Íslendingasagna. Nú eru ýmsir farnir að vefengja þessi sögulegu frœði, gera sér nýjar hugmyndir um uppruna Íslendinga og halda því fram að hér hafi verið mannabyggð fyrir landnámstíð, jafnvel heil þjóð legið í felum. Geta ekki fornleifarannsóknir gefið hér gildandi úrskurð? En áður en kemur að beinu svari við því, viltu kannski segja mér eitthvað almennt um fornleifarannsóknir hér á landi?
Fornleifarannsóknir á Íslandi hófust með Sigurði Vigfússyni, þótt í smáum stíl væri, síðan gerði Daníel Bruun höfuðsmaður og Finnur Jónsson prófessor nokkra uppgrefti, sem voru á miklu fullkomnara stigi faglega séð en rannsóknir Sigurðar, sem von var til.

Matthías Þórðarson

Matthías Þórðarson (1877-1961).

Þá komu svo rannsóknir Matthíasar Þórðarsonar, en þær urðu aldrei eins miklar og hann hefði viljað, því að varla er von að önnum kafinn embættismaður, eins og hann var, komi miklu slíku til leiðar. Stærsta átakið í íslenzkum fornleifarannsóknum varð þó einmitt á hans dögum, rannsóknirnar í Þjórsárdal 1939, en í þeim tóku þátt fornleifafræðingar frá Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð auk Íslendinga; Matthías Þórðarson hafði yfirumsjón með verki allra þessara manna. Á síðustu tveimur áratugum hefur verið unnið nokkuð að uppgröftum eftir því sem tími okkar fáu safnmanna hefur leyft, og þótt ekki sé meira, hafa þó þessar rannsóknir leitt margt í ljós, sem á ýmsan hátt varpar ljósi á menningarsögu Íslendinga.

Þið hafið grafið upp marga fornmenn og fundið ýmsa muni eftir þá. Hvaða fundi telur þú merkasta?
Jú, grafir frá heiðni eru einmitt drýgsta uppsprettan. Það finnst venjulega eitthvað af slíkum gröfum á hverju ári, og þá reynum við að komast sem fyrst á staðinn til þess að rannsaka þær. En það er hér eins og í flestum löndum öðrum nú orðið, að það eru jarðýtur, sem finna grafirnar, og það eru ekki mjúkar á þeim krumlurnar.
Kuml og haugféMér telst nú til, að fundarstaðir þekktra heiðinna kumla hér á landi sé 147, en einstakar grafir nær 290, því að oft eru fleiri grafir á sama fundarstaðnum, það köllum við kumlateiga. Hvað merkilegast sé af þessu öllu veit ég ekki. Til að nefna eitthvað skal ég telja fram kumlið, sem ég rannsakaði í litlum hólma í Úlfljótsvatni, rétt hjá Kaldárhöfða sumarið 1946, og bátkuml, sem Þór Magnússon safnvörður rannsakaði í Vatnsdal í Patreksfirði 1964. Íslenzkar fornmannagrafir upp og ofan eru heldur fátæklega úr garði gerðar, þegar borið er saman við önnur lönd á norrænu menningarsvæði á svonefndri víkingaöld.

Hvaða bendingar gefa þessar rannsóknir, í fyrsta lagi um uppruna Íslendinga?
Við skulum reyna að setja okkur í þau spor, að alls engar ritaðar heimildir væru til um það, hvenær og hvaðan Ísland byggðist, og yrðum að reyna að gera okkur grein fyrir þessu af fornleifum einum saman. Við mundum þá hiklaust komast að þeirri niðurstöðu, að landið hefði verið óbyggt allnokkuð fram á víkingaöld Norðurlanda, en síðan byggzt skyndilega frá Norðurlöndum nær miðju því tímabili eða ekki allfjarri 900. Síðan hefði hér heiðni haldizt um sinn, en þjóðin verið orðin kristin um einni öld síðar. Ég sé ekki betur en þetta fallist í faðma við okkar fornu sögur í stórum dráttum.

Barði Guðmundsson

Barði Guðmundsson (1900-1957).

Barði Guðmundsson véfengdi ekki að Íslendingar hefðu að meginstofni komið frá Noregi, en fœrði rök að því að verið hefði annar þjóðflokkur en sá sem nú byggir Noreg, með aðra siði og kominn austan eða sunnan að, frá baltnesku löndunum. Hvaða bendingar gefa fornleifafundir hér í þessa átt?
Greftrunarsiðir voru svipaðir um öll Norðurlönd á víkingaöld og verkfærakostur og skartgripir og vopnabúnaður líka. Þó er nokkur munur á, einkum í tízkubundnum smáatriðum í skartgripagerð. Flestar íslenzkar grafir eru með þeim ummerkjum, að þær hefðu getað eins vel fundizt í Noregi eða jafnvel í Svíþjóð eða Danmörku. Þó held ég, að sterkastur sameiginlegur svipur sé með íslenzkum og norskum legstöðum heiðinna manna. En svo kemur hitt, að hér hafa fundizt fáeinir forngripir, sem eiga sér lítt eða ekki samsvörun í Noregi, þótt allur þorrinn sé alveg eins og þar. Ekki er ólíklegt, að íslenzkir kaupmenn hafi siglt skipum sínum til verzlunarstaða við Eystrasalt, t.d. til Birka í Leginum, ellegar kaupmenn þaðan hafi komið hingað. Verzlun Íslendinga hefur áreiðanlega ekki verið einskorðuð við Noreg á söguöld. En það er reyndar eitt atriði í íslenzkum greftrunarsiðum, sem er sérkennilegt. Hér virðist áreiðanlega aldrei hafa verið viðhöfð líkbrennsla, en á Norðurlöndum var hún eins algeng á víkingaöld og jarðsetning, þó fátíðust í Danmörku.

Rómverskir peningar

Fundir rómverskra peninga hér á landi.

Aðrir halda fram stœrri hlut Íra í landnámi íslands. Hvaða minjar hafa fundizt hér eftir Kelta?
Líklega hafa margir Írar flutzt hingað á landnámsöld, eins og ævinlega hefur verið almennt talið. En minjar um þá hafa engar fundizt né heldur neina aðra Kelta.

Og hvað er þá að segja um mannlíf hér fyrir landnámsöld? Reynist kannski svo að Íslendingabók og Landnáma hafi rétt fyrir sér, að landnámsmenn hafi komið hér að óbyggðu landi?
Ég er ekki reiðubúinn til að véfengja okkar fornu heimildir, að hér hafi verið írskir munkar, þegar norrænir menn komu hingað, sennilega þó aðeins fáeinir menn á Suðausturlandi. Þetta má kannski kalla mannlíf, en annað mannlíf hefur ekkert verið hér á landi fyrir landnámsöld. Landnámsmennirnir komu hér að óbyggðu landi, eins og sögurnar segja. Einmitt þess vegna nefndust þeir landnámsmenn. Ísland hefur enga forsögu.

landnámsskáli

Reykjavík – minjar landmámsbæjar í Aðalstræti.

Gerðist ekki fornleifafundur hér í sjálfri Reykjavík sem bendir til byggðar alllöngu fyrir landnámstíð?
Fornleifarannsóknir hafa litlar verið hér í Reykjavík.

Hvað um þá röksemd Benedikts frá Hofteigi að landnámsmenn hafi ekki getað flutt með sér allan þann bústofn sem snemma er talinn í eigu Íslendinga?
Benedikt frá Hofteigi er mikill áhugamaður um frumsögu Íslands eins og aðra sögu. Hann hefur stundum sneitt að íslenzkum fornleifafræðingum, að þeir séu athafnalitlir, en alltaf hefur hann gert það mannúðlega, og sá tími er nú sem betur fer liðinn, að menn leggi fæð hver á annan eða rífist eins og rakkar, þótt þeir séu ekki sammála um fræðileg efni. Menn eru hættir að hatast ævilangt út af stafsetningu.

Benedikt Gíslason

Benedikt Gíslason frá Hofteigi (1894–1989).

Góðkunningi minn Benedikt mun því áreiðanlega ekki þykkjast við mig, þótt ég segi frá einu tilsvari, sem ég ætla að hafa eftir honum. Ég spurði hann einu sinni hvaða skýringu hann gæti gefið á því, að aldrei fyndist neitt, alls ekki sú minnsta agnarögn, af minjum eftir hina miklu og menntuðu þjóð, sem hann telur hafa búið hér á landi áður en landnámsmenn komu til landsins, kannski hundrað þúsund manna þjóð. Af hverju finnast aldrei neinar minjar eftir hana? Benedikt svaraði hiklaust:
„Það er af því að þið leitið ekkert að þeim.“

Björn Þorsteinsson grefur upp forna heimild um að Ísland sé nefnt Íraland, telur þá hafa búið í Fœreyjum á 8. öld, en síðan þokað sér hingað norður með búsmala og tekið að nema hér land. Bendir ekkert til að fyrir landnámstíð hafi hér verið aðrir Írar en þeir einsetumenn sem Ari nefnir?
Nei, ég segi það aftur, engar slíkar minjar hafa fundizt, ekki tangur né tetur. Ég hef leyft mér að kalla þessa trú á þjóð hér á landi fyrir landnámsöld andatrú hina nýju. Þetta er eiginlega spíritismi.

Snældursnúður

Snældusnúður úr steini, fundinn við rannsóknir á Bergþórshvoli 1927.

Og ef við víkjum nú lítilsháttar að sögutímanum. Er ekki svo að ýmsar rannsóknir sem þið hafið gert staðfesti sannleiksgildi fornsagnanna, t.a.m. Njálu?
Sigurður Vigfússon vildi nota fornleifarannsóknir fyrst og fremst til þess að sanna Íslendingasögumar. Nú teljum við hlutverk hennar vera að safna heimildum að menningarsögu. En þá er vitanlega vel, ef hún getur stöku sinnum varpað ljósi á almenna sögu eða bókmenntasögu. Stundum getur hún fyllt upp í einhverja sögulega eyðu, og einstöku sinnum, ef til vill, sannað eða afsannað eitthvað, sem stendur í fornsögum. Það var til dæmis skemmtilegt að koma niður á brunarústir frá söguöld á Bergþórshvoli, ekki sízt þar sem þær voru jafngreinilegar og þær voru, þótt ekki væru þær nema af fjósi.

Kristján EldjárnHvaða vísindagreinar standa fornleifafrœðinni nœst, eða eru henni helzt til stuðnings?
Fornleifafræði er menningarsaga og hlýtur vitanlega að haldast í hendur við almenna sögu, svo langt sem ritaðar heimildir ná. Ég hef þegar nefnt sem dæmi, hvernig fornleifafræði getur lagt veigamikið orð í belg um upphaf Íslandsbyggðar. Auk þess styðst fornleifafræði við þjóðfræði, sem svo er kölluð, etnografi, en að því er tekur til sjálfra fornleifarannsóknanna verður að styðjast við náttúruvísindi almennt, einkum þó jarðfræði. Þetta á við alls staðar, um alla fornleifafræði, einnig hér á landi, þótt við séum í þessari einkennilegu sérstöðu að hér er engin forsaga og allar okkar fornleifarannsóknir snúast um efni frá sögulega þekktum tíma. En stefnumark fornleifafræðinnar er fyrst og fremst menningarsaga.

Kristján Eldjárn

Sverð úr fornmannagröf á Kaldárhöfða við Úlfljóstvatn. Þrátt fyrir merkilegheitin er nákvæmlega ekkert á vettvangi sem bendir nútímafólki á fundarstaðinn.
Svona er fornleifafræðin vaxin enn í dag…

Þeir sem véfengt hafa norskt œtterni Íslendinga, hafa ekki sízt vitnað til bókmenntanna, viljað frekar rekja einkenni þeirra til Íra eða Herúla, eins og Barði. Menn hafa engan sambœrilegan skáldskap fundið í Noregi, en hvað er þá að segja um allar hinar nýju rúnarislur í Bergen?
Við erum nú orðnir svo langorðir, að ég verð að hliðra mér hjá að fjölyrða um þetta efni. Þó skal ég segja, að fornleifafundirnir í Björgvin, sem fram hafa komið á síðustu árum, ekki sízt hinar fjölmörgu og margvíslegu rúnaristur, eru einhver merkilegustu tíðindi þessarar fræðigreinar hér á Norðurlöndum á síðustu árum.

Nú langar mig til að víkja að starfi þínu við Þjóðminjasafnið. Hvenœr varðstu þjóðminjavörður?
Ég varð þjóðminjavörður 1. des. 1947, en hafði þá áður verið safnvörður hjá Matthíasi Þórðarsyni um tveggja ára skeið.

Þjóðminjasafnið

Þjóðminjasafnið.

Hvernig hefur þér fallið við nýju bygginguna?
Nýja byggingin olli tímamótum í sögu safnsins, eins og að líkum lætur. Það er ómetanlegt að safnið hefur sitt eigið hús, og nú orðið er það orðin eins og hver önnur fjarstæða að Þjóðminjasafninu væri holað niður einhvers staðar eða einhvers staðar. Húsið hefur sína kosti og galla, eins og gefur að skilja, það hafa öll hús. Mannkynið hefur verið að byggja hús alla sína tíð, en samt er alltaf sama vandamálið að búa til gott hús. Aðalvandamálið með okkar hús er að það er of lítið. Ég mundi segja, að það væri nógu stórt fyrir Þjóðminjasafnið, ef Listasafn ríkisins þyrfti ekki að vera hér. Nauðsynlegt er að byggja sérstakt Listasafnshús.

Þjóðminjasafnið

Á Þjóðminjasafninu.

Hver eru helztu verkefni safnsins? Hvað eru starfsmenn margir?
Verkefni safnsins eru mörg, en safnmennirnir fáir. Auk mín eru fjórir safnverðir með fullu starfi og einn með hálfu starfi og bókari, sem í raun og veru er allt í senn bókari, gjaldkeri og skrifstofustúlka. Þeim embættum, sem við safnmennirnir gegnum, fylgir alls engin lagaleg skylda til að gera neinar fornleifarannsóknir, þótt við teljum það siðferðilega skyldu og sjálfsagðan hlut að gera það sem efni og ástæður leyfa á því sviði. Það er stundum öskrað á okkur með frekju og jafnvel ásökunum um að við gröfum ekki þetta og gröfum ekki hitt, eins og við værum að svíkja okkar starf. Þetta er hreinn misskilningur. Ekkert rannsóknarembætti í fornleifafræði er til. Við erum safnverðir og minjaverðir, og því fylgir meira veraldarvafstur en margur hyggur.

Árbók fornleifingafélagsins

Árbók Hins íslenska Fornleifafélags 1969.

Árbók fornleifafélagsins? Á hvern hátt er hún á vegum safnsins?
Það er von þú spyrjir, eins og ég hagaði orðum mínum. Hið íslenzka fornleifafélag var stofnað árið 1879, æruverðugt félag að aldri. Markmið þess var að stuðla að fornleifarannsóknum á Íslandi og gefa síðan út ársrit um þau efni. Árbók fornleifafélagsins hefur komið út síðan, þótt rannsóknirnar hafi færzt yfir á hendur Þjóðminjasafnsins. Þú fyrirgefur þótt ég smygli hér inn þessari litlu auglýsingu, en þetta rit er sem sagt eina málgagnið fyrir íslenzka fornleifafræði og er á vissan hátt árbók Þjóðminjasafnsins ekki síður en félagsins.

Hvernig er háttað stuðningi hins opinbera? Hafið þið nœgilegt fé til rannsóknarstarfa?
Allt okkar fé kemur frá því opinbera. Erfitt er að svara því, hvort við höfum nóg fé til rannsóknarstarfa. Vitanlega höfum við lítið fé, en fornleifafræðingar, sem gætu stjórnað uppgröftum, eru líka fáir. Ég hef ekki ástæðu til annars en halda, að hægt væri að fá meira fé hjá því opinbera til fornleifarannsókna, en þær gera sig ekki sjálfar, þó að peningar séu fyrir hendi. Við komumst ekki yfir öllu meira en við gerum eins og sakir standa.

Safnið hefur stœkkað mikið? Ef þú lítur yfir þessi ár, hvað finnst þér hafa áunnizt? Hvernig er framtíðarviðhorfið?

Hallgrímshellan

„Hallgrímshellan“ í geymslum Þjóðminjasafnsins. Dæmi um geymd til varðveislu, hvorki til nokkurs tilgangs né varðveislugildis!

Þjóðminjasafnið er geymslustaður minja og sýningarstaður en auk þess rannsóknarstaður að nokkru leyti. Það heldur jafnt og þétt áfram að vaxa og færa út kvíarnar á ýmsum sviðum, og svo mun verða í framtíðinni. Hér er nú orðið svo miklu meira umleikis á öllum sviðum heldur en þegar ég kom að stofnuninni fyrir rúmum tuttugu árum, að það er varla hægt að þekkja þetta fyrir sömu stofnun. Líklega heldur þessi vöxtur áfram, ég vona það, eins og ég vona að það verði æ meiri menningarstofnun eftir því sem tímar líöa. En líklega þarf fljótlega nýja og fullkomnari sundurgreiningu starfa og að skipta þeim niður á fleiri hendur.

Kristján Eldjárn

Kristján Eldjárn varð síðar forseti landsins (Kristján Þórarinsson Eldjárn (fæddur á Tjörn í Svarfaðardal 6. desember 1916 – dáinn 14. september 1982).

Þú býst við að verkefnin greinist í stjórnarstörf og frœðistörf. Hvort mundirðu kjósa þér fremur?
Ég get búizt við því, að sú skipting verði í framtíðinni. Sú stefna er alls staðar ríkjandi. Hvernig eiga menn, sem allan liðlangan daginn og allan ársins hring eru á kafi í ys og erli dagsins, eru með leyfi að segja eins og útspýtt hundsskinn, að stunda rannsóknarstörf og skriftir? Hvort ég mundi sjálfur kjósa af þessu, sem þú nefndir? Hvað skal segja? Ég er nú orðinn svo vanur því að vera eins konar þjóðareign, að líklega fer að verða vonlítið fyrir mig að prótestera og vilja fara að rannsaka og skrifa eða jafnvel flytja háskólafyrirlestra.“

Heimild
-Tímarit Máls og menningar, 4. tbl. 01.02.1966, „Ísland hefur enga forsögu“ – Viðtal við dr. Kristján Eldjárn þjóðminjavörð, bls. 352-365.

Kaldárhöfðii

Kumlið á Kaldárhöfða – uppdráttur.

Garðahverfi

Í Archaeologia Islandica 1998 spyr Orri Vésteinsson m.a. um „Hvað er stekkjarvegur langur?„:

Arc 1998

Archaeologina Islandica 1998 – forsíða.

„Allt frá því fyrir 1980 hefur töluverð umræða verið um það meðal fornleifafræðinga og safnamanna að nauðsynlegt sé að gera gangskör að því að skrá fornleifar á Íslandi. Skráningin snýst fyrst og fremst um að þær upplýsingar sem safnað er hafi eitthvert áþreifanlegt gildi fyrir stærri hóp en þann sem hefur atvinnu af því að láta sér annt um menningarminjar. Í þessari grein verður fjallað um hvernig fornleifaskráning getur komið að gagni við rannsóknir á menningarsögu, en einnig verður gerð grein fyrir helstu markmiðum fornleifaskráningar og fjallað um hvernig skráningunni þarf að vera háttað til að þær upplýsingar sem safnað er nýtist til fulls.
Tryggja þarf að skráningargögnin komi að sem mestu gagni. Í því sambandi verður að hafa í huga hverjir munu nota gögnin og í hvaða tilgangi — en þar fyrir utan er fyrirsjáanlegt að stórt gagnasafn um minjastaði verður mjög fljótlega frábært rannsóknargagn fyrir byggða- og menningarsögu.

Orri Vésteinsson

Orri Vésteinsson, fornleifafræðingur.

Það eru ekki bara fornleifafræðingar sem geta þurft að kynna sér gögn um staðsetningu, gerð og ástand minjastaða. Skráningargögn þurfa að vera aðgengileg og skiljanleg öllum sem hafa áhuga á menningarsögu, bæði fræðimönnum úr öðrum vísindagreinum og fróðleiksfúsum almenningi.
Allir sem koma nálægt skipulagsgerð eða annarri áætlanagerð um framkvæmdir sem og þeir sem að framkvæmdum standa þurfa einnig að geta fengið nákvæmar upplýsingar um staðsetningu minjastaða. Þetta þýðir að skráningarmenn geta ekki látið eftir sér að skrá eingöngu eftir sínu eigin höfði og áhugamálum ef þeir vilja að upplýsingarnar sem þeir safna komi að fullum notum fyrir verndun minjastaða.

Gamlasel

Gamlasel frá Villingavatni efst í Gamlaselsgili – stekkurinn t.h. Við sérhverja fjarlæga selstöðu bæja var óhjákvæmilega stekkur. Auk hans má í sérhverju seli á Reykjanesskaganum (þrjú rými; baðstofu, búr og eldhús) finna vatnsstæði (á eða læk), selsvörðu og/eða kví, auk nátthaga og oftlega smalaskjóls.

Það er list að lýsa landslagi og leiðum á svo skýran hátt að ókunnugir sjái fyrir sér staðhætti og geti ratað á þá staði sem verið er að fjalla um. Slíku listfengi er hins vegar sóað á hinn ört vaxandi hóp hönnuða og annars tæknimenntaðs fólks sem mestu ræður núorðið um mannvirkjagerð og jarðrask í landinu. Slíkt fólk kýs yfirleitt frekar að nálgast upplýsingar af þessu tagi á stafrænu eða myndrænu formi og það er því mikilvægt að gögnum um staðsetningu minjastaða sé einnig safnað á þann hátt. Þar á ég bæði við kort með nákvæmum tilvísunum og eins hnit sem auðvelt er að varpa yfir í staðbundin hnitakerfi.
Samkvæmt 18. gr. þjóðminjalaga er skylt að fornleifaskráning fari fram á skipulagsskyldum svæðum áður en gengið er frá skipulagi eða endurskoðun þess. Skráning fornleifa er því liður í að framfylgja þjóðminjalögum. Það er ekki skýrt í lögunum hversvegna löggjafinn vill að til sé skrá um fornleifar, en það er hins vegar augljóst að þekking á staðsetningu, gerð og ástandi minjastaða er forsenda þess að hægt sé að vernda fornleifar í landinu.

Selsvellir

Selsstígurinn að Selsvöllum.

Skilvirk minjavarsla hlýtur að vera meginmarkmið fornleifaskráningar. Það er ekki hægt að vernda minjastaði nema við vitum að þeir séu til og hvar þeir eru. Það er heldur ekki hægt að gera áætlanir um minjavörslu nema fyrir liggi þekking á fjölda, ástandi og gerð minjastaða. Þegar þekkingin liggur ekki fyrir eru slíkar ákvarðanir skot út í loftið og ávallt tekin sú áhætta að verið sé að eyðileggja minjastaði sem hafa varðveislugildi. Taka má sem dæmi að standi til að leggja veg yfir stekkjartóft þá væri auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu að ekki væri stór skaði skeður þó hún viki. Nóg sé af stekkjunum um land allt og langt þangað til þeir verði allir upp urnir.
Það er alveg rétt og við mætti bæta að stekkir hafi tæplega mikið rannsóknargildi – við vitum vel til hvers þeir voru notaðir og erfitt að sjá hvernig hægt er að flækja það mál að ráði. Það hefur hins vegar komið í ljós við fornleifaskráningar að þar sem stekkir eru mjög fjölbreytilegir að gerð, bæði er lögun þeirra með ýmsu móti og stærðin mismunandi. Það er ekki skýrt af hverju þessi munur stafar og bændur þeir sem rætt hefur verið við hafa yfirleitt lýst yfir undrun sinni á að stekkir skuli ekki allir vera eins og stekkurinn þeirra.

Hvassahraun

Hvassahraunsstekkur II – uppdráttur ÓSÁ.

Þangað til við komumst að því af hverju hin fjölbreytilega gerðfræði stekkja stafar og þangað til við vitum hversu margir fulltrúar eru til fyrir hverja gerð tökum við þá áhættu að mikilsverðar heimildir um menningarsögu okkar glatist í hvert skipti sem við leyfum stekkjartóft að hverfa undir veg eða sumarbústað.
Það kann einhverjum að finnast hálfhlægilegt að hafa áhyggjur af málum sem þessu þar sem minjavarsla á Íslandi er langt frá því að vera í stakk búin til að vernda einstaka stekki hvað þá meira. Kerfið er svo ófullkomið að það kemur einfaldlega ekki til þess að taka þurfi illa ígrundaðar ákvarðanir — eftirlitið er ekkert og eyðilegging fornleifa heldur áfram eftir sem áður. Ef
eitthvað hefur dregið úr eyðileggingu minjastaða síðustu árin er það vegna samdráttar í landbúnaði en ekki efldrar minjavörslu.

Heimristekkur

Heimristekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Við hljótum hins vegar að stefna að markvissari verndun fornleifa á Íslandi og við skráningu fornleifa er því nauðsynlegt að taka mið af hugsanlegum þörfum skilvirkari minjavörslu jafnvel þó að langt sé í að hún verði að veruleika. Það má einnig færa rök fyrir því að fornleifaskráning sé ekki einungis forsenda minjavörslu, með því að safna upplýsingum um fornleifar og vera þannig tæki í höndum þeirra sem vernda vilja minjastaði, heldur sé hún bein minjavernd.
Bændur eru auðvitað sú þjóðfélagsstétt sem stendur fyrir hvað stórfelldastri eyðileggingu menningarminja, en það er yfirleitt ekki af illgirni eða fautaskap, heldur einfaldlega af því að þeim hefur ekki verið leitt fyrir sjónir að öðru fólki finnist tóftabrot og rústabungur í landi þeirra merkilegar. Þegar það hefur einu sinni verið gert eru þeir langoftast reiðubúnir til að taka tillit til minjanna og verða oft á tíðum mjög áhugasamir um varðveislu þeirra.

Borgarkotsstekkur

Borgarkotsstekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Á þennan hátt eflir fornleifaskráning meðvitund um fornleifar en það er auðvitað langódýrast og einfaldast ef hægt er að byggja minjavörslu á áhuga heimamanna. Það er jafnframt eðlilegast því minjarnar hafa eða ættu að hafa mest gildi fyrir þá sem næst þeim búa.
Við höfum ekki hugmynd um hversu mikið af fornleifum verður uppblæstri að bráð á ári hverju, né höfum við forsendur til að meta hversu skaðvænleg áhrif stóraukin skógrækt í landinu hefur á fornleifar. Ef við ætlum einhvern tíma að geta spornað gegn eyðileggingu fornleifa hvort heldur sem er af völdum náttúruafla eða af mannavöldum verðum við að hafa aðgang að upplýsingum um umfang eyðileggingarinnar.

Fossárrétt

Fossárrétt 2011 (friðuð). Fornleifarnar hafa hins vegar verið klæddar skógi.

Það er hæpinn málstaður á Íslandi í dag að berjast gegn skógrækt en ef við hefðum í höndum tölulegar upplýsingar um hversu margir minjastaðir væru í hættu vegna trjáræktar þá ættum við mun auðveldara með að fá skógræktarfólk til taka mark á sjónarmiðum minjavörslu.
Ekki er hægt að rannsaka minjastað eða kynna hann fyrir ferðamönnum eftir að búið er að setja jarðýtur á hann. Það hjálpast hins vegar allt að í þessu máli, því að efld meðvitund um fornleifar, hvort heldur sem er með heimsóknum fornleifaskrásetjara, markvissri kynningu eða rannsóknum, mun skila sér í bættri varðveislu minjastaða.

Baðsvellir

Baðsvallasel í miðjum Selskógi.

Kynning á fornleifum er siðferðileg skylda okkar sem erum svo lánsöm að mega hlaupa um holt og móa í leit að minjastöðum; okkur ber að gera þau gögn sem við söfnum aðgengileg fyrir almenning og það stendur einnig upp á okkur að setja skráningarupplýsingarnar í menningarsögulegt samhengi svo að þær komi að sem mestum notum fyrir sem flesta. Sem mögulegir áningarstaðir ferðamanna hafa minja staðir einnig efnahagslegt gildi en skipuleg og yfirgripsmikil skráningarvinna er forsenda þess að hægt sé að velja úr heppilega minjastaði sem eru bæði áhugaverðir og þola ágang.

Húshólmi

Húshólmi – forn skáli.

Saga landsins og menningararfur er í síauknum mæli notuð sem söluvara fyrir erlenda ferðamenn og oft á tíðum er sú markaðssetning meira af vilja en mætti og stundum afar óvönduð. Ferðamálafrömuðum er tæplega neinn akkur í að kynna fortíð landsins eða ákveðinna staða á þann ófullkomna hátt sem oft er raunin, en þeir munu halda áfram á þeirri braut uns vandaðri upplýsingar eru gerðar aðgengilegar. Léleg og óvönduð landkynning er á góðri leið með að verða vandamál sem dregið gæti úr tekjum Íslendinga af erlendum ferðamönnum, en ein af leiðunum til að hamla gegn slíkri þróun er að auka upplýsingasöfnun og þar með talið fornleifaskráningu.

Krýsuvíkursel

Tóftir Krýsuvíkursels austan Selöldu.

Skipuleg gagnasöfnun eins og fornleifaskráning er auðvitað forsenda þess að hægt verði að stunda ýmiskonar rannsóknir. Heildstætt gagnasafn um minjastaði auðveldar mjög starf fornleifafræðinga þegar kemur að því að finna staði sem áhugaverðir væru til að rannsaka nánar. t.d. með uppgrefti.
Mikilvægt er að skipuleggja fornleifaskráningu þannig að gögnin nýtist öllum sem best og komi að fullum notum hvort sem er við verndun, kynningu eða rannsóknir. Engin fornleifaskráning er fullkomin en ef stefnumörkun er skýr og aðferðafræðin liggur ljós fyrir á skráningarvinnan að verða markvissari og leiðréttingar auðveldari.

Bleiksteinsháls

Landamerkjavarða á Bleiksteinshálsi. Hefur nú (2024) verið eyðilögð.

Hefðbundin fornleifaskráning hefur fyrst og fremst miðað að því að skrá minjastaði sem sýnilegir eru á yfirborði. Þar hefur líklega ráðið mestu um að það er auðvitað nærtækast og jafnframt að sýnilegir minjastaðir eru augljóslega meira spennandi við fyrstu sýn en minjastaðir sem búið er að slétta yfir eða byggja á.

Það er hins vegar ljóst að mannvirkjaleifar sem sýnilegar eru á yfirborði eru aðeins brot af öllum þeim fornleifum sem til eru í landinu og jafnframt að slíkir staðir eru næsta tilviljanakennt úrtak af öllum minjastöðum. Á þessari öld hafa átt sér stað gríðarlegar framkvæmdir í landbúnaði og stór hluti láglendis hefur verið ræstur fram og sléttaður undir tún.

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum – nú horfið vegna framkvæmda.

Á milli 1940 og 1980 voru svo til öll tún á Íslandi gerð véltæk og stór landflæmi sem áður höfðu verið móar og mýrar brotin undir tún, en á milli 1917 og 1990 hafa tún að jafnaði meira en tífaldast að stærð. Þessar miklu framkvæmdir og breytingar á landslagi hafa haft í för með sér að stór hluti fornra mannvirkja hefur annað hvort farið forgörðum eða spillst. Þær fornleifar sem verst hafa orðið úti eru einmitt þær sem mest var til af áður — það er bæjarhólar og útihús innantúns. Það leiðir af þessu að flestar þær fornleifar, sem enn eru sýnilegar, eru leifar mannvirkja sem voru í jaðri atvinnu- og efnahagslífs í gamla landbúnaðarsamfélaginu.

Leynir

Byrgi í Leyni. Nú horfið undir framkvæmdir.

Allar mannvistarleifar njóta lagaverndar og gildir þar einu hvort þær eru sýnilegar á yfirborði eða ekki og því er jafnmikilvægt að skrá þær sem ósýnilegar eru og hinar sem enn sjást á yfirborði. Á það má einnig benda að minjar sem huldar eru sjónum eru jafnvel í meiri hættu en þær sem sýnilegar eru því að líklegra er að þær verði fyrir raski af ógáti eða vanþekkingu. Frá sjónarmiði framkvæmdaaðila sem komast vilja hjá því að rekast á fornminjar við jarðrask er því brýnt að til séu upplýsingar um staðsetningu minja sem ekki eru sýnilegar á yfirborði.

Það eru auðvitað ýmis vandkvæði á því að skrá minjar sem ekki eru sýnilegar og vonlítið að hægt verði að komast að staðsetningu allra slíkra staða.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes/Hópsnes – uppdráttur ÓSÁ.

Með skipulegri heimildaöflun er hins vegar hægt að komast nærri um staðsetningu allmargra slíkra staða og einnig má styðjast við óbeinar vísbendingar eins og landslag og gróðurfar til að meta almennar líkur á að mannvistarleifar finnist á tilteknum landsvæðum. Við getum aðeins fengið heildarmynd af mannvirkjagerð og efnahagslífi á hverri jörð ef við reynum að skrá allar mannvistarleifar sem þar eru, hvort sem þær eru sýnilegar eða ekki.
Langflestar fornminjar á Íslandi tengjast búsetu og hefðbundnum búskaparháttum og bendir flest til að mannvirkjagerð því tengd hafi verið í nokkuð föstum skorðum lengst af þeim tíma sem landið hefur verið byggt. Búseta hefur – eftir því sem við best vitum — verið stöðug og ekki er sýnilegt að stórfelldar breytingar hafi orðið í skiptingu landsins í jarðir a.m.k. frá því á hámiðöldum þegar ritheimildir koma til sögunnar. Flestar fornleifar hafa því orðið til í mjög fastmótuðu samhengi og það er nauðsynlegt að skrá upplýsingar um þetta samhengi jafnhliða hinni eiginlegu fornleifaskráningu.

Hvalsnes

Hvalsnes – uppdráttur ÓSÁ.

Með samhengi fornleifanna er átt við byggðamynstur, skiptingu byggðarlaga í jarðir og skiptingu jarða í býli; einnig hagræn og náttúrufarsleg atriði eins og staðsetningu og gæði bithaga eða engja. Aðeins með því að gera okkur grein fyrir eignarhaldi og landnotkun höfum við forsendur til að skilja af hverju hús stóðu þar sem þau stóðu, af hverju byggð hélst á sumum stöðum en öðrum ekki og af hverju byggð var reynd á sumum stöðum en öðrum ekki — en slíkar spurningar eru liður í að skilja hvernig Íslendingar lifðu af þessu landi allar þessar aldir. Sjálfsævisögur hafa reynst mikilsverðar heimildir í þessu samhengi — það er nánast regla að á þriðju eða fjórðu síðu í sjálfsævisögum fólks sem fætt er um eða fyrir síðustu aldamót er sagt frá hvar höfundur sat yfir ám, hvernig háttað var fráfærum og upplýsingar um kúahaga og grasatekju fljóta einnig oft með. Þegar slíkar upplýsingar hafa verið færðar inn á kort fara strax að skýrast staðsetningar mannvirkja sem áður virtist óskiljanlega dritað niður um holt og móa. Á grunni slíkra upplýsinga má jafnvel gera ýmsar áhugaverðar athuganir og verður hér í lokin gerð grein fyrir lítilli tölfræðilegri úttekt sem gerð var á lengd stekkjarvegar.

Smali

Smali og mjaltarstúlka við færikvíar.

Ég er fæddur svo seint á 20. öld að hið litla sem ég veit um sveitalíf og gamla búskaparhætti hef ég þurft að læra af öðrum, og mest af bókum, eftir að ég komst á fullorðinsár. Það er ekki óskaplega langt síðan ég gerði mér grein fyrir til hvers stekkir voru hafðir eða hver væri munurinn á þeim og kvíum. Þó mér hafi nú loksins skilist hlutverk þessara mannvirkja hefur lengdareiningin stekkjarvegur valdið mér heilabrotum. Ég velti því til að mynda fyrir mér hvort tilvist þessa hugtaks væri vísbending um eitthvert aðdáunarvert samræmi í mannvirkjagerð eða hvort það væri einhver einföld og augljós ástæða fyrir því að vegalengdin milli bæjar og stekkjar væri yfirleitt svipuð.

Förnugötur

Straumsselsstígur/Fornugötur.

Af fjölda þekktra stekkja í tiltekinni sveit er u.þ.b. þriðjungur þeirra enn sýnilegir. Auðvelt er að reikna út vegalengdina á milli þessara staða. Yfirleitt er augljóst hvaða bæ stekkur tilheyrði eða til eru góðar heimildir um það. Stekkjarvegir eru mjög mislangir, stystur var hann 213 metrar en lengstur 1276 metrar. Meðaltalið var 575 metrar en tíðustu gildin voru í kringum 400 metrana og virðist það sennilegasta nálgunin á þeirri vegalengd sem hugtakið stekkjarvegur felur í sér. Líklegast er auðvitað að hugtakið hafi verið eins og mörg önnur vegalengdarhugtök í gamla landbúnaðarsamfélaginu verulega teygjanlegt og ekki átt að vera mikið nákvæmara en að vera lengra en fjósvegur en styttra en bæjarleið.
Þetta teljast varla menningarsöguleg stórtíðindi en þetta minnir okkur á að fornleifaskráning getur hjálpað okkur til að skilja betur ýmsa ólíka þætti í menningu Íslendinga.

Stakkavíkursel

Selstígurinn í Stakkavíkursel – Hlíðarvatn fjær.

Þó að gaman sé að hafa hugmynd um lengd stekkjarvegar þá má hugsa sér fleiri samhengi þar sem sú vegalengd getur verið nytsamleg. Það er t.d. áberandi að lengstu stekkjarvegirnir voru á þeim jörðum sem dýrast voru metnar og er þar um allgóða fylgni að ræða. Ef þessi athugun prófast á stærri gagnasöfnum þá er hér komin sjálfstæð vísbending um gæði jarða. Samhengið er líklega það að jarðir sem dýrar voru metnar gátu fóðrað fleira sauðfé, og fleira sauðfé hefur þurft stærri bithaga sem hafa þar með teygt sig lengra frá bæ en á jörðum með færra sauðfé og minni dýrleika. Næsta skrefið í þessum rannsóknum verður að mæla stærð stekkjanna og bera saman við tölur um fjölda sauðfjár á jörðum á 18. og 19. öld. Ef fylgni er milli allra þessara talna þá verður hægt að nota þau hlutföll sem líkön á aðrar jarðir þar sem sambærilegar upplýsingar eru ekki þekktar og líka á eldri tímaskeið, og með því reynt að endurgera búfjárfjölda og stærð bithaga á fornbýlum.

Eldvörp

Eldvörp – minjar (geymslubyrgi) sem ekkert hafa verið sannsakaðar.

Rannsóknir í menningarsögu eru ekki langt á veg komnar á Íslandi og hafa til skamms tíma einskorðast við ritheimildir og munnlegar heimildir og hafa rannsóknarspurningarnar verið mótaðar af fólki sem sjálft stóð með annan fótinn í gamla landbúnaðarsamfélaginu og hafði þar með ekki forsendur til að skilja hvað við sem yngri erum skiljum ótrúlega lítið. Markviss og kerfisbundin fornleifaskráning er augljós leið til draga fram nýjar heimildir og þróa nýjar rannsóknarspurningar sem eru skiljanlegar og áhugaverðar fyrir hinn sístækkandi hóp malbiksbúa. Þær kynslóðir sem höfðu persónulega reynslu af hefðbundnum búskaparháttum eru óðum að hverfa og að þeim gengnum höfum við ekki aðrar heimildir en það sem tókst að skrifa niður eftir þeim og þær leifar sem þær skildu eftir í jörðinni.

Kaldársel

Kaldársel (nú horfið síðan 1925) – tilgáta ÓSÁ.

Fornleifarnar eru að hverfa næstum því jafn hratt og örugglega og fólkið og því er brýnt að sporna gegn eyðileggingunni með fornleifaskráningu sem bæði forðar upplýsingum frá glötun og er forsenda skilvirkrar minjaverndar.“

Frá því að hin framangreindu ágætis áhríningarskrif voru sett á prent árið 1998 hefur a.m.k. tvennt gerts; annars vegar hefur fornleifaskráningum fjölgað til muna og þær gerðar aðgengilegri, settar fram t.d. í þeim tilgangi að minnka líkur á eyðileggingu þekktra fornleifa, og hins vegar hefur þeim embættismönnum og verkfæðingum fjölgað, sem ekkert mark taka á slíkum fyrirliggjandi gögnum.

Flekkuvíkurstekkur

Flekkuvíkurstekkur/rétt – uppdráttur ÓSÁ.

Þá ber einnig þess að geta, í ljósi af framangreindum skrifum, að stekkir voru ekki bara stekkir, þ.e. óumbreytanlegir, frá einum tíma til annars, s.s. frá upphafi landnáms til byrjun 20. aldar er þeir að lokum lögðust af – sjá HÉR. Máli skiptir um hvaða einstaka tímatal er um að ræða. Þegar seljabúskapurinn stóð sem hæst voru stekkirnir jafnan í selstæðum fjarri bæjum, en þegar fjaraði undan selsbúskapnum færðust stekkirnir nær bæjunum og jafnvel heim að túnmörkum undir hið síðasta. Þar með styttist stekkjarvegurinn úr nokkrum kílómetrum í nokkuð hundruð eða jafnvel tugi metra. Máli skiptir því við hvaða tímabil er miðað þegar fjallað er um mælingar á „stekkjarveginum“…
Annars skiptir lengd „stekkjarvegarins“ minnsta máli í framangreindri umfjöllun.  Hins vegar ánægjulegt til þess að vita selsstígunum sé gefinn séstakur gaumur því lengst af í fyrrum fornleifaskráningu var þeirra jafnan hvergi getið. Þá ber að taka skrifin um gildi fornleifanna, skráningu og varðveislu þeirra þess alvarlegar!

Heimild:
-Archaeologia Islandica, 1. tbl. 01.01.1998, Hvað er stekkjarvegur langur? – Orri Vésteinsson, bls. 47-57.

Garðastekkur

Garðastekkur, heimasel sem varð að rétt. Stekkurinn (gróinn) er neðst t.v. á myndinni.

Fornleifar

Fornleifafræði er fræðigrein, sem fjallar um manninn út frá margvíslegum hliðum, t.a.m. út frá beinum (dýra- og manna), gripum (þ.m.t. byggingum), landslagi, ljósmyndum, kortum og öðrum skjölum. Helstu aðferðir fornleifafræðinga er fornleifaskráning og fornleifauppgröftur. Fornleifafræðingar fást við rannsóknir á ólíkum tímum, t.d. forsögulegum, miðöldum, og á minjum nútímasamfélaga.

Saga fornleifafræði á Íslandi fram til 1850

Ólafía Einarsdóttir

Ólafía Einarsdóttir (1924-2017). Margir hafa verið á þeirri skoðun, að dr. Ólafía Einarsdóttir hafi verið fyrsti íslenski fornleifafræðingurinn. Þess vegna er eitt af tímaritum fornleifafræðinga á Íslandi kallað Ólafía. Ólafía lauk gjaldgengu prófi í greininni. Hún stundaði nám í Lundúnum og í Lundi. Ekki gróf Ólafía þó mikið á Íslandi, og hvort það var karlremba í Kristjáni Eldjárn eða kvenremba í Ólafíu, þá var Ólafíu ekki stætt á Þjóðminjasafni Íslands, þar sem Kristján réði ríkjum. Ólafía meistraði í staðinn sagnfræðina og tímatal í fornbókmenntum og er ekki síðri fornleifafræðingur fyrir það. Ólafía er með vissu fyrsta íslenska konan sem varð fornleifafræðingur.

Á meginlandi Evrópu fór áhugi á fornminjum vaxandi samhliða hugmyndum um ríkisvald á 16. og 17. öld. Nýstofnuð ríki þurftu að geta sýnt fram á að ríkisbúar sínir ættu sameiginlega fortíð og upprunasögu; vegna þess beindist áhugi fólks að slíkum gripum og minjastöðum. Álíka var að gerast á Íslandi þar sem fornfræðingar heimsóttu merkilega sögustaði sem nefndir voru í Íslendingasögum.
Fyrsta heildarskráning fornleifa á Íslandi var á vegum dönsku fornleifanefndarinnar á árunum milli 1817 og 1823. Konungur Danmerkur sendi skipunarbréf árið 1807 um að skrá fornleifar í Danmörku og áttu skrásetjarar að vera sóknarprestur sem mundu skrifa ritgerð um fornleifar í sinni sókn. Prestar áttu að líta sérstaklega til staðbunda minja um fornsögur og elstu leifar stjórnvalds, t.d. dómhringi og þingstaði.

Fornleifaskráning

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel við Hvalfjörð. Selsins er getið í örnefnalýsingu, en í fornleifaskráningu er staðsetningin óviss.

Fornleifaskráning er það að leita að minjum á afmörkuðu svæði, hvort sem það er á landi eða í sjó, til skráningar.

Bæði í jörðu og á sjó eru minjar sem hver kynslóð skilur eftir sig og eru þær heimildir um líf fólks. Í tímanna rás hefur það tekið breytingum hvað telst sem fornleifar. Framan af voru aðeins skráðar byggingar og gripir frá víkingaöld en færst hefur í vöxt að skrá minjastaði hvað sem líður aldri þeirra og fremur horft til rannsóknar eða táknrænt gildi þeirra, enda lýkur sögu ekki við ákveðið ártal, eins og 1900 e. Kr.

Skráning minjastaða

Brynjudalur

Brynjudalur – Þórunnarsel.

Fornleifaskráning felur í sér að leita að upplýsingum í rituðum heimildum, taka viðtöl við staðkunnuga og mæla upp minjar á vettvangi. Skipta má verklagi fornleifaskráningar í þrennt í samræmi við þrjú stig skipulagsvinnu:
Svæðisskráning: Í svæðisskráningu er upplýsingum safnað saman um staðsetningu og gerð minja úr rituðum heimildum. Skjöl eru til að mynda lesin og túnakort skoðuð. Úr þessu fæst grunnur að fjölda og dreifingu minja á tilteknu svæði. Það gefur möguleika á að finna staði sem þykja sérstaklega athyglisverðir til kynninga eða rannsókna og svæði sem eru í hættu. Þessu til viðbótar er svæðisskráning undirbúningur fyrir aðalskráningu.

Dyljáarsel

Í Dyljáarseli.

Aðalskráning: Á þessu stigi er farið út í mörkina og rætt við ábúendur eða aðrar manneskjur sem eru staðfróðar. Að svo búnu er farið af stað og leitað á svæðum sem sennilegt er að minjar leynist á. Þegar minjastaður er fundinn er hann skráður á staðlaðan hátt og lagt mat á ástand hans, hnattstaða fundin, staðurinn ljósmyndaður svo og uppdráttur teiknaður eftir því sem tilefni er til. Einnig er reynt að meta hvort staðurinn sé í hættu og þá af hvaða völdum.

Fiskaklettur

Fiskaklettur 2022 – fyrrum hluti af sögu Hafnarfjarðar; nú einangraður millum húsa.

Deiliskráning: Tilgangur deiliskráningar er að fá upplýsingar um minjastaði á (litlum) afmörkuðum svæðum. Verklag við deiliskráningu er álík og við aðalskráningu nema í deiliskráningu er gengið skipulega yfir allt svæðið og minjar mældar upp á nákvæmari hátt. Öðru hverju gæti verið nauðsynlegt að grafa könnunarskurð til þess að kanna aldur og hvort að um mannvirki sé ræða.

Minjavarsla

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum – nú horfið vegna framkvæmda og áhugaleysis yfirvalda á varðveislu minja.

Fornleifaskráning er eitt mikilvægasta – ef ekki það mikilvægasta – verkefni fyrir minjavörslu hvers lands. Talið er að á Íslandi séu að minnsta kosti 130 þúsund fornleifastaðir en á ári hverju verður fjöldi þeirra fyrir eyðileggingu, til dæmis vegna byggingaframkvæmda, túnasléttunar eða sjávarrofs. Slík eyðilegging getur afmáð sögu sem aðrar heimildir eru fáorðaðar um. Fyrir þá sök er nauðsynlegt að vita hvar staðirnir séu og hvert ástand þeirra svo að hægt sé leggja mat á hvaða sögu samfélagið vill varðveita fyrir framtíðina.

Vísindarannsóknir

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar, nú horfnar vegna framkvæmda.

Fornleifaskráningar eru iðulega gerðar í tengslum við framkvæmdir, en skráning minjastaða getur að auki verið gerð í vísindalegum tilgangi (eða gögn framkvæmdaskráninga séu nýttar í rannsóknir). Markmið fornleifaskráninga í rannsóknarskyni er t.d. að finna minjastaði, kanna ævisögu landslags eða greina ákveðið mynstur minja. Allt er þetta gert í því skyni að svara ákveðnum spurningum. Þess konar rannsóknar geta verið allt frá því að rannsaka skipulagningu einstakra grafreita upp í feiknastór landsvæði. Með því að skrá form garðsins, staðsetningu minja innan hans og vísun þeirra í klassíska fornöld, þá sýndi rannsóknin fram á hvernig garðurinn var efnislegur vitnisburður sem voldugt tákn um samfélagslegt vald húsráðandans og hafði garðurinn mótandi áhrif á gesti og gangandi.

Viðey

Fornleifarannsóknir sýna að byggð var hafin í Viðey á 10. öld en árið 1225 var stofnað þar klaustur af reglu heilags Ágústínusar. Í meira en 300 ár var Viðeyjarklaustur mesta helgisetur í Sunnlendingafjórðungi af Skálholti frátöldu. Alþjóðleg hefð er fyrir því að klausturbyggingar myndi umgerð um klausturgarð. Túlka má rannsóknir á svæðinu á þann veg. Byggingar merktar A, B og C hafa verið grafnar upp og sýna langhús (stofu, skála og búr). Þar austur af er sennilega smiðjukofi (D). Aftur af langhúsinu eru lítið rannsökuð bakhús. Kirkjan (E) er tilgátuhús en fyrir myndir eru sóttar í kirkjur á Þingeyrum og á biskupsstólunum. Jarðsjármælingar sýna að fyrir framan Viðeyjarstofu og kirkju hafi verið byggingar, trúlega sjálf klausturhúsin (F), þau eru einnig tilgátuhús.

Í fornleifaskráningu í vísindaskyni eru samskonar verklagi beitt og í hefðbundinni fornleifaskráningu, einkum deiliskráningu. Tilgangurinn er að fá nákvæmar upplýsingar um minjastaðinn. Af þeim sökun er í fáeinum tilvikum notuð ýmis jarðsjátæki, til dæmis viðnámsmælir, til að skima eftir minjum undir jarðvegi. Í sumum tilvikum eru teknir könnunarskurði til þess að athuga hvort um mannvirki sé að ræða, vita aldur þess eða ná í sýni til efnagreiningar.

Hvað eru fornleifar?
Fornleifar eru það sem hefur orðið eftir frá gamalli tíð. Flest af því sem við höfum með höndum eyðist í tímans rás. Sumu er alls ekki ætlað að endast; við neytum matar og brennum kerti, föt endast sjaldan meira en í nokkur ár en aðrir hlutir geta enst í áratugi og jafnvel aldir, til dæmis hús og bækur.
Hlutir sem við notum mikið slitna, brotna og skemmast, sumt er hægt að endurnýta og gera við en fyrr eða síðar endar langflest af því sem við höfum í kringum okkur (oft með langri viðdvöl í kompu eða á háalofti) á öskuhaugum, þar sem því er annað hvort brennt eða það rotnar og eyðist smátt og smátt.

Öskuhaugur

Öskuhaugur í rannsókn.

Öskuhaugarnir sjálfir verða svo eyðingu að bráð; fyrir utan niðurbrot efnanna í jarðveginum geta þeir horfið vegna vind- og vatnsrofs, landbrots og framkvæmda og þess vegna getur verið mjög erfitt að finna nokkur einustu ummerki eftir fólk að nokkrum öldum eða árþúsundum liðnum.
Það sem varðveitist, annað hvort af því að því hefur verið haldið til haga, til dæmis handrit og listaverk, eða vegna þess að skilyrði í jarðvegi hafa verið góð, er því aðeins brot af því sem upphaflega var, en það brot getur gefið mikilvægar vísbendingar um þá tíma sem leifarnar eru frá. Það er vegna þess sem fornleifar eru rannsóknarefni sérstakrar fræðigreinar, fornleifafræði, en hún fæst við að finna fornleifar og túlka þær sem heimildir um liðna tíð.

Bárujárn

Fyrrum hús Brennisteinsfélagsins í Seltúni, elsta hús klætt bárujárni hér á landi, nú við Suðurgötu 10, Hafnarfirði.

Misjafnt er hvað hlutir þurfa að vera gamlir til að teljast fornleifar. Í íslenskum lögum er miðað við að allt sem er eldra en 100 ára teljist fornleifar en einnig þekkist að miðað sé við 500 ár eða allt sem er eldra en miðaldir (það er eldra en 1500 ára). Það er hins vegar ekki einber aldurinn sem gerir gamla hluti að fornleifum heldur fremur hvort þeir geta talist í einhverjum skilningi úreltir og hversu sjaldgæfir þeir eru. Við getum tekið sem dæmi að fáir myndi telja klaufhamar úr ryðfríu stáli sem framleiddur var árið 1927 til fornleifa. Slíkur hamar er eins og hamrar sem framleiddir eru í dag og hefur sama notagildi. 5 ¼ tommu tölvudiskur frá 1986 er hins vegar úrelt fyrirbæri sem erfitt er eða ómögulegt að nota lengur og við myndum því, í hálfkæringi að minnsta kosti, geta talað um sem fornleifar. Notagildið veldur því líka að hamrar geta auðveldlega orðið langlífir og sennilega leynast býsna gamlir hamrar víða í verkfærakistum en úreltir tölvudiskar eru hinsvegar orðnir mjög sjaldgæfir og þegar komnir á dagskrá hjá söfnum og áhugafólki um varðveislu gamalla hluta.

Kuml

Kuml.

Oft er gerður greinarmunur á hlutum sem hafa varðveist af því að passað hefur verið upp á þá, til dæmis kirkjuskrúð, handrit og gömul málverk, og hlutum sem varðveist hafa í jörðu. Jarðfundnum fornleifum má svo aftur skipta í tvennt eftir því hvort hlutirnir hafa verið skildir vísvitandi eftir undir mold, (einkum legstaðir manna og dýra, sumir með haugfé, og faldir fjársjóðir), eða hvort þeir eru úrgangur eða annað sem hefur verið hent eða skilið eftir (stundum óvart).
Þróunin innan fornleifafræðinnar hefur verið frá upphaflegri áherslu á að finna fagra gripi í átt að sífellt nákvæmari rannsóknum á úrgangi í víðasta skilningi. Þær rannsóknir beinast ekki eingöngu að rústum bygginga og gripum sem finnast í þeim og gömlum öskuhaugum, heldur einnig að dýrabeinum og öðrum matarleifum; ösku, gjalli og öðrum leifum eftir eldamennsku og iðnað; skordýra- og jurtaleifum og efnasamböndum sem geta gefið vísbendingar um lífshætti fólks til forna.

Fornleifar

Fornleifauppgröftur á bæjarstæði.

Fornleifafræðingar hafa þróað aðferðir til að setja saman mynd af horfnum samfélögum byggða á slíkum brotakenndum heimildum. Aðeins örlítill hluti af því sem var hefur varðveist og margt af því hefur varðveist fyrir eintóma tilviljun. Það er flókið mál draga skýrar ályktanir af slíkum efnivið en aðferðirnar sem hafa verið þróaðar til þess hafa einnig reynst vel til að rannsaka samtímann – það er ruslið sem við framleiðum og hvað það segir um okkur.
Allt rusl, gamalt og nýtt, er því viðfangsefni fornleifafræðinnar, en fornleifar má telja allt sem er nógu gamalt til að vera orðið úrelt og/eða sjaldgæft.

Hvaða aðferðir nota fornleifafræðingar við að tímasetja fornleifar?

Rúnasteinn

Rúnasteinn – sænskur.

Aðeins er hægt að tímasetja hluti sem bera læsilegar áletranir, nema eitthvað annað sé vitað um þá. Fyrir iðnbyltingu eru það einkum legsteinar og mynt sem bera áletranir. Tímasetningar slíkra áletrana eru sjaldnast ákveðin ártöl heldur til dæmis veldistími konunga eða annars konar tilvísanir í fólk eða atburði sem ritheimildir eru til um.
Áletranir eru mikilvægar en þær finnast aðeins á örlitlu brotabroti allra fornleifa og því hefur þurft að þróa sérstakar aðferðir til að aldursgreina fornleifar. Engin ein aðferð er til sem hægt er að beita á öll efni eða hluti undir öllum kringumstæðum heldur nota fornleifafræðingar yfirleitt margar aðferðir saman til að komast að niðurstöðu um aldur minjanna sem þeir rannsaka.
Þessar aðferðir má flokka í tvennt: annars vegar eru afstæðar tímasetningaraðferðir sem geta greint hvort tilteknar fornleifar eru eldri eða yngri en aðrar en ekki endilega hversu gamlar, og hins vegar algildar aðferðir sem gefa raunaldur hlutanna. Í fljótu bragði mætti ætla að síðarnefndu aðferðirnar væru augljóslega betri en þær eru ýmsum takmörkunum háðar og því liggja afstæðu aðferðirnar að mörgu leyti til grundvallar.
Afstæðar tímasetningaraðferðir

Christian Jörgensen

 Christian Thomsen (1788-1865).

Það var danski fornleifafræðingurinn Christian Thomsen (1788-1865) sem lagði grundvöllinn að flokkun fornleifa eftir aldri á fyrri hluta 19. aldar. Þá setti hann fram svokallaða þriggja alda kenningu. Hann hafði tekið eftir því að úr elstu jarðlögum komu eingöngu áhöld og gripir úr steini, en úr yngri lögum kæmu líka hlutir úr bronsi og úr enn yngri lögum gripir úr steini, bronsi og járni. Kenning hans var því sú að fyrst hefði verið steinöld, síðan bronsöld og síðast járnöld.
Þessi kenning liggur enn til grundvallar tímabilaskiptingu forsögunnar í Evrópu og Vestur Asíu en hún er fyrst og fremst mikilvæg fyrir það að með henni er hægt að raða hlutum í aldursröð eftir efni þeirra og fundarsamhengi. Elstu leirker finnast til dæmis iðulega í sömu lögum og pússuð steináhöld sem eru ólík slegnum steináhöldum í enn eldri lögum. Á þessari athugun byggir skipting steinaldarinnar í fornsteinöld og nýsteinöld og frá dögum Thomsens hafa fornleifafræðingar unnið sleitulaust að því að greina slík samhengi og skipta “öldunum” niður í æ styttri tímabil.

Leirker

Leirker eru afar sjaldgæfur fundur við fornleifarannsóknir frá landnámi og fram á 11 öld, tvö brot fundust í Vogum á Höfnum á Reykjanesi og þrjú brot við höfnina á Kolkuósi í Skagafirði.
Í öskuhaugnum í Firði hafa nú fundist yfir 20 brot sennilega öll af sama kerinu. Öskuhaugurinn er aldursgreindur frá 940-1100.

Þó að grófa flokkunin haldi fyrir heilar heimsálfur geta styttri tímabilin verið ólík frá einu landi eða svæði til annars en það helgast af því að skilgreining þeirra byggir á atriðum eins og tísku sem er oft staðbundin. Því má segja að efnin (steinn, kopar, brons, járn, en líka gler, stál, silki og gúmmí) gefi grófa rammann en tæknin (bæði aðferðir við að búa til hluti, til dæmis málmsteypa og postulínsgerð, og við að nýta þá, til dæmis plæging og tedrykkja) og tískan hjálpa til við að tímasetja með meiri nákvæmni. Tíska er lykilatriði í þessu, því að margir hlutir (einkum skartgripir og allskonar skreyti og munstur) geta breyst hratt og því meiri sem breytileikinn er þeim mun styttri eru tímabilin og þeim mun nákvæmar hægt að tímasetja. Það eru ekki bara manngerðir gripir sem fornleifafræðingar líta til í þessu samhengi heldur líka atriði eins og villt dýr í umhverfi bólstaða, hvaða jurtir eru ræktaðar, húsdýrahald og margskonar aðrar vísbendingar um líf og störf mannanna sem taka breytingum með tímanum.

Gjóskusnið

Unnið við að sniðgreina gjóskulög í jarðvegssniði.

Allt þetta byggir á því einfalda en mikilvæga lögmáli að afstaða jarðlaga og mannvistarlaga segir til um aldur þeirra: lagið sem er undir er eldra en það sem er ofan á. Ef gripasafn úr eldra lagi er til dæmis með ákveðna tegund af leirkerjum en það yngra ekki þá getur verið að sú tegund hafi fallið úr tísku, og ef sú breyting sést á mörgum stöðum má hafa þá breytingu sem aldursviðmiðun. Hún segir okkur hinsvegar ekki hvenær þessi leirker hættu að vera í tísku.
Fram um miðja 20. öld áttu fornleifafræðingar í erfiðleikum með að tengja tímabilin sín við rauntíma. Eina aðferðin var að nota gripi með áletrunum sem hægt var að tengja við sögulega atburði og einstaklinga en sú aðferð kemur aðeins að gagni eftir að ritmál var fundið upp, fyrir um 5000 árum síðan í gamla heiminum, en allt sem var eldra en það var erfitt eða ómögulegt að tengja við rauntíma. Þetta breyttist eftir 1950 með tilkomu aldursgreiningar með geislakoli en hún hefur valdið byltingu í tímasetningum í fornleifafræði.

Algildar tímasetningaraðferðir

C-14

C-14.

Áletrun getur gefið algilda tímasetningu, til dæmis má yfirleitt treysta því að mynt með nafni kalífa eða konungs sé frá veldistíma hans, en sú tímasetning segir bara til um aldur myntarinnar. Aðrir gripir sem finnast í sama lagi geta ekki hafa lent þar fyrr en eftir að myntin var slegin, en þeir geta annaðhvort verið eldri en hún (það er þeir voru gamlir þegar þeir lentu í laginu) eða miklu yngri (myntin var gömul þegar hún lenti í laginu).
Sú algilda tímasetningaraðferð sem mest áhrif hefur haft og mestu máli skiptir í fornleifafræði nútímans er hins vegar geislakolsaldursgreining, líka þekkt sem kolefnisaldursgreining eða C14. Þessi aðferð byggist á því að þrjár samsætur kolefnis (C) eru í andrúmsloftinu og hlutfallið á milli þeirra er stöðugt. Sama hlutfall er svo í öllum lífverum. Ein af þessum samsætum, C14, er geislavirk sem þýðir að hún er óstöðug og breytist í stöðugu samsætuna N14. Það sem skiptir máli fyrir tímasetningar er að geislavirk efni eyðast með stöðugum og ákveðnum helmingunartíma sem er hægt að ákvarða með mælingum í rannsóknastofu.

C-14

C-14.

Helmingunartími C14 er 5730 ár og með þessu má aldursgreina allar lífrænar leifar aftur til um 40.000 ára. Fara má nærri um raunaldur jarðlags með því að tímasetja hluti eins og fræ og dýrabein sem sjaldnast eru meira en nokkurra ára þegar þau lenda undir torfu, en aðalkosturinn við þessa aðferð er að hún er sjálfstæð, óháð bæði ritheimildum og flokkunarkerfum forngripa; og að henni má beita á öll lífræn efni, meðal annars þau sem lent hafa í eldi og kolast en kolaðar leifar geta varðveist þar sem varðveisluskilyrði eru að öðru leyti slæm fyrir lífrænar leifar.
Með þessu er ekki allur vandi leystur; ýmis vandamál eru við meðferð og túlkun geislakolsaldursgreininga, og aðferðin nær ekki til eldra skeiðs fornsteinaldar, langlengsta tímabils mannkynssögunnar (nærri 2 milljónir ára). Aðrar aðferðir sem einnig byggjast á stöðugri eyðingu geislavirkra efna (til dæmis úrans og kalín-argons) eru þó til og má nota þær á eldri hluti, fyrst og fremst berg.
Margar aðrar aðferðir eru til en þær eiga allar sammerkt að vera annað hvort staðbundnar (eins og gjóskulagatímatalið sem íslenskir fornleifafræðingar styðjast mikið við) eða að aðeins er hægt að beita þeim á sérstök efni. Þar á meðal er trjáhringaaldursgreining sem er nákvæmasta tímasetningaraðferð sem til er en henni er aðeins hægt að beita á sæmilega stóra búta úr tilteknum trjátegundum (til dæmis eik en ekki birki, enn sem komið er að minnsta kosti).

Kléberg

Kléberg í Glúfurgili í Esju.

Þegar fornleifafræðingur stendur frammi fyrir því að tímasetja fornleifar byrjar hann yfirleitt á því að reyna að staðsetja sig gróflega í tíma út frá efnum og gerð gripanna. Hér á Íslandi myndum við til dæmis næsta hiklaust telja að safn sem innihéldi svínabein, glerperlur og kléberg væri frá víkingaöld en að safn með leirkerjum og glerbrotum væri frá 17. öld eða yngra, og það þó að söfnin væru að uppistöðu hlutir úr járni og steini sem væru í aðalatriðum eins í báðum. Til þess að fá nákvæmari tímasetningu myndum við svo líta til gjóskulaga, en það getur verið háð aðstæðum hvort til staðar eru gjóskulög sem hægt er að nota sem tímatalsviðmið. Jafnframt myndum við láta gera geislakolsaldursgreiningar á völdum hlutum. Í öðrum löndum er samsetning aðferðanna oftast önnur en alls staðar á það við að efni og gerð hlutanna gefa rammann, en síðan beita menn öðrum aðferðum eftir efnum og aðstæðum, og oftast er geislakolsaldursgreining þar á meðal.

Hvar hafa leifar um víkinga varðveist?

Víkingar

Víkingur.

Þegar fjallað er um leifar eftir víkinga þarf fyrst að ákveða hvað við er átt með hugtakinu víkingur. Í íslenskum miðaldaritum hefur orðið alltaf þrönga merkingu, það þýðir „sæfari, sjóræningi“ og er fyrst og fremst notað um norræna menn þó að merkingin virðist ekki endilega bundin þjóðerni. „Víkingur“ er með öðrum orðum starfsheiti en fyrir löngu hefur skapast sú hefð að nota það sérstaklega um þá norrænu menn sem tóku að ræna, rupla, versla og berjast til landa í Norður-Evrópu á níundu og tíundu öld e. Kr.

Þetta tímabil er oft nefnt víkingaöldin og látið ná frá 793/800 til 1050/1066/1100 e. Kr. Það einkenndist í fyrstu af ránsferðum og strandhöggi norrænna manna við Eystrasalt, á Bretlandseyjum og í strandhéruðum Norður-Evrópu, en fljótlega einnig skipulegum hernaði og landvinningum sem leiddu til þess að þeir settust að í norðurhluta Englands, í borgum eins og Dublin (Dyflinni) á Írlandi, í Normandí í Frakklandi og á svæðinu í kringum Starja Ladoga (Aldeigjuvatn) í Rússlandi.

Víkingar

Víkingar.

Lítið er vitað um hversu stórar byggðir norrænna manna voru á þessum stöðum og víst að þeir samlöguðust fljótt þeim þjóðum sem þar voru fyrir.
Á sama tíma fundu norrænir menn áður óbyggð lönd í Norður-Atlantshafi – Færeyjar, Ísland og seinna Grænland – þar sem þeir settust að. Þeir settust líka að á svæðum sem lengi höfðu verið byggð í Skotlandi: á Hjaltlandi, Orkneyjum, Suðureyjum, Katanesi og einnig á eynni Mön í Írlandshafi. Öfugt við hinar norrænu byggðir í Englandi, Frakklandi og Rússlandi náðu norrænir menn algerum menningarlegum og pólitískum undirtökum á þessum svæðum og var til dæmis talað norrænt mál á Hjaltlandi og Orkneyjum fram yfir siðaskipti.
Vegna þess hve víkingaöldin er litríkt tímabil í sögunni og hve ránsferðir og hernaður norrænna manna skipti miklu fyrir þróun efnahags og stjórnkerfis í Norður Evrópu á þessu tímabili hefur hugtakið „víkingar“ fengið merkinguna „allir norrænir menn á víkingaöld“ í hugum margra.

Víkingur

Íslenskur víkingur á alþingishátíðinni 1930.

Þetta á einkum við um enskumælandi þjóðir en frá sjónarmiði íbúa Bretlandseyja voru sjóræningjar frá Norðurlöndum og norrænir menn almennt einn og sami hópurinn. Af þeim sökum er hugtakið „Viking“ á ensku mjög oft notað sem samheiti fyrir Norðurlandabúa á víkingaöld, friðsamt fólk jafnt sem atvinnusjóræningja. Á Norðurlöndum hefur hinsvegar tíðkast að gera greinarmun á þeim tiltölulega litla hópi sem lagðist í víking og hinum sem heima sátu eða námu óbyggð lönd í úthöfum til að búa þar í friði og spekt. Landnemar á Hjaltlandi og Íslandi voru því ekki víkingar – í mesta lagi fyrrverandi víkingar – samkvæmt íslenskum málskilningi.
Annað starfsheiti frá sama tíma sem einnig hefur fengið merkingu þjóðernis er „væringjar“ en það hugtak var upphaflega notað eingöngu um Norður-Evrópumenn sem mynduðu lífvarðasveit keisarans í Miklagarði (nú Istanbúl). Í henni voru alls ekki bara norrænir menn, heldur líka Engilsaxar og Þjóðverjar, en hugtakið er samt oft notað almennt um norræna menn sem versluðu, rændu og settust að í austurvegi, það er við austanvert Eystrasalt og í Rússlandi.
Leifar sem varðveist hafa eftir víkinga og væringja, það er norræna sjóræningja, kaupmenn og hermenn á 9.-11. öld e. Kr., eru ekki miklar. Það sem vitað er um þetta fólk er mest úr írskum, enskum, þýskum, frönskum og grískum annálum og sagnaritum frá þessu tímabili. Nokkrir rúnasteinar, flestir frá 11. öld og í Svíþjóð, geta einnig um ferðir nafngreindra manna í austur- og vesturvíking. Yngri heimildir, til dæmis íslenskar fornsögur, eru miklu meiri að vöxtum en ekki að sama skapi áreiðanlegar.

Þórshamar

Þórshamar eftir uppgröft.

Á sumum svæðum þar sem norrænir menn settust að, til dæmis í Englandi og Normandí, eru örnefni helstu heimildirnar um þá. Það eru bæði nöfn sem norrænir menn hafa gefið bólstöðum sínum og nöfn sem innfæddir hafa gefið stöðum sem tengdust norrænum mönnum með einhverjum hætti. Í Englandi og í Rússlandi hafa einnig fundist nokkur kuml, heiðnar grafir með haugfé, sem greinilega eru norræn. Mun erfiðara hefur verið að bera kennsl á byggingar norrænna manna á þessum svæðum og virðast þeir hafa samið sig mjög fljótt að siðum innfæddra.
Í Englandi og á Írlandi hafa verið gerðir umfangsmiklir uppgreftir í bæjum sem norrænir menn réðu á víkingaöld. Stærstu og frægustu uppgreftirnir eru í York (Jórvík) á Englandi og Dublin á Írlandi. Leifarnar sem hafa fundist á þessum stöðum eru ekkert sérstaklega norrænar – þær skera sig lítið sem ekkert frá leifum úr öðrum bæjum í Norður-Evrópu á sama tíma sem tengjast norrænum mönnum minna (til dæmis Dorestad í Hollandi, Hamwic á Englandi og Novgorod í Rússlandi). Hins vegar er vitað að York og Dublin voru undir stjórn norrænna manna, einkum á 10. öld, og að uppgangur þeirra tengist verslun á vegum víkinga.

Fornleifar

Munir uppgötvaðir eftir fornleifagröft.

Það á líka við um bæi sem urðu til á Norðurlöndum á víkingaöld, til dæmis Ribe og Hedeby í Danmörku, Birka í Svíþjóð og Kaupang í Noregi, en við uppgrefti á þessum stöðum hefur fundist ýmiskonar varningur sem ber verslunarsamböndum víkinga vitni. Norðurevrópskir og arabískir peningar frá víkingaöld hafa fundist í þúsundatali á Norðurlöndum, ekki síst á Gotlandi, og eru þeir mjög mikilvæg heimild um verslunarsambönd á þessum tíma.
Á Norðurlöndum hafa menn einnig talið sig geta bent á gripi, yfirleitt úr kumlum, sem gætu verið afrakstur ránsferða utan Norðurlandanna. Það eru til dæmis kirkjugripir og skraut af bókum sem ætla má að hafi verið rænt úr kirkjum eða klaustrum. Slíkir fundir eru þó fáir.

Fornleifar

Gripur endurheimtur eftir fornleifauppgröft. Hér verður vitleysunni í kringum klaustursrannsóknir ekki gerð séstök skil.

Miklu sjaldgæfara er að menn hafi talið sig finna ummerki um víkinga utan Norðurlanda (það er önnur en örnefni og ótvíræð kuml). Gripir sem eru klárlega norrænir, eins og til dæmis kúptar nælur sem voru hluti kvenbúnings og norræn mynt, hafa mjög litla útbreiðslu utan Norðurlanda. Sérstæðar leifar eftir norræna menn eru til dæmis rúnarista á styttu af ljóni sem nú er í Feneyjum en var upphaflega í Aþenu, og önnur sem Hálfdan nokkur risti í Hagiu Sofiu, kirkju í Istanbúl.

Mjög mikilvægar leifar sem tengjast víkingum eru skip sem fundist hafa, bæði í grafhaugum (til dæmis Ásubergs- og Gauksstaðaskipin í Noregi) og á hafsbotni (til dæmis fjölmörg í Hróarskeldufirði í Danmörku). Skipin voru tæknileg forsenda fyrir víkingaferðunum og landnámi norrænna manna í Norður-Atlantshafi.

Ásubergsskipið

Ásubergsskipið.

Þau eru flest geymd og mörg höfð til sýnis í víkingaskipasöfnunum í Osló og Hróarskeldu (Roskilde).
Leifar eftir norræna menn á víkingaöld er því fyrst og fremst að finna á Norðurlöndum, og eru gripirnir yfirleitt varðveittir á söfnum, bæði þjóðminjasöfnum viðkomandi lands og hérðassöfnum. Í Noregi er hægt að skoða aðfangaskrár forngripasafnanna á dokpro.uio.no.
Sama gildir um gripi sem hafa fundist utan Norðurlanda. Þeir eru flestir varðveittir á þjóðminjasöfnum (til dæmis Skotlands, Bretlands og Írlands) eða á héraðsminjasöfnum. Á svæðum þar sem norrænir menn settust að má víða skoða uppgrafnar byggingar (til dæmis á Jarlshof á Hjaltlandi), tilgátuhús (til dæmis á Borg í Lófóten) og sýningar (til dæmis í York).

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Fornleifafr%C3%A6%C3%B0i
-https://is.wikipedia.org/wiki/Fornleifaskr%C3%A1ning
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=28898
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=50983
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=4377

Þjóðminjasafnið

Þjóðminjasafnið.