Tag Archive for: minkur

Óttarsstaðir

Gengið var í rólegheitum um ströndina hjá Óttarsstöðum og yfir að Lónakoti. Víða sáust fótspor eftir minka í snjófölinni, fiðurþæfingur á stangli og veiðitæki.
Paintball-kúlur neðan við EyðikotAnnars  var það helst fréttnæmt úr ferðinni að vaða þurfti yfir ógrynni af ósprungnum „paintball-kúlum neðan Eyðikots, „hlaðinn brunnur fannst norðan við Óttarsstaði eystri og nýmóðins minkagildrur við Lónakot. Þá voru skoðaðar nánar verbúðarminjarnar norðan Óttarsstaða, en það munu vera elstu sýnilegu mannvistarleifarnar á þessu svæði. Hafa ber í huga að goðhúsið á kirkjuhól hefur enn ekki verið grafið upp.
Hafnarfjarðarbær hefur haft það að markmiði að gera þetta fallega útivistarsvæði að hafnarsvæði, þ.e. valta yfir allar hinar sögulegu minjar á svæðinu, utan Jónsbúðar, sem gera á að nokkurs konar „vin“ inni á miðju hafnarsvæðinu. Sennilega er tilgangurinn með því að heimila nefnda „paintballstarfsemi“ á svæðinu liður er miða á að eyðileggingu þess. Bæði er átroningurinn á friðaðar minjar, s.s. hlaðna garða, mikill, og gróðursvæðum hefur verið spillt með utanvegaakstri. Enginn fulltrúi bæjarins virðist, þrátt fyrir þetta, hafa æmt hið minnsta. Í sem stystu máli er því sagt við þá hina sömu (bæjarfulltrúana alla), skv. gömlum íslenskum áhríningsorðum, er hafa framangreint í hyggju, þetta: „Svei ykkur öllum – og hana nú!“.

Brunnur norðan Óttarsstaða eystri

Minkur er rándýr af marðarætt sem lifir um alla Norður-Ameríku og nú á Íslandi þangað sem hann var fluttur til loðdýraræktar árið 1931. Kvikyndið slapp fljótlega út og breiddist hratt út um allt land. Almennt er litið á minkinn sem aðskotadýr og meindýr á Íslandi og kerfisbundið reynt að halda honum í skefjum. Minkurinn er lítill (um 40 cm á lengd), langur og grannur með lítið höfuð, svartan feld, langt og loðið skott og hvítan blett undir hökunni. Minkurinn er mjög fær að synda með ströndum, í ám og vötnum þar sem hann veiðir fisk og fugla.
Minkurinn er eina marðartegundin hér á landi. Hann varð vinsæl útbreiðsluvara til annarra landa í byrjun 20.aldar vegna skinnsins. Landnám hans hér á landi má segja að sé eitt af stærri umhverfisslysum okkar. Minkurinn var fluttur hingað til lands með það fyrir augum að hefja loðdýraræktun og var fyrsta minkabúið Foss í Grímsnesi og þaðan er talið að fyrsti minkurinn hafi sloppið. Betur hefði mátt standa að þeirri ræktun bæði þá og síðar.
Í fyrstu voru þrjú dýr keypt af norskum loðdýrabændum og flutt að Fossi. Nokkrum mánuðum síðar voru 75 minkar fluttir á nýstofnað bú á Selfossi. Minkabúum fjölgaði síðan á næstu árum og var meðal annars stofnað bú að Selási við Reykjavík.
Á næstu árum sluppu minkar einnig úr öðrum búum, meðal annars úr Selásbúinu. Fyrsta minkagrenið fannst árið 1937 og var það við Elliðaárnar í Reykjavík. Vorið eftir fannst minkagreni við Leirvogsá í Mosfellssveit og á næstu árum veiddust stöðugt fleiri villtir minkar.

Minkagildra við Lónakot

Þegar leið á 5. áratuginn fór ekki á milli mála að villtur minkur hafði náð öruggri fótfestu umhverfis minkabúin á Suðvesturlandi. Þaðan nam hann svo land bæði í norður og austurátt. Við lok 6. áratugarins voru minkar komnir nyrst á Vestfirði og farnir að sjást á Norðausturlandi. Afkomendur minka sem haldið höfðu í austurátt voru komnir að Skeiðarársandi. Lengra komust þeir þó ekki austur á bóginn því víðátta sandanna sunnan Vatnajökuls reyndist óyfirstíganleg hindrun enda lítið þar um fæðu og fylgsni.
Landnámi minks á Íslandi lauk í Öræfasveit þegar fyrstu dýrin komu þangað um 1975. Voru það afkomendur minka sem fyrst námu Vesturland, síðan Norðurland og höfðu að því búnu lagt land undir fót suður Austfirði.
Landnámssaga minks á Íslandi spannaði því rúma sjö áratugi. Í dag lifir minkur alls staðar á landinu þar sem lífvænlegt er fyrir tegundina. Þó verður að undanskilja hér nokkrar eyjar sem liggja það fjarri landi að minkar geta hvorki synt né komist þangað á ís.
Fljótlega eftir að minkar tóku sér bólfestu í íslenskri náttúru áttuðu menn sig á því að í sumum tilfellum gátu dýrin valdið töluverðu tjóni. Árið 1937 var byrjað að greiða verðlaun úr opinberum sjóðum fyrir að drepa minka. Fjöldi veiddra dýra hefur sveiflast nokkuð á milli ára. Árið 2001 var t.d. 6.961 minkur veiddur á Íslandi.
Minkagildra við LónakotLandnám minka á Íslandi er ekki einsdæmi því víðast hvar þar sem minkaeldi hefur verið stundað að einhverju marki hafa minkar fyrr en síðar sloppið úr búrum og fjölgað sér úti í náttúrunni.
Minkurinn er oftast dökkbrúnn með hvítar skellur á neðanverðum kjálkanum og hálsi og milli fram- og afturfóta.  Karldýrið er oftast u.þ.b. 1,2 kg og læðurnar helmingi léttari.  Dýrin eru upprunalega komin frá Norður-Ameríku um Evrópu á fyrstu árum 20. aldar.  Þeir voru aldir vegna skinnanna, en margir sluppu og lifa villtu lífi víða í álfunni norðanverðri.
Árið 1943 kom fram tillaga um að banna það með lögum.  Það var ekki fyrr en 1949, að sveitarfélögum var heimilað að banna minkahald í lögunum um eyðingu minka og refa. Þessum lögum var breytt 1955 og 1957. Villiminkur var kominn austur undir Skeiðarársand 1958 og hann dreifðist norður um Vesturland, Norðurland og Austurland. Skeiðarársandur virðist hafa verið náttúruleg hindrun og Öræfingar hafi aðallega fengið mink að austan eftir að samgöngur bötnuðu. Minkurinn dreifðist seinna og hægar um útkjálka, s.s. Vestfirði og norðanlands.

Minkagildra við Lónakot

Minkurinn verður kynþroska á fyrsta ári og tímgast strax.  Fengitíminn er í marz og byrjun apríl og meðgöngutíminn 6-11 vikur, að meðaltali 7 vikur. Læðurnar makast með 7-10 daga millibili og öll fóstrin fara að þroskast samtímis, þótt feðurnir geti verið margir. Got fer oftast fram í fyrri hluta maí og fjöldi hvolpa er 4-10.  Þeir eru blindir, hár- og tannlausir og nærast á mjólk fyrstu 5 vikurnar. Sjónin kemur eftir mánuð og tennur litlu fyrr. Karldýrin koma ekki nálægt uppeldinu.
Minkurinn helgar sér óðul eins og margar aðrar rándýrategundir og merkir með þvagi og skít. Grenin hafa marga útganga, stundum beint út í vatn, því að dýrin synda og kafa vel. Karldýrin eru aðallega á ferðinni á nóttunni en læðurnar eru á ferðinni allan sólarhringinn eftir got.
Fæðan er fjölbreytt, bæði úr sjó og af landi, s.s. marhnútur, sprettfiskur, keilubróðir, hrognkelsi, hornsíli, ufsaseiði, sandsíli, karfi, loðna, síld, skötuselur, tindaskata,  keila og krabbadýr. Fuglar, egg, mýs og hunangsflugur eru meðal þess, sem minkurinn étur af landdýrum. Á veturna eru ferskvatnsfiskar einkum á matseðlinum.

Minkur

Í dag er minkur aðallega veiddur í gildrur. Ýmsar tegundir eru til, s.s. fótbogi, hálsbogi, húnbogi, vatnsgildra, glefsir, þríhyrnugildra, stokkar, búrgildrur, Sverrir, röragildra og tunnugildra. Einungis þær fjórar fyrstnefndu hafa öðlast samþykki sem lögleg veiðitæki.
FERLIR tók myndir af gildrunum, sem fylgja umfjölluninni á ferðinni um Lónakot. Talsvert af agni hafði verið komið fyrir utan við og inni í gildrukassanum, en innan við opið var gildra, líkt og stór rottugildra. Um leið og minkurinn stígur á plötu á henni spennist armur utan um höfð hans. Gildrurnar gætu verið hættulegar börnum, sem stungið gætu hendi inn um opið af forvitni og ókunnugleik. Svo er eins gott að minkurinn kunni ekki að lesa umfjöllun sem þessa.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Eyðikot - paintball