Færslur

Knarrarnes

Gengið var frá letursteininum við garðhliðið að Stóra-Knarrarnesi, um fjöruna og litið á hlaðna garða og sjávarhús á bakkanum neðan við Minna-Knarrarnes.

Knarrarneskirkja

Minna-Knarrarnes.

Birgir Þórarinsson, prestur í Vogum og ábúandi á Minna-Knarrarnesi, fræddi þátttakendur um örnefni, fyrrum bæjarstæði, álagabletti, dysjar, brunna og leturstein. Gamli bærinn að Knarranesi stóð þar sem útihúsin eru núna suðvestan við núverandi hús. Útihúsin eru að hluta til (einn veggur um mið húsin) er hlaðinn úr grjóti er hrökk til afgangs úr byggingu Alþingishússins við Austurvöll (líkt og Breiðabólstaður á Álftanesi). Sjá má í enda vegghleðslunnar á miðjum framgaflinum. Ofar á túninu er svonefnt Brandsleiði, álagablettur, sem ekki hefur mátt hreyfa við.

Knarrararnes

Knarrarnesbrunnur.

Ofan við þjóðveginn er hlaðinn brunnur. Hann hefur verið fylltur upp til að koma í veg fyrir hugsanleg óhöpp líkt og svo margir brunnar aðrir á Reykjanesi. Brunnhleðslan sést vel. Sagðist Birgir hafa séð vatn efst í brunninum s.l. vetur. Ekki liggur ljóst fyrir hvers vegna brunnstæðið er þarna, en þó er vitað að gamli bærinn stóð þarna skammt fyrir norðan brunninn. Hann gæti því hafa tilheyrt honum á þeim tíma. Digravarða (landamerki) er þarna skammt austar á hól. Úr henni liggja landamerki Minna-Knarrarness í Eldborgir ofan við Knarrarnessel, skammt norðan við gamla Hlöðunesselið.

Knararnes

Minna-Knarrarnes – letursteinn.

Digravarða er ofan við hlaðinn garð vestan og sunnan við Hellur. Talið er að hún hafi verið ein kirkjuvarðanna svonefndu, en þarna neðan við á gatan að Kálfatjarnarkirkju að hafa legið fyrrum.
Skoðaður var letursteinn í garði norðan við íbúðarhúsið að Minna-Knarrarnesi. Um er að ræða brotinn myllustein með áletrun. Hann er mosavaxinn og því erfitt að ráða í áletrunina. Birgir taldi að áletrunin gæti verið 1823. Eitthvert skraut er einnig á steininum. Norðan við garðinn eru Krosshólar og Breiðihóll enn norðar.

Knarrarneshverfi

Knarrarneshverfi.

Knarrarnesbrunnurinn er nálægt íbúðarhúsinu. Á túninu eru ýmsar hleðslur og gömul mannvirki, sem fróðlegt væri að skoða nánar.
Sandlóa hafði verpt öðru sinni á einum hraunhólnum. Krían lét illa, enda að verja afkvæmi sín. Birgir sagði krívarpið hafa stækkað umtalsvert undanfarin ár.
Frábært veður.

Knarrarnes

Áletrun á klöpp við Knarrarnes.

Knarrarneskirkja

Mánudaginn 21. október 2013 birtist stutt frétt á vf.is:
Vill reisa kirkju að Minna Knarrarnesi.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja.

Birgir Þórarinsson guðfræðingur og fv. varaþingmaður í Suðurkjördæmi hefur sent umhverfis-og skipulagsnefnd Sveitarfélagsins Voga umsókn um byggingarleyfi fyrir kirkju að Minna-Knarrarnesi samkvæmt aðaluppdráttum Óla Jóhanns Ásmundssonar arkitekts.
Umhverfis- og skipulagsnefnd álítur að byggingin samræmist aðalskipulagi en að liggja þurfi fyrir samþykkt deiliskipulag í samræmi við gildandi aðalskipulag og skipulagslög og skipulagsreglugerð svo unnt sé að veita byggingarleyfi.”

Þriðjudaginn 25. febrúar 2014 birtist eftirfarandi stuttfrétt í sama miðli:
Kirkja verður byggð að Minna-Knarrarnesi.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja.

Bæjarráð Voga hefur samþykkt erindi Birgis Þórarinssonar um byggingu 40 fermetra kirkju að Minna-Knarrarnesi. Með bréfi þann 12. febrúar sl. óskar Birgir eftir því að jafnframt að leitað verði eftir meðmælum Skipulagsstofnunar fyrir framkvæmdinni.
Loks kemur fram að stefnt sé að gerð deiliskipulags fyrir Minna-Knarrarnes á næstu mánuðum að ljúka þeirri vinnu innan 1 árs.”

Þegar langt var liðið á lokafrágang byggingarinnar var stefnt að vígslu Knarrarneskirkju sunnudaginn, þann 8. ágúst 2021:
“Kirkjuna reistu hjónin Birgir Þórarinsson og Anna Rut Sverrisdóttir en fyrir sex árum var tekin skóflustunga að þessari bændakirkju, sem er í 19. aldar stíl, í túninu hjá þeim hjónum að Minna-Knarrarnesi á Vatnsleysuströnd.

Draumur að rætast með kirkjunni.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja.

Mikið hefur verið lagt í kirkjuna og listmunina sem í henni eru. Altarissteinninn kemur úr fjörunni. „Í Mósesbók eru fyrirmæli um hvernig altari á að vera. Það skal gert úr óhöggnum steini. Ég var í gönguferð hér í fjörunni þegar ég sá þennan stein. Hann höfðaði sérstaklega til mín og passar fullkomlega sem altarissteinn. Það var síðan heljarinnar mál að flytja steininn inn í kirkjuna og koma honum vel fyrir, hann er um 350 kg. Fáeinum mínútum eftir að steinninn var uppsettur gerði jarðskjálfta upp á 5,4. Steininn sakaði þó ekki né þá sex karlmenn sem lyftu honum upp á stall,“ að sögn Birgis. Kirkjuklukkan er rúmlega 100 ára gömul skipsklukka og kirkjugólfið er sömuleiðis úr aldargömlum gólfborðum, sérstaklega unnin fyrir kirkjuna. Yfirsmiður er Ásgeir Þórisson, innréttingar smíðaði Ólafur Sigurjónsson, Forsæti Flóahreppi og arkitekt er Óli Jóhann Ásmundsson.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja. Altaristöfluna gerði úrkraínski listaðurinn Andrii Kolalenko.

Birgir leitaði út fyrir landssteinana með gerð listmuna. Þeir eru eftir handverks- og listamenn frá Úkraínu. Má þar nefna altaristöfluna en hún er gerð eftir forskrift Birgis. Predikunarstólinn er sömuleiðis gerður í Úkraínu en hann er eftirgerð af predikunarstól frá árinu 1594 og er á Þjóðminjasafninu. Birgir sá hins vegar alfarið um steinhleðsluna í kringum kirkjuna. „Þetta hefur verið gamall draumur hjá mér, að byggja kirkju í þessum gamla stíl, sameinar líka menntun og áhugamál.“

Knarrarneskirkja

Hjónin Anna Rut Sverrisdóttir og Birgir Þórarinsson (t.h.)  við Knarrarneskirkju.

Knarrarneskirkja var vígð framangreindan dag
“Knarrarneskirkja sem hjónin á Minna-Knarrarnesi, þau Birgir Þórarinsson og Anna Rut Sverrisdóttir, hafa reist á jörð sinni var vígð sem heimiliskirkja síðastliðinn sunnudag. Boðsgestum var stillt í hóf við athöfnina enda samkomutakmarkanir í gildi en athöfnin var einstaklega falleg og tókst vel til.

Knarrarneskirkja

Karl Sigurbjörnsson, biskup, annaðist vígslu Knarrarneskirkju.

Herra Karl Sigurbjörnsson, biskup, vígði kirkjuna og honum til aðstoðar voru séra Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup, og séra Kjartan Jónsson, sóknarprestur Kálfatjarnarsóknar. Vígslan var hin heilagasta og við athöfnina söng Alexandra Chernyshova, sópransöngkona, úkraínskt þjóðlag en það voru handverks- og listamenn frá Úkraínu sem gerðu altaristöfluna, predikunarstólinn og fleiri muni sem prýða kirkjuna. Davíð Ólafsson, óperusöngvari, söng lagið Þitt lof, ó Drottinn og organisti var Ólafur Sigurjónsson.

Eftir athöfnina buðu hjónin til kaffisamsætis í þurrabúðinni Vík þar sem gleðin var allsráðandi enda ekki á hverjum degi sem jafn glæsileg kirkja sem þessi er vígð á Vatnsleysuströndinni.

Hjónin Anna Rut og Birgir mega vera stolt af þessu framtaki sínu enda Knarrarneskirkja glæsileg og vönduð í alla staði. Birgir sá sjálfur um steinhleðsluna umhverfis kirkjuna, en hefur eflaust fengið góðar ráðleggingar frá eiginkonunni – og allt handverk ber aðkomandi iðnaðar- og handverksmönnum gott vitni um hagleik og alúð.

Knarraneskirkja – Kirkjuvígsla 8. ágúst 2021 – upplýsingabæklingur:

Knarrarneskirkja

Altaristaflan er máluð af úkraínska listamanninum Andrii Kovalenko. Kristur er í miðdepli. Til beggja handa má þekkja andlit, bæði úr fortíð og nútíð. Altarið er náttúrlegur steinn úr Flekkuvíkurfjöru.

“Altari Knarrarneskirkju er óhöggvinn fjörusteinn úr Flekkuvíkurfjöru sem hvílir á traustum tréfótum sem Ólafur Sigurjónsson smíðaði.
Altaristaflan er máluð af úkraínska listamanninum Andrii Kovalenko. Kristur er í miðdepli. Undir mynd hans eru táknmyndir lands og þjóðar. Á vængnum til beggja handa eru fimm ættliðir. Á hægri vængnum má sjá Þórarinn Einarsson, útvegsbónda í sjóklæðum og feðgana Þórarinn Brynjólfsson, Birgi Þórarinsson og Hjalta, yngsta son Birgis. Á vinstri væng er margrét Þórarinsdóttir fyrrum húsfreyja í Knarrarnesi og við hlið hennar Anna Rut Sverrisdóttir núverandi húsfreyja. Þær klæðast báðar íslenskum búningum með gömlu Skálholtskirkju í bakgrunni. Minnir það á íslenska menningu, kirkjusögu og lífshætti fyrri alda. Náttúran birtist okkur í himninum, norðurljósunum, hálendinu, Snæfellsjökli, ölduróti hafsins, bæjartjörninni með lífríki vatnsins og íslenskum jurtum umhverfis.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja – prédikunarstóllinn.

Prédikunarstóllinn gerði Mykhalio Kozyr úkraínskur útskurðarmeistari. Hann er eftirgerð prédikunarstóls sem Guðbrandur Hólabiskup Þorláksson lét gera 1594. Stóllinn er á Þjóðminjasafni en var áður í kirkjuni á Fagranesi í Skagafirði og þar áður í Hóladómkirkju. Á spjöldum eru myndir málaðar af Andrii Kovalenko sem sýna guðspjallamennina Jóhannes, Mattheus, Lúkas og Pétur postula sem heldur á lyklum himnaríkis.
Á norðurhlið kirkjunnar er útskorin Kristsmynd, endurgerð af róðukrossinum frá Upsum, sem er ein elsta Kristsmynd á Íslandi, frá því á 11. öld. verkið gerði Mykhalio Kozyr útskurðarmeistari.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja – heilagur Nikulás, helgimynd eftir listamanninn Andrii Kovalenko.

Á suðurhlið er helgimynd eftir Andrii Kovalenko og sýnir heilugan Nikulás, sem forðum var verndari sjómanna og sæfarenda. Margar kirkjur við strendur landsins voru helgaðar honum til forna. Myndin er gjöf listamannsins til kirkjunnar.
Kaleikur og patína er gjöf Karls biskups Sigurbjörnssonar til kirkjunnar. Gripina gerði Ólöf Erla Bjarnadóttir, leirlistakona, í tilefni kristnihátíðar á Þingvöllum árið 2000.”

Heimildir:
-https://www.vf.is/frettir/vill-reisa-kirkju-ad-minna-knarrarnesi
-https://www.vf.is/frettir/kirkja-verdur-byggd-ad-minna-knarrarnesi
-https://www.vf.is/mannlif/vigsla-knarrarneskirkju-a-vatnleysustrond
-https://www.vf.is/mannlif/knarrarneskirkja-var-vigd-um-helgina
-Bæklingur með vígsluathöfn Knarrarneskirkju 8. ágúst 2021.
-Birgir Þórarinsson.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja. Hluti altarsistöflunnar. Hún endurspeglar íslenska menningu, náttúru og fólk í samspili við trú og kærleika.