Í Jarðabók Árna og Páls 1705 segir um Möðruvelli: “Selstöðu á jörðin, aðra þar sem heitir Trönudalur og eru þar hagar mjög fordjarfaðir af skriðum, aðra þar sem heitir Svínadalur og eru þar sumarhagar bæði góðir og miklir.” Þar segir einnig: “Suinadals Kot, hjáleiga bygð fyrst í manna minni í selhögum jarðarinnar, og eyðilögð aftur fyrir 10 árum. […]
Eyðilagðist fyrir vetrarríki. Kann ei aftur að byggjast að bagalausu, síðan selstaðan á Trönudal er fordjörfuð […].”
Býli þetta er skráð sérstaklega þar sem ekki er víst að það hafi staðið á sama stað og selið. Seltóftir eru í breiðum lækjarfarvegi, sem greinilega er löngu uppþornaður, milli fjalls og ár, undir norðanverðu holti, gróðurlausu.
Umhverfis tóftir er grösugt og gróið og norðan við þær skiptast á sléttar flatir og smáþýfi.
Þrjár tóftir sjást á svæðinu sem er um 30 x 10 m stórt og snýr A-V. Tóft A er vestast á svæðinu. Hún er um 5 x 4 m stór og snýr N-S. Suðurveggur er í barðinu sem er ofan við allt rústasvæðið til suðurs. Op er á tóft í norðausturhorni. Tóftin er allgreinileg en gróin og ekki sést í grjót. Mesta hleðsluhæð um 0,5 m. Tóft B er á miðju svæðinu, um 8 m austan við tóft A. Hún er einnig vel greinileg en gróin og ekki sést í grjót. Mesta hleðsluhæð er 0,4 m. Tóftin er um 3,5 x 3,5 m og snýr í NV-SA. Norðausturveggur er ógreinilegur og líklegt að op inn í tóftina hafi verið á þeirri hlið. Tóft C er um 2,5 m austan við tóft B. Hún er mjög óskýr og gróin, ekki sést í grjót. Tóftin er um 8 x 4 m stór og snýr AV. Ekki er víst að um tóft sé að ræða, er mjög hlaupin í þúfur. Mesta hleðsluhæð í tóftum er um. Fátt bendir til þess að býli hafi verið á þessum stað og ekki er að sjá rústahól eða túngarð í grenndinni.
Í Jarðabók Árna og Páls 1705 segir: “Selstöðu á jörðin, aðra þar sem heitir Trönudalur og eru þar hagar mjög fordjarfaðir af skriðum, aðra þar sem heitir Svínadalur og eru þar sumarhagar bæði góður og miklir.” “Framan við Pokagil eru Rauðshjallar, og framan þeirra er nafnlaust gil. Hryggur þar innar heitir Dyngja. Í henni er gróður, en ekki sjást þar selrústir. Þar neðst við Dyngju við ána eru Selflatir, og handan þeirra austar eru Marteinsvellir. Framan við Dyngju er Trönudalsbotn,” segir í örnefnaskrá. Selið er innarlega í Trönudal austanverðum. Það er um 2,9 km frá bæ. Sunnan og ofan við selið eru klettar sem úr fjarlægð minna á kýr eða kind með lömb á gangi. Selið er neðst í grösugri og brattri brekku nærri árgilinu sem er vestan við það. Austan við selið er lækjardrag og rofabörð. Framan við selrústir til norðer uppspretta, lítill pollur og dýjamosi.
Stærð rústasvæðis er um 25 x 25 m. Á rústasvæðinu eru alls 4 tóftir og garðlag eða veggjaleifar í norðvesturjaðri svæðisins. Allar tóftirnar og garðlagið snúa NA-SV nema tóft D sem snýr NV-SA. Öll mannvirkin á svæðinu eru nokkuð fornleg og gróin, hvergi sést í grjót í hleðslum. Hleðslur eru signar, eru um 0,3 – 0,5 m á hæð. Tóft A er um 9 x 4 m stór og skiptist í tvö hólf sem eru hvert fram af öðru, opin til norðausturs. Um 2 m eru á milli tóftar A og B. Tóft B er um 8 x 5,5 m, hún skiptist í 3 hólf.
Á suðausturhlið hennar eru tvö lítil óskýr hólf en eitt nokkuð greinilegt í norðvesturhorni tóftarinnar. Garðlag C er um 6 m langt, um 8 m vestan við tóft B. Norðvestan við það eru þúfur sem kunna að vera byggingaleifar og garðlagið e.t.v. frekar veggur í tóft. Tóft D sem er 2 m vestan við tóft E er grafin inn í brekku að hluta en veggir á öðrum hliðum eru greinilegir. Tóftin er um 4 x 2 m stór, ógreinilegt op er á tóftinni í austurhorni. Tóft E er ógreinileg, einföld, um 6 x 5 m, opin í norðausturenda. Líklegt er að öll mannvirki tilheyri sama byggingarstigi en þó eru tóft E og garðlag/veggur C mun ógreinilegri en tóftir A,B og D. Það kann ef til vill að vera vegna þess að þær tóftir hafi verið hús en erfitt er að geta sér til um hlutverk annarra mannvirkja. Ekki sjást rústahólar undir tóftum.
Við leit að Trönudalsseli í Svínadal fannst enn eitt selið, Möðruvallamegin árinnar. Það liggur í bogadregnum hvammi við ána. Lítill lækur rennur niður með því að vestanverðu. Tóftirnar eru áberandi og uppfylla allar reglur um dæmigert sel fyrri tíma. Hér verður þar nefnt Möðruvallasel III.
Þá fannst við leit í Trönudal enn eitt selið. Trönudalssel I er ofarlega í dalnum, austan árinnar, undir svonefndri Dyngju. Neðar er fallegt sel; þrjár formlega lagaðar tóftir og stekkur. Frá selinu er ágætt útsýni yfir undirlendið. Það var nefnt Möðrudalssel IV.
Í Jarðabók Árna og Páls 1705 segir: “Suinadals Kot [Svínadalskot], hjáleiga bygð fyrst í manna minni í selhögum jarðarinnar, og eyðilögð aftur fyrir 10 árum. […] Kúgildi var ekkert og töðuvöllur nær enginn, en útheyja slægjur nægilegar.[…] Eyðilagðist fyrir vetrarriki. Kann ei aftur að byggjast að bagalausu, síðan selstaðan á Trönudal er fordjörfuð […].”
Tóftir Svínadalskots er neðan Trönudals, áberandi tóftir, auk garðs.
Heimild:
-Fornleifaskráning í Kjósarhreppi I: Birna Lárusdóttir, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2008, bls. 114 og 119.
-Jarðabók Árna og Páls 1705.