Færslur

Mölvíkurvatnsstæðið

Eitt er það örnefni, enn a.m.k., sem ekki hefur verið hægt að finna með “goggli”, en það er Mölvíkurvatnsstæðið. Vatnsstæðisins er getið í örnefnaskrá fyrir Stað í Grindavík: “Upp af miðri Mölvík gengur klapparhryggur, Mölvíkurklöpp, upp fyrir Reykjanesveginn. Ofan við hana er Mölvíkurvatnsstæði (eintala).”
MölvíkurvatnsstæðiðVatnsstæðið er stórt af vatnsstæði að vera en þó ekki stærra en sambærileg “vatnsstæði” í Grindavík, s.s. við Járngerðarstaði, Stað og Húsatóftir. Sérstaða þess er helst fólgin í að það er eina vatnsbólið á innanverðu Reykjanesinu. Allt um kring er landslagið bæði eyðilegt, sendið og fremur slétt. Ofar er Klofningahraunið með sínum stórbrotnu ýfingum. Austan við það er slétt mosavaxið Berghraunið og austan þess er hólótt Lynghólshraunið.
Vestan við Vatnsstæðið þekur svartur basaltsandur úr Sandvíkinni allt svæðið. Sandflákinn tekur höndum saman við bróður sinn úr Stóru-Sandvík vestan Hafnarbergs. Saman mynda þeir samfellu og hafa að mestu lagt undir sig utanvert Reykjanes. Ef ekki hefði komið til sandgræðsla á síðari áratugum hefði sandurinn lagt undir sig allt land á þessu svæði. Sandinn má vel sjá í Vatnsstæðinu. Augljóst er að þarna gætir náttúruáhrifa, þ.e. þegar stórbrimað er framanvert flæðir sjór upp á land og hækkar þá í tjörninni. Í “eðlilegu” árferði lækkar í henni á ný og seltan minnkar í samsteningunni.
Landgræðsla ríkisins miðar aldur sinn við setningu laga um “skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands” frá árinu 1907. Þá var Sandgræðsla Íslands stofnuð en árið 1965 var nafninu breytt í Landgræðsla ríkisins. Hún er ein elsta stofnun sinnar tegundar í heiminum og er reynsla Íslendinga í baráttu við landeyðingu því mikil.
Mölvíkurvatnsstæðið-2Í upphafi beindist starfið einkum að því að stöðva sand sem ógnaði mörgum byggðarlögum. Landgræðslustarfið hefur skilað mikilum árangri frá upphafi því tekist hefur að hefta skæðasta foksandinn og klæða mikið land gróðri á ný. Nú er talið að meira grói upp en það sem eyðist þótt enn eyðist mikill gróður og jarðvegur á Íslandi.
Starfshættir Landgræðslunnar hafa breyst mikið frá upphafi en þá voru flest verk unnin með höndum eða frumstæðum verkfærum. Meðal annars voru langir sandvarnargarðar hlaðnir úr hraungrýti.
Í hrauninu upp af Ósum má enn sjá leifar landgræðslugirðingar sem mun hafa verið lokið við um 1939 en hún skipti Reykjanesskaganum í 2 svæði. Girðingin lá eftir hrauninu og niður í Merkinesvör og hefur verið mikið mannvirki á sínum tíma. Sunnan hennar var sauðfé bannað. Síðar var svæðið stækkað með því að sett var horn á girðinguna uppi í hrauninu og girt norður að Ósum og sá hluti girðingarinnar sem lá fram í sjó að vestanverðu var lagður niður.
Leitað var að hugsanlegum grjótgildrum umhverfis Vatnsstæðið, en engar fundust að þessu sinni. Ekki er þekkt þjóðsaga tengd vatnsstæðinu, sem verður að teljast í frásögu færandi. Fyrirhuguð er ganga um Klofningahraun fljótlega.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Stað.
-land.is

Mölvíkurvatnsstæði

Mölvíkurvatnsstæði – kort.