Ætlunin var að ganga um Berghraun og skoða syðstu gíga Eldvarpa, m.a. Mönguketil.
Gígar þessir eru eldri en Eldvarpahraunin umhverfis. Þeir gætu þó hafa myndast fyrr í sömu goshrinu, en kólnað áður en hraunin hættu að renna úr stærri gígunum nokkru ofar. Hraunin runnu í Reykjaneseldum á tímabilinu 1210-1240. Þau mynda m.a. Staðaberg en vestast í því er fallegur brimketill sem af sumum er nefndur Oddnýjarlaug. Í Berghrauni er fyrrnefndur Mönguketill, einstakt eldvarp. Tófugreni er í Möngukatli. Ekki var útilokað að grjótgildrur kynnu að leynast í hrauninu.
Eldvarpahraunið (það yngsta) kemur frá syðsta hluta Eldvarpanna og niður til sjávar á Staðarbergi á milli Klofningahrauns að vestanverðu og Sundvörðuhrauns að austanverðu. Neðst, austan þess að austanverðu, er Lynghólshraun, nokkuð gróið. Í örnefnalýsingu fyrir Stað segir að “Lynghólahraun er breitt og víðáttumikið. Dregur það nafn af Lynghólum, sem eru ávalar, líttgrónar hraunbungur, rétt ofan við gamla veginn – en hann liggur spölkorn fyrir neðan bílveginn”. Enn eitt hraunið, “Básahraun er á hægri hönd, ofan við Hróabása.” Í Básum, skammt ofan við bergið, má m.a. finna eina af fallegri hlöðnu refagildrum á Reykjanesskaganum sem og aðra skammt ofar, í vörðu.
Áður en lagt var af stað hafði verið haft samband við Kristján Sæmundsson, jarðfræðing, sem gengið hefur mikið um þetta hraunssvæði sem og önnur á Reykjanesskaganum. Kristján sagði m.a.: “Klofningahraunið er rúmlega 2000 ára.
Aðalgígurinn í því (og raunar sá eini) er Rauðhóll. Tvö stór jarðföll eru suðvestan við hann. Eldvarpagígaröðin (frá 13. öld) er 400-500 m austan við Rauðhól. Hraun úr henni nær að hólnum austan og norðan megin. Það er hleðsla í gígnum (í Rauðhól) þegar kemur dálítið inn í hann sunnan frá. Gat ekki séð til hvers hún hefði verið, sennilega þó skýli.
Sunnar eru gígar sem tilheyra Eldvarpagosinu (frá 13. öld) og austan við þá er stakur eldri gígur, nokkuð gróinn, sem stendur upp úr Eldvarpahrauninu. Annar álíka stór er norðaustar, með gróðurtorfu innanvert, í hávestur frá borholum Íslandslax, svo sem 500 m frá. Sá þriðji, er langminnstur suðvestan við þann fyrrnefnda (suðvestastur í röðinni).
Milli hans og þeirra eru 200-300 m. Ég er ekki alveg viss um aldur þessara gíga, fannst þeir myndu vera eldri en Rauðhóll. Það þarf samt að athuga betur. Þarna við gígana heitir einhvers staðar Mönguketill. Klofningar munu vera allhá brún, mjög sundurklofin, í Klofningahrauni. Þar heitir einhvers staðar Dringull. Gott væri ef hægt væri að staðsetja þessi örnefni og þá líka Bíldarholt sem á að vera 0,8-1 km suðvestur frá Rauðhól. Þessi örnefni fékk ég hjá Ólafi Gamalíelssyni skömmu áður en hann lést.”
Þarna kemur fyrir örnefnið Mönguketill og að hann geti verið suðvestan við neðstu gígana.
Möngusel og Mönguselsgjá eru til efst í Hafnasandi, nálægt svonefndum Nauthólum. Selið er í hraunskál, opinni til norðurs. Ofan hennar er Mönguselsgjá. Spurningin er hvort þarna kunni að vera einhver tengsl?
Þegar gengið var um Staðahraun virtist það ótrúlega greiðfært. Vörður voru á stangli; bæði markavörður og vörður á grenjum. Austar var Lynghólshraunið úfið og uppbrotið; vestar var Klofningahraunið stórbrotið og sendið.
Áður en lagt var af stað var rætt við Helga Gamalíelsson. Hann sagði Mönguketil auðfundinn. Vegslóði lægi upp í hann. Um km frá honum til austurs væru Klifsgrenin svonefndu, Efra- og Neðra. Hinum megin í Eldvarpahrauninu, að vestanverðu, væru á annan tug grena. Neðar í hrauninu væru örnefni sem hétu Einbúi og Kerling, en hann væri ekki viss um hvort væri hvað.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Stað.
-Kristján Sæmundsson.
-Helgi Gamalíelsson.