Tag Archive for: Mosfellsheiði

Sæluhús

Á vefsíðu Ferðafélags Íslands er sagt frá endurbyggingu sæluhúss við „Gamla Þingvallaveginn“. Annað sæluhús, mun eldra, hlaðið úr torfi og grjóti, var í Moldbrekkum skammt norðaustar á Mosfellsheiði, við „Fornu Þingvallaleiðina“ um Seljadal og Bringur. Yngra sæluhús hafði verið byggt við „Nýju Þingvallaleiðina“ áður en „brú og nýbyggt sæluhús frá árinu 1907 var byggt úr tilhöggnum steini“ við Gömlu Þingvallaleiðina. Reyndar eru þarna um öfugmæli að ræða. Lítið hefur farið fyrir því, bæði í heimildum og frásögnum.

Moldbrekkur

Moldbrekkur – gamla sæluhúsið.

„Ferðafélag Íslands hefur undanfarin misseri unnið að endurbyggingu á sæluhúsi austarlega á Mosfellsheiði. Það var upphaflega reist um 1890 við nýjan veg til Þingvalla sem gengur núna undir nafninu Gamli Þingvallavegurinn. Húsið var byggt úr tilhöggnu grágrýti, það var 7×4 m að flatarmáli og veggir 1,80 m á hæð. Á því var risþak, sennilega klætt með bárujárni og útidyr voru á langvegg.

Bjarki Bjarnason sem átti hugmyndina um endurbyggingu hússins var ráðinn umsjónarmaður verksins. Bjarki segir að á ofanverðri 19. öld hafi töluvert verið byggt af húsum hérlendis úr tilhöggnu grágrýti og sæluhúsið á heiðinni fylli þann flokk. Steinhúsin voru einskonar millispil, torfhús höfðu verið allsráðandi um aldir en steinsteypt hús risu síðan á nýrri öld.

Sæluhús

Sæluhúsið við gamla Þingvallaveginn um 1920.

Sæluhúsið á Mosfellsheiði gerði sitt gagn í nokkra áratugi, það var jafnvel ferðamönnum til lífs að komast þangað í skjól í vályndum veðrum. En fyrir alþingishátíðina á Þingvöllum árið 1930 var nýr þjóðvegur lagður til Þingvalla á svipuðum slóðum og akvegurinn liggur þangað nú. Gamli Þingvallavegurinn var minna notaður en áður og einnig sæluhúsið, enda var notalegra að gista undir mjúkri sæng á gistihúsinu á Geithálsi eða Hótel Valhöll á Þingvöllum.

Þingvallavegur

Nýi Þingvallavegur – sæluhúsið fyrrum.

Viðhaldi sæluhússins var ekki sinnt, þak, gluggar og hurð urðu veðrinu og tímanum að bráð og steinhlaðnir veggirnir féllu undan eigin þunga en hafa alltaf verið sýnilegir á sínum upphaflega stað. Eldra sæluhús, sem hlaðið hafði verið upp á leiðinni, heyrði sögunni til. Framan við það var grunnur brunnur.

„Þetta „hús“ hefur mikið byggingarsögulegt gildi og er sannarlega þess virði að það verði varðveitt, segir Bjarki, og einnig Gamli Þingvallavegurinn sem lá þvert yfir heiðina frá Geithálsi að Almannagjá, nú eru uppi hugmyndir um friðlýsingu hans.
Vegna endurbyggingarinnar var aflað tilskilinna leyfa, Arkitektastofan Argos vann tillögur að endurgerð hússins og Húsafriðunarsjóður hefur veitt rúmlega þrjár milljónir króna til þessara framkvæmda sem er um þriðjungur af kostnaðaráætlun verksins. Mér finnst það afar spennandi að vinna að þessari uppbyggingu og gaman að sjá húsið rísa úr öskustónni eftir ár og öld.“

Þingvallavegurinn gamli

Sæluhúsatóft við gamla Þingvallaveginn árið 2020.

Þegar öll tilskilin leyfi voru í höfn hófst endurreisnin á heiðinni á síðasta ári. Leitað var til tvíburabræðranna Ævars múrsmiðs og Örvars húsasmiðs Aðalsteinssona og óskað eftir því að þeir tækju endurbygginguna að sér. Þeir hafa mikla og góða verkþekkingu á þessu sviði og mikinn áhuga á málinu, hafa auk þess starfað sem fararstjórar fyrir Ferðafélag Íslands.

Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur – hús og sæluhúsatóft.

Í fyrrasumar voru hleðslusteinarnir teknir ofan og raðað við hliðina á rústinni eftir ákveðnu kerfi. Síðan var grafið niður á klöpp og grunnurinn fylltur af grús. Eftir það lagðist vinnan í vetrardvala en á nýliðnu sumri var aftur tekið til óspilltra málanna og steyptur sökkull fyrir húsið. Á þeim grunni hafa veggirnir verið endurhlaðnir á sama hátt og gert var fyrir 130 árum. Þeir Ævar og Örvar hafa unnið þetta verk, með þeim hafa starfað Bjarni Bjarnason fjallkóngur og verktaki á Hraðastöðum í Mosfellsdal og Unnsteinn Elíasson hleðslumeistari frá Ferjubakka í Borgarfirði.

Sæluhús

Sæluhúsið í endurbyggingu 2022.

En hvenær eru áætluð verklok, Bjarki svarar því: „Veggjahleðslunni lýkur í haust en frágangur og frekari smíði bíður næsta sumars. Þá þarf að smíða þak á húsið, einnig hurð, glugga, gólf og rúmbálk. Allar teikningar liggja fyrir og voru forsenda þess að FÍ fengi úthlutun úr húsaverndunarsjóði Minjastofnunar.“
Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri Ferðafélagsins segir endurbyggingu hússins mjög mikilvægt og skemmtilegt verkefni sem falli vel að tilgangi félagsins.“

Sæluhús þetta er í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Heimildir:
https://www.fi.is/is/frettir/saeluhuhus
Sæluhúsið á Mosfellsheiðinni endurreist (mbl.is)

Þingvallavegur

Þingvallavegur – endurbyggt húsið við „Gamla veginn“.

Öxarárfoss

Í Eimreiðinni árið 1922 er grein eftir Dr. Louis Westerna Sambon um „Þingvallaför“ hans:

Louis Westenra Sambon
Dr. Louis Westenra Sambon fæddist á Ítalíu (1871?), af frönskum, ítölskum, enskum og dönskum ættum. Faðir hans var franskur í föðurætt, en ítalskur í móðurætt. Móðir hans var ensk, skyld skáldinu Charles Dickens og komin af hinum fræga danska siglingamanni, Vitus Bering. Faðir hans, er barðist sem fríliði í her Qaribaldi, var frægur fornfræðingur, einkum myntfræðingur.
Louis lést 30. águst 1931 (63 ára).

„Þriðjudag 28. júní. — Klukkan rúmlega níu, leggur löng bifreiðalest af stað úr Reykjavík til Þingvalla með konungsfólkið og um hundrað gesti. Meðal gestanna eru yfirvöldin á staðnum, prófessorar háskólans og allmargir blaðamenn.

 

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn.

Þingvallavegurinn er vel kunnur. Hann liggur til suðausturs um ófrjótt og grýtt ölduland, yfir Elliðaárnar, fræga laxelfi, rétt ofan við ósana, stígur svo smámsaman í tvö hundruð og tuttugu feta hæð yfir sjávarmál, liggur um vesturbakka Rauðavatns og þaðan nálega samhliða Hólmsá upp að Geithálsi. Hólmsá rennur í Elliðaárnar og líður í bragðfögrum bugðum fram með Rauðhólum, þyrpingu rauðra og svartra smágíga, er minna á forngrísk skapker, steind rauðum og svörtum myndum. Þessa stundina speglar Hólmsá algrátt loftið og er sem gjörð úr skygðu stáli um hraunhólana. Allt er svæðið skolbrúnt eða hnotbrúnt yfirlits, með óreglulegum flekkjum hér og þar af rauðbrúnu gjallkenndu hrauni og grænleitum engjum, drifnum ótali frostalinna þúfna. Í þúfunum eru hvítar, mórauðar og svartar kindur í ró að kroppa hýjunginn. Kringum hina strjálu bæi eru skýrt afmarkaðar, fagurgrænar flatir. Það eru túnin, sem gefa af sér töðuna, vetrarfóðrið handa kúnum. Alt hitt er grjót, hrúgald af hraunhellum og -molum á víð og dreif, af hvers konar stærð og lögun.

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar.

Átakanlega ófrjótt, grátt og eyðilegt, og þó er þessi grjótauðn svipmikil og full af fegurð. Klettarnir eru ýmist flekkóttir af skófum eða í mosareifi. Á milli steinanna og í hraungjótunum vaxa burknar og blómjurtir. Stór svæði eru þakin lágvöxnu, silfruðu birki- og víðikjarri svo þjettu sem þófi væri, eða purpurábreiðu af sauðamerg (Loiseleuria poocumbens). Túnið þakið sóleyjum glóir sem gullþynna. Stórir skúfar af rjómalitum rósum — hinum elskulegu holtasóleyjum (Dryas octopetala), skína í svartri umgerð veðurbitinna kletta: Á víð og dreif um ömurlegustu auðnir glitra smaragðlifar mosalegar þúfur af lambagrasi, settar rúbínrauðum stjörnum. Þessar blómperlur eru gleðin síunga. Á vinstri hönd er Esjan, verndarvættur Reykjavíkur, mikið fjall krýnt björtum skýjabólstrum; hlíðarnar eru með fönnum, sóldílum og skýjaskuggum. Framundan rísa þrír tindar úr mistrinu. Það eru Móskarðshnúkar og Skálafell og líta út sem vofur í snjóhempunum.

Louis Westerba Sambon

Louis Westenra Sambon á Íslandi.

Við Geitháls skiftist vegurinn í tvær álmur. Vér förum þar til vinstri, í norð-austlæga stefnu, og komum nú brátt inn á milli margra smávatna og tjarna. Við Krókatjörn komum vér auga á bifreiðalestina okkar löngu, fulla af prúðbúnum körlum og konum, háværum og glaðværum. Vér förum fram hjá tveimur biluðum bifreiðum og tökum strandaðan farþega: Það var vitamálastjórinn.

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði – Þrívörður. Útsýni til Þingvalla.

Vér erum nú á heljarvíðu hringsviði. Veggir og sæti eru fjöll, áhorfendur ský, leikvöllurinn hraunbreiða, skylmingamennirnir hundraðhentir risar, og munda sumir logasverð, en sumir í ísbrynjum. Blýgrátt og drungalegt loftið dregur mjög úr litunum á landinu. Mest ber á dökkgráum og dumbungslitum. En hvað þetta litskrúðsleysi er þó áhrifamikið þrátt fyrir allt! Með höfuðskeljastaðinn Skálafell frammi fyrir oss og regnskýin yfir höfðum vorum, minnumst vér »Krossfestingarinnar« eftir Vandyke og »Syndaflóðsins« eftir Poussin, tveggja meistaraverka þar sem grálitunum hefir verið beitt af mikilli snild. Í bröttum hlíðum og gljúfrum fjallanna liggja fannir og breðar, ömurlega ataðir eldfjallaösku.

Þingvallavegur

Gamli-Þingvallavegurinn.

Vér erum nú að fara upp Mosfellsheiði, sem er víðáttumikil auðn, yfirlits eins og grjótnáma og öll úr gjallmylsnu og hraungrjóti í kynlegustu myndum. Klettarnir eru flekkóttir af krabbalegum skófum, hvítum, svörtum, bronsgrænum, dúfulitum, og alstaðar eru, eins og njarðarvettir á kóralrifi, mjúkir grænir koddar af lambagrasi, þar sem urmull af purpurarauðum blómum glóir eins og hin stjörnumynduðu dýr á kóralgrein. Sauðfé er einkennilega sólgið í þessa jurt. Meira að segja fór svo, að þegar nokkrar kindur voru fluttar til einnar af Farne-eyjunum, þá varð það til þess að fálkapungurinn (Silene maritima), náskyld tegund, varð nálega upprætt þar, og höfðu þó hinar grænu og ljósrauðu breiður hans lengi verið einkennileg prýði á eynni.
Konungsvegur
Hér um bil miðja vega á heiðinni nemum vér staðar við tvö stór tjöld, er þar höfðu verið reist, og förum úr vögnunum til að fá oss hressingu. Ég tek í höndina á franska ræðismanninum, borgarstjóranum í Reykjavík, rektor háskólans, landlækninum, og er nafngreindur fyrir öðrum gestum. Konungurinn gengur um og býður kvenfólkinu Dourneville súkkulað. Hann heilsar mér á frönsku og gefur mér það seinasta af sælgætinu. Ég sting því í vasa minn hjá kæru bréfi, rituðu í flýti, og getur verið að bréfritarinn fái að flytja hin konunglegu sætindi úr purpurapappírnum og silfurþynnunni að rauðum vörum og perlutönnum.

 

Þingvallavegur

Þingvallavegurinn – ræsi og varða framundan.

Vér hverfum aftur til vagnanna og ökum áfram yfir eyðilega og tilbreytingarlausa heiðina. Ömurleikinn alt umhverfis er ógurlegur; þögnin er sem farg; ekkert hreyfist í hrauninu; ekkert bærist í loftinu, ekkert heyrist nema vagnahljóðið og skraf og hlátur samferðamannanna; og þó ber sjónarsviðið von um æðistryltan orraleik: haf í uppnámi storknað í stein, and í flogateygjum fyrir einhverju ógnarafli. Væri ekki víðáttan; gæti þessi grjótauðn vel verið mynd af þeirri stundu opunarinnar þegar óskapnaðurinn var að taka á sig lögun heimsins okkar, höggvin í basalt af voldugum hamri Einars Jónssonar.

Þingvallavegur

Þingvallavegur – ræsi.

Meðfram veginum á hægri hönd hafa stórar steinvörður verið reistar, til að vísa ferðamönnum veg, þegar landið er undir snjó. Aflangur steinn skagar út úr vörðunni ofanverðri og bendir á veginn. Mér er sagt að hrafnar, sem nú eru farnir til að boða komu konungsins, sitji altaf á þessum fingravörðum, og fari hin prestlega fjaðrahempa þeirra vel við svartar vörðurnar. Þarna sitja þeir, blaka vængjum, krunka, gala og bomsa. Heimildarmaður minn segir: »Þeir virðast altaf vera rétt komnir að því að vitna í ritninguna«. Honum skjátlast: Þessir »ljótu, leiðu, myrku, mögru, mösknu-fuglar eða djöflar« hafa altaf hugann á holdlegum efnum og eru að harma fornar hryðjualdir vígamanna og ræningja, þegar nóg var af manna- og nautaslátri. Það er því ekki furða þó viðkvæði þeirra sé: »Aldrei, aldrei meir!«

Þingvallavegur

Brú á gamla Þingvallaveginum.

Vér erum nú komnir á heiðina þar sem hún er hæst (1222 fet yfir sjávarmál) og veginum fer að halla ofan í móti. Útsýnið fram undan er ljómandi, því að nú er að birta yfir. Umhverfis eru öldumynduð bláfjöll, með smágerðum snjóhniplingum. Hæsti tindur í sólfáðri fjallaröðinni á hægri hlið vora, eru hinar snæviþöktu Súlur, 3571 fet yfir sjávarflöt. Sum fjöllin til vinstri handar, ljósgul að lit, eru stórir líparítpýramídar.

Konungsvegur

Sæluhúsið við Þingvallaveginn á Mosfellsheiði.

Vér förum fram hjá dálitlu steinskýli (sæluhúsi), þar sem ferðamenn, þegar snögglega brestur á, geta leitað sér hælis og fundið ekki aðeins skýli, heldur og eldsneyti, vatn og fæði að því er mér er sagt. Margur kaldur, þreyttur, fannbarinn ferðalangur hefir átt þessum sæluhúsum lífið að launa. Þó hefir það borið við, að menn hafa fundist helfrosnir innan veggja þeirra, er þeir náðu þangað of seint og voru orðnir of dasaðir og sljóvir til að færa sér hressingu og eldsneyti í nyt; aðrir, er voru að ná sér, og þó enn með óráði, þóttust heyra marra í snjónum undan hestum, er væru að skjögra að kofanum, og hottið í aðframkomnum mönnum, hásum af kulda og þreytu. Sumir hafa séð menn, sem ekki voru þarna. Magnaðar draugasögur eru til um það, að í grenjandi blindösku byljum, sem hverjum manni er ólíft úti í, komi stundum náfölar vofur ríðandi að sæluhúsi, til að nema þaðan hvern þann, er þar kynni að hafa leitað skjóls, en gleymt guði sínum:

Hann sendir orð sitt til jarðar,
boö hans hleypur með hraða.
Hann gefur snjó eins og ull,
stráir út hrími sem ösku.
Hann sendir hagl sitt sem brauðmola;
hver fær sfaðist frost hans?
Sálm. 47., 15.—17. v.

Mosfellsheiði

Varða við Gamla-Þingvallaveginn.

Þegar lengra kemur, förum vér fram hjá smátjörnum nokkurum, og komum nú sem snöggvast auga á blett af Þingvallavatni, eins og í hillingu, mjóa rák af skínandi safírbláma. Þungbrýndu ólundarskýin, sem sátu á fjallatindunum, hafa hjaðnað burt, aðeins fáeinir dúnmjúkir skýjahnoðrar svífa um silkifölblátt loftið, niður við sjóndeildarhringinn, og gætu vel sýnst svanir á flugi. Bláminn er dýpri uppi í hvolfinu, en vatnsbláminn er sterkari og gagnsærri, skærari en himinbláminn. Það er dásamlegur blámi, sem ekki verður með orðum lýst.

Þingvallavegur

Gamli-Þingvallavegurinn.

Bifreiðarnar okkar þeysa nú eftir veginum, hver rétt á eftir annari, sem færi þar eimlest með fullhraða, og þyrla upp gulum rykmökkum. Vér förum fram hjá hóp söðlaðra hesta, er standa við veginn. Á tveimur eru kvensöðlar með purpurarauðu silkiflossæti og söðulboga. Vér förum fram úr mörgum fótgöngumönnum og hjólamönnum, sem allir eru á leinni til Þingvalla. Vatnið kemur aftur í augsýn, hinn laðandi bláflötur þess ljómar í sólskininu eins og biflaust, seiðandi afarauga. Lækur með sama fágæta blámanum, Torfdalslækurinn, rennur sína leið á vinstri hönd við oss. Hver minsta gára er fagurbláma safíra. En hve fjöllin handan við vatnið skýr og sýnast nærri, séð gegnum undurskært loftið! Hver gróf og geiri sést, svo skýrt sem í sjónauka væri. Mógulur vegurinn liggur í bugðum, eins og snákur á snarferð.

Þingvallavegur

Þingvallavegur – brú.

Vér brunum yfir rauðmálaða trjábrú. Stúlknahópur hrópar »húrra« fyrir oss, um leið og vér förum fram hjá. Tuttugu og tveir vagnar þeysa á undan oss og stórir rykmekkir þyrlast upp hægra megin við oss. Vér förum yfir aðra brú, yfir Móakotsá, sem rennur úr Drykkjartjörn. Fjöldi hrossa er á beit í þúfunum til hægri handar, og stara þau á oss stórum augum.

Kárastaðastígur

Ekið um Kárastaðastíg. Vegurinn um gjána var opnaður árið 1900 og lokað fyrir bílaumferð 1967.

Vér þjótum áfram og yfir þriðju brúna, móts við Kárastaðabæinn. Túnið þar líkist austrænum gullofnum dúk, ljósgrænt grasið ofið sóleyjagulli. Það líður aftur fyrir oss, eins og töfraábreiða. Hraðskriður vagnanna, indælt landslagið, dýrðlegt sólskinið, fjörgar oss, vér skröfum kátir við samferðamennina og vagnarnir bruna hraðar og hraðar, geysast áfram í rykstormi.
Alt í einu breytir vegurinn um stefnu, vagnarnir taka snögga sveiflu, vér hverfum inn í gapandi ginið á gjá og vitum naumast af fyrr en vér erum komnir miðja vegu ofan í kok á ferlíkinu. En augað greinir margt í einu bragði. Vér sjáum hina miklu stuðlabergsveggi, skuggann á milli, snarbrattann, sólfagra sléttuna niður undan, fagnandi mannfjöldann í þyrpingu við innganginn, nýreistan boga með þrílitum fánum og bláum skildi og skarlatsrautt klæði, strengt þversum, og á það letrað stórum stöfum, ekki »Lasciate ogni speranza« hans Dante, heldur hjartanleg heillakveðja til konungs og drotningar.

Þingvallavegur

Þingvallavegur – brú yfir Öxará.

Vér ökum ofan eftir, yfir járnbrú, sem Öxará þrumar undir á leið sinni til vatnsins, komum ofan á opna völlu og nemum loks staðar framundan palli, er fánar blakta yfir og reistur hefir verið dagsins vegna. Gjá sú hin mikla, er vér fórum um, er Almannagjá og heitir svo fyrir þá sök, að í lok júnímánaðar ár hvert, streymdu þúsundir ríðandi manna úr öllum héruðum Íslands niður einstigið undir hamrinum bratta, ofan á völluna, til að vera á hálfsmánaðar þingi, kaupstefnu og íþróttamóti, sem haldið var á Þingvöllum.

Almannagjá

Almannagjá 1862 – málað af Bayard Taylor, 1862.

Almannagjá er eitt af Íslands mörgu furðuverkum. Hún myndast annarsvegar af þverhníptum hamravegg, full 100 fet á hæð, og endar þar hraunsléttan, er vér fórum yfir, og hins vegar af klettagarði, tuttugu álnir frá, og talsvert lægri, er hallast aftur eins og framhlið hans togaði í hann um leið og hún bugast niður á hraunsléttuna, fimm rasta breiða. Austurjaðar þessarar hraunsléttu endar í samsvarandi gjá — Hrafnagjá, sem að vísu er minni, en engu að síður prýðileg.

Almannagjá er nokkrar rastir á lengd og liggur frá norðaustri til suðvesturs. Má rekja hana frá Ármannsfelli niður fyrir Þingvelli, meðfram vesturströnd Þingvallavatns. Botninn er sem í virkisgröf og stráður stórum stuðlabjörgum, er fallið hafa úr veggjunum beggja megin; annars er hann grasivaxinn, nema á svo sem sex hundruð álna svæði, sem Öxará freyðir um á leið sinni til vatnsins.
Hið sokkna hraunsvæði, er takmarkast af gjánum tveimur, — Almannagjá og Hrafnagjá — nær frá eldfjallinu Skjaldbreið að Hengli, og hallast frá norðaustri til suðvesturs, lækkar undir vatnið og myndar botn þess. Fyrir mörgum öldum, lá þessi langa hraunbreiða jafnhátt hásléttunni umhverfis, en einhver voðaveila, sem líklega hefir komið af því, að vatnsrensli neðanjarðar gróf undan, varð til þess, að hún rifnaði um jaðrana og sökk þangað sem hún er nú, skekin sundur í hreinasta tíglagólf, úr óreglulegum brotum, með rifum og glufum á milli.

Þingvallavatn

Þingvallavatn.

Og hér er Þingvallavatn, bláast vatna, og horfir skygðum kristalsfletinum til himins, eins og það segði: »Ertu alveg eins blár?« En himininn er ekki eins blár, né heldur hafið með andstæðugulum dílum sargassoþangsins, og ekki gulldröfnóttur blámasteinninn, né heldur kornblómið á akrinum. Og þó kannast ég við þennan skínandi heiðbláma. Ég hefi séð hann í Bláa hellinum á Capri, á fjaðraskrauti ísfugla, páfagauka og blárra paradísarfugla, á vængjum stóru bláfiðrildanna í Brasilíuskógum, í brosandi augum drengsins míns.
Líttu á þetta undursamlega vatn í brúnni hraunskálinni, með ýmislega grænum rákum á grynningum og rifjum meðfram ströndinni; eru dröfnurnar á páfuglsfjöðrum eins fagurbláar? Líttu á það, þegar sólin skín sem glaðast og það logar eins og blátt bál, hefir nokkur safír nokkurn tíma ljómað svo?
Þvílíkur töfrablámi! Hvað hann gleður og heillar! Frá mér numinn af aðdáun, hreifur af litadýrðinni, finst mér ég verði, eins og Glákus forðum, að sökkva mér í þennan bráðna hlákristall.

Þingvallavatn

Þingvallavatn.

Þingvallavatn er í lögun sem hálfmáni, 16 rasta langt og 5-8 rasta breitt. Dýptin er frá grynningum að 60 föðmum. Upp úr því nálega miðju, rísa tveir eyhnúkar, með eldgígum, svartir og ófrjóir. Það eru Sandey og Nesjaey. Þar verpir svartbakur. Ýmsir höfðar ganga út í vatnið frá norður-, austur-, suður- og vesturströnd þess, eins og spælabrot í brotnu hjóli. Norðan að vatninu liggur endinn á hraunbreiðunni milli gjánna, í mosareifi, og Öxarársandur, að vestan sprungin brún hásléttunnar, að austan og sunnan brött fjöll: Arnarfell, Miðfell, Búrfell, Hengill — nú í tígulegum purpuraskikkjum.

Arnarfell

Arnarfell.

Úr mynni á suðausturenda vatnsins rennur Sogið sem slanga, er sýgur vatn þess, eins og nafnið bendir til. Ekkert segl sést á hinu friðsæla vatni, ekkert gárar flöt þess, nema fiskar sem vaka.
Vatnið er fult af silungi, bleikju og urriða, og er það einmitt fiskur á konungsborð. Fiskurinn af urriðanum er rósrauður, en af bleikjunni með lítið eitt rauðgulum blæ, hvortveggja bráðfeitur og óviðjafnanlega bragðgóður. Annar meðlimur uggaþjóðarinnar er þarna líka: hið herskáa hornsíli (Qasterosteus), ofurlítill velsporaður vígabarði vatnspyttanna, er gerir hreiður með handstúkulagi, af engu minni list en vefarafuglinn, og gætir eggja og unga ræktarlausra og ómóðurlegra maka sinna, með trú og dygð fram í rauðan dauðann. Hreiður hornsílisins er gert úr smágervum jurtatægjum, tengdum saman með sterkum silkiþræði, er myndast í nýrunum og kemur frá blöðrunni, þegar hornsílið er fullþroska og hinn hugrakki litli riddari kemur til burtreiðar í ljómandi purpuralitum brúðkaupsklæðum.

Nikulásargjá

Nikurlásagjá.

Þarna eru ýmsar tegundir af vatnabobbum af Limnaea-, Pisidiutn- og Lepidurus- kyni og lirfur og púpur margra vatnaskordýra. Gnótt er af reki og er það einkum smákrabbadýr (Daphnia, Diaptomus, Cvelops), hjóldýr (Rotifera) og fáeinar tegundir af kísilþörungum (Melosirae, Asterionella o.s.frv.), Af augljósum vatnaplöntum skal eg að eins nefna Rivularia cylindrica, blágrænan þörung með löngum svipu-líkum þráðum og tvær stórar grænþörungategundir, Chara og Nitella sem vaxa á fimtíu til níutíu feta dýpi. Fjöldi fugla: sefandir, lómar, sendlingar, maríuerlur, tjaldar, andir, gæsir, máfar, trönur, hegrar og svanir, lifa á því, eða á ströndum þess, eða fljúga yfir ljómandi safírbláan flötinn, og með þeim svífur andi fegurðarinnar, því að hvar getur indælli sjón?

Flosagjá

Flosagjá.

Þingvallasléttan með vatninu, ánni og hamraveggnum minnir mig á svæðið kringum Avernus vatnið, þar sem Virgill setti hlið undirheima, og reyndar eru hér Elysium-vellir og Tartarusklettar hlið við hlið eins og á Phlegra-sléttunni í Campania Felix. Mikla undra kviðu mætti yrkja út af Þingvallavatni. Þúsundir manna í hátíðabúningi — konurnar prúðbúnar eins og blóm — hafa safnast í hópum á víð og dreif, sumir standa og sumir sitja, í grasgrónum brekkunum niður af austurvegg Almannngjár. Álengdar eru þessar brekkur með mannþyrpingunum til að sjá eins og persneskar flosábreiður, sem af ásettu ráði eru með óreglulegum myndum og litum til að bægja á braut illu augnaráði og heilla til sín hamingjuna.
Þegar vér komum inn á sléttuna, leikur hornaflokkur þjóðsönginn, karlaflokkur syngur og mannfjöldinn lýstur upp fagnaðarópi og klappar hrifinn höndum. Hinir miklu stuðlabergsveggir endurkveða og magna þessi fjölbreyttu hljóð og margfalt bergmál hljómar frá gjá til gjár, frá fjalli til fjalls, yfir sléttuna og vatnið og aftur til baka, safnast í volduga velkomanda kveðju til konungs og drottningar.

Flosagjá

Tært vatnið í Flosagjá.

Vér stöndum nú á helgum stað, á stað sem er vígður sögu og sögnum. Gjáin mikla, hraunsléttan, hin streymandi á, heiðblátt vatnið eru minjar frægrar fortíðar og yfir þeim skín sem forðum hin dýrðlega sól. En hvað það er ósamræmilegt að sjá rétt hjá Lögbergi gistihús, sem með goðgá kallast »Valhöll«, og niður undan Öxarárfossi timburhús með rauðu þaki fyrir konunginn, nauðalíkt leikfangi sniðnu eftir örkinni hans Nóa. Hvað það á undarlega illa við að sjá bifreiðaröðina löngu öðru megin vegarins og þessar mörgu stikur af baðmullardúk skornar niður í smáfána og veifur, sem blakta í blænum og rjúfa samræmi náttúrunnar með prjáli ósamstæðra lita.

Konungskoman

Fólk í tjöldum á Þingvöllum 1907 – danskir sjóliðar.

Rúmlega sextíu tjöld hafa verið reist út um vellina og fólkið þyrpist um þau eins og býflugnasveimur. Stúlkurnar, á sullbaldíruðum bolum, glitra í sólskininu eins og frjórykaður rósatordýfill, en tveir konungsþjónar skoppa um í skarlatsrauðum maríuhænu einkennisbúningi og gefa hinu kvika sjónarspili bjartari blæ. Um leið og ég geng yfir veginn kemur bifreið, sem seinkað hefir, þjótandi ofan á vellina og á eftir henni ríðandi menn, lausir hestar og hestar undir klyfjum, alt Skundar ofan gjána og glamrar margvíslega í, eins og trjásöngva þreytti þar sinn glamurkliðandi kveldsöng.

Jörunadrhús

Jörundarhús á Þingvöllum.

Vér etum dögurð á gistihúsinu. Þar hefir rétthyrndu vegtjaldi verið aukið við hinn venjulega borðsal til að koma gestafjöldanum fyrir, og liggja tjalddyrnar fram í salinn og ekki minsta smuga til loftræsingar. Hinn ljúffengi rósrauði Þingvallasilungur með «mayonnaise«-sós og agurka-salati, er indæll, jafnvel þó honum sé ekki skolað niður með sólskinsvökva frá Burgund, Rínlöndum eða Campagne, en hitinn inni í tjaldinu er afaróþægilegur. Vér hlustum á Matthías Þórðarson, hinn lærða vörð Þjóðmenjasafnsins í Reykjavík. Hann býður konung og drottningu velkomin og talar um forna frægð Þingvalla á dögum lýðveldisins. Vér hlustum á hann með athygli þrátt fyrir það, þó hitinn stigi í líkbrennslutjaldi voru og líkurnar fyrir því, að «Valhöll« verði að sannri valhöll fyrir hetjur þær, er nú sitja að veislu innan veggja hennar. Flestir félagar mínir eiga eflaust þennan heiður skilinn, en ég held nú samt, að frestur væri ekki illa þeginn, þar sem við eigum eftir að sjá Geysi. »Til þess að okkur líði vel«, segir sessunautur minn til hægri hliðar, »þyrftum við að fara úr holdinu og sitja í beinunum einum«. »Það væri ekki til neins«, svaraði ég, »við yrðum undir eins að bruðningi«.
Það er gott að koma út og fylla lungun hreinu lofti himinsins. Þarna andspænis oss, er vér horfum í norðvestur, fellur hinn svali, ólgandi, freyðandi straumur Öxarár ofan í gjána eins og mjöður í mundað horn. Hærra, fimm röstum norðar, rísa demantstindar Súlnanna á ameþýst grunni. Nær, til hægri handar, stendur Ármannsfell, nálega snjólaust og purpuragrátt. Að lögun hefir því verið líkt við dalaðan hjálm.
Lengra burtu og austar liggur stór snæþakin eldfjallshvelfing. Það er Skjaldbreið. Það er trú manna að þessi fjöll séu jötunhlífar á dreif; hjálmur og skjöldur Ármanns, írsks risa, sem sagt er að hvíli undir Ármannsfelli og sé þar haugur hans.

Konungsvegur

Konungur og föruneyti á Þingvöllum.

Margt fólk er að klifra upp á austurbarm Almannagjár til að sjá fossinn nær. Ég fer á eftir þeim og klifra upp klettabrekkuna, sem er að nokkru vaxin grasi, birkikjarri, mosa og steinbrjótum, uns ég næ upp á austurbarminn. Hér hitti ég suma af »Gullfoss«-vinum mínum og með þeim fer eg ofan í gjána.

Þingvellir

Þingvellir – Öxarárfoss.

Fossinn er ljómandi! Á rás sinni yfir móinn kemur Öxará allt í einu á brún hengiflugsins, og eins og jagúar stekkur á tapírahjörð, hendist hún á svipstundu, dunandi og freyðandi á dökkgrá stuðlabjörg, er liggja í þyrpingu í og í kringum djúpan hyl við rætur bergsins. Á slíkum stað mætti búast við að mæta dýrunum ógurlegu, er vörnuðu Dante vegarins í myrkviðinum forðum, jagúarnum, ljóninu og úlfynjunni mögru. Og þarna eru þau reyndar! steypast öll saman ofan í einu bræði-froðu-kófi: snjóhvíti hlébarðinn að norðan, sandlita ljónið og vefrarvaður blágrárra úlfa, sem vel má vera að einhverntíma hafi verið flokkur guðlausra manna. Líttu á þau þegar þau koma á brúnina; þau virðast nema staðar sem snöggvast og geysast svo fram í tryltum vígamóð. Hlustaðu á! Þau urra, ýlfra, hvæsa, frísa, öskra og drynja ógurlega. Má ekki, þar sem æðandi flóðið skellur í stórgrýtisurðina fyrir neðan, sjá voðastökkið, heljarhramminn, sem lýstur banahögg, leiftrið í logandi augunum, skína í hvítar vígtennurnar, glampa á mislitan hrygg og froðuhvítan kvið? Hve það er undarlegt, þetta samband forms- og litarfegurðar og æðistrylts eðlis, tignar og grimdar, mjúkleiks og þokka og óbifandi eyðingarfýsnar.

Þingvellir

Öxarárfoss.

En Öxará verður naumast með orðum lýst, þar sem hún hendist í gagnsæjum kristallsdyngjum ofan í gjána. Og lítið nú á hana þar sem hún rennur ofan gjána milli hinna háu hamraveggja. Hún freyðir, niðar og dunar yfir stórgrýtisbjörgin og milli þeirra. Feldurinn hennar fagurhvíti er allur með svörtum flekkjum. Þar sem hún finnur hlið í lægri hamravegginn tekur hún enn eitt stökk með háum dyn, nálgast svo vatnið, teygir úr sér endilangri á flötum söndunum og mókir suðandi og malandi eins og kátur og fullur köttur.

Þingvellir

Þingvallafundurinn 1907.

Á stórum votum steini rétt neðan við fossinn sé ég frú Björnsson, er starir inn í leiftrandi augu gnýjandans. Hún minnir á konur, er verða frægar fyrir það að temja villidýr og standa óskelfdar hjá strókum af ljónum, tígrum og jagúörum, en regnbogalitur úði skýst til og sleikir hendur hennar og andlit góðlátlega eins og lébarðahvolpur.

Þingvellir

Þingvellir – Öxarárfoss.

Ég klifrast upp fyrir fossinn og gefur mér þar góða fuglsýn af dalnum milli gjánna og vatninu í fangi hans. Það minnir mig á japönsku skjaldbökuna, sem segir af í þjóðsögum og var með ljómandi páfuglsstéli, því að hinn þurri hluti sokknu hraunsléttunnar, allur skoraður sundur í plötur eða skildi af ýmsri stærð og lögun, bendir á að þetta sé skjöldur af risavaxinni skjaldböku, en vatnið sýnir grænt og gullið og blátt stélið, breitt út sem prúðlegast. Hraunbreiðan fyrir fótum mér er grágrænflekkótt. Náttúran hefir klætt hið rifna og molnaða yfirborð mosaþembu, lyngi og birkikjarri. Á miðri þessari hraunsléttu glitrar fagurgrænt túnið í Skógarkoti, eins og landbrot í eyðimörku. Annað tún lengra norður heitir Hrauntún.
Við endann á vatninu, nálægt Öxarármynni, stendur hin litla timburkirkja Þingvalla, með kirkjugarðinn, prestsetrið og túnið umhverfis. Vegurinn heim að kirkjunni er nú svartur af mannfjölda; eflaust er konungurinn þar að skoða gamla predikunarstólinn og altaristöfluna, eða hinn fræga lögkvarða Íslands, sem er einsteinungur skoraður djúpt á austurhlið.
Ég fer ofan á sléttuna til þess að komast aftur í konungsfylgdina og skoða hið tröllslega tíglaverk, sem myndaði gólfið á hinum forna þingstað. Hér má fylgja gjám og glufum langa leið undir skærum vatnsfletinum. Alt hið sokkna svæði er því líkast sem það væri jötunheima steingrind, er hallaðist hálfsokkin í jökulvatnið, sem streymir frá Langjökli, seitlar undir Skjaldbreiðarhraun, fyllir vatnsskálina og rennur svo um Sog og Ölfusá út í Atlantshaf.
Þingvellir
Þegar vér komum á Geysisveginn, mætum vér konunginum, er kemur frá kirkjunni, og nemum staðar til að skoða staðinn, þar sem dómar fóru fram í fornöld. Það er hraunrimi, þrjúhundruð álnir á lengd og tuttugu til sextíu á breidd, og nálega umluktur sem tangi af tveimur djúpum gjám, Flosagjá að vestan og Nikulásargjá að austan, er renna saman við norðurendann með tónkvíslar móti.

Þingvellir

Þingvellir.

Gjárnar eru frá átján til fjörutíu fet á breidd og fimmtíu fet á dýpt ofan að djúpu vatni, sem í þeim er. Nikulásargjá var svo nefnd 1742, er Nikulás nokkur sýslumaður, er flæktur var mjög í málaferli, drekkti sér í gjánni; hin dregur nafn sitt af Flosa, söguhetju, er stökk skyndilega yfir gjána og komst þann veg undan. Milli þessara tveggja gjáa er grasi gróinn hjalli, þar sem sakamenn voru reyndir, og yrðu þeir sannir að sök, voru þeir teknir þar samstundis af lífi. Á þessum Tarpejukletti voru lagaverðirnir öruggir fyrir afskiftum annara. Leiðin þangað var af náttúrunnar hendi svo mjó, að auðvelt var að verja. Efst á þessum kletti situr nú hinn sérstaki konungsmálari, hávaxinn, fríður og góðlegur Dani og dregur mynd af útsjóninni yfir vatnið, aðdáanlega vel og fimlega.

Þingvellir

Þingvallabærinn 1900.

Af brúnni yfir Nikulásargjá horfum vér ofan í gjána. Vatnið er svo furðulega tært, að smæstu hlutir sjást skýrt á miklu dýpi. Fjöldi silfurpeninga, er menn hafa leikið sér að að kasta í vatnið, liggja þar á mosa- eða þang-koddum, og sýnast stærri, bjartari og nær gegnum kristallstært vatnið. Þetta stækkunarmagn vatnsins hefir lengi verið kunnugt, Seneca segir í sínum Quaestiones náturales, þar sem hann er að skýra það hvernig regnboginn kemur fram: »Hver hlutur sýnist miklu stærri þegar menn sjá hann í gegnum vatn«, og Macrobius segir oss, að rómverskir veitingamenn á hans dögum voru vanir að setja við veitingahúsdyrnar hjá sér egg, grænmeti og ávexti í glerkerum fullum af vatni, svo að matvæli þeirra virtust stærri og girnilegri en þau voru í raun og veru.

Flosagjá

Þingvellir – Flosagjá.

En vatnið í þessum gjám er merkilegt, ekki svo mjög fyrir það hve algerlega tært það er og hve mikið það stækkar, sem fyrir hitt hve geysifagrir og breytilegir litir þess eru. Horfið beint ofan í vatnið, og þér munuð sjá það fagurlega grænt með blæbrigðum frá malakít og smaragð yfir í dökkasta brons, þó að það þegar dýpra kemur, sé nálega bleksvart. Horfið nú á það á ská, og það verður himinblátt, heiðblátt, rússablátt eða sterkblátt, en yfir bæði græna og bláa litnum leika glampar af purpura, fjólubláu og gulli eins og slást í kristallsstrendingum, skelplötu og sápubólum. Þessir löngu vatnsálar í djúpri og þröngri hamragjánni eru því tilsýndar sem regnbogaslöngur, er teygja úr sínum ljómandi, bragandi „Ugðum“, eða eins og bláir og grænir purpuraroðnir hátsar á Páfuglum á Ceylon eða í Birma.

Þetta skæra vatn, logandi eins og eldur, kalt sem ísinn, líður svo mjúklega milli stuðlabergsveggjanna, að ætla mætti að það stæði kyrt, ef ekki væru þaraþræðirnir, sem teygjast í áttina sem það rennur í. Frá neðanjarðaræðum streymir þessi töfrakristall fullur af dásamlegri fegurð, skrýddur vökvasilki og gimsteinagliti. Hann hrífur hvert hjarta með alsigrandi töfrum ljóss og ljóma, hverfur um djúpar, ósýnilegar æðar og rennur að lokum út í bláa vatnið mikla. Að vatnið í gjánum stendur í sambandi við stöðuvatnið, sanna silungarnir, er stundum koma upp í þær hópum saman.

Þingvellir

Konungsfylgdin fer frá Þingvöllum 1907.

Ég lít upp í gjáveggina og sé að þeir eru tjaldaðir grænum mosabreiðum, lögðum fögrum burknum. Hátt uppi, rétt á gjábarminum, eru margar plöntur rétt komnar að því að falla, svo ákafar virðast þær að gægjast ofan í gjána, og með þeim gægist hinn gullni guð ljóssins sjálfur. Það er líka kunnugt, að vagninn hans svífur kringum þennan stað mánuðum saman, bæði dag og nótt. Hver veit nema þessi djúpu vötn séu bústaður dáfagurra dísa? Eru engar hafmeyjar á Þingvöllum?

Þingvellir

Þingvellir – haust.

Jú, víst, hvað ætti hún Hallgerður lævísa að hafa verið annað, hún sem seiddi hann Gunnar í glötunina! Sá tigni maður sá hana fyrst við búðardyrnar hennar hjá vatninu. Hún var nýstigin úr lauginni og kembdi hár sitt langt og hrynjandi eins og sönnum hafmeyjum er títt.
Ég get ekki slitið mig burt. Vatnsdísin heillar mig, hinn frábæri yndisleiki kristallsvatnsins færir mér unað, sem engin önnur skynjan má veita. Eins og hinn skygngi starir á skyggða kúlu úr bergkristalli eða beryl, reyni eg líka að rjúfa blæjuna er skilur hið »verulega líf« umhverfis oss frá andlega lífinu, sem er enn þá verulegra fyrir þá sem trúa. »Hof Demeter í Patras«, segir Pausanias, »á óskeikandi véfrétt í sinni helgu lind«. Svo munu og hin bláu berylvötn á Þingvöllum gædd sannleikskrafti og megna að vekja vitranir, ef horft er í þau af hreinu hjarta.“ – G. F. þýddi.

Heimild:
-Eimreiðin, 5.-6. hefti 01.12.1922, Þingvallaför, Dr. Luis Westenra Sambon, bls. 344 og 349-362 – https://timarit.is/page/4819435?iabr=on#page/n0/mode/2up/search/%C3%BEingvallaf%C3%B6r

Þingvellir

Kárastaðastígur.

Reykjanesskagi

Góð gönguleiðakort af tilteknum svæðum eru mikilvæg. Svo virðist sem ákveðin feiðmni virðist ráða þegar kemur að birtingu þeirra í góðri upplausn á veraldarvefnum. Hér á eftir eru dæmi um nokkur kort af svæðum á Reykjanesskaganum, s.s. Þingvöllum, Hengli, Heiðmörk, Mosfellsbæ og Reykjanesskaga.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – kort.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – kort.

Reykjanesskagi

Jarðfræði Reykjanesskagans – Isor.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi.

Hengill

Hengilssvæðið – kort.

Mosfellsbær

Gönguleiðir í Mosfellsbæ

Ljósafosslína

Jakob Guðjohnsen skrifaði í Tímarit Verfræðingafélags Íslands árið 1937 um „lagningu háspennulínunnar á Mosfellsheiði árið 1935 frá Ljósafossi í Sogi  (Ölvusvatnsá) að Elliðaánum„. Lína þessi hefur nú verið tekin niður en í gamla línustæðinu má enn víða sjá spor hennar í umhverfinu, bæði eftir vegagerðina og staurana. Hafa ber í huga að framkvæmd þessi fór fram fyrir 86 árum (m.v. 2023).

Undirbúningur

Ljósafosslína

Tímarit Verkfræðingafélags Íslands 1937, hefti I.

Árið 1928, þegar starfað var að áætlununni um virkjun Efra-fallsins í Sogi, voru fyrstu athuganir gjörðar á stæði fyrir háspennulínu frá Reykjavík austur að Sogi. Voru á sumrinu afmarkaðar, lengdar- og hallamældar tvær línur um leiðir, sem best þóttu henta sem línustæði.
Fyrri leiðin, sem mæld var, liggur frá Elliðaám og norður meðfram Mosfellssveitarveginum að vestanverðu, upp að vegamótum norðurlandsvegar og nýja Þingvallavegarins, en þaðan austur Mosfellsdalinn austur Mosfellsheiði í stefnu nyrst á Sköflung. Þaðan austur meðfram Jórutind, yfir Krumma, Hagavíkurhraun, fram hjá Hagavík að Ölvesvatnsá í Grafningi, en þá í beina stefnu á Dráttarhlíð, þar sem orkuverið skyldi sett. Mældist lína þessi 44,5 km. á lengd, og er hæsti punktur hennar 334 m. yfir sjávarflöt (á Sköflungi).

Ljósafosslína

Nyrðra línustæði Ljósafossvirkjunar um Mosfellsheiði.

Seinni línan, sem afmörkuð var, er sunnar. Liggur hún frá Elliðaánum austur Reynisvatnsheiði, yfir gamla Þingvallaveginn skamt suður af Miðdal. Þá austur Mosfellsheiði í slefnu á Dyrfjöll, yfir Dyrfjöllin um Dyraleiðina, og þaðan fyrir norðan Nesjavelli í stefnu á Hagavík. Mætir hún nyrðri línunni í suðurjaðri Hagavíkurhrauns. Þessi lína reyndist um 41 km. á lengd austur að Efra-falli í Sogi. Hæsti punktur línu þessarar er í 120 m. hæð yfir sjávarflöt (á Dyrfjöllum). Þó að nyrðri línan væri þannig um 3.5 km. lengri en sú syðri, varð það þó úr, að nyrðri leiðin var valin sem línustæði, þar sem hún þótti á flestan hátt öruggari leið.

Ljósafosslína

Ljósafosslína um Mosfellsheiði – loftmynd.

Nyrðri línan liggur á 1. þriðjungi í byggð, skammt frá Mosfellssheiðarveginum og nýja Þingvallaveginum, sem sjaldnast eru ófærir að vetri langan tíma í senn. Er það góður kostur, hæði við byggingu línunnar, og þá ekki síður til eftirlits og viðhalds á henni. Gamli Þingvallavegurinn þverar línuna á miðri leið, og má komast þangað til eftirlits á skömmu tima, þar sem akfært er þangað á flestum tímum árs. Þá er og nyrðri leiðin talin snjóléttari en sú syðri, sem liggur yfirleitt hærra, um all erfiðan fjallaveg, yfir Dyrfjöllin.

Ljósafosslína

Ljósafossvirkjun í byggingu.

Ennfremur má telja það til kosta nyrðri línunnar, að hún liggur betur við, ef hugsað væri til orkuflutnings frá Soginu lengra norður í landið. Þó má telja, að nyrðri leiðin sé öllu óhagstæðari en sú syðri gagnvart særoki, þar sem hún liggur upp Mosfellssveitina meðfram sjó. Var þetta atriði sérstaklega tekið til greina, með því að hafa meiri einangrun á línunni á þessum parti.
Vorið 1933 var tekin endanleg ákvörðun um að byrja virkjun Sogsins með því að virkja Ljósafoss. Næsta vor, 1934, var mælt fyrir áframhaldi línunnar frá Ölvesvatnsá niður að Ljósafossi, og sést lína þessi i heild á yfirlitsmyndinni hér að aftan. Jafnframt voru mældir þverskurðir vega og þverskurðir hliðarhalla á línunni og gengið frá uppdráttum á langskurði línunnar. Reyndist lengd línunnar frá Elliðaárstöðinni að orkuverinu í Ljósafossi vera 45.67 km., en vegalengd milli þessara staða í loftlínu er réttir 40 km.

Grundvöllur útreikninga

Ljósafosslína

Ljósafosslína – útreikningar sérfræðinga.

Í sameiginlegu áliti verkfræðilegra ráðunauta Reykjavikurbæjar, verkfræðinganna A. B. Berdal og J. Nissen, um hagnýtingu vatnsaflsins í Sogi handa Reykjavík (shr. Tímarit V.E.Í. nr. 1, 1934) var niðurstaðan sú, að hentugasta spennan til flutning orkunnar úr Sogi til Reykjavíkur, væri 60.000 Volt, og vírar 3×50 mm2 gildir margþættir eirvírar. Bil milli staura var ákveðið að vera sem næst 150 m.
Til grundvallar útreikningnum á stólpunum er mesta áraun á gegndreyptu timbri ákveðin 145 kg/cm2, og er þá gjört ráð fvrir vindþrýstingi, sem nemur 125 kg/m2 — 50% á sívölum flötum (vírum og stólpum). Mesta leffileg spenna í járni er sett 1200 kg/cm2. Samkvæmt fyrirmælum rafmagnseftirlil ríkisins eru stólparnir grafnir niður á 1/6 hluta af allri lengd sinni.

Gerð línunnar
LósafosslínaRaffræðilegur ráðunautur Reykjavíkurbæjar við virkjun Ljósafoss, J. Nissen verkfræðingur, hefir út frá þessum forsendum reiknað út og ráðið gerð línunnar og var efni allt til hennar boðið út á norðurlöndum í byrjun ársins 1935. Er hver stólpi samsettur úr 2 trjám, sem í toppi eru fest saman með 2.5 m millibili. Er það grind úr zinkuðu járni, sem heldur þeim saman að ofanverðu, en í rótinni eru trén fest saman með 2 plönkum, sem boltaðir eru og læstir við þá með „bulldogs“ timburlásum. Einangrararnir eru svokallaðir keðjueinangrarar og hanga þeir niður úr járngrindinni, tveir til endanna og einn í miðjunni. Bil milli eirvíranna verður því 2.50 m og liggja vírarnir allir í sama lárétta fleti. Er það talið bezta fyrirkomulagið til að koma í veg fyrir samslátt á vírum. Auk eirvíranna eru festir á stólpana tveir 35 m/m2 margþættir stálvírar, sinn á hvorn stólpatopp. Stálvírarnir eru strengdir 30 kg/mm2 (við —25° C og ísingu) og veita því stólpunum góðan stuðning í línustefnuna, og eru þar að auki til öryggis fyrir eldingum þar sem þeir eru, á hér um bil öðrum hverjum stólpa grunntengdir við jarðplötur úr eir.
LjósafosslínaBurðarstólparnir eru einungis notaðir þar sem línan er bein; eru þeir 278 að tölu í allri línunni. Þá eru ennfremur með ca. 1 km millibili settir svokallaðir fastastólpar (Forankringsmaster) í beinni linu. Eru þeir gerðir úr tvennum A-stólpum, sem i toppi eru tengdir saman með járngrind af líkri gerð og á burðarstólpunum. Umbúnaður í jörðu er þannig, að tré A-stólpannan eru fest saman með plönkum, eins og á burðarstólpunum, en auk þess eru þau tengd saman í línustefnuna með þvertrjám og langtrjám. Burðarstólparnir eiga einungis að bera uppi vírana, en fastastólparnir eiga auk þess að standast átök frá togi víranna, ef vírar slitna öðru megin við stólpann. Við uppsetningu víranna eru þeir strengdir á milli fastastólpa og síðan festir við þá burðarstólpa, sem þar á milli liggja. Fastastólpar eru alls 30 á línunni.
LjósafosslínaÍ hornpunktum línunnar eru settir upp hornstólpar. Þeir eru eins og fastastólparnir, nema að settar eru 2 skástoðir á milli A-stólpanna og eiga þær að standast ho[r]n-átak víranna. Í jörðu er umbúnaðurinn sá sami og á fastastólpunum, nema að bætt er við tveim skástoðum, sem laka eiga á móti hornátakinu. Í línunni eru 12 hornstólpar.
Rofastólpar eru 5 á línunni. Eru stólpar þessir gjörðir alveg eins og hornstólparnir, en auk þess má setja á þá rofa, sem skipta má línunni með í 6 parta. Er þetta gjört með það fyrir augum, að fljótlegra sé að finna bilanir á henni. Fyrst í stað verða einungis settir upp 2 rofar, annar hjá Hraðastöðum i Mosfellsdal, stólpi nr. 117, en hinn nálægt Villingavatni i Grafningi, stólpi nr. 42.
LjósafosslínaVírum línunnar er víxlað á tveim snúningsstólpum í hverjum snúningsstað. Skipta snúningsstólparnir línunni í 3 jafnlanga parta. Loks er á línunni 1 endastólpi. Er það stólpi nr. 1 næst Ljósafossstöðinni. Þessi stólpi á að standast einhliða átak frá öllum vírum línunnar. Öll stólpastæðin eru tölusett frá Ljósafossi að Elliðaánum.
Í línunni eru því alls 330 stólpar og verður því meðalstaurabil 138 m. Mesta staurabilið er við þverun Sogsins, 179 m. Trén eru keypt hjá Norsk Impregneringskompani, Larvik. Eru þau úr vetrarfelldri furu og gegndrept kreosot-olíu, 100—120 kg olíu á m3 eftir aðferð Rüpings. Þau eru frá 10 til 17 m á lengd, flest um 14 m og samsvarar sú lengd meðal-staurabili. Trén og plankar allir þeim tilheyrandi komu boruð og tilskorin í réttum lengdum, svo að ekki þurfti annað við þau að gera en að setja þau saman. Tré öll og stokkar tilheyrandi sama stólpastæði voru tölusett með númeri stólpastæðisins.
LjósafosslínaJárnbúnaður stólpanna, þverslá, toppjárn og boltar er heitzinkaður. Komu þverslár og toppjárn ósamsett í kössum, og þurfti því að skrúfa saman grindurnar áður en þær voru fluttar út á staðinn.
Er járnhúnaðurinn keyptur hjá Berglöfs Verkstæder, Kopparberg í Svíþjóð. Stálvírinn er 35 m/m2 gildur, zinkaður, 7-þættur með slitþoli 110—120 kg/mm2; var hann sendur á 100 keflum með 995 m á hverju kefli. Stálvirinn vegur alls hrúttó 31278 kg, en nettó 28782 kg. Er hann keyptur frá Garphytte Bruk, Svíþjóð. Einangrarar línunnar eru keypir hjá A/S Norden, Köbenhavn. Eru þeir samsettir úr mismunandi mörgum postulínsskálum 280 m/m i þvermál og þola þær 9000 kg þunga. Skálarnar eru tengdar saman með zinkuðum járnhlekkjum.
LjósafosslínaÁ burðarstólpum eru notaðar 3 skálar í hverri einangrararkeðju, nema á síðasla þriðja parti línunnar frá Elliðaánum upp að Hraðastöðum i Mosfellsdal, þar eru hafðar 4 skálar í keðjunni. Er það gjört með tilliti til sjávarseltu, sem þar er helzt að vænta. Þar eru og á fastastólpum notaðar 5 skálar, en annarsstaðar 4 skálar í keðjunni. Við þverun vega er ennþá hætt við 1 skál i keðjuna og auk þess notuð neistahorn til hlífðar skálunum.
Einangrarakeðjurnar eru sendar þannig, að hver keðja kemur að fullu uppsett pökkuð i rimlakassa og voru þær fluttar út á línuna í kössum þessum.
LjósafosslínaEirvírinn er keyptur hjá Svenska Metallverken í Svíþjóð. Hann er 7-þátta harðdreginn eirvír 50 m/m2 gildur, með 40 kg/nim2 slilþoli. Var hann sendur á 159 keflum, sem vega 464 kg brúttó hvert kefli. Allur nettó-þungi eirvírsins er 65262,90 kg og hrúttó-þungi 74317,20 kg. Frá sama firma voru keyptar 150 stk. jarðplötur úr 3 m/m eir, 0.5 m2 að stærð. Voru jarðplöturnar settar á annan hvern stólpa, nema í Hagavíkuhrauni. Þar voru engar jarðplötur settar, þar sem sýnilegt var að þar mundi ekki fást viðunandi jarðsamband. Plöturnar eru tengdar með 35 m/m2 einþættum eirvír við stauratoppjárnin og þar með við toppvírana.

Uppsetning línunnar
LjósafosslínaSíðari hluta vetursins 1935 var lagning línunnar boðin út, og hárust allmörg innlend og eitt erlent tilhoð í verk þetta. Engu tilboðinu var þó tekið, en Rafmagnsveitu Reykjavíkur falið að leggja línuna.
Fyrstu stólparnir komu til landsins í byrjun aprílmánaðar og hófst verkið þann 13. apríl með flutningum á trjánum á akfærum vegi. Þann 22. apríl byrjaði gröftur á holum og 24. apríl útdráttur efnisins frá vegi að holunum. Því næst hófst uppsetning stólpanna þann 7. maí og strenging víranna þann 23. maí. Var svo unnið að línulagningunni um sumarið og verkinu lokið þann 19. ágúst.

Elliðaárvirkjun

Rafstöðin við Elliðaár var ræst 1921.

Straumur var settur á línuna 21. ágúst og hefir hún síðan flutt raforku með 6000 volta spennu frá Elliðaárstöðinni til Ljósafoss, þar sem hún er notuð til véla og ljósa meðan á virkjuninni stendur.
Notaður var 1.5 ts. Studebaker-bíll til dráttar og grind af 3.5 ts. Studebaker-bíl, sem staurunum og öðru efni var ekið á. Var slegið upp sæti fyrir bílstjóra til að stýra aftari vagninum og voru þannig tveir menn við flutningana og affermingu vagnsins. Við fermingu vagnsins unnu 6—8 menn nokkra tíma á dag. Flutt voru í hverri ferð 6—8 tré, ásamt tilbeyrandi plönkum, og þeim velt af við veginn á þeim stöðum, sem næstir voru eða greiðastur aðgangur var að viðkomandi stólpastæði.
LjósafosslínaFyrstu trjánum var ekið út og dreift meðfram Mosfellssheiðarveginum upp að heimreiðinni að Bringubæ. Þá var trjánum næst velt af skammt frá Skeljabrekku og höfðu þá verið flutt öll tré á stólpastæði nr. 328—191.
Varð nú hlé á útflutningi trjánna vegna þess að gamli Þingvallavegurinn var ennþá ófær. En þar sem línan þverar gamla Þingvallaveginn átti að flytja öll tré á stólpastæðin nr. 190 til 107. Þann 19. maí hófust stólpaflutningarnir að nýju og var flutningi á þessi stólpastæði lokið þ. 8. júní.
LjósafosslínaÞví næst var gjörð tilraun með að flytja stólpa nr. 106—101 um Heiðabæ niður með Þingvallavatni að vestanverðu um Jórukleif, en það kom þegar í ljós, að ókleift mundi verða að komast þennan veg með svo fyrirferðamikinn flutning (stólpalengd alll að 17 m), að tekið varð það ráð, að flytja (511 trén niður að Þingvallavatni og fleyta þeim síðar á vatninu. Var fyrstu trjánum ekið niður að vatni hjá Heiðabæ. Sá vegur varð þó brátt ófær vegna rigninga og var þá farið með trén til Þingvalla. Voru þannig flutt öll tré á nr. 103—21. Trén á nr. 20—2 átti að flytja austur yfir fjall og upp með Grafningsvegi vestanvert við Sogið.
LjósafosslínaVegna langvarandi óþurka reyndist þessi vegur ófær og voru þá þessi tré flutt upp eftir Sogsveginum upp fyrir Ljósafoss og var þeim síðan fleytt yfir Sogið rétt fvrir ofan virkjunarstaðinn, en þar er Sogið lygnt og landtaka góð. Flutningi á trjám og plönkum var lokið þann 16. júlí.
Eirvir og stálvír var ekið út jöfnum höndum og stólpunum. Dráttarbíllinn hafði jafnan meðferðis 1—2 kefli af vír, og var til að byrja með flutt 8 kefli eirvírs og 2 kefli stálvírs á hvert fastastólpastæði. Seinna þurfti þó að bæta inn í. Einangrurum og járnþverslám var og ekið með þessum sömu flutningatækjum. Var þessum flutningi ekið niður með Þingvallavatni að vestanverðu um Jórukleif á stólpastæðin í Grafningnum. Flokkur vegagerðarmanna frá vegagerð ríkissjóðs vann að lagfæringu vegarins á þessum slóðum eftir því sem með þurfti.

Ljósafosslína

Jakob Guðjohnsen – (f. 23. janúar 1899, d. 11. október 1968). Jakob fæddist á Húsavík, sonur Stefáns Guðjohnsens verslunarstjóra og konu hans. Hann lauk verkfræðiprófi í Kaupmannahöfn 1926 og hóf þá þegar störf sem verkfræðingur hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og gegndi starfi rafmagnsstjóra frá 1961 til dauðadags. Myndin er tekin um 1930 við Kaldárhöfða í Grímsnesi.

Nokkrum járnslám var ekið til Þingvalla og þeim fleytt á stauraflekunum suður vfir vatnið. Loks var einangrurum og járnþverslám á síðasta parti línunnar ekið eftir Grafningsveginum.
Alls hefir verið unnið í 103 daga og ekið í 186 ferðum 530 ts., að meðaltali 2,85 ts. í ferð. Flutningsmagnið er alls um 20000 tskm., samsvarar það meðal flutningalengd 38 km. Ekin vegalengd er 15600 km og bensínnotkun 5700 lítrar eða 36.(5 lítrar á hverja 100 km.
Kostnaður við flutningana hefir orðið alls kr. 9242.17; flutningakostnaður kr. 6322.00 og afhendingarkostnaður kr. 2920.17. Afhendingarkostnaður á ts. nemur kr. 5.50, en kr. 15.70 á ferð. Flutningskostnaður nemur kr. 34.00 á ferð, en kr. 0.315 pr. tskm og er þá reiknað með kr. 4.50 pr. tíma fyrir flutningatækin, bensínnotkun og bílstjóra dráttarbílsins.

Fleyting trjánna
LjósafosslínaAlls var fleytt 202 trjám, ásamt nokkrum þverslám yfir Þingvallavatn í 7 ferðum með 20—38 trjám í hverjum fleka. Fyrsti flekinn, 20 tré, var dreginn á land í Hestvík, en sá næsti að Nesjum og voru í honum 36 tré. Hin trén voru sett á land í Hagavík. Þingvallabáturinn „Grímur Geitskór“ var notaður til þess að draga flekana og tók ferðin alls 0—8 tíma, þegar vel gaf á vatninu. Yfir Sogið voru dregin 58 tré.
Kostnaður við fleytingu á Þingvallavatni varð alls kr. 2149.94 eða um kr. 10.60 á tré, sem skiptist þannig, að fleyting kostaði kr. 7.80, en út- og uppdráttur kr. 2.80. Kostnaður við fleytingu yfir Sogið varð alls kr. 584.15, eða um kr. 10.00 á tré, sem skiptist þannig, að sjálf fleytingin kostaði kr. 6.10, en útdráttur kr. 3.90.

Flutningur frá vegi að stúlpastæðum

Ljósafosslína

Fordson 1937.

Við flutning á trjám og vír frá vegi að stólpastæðum voru notaðar dráttarvélar (traktorar). Var byrjað með 1 Fordson-traktor þann 24. apríl og unnu við þetta, auk ekilsins, tveir menn. Þar sem brátt varð augljóst, að þessi traktor myndi ekki geta annað þessum flutningum einn þegar línan fjarlægðist akveginn, var fenginn með honum 22 ha. Caterpillar-traktor og byrjaði hann þ. 15. júní upp við gamla Þingvallaveginn. Caterpillar-traktorinn dró jafnan 2—4 tré í ferð, ásamt tilheyrandi plönkum og járnþverslám. Hann var því notaður í lengstu ferðirnar og þær erfiðustu.
LjósfosslínaLengsta flutningaleiðin var frá gamla Þingvallaveginum að staurastæði nr. 107, um 7 km. Trén voru fest saman í rótendann með virum við járnplötu, sem endarnir hvíldu á. Var járnplatan beygð upp að framanverðu til þess að hún rynni betur þar sem óslétt var, þýft eða grýtt, og var plönkunum og þverslánum svo raðað ofan á trén. Reyndist þessi umbúnaður ágætlega og hlífði vel trjánum fyrir öllu hnjaski.
LjósafosslínaÍ Hagavíkurhrauni, sem er mjög óslétt og erfitt yfirferðar. Varð að gjöra veg fvrir traktorinn að hverju einstöku stólpastæði. Unnu nokkrir menn við að fylla stærstu gjóturnar og rífa niður hraunnybbur. Gengu flutningarnir yfir hraunið framar öllum vonum og komst hvert tré á sinn stað í tæka tíð. Yfirleitt má segja, að beltistraktorinn hafi reynst ágætlega á þverskonar jarðvegi, grjóti, möl eða graslendi og í bröttum brekkum. Þó voru nokkur stólpastæði, sem hann komst ekki upp á, t. d. stólpastæði nr. 94, 95 og 90 á Krummum og varð þar að draga staurana upp með talíum. Útdrætti allra stauranna var lokið þann 12. ágúst.

Ljósafosslína

Catepillar 1934.

Jafnhliða flutningi á trjánum var stál- og eirvír ekið út að fastastólpastæðunum. Var vírkeflunum komið fyrir á járnplötunni, sem áður var nefnd. Einangrurum var ekið út að mestu á hestvögnum, en traktorarnir hjálpuðu til á lengstu leiðunum, t. d. á Mosfellsheiðinni.

Gröftur og sprenging
Gröftur og sprenging á holunum hyrjaði þann 22. apríl og var lokið þann 12. ágúst. Í þessum flokki unnu auk flokksstjóra 24—25 manns. Þar af voru 2 menn eingöngu við borun á klöpp með þrýstiloftspressu, og 1 maður, sem var við hleðslu og sprengingu. 1 smiður vann að skerpingu verkfæra og annar, sem flutti verkfærin til hans og frá. Hinir voru svo ýmist við gröft á holum eða hreinsun á holunum eftir sprengingu, eftir þvi sem með þurfti.
LjósafosslínaÞær jarðvegsrannsóknir, sem gjörðar voru eftir að línustæðið var ákveðið, báru með sér að víða myndi þurfa að sprengja fyrir staurunum. Til þess að flýta fyrir verkinu var því ákveðið að bora með þrýstilofti og var fenginn 1 Atlas-Diesel þrýstiloftspressa með 2 borum. Pressan var flutt frá holu til holu með traktorunum, en annars voru notaðar 160 m gúmmíslöngur til þess að leiða þrýstiloftið að holunum, og mátti þá jafnan hora í 3 holum, án þess að flytja þyrfti pressuna til. Náðist þannig til flestallra holanna, nema nokkurra í Hagavíkurhrauni og varð þar að hora með handborum. Þá reyndist og vel að nota þrýstiloftsfleyghamra í móbergi og þar sem jarðvegur var mjög þéttur.
LjósafosslínaHolur venjulegs burðarstólpa eru 4 m breiðar og 1,2 til 1 m langar. Þar sem trén eru grafin niður á 1/6 hluta af lengd sinni voru þær frá 2.0 til 2.8 m djúpar. Rúmmál holu því 10—13 m3. Þar sem klöpp var í botni var víða skilið eftir haft á milli stauranna og plankarnir fluttir upp fyrir haftið.
Fastastólpaholur voru frá 22 upp í 50 m3 að rúmmáli eftir hæð trjánna. Alls voru grafnir 281.7 m3 á 84 vinnudögum, eða til jafnaðar 33.5 m3 á dag. Alls var sprengt 1697.2 m3 af klöpp á 78 vinnudögum. eða til jafnaðar 21.7 m3 á dag. Notað var sprengiefnið Minit, 1202.5 kg alls, eða 0.71 kg á m3 klöpp.

Aðflutningur á grjóti
Við aðflutning á grjóti í holurnar unnu 3 menn með 4 hesta og 2 kerrur. Auk þess voru notaðir lítilsháttar bílar þar sem hentugra reyndist að koma þeim að.

Ljósafosslína

Ljósafosslína – leifar á Mosfellsheiði.

Aðstaða til að ná grjótinu var mjög misjöfn; kom sumstaðar nóg grjót upp úr holunum við sprengingarnar og í Hagavíkurhrauni var að sjálfsögðu nóg grjót við hendina. Á öðrum stöðum d. d. sumstaðar á Mosfellslieiði, þurfti að sækja grjótið langar leiðir, því þó að hraunklöpp væri þar næstum í hverri holu, reyndist grjótið stundum of lítið, af því að jarðvegur er þar víða svo laus í sér og mosakenndur, að ekki var hægt að nota hann í fyllingu í holunum.

Ljósafosslína

Ljósafosslína – leifar á Mosfellsheiði.

Að samsetningu trjánna unnu 1 flokkstjóri og 7 menn með honum. Flokkur þessi tók við efninu, trjám, plönkum, járnabúnaði og einangrurum þar sem traktorarnir skildu við það, skrúfaði planka og járnþverslá á trén, festi upp einangrara og gekk þannig frá, að stólparnir voru tilbúnir til uppsetningar í holuna. Við samsetningu á fasta- og hornstólpum var notaður þrífótur með handspili, sem einnig var notaður við uppsetningu stólpanna. Kostnaður á stólpastæði hefir orðið kr. 21.20 að meðallali.

Ljósafosslína

Ljósafosslína – leifar á Mosfellsheiði.

Að uppsetningu stólpanna unnu auk flokksstjóra 14 menn og hestur með kerru, sem notaður var til flutninga á verkfærum á milli holanna. Stólparnir voru reistir með gálga úr stáli, sem spenntur var á trén. Úr gálganum liggur svo dráttartaug að litlu handspili, sem staurarnir voru drengir upp með. Tók það venjulega 10—15 mínútur að reisa venjulegan burðarstólpa með handspilinu. Reynt var að nota traktor við uppsetninguna og reyndist það mjög vel þar sem hægt var að koma því við. Við fasta- og hornstólpa þurfti að nota þrífót til þess að lyfta upp enda stólpans og létta undir með spilinu, en átakið á það er að sjálfsögðu mest meðan stólpinn er að lyftast frá jörðu. Þegar stóljnnn var reistur í holunni var honum fest með fjórum taugum úr toppi hans, sem strengdar eru í járnhæla, sem reknir voru í jörðu hver á móti öðrum. Voru taugar þessar og notaðar þegar rétta þurfti stólpann í holunni og ekki teknar fyr en hann var orðinn vel fastur.

Ljósafosslína

Studebaker 1934, 3.5 t.

Þrír menn úr flokki uppsetningarmanna réttu stólpann við, fluttu hann í línu og röðuðu grjóti með stólpanum í botni, svo að hann gæti ekki haggast. Þá tók við honum flokkur aðfyllingarmanna, en í þeim flokki unnu 11 til 14 menn, venjulega tveir menn saman í burðarstólpaholu, en 4 til 6 í fastastólpaholu. Fremstir í þessum flokki voru tveir menn, sem sáu um að koma fyrir jarðplötunni og þjappa að henni jarðveginum. Þeir réttu stólpana við, ef skekkst höfðu frá því að þeir voru settir upp og gengu þannig frá þeim, að þeir gátu ekki haggast.
Kostnaður við uppsetningu varð kr. 44.80 á stólpa, en kr. 32.80 á stólpa við aðfyllingu.

Uppsetning víra

Ljósafosslína

Ferja; Þingvallavatnsferjan Grímur geitskór, á kerru sem er aftan á traktor. Óþekktur maður stendur á veginum við hlið ferjunar. Aftan á pappírskopíu stendur „Þingvallavegur“. Þetta er á gamla Þingvallaveginum á milli afleggjarans niður að Heiðarbæ og Kjósaskarðsvegar. Horft til vesturs.
„Líklega er þessi mynd frá því að báturinn Grímur Geitskór var fluttur að Þingvallavatni (Valhöll) fyrir Alþingishátíðina 1930.

Að uppsetningu víranna vann auk verkstjóra 8 manns með 3 hesta. Hófst vinnan við þetta þ. 23. maí og var henni lokið þ. 19. ágúst. Vinnunni var hagað þannig, að stálvirinn var settur fyrst á parti. Vírinn var dreginn út með hestum og hengdur upp í kastblakkir á hverjum stólpa, til þess að hann skaddaðist ekki við að dragast eftir jörðunni. Var vírinn strengdur frá fastastólpa lil næsla fastastólpa, þar sem hann var festur í þar til gjörðum klemmum, sem slaka má á eða herða á, þangað til að strenging vírsins var sú rélla. Var strenging vírsins fundin með því að mæla slaka vírsins.
Sami flokkur uppsetningarmanna strengdi og eirvírinn og var jafnan haldið með hann að næsta fastastólpa við enda stálvírsins og þannig sett upp til skiftis stálvír og eirvír. Eirvírarnir voru og hengdir upp í hverjum stólpa í kastblakkir og dregnir út með hestum. Á fastastólpunum var settur upp vinnupallur fyrir uppsetningarmennina, meðan verið var að strengja vírinn og festa í klemmur einangraranna, en á burðarstólpunum var þetta gjört frá sjálfum trjánum.

Ljósafosslína

Fordson 1930.

Sérstakur maður vann að því að ganga frá grunntengingarvírunum og samsetningu þeirra við jarðplöturnar og staurajárnin.
Í Hagavíkurhrauni varð hestunum ekki komið við, við útdrátt á vírum og var vírinn þar dreginn út með handafli og aðstoðuðu menn frá graftrar- og aðfyllingarflokkunum við það.
Kostnaður við strengingu stálvírsins varð kr. 114.00 pr. km, en kr. 168.00 pr. km við strengignu eirvíranna.

Verkamenn og aðbúnaður þeirra

Ljósafosslína

Grímur geitskór á Þingvallavatni.

Að meðaltali á timabilinu unnu við línulagningu þessa 73 menn, en flestir 103 í einu, að meðtöldum 4 mælingamönnum og þeim, sem unnu við hleðslu flutningabílanna og samsetningu á járnabúnaði í bænum.
Fyrst i stað voru verkamennirnir fluttir á vinnustaðinn í bílum, en seinnipartinn í maí fluttu þeir í tjöld og var síðan tjaldað með 6—8 km millibili.
LjósafosslínaFyrsti tjaldstaðurinn var uppi við Varmá, og annar tjaldstaðurinn var við nýja Þingvallaveginn hjá Skeljabrekku. Því næst voru tjöldin flutt upp að gamla Þingvallaveginum hjá stólpastæði nr. 156.
Fjórði tjaldstaðurinn var i Grafningnum og sá fimmti og síðasti í Hagavík, og bjuggu þar um 80 manns, jafnan þrír saman í hverju tjaldi.
Slegið var upp skúr fyrir eldbúsi og voru tveir matsveinar við að elda matinn handa verkamönnunum. Þeir, sem að strengingu víranna unnu, voru um 5—10 km á eftir síðustu mönnum í fyrri flokknum og bjuggu þeir því sér í tjöldum. Einn matsveinn annaðist matreiðslu banda þeim.

Heildarkostnaður
Heildarkostnaður efnisins og uppsetning línunnar; samtals kr. 280154.50.

Heimild:
-Tímarit verkfræðingafélags Íslands 1937 – Háspennulínan Ljósafoss—Elliðaár eftir Jakob Guðjohnsen, hefti 1; bls. 1-8 og hefti II; bls. 9-18.

Ljósafosslína

Rafstöðin við Elliðaár var reist 1921. Hún var undanfari Ljósafossvirkjunar.

 

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn var lagður frá Geithálsi austur að Almannagjá á árunum 1890-1896 undir verkstjórn Árna Zakaríassonar og Einars Finnssonar. Guðjóni Helgason á Laxnesi vann m.a. að endurbótum vegarins snemma á 20. öld.

Gamli Þingvallavegur

Sæluhúsin við Gamla Þingvallaveginn.

Gamli Þingvallavegurinn var mikið framfaraspor á sínum tíma, hann var byggður á hestvagnaöld en nýttist einnig eftir að tímar bílsins runnu upp. Vegurinn var þó aðeins notaður í fáeina áratugi sem aðalleið til Þingvalla því ráðist var í vegagerð norðar á heiðinni fyrir Alþingishátíðina árið 1930. Gamli Þingvallavegurinn var þá fljótlega aflagður og hefur verið spillt til beggja enda en á háheiðinni er hann mjög heillegur á löngum kafla, þar er að finna ýmsar fornminjar, meðal annars hleðslur, vörður, grjóthlaðin ræsi og brýr.

Þrír áningastaðir eru þekktir á Mosfellsheiði; við elstu Þingvallaleiðina til vesturs að Seljadal og Bringum, undir Gluggavörðunni vestan Moldabrekkna, sæluhúsið í Moldabrekkum á sömu leið og loks sæluhúsin við Gamla Þingvallaveginn austan Rauðkuhóls. Rauðkuhóll er klappahóll til vinstri við veginn er vegurinn er farinn til austurs. Segir sagan að þar hafi fótbrotnað hryssa, er Rauðka hjet, hjá ferðamönnum úr Þingvallasveit. Meðal þeirra var Jónas hreppstjóri Halldórsson í Hrauntúni. Hafði hann broddstaf mikinn í hendi og keyrði í enni hryssunnar, og var hún þegar dauð.

Gamli Þingvallavegur

Sæluhúsið og „áningahúsið“ við Gamla Þingvallaveginn.

Kålund lýsir Þigvallaveginum svo 1877: „Yfir Mosfellsheiði (400 feta há) liggur fjölfarinn vegur til gamla alþingisstaðarins, Þingvalla, og þaðan greinist leiðin til fjarlægra héraða landsins. Úr öllum dölum Mosfellssveitar liggur leið upp á Mosfellsheiði; þó er aðalvegurinn eftir hinum syðsta þeirra, svonefndur Seljadalsvegur. Þá er farið – ef Reykjavík er hugsuð sem upphafsstaður – þegar nýkomið er yfir Elliðaár – í landnorður yfir grjótholt, oftast upp brekkur, fram hjá nokkrum tjörnum, þar til eftir nokkurra stunda reið er komið í Seljadal, lítill óbyggður dalur, og liðast á eftir honum, þar er venjulega áfangastaður, áður en lagt er á Mosfellsheiði“ (bls. 47).

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur.

„Árið 1886 var hafin lagning vegar um Mosfellsheiði. Var sú vinna hafin við Suðurlandsveg um dálitla lægð í Hólmsheiði, þar sem síðar urðu mjög kunn vegamót, því árið 1904 byggði Guðmundur Nordahl allreisulegt hús við vegamótin og kallaði það Geitháls, sem svo var greiðasölu- og gistihús í hartnær hálfa öld. Um þessa áðurnefndu lægð var svo vegurinn lagður upp á Hólmsheiðina fyrir sunnan bæinn Miðdal og þaðan á Mosfellsheiði sunnan við Grímmannsfell, norðan Borgarhóla um Moldbrekkur, að þar sem þverbeygja er nú á Þingvallaveginum, og þar sér enn fyrir gamla veginum. …

Þingvallavgegur

Gamli Þingvallavegurinn.

Þessari vegagerð um Mosfellsheiði, sem hófst árið 1886 var að fullu lokið árið 1891. Mikil vegagerð hefur það verið á þeim tíma, sem enn má sjá merki til, því enn má sjá ýmsar minjar, sem sýna hve vel hefur verið vandað til þessa vegar, sem þá var ætlað að taka við allmikilli umferð. Spá manna þá var sú að hestvagnar, sem reyndar voru ekki farnir að flytjast til landsins, myndu innan skamms tíma verða mikið notaðir á þessari leið. … Vegurinn liggur austan við Seljadalinn, en áður lá leiðin um þann dal…. Verkstjóri við lagningu Þingvallavegarins var Erlendur Zakaríasson, en hann og bróðir hans Árni, voru þekktir vegaverkstjórar á síðustu áratugum 19. aldar og fyrstu áratugum þeirrar tuttugustu“ (Adolf J. E. Petersen, bls. 90-92).

Af framangreindri lýsingu Kålunds má a.m.k. lesa tvennt; hann skrifar lýsingu sína 1877 og er þá að lýsa elstu Þingvallaleiðinni um Seljadal um Moldabrekkur, sem er nokkuð norðan Gamla Þingvallavegarins, sem byggður var á árunum 1890-1896. Við þá leið var byggt sæluhús í Moldabrekkum 1841. Húsið var byggt úr svnefndum Sýsluvörðum (Þrívörðum). Vatnslind er þá neðan við húsið. Lýsingunni virðist hafa verið bætt við upphaflegu lýsinguna.

Gamli Þingvallavegur

Eldra sæluhúsið við Gamla Þingvallaveginn.

Í Lögbergi-Heimskringlu 1890 segir að við Gamla Þingvallaveginn hafi verið byggt sæluhús 1890, á háheiðinni. Hleðslumeistari hafi verið Sigurður Hansson (1834-1896), sem hlóð einnig reisulegar vörður meðfram veginum. Hafa ber í huga að vörður a fyrirhugðum vagnvegum voru jafnan hlaðnar nokkru áður en fyrirhuguð vegagerð hófst.

Í framangreinda lýsingu virðist hafa gleymst að „sæluhús“ úrt torfi og grjóti hafði þegar verið reist á framangreindum stað, líklega fyrir 1890. Tóftir hússins eru skammt austan steinhlaðna hússins, sem líklegt er að hafi verið byggt um 1906 í tilefni af væntanlegri konungskomu Friðriks VIII árið 1907. Aftan (norðan) við gamla sæluhúsið mótar fyrir gerði.

Sæluhús

Sæluhúsið við gamla Þingvallaveginn um 1912.

Fyrirmenn hafa væntanlega ekki talið „sæluhús“ vegagerðarmanna, gert upp á íslenskan máta úr torfi og grjóti, boðlegt hinum konungbornu og því verið ákveðið að gera nýtt álitlegra „áningahús“ við hlið þess. Innandyra var aðstaða fyrir ferðamenn á upphækkuðum trépalli að austanverðu og fyrir nokkra hesta að vestanverðu.
Frá hússtæðunum er frábært útsýni, á góðum degi, yfir Þingvallasvæðið framundan. Framan við gamla „sæluhúsið“ hefur verið grafinn og gerður upphlaðinn brunnur. Vel má enn merkja ummerki hans.

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur – horft til austurs, í átt til Þingvalla, frá sæluhúsinu.

FERLIRsfélagar heimsóttu verkmenn við endurbyggingu „áningahússins“ við Gamla Þingvallaveginn og skoðuðu minjarnar. Var tekið vel á móti þeim og verkefninu lýst með ágætum.

Sjá meira um gamla sæluhúsið í Moldarbrekkum HÉR.

Heimildir:
-https://www.visir.is/g/2016161219351/thingvallavegur
-Adolf J. E. Petersen. Samgönguleiðir til Reykjavíkur að fornu og nýju. Reykjavík miðstöð þjóðlífs. Safn til sögu Reykjavíkur. Sögufélagið 1977.
-Kålund, P. E. Kristian. Íslenskir sögustaðir. þýð. Haraldur Matthíasson. Reykjavík 1984.
-Stefán Þorvaldsson. „Lýsing Mosfells- og Gufunessókna“. Sýslulýsingar og sóknalýsingar. Landnám Ingólfs. Safn til sögu þess III. Félagið Ingólfur gaf út. Reykjavík 1937-1939.
-Sveinn Pálsson. Ferðabækur Sveins Pálssonar. Dagbækur og ritgerðir 1791-1797. Reykjavík 1945.

Gamli Þingvallavegurinn

FERLIRsfélagar ásamt verkönnum við endurgerð gamla „áningarstaðirns“.

Moldbrekkur

FERLIR ákvað að skoða tvær merkar minjar; sæluhúsið í Moldbrekkum á Mosfellsheiði og Mosfellssel við Leirvogsvatn.

Moldbrekkur

Moldbrekkur – hin „Sýsluvarðan“, nú fallin.

Í Árbók Ferðafélags Íslands 2019 segir m.a. um „Sæluhúsið“ í Moldbrekkum: „Árið 1841 var byggt sæluhús í Moldbrekkum á norðanverðri Mosfellsheiði og þar vory hlaðnar svonefndar Sýsluvörður á mörkum Kjósarsýslu (nú Mosfellsbæjar) og Árnessýslu. Grjót úr vörðunum var notað í húsið og hreppsstjóri Mosfellinga, Jón Stephensen (1794-1853) á Korpúlfsstöðum, og Þingvellinga, Kristján Magnússon 1777-1843) í Skógarkoti, völdu staðinn.
Sæluhúsið stóð allhátt í landslaginu og örskammt þaðan var vatnslind. [Vatnslindin sést vel norðan í Moldbrekkum, en er nú uppþornuð]. Greint er frá húsinu í sýslulýsingu Árnessýslu frá árinu 1842: „Í sumar er var, var byggt nýtt sæluhús á miðri Mosfellsheiði af Þingvalla- og Mosfellssveitar innbúum. En eftir er þá að ryðja og varða vel heiðina, sérílagi að austanverðu, og mun á því verða byrjað á sumri komanda.“

Moldbrekkur

Moldbrekkur.

Sæluhúsið í Molbrekkum skapaði öryggi fyrir vegfarendur og í illviðrum gat þetta litla torfhýsi skilið á milli feigs og ófeigs. Snemma marsmánaðar árið 1857 héldu 14 vertíðarmenn úr Biskupstungum og Laugardal frá Þingvöllum vestur yfir Mosfellsheiði þar sem þeir hrepptu norðanstórviðri. Þeir huguðst leita skjósl í sæluhúsinu en fundu það ekki og héldu áfram í áttina að Mosfellsdal með tilfallandi afleiðingum.“

Austan á hálsinum ofan við Moldbrekkur eru svonefndar „Sýsluvörður“ á mörkum Mosfellsbæjar, Grímsnes- og Grafningshrepps og Bláskógabyggðar.  Önnur þeirra stendur enn, en hin mætti sjá fífilinn fegurri.

Mosfellssel

Mosfellssel.

Í “Skráning fornleifa í Mosfellsbæ 2006” má sjá eftirfarandi um Mosfellssel: “Í Lýsingu Mosfells- og Gufunessókna segir: „Selstöður eru hvergi hafðar nema frá Mosfelli, við Leirvogsvatn undir Illaklifi; er þangað langur vegur og slitróttur yfirferðar“ (Stefán Þorvaldsson, bls. 237).
„Örnefni benda til fleiri selja. T.d. í Mosfellskirkjulandi er mýrarfláki sem heitir Selflá. Þar voru ær hafðar í seli inni í Klifi [Þetta mun vera Illaklif við Leirvogsvatn]. Selmatráðskona var þar Ragnhildur Þórðardóttir“ (Þjóðháttarannsókn stúdenta 1976).
Við sunnanvert Leirvogsvatn, norðan undir Illaklifi, þar sem það byrjar austanmegin, um 30-40 m ofan við vatnið, er dálítil kvos eða hvammur. Frá náttúrunnar hendi er þetta ákjósanlegur staður fyrir sel. Vestan við eru skriður og lítið undirlendi neðan þeirra.

Mosfellssel

Mosfellssel.

Austan við eru mýrarflákar sem halla niður að vatninu. Staður þessi er greinilega ekki valinn af neinu handahófi, heldur sá besti og líklega sá eini nothæfi þarna megin við vatnið. Þarna er selrúst, sem samanstendur af tveimur húsum, og tvær kvíar (Ágúst Ó. Georgsson).
Selrústir samanstanda af þremur húsum, sem öll snúa dyrum í N. V húsið er um 3×4 m, að innanmáli. Veggjaþykkt um 1 m. Hús þetta snýr framgafli í N, móti vatninu. Sjást grjóthleðslurnar í veggjunum vel. Miðhúsið er aflangt og eru dyr á miðri N-langhlið. Stærð þess er um 3×6 m að innanmáli. Hæð veggja er um 1 m, þykkt veggja um 1 m. Hér sjást grjóthleðslurnar í veggjum sérlega vel. Þessi tvö hús (mið- og vesturhús) eru að hluta grafin inn í brekkuna, sem er á bakvið.

Mosfellssel

Mosfellssel – austasta tóftin.

Austasta húsið er skemmt að hluta en þó má vel sjá lögun þess. Stærð þess er um 2×3 m. Veggjaþykkt um 1 m. Hús þetta snýr framgafli í N, niður að vatninu eins og hin tvö, og á honum eru dyr. Þessi hús, sem mynda selið, standa samsíða. Dálítið bil er á milli miðhúss og austurhúss.
Mætti e.t.v. giska á að þar hafi eldaskáli eða hús verið. Miðhúsið svefn- eða íveruhús og það vestra mjólkurhús. Svæði þetta var í Mosfellskirkjueign til 1934 en er nú í eigu Mosfellshrepps (Ágúst Ó. Georgsson).

Mosfellssel

Mosfellssel – stekkur.

Við sunnanvert Leirvogsvatn, norðan undir Illaklifi, þar sem það byrjar austanmegin, um 30-40 m ofan við vatnið, er dálítil kvos eða hvammur. Frá náttúrunnar hendi er þetta ákjósanlegur staður fyrir sel. Vestan við eru skriður og lítið undirlendi neðan þeirra. Austan við eru mýrarflákar sem halla niður að vatninu. Staður þessi er greinilega ekki valinn af neinu handahófi, heldur sá besti og líklega sá eini nothæfi þarna megin við vatnið. Þarna er selrúst, sem samanstendur af tveimur húsum, og tvær kvíar (Ágúst Ó. Georgsson).
Aftan við selið er kvíarúst (N-við). Garðar hafa verið hlaðnir þar við stóra steina og myndar umhverfið þannig verulegan hluta kvíanna. Ofan við kvíarnar er brött og grýtt hlíð (Illaklif). Kvíunum er skipt í tvo hluta með garði og framan við innganginn er aðrekstrargarður til að auðvelda innrekstur ánna. Að innanmáli eru kvíarnar um 5 x 6 m. Eru þær að mestu eða öllu leyti hlaðnar úr grjóti. Veggjahæð er 0,5 – 1,2 m. Selið er allt hlaðið úr torfi og grjóti, en grjót er þó mest áberandi í innri veggjahleðslum (Ágúst Ó. Georgsson).”

Mosfellssel

Mosfellssel.

Hér kemur síðan vísbending um tilvist fyrstnefndu minjanna, þ.e. hugsanlegs kúasels: “Um 12-13 m austan við kvíarnar eru aðrar kvíar sem eru all frábrugðnar að lögun. Þessar kvíar eru aflangar, um 2×14 m, með inngang á miðjum N-langvegg. Veggjaþykkt er ca 1 m og veggjahæð 0,5 m ca. Svæði þetta var í Mosfellskirkjueign til 1934 en er nú í eigu Mosfellshrepps. (Heimildaskrá: Ágúst Ó. Georgsson, Fornleifaskráning í Mosfellssveit 1980-1982. Skráningarbækur Þjóðminjasafns).”
Svo virðist sem þarna gæti jafnvel hafa verið kúasel forðum, sem síðar hafi, annað hvort breyst í fjársel eða verið fært nær Mosfelli [sbr. sel á Selflötum norðan Mosfells og heimasels í Selbrekkum ofan Laxness]. Minjarnar undir Illaklifi benda þó til þess fyrrnefnda. Auk Mosfellssels má sjá merki um kúasel víðar á Reykjanesskaganum, s.s. við Urriðavatn, í Helguseli í Bringum, í Helgadal, í Kringlumýri, í Viðeyjarseli (Bessastaðaseli) og í Fornaseli.

Mosfellssel

Mosfellssel – selsvarða.

Grafið hafði verið nýlega í vegg og miðju austustu tóftarinnar í Mosfellsseli, væntanlega eldhúsið. Í sjálfu sér mælir fátt á móti slíkri rannsókn í vísandlegum tilgangi, en svo virðist með gleymst hafi að kenna slíku fólki frágang á vettvangi; uppgreftri „höslað“ aftur á sama stað, án nokkurrar vandvirkni eða tillitsemi við minjanna. Afgangsgrjót lá á stangli utan í tóftunum og ásýndin stakk í augu þeirra er hafa eindreginn áhuga á slíkum minjum. Sorglegt á að líta!
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 20 mín.

Heimildir m.a:
-Árbók Ferðafélags Íslands 2019.
–Skráning fornleifa í Mosfellsbæ 2006, Þjóðminjasafn Íslands.

Moldbrekkur

Moldbrekkur – gamla sæluhúsið.

Mosfellsheiði

Merkileg varða, „Gluggavarðan„, stendur á jökulsorfnu hvalbaki á norðanverði Mosfellsheiði.

Gluggavarða

Gluggavarða.

Sunnan vörðunnar eru ummerki eftir vatnsstæði og gróðursælar torfur í heiðinni. Mýrardrög eru þar nálægt, auk þess sem hin forna „Seljadalsleið“, þ.e. eldri gata um Mosfellsheiðina til Þingvalla, lá í gegnum svæðið með stefnu á sæluhúsatóft í Moldbrekkum. Ljóst er, af hinum mörgu aðlíðandi kindagötum að dæma, að svæðið hefur þótt eftirsótt fyrrum, bæði af mönnum og skepnum. Líklegt má telja að Gluggavarðan hafi frá upphafi verið, bæði og hvorutveggja, leiðartákn að áningarstað á miðri heiðinni sem og tímabundnum dvalarstað Grafningsfólks, sem heyjaði mýrardrögin sem og afliggjandi flóann áleiðis niður að Litla-Sauðafelli.

Gluggavarða

Gluggavarða – hleðslur sunnan við vörðuna.

Sunnan við hvalbakið, sem varðan stendur á, eru jarðlægar hleðslur. Líklegt má telja að þær séu leifar eftir tjaldbúð. Vestan við hólinn er gróið aflíðandi jarðfall; kjörið tjaldstæði.

Hleðslulag „Gluggavörðunnar“ er engin tilviljun. Slíkar vörður voru fyrrum nefndar „strákar“, „stelpur eða „stúlkur““. Ástæðan fyrir nefnunni er óþekkt, en hún virðist ekki hafa haft neinn sérstakan tilgang annan en að búa til áauðvísandi mannvirki í víðfeðmni.
Í lok 19. aldar gerðu vegavinnumenn í þegnskaparvinnu það stundum að gamni sínu að hlaða „öðruvísi“ vörður á stöku stað, líkt og „Prestsvörðuna“ við Prestastíginn á vestanverðum Reykjanesskaganum og Berserkjavörðuna við Þingvallaveginn gamla.

Gluggavarða

Gluggavarða.

Í Árbók Ferðafélags Íslands 2019 segir einungis um „Gluggavörðuna“: „Þessi myndarlega gluggavarða stendur við Seljadalsleið norðarlega á Mosfellsheiði. Varðan hvílir á fjórum grjótfótum á klöpp og hefur þess vegna ekki haggast í aldanna rás. Hægt er að miða út höfuðáttir á milli fóta hennar.“

Moldbrekkur

Moldbrekkur – tóft sæluhússins.

Í Árbókinni segir jafnframt um „Sæluhúsið“ í Moldbrekkum: „Árið 1841 var byggt sæluhús í Moldbrekkum á norðanverðri Mosfellsheiði og þar vory hlaðnar svonefndar Sýsluvörður á mörkum Kjósarsýslu (nú Mosfellsbæjar) og Árnessýslu. Grjót úr vörðunum var notað í húsið og hreppsstjóri Mosfellinga, Jón Stephensen (1794-1853) á Korpúlfsstöðum, og Þingvellinga, Kristján Magnússon 1777-1843) í Skógarkoti, völdu staðinn.

Moldbrekkur

Moldbrekkur – sæluhúsið.

Sæluhúsið stóð allhátt í landslaginu og örskammt þaðan var vatnslind. Greint er frá húsinu í sýslulýsingu Árnessýslu frá árinu 1842: „Í sumar er var, var byggt nýtt sæluhús á miðri Mosfellsheiði af Þingvalla- og Mosfellssveitar innbúum. En eftir er þá að ryðja og varða vel heiðina, sérílagi að austanverðu, og mun á því verða byrjað á sumri komanda.“
Sæluhúsið í Moldbrekkum skapaði öryggi fyrir vegfarendur og í illviðrum gat þetta litla torfhýsi skilið á milli feigs og ófeigs. Snemma marsmánaðar árið 1857 héldu 14 vertíðarmenn úr Biskupstungum og Laugardal frá Þingvöllum vestur yfir Mosfellsheiði þar sem þeir hrepptu norðanstórviðri. Þeir huguðst leita skjósl í sæluhúsinu en fundu það ekki og héldu áfram í áttina að Mosfellsdal með tilfallandi afleiðingum.“

Heimild m.a.:
-Árbók Ferðafélags Íslands 2019.

Gluggavarða

Mýrarfláki við Gluggavörðuna.

Gamli Þingvallevgur

Á vefsíðu FÍ 2019 er m.a. viðtal við Magréti Sveinbjörnsdóttur í tilefni af útgáfu Árbókar ferðafélagsins um „Mosfellsheiði – landslag, leiðir og saga„;

Árbók FÍ 2019

Árbók FÍ 2019.

„Eitt af því sem setur ímyndunaraflið af stað hjá mér þegar ég geng um Mosfellsheiði eru rústir sæluhúsanna sem þar er að finna. Eftir að hafa lesið frásagnir af hrakningum á ferðalögum og draugagangi í sæluhúsum er auðvelt að sjá fyrir sér dramatískar senur frá ferðalögum fyrri alda þegar fólk varð að komast af án GPS, GSM og goretex!“ Þetta segir Margrét Sveinbjörnsdóttir, menningarmiðlari frá Heiðarbæ og vefritstjóri á skrifstofu Alþingis. Hún er einn þriggja höfunda Árbókar Ferðafélags Íslands 2019, en bókin nýja hefur einmitt Mosfellsheiðina í háskerpu, landslag, leiðir og sögu.

Ferðafélag Íslands gaf út sína fyrstu árbók árið 1928 en hún hefur komið út árlega í óslitinni röð og er einstæður bókaflokkur um landið okkar og náttúru.

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði – kort.

Mosfellsheiði er víðlent heiðarflæmi sem rís hæst 410 metra yfir sjávarmál í Borgarhólum sem eru kulnuð eldstöð. „Eldvirkni hefur verið víðar á háheiðinni enda er hún að stórum hluta þakin grónum hraunum,“ segir Margrét. „Víðfeðmir melar og móar, grashvammar og tjarnir setja einnig sterkan svip á heiðina. Fuglalíf er þar nokkuð fjölskrúðugt og ber þar mest á mófuglum. Endur og álftir verpa við heiðartjarnir og rjúpur og hrafnar sjást víða á sveimi.“

Árbók FÍ 2019

Höfundar Árbókar FÍ 2019; Jón Svanþórsson, Margrét Sveinbjörnsdóttir og Bjarki Bjarnason.

Margrét reit árbókina nýju í félagi við þá Bjarka Bjarnason, rithöfund og smala á Hvirfli í Mosfellsdal en hann er einnig forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar, og Jón Svanþórsson, rannsóknarlögreglumann og göngugarp í göngu- og útivistarfélaginu Ferlir. Þeir þekkja báðir mjög vel til á heiðinni eins og Margrét. Bjarki hefur ritað ýmislegt um sögu og náttúru Mosfellssveitar, þar á meðal heiðarinnar.

„Við Bjarki slitum barnsskónum hvort sínu megin heiðarinnar og höfum löngum smalað þar fé,“ segir Margrét, „farið þar í göngu- og reiðtúra og þekkjum vel til örnefna og sögu svæðisins.“

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði 1914 – kort; Jón Svanþórsson.

Hún bætir því við að Jón hafi á undanförnum árum gengið fjölmargar leiðir á heiðinni, rakið sig eftir vörðum og hnitsett þær sem skiptir verulegu máli varðandi það að tryggja ferðalög á nútímavísu. „Hann hefur talið um 800 vörður á heiðinni frá Þingvallavegi í norðri að Engidalsá vestan við Hengil í suðri. Langflestar þeirra standa við gamlar þjóðleiðir, þar af eru 100 vörður við Gamla Þingvallaveginn.“

„Í bókinni höfum við Bjarki og Jón lagt áherslu á að á heiðinni sé að finna leiðir við allra hæfi, það er einfalt og aðgengilegt að komast að flestum þeirra og í þeim tilgangi lýsum við nokkrum lykilstöðum, þar sem lagt er upp í ferðirnar og auðvelt er að skilja bíla eftir,“ segir Margrét.

Nýjar leiðir – troðnar leiðir – týndar leiðir

Þingvallavegur

Þingvallavegur dagsins í dag.

Þótt Mosfellsheiði blasi nú við fleirum en nokkru sinni – með býsna vinsælan akveg til Þingvalla, þá eru höfundar engu síður á því að heiðin sé vel falin útivistarperla í næsta nágrenni við höfuðborgarsvæðið. Það er nú líka oft þannig að það þarf að horfa ögn betur á umhverfið en unnt er á rösklega hundrað kílómetra hraða til að uppgötva það sem allir í raun sjá – en enginn tekur eftir.

Um Mosfellsheiði liggja fjölmargar leiðir frá ýmsum tímaskeiðum Íslandssögunnar og hún er kjörinn vettvangur fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna.

 

Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn – ræsi og varða framundan.

„Ekki spilla síðan fyrir þær fjölmörgu sögur sem tengjast heiðinni og ferðum um hana frá fyrri tíð, en vegna þess að yfir Mosfellsheiði liggja leiðir til Þingvalla kemur heiðin við sögu í ferðalýsingum flestra þeirra erlendu ferðabókahöfunda sem hingað komu á fyrri öldum. Margir þeirra lýstu heiðinni sem endalausu flæmi af grjóti og þótti hún heldur tilbreytingalaus – en aðrir nutu kyrrðarinnar og þótti víðáttan heillandi,“ segir Margrét.

Kaffi Heiðablómið og Borgarhólar

Heiðarblóm

Heiðarblómið.

Yfirleitt er það nú þannig að þeir sem þekkja vel til í víðfeðmu landi eiga sér yfirleitt einhvern uppáhaldsstað, leynda perlu. „Sá staður á heiðinni sem kemur þeim sem ekki hafa komið þangað áður hvað mest á óvart eru Borgarhólarnir, gömul eldstöð úr grágrýti. Þar eru grösugir hvammar innan um lága kletta, gott útsýni, ljómandi gott skjól og alveg örugglega fyrirtakshljómburður. Þar langar mig að halda útitónleika með kórnum mínum, Söngfjelaginu, hver veit nema það verði einhvern tíma að veruleika,“ segir Margrét.

Skammt frá Borgarhólum var snemma á síðustu öld kaffihús uppi á miðri heiði við Háamel. Kaffi Heiðablómið hét þetta kaffihús sem var merkisberi nýrrar samgöngubyltingar og fól í sér bjartsýni á hreyfingu fólks milli staða. Það var danskur veitingamaður, Hartvig Nielsen að nafni, sem hóf þar veitingasölu sumarið 1913.

Gamli Þingvallavegur

Tóftir Heiðarblómsins.

„Hann var greinilega markaðsmaður, því hann valdi húsinu stað mitt á milli tveggja alfaraleiða; hinnar gömlu Seljadalsleiðar og nýja Þingvallavegarins sem svo var nefndur á þeim tíma,“ segir Margrét. Það er nú þannig að ekkert er eins forgengilegt og tískan og tíminn gerir það nýja óvenjuhratt að því gamla enda gengur nú Nýi Þingvallavegurinn undir nafninu Gamli Þingvallavegurinn.

„Reksturinn lifði því miður ekki lengi, aðeins eitt sumar eða tvö. Rústirnar eru hins vegar ennþá vel sýnilegar. Ég myndi gefa mikið fyrir að geta ferðast rúm hundrað ár aftur í tímann og fengið mér þar hressingu!“

Bæklingurinn sem breytist í heila árbók

Mosfellsheiðarleiðir

Mosfellsheiðarleiðir.

Þegar vikið er að tilurð bókarinnar segir Margrét að upphaflega hugmyndin hafi verið sú að gefa út veglegt gönguleiðakort eða -bækling.
„Sú hugmynd hafði reyndar kviknað á tveimur stöðum á svipuðum tíma; í spjalli okkar Bjarka og Jóhannesar bróður míns, bónda á Heiðarbæ, í smalamennskum á heiðinni og í gönguferðum Jóns og Ómars Smára Ármannssonar í útivistarfélaginu Ferlir,“ segir Margrét.

„Síðan vildi svo vel til að leiðir lágu saman, einhverju sinni hringdi Jón í Bjarka til að spyrja hann um örnefni á heiðinni og upp úr því spjalli fórum við að ræða að snjallt gæti verið að leggja saman krafta okkar. Síðan eru liðin allmörg ár – ýmist á göngu þvers og kruss um heiðina, þar sem við höfum rakið okkur eftir misgreinilegum slóðum og vörðubrotum, eða heima yfir hinum ýmsu heimildum og kortum, á spjalli við staðkunnuga og þannig mætti lengi telja.“

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði – gamla sæluhúsið við gömlu Seljadalsleiðina.

Margrét segir að hugmyndin hafi smám saman vaxið og þar hafi komið að þau sömdu við Ferðafélagið um útgáfu á gönguleiðabók með sögulegum innskotum og nokkuð ítarlegum inngangsköflum um jarðfræði, náttúru, vörður, vegagerð og sæluhús.

„Þegar við vorum að því komin að skila handritinu vorið 2017 varpaði framkvæmdastjórinn Páll Guðmundsson fram þeirri hugmynd að bæta í og skrifa heila árbók, sem kæmi út vorið 2019. Við þurftum nú aðeins að hugsa okkur um, ekki síst vegna þess að það þýddi að útgáfan myndi dragast um tvö ár – en auðvitað var þetta líka mikill heiður, því það hlaut að þýða að Ferðafélagið hefði trú á verkefninu.“

Mosfellsheiði

Sæluhúsið við „Gamla-Þingvallaveginn“.

Margrét, Bjarki og Jón voru þakklát traustinu og grófu meira í fortíðina og bættu á garðann. „Inngangskaflarnir voru auknir og endurbættir allverulega og fleiri köflum bætt við, þar til útkoman varð fullburða handrit að árbók.“
Margrét segir að seinni hluti handritsins, ítarlegar lýsingar á 23 leiðum með kortum, myndum og hnitum, hafi síðan orðið að bókinni Mosfellsheiðarleiðir sem komi út í kjölfar árbókarinnar. „Þó að megináherslan þar sé á lýsingar gönguleiða er leiðunum einnig lýst með tilliti til þeirra sem kjósa að fara ríðandi, hjólandi eða jafnvel á skíðum yfir heiðina.“

Ljósmyndir segja meira en mörg orð

Mosfellsheiði

Jón Svamþórsson í Gamla sæluhúsinu við Seljadalsleið 2014.

Gríðarlega fallegar ljósmyndir prýða nýju árbókina og segja þær meira en mörg orð. „Við vorum svo ljónheppin að fá til liðs við okkur ljósmyndarana Sigurjón Pétursson og Þóru Hrönn Njálsdóttur, sem hafa farið ótalmargar ferðir á heiðina til að ná réttu myndunum, í réttri birtu og frá réttu sjónarhorni,“ segir Margrét. „Sumum myndunum þurfti vissulega að hafa meira fyrir en öðrum, eins og til dæmis myndunum sem þau náðu loks eftir margar ferðir að greni í jaðri heiðarinnar; af tófu og yrðlingum.“
Jón Svanþórsson hafði ferðast um Heiðina um langt skeið með það að markmiði að staðsetja þar örnfni og minjar, auk þess sem hann hafði lagt mikla vinnu í að rekja hinar fornu leiðir um Heiðina.

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði – Þrívörður.

„Í Árbókinni er einnig nokkuð mikið af eldri, sögulegum myndum, sem höfundar hafa aflað á ljósmyndasöfnum og víðar. „Þá höfum við notið sérfræðiþekkingar og áratugareynslu Guðmundar Ó. Ingvarssonar, sem sá um kortagerð fyrir báðar bækurnar. Ritstjórinn Gísli Már Gíslason braut um árbókina og hönnuðurinn Björg Vilhjálmsdóttir mun hanna gönguleiðabókina. Við höfum með öðrum orðum notið þess að hafa valinn mann í hverju rúmi.“

Öll heimsins vandamál leyst á góðri göngu

Þingvallavegur

Mælisteinn við gömlu Þingvallaleiðina.

„Ég átta mig betur og betur á því eftir því sem árin líða hversu mikilvæg óspillt náttúra er – og hvað útivera í náttúrunni gefur mér mikinn kraft og hugarró,“ segir Margrét um ást sína á ferðalögum á tveimur jafnfljótum. „Ég slaka óvíða jafn vel á og á göngu. Svo getur maður líka leyst öll heimsins vandamál á göngu, ýmist í samræðum við góða göngufélaga eða einn með sjálfum sér,“ segir rithöfundurinn.
„Það skiptir öllu máli að við verndum þá einstöku náttúru sem við erum svo lánsöm að hafa aðgang að hér á Íslandi – með hóflegri og skynsamlegri nýtingu, þannig að við skilum jörðinni í sama og helst betra ástandi til komandi kynslóða.“

Heimild:
-https://www.fi.is/is/frettir/mognud-mosfellsheidi-i-arbok-ferdafelagsins
-Mosfellsheiði í Árbók Ferðafélagsins, 30.04.2019.

Þingvallavegur

Uppgefinn bíll á gamla Þingvallaveginum.

Mosfellsheiði

Eftirfarandi umfjöllum um „Töfra Mosfellsheiðar“ birtist í Morgunblaðinu árið 2021:

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði – kort.

„Mosfellsheiði er víðlent heiðarflæmi á suðvesturhorni landsins. Má með nokkurri einföldun segja að Þingvallavegur og Suðurlandsvegur rammi heiðina inn að norðan- og sunnanverðu, hún nái að íbúðarbyggð í Mosfellsbæ að vestanverðu og langleiðina að Þingvallavatni í austri.

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði-kort 1908.

Heiðin er innan lögsögumarka sex sveitarfélaga. Þau eru Mosfellsbær, Reykjavíkurborg, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Sveitarfélagið Ölfus og Kópavogsbær. Eignarhaldið er ýmist á hendi sveitarfélaganna sjálfra eða einstakra bújarða en nafn heiðarinnar vísar til prestssetursins á Mosfelli í Mosfellsdal sem átti vesturhluta heiðarinnar til ársins 1933 þegar íslenska ríkið festi kaup á þeim hluta. Mosfellsheiði rís hæst 410 m y.s. í Borgarhóum sem eru kulnuð eldstöð. Eldvirkni hefur verið víðar á háheiðinni enda er hún að stórum hluta þakin grónum hraunum. Víðfeðmir melar og móar, grashvammar og tjarnir setja einnig sterkan svip á nátt­úru heiðar­inn­ar.

Mosfellsheiðarleiðir

Mosfellsheiðarleiðir.

Fyrir tveimur árum kom út gönguleiðaritið Mosfellsheiðarleiðir sem Ferðafélag Íslands gaf út. Í ritinu eru lýsingar á samtals 23 leiðum. Tólf þeirra eru gamar þjóðleiðir, sex hringleiðir og fimm línuvegir.

Nokkrir lykilstaðir eru á Mosfellsheiði og frá þeim liggja síðan áhugaverðar gönguleiðir.

Bringur

Bringur

Bringur – bærinn; loftmynd 1954.

Ekið er austur Mosfellsdal í átt til Þing­valla. Beygt er til hægri af Þingvallavegi ofan við Gljúfrastein og síðan farið eftir allgrófum malarvegi um 900 metra leið að eyðijörðinni Bringum, þar sem hægt er að leggja bílum. Náttúrufegurð er mikil í Bringum, útsýni til hafs og mannvistarleifar frá þeim tíma þegar búseta var þar.

Náttúran og sagan voru aðalástæður þess að hluti af Bringnajörðinni var gerður að fólkvangi árið 2014. Hægt er að ganga hringleið um fólkvanginn eftir göngustíg sem liggur frá bílstæðinu, fyrst niður að Köldukvísl, þar sem getur að líta tóftir Helgusels, síðan upp með ánni að Helgufossi og loks í norðurátt að bæjarrústum ofarlega í túninu og til baka á bílastæðið. Sú ganga tekur um 40 mínútur. Þeir sem kjósa lengri ferðir geta valið um sjö leiðir sem eiga upphaf sitt hér.

Skeggjastaðir

Skeggjastaðir

Skeggjastaðir og Hrafnhólar.

Leiðin að Skeggjastöðum liggur til norðurs af Þing­valla­vegi efst í Mos­fells­dal, á móts við bæinn Selja­brekku. Eft­ir að hafa ekið 2,2 km í norðurátt kom­um við að Skeggja­stöðum sem var landnámsjörðin í Mosfellssveit eins og fram kemur í Landnámu: „Þórðr skeggi hét maðr. Hann var sonr Hrapps Bjarnarsonar bunu. Þórðr átti Vilborgu Ósvaldsdóttur. Helga hét dóttir þeira. Hana átti Ketilbjörn inn gamli. Þórðr fór til Íslands ok nam land með ráði Ingólfs í hans landnámi á milli Úlfarsár ok Leiruvágs. Hann bjó á Skeggjastöðum. Frá Þórði er margt stórmenni komit á Íslandi.“ Með þennan fróðleiksmola úr Landnámu í veganesti hefjum við för okkar um Stardalsleið.

Vilborgarkelda

Vilborgarkelda

Vilborgarkelda – kort.

Vilborgarkelda, oft kölluð Keldan, er blautlent og grasi gróið landsvæði í 220 metra hæð yfir sjávarmáli, austarlega á Mosfellsheiði. Þeir sem hyggjast fara þangað og koma akandi yfir Mosfellsheiði eftir Þingvallavegi beygja til hægri inn á Grafningsveg og síðan fljótlega aftur til hægri við Gíslhól, á móts við gámasvæði sem þar er. Þá erum við komin á Þingvallaveginn frá ár­inu 1930 sem liggur hér ofan á Gamla Þingvallaveginum frá 1896. Farið er um Harðavöll, Ferðamannahorn og Þorgerðarflöt. Eftir 2,8 km akstur komum við í Vilborgarkeldu.

Draugatjörn

Draugatjörn

Draugatjörn og Draugatjarnarrétt.

Leiðin að Draugatjörn liggur frá Suðurlandsvegi fyrst í áttina að Hellisheiðarvirkjun, fram hjá stöðvarhúsinu og síðan til vinstri, inn á gamla þjóðveginn sem lagður var frá Reykjavík og austur yfir Hellisheiði á árunum 1876-1878 og var þjóðbrautin austur fyrir Fjall til ársins 1958.

Á mótum nýja og gamla vegarins er við hæfi að staldra við og horfa heim að Kolviðarhóli og jafnvel að aka þangað um leið og við rifjum upp þá tíma þegar staður­inn var í alfaraleið og gestkvæmt var á Hólnum.

Búasteinn

Búasteinn.

Grasi gróin veggjabrot minna á blómlegt mannlíf og merka sögu á horfinni öld og skammt frá bæjarhólnum má sjá stóran, stakan klett. Þetta er Búasteinn, nefndur eftir Búa Andríðssyni í Kjalnesingasögu en samkvæmt henni banaði hann Kolfinni og mönnum hans á þessum slóðum.

Eftir þennan krók á vit sögunnar ökum við stuttan spöl eftir veginum í vesturátt, fram hjá Húsmúlarétt sem var byggð árið 1967 og endurbyggð 2006. Loks er beygt til hægri á vegamótum og fljótlega komum við að læstu hliði á veginum. Þar leggjum við bílnum.

Lyklafell

Lyklafell

Lyklafell.

Við Lyklafell á sunnanverðri Mosfellsheiði eru hreppamörk, sýslumörk og vegamót margra leiða sem áður voru fjölfarnar. Lyklafell var því sannkallaður lykilstaður og gæti það verið skýring á nafninu, þótt þjóðsögur hafi tengt það við lykla Skálholtsstaðar. Sunnan við fellið eru Vatnavellir við Fóelluvötn sem voru algengur náttstaður ferðamanna á fyrri tíð.

Lyklafell

Uppþornuð tjörn vestan Lyklafells við vestari austurleiðina.

Hægt er að aka í áttina að Lyklafelli eftir vegi sem liggur með fram Búrfellslínu 3. Beygt er af Suðurlandsvegi til norðurs inn á línuveginn en vegna aðgreiningar akstursleiða á Suðurlandsvegi er aðeins hægt að aka inn á hann þegar komið er úr austri. Þeir sem eru á austurleið þurfa því að aka að Bláfjallavegi, snúa þar við og aka til baka smáspöl í áttina að Reykjavík þar til beygt er til hægri inn á línuveginn. Hafa skal allan varann á, því að þarna þrengist þjóðvegurinn í eina akrein í hvora átt og þar er engin vegöxl.

Línuvegurinn liggur norður yfir Fossvallaá um Vatnahæð að vegamótum við dælustöð. Þar er beygt til hægri og ekið í áttina að fjallinu eftir vegi sem lagður var vegna lagningar á heitavatnsleiðslu. Þegar við komum að öðrum vegamótum beygjum við til vinstri inn á línuveg og komum fljótlega á stórt plan þar sem gott er að leggja bílum.

Elliðakot

Elliðakot

Elliðakot.

Elliðakot er fornt býli í sunnanverðri Mosfellssveit. Það hét fyrst Hellar og síðan Helliskot fram á síðari hluta 19. aldar. Bærinn fór í eyði um miðja síðustu öld en fyrrum var Elliðakot þekktur áningarstaður ferðamanna af Suðurlandi sem gistu þar gjarnan áður en þeir lögðu í síðasta áfangann til Reykjavíkur. Þeir sem koma akandi úr Reykjavík og hyggjast fara að Elliðakoti beygja af Suðurlandsvegi (nr. 1) til vinstri skammt austan við býlið Gunnarshólma. Við vegamótin er skilti með bæj­arnafninu Elliðakot. Ekið er yfir brú á Hólmsá og gegnum sumarhúsahverfi og þá komum við fljótlega að rústum Elliðakots þar sem við leggjum bílnum og höldum af stað, gangandi eða ríðandi.

Djúpidalur

Djúpidalur

Djúpidalur.

Stysta leiðin frá Reykjavík í Djúpadal liggur um Suðurlandsveg og síðan er beygt inn á Hafravatnsveg. Eftir 4,6 km akstur eftir þeim vegi er komið að gatnamótum. Á vinstri hönd liggur vegur að Hafravatni en við höldum áfram inn á Nesjavallaleið. Okkur ber fljótlega upp á Rjúpnaás þar sem við beygjum til hægri inn á sumarbústaðaveg og leggjum bílnum þar á litlu stæði. Hér blasir Djúpidalur við okkur en hann var fyrrum vinsæll áningarstaður hestamanna. Þar var haldin mikil veisla til heiðurs Friðriki VIII. konungi og föruneyti hans þegar hann ferðaðist til Þingvalla sumarið 1907.

Seljadalur

Seljadalur

Seljadalur.


Til að komast að lykilstaðnum Seljadal er beygt af Hafravatnsvegi inn á veg sem liggur að bænum Þormóðsdal. Á hægri hönd niðar Seljadalsá en snemma á 20. öld var grafið eftir gulli við ána með litlum árangri. Leið okkar liggur fram hjá Þormóðsdal og áfram að stórri grjótnámu þar sem unnið hefur verið efni í malbik. Þar beygjum við til hægri og komum fljótlega á malarplan sem er ágætt bíla stæði. Þar tökum við fram gönguskóna, fjallahjólið eða leggjum hnakk á hest.“

Heimild:
-Ferðalög – Ferðalög innanlands; Töfrar Mosfellsheiðar,  Morgunblaðið 20.2.2021.
-https://www.mbl.is/ferdalog/frettir/2021/02/20/tofrar_mosfellsheidarleidar/

Mosfellsheiði

Gamli Seljadalsvegur um Kambsrétt.

Gamli Þingvallavegur

Eftirfarandi lýsing á örnefnum á Mosfellsheiði eftir Hjört Björnsson má lesa í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1937-1939:
Mosfellsheidi-552„Síðan hinn nýi vegur yfir Mosfellsheiði var lagður, fyrir Alþingishátíðina 1930, má svo heita, að ferðir um gamla veginn, sem lagður var nokkru fyrir síðustu aldamót, hafi lagzt niður. Vilja örnefni týnast og falla í gleymsku á þeim leiðum, sem nú eru sjaldfarnar eða þotið er um í bíl, þótt áður væru þær fjölfarnar, bæði af gangandi mönnum og ríðandi, og þá oft með langar og seinfærar lestir baggahesta, og síðar kerrur. — Þá var oft nægur tími fyrir ferðamanninn að virða fyrir sér það, sem fyrir augun bar, og þekkja nöfn á áningastöðum og kennileitum. Vil jeg nú leitast við að telja upp örnefni meðfram gamla Mosfellsheiðarveginum, frá Almannagjá að Geithálsi, þar sem hann sameinast Hellisheiðarveginum.
Þegar komið er upp úr Almannagjá og farið „suður“ — en svo er alltaf að orði komizt um ofanverða Árnessýslu, þegar farið er yfir Mosfellsheiði, Mosfellsheidi-553þó að vegurinn liggi til vesturs og jafnvel norðvesturs — þá liggur vegurinn litlu vestar yfir Breiðabala; lága, en breiða upphækkun í hrauninu. Vestan við Breiðabala er „afleggjari“; liggur hann til hægri handar beint upp hraunið í malargryfjur miklar sunnan í Stórhöfða, sem er á milli Brúsastaða og Kárastaða. Var „afleggjari“ þessi lagður litlu fyrir síðustu aldamót, um líkt leyti og aðalvegurinn var gerður, til aðflutninga á ofaníburði. Dálítið neðan við túnið á Kárastöðum liggur vegurinn yfir Árfar. Er það allbreiður, en grunnur, farvegur, sem oftast er þur á sumrum. Nafnið kemur af því, að stundum í leysingum stíflast öxará af krapi og íshröngli fyrir innan Brúsastaði og flæðir þá vestur hraunið, sunnan undir Stórhöfða, og hefur myndað sjer þar farveg greinilegan; sameinast hún svo lækjarseytlum, er koma úr giljunum fyrir ofan Kárastaði, og rennur svo niður hraunið út í Þingvallavatn.

Mosfellsheidi-554

Þegar yfir Árfarið er komið, tekur við Kárastaðamýri vestur í Borgarskarð, sem oftast í seinni tíð er nefnt Kárastaðaskarð, því að þar sjest fyrst heim að Kárastöðum, þegar komið er austur af heiðinni. Í Borgarskarði var fyr fjárborg, og þar talið, að Mosfellsheiði byrji. Vestan til heitir skarðið Borgardalur, en Borgardalsbrekkur lyngbrekkur miklar á hægri hönd, en til vinstri er Skálabrekkuás. Milli ássins og vegarins er lítil valllendisflöt og heitir Norðlingaflöt. Er þá komið í Bæjardal; hann er kenndur við bæinn að Skálabrekku, sem stendur sunnan undir honum, en sjest ekki af veginum. Bæjardalur takmarkast að suðvestan af Skálabrekkuás, en að norðvestan Lyngás. Liggur vegurinn eftir endilöngum dalnum, unz hann þrýtur, og er þá farið yfir Móakotsá. Það er lítil árspræna, sem oftast er þur í þurkasumrum; kennd er hún við eyðibýlið Móakot, sem stendur á árbakkanum niður-undir Þingvallavatni.

Mosfellsheidi-555

Var Móakot byggt um 50 ára skeið á síðustu öld. Vestan við Móakotsá er farið yfir hæð eina litla, Spýtuás, og taka þá bráðlega við lágar og lyngi grónar hæðir, er Þrísteinaholt heita. Liggur vegurinn milli þeirra og yfir Torfdalslæk, og því næst norðanundir Gíslahóli, sem venjulega er nefndur Gíslhóll. Austan undir Gíslahóli liggur rudd braut til vinstri af aðalveginum niður að Heiðarbæ og svo áfram suður Grafning. Skömmu áður en komið er að steininum, er sýnir 40 km. vegalengd frá Reykjavík, er farið yfir litla valllendisflöt, er Harðivöllur heitir. Nokkru vestar er Ferðamannahorn, þar sem bugur verður á veginum á hæðarbrún ekki mikilli; er þá skammt að Þorgerðarflöt, sem er allstór flöt til vinstri handar. Gegnt Þorgerðarflöt eru mýradrög allmikil, er heita Vilborgarkelda. Sagt er, að keldan beri nafn af konu nokkurri, er fórst þar voveiflega, og þótti hún síðan vera þar á sveimi, er skyggja tók, og gera ferðamönnum glettingar. „í Keldunni“, eins og oftast var komizt að orði, var mjög tíður áningastaður, og lágu langferðaraenn þar oft með lestir sínar, enda er þar haglendi fyrst, svo teljandi sje, austan aðalheiðarinnar. Örskammt vestan við Vilborgarkeldu og Þorgerðarflöt skiptast leiðir, og liggur nýi vegurinn, sem lagður var 1928—9, þar vestur heiðina, sunnan undir Litla-Sauðafelli og niður í Mosfellsdal.
Þegar komið er fram hjá vegamótunum, er farið yfir Mosfellsheidi-556Þórðargil, lítið gildrag, og Þórðargilsmela. Á þeim er varða, þrír steinar miklir, hver ofan á öðrum; er hún af sumum nefnd Berserkjavarða. Þaðan er nokkur spölur að Þrívörðum. Þar er land hæðótt og eru Þrívarðnalautir á milli þeirra, en vegurinn liggur yfir Þrívarðnahrygg vestur heiðina. Nokkuð sunnan við veginn á Þrívarðnahrygg sjer í tjarnir nokkrar, er Klofningatjarnir heita. Vestan í Þrívarðnahrygg eru Moldbrekkur, og hallar þar niður í Lágheiði, breiða dæld, sem er þar í heiðinni. Upp frá Lágheiði er alllöng brekka, Sæluhúsbrekka, og nær hún vestur undir Sæluhús, sem stendur þar fáa metra norðan við veginn. Var það byggt um líkt leyti og vegurinn; og kom mörgum að góðum notum, bæði mönnum og skepnum, þótt ófullkomið væri. Standa nú að eins veggir eftir, en þak og innviðir rifnir burt.

Mosfellsheidi-557

Nokkru vestar er klappahóll til hægri við veginn, er heitir Rauðkuhóll. Fótbrotnaði þar hryssa, er Rauðka hjet, hjá ferðamönnum úr Þingvallasveit. Meðal þeirra var Jónas hreppstjóri Halldórsson í Hrauntúni. Hafði hann broddstaf mikinn í hendi og keyrði í enni hryssunnar, og var hún þegar dauð. Frá Rauðkuhóli er æði spölur, unz vegurinn liggur norðan undir allstórum og mörgum klappahólum, er heita Borgarhólar. Telja jarðfræðingar Mosfellsheiði gamalt hraun, og að Borgarhólar sjeu uppvörp þess, og hafi síðan jökull gengið þar yfir og sorfið. Enda sjást víða jökulruðningar miklir og ísrákir á klöppum um heiðina. Frá Borgarhólum liggja götutroðningar, sæmilega glöggir, niður með Grímmannsfelli (Grímarsfelli) austanverðu, niður hjá Bringum og niður í Mosfellsdal.
Hallar nú upp á melkoll nokkurn, Háamel, sem stundum er líka nefndur Alda. Þar liggur vegurinn hæst, og er þaðan útsýni mikið og fagurt í björtu Mosfellsheidi-558veðri. Til austurs sjest þar austurhluti Þingvallasveitar og fjöllin þar umhverfis og allt inn á Langjökul, en Skjaldbreið fyrir miðju, og sýnist þá engu minni en frá Þingvöllum, þó að miklu muni á fjarlægðinni. Til suðvesturs sjest um Suðurnes og meðfram Reykjanessfjallgarði endilöngum og á haf út, um sunnanverðan Faxaflóa. Sunnan undir Háamel var eitt sumar — eða tvö — fyrir rúmum 20 árum lítill veitingaskúr, er danskur maður átti og nefndi Heiðarhlóm. Sjást þess nú nálega engin merki, að þar hafi mannabústaður verið. Þar suðvestur af taka við sljettir melar, Borgarhólamelar, og hallar úr því nokkuð jafnt niður í byggð í Mosfellssveit. Heita þar Seljadalsbrúnir, löng leið og heldur tilbreytingalítil. Er þá Grímmannsfeli allfjarri til hægri handar, en Efri-Seljadalur milli þess og heiðarinnar.
Við suðurenda Efri-Seljadals eru hólar Mosfellsheidi-559nokkrir, og heitir þar Þrengslin, en sunnan við þau tekur við Neðri-Seljadalur. Verður þar undirlendi meira og dalhvilftin öll grynnri. Þar sunnarlega er Silungatjörn og Silungatjarnarmýri. í Seljadölum er graslendi mikið og var þar tíður áningarstaður ferðamanna fyrrum, enda lá vegurinn um þá áður en akbrautin var lögð. Lítið sjest af veginum ofan í dalina fyr en komið er niður á móts við Silungatjörn. Þegar all-langt kemur niður eftir Seljadalsbrúnum, verða fyrir tvö lautardrög til vinstri við veginn: Efri-Hrossadalur, og litlu neðar Neðri-Hrossadalur, og enn neðar sömu megin Helgutjörn — grunnur tjarnarpollur, sem venjulega þornar upp á sumrum. Þá er til hægri handar Eiríkshóll, einstakur klappahóll, flatur að ofan, að öðru leyti en því, að fuglaþúfa hreykir sjer á honum miðjum. Litlu neðar, en lengra frá veginum, er Vörðuhóladalur, daldrag, sem lítið ber á. Tekur nú vegurinn að verða krókóttur, en hefur verið bugðulítill ofan frá Háamel, og er nú bráðlega komið að Krókatjörn, sem er við veginn til hægri. 

Mosfellsheidi-560

Gengur að norðan út í hana langur tangi, er skiptir henni nærri í tvennt, og er hún því af sumum nefnd Gleraugnatjörn. Mjög litlu neðar, hinu megin við veginn, er Djúpidalur, alldjúp kvos, er áður var klædd valllendisgróðri, en hefur í seinni tíð blásið upp og jetizt af vatni. Sumarið 1907 var þar búinn morgunverður Friðriki konungi VIII. og fylgdarliði hans, er hann reið til Þingvalla og Geysis. Móts við og fyrir neðan Djúpadal er vegurinn enn krókóttari en áður, og heita þar Krókar niður að Miðdalsmýri. Liggur vegurinn yfir hana þvera og Miðdalslæk, sem rennur eftir henni, en bærinn Miðdalur stendur í halla kippkorn norðar. Þegar kemur yfir Miðdalsmýri, er vegurinn yfir háls einn lágan, en allbreiðan, og stóðu norðar á honum fjárhús frá Miðdal. Litlu sunnar, til vinstri handar, er tjörn ein lítil, er Heiðartjörn heitir, og er þá örskammt ofan af hálsinum niður að Lynghólsmýri, og er Lynghóll norðvestan við hana. Var Lynghólsmýri einn af fyrstu blettunum, sem girtur var með gaddavír meðfram veginum, og þótti sumum ferðamönnum súrt í broti, að missa jafngóðan áningastað. Þegar komið er fram hjá mýrinni, er enn dálítil tjörn við veginn til vinstri, er Sólheimatjörn heitir, og spölkorn vestar Hofmannaflöt, allstórar valllendisflatir til hægri við veginn. Þaðan er svo mjög skammt að Geithálsi, þar sem vegurinn sameinast Suðurlandsbrautinni. Hefur þá verið fylgt veginum austan frá Almannagjá, sem er 35—40 km. leið, og skýrt frá örnefnum.“ Hjörtur Björnsson frá Skálabrekku.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Örnefni á Mosfellsheiði, Hjörtur Björnsson, 46. árg. 1937-1939, bls. 164-165.

Þingvallavegur

Yfirgefinn bíll á gamla Þingvallaveginum.