Færslur

Bringur

Bringur voru efsti bær í Mosfellsdal. Þekktastar eru þær fyrir mannskaðann á Mosfellsheiði í marsmánuði 1857. Þá urðu sex vermenn úti á heiðinni, en átta komust við illan leik niður í Bringur og fengu þar aðhlynningu. Enn má sjá miklar mannvistarleifar í Bringum, á stórbrotnum stað.

Helgusel

Helgusel – Helgufoss ofar.

Seljarústir eru (skv. heimildum) neðan við Bringur, undir Grímarsfelli, á bökkum Köldukvíslar (Helgusel), en þar er sérstaklega sumarfagurt (Helgufoss), undir Illaklifi sunnan Leirvogsvatns (Mosfellssel) og á austurjaðri Seljabrekku undir Langahrygg norðan Leirvogsvatns (Jónssel). Auk þess hafa borist fregnir af óþekktum seljatóftum við Geldingatjörn. Seljabrekka mun “sprottin” upp úr Jónsseli. Sumir segja tóftirnar við Geldingatjörn hafa verið Jónssel, en aðrir að sjá megi greinilegar tóftir þess við Jónsselslæk. Gengið var um svonefndan Bringnaveg áleiðis að Geldingatjörn.

Bringur

Útihús í Bringum.

Á 3. áratugi síðustu aldar knúðu bændur í Mosfellshreppi á um að sveitarfélagið eignaðist Mosfellsheiðarlandið. Var hér um mikið hagsmunamál að ræða fyrir hreppsfélagið. Lagafrumvarp til sölu á Mosfellsheiði var lagt fyrir alþingi árið 1927 og var málið leitt til lykta árið 1933. Samkvæmt afsalinu var undanskilið: a) svonefnt Bringnaland. Þar var stofnað nýbýli úr landi Mosfells um miðja 19. öld en jörðin fór í eyði um 1970. b) veiðiréttindi í Leirvogsvatni. c) nýbýlið Svanastaðir við Leirvogsvatn.
Við túnjaðarinn í Bringum er upplýsingaskilti. Á því stendur:
“Búseta hófst í Bringum árið 1856, bærinn var stundum nefndur Gullbringur á fyrri tíð og nafn hans komst á hvers manns varir þegar mannskaðinn á Mosfellsheiði varð í marsmánuði 1857. Þá urðu sex vermenn úti á heiðinni, en átta komust við illan leik niður í Bringur og fengu þar aðhlynningu.

Bringur

Bringur 1968.

Á æskuárum Halldórs Laxness voru Bringur efsti bærinn í Mosfellsdal og kom hann hér eitt sinn í heimsókn ásamt móður sinni, Sigríði Halldórsdóttur. Hann segir svo frá í endurminningabókinni “Í túninu heima”: Bringnakotið stóð hátt á bersvæði, berskjaldað fyrir vindum. Kálgarðurinn var steingerði utanum ekki neitt; hann hafði ekki einusinni verið stúnginn upp þegar við komum þangað í miðjum sólmánuði, en lá útafyrir sig, án tengsla við kotið. Smáfuglar bjuggu milli steina í garðhleðslunni, dilluðu stéli og súngu ákaft og fagurlega fyrir aungvu káli. Að því ég best vissi voru þá ekki kýr á bænum. Hér var enn eitt moldargólfið. Við sátum þarna óratíma og baðstofan fylltist af móreyk; kannski vorum við að bíða eftir kaffi? Ég er búinn að gleyma því; auk þess var ég of úngur til að drekka kaffi.”
Halldór og móðir hans hafa væntanlega farið svonefndan Bringnaveg í þessari ferð. Sú þjóðleið lá úr Mosfellsdal, framhjá Bringum og tengdist síðan svokölluðum Þingvallavegi hjá Borgarhólum á Mosfellsheiði. Bringnavegur var lagður að undirlagi Guðjóns Helgasonar, föður Halldórs Laxness, árið 1910 og má allvíða sjá leifar vegarins…

Bringur

Bringur – bærinn; loftmynd 1954.

Bringur fóru í eyði á 7. áratugi 20. aldar og hét síðasti ábúandinn Hallur Jónsson (1891-1968). Enn mótar fyrir bæjarstæðinu ofarlega í túninu.”
Meðfylgjandi er mynd, sem tekin var í hlaðvarpanum í Bringum kringum 1925. Á henni má m.a. sjá Jórunni Halldórsdóttur frá Bringum (18981-1980) – (sjá fyrstu myndina hér meðfylgandi).
Leið lá um Bringur þar sem heita Lestarófur, sléttar flesjur upp með Köldukvísl. Þær heita svo vegna þess að þar sást síðast til ferðamanna, er þeir fóru austur um Mosfellsheiði. Síðan lá leiðin fyrir norðan Geldingatjörn um Illaklif, sem er suðaustan við Leirvogsvatn og hjá Þrívörðum í Vilborgarkeldu, en Vilborgarkelda er austast á Mofellsheiði ekki langt frá þar sem nýi vegurinn sveigir í norðaustur.

Bringur

Tóft í Bringum.

Í örnefnalýsingu Jóns Halldórssonar um Bringur segir m.a.: “Bærinn stendur í suðvesturenda Bæjarholts. Suður og austur af bænum er hið upphaflega tún. Niður af því austanverðu eru pallar í jarðlagið, sem eru síblautir og nefnast Dýjapallar. Þar hjá er Helluhóll. Niður af honum er Mýrdalur. Í framhaldi af honum er grasflötin Fossvöllur við Helgufoss, er sést frá bænum. Áin heitir Kaldakvísl og er á landamerkjum Hraðastaða og Bringna. Vestan við Mýrdal er Melhryggur. Næst við hann er Lautin. Vestar eru Eystri- og Vestri-Hvammur. Upp í austanverðum Eystri-Hvammi er lítill hvammur, er kallast Sætið. Við ána í Eystri-Hvammi er Hrafnaklettur, sem er standberg ármegin. Milli hvammanna er mjór hryggur, Huldufólksrani. Vestri-Melhryggur er vestan beggja hvammanna. Norðvestur af honum er varða, Markavarða, er skilur lönd Laxness og Bringna. Stendur hún á litlu holti, en beggja megin þess eru mýrarteygingar, er kallast Lestarófur. Nefnast þær svo sökum þess, að þar áðu ferðamenn hestum sínum fyrrum. Upp á brún hvammanna er Fjárhúsmýri, sem nú er orðin að túni. Norðvestur af bænum er lág hæð, er nefnist Enni (flt.). Sunnanvert við þau er Ennamýri, sem er flöt og lágþýfð. Milli Enna og Bæjarholts er Sundið, mýrarsund. Norður af Sundinu er klettur drangalagaður, er nefnist Gægir. Norður af honum er mýrarslakki, Gægismýri. Úr henni rennur Gægismýrarlækur. Norðan mýrarinnar og læksins er Jónsselshæð. Norðan Bæjarholts og austan Gægismýrar er Norðurmýri. Norðvestan Norðurmýrar er mýrarlægð víðáttumikil, sem kallast Jónssel, og er syðsti hluti þess í Bringnalandi. Austur af Norðurmýri er Geldingatjarnarholt, en austan við það er Geldingatjörn. Norðan hennar er lág hæð, Blásteinsbringur, er ná vestur að Jónsseli. Aðeins lítill hluti þeirra eru í Bringnalandi, því að landamerkin eru yfir miðja Geldingatjörn.

Helgusteinn

Helgusteinn – Hrafnaklettur.

Suðvestur úr henni rennur Geldingatjarnarlækur í Köldukvísl spölkorn fyrir austan Bringur. Sunnan við tjörnina beggja megin lækjar er flöt mýri, Geldingatjarnarmýri. Uppi á heiðinni er vestanvert við gamla veginn hóll, er nefnist Rauðkuhóll. Hafði rauð hryssa verið dysjuð þar. Talsverðan spöl sunnar á heiðinni eru Borgarhólar, og eru landamörk milli Bringna og Árnessýslu um hinn austasta og hæsta þeirra. Vestur af hólum þessum eru Borgarhólamelar, og liggur gamli Þingvallavegurinn yfir þá. Ég hefi dvalið 16 ár að Bringum,og mun enginn núlifandi betur vita.”
Ágúst Ólafur Georgsson kom með svohljóðandi ábendingar við örnefnaskrána: “Klettur sá, sem er neðan við Helgufoss í Köldukvís, á móts við Bringur, sem oft er kallaður Helguklettur (m.a. af Magnúsi Grímssyni), segir Halldór Laxness alltaf hafa verið kallaðan Hrafnaklett af Bringufólkinu. Í Hrafnakletti var álfabyggð. Sagt var, að þar byggi huldukona. Kveðst Halldór hafa þetta eftir Jórunni Halldórsdóttur frá Bringum. Jórunn ku hafa haft einhver samskipti við huldukonu, sem þar bjó, snemma á þessari öld [síðustu öld]. Kveðst HKL hafa heyrt þetta, er hann var krakki, en annars ekki lagt sig neitt eftir slíku, er „óinteressant“ að hans mati.”
Helgusel er niður undan Bringum, á bökkum Köldukvíslar, er rennur með Grímarsfelli. Tilgátur eru um það að örnefnið hafi breyst úr heilagt sel (var frá Mosfelli, kirkjustaðnum) í Helgusel. Gengið var að selinu að norðanverðu. Þá er komið beint niður að Hrafnakletti. Milli hans og hlíðarinnar eru líklegar rústir, þrjár að tölu, hlið við hlið. Sú vestasta er lengst og virðast langveggir vera sveigðir. Austari tóftirnar eru greinilegri, en minni. Allar eru tóftir þessar orðnar nánast jarðlægar, en þó má sjá marka fyrir grjóti í veggjum.

Tóftir Helgusels, sem eru skammt austar, eru vel greinilegar, einkum fjárborg eða rétt framan við selið. Norðaustur undir Helguhól (Hrafnakletti) sést móta fyrir hlaðinni kví. Austan hennar eru þrjár tóftir. Sú nyrsta er lengst og stærst. Efst í henni er þvergarður er bendir við fyrstu sýn til þess að þarna hafi verið stekkur.

Helgufoss

Helgufoss.

Við Helgusel er upplýsingaskilti. Á því stendur m.a.: “Hér í svonefndum Helguhvammi eru rústir Helgusels. Landssvæðið og selið tilheyrðu prestsetrinu á Mosfelli á fyrri tíð og var selið notað á sumrin til að mjólka lambær og framleiða mjólkurafurðir, t.d. smjör og skyr.
Gömul munnmæli herma að Helgusel sé kennt við Helgu Bárðardóttur, en frá henni segir í Bárðar sögu Snæfellsáss. Helga yfirgaf mannlegt samfélag og eigraði um landið eins og segir í sögunni: “Litlu síðar hvarf Helga þaðan í burt og fór víða um Ísland og festi hvergi yndi. var hún og alls staðar með dul, en oftast fjarri mönnum.”
Fleiri örnefni tengjast Helgu á þessum slóðum, Helgufoss blasir við okkur og hér við ána er grjóthóll, sem heitir Helguhóll (einnig nefndur Hrafnaklettur). Þar á að vera Huldufólksbyggð og segir sagan að helga Bárðardóttir hafi horfið í hólinn í elli sinni og ekki komið út síðan. Aðrir hafa hafnað þessum nafnaskýringum og telja að Helgusel merki upphaflega hið helga sel. Er sú kenning studd þeim rökum að selið hafi verið í eigu Mosfelsstaðar”.
Þá eru tvær myndir á skiltinu. Annars vegar af brúðhjónum. Þar segir: “Svæðið hér í grennd við Helgusel og Helgufoss er kjörið útivistarsvæði. Þau Helga Rós V. Hannam og Ragnar Bragason teyguðu að sér hið frjálsa fjallaloft um leið og þau voru gefin saman í hjónaband við Helgufoss þann 26. júlí 1997”. Hins vegar er teikning af fossinum. Undir henni stendur: “Helgufoss í Köldukvísl. teikningin er gerð af erlendum ferðamanni sem hér var á ferð seint á 18. öld:”
Í Helguseli eru þrjú hús og stekkur aftan við þau. Eitt rýmið er stærst (íverustaður, en hliðarrýmin eru minni (eldhús og búr).
Sögn tengd Helgu Bárðardóttur er til í örnefnum við Keldur. Þar segir að “á hábungunni vestur af Keldum er hringmynduð rúst, kölluð Helguhjáleiga, Helgustekkur eða Helgutóft. Um þann stað er sú þjóðsaga, að þar hafi búið Helga Bárðadóttir Snæfellsáss og sótt í soðið með því að renna færi fram af Helgukletti, nyrst á Geldinganesi”.
Hraðablettur er ofan og neðan við Helgufoss og Suðurmýrar þar ofan við. Hraðastaðir hafa verið eignarland allt frá landnámi. Jörðin er sérstök og afmörkuð eign og voru landamerki hennar skráð í tilefni landamerkjalaga nr. 5/1882, sbr. landamerkjalýsingar Hraðastaða 1890 (skrá Óbn).

Mosfellssel

Stekkur í Mosfellsseli.

Allar eignarheimildir, þ.á m. fjöldi lögskipta fyrr og síðar, styðja að Hraðastaðir séu og hafi alltaf verið eignarland. Nægir þar að nefna að öll skilyrði eignarhefðar eru fyrir hendi og enginn vafi leikur á því að um eign er að ræða í skilningi eignarréttarákvæðis Mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994. Kröfulína fjármálaráðherra nær inn á austanverða jörðina og er ástæðan fyrir því sú að ráðherra leggur landamerkjabréf Stóra-Mosfells frá 1882 (skrá Óbn) til grundvallar kröfum sínum en landamerkjabréf Hraðastaða frá 1890 er ekki samhljóða eldra landamerkjabréfi fyrir Stóra-Mosfell frá 1882.

Allt land innan sveitarfélagsmarka Mosfellsbæjar er samkvæmt Landnámu í landnámi Ingólfs Arnarsonar. Þórður skeggi hefur verið kallaður landnámsmaður Mosfellinga. Samkvæmt Landnámu bjó hann á Skeggjastöðum og nam hann land að ráði Ingólfs og náði það á milli Leirvogsár og Úlfarsár sem er ekki fjarri núverandi sveitarfélagsmörkum Mosfellsbæjar. Mosfellsdalur og Mosfellsheiði að hluta voru innan landnáms Þórðar skeggja.
Fljótlega eftir að land byggðist kom hreppaskipanin til sögunnar á Íslandi. Þá hefur Mosfellshreppur orðið til en hann náði niður að Elliðaám allt fram á 20. öld. Hreppurinn lá að Kjalarneshreppi í norðri, Þingvallahreppi, Grafningshreppi og Ölfushreppi í austri og Seltjarnarneshreppi í suðri og vestri.
Snemma í kristnum sið var kirkja reist í Mosfellsdal og var hún í fyrstu í einkaeign (bændakirkja). Ekki hafa varðveist máldagar Mosfellskirkju frá miðöldum en ekki er útilokað að heiðarlandið hafi verið eign Mosfells frá fyrstu tíð eins og örnefnið Mosfellsheiði gefur til kynna.
Líkt og í öðrum sveitum landsins var kvikfjárrækt ríkjandi atvinnugrein í Mosfellssveit. Hér áttu fáar jarðir land að sjó og Mosfellingar höfðu því takmarkaðar nytjar af sjávarfangi. Jarðaskipan tók litlum breytingum í aldanna rás, stærri jarðir voru um 40 talsins og þar við bættust hjáleigur. Þegar líða tók á 20. öld tóka að fjara undan landbúnaðinum og samfélagið gjörbreyttist.

Mosfellssel

Mosfellssel.

Klaustur var stofnað í Viðey á 13. öld en jörðin var í Mosfellssveit fram á 18. öld. Viðeyjarklaustur eignaðist fjölmargar bújarðir og áður en yfir lauk eignaðist klaustrið flestar jarðir í Mosfellssveit, þar á meðal Mosfell. Á 16. öld var Viðeyjarklaustur lagt niður, Danakonungur eignaðist jörðina sem gerð var að svonefndu kirkjuléni (beneficium).
Eitt af skyldum hreppsfélagsins var að annast fjallskil á Mosfellsheiði þar sem Mosfellingar áttu upprekstrarland. Jarðir í öðrum sveitarfélögum áttu þar líka afrétt, þ. á m. í Ölfusi, Grafningi, Kópavogi, Reykjavík og á Þingvöllum og Seltjarnarnesi. Afrétturinn var bæði notaður fyrir sauðfé og nautpening. Mosfellingar smöluðu afréttinn innan sveitarfélagsmarka sinna. Helstu gögn og gæði heiðarlandsins voru beitarítök, slægjur, selstaða og veiðiréttindi í Leirvogsvatni. Ljóst er af heimildum að Mosfell fer með eignarréttinn á fyrri tíð, presturinn leigir út slægjulönd og beitarafnot. Samkvæmt landamerkjalýsingu frá 1882 átti Mosfell land allt að sýslumörkum í austri. Á 3. áratugi síðustu aldar knúðu bændur í Mosfellshreppi á um að sveitarfélagið eignaðist Mosfellsheiðarlandið. Var hér um mikið hagsmunamál að ræða fyrir hreppsfélagið. Lagafrumvarp til sölu á Mosfellsheiði var lagt fyrir alþingi árið 1927 og var málið leitt til lykta árið 1933. Samkvæmt afsalinu var undanskilið: a) svonefnt Bringnaland. Þar var stofnað nýbýli úr landi Mosfells um miðja 19. öld en jörðin fór í eyði um 1970. b) veiðiréttindi í Leirvogsvatni. c) nýbýlið Svanastaðir við Leirvogsvatn. d) svonefnt Jónselssland ofan við Mosfellsdal. Um það leyti, sem heiðin var seld, var stofnað nýbýli á þessum slóðum og nefnt Seljabrekka.

Mosfellssel

Mosfellssel – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var spölkorn eftir svonefndum Bringnavegi til austurs. Skammt ofan við Bringur eru gatnamót og hefur önnur gatan væntanlega legið að Jónsseli. Bringnaleiðirnar eru í rauninni þrjár. Ein gömul reiðleið liggur upp með Köldukvísl og inn á Þingvallaveginn elsta (Seljadalsveginn, er á korti frá 1910), áður en komið er upp á Háaklif. Önnur gömul leið frá Bringum og austur Blásteinsbringur (-holt) og norðan Geldingatjarnar og þaðan inn Illaklifsgötuna. Sú þriðja, sem myndin hér er af, er vegurinn sem lagður var 1910 af Guðjóni á Laxnesi og liggur þvert yfir mýrarnar og kemur inn á nýrri Þingvallaveginn (t.d. Konungsveginn) uppi á Háamel við Borgarhóla.

Þegar komið var upp að Geldingatjörn var svipast um eftir hugsanlegum selstóftum. Ekkert var að sjá vestan og norðan við tjörnina, en eftir gönguna sagði ábúandinn á Seljabrekku að þær ættu að vera norðan við hana. Þar eru reyndar ágætlega grasgróið og ekki ósennilegt að selstóftir leynist þar þrátt fyrir allt. Verður kannað betur síðar. Tiltölulega stutt er í tjörnina frá Þingvallavegi ofan við túnmörk Seljabrekku.
Þá var gengið til norðurs, áleiðis að Seljabrekku með það að markmiði að finna Jónselstóftirnar.
Seljabrekka hét áður Jónssel og var Jónssel ein af jörðum þeim er tilheyrðu kirkjuléninu Mosfelli sem varð konungseign eftir siðskiptin og síðar eign íslenska ríkisins. Mosfell var stórjörð og átti Mosfellsdal og alla Mosfellsheiði austur að landi Árnesinga. Seljabrekka var gert að býli 1933 með sameiningu Jónssels og Mosfellsbringna og síðan hefur verið bætt við býlið landi frá aðliggjandi jörðum og jafnframt hafa farið fram makaskipti á landi. Seljabrekka er sunnan við veginn til Þingvalla og liggur milli Laxness og Leirvogsvatns og er því við jaðar Mosfellsheiðar. Landinu hallar frá þjóðvegi og niður til Geldingatjarnar sem er í lægsta hluta landsins. Þegar kirkjumálaráðherra f.h. íslenska ríkisins seldi Mosfellshreppi Mosfellsheiðina frá kirkjujörðinni Mosfelli þann 24. maí 1933 þá var Jónssel undanskilið í sölunni eins og segir í afsali: “…þá sel ég hérmeð nefndri hreppsnefnd fyrir hönd nefnds hrepps frá næstu fardögum að telja Mosfellsheiðarland, eins og það hefir tilheyrt nefndu prestsetri, að undanskildu svonefndu Jónsseli, grasbýlinu Mosfellsbringum, nýbýlinu Svanastöðum, sbr. leigusamning um land handa þessu nýbýli 5. júní 1930, og veiðiréttinum í Leirvogsvatni svo og þeim hluta Leirvogsár, er að heiðarlandinu liggur”. Kirkjumálaráðuneytið leigði ábúendum jörðina allt til ársins 1999 er ábúandinn Guðjón Bjarnason keypti hana en seldi síðar umbj. mínum. Í afsali er ekki lýst merkjum en vísað til þess að kaupandi hafi kynnt sér merkin. Í ábúðarsamningi var ætíð getið merkja en í byggingarbréfum 1968 og 1984 stendur: “Landamerki Seljabrekku (hét Jónssel) sem áður var hluti Mosfells, eru þessi: Að sunnan fær Seljabrekka land, sem áður tilheyrði Bringum þannig að suðurmörk landsins verða ca. 50 metrum norðan við núverandi Sogslínu frá Laxnessmörkum allt að Geldingatjarnarlæk. Geldingatjörn verður öll í landi Seljabrekku.

Helgusel

Helgusel – uppdráttur ÓSÁ.

Að vestan landamerki Laxnesslands, að norðan þjóðvegur og að austan landamerki heiðarlands eins og þau eru ákveðin í kaupsamningi milli Mosfellshrepps og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 24. maí 1933.” Landamerki gagnvart Laxnesi eru glögg og hafa eigendur Laxness látið gera uppdrátt (des. 92) með hnitsettum merkjum jarðarinnar, sem eigendur nágrannajarða hafa áritað. Eigandi Seljabrekku vinnur að því að afla gagna frá ráðuneytum um réttindi sín og afmörkun landsins. Seljabrekka fékk í skiptum við íslenska ríkið Selholtsland austan síns lands samkvæmt bréfi Landnámsstjóra. Þótt ekki sé nefnd stærð landsins í bréfinu var um 150 ha að ræða en það var landstærð Selholts neðan þjóðvegar. Líkt og með aðrar jarðir í gegnum tíðina hafa landamerki færst til; allt eftir því hver seldi hverjum og hvenær. Annars er fróðlegt að skoða hvernig mörk jarða breytast frá einum tíma til annars og jafnvel hvernig þau hafa verið færð til eftir hentugleikum. En það er jú viðkvæmt mál til alvarlegrar umfjöllunar. Merkjalínan nú er lítið eitt sunnar en girðing sú er sveitarstjórn lét setja upp til að halda fé á Mosfellsheiðinni og liggur milli Geldingatjarnar og Leirvogsvatns. Ábúendur jarðarinnar settu urriða í Geldingartjörnina en hún var án veiði á fyrri tímum. Þá hafa þeir stíflað tjörnina til að koma í veg fyrir að hún botnfrjósi en það mun oft hafa komið fyrir að hún þornaði upp á sumrum. Eigendur Seljabrekku hafa smalað land sitt sjálfir en við haustsmölun á Mosfellsheiði hefur verið smalað sameiginlega heiðarlandið af Mosfellingum og þá hefur verið talið að heiðin byrjaði þar sem hallinn upp á við byrjar, þ.e. hallanum öndvert við Seljabrekku, upp frá mýrinni sem er milli Leirvogsvatns og Geldingatjarnar.

Tóftir Jónssels virtust sennilegastar á einum af efri óröskuðu túnblettum Seljabrekku. Þær voru eru að mestu jarðlægar, en þó má sjá móta fyrir húsi austan við þær. Bóndinn á Seljabrekku var síðar spurður um hvar Jónssel væri nákvæmlega. Þá benti hann á þennan stað í túninu.

Bringnavegur

Bringnavegur.

Í örnefnalýsingu af Bringum er getið um Jónsselstóftir. Þar segir: ” Í tíð Jórunnar voru tætturnar hlaðnar ofurlítið upp og gerðar hlóðir. Þar var oft hitað kaffi, þegar verið var að heyja þar í grennd.” Nú þarf ég að finna út hvar landamerkin eru milli Laxness og Bringna því víst er að þau á Bringum hafa ekki heyjað í annara manna landi. Jónssel var í Bringnalandi eða fast við mörkin.
Örnefnalýsingar kvenna eru oft skemmtilega ólíkar karlalýsingum en því miður alltof fáar. Jórunn talar um brunninn, jarðaberin í Hvömmunum og kaffistúss í Jónsselstóftum.
Enn eitt selið, Mosfellssel, er enn ofar, undir Illaklifi suðaustan Leirvogvatns. Þar eru býsna áhugaverðar rústir. Aðgengilegast er að komast að þeim með því að aka veg, sem liggur niður að Bugðu við Leirvogsvatn, á móts við Skálafellsafleggjarann.
Það er vitað að haft var í seli á þessum stað fram um miðja 19. öld. Norður af selinu heitir Selflá. E.J. Stardal segir um tóttir undir Illaklifi: ” Norðan við Illaklif fast við bratta stórgrýtta urð má enn sjá greinilegar hústóftir Mosfellssels og kvíar úr hlöðnu stórgrýti. Selför þangað mun hafa lagst niður skömmu eftir miðja síðustu öld” [19.öld]. Eftir þessu eru þetta tiltölulega nýlegar seltóftir. Í sóknarlýsingu Mosfellssóknar 1855 eftir Stefán Þorvaldsson segir: ”Selstöður eru hvergi hafðar nema frá Mosfelli, við Leirvogsvatn undir Illaklifi; en þangað er langur vegur og slitróttur yfirferðar. ” Þá er það ljóst að selstaðan undir Illaklifi var í gangi til ársins 1855.

Í Mosfellsseli eru einnig þrjú rými, stærst í miðjunni. Ofan við selið er hlaðiðnn tvískiptur stekkur. Austan við stekkinn er hlaðin ílöng kví. Stutt er niður að vatninu frá selinu og vel gróið í kringum það.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.Heimild m.a.:
-Óbyggðanefnd.
-Örn H. Bjarnason.
-Jón Halldórsson – örnefnalýsing.
-Ágúst Ólafur Georgsson – örnefnalýsing.
-Bjarki Bjarnason.

Jónssel

Jónssel.