Þormóðsdalur er í Seljadal. Í rauninni er nafnið tengt bænum og jörðinni Þormóðsdal, vestast í Seljadal, norðan Búrfells. Seljadalsáin rennur þar á millum. Samkvæmt aldagamalli sögn er landnámsmaðurinn Þormóður, sem Þormóðsdalur er kenndur við, heygður í Þormóðsleiði. Í landi Dalsins eru nokkrar minjar, sem telja verður áhugaverðar.
Óljóst er hvar hinn forni bær stóð nákvæmlega, en þegar verið var að grafa fyrir viðbyggingu austan við nýjasta íbúðarhúsið fyrir nokkrum árum komu í ljós allnokkrar hleðslur og aðrar mannvistarleifar. Tóftir útihúsa eru þarna skammt frá sem og uppi á hól eða hæðarbrún ofan við núverandi íbúðarhús. Ljóst er að bæði land og landkostir hafa breyst þarna umtalsvert á liðnum öldum. Stór gróin svæði hafa orðið gróðureyðingu að bráð og sumsstaðar, þar sem fyrrum voru grónar þústir, eru nú berir melhólar.
Vangaveltur hafa verið um hver hafi verið umræddur Þormóður. Hann hefur að öllum líkindum verið tengdur landeigandanum á einn eða annan hátt. Þess má geta að Þormóður hét sonur Þorkels mána. Þorkell var sonur Þorsteins, sonar Ingólfs Arnarssonar og Hallgerðar Fróðadóttur frá Reykjavík, þeirra er fyrst norrænna manna eru sögð hafa staðfest varanlega búsetu hér á landi (um 874). Þau hjónin bjuggu um tíma búi sínu ofan við tjarnarbakkann, þar sem hús Happdrættis Háskóla Íslands og Herkastalinn eru nú gegnt núverandi ráðhúsi Reykjavíkur. Leifar þeirrar búsetu eru nú horfnar, líkt og svo margt annað. Enn er þó ekki útilokað að takist að endurheimta hluta þeirra við uppgröft á Alþingisreitnum við Tjarnargötu – og rúmlega það.
Í Sturlubók segir m.a. um þetta: „Ingólfur var frægastur allra landnámsmanna, því að hann kom hér að óbyggðu landi og byggði fyrstur landið; gerðu það aðrir landnámsmenn eftir hans dæmum.
Ingólfur átti Hallveigu Fróðadóttur, systur Lofts hins gamla; þeirra son var Þorsteinn, er þing lét setja á Kjalarnesi, áður alþingi var sett.
Son Þorsteins var Þorkell máni lögsögumaður, er einn heiðinna manna hefir best verið siðaður, að því er menn viti dæmi til. Hann lét sig bera í sólargeisla í banasótt sinni og fól sig á hendi þeim guði, er sólina hafði skapað; hafði hann og lifað svo hreinliga sem þeir kristnir menn, er best eru siðaðir. Son hans var Þormóður, er þá var allsherjargoði, er kristni kom á Ísland. Hans son var Hamall, faðir Más og Þormóðar og Torfa.“
Ekki síst þessa vegna hefði verið áhugavert að reyna að staðsetja þann stað er þessi náintengdi landnámsmaður hefur verið talinn hvíla æ síðan.
Þótt nafn Þormóðsdals hafi fyrrum tengst gulum geisla hefur nafnið í nútíma einkum tengst samlitum málmi. Og enn er hafin leit að gulli í Þormóðsdal.
„Forsaga þessarar leitar hófst fyrir tæpum 20 árum síðan þegar ÍSOR, sem þá var hluti Orkustofnunar, hóf skipulega leit að gulli. Ástæða gullleitarinnar voru niðurstöður rannsókna um að gull félli út við sérstakar aðstæður í jarðhitakerfum, og ekkert sem mælti því í mót að slíkt ætti einnig við hér. Fyrsti áfangi leitarinnar tók um þrjú ár, og var farið víða um land. Snemma kom í ljós að Þormóðsdalur, rétt austan Hafravatns, bar af öðrum stöðum hvað varðar magn gulls í bergi. Árið 1997 fór gullleit aftur af stað, og var stofnað fyrirtækið Melmi og fengust fjárfestar í gegnum verðbréfamarkaðinn í Kanada. Leit var haldið áfram og meðal annars voru gerðar viðamiklar yfirborðsrannsóknir í Þormóðsdal og boraðar 9 rannsóknarholur til að kanna útbreiðslu gullríka kvarsgangsins. Þegar rannsókn lauk kom annað hlé, enda áhuginn minni, að hluta til vegna afar lágs gullverðs.
Nú er gullverð enn á ný komið í sögulegt hámark, og hefur ekki verið hærra síðan 1984, og hefur áhugi leitaraðila aukist mikið. Hafa tekist samningar við félag í Bretlandi um að fjármagna enn frekari gullleit í samstarfi við fyrirtækið Melmi. Verður áhersla fyrst lögð á að kortleggja mun betur með borunum kvarsganginn áðurnefnda, og meta rúmmál hans og hæfni til námuvinnslu. Enn fremur eru uppi áform um að hefja enn frekari leit að gulli á svæðum á Vestur-, Norður- og Suðurlandi.“
Þormóðsdalur tilheyrir nú Mosfellsbæ. Í landi bæjarins má víða finna fornminjar og af þeim hafa fjórar verið friðlýstar af Þjóðminjasafni Íslands. Þær eru rústirnar á Blikastaðanesi, Sámsstaðarústir í Hrafnhólum, leifar tveggja fjárborga skammt fyrir ofan Gljúfrastein og Hafravatnsrétt við austurenda Hafravatns. Auk þessara merku friðlýstu minja má nefna hólana tvo eða fornmannaleiðin: Hraðaleiði á landamærum Hraðastaða og Mosfells og Þormóðsleiði í Seljadal. Samkvæmt aldagamalli sögn er Hraði, þræll sem fékk frelsi til forna og byggði Hraðastaði, heygður í Hraðaleiði og, eins og fyrr er lýst, er Þormóður heygður í Þormóðsleiði.
Ef skoðuð er örnefnalýsing Tryggva Einarssonar í Miðdal um Þormóðsdal kennir ýmissa grasa. Tryggvi var gagnkunnugur í Þormóðsdal, sem er næsta jörð norðan Miðdals. Tryggvi var fæddur í Miðdal árið 1901 og hafði átt þar heima alla sína tíð. Hann skráði lýsinguna veturinn 1976-77.
„Að vestan ræður Hafravatn mörkum, að sunnan Seljadalsá og árförin inn í Leirdal. Lýsi ég örnefnum frá vesturmörkum.
Hafravatnseyrar eru að mestu uppgrónar (nú ræktað tún), markast af Seljadalsá að vestan og Hafravatni að norðan. Fyrir sunnan Hafravatnseyrar er hólaþyrping að Seljadalsá, er Vesturhólar heita. Austur af Vesturhólum, upp með Seljadalsá, eru stakir hólar, sem Sandhólar heita. Norðan við Sandhóla er mýri, sem Reiðingsmýri heitir, var þar nothæf reiðingsrista, en heytorf gott. Voru til menn, sem ristu allt að 300 torfur á dag. Norður af Reiðingsmýri er Grafarmýri; var þar mótak, frekar lélegt. Upp með Seljadalsá að Þormóðsdal eru melar, er Þormóðsdalsmelar heita. Vestur af Þormóðsdalsmelum eru grastorfur, er Torfur heita.
Við Hafravatn er Hafravatnsrétt. Sunnan við réttina er fallegur klettahóll, sem Stekkjarhóll heitir. Skammt austan við Stekkjarhól er Stekkjarás.
Vestan undir Stekkjarás er stekkur ásamt beitarhúsum frá Þormóðsdal. Norðaustur af Hafravatnsrétt er Stekkjargil.“
Þegar svæðið milli Stekkjargils og Seljadalsáar er skoðað má sjá móta fyrir víðfeðmri fjárborg, dómhring eða öðru hringlaga mannvirki á vind- og vatnssorfnum melhól, nokkru suðvestan við bæjartóftirnar. Markað hefur verið fyrir mannvirkinu með grjóthring, sem sést enn. Mannvirkið hefur verið gert úr torfi, en er nú löngu horfið af hólnum, enda gróðureyðingin þarna mikil. Eftir stendur grjóthringurinn mótunarumlegi.
„Í túninu í Þormóðsdal, skammt sunnan við bæinn, er talið, að Þormóður, sem bærinn dregur nafn sitt af, sé grafinn. Er þar en[n] að sjá upphlaðið leiði. Hefur því verið haldið við, svo lengi sem ég man eftir. Eru ámæli á leiði þessu, að sé það slegið, eiga að farast 3 stórgripir. Leiðið var slegið með vilja og vitund einu sinni í minni tíð. Fórust þá á árinu 3 stórgripir á hryllilegan hátt.“
Þrátt fyrir leit að leiðinu fannst það ekki svo öruggt mætti teljast. Bæði hefur svæðinu sunnan við bæinn verið raskað með vegagerð og athafnasvæði, auk tún- og trjáræktar. Mun gamall maður, Steingrímur, fyrrum ábúandi og hagvanur þarna á svæðinu, eitt sinn hafa skimað eftir leinu, en þá talið að það hefði farið undir nýja veginn. Gamli vegurinn sést þarna enn að hluta (lá fast niður við íbúðarhúsið), en þegar malbikaði vegurinn var lagður fyrir nokkrum árum (upp í malargryfjurnar undir Stórhól ofar í dalnum) er talið að hann hafi verið lagður yfir Þormóðsleiði, líkt og gert var við Járngerðarleiðið í Grindavík á sínum tíma. A.m.k. eru engin (eða nær því engin) ummerki eftir það sjáanleg nú – og er það skaði. Þar með er a.m.k. ein minjaperla Mosfellsbúa, sem fyrr er getið, horfin vegna gátleysis.
Á brún austan við Þormóðsdal eru leifar lítillar tóftar. Þegar nýi vegurinn var lagður hefur verið krukkað utan í syðsta hluta hennar. Tóftin er þrískipt; tvö rými og gerði vestast. Fróðlegt væri að komast að því hvað þessi tóft hefur haft að geyma, en a.m.k. austasti hluti hennar er nokkuð heillegur að sjá.
„Í túninu norðan við Þormóðsdalsbæinn er stór hóll, er Gapi heitir [á honum eru tóftir]; vestan undir Gapa er Gapamýri.
Norður af Þormóðsdalsbænum er fell, sem Þverfell heitir að gildragi nokkru austar. Þá tekur við Þormóðsdalsfjall. [Sukkar eru ofar og austar}. Úr Sukkum kemur lækur, er rennur í Seljadalsá, þar sem heitir Árnes. Heitir sá lækur Árneslækur. Bugða í Seljadalsá myndar Árnes. Árnes er allstórt, þurrlent og grasgefið. Voru þar aðalútengjaslægjur Þormóðsdals. Árnes er nú ræktað tún. Upp með Árneslæk að vestan var sauðahús Þormóðsdals. Sést þar vel fyrir tóftum.“
Sauðahús þetta er mjög stórt. Vel sést enn móta fyrir útlínum þess. Aftan (norðan) við það er hlaða eða heygarður. Sunnan við húsið mótar fyrir gerði. Skammt norðaustan við tóftina er næstum jarðlæg fjárborg eða fyrrum hús á lágum grónum hól. Mannvirki þetta hefur allt verið úr torfi, líkt og mannvirkið er áður var lýst á melhólnum suðvestan við bæinn. Enn má þó sjá móta fyrir stærð þess og lögun. Það hefur eflaust tengst sauðahúsinu, en virðist þó eldra af ummerkjum að dæma. Kannski sauðahúsið hafi orðið til þarna vegna borgarinnar.
Ofar er varða á klapparholti. Norðan hennar sést móta fyrir tóft í valllendi. Hún er að mestu jarðlæg og erfitt er að áætla notkunargildi hennar.
„Frá Árnesi upp með Seljadalsá að norðan, er alllöng valllendismóaspilda; þar mótar fyrir seltóftum. Var það nefnt Nærsel. Nokkru innar með ánni er hóll við ána, sem Hesthóll heitir.“
Hér er um að ræða tóftir, sem FERLIR fann nýlega eftir loftmynd. Við skoðun komu í ljós tvo mannvirki, er benda til þess að hafi verið sel. Ef ekki hefði komið til uppbit hrossa á þessu svæði hefðu tóftirnar að öllum líkindum horfið í landslagið, eins og þær hafa gert um langan aldur.
„Skammt fyrir norðan Hesthól er brattur hóll, sem Kambhóll heitir. Sunnan undir Kambhól er fjárrétt, er Kambsrétt heitir. Var hún notuð sem vorrétt. Við Kambsrétt er fallega gerður vegarspotti, sem var gerður fyrir konungskomuna 1874. Skammt fyrir austan Kambsrétt er árspræna, sem rennur niður í Seljadalsá í Seljadal; heitir hún Nesselsá. Upptök Nesselsár eru í sérkennilega fallegum krika undir suðvesturhorni Grímannsfells. Heitir sá kriki Nessel, talið sel frá Gufunesi; sést þar fyrir seltóftum.“ Hér er Nessel talið hafa verið frá Gufunesi, en í örnefnalýsingu Ness er það talið hafa verið frá Nesi á Seltjarnarnesi. Reyndar er einungis sagt að Nes hafi haft selstöðu í Seljadal, en telja má líklegt að enn eigi eftir að finnast tóftir selja í dalnum – við nánari leit. (Enn á eftir að gaumgæfa suður- og austurhluta dalsins). Þá er ekki vitað með vissu hvaða bæ Nærsel hafi tilheyrt, en það er jú í Seljadal.
Vekjandi athygli á ógætilegri vegagerð í nálægð má vel sjá á veginum í gegnum Kambsréttina miðja hversu lítið hugsunarháttur vegagerðarhönnuða hefur lítið breyst í langan tíma, eða allt frá tímum fyrstu vegargerðar hér á landi allt að því til dagsins í dag. Á allra síðustu árum virðist þó vera farið að rofa svolítið til í þessum efnum – til hins betra.
FERLIR skoðaði nýlega Kambsréttina sem og Nesselið, auk tófta tveggja annarra selja í Seldalnum.
Að lokum segir í örnefnalýsingu Tryggva að „suðvestur af Nesseli er hár hóll með klettaborgum að ofan, sem Hulduhóll heitir. Norðan við Nessel er hár melhryggur, sem Torfadalshryggur heitir. Norðaustur af Nesseli, uppi í Grímannsfelli, er áberandi urð, er Skollaurð heitir; þar er tófugreni. Nálægt miðju Grímannsfelli að sunnan er Illagil. Nær það hátt upp í fellið og er með öllu ófært yfirferðar; er tófugreni skammt frá efri enda gilsins.“
Sem fyrr segir verður eitt af verkefnum FERLIRs að skoða sunnanverðan Seljadalinn m.t.t. hugsanlegra tófta þar. Fjallað er og um gullvinnslu í Þormóðsdal HÉR.
Heimildir m.a.:
-isor.is
-mosfellsbaer.is
-Sturlubók.
-Örnefnalýsing fyrir Þormóðsdal.