Tag Archive for: Mosfellsveit

Lyklafell

„Skammt fyrir ofan Lækjarbotna eru Fóelluvötn og Sandskeið.
Eru þar á aðra hönd hálsar og hraun, en til norðausturs er að sjá flatt land og er þar aðeins eitt einstakt og lágt fell, sem kallast Lyklafell. Lyklafell-222Ber talsvert á því, vegna þess hve flatlent er umhverfis það. Þetta fell er merkilegt, því að það er hornmark á landamerkjum þriggja sýslna, Gullbringusýslu, Árnessýslu og Kjósarsýslu. Á þessum slóðum liggja saman Mosfellsheiði og Hellisheiði. Ekki er mér kunnugt um, að nein sérstök mörk séu á milli þeirra, en eðlilegt sýnist að Engidalsá, sem kemur ofan úr Hengli, aðskilji þær.
Hjá Fóelluvötnum og upp undir Lyklafell var um aldaraðir áningarstaður þeirra, sem fóru milli Innnesja og Suðurlandsundirlendis og ferðuðust annaðhvort fótgangandi eða á hestum. Og þaðan lágu þá fjórar leiðir „austur yfir Fjall“. Syðst var Ólafsskarðsleið, sem byrjaði í skarði milli Sauðadalshnúks vestri og Ólafsskarðshnúka, skammt fyrir ofan Vífilfell. Þegar sú leið var farin Lyklafell-223austur, var komið niður að Litlalandi eða Hlíðarenda í Ölfusi. Næst var svo Þrengslaleið og þar er nú kominn akvegur. Þriðja leiðin var um Lágaskarð úr Hveradolum og farið fyrir austan Stóra Meitil og var þá komið niður að Hjalla eða Hrauni í Ölfusi. Fjórða leiðin var svo um Hellisskarð hjá Kolviðarhóli og var þá komið niður að Reykjum í Ölfusi. En skammt fyrir norðan Lyklafell lá svo alfaraleið um Dyraveg og það var komið niður hjá Nesjavöllum í Grafningi. Suð leið taldist vera yfir Mosfellsheiði. Var þarna aðalvegur þeirra, sem bjuggu í uppsveitum Árnessýslu er þeir ferðuðust til byggðanna við Faxaflóa.
Þótt Lyklafell sé ekki hátt í loftinu, aðeins um 280 metra yfir sjó, hefur það eignazt sina þjóðsögu, og er hún á þessa leið:
Lyklafell-224— Maður er nefndur Ólafur og var bryti í Skálholti einhvern tíma á frægðarárum þess. Í Skálholti var þá ráðskona, sem var svarkur mikill og fjölkunnug. Einu sinni reiddist hún við Ólaf bryta og stefndi honum þá burt frá staðnum með fjölkynngi sinni. Varð Ólafur þá sem frávita, rauk af stað og hljóp eins og fætur toguðu suður um heiði og nam ekki staðar fyrr en í felli einu litlu. Þar kastaði hann niður öllum lyklum staðarins í Skálholti, og af því hefir fellið dregið nafn og verið kallað Lyklafell. Nú þóttist Ólafur góður, er hann var laus við lyklana. Sneri hann þá aftur og hljóp sem fætur toguðu, en tók aðra stefnu og fór um skarð það, er síðan hefir verið við hann kennt og kallað Ólafsskarð.
Hélt hann sprettinum austur yfir heiði og áfram eins og horfið, þar til hann var kominn Lyklafell-226austur í Skaftafellssýslu. Fannst hann seinna dauður hjá lækjum nokkrum, sem síðan eru við hann kenndir og kallaðir Brytalækir. Renna þeir í Hólmsá, sem fellur vestanvert við Skaftártungur og út í Kúðafljót. —
Þannig er sagan af ferðalagi Ólafs og ber hún það með sér, að hún er ósvikin þjóðsaga. En hún er þó einkennileg að því leyti, að hún dregur saman tilefni nokkurra örnefna, sem eru sitt á hverjum stað og óralangt á milli. Að vísu er ekki langt á milli Lyklaf ells og Ólafsskarðs, en Brytalækir eru á Fjallabaksvegi austan Mælifellssands, austur undir Hólmsá. Þess má enn geta, að Ólafshaus heitir rani austur úr Mýrdalsjökli, hér um bil í hásuður frá Brytalækjum.
En hamingjan má vita hvort það örnefni er einnig kennt við Ólaf bryta. Þetta er engin Lyklafell-227smávegis vegarlengd, sem Ólafur hefir hlaupið og ætti hann að vera mesti þolhlaupari Íslands fyrr og síðar. Ekki er þess getið á hvaða tíma árs þetta hefir verið, en sennilega hafa menn hugsað sér að það hafi verið að vetrarlagi og allar ár á ísi, því að öðrum kosti er hætt við að hin mörgu stórvötn, sem leið hans lá yfir, hefðu tafið ónotalega fyrir honum. Um fyrsta áfangann, á leiðinni frá Skálholti að Lyklafelli, er nokkurn veginn ljóst, að honum er ætlað að hlaupa frá Skálholti vestur yfir Brúará og síðan þvert yfir Grímsnes og Álftavatn og þaðan upp á Dyraveg. Kom hann þá rakleitt niður að Lyklafelli. Um hitt verður ekkert sagt hvaða leið honum hefir verið ætlað að fara frá Lyklafelli og allt austur í Skaftártungur. Er þýðingarlaust að brjóta heilann um það, enda skiptir það í rauninni engu máli fyrir söguna, því að henni er aðeins ætlað að skýra uppruna nokkurra örnefna. Og hún mun sögð í gamni og ekki ætlazt til þess að nokkur maður tryði henni. En hvað er þá um örnefnin? Ólafsskarð og Brytalækir eru enn á sínum stað. Um Lyklafell er allt vafasamara. Björn bóndi Bjarnarson í Grafarholti ritaði einu sinni um þetta nafn og taldi það hiklaust afbakað. Hann hélt því fram, að fellið mundi upphaflega hafa heitið Litlafell, en breytzt vegna framburðar í Lyklafell.“ 

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 14. október 1972, bls. 10 og 14.

Lyklafell

Lyklafell.

Þingvallavegur

Gamla reiðleiðin til Þingvalla frá Reykjavík lá um Seljadal.
Þar má enn sjá leifar götunnar. Vagnvegur var síðan lagður í og við reiðleiðina á síðari hluta 19. aldar. Árið 1901 var byrjað á vagnvegi upp frá Fridrik 8Reykjaveg ofan Seljadalsbrúna, sunnan Seljadals, og upp á Háamel þar sem göturnar mættust austan hans. Þeirri framkvæmd lauk 1906. Seljadalsleiðin var öll vel vörðuð, en hin ekki. Við Þrívörðuhæð skiptast aftur vagnvegirnir og gamla reiðleiðin. Árið 1906 var síðan byrjað á leið frá Þingvöllum að Geysi og Gullfossi – til handa voru danska kóngi.
Gamli Þingvallavegurinn, sem liggur yfir háheiðina, var lagður á árunum 1890-96. Byrjað var á honum af Suðurlandsvegi við Geitháls. Vegalagningin miðaðist þá að sjálfsögðu við umferð hestvagna og ríðandi fólks. Vegurinn var lagður nær á sömu slóðum sem hinar fornu ferðamannaslóðir lágu um, en þó ívið sunnar eins og fyrr sagði. Eftir lagningu hans beindist nær öll umferð um heiðina að þessum vegi. Vörður voru hlaðnar við hann á allri heiðinni til leiðbeiningar ferðamönnum.

Thingvallavegur gamli - 218

Byggt var nýtt sæluhús við veginn í stað gamla hússins, sem stóð talsvert austar og norðar, á sýslumörkunum. Talsverðar endurbætur voru gerðar á þessum vegi vegna konungskomunnar 1907. Sumarið 1913 var í fyrsta sinn ekið bifreið eftir þessum vegi til Þingvalla og var notast við hann sem bílveg eftir það í hálfan annan áratug.
Þegar fjallað er um Konungsveginn frá Reykjavík að Þingvöllum og áfram að Geysi og Gullfossi gleymst oft fyrrnefndur fyrsti hluti hans, þ.e. um Mosfellsheiði að Þingvöllum. Enn má glögglega sjá leifar vegarins. Leiðin frá Elliðakoti um Djúpadal að Vilborgarkeldu var genginn eitt kvöldið árið 2012, 105 árum eftir að Friðrik VIII. Vegarlengdin er um 21 km. Danakonungur reið þessa götu er sérstaklega hafði verið lögð af því tilefni. Ætlunin var m.a. að skoða handverkið við vegagerðina; vörður, ræsi, brýr, kanthleðslur, púkk, steinhlaðið sæluhús og leifar hins gamla veitingastaðar, Heiðarblómsins.

Thingvallavegur gamli - 202

Árið 1904, þegar Íslendingar fengu heimastjórn, má segja að hestvagnaöld hefjist; það sama ár fór sá þekkti vagnasmiður, Kristinn Jónsson á Grettisgötunni, að framleiða sína vagna. Tveimur árum síðar var lagt í stórvirki: Konungsvegurinn lagður með hökum og skóflum til Þingvalla og þaðan austur að Geysi, því von var á Friðriki konungi 8. sumarið eftir. Gert var ráð fyrir að kóngur kysi að aka í yfirbyggðum hestvagni, en svo fór að hann vildi heldur fara ríðandi og aðeins ferðakamarinn var á hjólum í konungsfylgdinni austur að Geysi. Nú sést lítið eftir af konungsveginum, sem var þó þjóðleið til Geysis og Gullfoss.
Lagning Konungsvegarins reyndi ekki aðeins á þolgæði og útsjónarsemi vegargerðarmanna sem unnu verk sitt með skóflu, haka og hestvagni heldur þurfti líka að seilast djúpt í landssjóðinn en sennilega er Konungsvegurinn dýrasti vegur sem lagður hefur verið á Íslandi ef miðað er við hlutfall af útgjöldum landssjóðsins.
Thingvallavegur gamli - 204Ráðist var í vegaframkvæmdina 1906 og lauk fyrir komu konungs 1907. Lög um landsreikning voru samþykkt fyrir árin 1906/07 í einu lagi og var kostnaður við vegabætur 220.257 krónur, stærsti hluti Konungsvegur en heildarútgjöld landssjóðs voru liðlega 3.1 milljón. Konungsvegurinn er sennilega ein dýrasta vegaframkvæmd Íslandssögunnar u.þ.b. 14% af ársútgjöldum ríkisins á þeim tíma og kostaði líka ómælt strit og dugnað vegagerðarmanna við frumstæð skilyrði.
„Erfitt er nútímamönnum að gera sér í hugarlund hvernig hingaðkoma konungs 1907 var. Gríðarlegt tilstand var: stór hluti af fjárlögum þessa árs var lagður í vegagerð um Suðurland en til stóð að konungur færi þar um í vagnalest. Var vögnum safnað af öllu landinu til að flytja föruneyti konungs.
Thingvallavegur gamli - 203Þegar til kom vildi Friðrik sitja hest og fór því föruneyti hans ríðandi að mestu. Hingað kom í sveit konungs mikill fjöldi danskra blaðamanna og fyrirmenna úr dönsku opinberu lífi. Alþingi bauð hingað 30 dönskum þingmönnum og endurgalt þar með heimboð íslenskra þingmanna frá árinu áður en þá fóru 35 af 40 alþingismönnum til Hafnar í heimsókn.
Hingað til lands kom konungur með föruneyti á þremur skipum. Var lagt upp frá Tollbúðinni hinn 21. júlí og var mikill mannfjöldi við strandlengjuna til að kveðja konung, þúsundir manna segja samtímaheimildir. Var sægur skipa sem fylgdi skipunum þremur, Birma, Atlanta og Geysi, á leið. Fyrri skipin voru fengin að láni frá Austur-Asíufélaginu, því aldna félagi sem hafði um aldaskeið einokun á viðskiptum Dana við Asíulönd. Birma var þeirra stærst, 5.000 smálestir að stærð. Tvö hundruð manns voru um borð, tuttugu þjónar, hljómsveitarmenn, kokkar auk gestanna og áhafnar.

Thingvallavegur gamli - 205

Fyrsti áfangi ferðarinnar voru Færeyjar og þangað kom konungsflotinn 24. júní. Reru heimamenn tugum báta undir flöggum til móts við flotann. Dvaldi konungur með fylgdarliði sínu í Færeyjum í þrjá sólarhringa, fór víða um eyjarnar, skoðaði atvinnulíf og híbýli manna. Lagt var upp til Íslands að morgni 27. júlí. Sóttist ferðin það vel að skip konungs máttu liggja heilan dag undan Akranesi til að ná réttum komudegi til Reykjavíkur.
Íbúar Reykjavíkur voru um tíu þúsund sumarið 1907. Þar var uppi fótur og fit hinn 29. júlí; menn voru þegar teknir að flagga og mátti víða sjá hvítbláinn við hún innan um Dannebrog. Konungur skyldi gista í húsi Lærða skólans, en gestum var víða komið niður; á Hótel Reykjavík og Hótel Íslandi. Móttökunefnd hafði aðsetur í Iðnaðarmannahúsinu. Skipað hafði verið við lægi undan landi en svo stór skip sem voru í fylgd konungs voru fátíð hér og engin höfn enn í bænum. Skyldi konungur stíga á land að morgni 30. júlí kl. 10 og skyldi bátur hans leggja að gömlu steinbryggjunni.
Thingvallavegur gamli - 206Þann dag voru allir í bænum í sparifötunum og komnir niður í Pósthússtræti þar sem nú er Tryggvagata að hylla konung.
Erlend fyrirmenni og innlend í einkennisbúningum, karlar í jakkafötum og sumir á fornklæðum, konur á skautbúningum, upphlut og dönskum búningum, börnin þvegin og snyrt og stóðu hvítklæddar ungmeyjar í röð sitthvorum megin við gönguleið konungs: pláss var tekið frá fyrir fimmtíu innlenda og erlenda ljósmyndara. Er skipafloti konungs seig inn sundin var skotið úr fallbyssum af frönsku herskipi er hér lág við festar. Hannes Hafstein hélt þegar til skips konungs og stundvíslega kl. 10 lagðist konungsbáturinn að steinbryggjunni, þeir konungur og Hannes stigu á land og Hannes bauð kóng sinn velkominn með handabandi: „Velkominn til þessa hluta ríkis yðar, herra konungur!“
„Hér á landi dvaldi konungur ásamt fylgdarliði til 15. ágúst. Hann fór um Suðurland ríðandi, sigldi síðan flota sínum vestur fyrir land, tók land á Ísafirði, fór síðan norður fyrir og kom við á Akureyri og loks austur um með lokaáfanga á Seyðisfirði.
Hvarvetna sem Friðrik áttundi fór kom hann fram við háa og lága sem jafningja sína, gaf sig að múgamönnum rétt sem embættismönnum. Hann var forvitinn um hagi fólks, alúðlegur og alþýðlegur. Víst er að móttökur þær sem hann fékk hér á landi hafa hlýjað honum um hjartarætur. Samtímaheimildir danskar eru fullar af hrifningu, geðshræringum, yfir viðtökum. Enda fór svo að konungur hreyfði í för sinni sjálfstæðismálum þjóðarinnar, nánast í blóra við ráðherra sína.“

Thingvallavegur gamli - 207

„En hann gaf íslenskum almenningi annað sjálfstæði ekki minna að virði: hann veitti þeim tækifæri í samtakamætti að skarta öllu sínu með þeim árangri að þeir fengu hrós fyrir og gátu verið stoltir af; bara konungsvegurinn austur var gríðarstórt afrek og synd að hann skuli ekki betur varðveittur og nýttur.
Margt af viðbúnaði hér var með séríslenskum hætti; til fundar við konung riðu bændur í Eyjafirði hópreið til Akureyrar og sátu einungis hvíta hesta. Er margt í lýsingum gestanna með sérstökum sakleysisbrag. Því heimsókn konungs var ekki síður landkynning sem beindist einkum gagnvart Dönum sjálfum og hefur vafalítið átt sinn þátt í hinni djúpstæðu lotningu sem hefur um langan aldur ríkt í Danmörku fyrir Íslandi, sögu og náttúru.“

Örn H. Bjarnason skrifaði m.a. um Konunsveginn:
 „Í lok júlí 1907, um miðjan þingtíma Alþingis, komu gestirnir til Reykjavíkur á tveimur skipum og herskip til fylgdar.

Thingvallavegur gamli - 208

Fyrir Íslendinga var konungskoman stór stund. Barnungur sjónarvottur minntist þess síðar hvað honum fannst „skrúðganga gegnum bæinn, með konung og Hannes Hafstein í fylkingarbrjósti, óumræðilega stórkostleg, og sólin aldrei hafa skinið yfir jörðina með þvílíkri birtu.“
Konungskoman var líka stórframkvæmd fyrir Íslendinga, sem vildu tjalda því sem til var að veita gestunum viðeigandi og eftirminnilegar móttökur. Frá Reykjavík var farið með gestina í vikuferð á hestum um Suðurland. Hátíð var haldin á Þingvöllum, líkt og við fyrstu konungsheimsókn til Íslands 1874, með nær sex þúsundum gesta.
Ferðin hófst 1. ágúst og var lagt af stað frá Latínuskólanum í Reykjavík. Konungur reið gráum hesti og var í búningi sjóliðsforingja með derhúfu að hætti aðmiráls og í uppháum leðurstígvélum. Hannes Hafstein Íslandsráðherra var á léttvígum, rauðskjóttum gæðingi Glæsir að nafni, kallaður Ráðherra-Skjóni. Seinna í ferðinni reið hann brúnum hesti en konungur hélt sig við gráa litinn enda hafði honum verið ætlaðir fjórir í þeim lit í ferðina. Þegar til kom líkaði honum aðeins við tvo þeirra. Mér skilst að Eggert Benediktsson bóndi í Laugardælum, stórbýli rétt fyrir austan Selfoss, hafi skaffað þessa gráu hesta.
Thingvallavegur gamli - 210Haraldur prins var í húsarabúningi. Þarna voru líka Axel Tulinius sýslumaður Suður-Múlasýslu, aðalskipuleggjari ferðarinnar, Rendtorff yfirhestasveinn konungs í rauðum búningi, J.C. Christensen forsætisráðherra og Rosenstand leyndaretatsráð svo að einhverjir séu nefndir. Leiðsögumenn voru m.a. þeir Guðmundur Björnsson landlæknir og Jón Magnússon skrifstofustjóri, síðar forsætisráðherra. Jón var hæglætismaður og frekar orðfár, en hvar sem hann sýndi sig fóru hjólin að snúast. Þannig var það einnig við undirbúning þessarar ferðar.
Það þurfti töluverða skipulagshæfileika til að henda reiður á öllu því hafurstaski sem fylgdi þessu liði, kerrur með tjöld og matföng og trússhestar, klyfsöðlar, hnakkar, beisli, lyfjaskrín, hattaöskjur og ferðakoffort. Þetta líktist meira innrásinni í Rússland eða herleiðingu eins og sagt er frá í Gamla testamentinu hjá Móse frá Egyptalandi eða Esekiel til Babylon, erillinn var svo mikill. Að morgni fyrsta dags voru allir að ganga af göflunum og þá var notalegt að hafa Jón Magnússon með sína góðu nærveru.
Thingvallavegur gamli - 211Hófaskellirnir á götum Reykjavíkur þennan dag komu öllum í ferðaham og góðhestarnir sem bændur sunnanlands og norðan höfðu lánað af þessu tilefni voru ekki af verri endanum. Flestar sýslur landsins lögðu til 18 hesta hver landssjóði að kostnaðarlausu, en einnig voru fjöldinn allur af leiguhestum.
Af lista yfir íslenska alþingismenn sem varðveist hefur er svo að sjá, að flestir þeirra hafi fengið tvo hesta til afnota. Númer 13 á listanum er Hannes Hafstein, 1. Þingmaður Eyfirðinga, Tjarnargötu. Hann fékk bara einn hest enda lagði hann sjálfur til Ráðherra-Skjóna. Björn M. Olsen, 3. Konungskjörinn þingmaður, Lækjargötu 8, fékk 3 hesta. Tryggvi Gunnarsson 1. Þingmaður Reykvíkinga fékk 2 hesta og sömuleiðis Þórhallur Bjarnarson þingmaður Borgfirðinga síðar biskup yfir Íslandi. Guðmundur Björnsson 2. Þingmaður Reykvíkinga, Amtmannsstíg 1, fékk engan hest enda hefur hann sjálfsagt verið með sína eigin hesta í ferðinni.

Thingvallavegur gamli - 212

Í bréfi dagsettu 7. febrúar 1907 býður Daniel Danielsson hinni háttvirtu Heimboðsnefnd vagnhesta til kaups á kr. 160 stykkið. Hann segir í bréfinu, að hann treysti sér ekki til að fara neðar þar sem hann telji að verð á hestum á sumri komandi verði mjög hátt. Þetta var svo sannarlega uppgripstími fyrir hestaspekúlanta.
Þar sem riðið var upp Hverfisgötu blakti danski fáninn við hún. Farið var upp hjá Rauðavatni og Geithálsi og síðan Hafravatnsveg í Djúpadal á Mosfellsheiði, en þar byrjar hinn eiginlegi gamli Þingvallavegur. Svipusmellir fylltu loftið og öllum mátti vera ljóst að þetta var enginn venjulegur reiðtúr. Á leiðinni bættust í hópinn bændur sem höfðu hlaupið frá búum sínum til að skoða kónginn. Þegar til kom gátu þeir ekki stillt sig um að slást í för á Þingvöll. Sumir voru ekki einir á ferð heldur með allt sitt hyski, konu og krakka.

Í Djúpadal var framreiddur hádegisverður. Eins og allir vita þá eru Danir fyrst í essinu sínu þegar matur er annars vegar. Þeir borða ekki eingöngu til að lafa á fótunum.

Thingvallavegur gamli - 209

Leifar Heiðarblómsins.

Matargerð er í þeirra augum listgrein og að skeggræða um mat umræðuefni sem stendur jafnfætis heimspekitali á gangstéttarkaffihúsum stórborganna.
Virkilega siðaður Dani getur rifjað upp matseðla áratugi aftur í tímann af jafn mikilli nákvæmni og veðurglöggur Íslendingur lýsir skýjafari. Danir eru heimsmenn.
Nema hvað í Djúpadal hafði Franz Håkansson, bakari og conditori, Austurstræti 17 látið senda 150 rúnstykki, 7 rúgbrauð og 12 franskbrauð. Pagh veitingastjóri var staðráðinn í því, að hvað sem öðru liði þá myndi Friðrik 8. Danakonungur ekki verða hungurmorða í ferðinni og þyrstur yrði hann ekki, enda sést í skjölum að Thomsens Magasin lét senda 4000 flöskur vestur að Rauðamel.
Thingvallavegur gamli - 213Þar var tappað ölkelduvatni á flöskurnar. Þetta ölkelduvatn var haft til hressingar í heimsókn konungs. Að loknum málsverði þumlungaðist hersingin áfram fyrir norðan Borgarhóla í áttina að Þrívörðum og sunnan við Vilborgarkeldu á Mosfellsheiði, sem er forn áningarstaður. Þaðan var ekki langt í Ferðamannahorn, en það heitir svo vegna þess að þar sést fyrst til langferðamanna að koma á Þingvöll. Svo lá leiðin um Kárastaðastíg og niður í Almannagjá. Þegar konungur reið niður gjána hrópaði fólkið sem hafði raðað sér þar upp nífalt húrra, ég endurtek nífalt, minna mátti ekki gagn gera.
En hver var þessi konungur sem verið var að hrópa húrra fyrir? Friðrik 8. var fæddur árið 1843 og dó árið 1912. Hann ríkti frá árinu 1906 til 1912. Faðir hans var Kristján 9. Þann stutta tíma sem Friðrik var við völd ferðaðist hann mikið um ríki sitt og komst í nána snertingu við þjóð sína. Hann beitti sér m.a. fyrir bættum samskiptum við Íslendinga. Árið 1869 gekk hann að eiga sænska prinsessu Louise að nafni.
Thingvallavegur gamli - 214Og þjóðin sem hann var að heimsækja hvernig var hún? Af því að maður er svolítið blindur á sitt eigið fólk þá gerði ég það að gamni mínu að fletta upp í Nordisk Konversasions Leksikon, 5. bindi, bls. 183. Þar stendur: “Íslendingar tilheyra hinum hvíta kynstofni, flestir eru háir, ljósir yfirlitum og langhöfðar. Þeir eru með blá augu og grannvaxnir.” Þetta fannst mér áhugaverð lesning, en meira hafði ég samt gaman af að koma út af bókasafninu og labba eftir Austurstræti og sjá margbreytileikann í útliti fólks enda er þjóðin örugglega ekki svona einslit eins og stendur í alfræðiritinu. Rannsóknir á blóðflokkum Íslendinga sýna raunar að þjóðin er af margvíslegum uppruna.
En við vorum stödd á Þingvöllum. Þar höfðu miklar vegabætur farið fram sem og annars staðar á leið konungs.

Thingvallavegur gamli - 215

Árið 2000 voru líka lagðir vegir á Þingvöllum. Það tengdist Kristnitökuhátíðinni. Þetta voru mjög snotrir vegir út um alla móa, en lágu svo sem ekkert sérstakt að mér fannst. Áhugavert þótti mér að sjá hvílíkri tækni vegakarlar bjuggu yfir þegar þeir mokuðu þessum sömu vegum upp á vörubíla aftur og keyrðu í burtu. Þarna hófst nýr kafli í samgöngusögu þjóðarinnar. Það er ekki enn búið að moka í burtu Kóngsveginum gamla en slitróttur er hann orðinn á köflum.“
Á háheiðinni er enn að finna tóftir veitingahússins Heiðarblómsins sem rekið var þarna á heiðinni á árunum 1925-1930. Rekstri þar var hætt um leið og vegurinn lagðist af í kjölfar Alþingishátíðarinnar 1930, en af því tilefni var nýr malarvegur lagður um Mosfellsdal til Þingvalla.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 40 mín.

Heimildir m.a.:
-Lesbók Morgunblaðsins 7. september 1991, bls. 3.
-Morgunblaðið, 3. mars 2007, bls. 32.
-Morgunblaðið 15. júní 2007, bls. 40.
-Fréttablaðið, 31. maí 2007, bls. 64.
-heimastjorn.is/heimastjornartiminn/thingmannaforin-og-konungskoman/index.html
-hugi.is. Gamlar götur – Konungskoman 1907, Örn H. Bjarnason.

Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn – ræsi og varða framundan.

Hrísbrúarsel
Skoðaðar voru seljarústir við Leirvogsá norður undir Mosfelli (sennilega frá Hrísbrú) og síðan norðaustan við Leirtjörn (Markúsarsel).
Selrústirnar selsins frá Hrísbrú er norðan undir austanverðu Mosfelli, á milli Mosfells og Leirvogsár. Í örnefnaskrá Minna-Mosfells segir m.a.: “ Neðar við Leirvogsá [ norðan Mosfells] heita mýrarnar Stóra-Sveinamýri og Litla-Sveinamýri. Það er allmikið flæmi öðru nafni nefnt Selflatir.“

Markúsarsel

Markúsarsel.

Í örnefnaskrá fyrir Mosfell segir auk þess: “Merkin móti Minna-Mosfelli eru varða austast á Selás“, sem þá hlýtur að vera norður undir Leirvogsá … . „Meðfram ánni heita Sveinamýrar…. . Ketilhylur [í Leirvogsá]. Þar vestur við er mói nefndur Sel og Ketilvellir er smáhóldrag, sem selið stendur í.“ Þetta með Ketilhylinn er líklega eitthvað málum blandið því í riti E.J. Stardals (sérprentun F.Í. 1985) segir m.a.: “Örskammt neðan við Ketilhyl liggur annað gljúfur niður að Tröllagljúfrum sem heita Rauðhólsgil.“. Þetta passar nú ekki alveg landfræðilega séð nema að tveir Ketilhyljir séu í Leirvogsá með stuttu millibili? Ósennilegt er það þó! Á veiðikorti yfir Leirvogsá 1989 er Ketilhylur skammt fyrir neðan Tröllafoss, neðst í gljúfrunum.
Selsrústirnar eru ógreinilegar, orðnar nær jarðlægar, en þó má vel áætla þær. Stekkurinn, ílangur, er ofar í hlíðinni.
Samkvæmt Jarðabókina, með tilliti til framangreindrar staðsetningar, er einna líklegast að þetta sé selstaða frá Hrísbrú þó hún sé núna í Mosfellslandi eða fast á mörkum. Í jarðabókinni segir um Hrísbrú: “Selstöðu á jörðin í heimalandi.“ Mosfell á selstöðu „undir Grímarsfelli“ og þá er mjög líklega átt við Helgusel. Svo hefur einnig verið um Jónssel við Jónsselslæk og Mosfellssel undir Illaklifi suðaustan við Leirvogsvatn. Einnig eru selstóftir við Geldingatjörn, sem enn eru ókannaðar, sbr. hér á eftir.

Egilssaga

Úr Safni til Sögu Íslands og ísl. bókmennta (aths. við Egils Sögu), bls. 272.

Helgusel er í Helguhvammi austan við Köldukvísl skammtofan við Hrafnaklett. Sjá má hinn fallega Helgufoss í suður af selinu (sjá aðra

Markúsarsel

Markúsarsel.

FERLIRslýsingu). Í fyrstu virðist þar ekki raunveruleg selstaða því svo landþröngt er þarna. Hringlaga fjárborg er vestan við selið, líklega frá svipuðum tíma og selrústirnar. Eitthvað er þetta þó sem passar ekki inn í heildarmyndina af fjárborgum á svæðinu yfirhöfuð, en það skýrsit væntanlega við nánari skoðun. Spurning er og hver átti selstöðuna austan Leirvogsvatns því sagt er að hún hafi verið frá Mosfelli. Ef svo er, þá spurning á hvaða tíma hvor þessarra selstaða var?
Nafn Hrísbrúar er á vegskilti í Mosfellsdal, á vinstri hönd þegar ekið er austur Þingvallaveg. Sumir myndu vilja velta vöngum yfir hvar nefnd Hrísbrú hafi staðið. Eftirfarandi frásögn í bæjarblaðinu Mosfellingi ætti að geta varpað svolitlu ljósi á það: „Margir hafa velt vöngum um afdrif beina Egils. Egilssaga fjallar um þetta og víðar hefur það verið gert. Halldór Laxness stúderaði sögu Mosfellsdals á sínum tíma og færði í frásögn með sínum hætti í Innansveitarkróniku: „Kirkja hafði að öndverðu verið reist undir Mosfelli á þeim stað sem síðar hefur heitið Hrísbrú, og stóð þar uns skriða hljóp á túnið á 12tu öld; var þá flutt á hól einn leingra inn með fjallinu, Mosfellsstað sem nú heitir. Hrísbrú varð leigukot í Mosfellstúni vestan skriðunnar. Þegar kirkjan var flutt fundust, að því er skrifað er, mannabein undir altarisstað í Hrísbrúarkirkju hinni fornu; voru þau miklu meiri en annarra manna bein og fluttu Mosdælir þau til Mosfells ásamt með kirkjunni og þóttust gamlir menn kenna þar bein Egils Skallagrímssonar.“
Um það hvort framangreinst sel geti verið allt að því frá tímum Egils Skallagrímssonar, eða jafnvel eldra, skal ekkert um sagt hér, en þó er ljóst að allt of fá sel hér á landi hafa verið rannsökuð m.t.t. aldursgreininga. Telja má víst að selstöður hafa verið hér á landi allt frá því að fyrstu menn með bústofn er settust hér að.

Hrísbrúarsel

Hrísbrúarsel.

Markúsarsel er nefnt í örnefnaskrá Seljabrekku. Rústirnar standa NA við Leirtjörn, skammt ofan við tjörnina. Slóði liggur frá norðanverðum Þingvallavegi, skammt austan gatnamótanna að Selholti og Selvangi (Hrafnhólum) að sumarbústað sunnan við tjörnina. Merkileg og stór varða er á Skyggni skammt þarna norðan við. Varðan er í landi Skeggjastaða því í merkjalýsingu Mosfellsheiðar í landamerkjabréfi Stóra Mosfells frá árinu 1890 segir m.a. um landamerkin: „Þaðan í Sýlingarstein austan til á Skógarbringum og er hann hornmark milli Laxness og Skeggjastaða.“ Sýklingarsteinninn er skammt ofan við Selholt, nokkru vestan Leirtjarnar.

Markúsarsel er dæmigerð selrúst, tvö hús, annað (það vestara) tvískipt með misstórum rýmum. Af tóftunum að dæma virðast þær ekki svo ýkja gamlar, ferhyrnd rýmin sjást enn vel og mótar fyrir hleðslum. Neðri tóftirnar (tvöfalda rýmið) hafa væntanlega verið eldhús (vestar) og íverustaður. Líklegt má telja að austari tóftin hafi verið geymslurými. Uppspretta er skammt norðan við hana og hefur það þótt búbót á vetrum.
Skammt sunnar (30-50 m) mótar fyrir stekk eða einhverju slíku. Hann er þó helst til langt í burtu frá tóftunum miðað við hefðina.
Vestan við selið hefur grasi vaxið kargaþýfi verið ræst fram og raskað. Ekki er ólíklegt að stekkurinn hafi verið þar því jafnan er vel gróið í kringum mannvirki sem það, auk þess sem stutt hefur þá verið í vatn.
Langa tóftin í Markúsarseli (10 m) er líklega nýrri tíma fjárhús (langhöluhús, fyrstu fjárhús sem byggð voru á landinu) svipað því sem er við og ofan skógræktina við Rauðavatn, en á því er eins og heytóft aftan við en hins vegar ekki við þessa.

Markúsarsel

Markúsarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki er fyllilega ljóst hvaðan Markúsarsel við Leirtjörn gæti verið. Ekki er útilokað að upplýsingar um það kunni að leynast einhvers staðar í fornleifaskrá fyrir sveitina.
Í athugasemdum Guðmundar Þorlákssonar bónda í Stardal við handrit Ara Gíslasonar, sem borið var undir hann 23/ 8 1968, kemur m.a. fram að „graslendið sunnan Langahryggjar og upp af Leirtjörn heiti Markúsarsel og eru þar gamlar húsatættur. Sagnir eru um, að þar hafi verið búið á fyrra hluta síðustu aldar.“ Fróðlegt væri að fá nánari fregnir af þeirri búsetu, ekki síst fyrir ástæðu hennar. Heillegt og reglulegt Markúsarselið gæti hafa mótast af þeirri búsetu, enda ekki keimlíkt öðrum seljum á þessu svæði, sem telja má forn. Líklegt þykir þó að selin í Mosfellsheiði, ólíkt því sem gerðist á Reykjanesskaganum, hafi sum hver byggst upp sem kot eftir að selstöður lögðust af á þessu svæði er líða tók á 19. öldina. Sum seljanna gætu hafa verið í notkun í ákveðin tíma, en síðan annað hvort verið lögð af, endurbyggð eða færð annað. Þannig gæti t.d. Helgusel og Mosfellssel hafa verið frá Mosfelli, en á sitt hvoru tímaskeiði. Af ummerkjum í Mosfellsseli undir Illaklifi að dæma virðist það nokkuð „nýlegt“ af seli að vera. Þó stangast það á við aðrar kenningar um að selstöður hafi í fyrstu verið sem næst landamörkum (m.a. til að nýta beitarlandið sem best og tryggja vitund annarra um mörkin), en færst nær bæjum þegar fólki tók að fækka og ræktun heimavið hafði verið orðin notadrjúgri.

Að sögn íbúa á Selvangi, íbúðarhúsi því sem stendur næst Leirtjörn, er líklegt að Markúsarsel hafi verið eitt seljanna frá Mosfelli eða Skeggjastöðum. Í fyrrnefnda selinu segja sagnir að hafi búið kona veturlangt skömmu fyrir aldamótin 1900. Íbúðarhúsin þarna ofan vegar (Þingvallavegar) voru byggð um 1950 og Seljabrekka, neðan vegar, um 1930.
Ábúandinn í Seljabrekku benti FERLIRsfélögum á Markúsarsel þegar svæðið var gaumgæft, auk Jónssels og óþekkts sels við Geldingatjörn.Heimild m.a.:
-Óbyggðanefnd.
-Mosfellingur – 10. tbl. 4. árg. föstudagur 19. ágúst 2005.
-Örnefnaskrá fyrir Minna-Mosfell.
-Örnefnaskrá fyrir Mosfell.

Markúsarsel

Markúsarsel.