Lyklafell

“Skammt fyrir ofan Lækjarbotna eru Fóelluvötn og Sandskeið.
Eru þar á aðra hönd hálsar og hraun, en til norðausturs er að sjá flatt land og er þar aðeins eitt einstakt og lágt fell, sem kallast Lyklafell. Lyklafell-222Ber talsvert á því, vegna þess hve flatlent er umhverfis það. Þetta fell er merkilegt, því að það er hornmark á landamerkjum þriggja sýslna, Gullbringusýslu, Árnessýslu og Kjósarsýslu. Á þessum slóðum liggja saman Mosfellsheiði og Hellisheiði. Ekki er mér kunnugt um, að nein sérstök mörk séu á milli þeirra, en eðlilegt sýnist að Engidalsá, sem kemur ofan úr Hengli, aðskilji þær.
Hjá Fóelluvötnum og upp undir Lyklafell var um aldaraðir áningarstaður þeirra, sem fóru milli Innnesja og Suðurlandsundirlendis og ferðuðust annaðhvort fótgangandi eða á hestum. Og þaðan lágu þá fjórar leiðir „austur yfir Fjall”. Syðst var Ólafsskarðsleið, sem byrjaði í skarði milli Sauðadalshnúks vestri og Ólafsskarðshnúka, skammt fyrir ofan Vífilfell. Þegar sú leið var farin Lyklafell-223austur, var komið niður að Litlalandi eða Hlíðarenda í Ölfusi. Næst var svo Þrengslaleið og þar er nú kominn akvegur. Þriðja leiðin var um Lágaskarð úr Hveradolum og farið fyrir austan Stóra Meitil og var þá komið niður að Hjalla eða Hrauni í Ölfusi. Fjórða leiðin var svo um Hellisskarð hjá Kolviðarhóli og var þá komið niður að Reykjum í Ölfusi. En skammt fyrir norðan Lyklafell lá svo alfaraleið um Dyraveg og það var komið niður hjá Nesjavöllum í Grafningi. Suð leið taldist vera yfir Mosfellsheiði. Var þarna aðalvegur þeirra, sem bjuggu í uppsveitum Árnessýslu er þeir ferðuðust til byggðanna við Faxaflóa.
Þótt Lyklafell sé ekki hátt í loftinu, aðeins um 280 metra yfir sjó, hefur það eignazt sina þjóðsögu, og er hún á þessa leið:
Lyklafell-224— Maður er nefndur Ólafur og var bryti í Skálholti einhvern tíma á frægðarárum þess. Í Skálholti var þá ráðskona, sem var svarkur mikill og fjölkunnug. Einu sinni reiddist hún við Ólaf bryta og stefndi honum þá burt frá staðnum með fjölkynngi sinni. Varð Ólafur þá sem frávita, rauk af stað og hljóp eins og fætur toguðu suður um heiði og nam ekki staðar fyrr en í felli einu litlu. Þar kastaði hann niður öllum lyklum staðarins í Skálholti, og af því hefir fellið dregið nafn og verið kallað Lyklafell. Nú þóttist Ólafur góður, er hann var laus við lyklana. Sneri hann þá aftur og hljóp sem fætur toguðu, en tók aðra stefnu og fór um skarð það, er síðan hefir verið við hann kennt og kallað Ólafsskarð.
Hélt hann sprettinum austur yfir heiði og áfram eins og horfið, þar til hann var kominn Lyklafell-226austur í Skaftafellssýslu. Fannst hann seinna dauður hjá lækjum nokkrum, sem síðan eru við hann kenndir og kallaðir Brytalækir. Renna þeir í Hólmsá, sem fellur vestanvert við Skaftártungur og út í Kúðafljót. —
Þannig er sagan af ferðalagi Ólafs og ber hún það með sér, að hún er ósvikin þjóðsaga. En hún er þó einkennileg að því leyti, að hún dregur saman tilefni nokkurra örnefna, sem eru sitt á hverjum stað og óralangt á milli. Að vísu er ekki langt á milli Lyklaf ells og Ólafsskarðs, en Brytalækir eru á Fjallabaksvegi austan Mælifellssands, austur undir Hólmsá. Þess má enn geta, að Ólafshaus heitir rani austur úr Mýrdalsjökli, hér um bil í hásuður frá Brytalækjum.
En hamingjan má vita hvort það örnefni er einnig kennt við Ólaf bryta. Þetta er engin Lyklafell-227smávegis vegarlengd, sem Ólafur hefir hlaupið og ætti hann að vera mesti þolhlaupari Íslands fyrr og síðar. Ekki er þess getið á hvaða tíma árs þetta hefir verið, en sennilega hafa menn hugsað sér að það hafi verið að vetrarlagi og allar ár á ísi, því að öðrum kosti er hætt við að hin mörgu stórvötn, sem leið hans lá yfir, hefðu tafið ónotalega fyrir honum. Um fyrsta áfangann, á leiðinni frá Skálholti að Lyklafelli, er nokkurn veginn ljóst, að honum er ætlað að hlaupa frá Skálholti vestur yfir Brúará og síðan þvert yfir Grímsnes og Álftavatn og þaðan upp á Dyraveg. Kom hann þá rakleitt niður að Lyklafelli. Um hitt verður ekkert sagt hvaða leið honum hefir verið ætlað að fara frá Lyklafelli og allt austur í Skaftártungur. Er þýðingarlaust að brjóta heilann um það, enda skiptir það í rauninni engu máli fyrir söguna, því að henni er aðeins ætlað að skýra uppruna nokkurra örnefna. Og hún mun sögð í gamni og ekki ætlazt til þess að nokkur maður tryði henni. En hvað er þá um örnefnin? Ólafsskarð og Brytalækir eru enn á sínum stað. Um Lyklafell er allt vafasamara. Björn bóndi Bjarnarson í Grafarholti ritaði einu sinni um þetta nafn og taldi það hiklaust afbakað. Hann hélt því fram, að fellið mundi upphaflega hafa heitið Litlafell, en breytzt vegna framburðar í Lyklafell.” 

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 14. október 1972, bls. 10 og 14.

Lyklafell

Lyklafell.