Tag Archive for: Lyklafell

Elliðakot

Í Alþýðublaðinu 1. nóv. 1963 fjallar Hannes á horninu m.a. um „Elliðakot„.

Elliðakot

Elliðakot.

„Um daginn vakti ég máls á því, að nýju elliheimili yrði valinn staður við Rauðavatn, og ræddi ég um þetta af tilefni þeirrar hugmyndar Gísla Sigurbjörnssonar að reisa smáhýsi við stærri elliheimili, sem aldrað fólk gæti fengið leigt eða að einhverju leyti til eignar en notið aðstoðar og fyrirgreiðslu starfseminnar í aðalbyggingunni.

Rauðavatn

Rauðavatn.

Hugmynd Gísla hefur nokkrum sinnum verið rædd opinberlega og ég minnist þess, að fyrir um tveimur áratugum minntist ég á svipað og þetta eftir að hafa kynnzt starfsemi fyrir aldrað fólk erlendis. Nú hefur mér verið bent á annan stað, sem gæti reynzt alveg eins heppilegur og við Rauðavatn, en það er jörðin Elliðakot, sem nú hefur verið í eyði í nokkur ár. Það var ræktað land og þar er fallegt vatn, skjólsamt og mátulega langt frá Reykjavík. Gott væri ef ráðamenn vildu athuga þessi mál. Elliheimili eiga ekki að vera inni í miðbiki borga. Þau mega heldur ekki vera langt í burtu. Rauðavatn og Elliðakot, virðast uppfylla flest skilyrði.“

Elliðakot

Elliðakot.

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1914 fjallar Björn Bjarnason um örnefnin ofan Grafar, einkum þó hinar fornu þjóðleiðir.

Björn Bjarnason

Björn Bjarnason.

„Eg hefi gert skrá yfir örnefni sem nú eru kunn á jörð þeirri, er eg hefi búið á nú síðastliðin 16 ár. Hún er sýnishorn af örnefnafjölda á einni jörð. Alt landið er nöfnum stráð. Verða mætti þetta öðrum til hvatningar er rita vildu slíka skrá fyrir jörð sína og þannig geyma örnefni hennar frá röskun og ef til vill glötun. Um notkun fornveganna má fræðast af rúnum þeim, sem hestafæturnir hafa rist á jörðina, þar sem tönn tímans eigi hefir til fulls afmáð þær eða útskafið, og sumstaðar hjálpa örnefnin til að skilja. Greinilegastar eru rúnir þessar sem spor í klappir, gatnafjöldi í grónu valllendi, sem ekki hefir legið undir árensli, og troðningar í móum. Þó þeir sé grónir aftur sjást göturnar af því, að þar eru geilarnar dýpri og beinni í sömu stefnu, en annarsstaðar. Í melum og lausagrjótsholtum má einnig finna fornvegina, stundum sem laut eða skoru, en þó einkum með því að athuga grjótið. Í götunni er það troðið, máðar af því nybbur líkt og brimsorfnu grjóti. Af því stafa litaskifti, sem sjást á því, þar sem umferð hefir verið, þó hún sé hætt fyrir löngu.

Austurleið

Austurleið.

Alla tíð síðan landið var bygt hlýtur umferð að hafa verið mikil milli austurhéraðanna annars vegar og sveita og hafna við sunnanverðan Faxaflóa hins vegar. Uppsigling kaupmanna hefir verið þar tíðari og sjávarafli vissari en á brimströndunum ofanfjalls, en aftur á móti betri landbúnaður eystra, og vöruskifti þvi mikil milli þessara staða. Hestar voru einu flutningatækin.

Ferja

Ferja á Þjórsá um 1900.

Þó ferjur væru við stórárnar hafa menn heldur kosið að fara þær á vöðum, er þess var kostur. Flóann hafa menn forðast vegna foræðanna og hraunin vegna ógreiðfærni og járnafrekju. Aðalvegurinn austan að, úr Rangárvallasýslu, hefir verið fyrir ofan Flóann, Þjórsá farin á Nautavaði eða Kallaðarholtsferju. (Sá bær er nú nefndur Kaldárholt, sbr. Árbók Fornl.fl. 1907, bls. 36. Norðan við túnið þar er Naustanes og Skipaklettur við Þjórsá og bærinn er í stefnu við veginn norðan Flóans. Engin Kaldá er þar til, en hverir í Þjórsá við túnið). Síðan hefir vegurinn legið yfir Skeið, sunnan undir Vörðufelli, og þá ofan með Hvítá. Vegarskoran í Árhrauni og gatnafjöldinn á Brúnastaðaflötum ber vott um, að sá vegur hefir verið fjölfarinn, en nú er þar að eins bæjaslangurs-umferð. Hvítá hefur verið farin á ferjum eða vaðinu, sem Vaðnes dregur nafn af. En á Soginu var almenningsvað, oftast fært, yfir Álftavatn, fram um miðja næstliðna öld. Þaðan lá leiðin upp Grafning, Dyraveg og Mosfellsheiði til Almannadals. Þessi leið var einnig beinust fyrir þá, sem fóru Hvítá á Tunguvaði og út Tungur, eða á ferjum þar fyrir neðan alt að Laugardælum. Á allri þessari leið er aðeins ein brekka, svo teljandi sé, og hún ekki há, upp á Dyrafjöllin að austan hjá Nesjavöllum, lítið um votlendi og engin hraun nema stuttan spöl á tveim til þrem stöðum.

Sporið

Sporhellan ofan Dyradals.

Þenna veg hafa t. d. Skálholtslestirnar farið til Suðurnesja öldum saman, og hefir munað um sporin þeirra. Allstaðar er graslendi og hagar góðir með þessum vegi. Þar sem vegurinn liggur yfir Dyrafjöllin eru þau aðeins lítill háls með ásum og vellisdölum.

Sporhella

Sporhellan.

Á einum ásnum verður að fara yfir hallandi klöpp, sem nefnd er Sporhella. Hefir myndast sporaslóð i bergið, efst fyrst, en sporin síðan stigist niður eftir klöppinni. Eru nú sporarákarnar með bálkum á milli orðnar um 2 fðm. að lengd (líkist tönnum í greiðu). Vegur þessi hefir nú lengi verið sjaldfarinn. Dyrnar, sem nafnið er dregið af, eru á veginum milli Dyradals og Skeggjadals; er rétt klyfjagengt milli standklettanna. Af vestasta ásnum blasir við útsýn yflr Faxaflóa og Nesin. Vestur eftir Mosfellsheiði sést enn dökk, breið rák eftir umferðina. Þar eru víðir mosamóar, sem margar götur hafa myndast í, og eru enn ekki að fullu grónar. Og þessi vegur hefir á fyrri öldum legið um Hofmannaflöt til Almannadals.
Önnur aðalleiðin austanað hefur verið út með sjó, sunnan Flóa, um Sandhólaferju og Óseyrarferju, og þeir, sem áttu leið vesturyfir heiði, hafa einkum farið Ólafsskarðsveg. Hann er því nær brekkulaus og hrauna. Hellisheiði og Lágaskarð hafa verið sjaldfarnari. Þeir vegir koma saman á Bolavöllum, »Völlum hinum efri« liggja norðan Svínahrauns, um »Völlu hina neðri«, og saman við Dyraveg hjá Lykla (Litla-?) -felli, og þar litlu neðar hefir Ólafsskarðsvegur einnig komið saman við þá.

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel.

Nú veit enginn hvar Viðeyjarsel hefir verið, þar sem þeir, er sendir voru úr Hafnarfirði eftir Ögmundi biskupi að Hjalla, áðu áður en þeir lögðu á Ólafsskarð. En mér þykir líklegt að það hafi verið við Selvatn, rétt hjá þessum vegi, sem þar er sameiginlegur fyrir allar áðurnefndar leiðir, og að Elliðárkot (sögn er sú, að Gizur biskup hafi átt samleið með þeim „upp undir Hellisheiði“ hendir til, að þangað hafi Dyra- og Ólafsskarðsvegir legið saman, eins og hefi hér bent á. Vegaskiftin eru vestast á heiðinni niður frá Lyklafelli; Viðeyjarsel hefir líklega verið litlu neðar, og þar gátu þeir hafa skilið) (Helliskot=Elliðakot), hafi þá verið lítt bygt eða í eyði, og hið góða og mikla sumarbeitarland þess notað til beitar fyrir selfénað klaustursins.

Austurleið

Austurleið.

Úr Almannadal hefir legið:
1) vegur til norðurs hjá Reynisvatni niður til veiðistöðvanna við sunnanverðan Kollafjörð, í Blikastaðagerði (þar sjást enn fiskbyrgin), Geldinganesi(?) og Gufunesi, og til verzlunar við kaupmenn, sem þar hafa legið á hinum góðu höfnum (t. d. Hallfreð vandræðaskáld á Leiruvogi), og til Viðeyjar;
2) vegur til vesturs um Árbæ til Seltjarnarness;
3) vegur til útsuðurs yfir Elliðaár á (Vatnsenda-) Skygnisvaði um Vatnsenda, Vífilsstaði til Hafnarfjarðar, Álftaness og suður með sjó;
4) vegur fyrir ofan Rauðhóla og sunnan Elliðavatn, er farinn hefir verið þá er Elliðaár þóttu torfærar á vöðunum fyrir neðan Vatn.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur – Lyklafell.

5) vegurinn austur frá öllum fyrrnefndum stöðum, sameiginlegur upp undir Lyklafell, hverja leið er svo skyldi fara austur yfir hálendið (= fjallið), eins og fyr segir. Einnig til selfara upp í heiðina; Nessel, frá Nesi við Seltjörn, var t. d. í Seljadal í Þormóðsdalslandi, Viðeyjarsel við Selvatn? o. s. frv. Þá hefir Almannadalur borið nafnið með réttu.

Seljadalur

Vegur um Seljadal.

En hvenær vegarstefnurnar hafa breyzt má sjálfsagt finna með sögurannsókn, sem eg hefi eigi hentugleika til. Það hefir líklega orðið um sama leyti sem stefnu Mosfellsheiðarvegarins var breytt og hann lagður um Seljadal. Þá hefir Dyravegur hallast norður saman við hann hjá Miðdal (Mýrdal?). Mosfellsheiðarvegur lá áður um Illaklyf sunnan við Leirvogsvatn og ofan Mosfellsdal. Í Illaklyfi eru djúp spor í klappirnar og vegurinn auðrakinn alla leið, þó sjaldan hafi farinn verið á síðari öldum. Á þeirri leið er Tjaldanes, þar sem Egill fyrst var heygður, (nú nefnt Víðiroddi).
Grafirnar, sem margt af bæjum á landi hér dregur nafn af, eru oft grónar, djúpar geilar eftir læki; svo er hér.

Bullaugu

Uppdráttur (hluti) af nágrenni Grafarholts
Uppdráttur frá 1963 sem sýnir örnefni á Grafarholtslandinu og nágrenni þess.

Það er allvítt svæði sem hér er kent við Hádegi, enda voru 4—5 bæir i »Grafarhverfinu« og hafa allir haldið hádegi þar, en lítið eitt mismunandi, sumir á hæðinni, aðrir á vörðunni, o. s. frv. Hér var bygt ból snemma á næstl, öld, og síðar fjárhús frá Gröf. Nú er þar greiðasöluhúsið »Baldurshagi«, er dálítill landblettur fylgir.
Hefir á síðari tímum verið nefnd Margróf (latmæli) og var ágreiningur um merki milli Grafar og Árbæjar. Nú er þetta lagfært og merkin ákveðin.
Norðlingaholt. Um uppruna þessa órnefnis er ókunnugt,  en mér þykir líklegt að það stafi af umferð Norðlinga þar. Þegar þeir fóru til Suðurnesja, lá leið þeirra um Mosfellsheiði og yfir Mosfellssveit. Á fyrri öldum var lítið að erinda til Reykjavíkur, sem þá var að eins eitt býli. Lá þá beinast við að slá sér á austanveginn hjá Rauðavatni; er örstutt úr Grafarvogi suður á hann, enda er enn sýnileg skýr fornvegarskora yfir Hádegismóa hjá Hádegisvörðu í þá stefnu, ótrúlega djúp til að geta verið heimilisgata frá Gröf, og að öllu leyti lítil ástæða til slíkrar umferðar þar þaðan.

Austurleið

Varða við Austurleið.

En hafi Norðlingar farið þá leið, lá vegur þeirra meðfram Norðlingaholti að austan og sunnan. Á suðurleið sást þar fyrst til ferða þeirra frá næstu bæjunum þar, Elliðavatni og Vatnsenda, Oddagerði (Oddgeirsnes ?) o. s. frv. Hér virðist reik og ruglingur kominn á örnefni. Oftast nefnt »suður í nesi« eða Odda. Í afskrift sem eg hefi af jb. Á. M. frá 1704 stendur: Oddageirsnes, forn eydi jörd, og hefur í auðn verið fyrir allra manna minni sem nú eru á life … . Meina menn ómögulegt aftur að byggja fyrer því að tún öll sem að fornu hafa verið eru upp blásin og komin í mosa«.

Oddagerðisnes

Oddagerðisnes – loftmynd.

Frá Klapparholtsmóum gengur þarna mishæðóttur lyngmóahryggur suður í flatlendið, sem Elliðavatnsengjar eru á, og beygist Bugða fyrir hann, rennur fram með honum, og myndar þannig langt og eigi breytt nes eða odda. Syðst á oddanum er stór hóll eða holt, en í lægð norðan við hann hefir bær verið og fleiri byggingar. Eru þær rústir mjög fornlegar. Vestur frá þessu aðalnesi gengur lítið nes, slægnablettur, sem enn er nefnt Oddagerðisnes.
Þvert yfir nesið er afarforn girðing, frá Bugðu austan við Skygnirinn, vestur yfir norðanvert við hann, lítið eitt á ská til norðurs og vestur í ána aftur fyrir norðan Oddagerðisnes. Bæjarrústirnar standa suð-vestan undir Skygninum upp frá Oddagerðisnesi. Er líklegt að býlið hafi heitið Oddagerði (af garðinum yfir Oddann?), og hefi eg hér ritað örnefnin að nokkru leyti samkvæmt því. Mannvirkin þarna eru jafn-fornleg eins og á þingstaðnum við Elliðavatn.

Keldur

Keldur og Grafarholt – loftmynd.

Um Grafarkot segir í A. M.: »bygð upp að nýju fyrir 50 árum, þar menn meina að forn eyðijörd verið hafi, og hún fyrir svo löngum tíma í audn komin að fæstir vita hvað hún hafi til forna kölluð verið; eftir sögn eins gamals manns þykjast nokkrir heyrt hafa að þessi jörd hafl heitið Holtastadir«. Forn-rústirnar eru miklar um sig. Túnið hefir verið mikið stærra fyrrum og girt. Eru utan (á því „byggði Bened. heit. Sveinsson í fyrstu flóðstíflu sína til að veita á Elliðavatnsengjarnar, en hún sprakk, og hraut um leið af nesinu) við það afar-fornir (alsokknir) garðar og fjárbyrgi. Borgir og byrgi hafa víða verið hér, enda ætíð fremur á beit en gjöf að byggja fyrir sauðfé.
Sel hefir verið suð-vestan undir ásnum. Það er í Árbæjarlandi. _ ;.  Garður mikill hefir verið bygður út í Grafarvog frá báðum löndum, en líklega hafðir kláfar í miðju; þar er grjótið í  hrúgum, með skörðum í milli. Nú hefir safnast eyri að syðri garðinum svo að þar er nú sandtangi, en garðurinn sokkinn. Brekkan er upp frá honum. Í stórstraum fjarar út fyrir hann.
Eins og venjulegt er um fjölda örnefna, eru þau flest hér leidd af staðháttum og auðskilin. En þau, sem kend eru við menn (mannanöfn), veit nú enginn hvernig til eru komin, nema fáein er nýlega hafa myndast. – Grafarholti, 9. des. 1914.“

Í Tímanum í maí 1948 segir um Elliðakot:

Elliðakot

Elliðakot.

„Bær brennur Á föstudagskvöldið brann bærinn Elliðakot í Mosfellssveit til kaldra kola. Nær því engu af húsmunum og fatnaði var bjargað úr eldinum. Útihúsin tókst að verja vegna fádæma snarræðis með því að bera á þau vatn, sem sótt var úr mýri, þaðan skammt frá.“

Heimildir:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1914, Um örnefni eftir Björn Bjarnarson, bls. 9-16.
-Alþýðublaðið, 1. nóv. 1963, Hannes á horninu, bls. 2
-Tíminn, 103. tbl. 11.05.1948, bls. 8.

Elliðakot

Elliðakot.

Lyklafell

„Skammt fyrir ofan Lækjarbotna eru Fóelluvötn og Sandskeið.
Eru þar á aðra hönd hálsar og hraun, en til norðausturs er að sjá flatt land og er þar aðeins eitt einstakt og lágt fell, sem kallast Lyklafell. Lyklafell-222Ber talsvert á því, vegna þess hve flatlent er umhverfis það. Þetta fell er merkilegt, því að það er hornmark á landamerkjum þriggja sýslna, Gullbringusýslu, Árnessýslu og Kjósarsýslu. Á þessum slóðum liggja saman Mosfellsheiði og Hellisheiði. Ekki er mér kunnugt um, að nein sérstök mörk séu á milli þeirra, en eðlilegt sýnist að Engidalsá, sem kemur ofan úr Hengli, aðskilji þær.
Hjá Fóelluvötnum og upp undir Lyklafell var um aldaraðir áningarstaður þeirra, sem fóru milli Innnesja og Suðurlandsundirlendis og ferðuðust annaðhvort fótgangandi eða á hestum. Og þaðan lágu þá fjórar leiðir „austur yfir Fjall“. Syðst var Ólafsskarðsleið, sem byrjaði í skarði milli Sauðadalshnúks vestri og Ólafsskarðshnúka, skammt fyrir ofan Vífilfell. Þegar sú leið var farin Lyklafell-223austur, var komið niður að Litlalandi eða Hlíðarenda í Ölfusi. Næst var svo Þrengslaleið og þar er nú kominn akvegur. Þriðja leiðin var um Lágaskarð úr Hveradolum og farið fyrir austan Stóra Meitil og var þá komið niður að Hjalla eða Hrauni í Ölfusi. Fjórða leiðin var svo um Hellisskarð hjá Kolviðarhóli og var þá komið niður að Reykjum í Ölfusi. En skammt fyrir norðan Lyklafell lá svo alfaraleið um Dyraveg og það var komið niður hjá Nesjavöllum í Grafningi. Suð leið taldist vera yfir Mosfellsheiði. Var þarna aðalvegur þeirra, sem bjuggu í uppsveitum Árnessýslu er þeir ferðuðust til byggðanna við Faxaflóa.
Þótt Lyklafell sé ekki hátt í loftinu, aðeins um 280 metra yfir sjó, hefur það eignazt sina þjóðsögu, og er hún á þessa leið:
Lyklafell-224— Maður er nefndur Ólafur og var bryti í Skálholti einhvern tíma á frægðarárum þess. Í Skálholti var þá ráðskona, sem var svarkur mikill og fjölkunnug. Einu sinni reiddist hún við Ólaf bryta og stefndi honum þá burt frá staðnum með fjölkynngi sinni. Varð Ólafur þá sem frávita, rauk af stað og hljóp eins og fætur toguðu suður um heiði og nam ekki staðar fyrr en í felli einu litlu. Þar kastaði hann niður öllum lyklum staðarins í Skálholti, og af því hefir fellið dregið nafn og verið kallað Lyklafell. Nú þóttist Ólafur góður, er hann var laus við lyklana. Sneri hann þá aftur og hljóp sem fætur toguðu, en tók aðra stefnu og fór um skarð það, er síðan hefir verið við hann kennt og kallað Ólafsskarð.
Hélt hann sprettinum austur yfir heiði og áfram eins og horfið, þar til hann var kominn Lyklafell-226austur í Skaftafellssýslu. Fannst hann seinna dauður hjá lækjum nokkrum, sem síðan eru við hann kenndir og kallaðir Brytalækir. Renna þeir í Hólmsá, sem fellur vestanvert við Skaftártungur og út í Kúðafljót. —
Þannig er sagan af ferðalagi Ólafs og ber hún það með sér, að hún er ósvikin þjóðsaga. En hún er þó einkennileg að því leyti, að hún dregur saman tilefni nokkurra örnefna, sem eru sitt á hverjum stað og óralangt á milli. Að vísu er ekki langt á milli Lyklaf ells og Ólafsskarðs, en Brytalækir eru á Fjallabaksvegi austan Mælifellssands, austur undir Hólmsá. Þess má enn geta, að Ólafshaus heitir rani austur úr Mýrdalsjökli, hér um bil í hásuður frá Brytalækjum.
En hamingjan má vita hvort það örnefni er einnig kennt við Ólaf bryta. Þetta er engin Lyklafell-227smávegis vegarlengd, sem Ólafur hefir hlaupið og ætti hann að vera mesti þolhlaupari Íslands fyrr og síðar. Ekki er þess getið á hvaða tíma árs þetta hefir verið, en sennilega hafa menn hugsað sér að það hafi verið að vetrarlagi og allar ár á ísi, því að öðrum kosti er hætt við að hin mörgu stórvötn, sem leið hans lá yfir, hefðu tafið ónotalega fyrir honum. Um fyrsta áfangann, á leiðinni frá Skálholti að Lyklafelli, er nokkurn veginn ljóst, að honum er ætlað að hlaupa frá Skálholti vestur yfir Brúará og síðan þvert yfir Grímsnes og Álftavatn og þaðan upp á Dyraveg. Kom hann þá rakleitt niður að Lyklafelli. Um hitt verður ekkert sagt hvaða leið honum hefir verið ætlað að fara frá Lyklafelli og allt austur í Skaftártungur. Er þýðingarlaust að brjóta heilann um það, enda skiptir það í rauninni engu máli fyrir söguna, því að henni er aðeins ætlað að skýra uppruna nokkurra örnefna. Og hún mun sögð í gamni og ekki ætlazt til þess að nokkur maður tryði henni. En hvað er þá um örnefnin? Ólafsskarð og Brytalækir eru enn á sínum stað. Um Lyklafell er allt vafasamara. Björn bóndi Bjarnarson í Grafarholti ritaði einu sinni um þetta nafn og taldi það hiklaust afbakað. Hann hélt því fram, að fellið mundi upphaflega hafa heitið Litlafell, en breytzt vegna framburðar í Lyklafell.“ 

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 14. október 1972, bls. 10 og 14.

Lyklafell

Lyklafell.

Hellisheiðarvegur

Ætlunin var að rekja gamla Hellisheiðarveginn (elstu göngu- og reiðgötuna) frá Lyklafelli upp í Hellisskarð. Áður hafa tvær götur verið raktar frá Elliðakoti upp fyrir Lyklafell og auk þess Dyravegurinn frá Lyklafelli að Nesjavöllum.
HellisheiðarvegurGatnamót Hellisheiðarvegar og Dyravegar eru skammt ofan við Lyklafell. Þar er vegurinn greinilegur þar sem hann liggur upp brekku til austurs og síðan liðast hann austur Norðurvelli, upp að Bolavöllum og beygir til suðurs undir Húsmúla. Vörðuð leið er vestar. Þar mun hafa verið um vetrarveg að ræða, sem sennilega hefur verið varðaður 1878. Sú leið er styttri frá Draugatjörn að Lyklafelli, en torfarnari þegar jörð er auð.
Skammt sunnar á heiðinni er svonefndur Sýslusteinn. Kíkt var á hann í leiðinni.
Þegar skoðaðar eru fornleifaskráningar af svæðinu kemur glögglega í ljós að Hellisheiðarvegur hinn forni er ekki talinn til fornleifa því hans er ekki getið – þrátt fyrir að vera auðrakinn svo til alla leiðina.
KortSem fyrr sagði liggur
Hellisheiðarvegur upp á Norðurvelli og áfram um Bolavelli norðanverða. Við suðvestanverðan Húsmúla liðast gatan um grasgrónina og er víðast mjög greinileg. Þó hefur vatn grafið hana umtalsvert niður í seinni tíð. Afleggjari (sennilega svonefndur Nautastígur) liggur síðan svolítið upp í Múlann gegnt Draugatjörn og um Mógil. Austan þess beygir gatan áleiðis að Kolviðarhól sunnan Sleggjubeinsdals, áleiðis að Hellisskarði. Varða er efst í skarðinu.
Skv. lýsingu mun Hellisheiðarvegur hafa legið upp að sunnanverðri Draugatjörn og síðan áfram áleiðis að Kolviðarhóli og áfram upp Hellisskarð. Á þeim kafla hefur nánast alveg gróið yfir veginn.
Sýslusteinn„Hellisheiðarvegur hefur verið fjölfarinn fjallvegur um aldaraðir, í dag þegar við ferðumst um í heitum, öruggum bílum okkar er erfitt að gera sér grein fyrir því hvað forfeður okkar hafa þurft að leggja á sig til að komast á milli staða. Á þessum fjallvegum var oft háð barátta upp á líf og dauða, enda voru mannskaðar á Hellisheiði tíðir. Ekki er hægt að segja með vissu hversu margir hafa dáið á ferð sinni um Hellisheiði. Engar heimildir eru til um mannskaða fyrir lok 18. aldar. Ónákvæmar ritaðar heimildir og frásagnir af mannsköðum eru að finna í annálum. En oft var staðsetning þessara mannskaða ekki nákvæmari en svo að í heimildum var skráð, að þetta margir menn hefðu orðið úti á Suðurlandsfjórðungi, svo dæmi séu tekin. Hér er ein stutt dæmisaga um ferðalög um Hellisheiði.

Hellisheiðarvegur

Um miðja 19. öld fóru þrjár manneskjur úr Ölvesi á grasafjall vestur á Hellisheiði og í Hengladali. Fólk þetta var bóndinn á Hvoli, unglingspiltur og kerling ein við aldur, er um fjölda ára hafði farið til grasa á þessar stöðvar. Þau voru þrjá sólarhringa í ferðinni og lágu við tjald. Kvöld eitt, er þau komu í tjaldstað, hafði bóndinn með sér gamlan göngustaf um tveggja álna langan, snjáðan mjög og feyskinn. Kvaðst hann hafa fundið stafinn, reistan upp við hraunskúta þar allfjarri. Kerling spurði bónda, hvort hann treysti sér að finna staðinn, þar sem stafurinn hefði verið. Hann kvaðst mundu geta það. Fýsti kerlingu mjög að fara þangað, og varð það úr, að þau fóru öll og fundu staðinn. Er þau litu inn í hraunskútann, sáu þau aflanga mosahrúgu. Þau hrófluðu við henni; kom þá í ljós, að undir henni var mannsbeinagrind, en mosahrúgan hafði með tíma og árum myndast ofan á þeim. Voru nú beinin tínd upp í poka og flutt fram í Ölves og nokkru síðar grafin í Arnarbæliskirkjugarði á messudegi.

Hellisheiðarvegur

Nóttina eftir að beinin voru grafin, dreymdi bóndann á Hvoli, sem fann þau, að maður kæmi til hans. Kvaðst hann vera sá, er beinin átti, þakkaði bónda fyrir að hafa flutt þau í vígða mold. En um leið otaði hann fram öðrum fætinum og kvartaði um, að þar vantaði fremsta köggulinn á stóru tána. Í þrjár nætur dreymdi bóndann sama drauminn, og bar draumamaður sig mjög illa. Sagði þá bóndi drauminn kerlingunni, er með honum var, þegar beinin fundust. Kerling ráðlagði honum að fara vestur á heiðina, þar sem beinagrindin hafði legið, og leita köggulsins, og það gerði bóndi. Eftir nokkra leit fann hann beinið og hafði heim með sér. Þegar næst var messað í Arnarbæli, hafði bóndinn köggulinn með sér í vestisvasa sínum. 

Varða

Þegar messan var úti, laumaði hann köggulinum svo lítið bar á ofan í nýorpið leiði. Eftir það gerði sá dauði ekki vart við sig.
Var nú spurn haldið fyrir um, hver sá hefði verið, er þarna hafði beinin borið. Var það hald flestra, að þau væru af manni, er úti varð á heiðinni fyrir 36 árum og var úr Biskupstungunum. Samkvæmt því hefur það gerst á áratugunum 1820 til 1830.“

Elsti akvegur Hellisheiðarvegar er skammt suður af gömlu götunni gegnt Húsmúla. Hann er að stofni til frá 1894-57 og upphlaðinn á köflum. 

„Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar
á liðnum öldum. Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið.“ segir í örnefnaskrá.
„Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta […] lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn. Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn, en sumarið 1894 var upphleypti vegurinn yfir Kamba lagður (061), og var hann krókóttur mjög og aðeins ætlaður gangandi mönnum og ríðandi, svo og vagnhestum.“ segir í Austantórum.

Varða

„Framhald [vegar Eiríks í Grjóta um Svínahraun, b. 1877-78] lá upp um Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól; þar er enn (1973) efst í skarðinu lítt hrunin hleðslan í vegköntunum. Hellisskarðsvegur var ekki vagnfær, til þess var hann of brattur .. . Næst á dagskrá á Suðurlandsvegi var að leggja Kamba- og Hellisheiðarveg. Eiríkur frá Grjótá [!] tók þá vegagerð að sér og gefur þann veg enn að líta ef vel er skoðað í Kömbum. Er skemmst frá því verki að segja, að Kambavegur var lagður 1879 og var svo brattur að hann þótti lítt nothæfur og var ekki mikið farinn þau 15 ár sem liðu, þar til næst var lagður vegur um Kamba.

Eiríksvegur

1880 hélt Eiríkur áfram vegarlagningu og lagði nú veginn vestur yfir eystri hluta Hellisheiðar; allt til þess er kom á helluhraunið sem var greiðfærara. Lengd þess vegar var um 4-5 km og var hann þráðbeinn og allvel gerður og er enn vel sýnilegur … Kunnáttuleysi í vegagerð og vantrú á notkun og framtíð vagna olli því, að vegirnir voru lagðir á þann hátt, að þeir útilokuðu þann möguleika að menn hæfu vagnferðir eftir þeim .. Til þess var brattinn í
Hellisskarði og Kömbunum of mikill og einnig vantaði akfæran veg frá Reykjavík upp að Svínahrauni. Við þetta ástand sat að mestu fram yfir 1890.“ segir í Landnámi Ingólfs 2.
HellisheiðarvegurSamkvæmt Birni Pálssyni var aðhald fyrir hesta sérstaklega hlaðið upp við Eiríksveg fyrir þá sem hlóðu veginn.
Eiríksvegur sést greinilega víða, t.d. í Hrauntungu þar sem ný íbúðabyggð á að rísa. Vegurinn sést koma undan núverandi þjóðvegi og liggur, þráðbeinn til ASA yfir allt hið væntanlega íbúðahverfi. Girðing afmarkar nú svæðið í Hrauntungu en Eiríksvegur liggur áfram ASA við suðurhlið hennar í um 200 m áður en hann fjarar út skammt norðan við. Vegurinn liggur um mosavaxið hraunlendi. Vegurinn var færður suður fyrir Reykjafell á svipaðar slóðir og hann er enn í dag 1894-95. Nýr vegur var lagður um Hellisheiði 1894-95: „Við nýlagningu vegarins austur lét Sigurður [Thoroddsen landsverkfræðingur] færa veginn frá hinu bratta og Hellisheiðarveguróvagnfæra Hellisskarði, og sveigði veginn suður fyrir Reykjafell um Hveradali. Hellisheiðarvegurinn, sem lagður var á þessum árum var, að undirstöðu til, að mestu leyti, utan nokkurra styttri kafla, svo sem í Smiðjulaut, sá hinn sami og var þjóðvegur allt fram til hausts 1972, er hraðbraut með bundnu slitlagi var tekin í notkun litlu norðar. Sigurður mældi fyrir veginum upp Kamba og varð nú að miða við dráttargetu hesta, enda voru 18 „hárnálarbeygjur“ á þeirri löngu brekku og breyting mikil frá vegi Eiríks frá Grjótá. .. . Kambavegur var lagður 1894 og sama ár var byrjað á Hellisheiðarveginum og lokið við hann árið eftir.“ segir í Landnámi Ingólfs.
Í Lýsingu Ölvershrepps frá 1703 [í Sýslu- og sóknarlýsingum] segir m.a.: „Fyrir austan … SæluhúsiðBæjarþorpsjarðir, en vestan Varmá, liggur almenningsvegur yfir fjallgarðinn á Suðurnes og í Kjalarnesþing, fyrst upp á Kamba …, síðan vestur yfir Hellisheiði, hvör að austanverðu hefur mikla mosa, með mjög litlu grasi, allt þar til Þrívörður heita og heiðin sjálf meinast mið vera, en hennar vestri partur er víða með sléttum hellum af hraungrjóti, án gatna, nema þær hestanna járn hafa gjört og auðsjáanlegt er, þeim athuga. Þessar sléttu hellur ná allt vestur að Biskupsvörðu. Fleiri vörður eru og við veginn til leiðarvísis.“  Þar segir ennfremur í lýsingu frá 1840: „Hellirsheiði er … vel rudd … Á Hellirsheiði eru yfir 100 vörður; er sá fjallvegur helst tíðkaður á vetrum.“ „Hinn forni vegur yfir fjallgarðinn milli Ölfuss og Mosfellssveitar lá af Kambabrún sjónhending í skarðið milli vesturenda Skarðshlíðar og norðurenda Reykjafells. Lá vegurinn þar niður af Hellisheiði um Hellisskarð, yfir Bolavelli, vestur með Húsmúla, niðurí Norðurvelli með norðurbrún Svínahrauns hjá Lyklafelli, Hveragerði og var þá komið í byggð hjá Helliskoti í Mosfellssveit.

Húsmúlarétt

Á þessari löngu leið voru sama sem engar vörður. Austast á Hellisheiði voru vörðubrot og önnur vörðubrot vestast á heiðinni.“ segir í Sögu Kolviðarhóls.

Á skilti við Húsmúlarétt stendur eftirfarandi:
„Rétt þessi var notuð langt fram á 20. öld en ekki er vitað hvað hún er gömul. Réttin var notuð til rúnings á vorin og sem aðhald í haustleitum en ekki hefur hún rúmað stórt fjársafn. Af afrétti Ölfushrepps, sem þetta svæði tilheyrir, gekk fé úr fleiri hreppum.
Í gömlum Hellisskarðmunnmælum segir að Mosfellingar og Ölfusingar hafi haft sameiginlegan afrétt en þeirri samvinnu lokið er deilur komu upp og lauk með orrustu sem Orrustuhóll uppi á Hellisheiði dregur nafn sitt af. Ekki er þó víst hvort atburðurinn átti sér stað í raun og veru.“

Á skilti við sæluhúsið við Draugatjörn stendur eftirfarandi m.a.:
„Við Draugatjörn hefur staðið sæluhús frá fornu fari. Það er frægt, bæði fyrir að vera eitt hið elsta sem góðar heimildir eru um hér á landi, en ekki síður fyrir magnaða reimleika sem að lokum urðu til þess að húsið var fært upp á Kolviðarhól 1844.
Sveinn Pálsson lýsir húsinu í ferðabók sinni 1793 og Laskaður garðursegir m.a.: „Margir hafa dáið í þessum kofa því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda. „Gamla þjóðleiðin lá hér um og var fjölfarin en nýr vegur var lagður yfir Svínahraun norðanvert árið 1878. Gamli vegurinn fylgdi hraunbrúninni og sjást vörður í hrauninu vestan Draugatjarnar. Enn fremur sjást greinilegir götuslóðar á Hvannavöllum um miðja vegu milli tjarnarinnar og Kolviðarhóls.“

Þegar FERLIR var á ferð við Húsmúlaréttina mátti sjá hvar hlöðnum garði, almenningi, vestan við hana hafði verið raskað – og það verulega, sennilega með vélskóflu.

Norðurvellir heita grasvellirnir nyrst og næst Lyklafelli og Bolavelli austast norðvestan Húsmúla.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Saga Kolviðarhóls eftir Skúla Helgason, Myndir AÞE; Júlí 2006.
-centrum.is
-Fornleifaskráning v/Hellisheiðarvirkjunnar, Fornleifastofnun Íslands.
-Fornleifaskráning í Hveragerði – Elín Ósk Hreiðarsdóttir, Fornleifastofnun Íslands 2002.

Húsmúlarétt

Húsmúlarétt – uppdráttur ÓSÁ.

Lyklafell

Frásögn þessi af Lyklafelli og nágrenni birtist í Mbl. árið 1979.
Lyklafell„Fyrrum lá leiðin milli Reykjavíkur og sveitanna fyrir austan fjall, yfir Hellisheiði, um Hellisskarð (Uxaskarð, Öxnaskarð), hjá Kolviðarhóli, meðfram Lyklafelli og niður hjá Elliðakoti í Mosfellssveit. Þetta var áður en akvegurinn var lagður um Lækjarbotna, Fossvelli, Sandskeið og Svínahraun að Kolviðarhóli. Það gerðist á síðustu áratugum 19. aldar. Í þetta sinn göngum við eftir þessari gömlu leið, frá Lyklafelli að Elliðakoti. Sjást vörðurnar með reglulegu millibili.
Við skulum fara úr bílnum nokkru fyrir vestan Litlu kaffistofuna, en hún stendur við mót gamla og nýja vegarins yfir Svínahraun. Frá veginum tökum við stefnuna í norður á Lyklafellið, sem blasir við beint framundan, kollótt og meira að ummáli en hæð. Hér er yfir gamalt hraun að fara, með grunnum en skjólgóðum lautum, þar er gott að tylla sér niður og slaka á. Við förum hægt yfir og notum tímann til að skoða umhverfið.

Lyklafell

Með hverju skrefi nálgumst við fellið og sú spurning vaknar hvernig standi á þessu nafni. Menn hafa greint á um það og þekki ég tvær sögur. Sú fyrri segir, að einhverju sinni hafi verið bryti í Skálholti er hét Ólafur. Bar hann alla lykla staðarins á sér, en þeir voru á einni kippu. Honum sinnaðist við ráðskonuna, en þar sem hún kunni nokkuð fyrir sér, tryllti hún Ólaf, svo hann tók á rás og hljóp vestur fyrir Hellisheiði að Lyklafelli með alla lykla staðarins á sér Þar týndi hann kippunni. Hún fannst þar löngu síðar og var fellið svo kennt við lyklana. Þaðan hljóp hann til baka um Jósefsdal og suður úr dalnum um skarð, sem síðar heitir Ólafsskarð. Eftir það linnti hann ekki sprettinum fyrr en austur á Mælifellssandi. Þar kom hann að vatnsfalli, er hann ætlaði að stökkva yfir. Stökkið mistókst, hann féll í ána og drukknaði. Hún heitir síðan Brytalækir.

Lyklafell

Hin sagan greinir frá því, að einhverju sinni áttu hungraðir förumenn leið um þennan veg að næturlagi og gengu þá fram á tjaldbúðir Skálholtsmanna, sem voru þar á ferð með marga hesta og mikinn farangur. Höfðu þeir valið sér þarna náttstað. Förumennirnir sáu, að bunga var á einni tjaldsúðinni og hugðu þeir að þar fyrir innan væri sekkur fullur af mat. Ákváðu þeir að ná honum. Tók einn þeirra upp hníf, og skar á tjaldið, þar sem bungan var. En um leið og hnífsblaðið skar á dúkinn, kvað við hátt og skerandi öskur innan úr tjaldinu.
Skófrós

Í stað þess að stinga í matarsekkinn, var hnífnum stungið í sitjandann á ráðsmanni Skálholtsstóls, sem svaf þar fyrir innan. Í fátinu og írafárinu sem varð nú í tjaldbúðunum við þetta óhappaverk, týndist lyklakippa ráðsmannsins og fannst ekki fyrr en löngu síðar. Þannig skýra sagnir nafnið á Lyklafellinu.
Við göngum upp á fellið. Áður höfum við gengið yfir farveg Lyklafellsár, sem fellur hér fram í leysingum á vorin, en síðla sumars er hann þurr að öllum jafnaði. Þetta minnir okkur á nauðsyn þess að hafa meðferðis drykkjarföng, því vatn er mjög af skornum skammti hér um slóðir í þurrkatíð.
Af Lyklafelli er gott útsýni yfir nágrennið þótt ekki sé það hátt yfir sjó (281 m) Eftir góða hvíld uppi á fellinu leggjum við aftur af stað í áttina að Elliðakoti. Er gott að hafa raflínuna til viðmiðunar. Við sjáum nokkur vörðubrot, sem vísa leiðina og svo hér og þar gróna götuslóða, sem lítt hafa verið troðnir í hartnær öld.

Klappir

Eftir drjúga göngu stöndum við á brekkubrúninni fyrir ofan Elliðakot, sem hét fyrrum Helliskot. Bærinn stóð í skeifulöguðum hvammi móti vestri í skjóli fyrir austanáttinni. Nú er  hann tóttir einar, því ekki hefur verið búið þar um árabil. Fyrrum var búið hér snotru búi, en mikil örtröð hefur örugglega verið af umferð ferðamanna árið um kring, ekki síst á vetrum þegar ofan af heiðinni komu lítt búnir, örþreyttir og hraktir ferðamenn og leituðu að húsaskjóli.
Hér fæddist Páll Jónsson vegagerðarmaður, sem Jón Helgason rithöfundur hefur gert verðug skil í bók sinni: Orð skulu standa.
Við skulum skreppa heim að þessum gömlu rústum og skoða þær vel, minnug þess, að þeir hnútar, sem traustast eru bundnir láta ávallt undan er tímans tönn tekur að sverfa að þeim. Ekki er þó tími til að dvelja hér lengi. Við göngum götuna niður á veg rétt fyrir austan Gunnarshólma. Þangað látum við sækja okkur eftir rúmlega 5 klst. rólega gönguferð.“
Nú er hægt að aka eftir malarvegi að rótum Lyklafells.

Heimild:
-Mbl. júlí-ágúst 1979.

Lyklafell

Litlalandssel

Genginn var slóði upp á Búrfell í Ölfusi. Þegar upp var komið var gengið inn á þjóðleiðina, sem nú er merkt sem slík um Ólafsskarðsveg vestan fellsins og honum fylgt áleiðis að Geitafelli.

Ólafsskarðsvegur

Ólafsskarðsvegur – ÓSÁ.

Í örnefnaskrá segir hins vegar að „um[Ólafsskarð] liggur Ólafsskarðsvegur, og áfram suður með Bláfjöllum, um Þúfnavelli norðan við Geitafell, niður hjá Grislingahlíð, að Litlalandi … „Ólafsskarðsleið frá Litlalandi liggur um Fagradal, Þúfnavelli, milli Fjallsins eina og Bláfjalla, um Ólafsskarð, Jósefsdal á þjóðveg neðan við Þórishamar.“ Þannig er Ólafsskarðsvegur merktur inn á gömul kort.

Hlíðarendasel er í götunni þegar þriðjungur leiðarinnar er ófarinn að Geitafelli, eða þar sem hraunbungan ber hæst, með stefnu af Búrfelli í Hrútagil (Fálkaklett).
Bærinn Hlíðarendi stendur undir Hlíðarendafjalli, í hvammi milli Ytra-Buganefs að austan og Áss að vestan.
Slóðinn upp á Búrfell er nokkuð brattur, en greiðfær. Áður en komið er að efstu brúnum fellsins var beygt út af slóðanum til vinstri og inn á sæmilega sýnilega þjóðleiðina um Ólafsskarðsveg, sem lá frá Ölfusá áleiðis til Reykjavíkur um Jósepsdal og Lyklafell. Yfirleitt eru Búrfellin, sem eru 47 talsins hér á landi, nokkuð há stapafjöll með klettum ofantil.

Hlíðarendasel

Hlíðarendasel.

Þetta Búrfell er hins vegar hraungígur ofan við brún Hlíðarendafjallsins. Efst í því er gígur.
Ólafsskarðsvegurinn, sú gamla þjóðleið á milli Ölfuss og Svínahrauns, er varðaður á kafla, en sést að öðru leyti ógreinilega. Helst er að sjá hann þar sem hann hefur mikið til legið um grónar lænur.
Fagurt útsýni er suður af heiðinni, af Búrfelli, um allt til sjávar. Leiðin liggur upp í Jósefsdal um Ólafsskarð og síðan niður með Lyklafelli austan Fóelluvatna.

Litlalandssel

Litlalandssel.

Ólafsskarðsvegur er nefndur eftir samnefndum bryta í Skálholti. Í frásögn Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi segir að einni sinni hafi lyklakippa Skálholtsstaðar týnst, og fannst hún hvergi. Varð að smíða aðra lykla. Leið síðan fram, þangað til 12 ár voru liðin og lyklatapið farið að gleymast, þá fundust lyklarnir í Lyklafelli hjá Fóelluvötnum. Kom þá upp hið sama, að ráðsmaður (eða bryti) staðarins hafði haft lyklana á sér, er hann reið í Reykjavíkurkaupstað, og hafði týnt þeim í fellinu, er hann áði.

Lyklafell

Lyklafell – varða við Austurleiðina að Kolviðarhóli fremst.

Um Lyklafell fjallar og þekkt þjóðsaga af sama meiði. Hún er um nefndan Ólaf bryta í Skálholti. Á að hafa soðið upp úr milli hans og ráðskonunnar á staðnum. Hún var ótúlegt skass og skaut honum svo skelk í bringu að hann lagði á blindan flótta, m.a. um veg þann sem síðar var nefndur eftir honum, og nam ekki staðar fyrr en við Lyklafell og kastaði þar búrlyklunum. Síðan hélt hann um Ólafsskarð upp úr Jósefsdal Ólafsskarðveg og heitir skarðið einnig eftir honum.
Þessi hluti Ólafsskarðsvegar, norðan Búrfells, er vel greinilegur og auðvelt að fylgja götunni áleiðis að Geitafelli. Þegar komið er svo til á efstu hæðina er hraunið tekur að halla að Geitafelli með stefnu í Fálkaklett er svo að segja gengið yfir tóftir í götunni.

Geitafell

Geitafell og nágrenni – kort.

Þar er Hlíðarendaselið á milli hóla. Um er að ræða tvær tóttir sitt hvoru megin götunnar og síðan er hlaðinn stekkur á hraunhól norðan þeirra. Á bak við selið að austanverðu er skúti, sem líklega hefur verið notaður sem geymslustaður. Selið lætur ekki mikið yfir sér og erfitt gæti verið að finna það ef ekki væri gatan. Litlalandsselið, sem er þarna allnokkur suðaustar, er t.d. erfitt að finna nema komið sé að því úr suðri. Sama má segja um Hlíðarendasel.
Leitað var annarra hugsanlegra minja við selið. Erfitt er að leita þarna í hrauninu, hver bollinn og hraunhæðin er upp af annarri, en skammt sunnan við Réttargjá, undir hraunhól í skjóli fyrir suðaustanáttinni, skammt ofan Götugjár, fannst hleðsla, sem gæti verið stekkur. Þar austur af heita Selvellir. Engar merkjanlegar tóftir eru þar, en vellirnir eru vel grónir.
Gatan var rölt til baka með viðkomu á gíg Búrfells. Sólin roðagyllti Geitafellið að baki og á móti lýsti sólarrönd hafflötinn.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimild m.a.
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn/fornleifaskra
-Farfuglinn (1975)
-Eiríkur Einarsson: Örnefni og minjar í Hjallasókn, 1976.

Hlíðarendasel

Hlíðarendasel – uppdráttur ÓSÁ.