Færslur

Mosi

Hafdís Erla Bogadóttir skrifaði grein um Bergþór Jóhannesson og mosa í Lesbók Morgunblaðsins árið 2000. Hér er hluti greinarinnar:
Mosi-10“Bergþór Jóhannsson mosafræðingur hefur um áratuga skeið ferðast um landið og safnað mosum. Hefur hann fundið oglýst mörgum nýjum tegundum mosa hér á landi. Margir aðrir hafa einnig safnað mosum og fært honum.
Nú vinnur Bergþór að útgáfu fyrstu íslensku mosaflórunnar en það verk er langt komið. Í henni eru teikningar af öllum tegundum og útbreiðslukort, auk lýsinga og greiningarlykla. Hann hefur einnig búið til íslensk nöfn á allar tegundir í flórunni sem fæstar báru alþýðuheiti fyrir. Bergþór hefur einnig verið fundvís á nýjar tegundir annarra hópa plantna hérlendis og bjó, ásamt Herði Kristinssyni, til reitkerfi fyrir rannsóknir á útbreiðslu plantna og dýra hér á landi. Bergþór var í hópi þeirra náttúrufræðinga sem lögðu grunn að líffræðikennslu við Háskóla Íslands árið 1969. Þar kenndi hann í um 20 ár.

Um 600 íslenskar mosategundir

mosar-9

Það vekur eflaust undrun margra að á íslandi vaxa um 600 mosategundir. Flestir kannast eflaust við gamburmosa, sem klæðir öll yngri hraun á Suður- og Suðvesturlandi þykku, gráu teppi. Fáir gera sér líklega grein fyrir því að þegar farið er ístórframkvæmdir, svo sem virkjanir, verksmiðjubyggingar og vegalagningu þarf mosafræðingurinn að kanna mosana á svæðinu því þeir eru teknir með þegar náttúruverndargildi svæðisins er metið. Það hefur verið hljótt um þennan iðna og virta náttúrufræðing hérlendis og lítið fjallað um vinnu hans. í tilefni heiðursdoktorsnafnbótarinnar þótti blm. ástæða til að forvitnast örlítið um hagi og líf þessa manns sem hefur helgað líf sitt mosum og ýmsum öðrum rannsóknum í þágu náttúruvísindanna.

Sáraumbúðir úr barnamosa
„Nýting mosa hefur að mestu lagst af en það þarf ekki að fara lengra aftur en til fyrri heimsstyrjaldar til að finna dæmi um stórfellda notkun þeirra. Þá voru starfræktar verksmiðjur bæði í Evrópu og Ameríku til að framleiða sáraumbúðir úr barnamosum. Barnamosar eru mjög sérstæðir að byggingu. Þurrir draga þeir í sig fjórfalt meiri vökva en sama þyngd baðmullar. Það var því hægt að flytja særða hermenn margfalt lengri vegalengd án þess að skipta þyrfti um umbúðir ef notaðir voru barnamosar í stað baðmullar og í svipuðum tilgangi voru barnamosar notaðir öldum saman.

mosi-8

Fram að aldamótum 1900 notuðu mæður í Lapplandi og Alaska barnamosa í dýnur, kodda og sængur fyrir smábörnin. Skipt var um mosa kvölds og morgna og höfðu börnin þá næga hlýju og héldust þurr og hrein. Víða er mór að mestu myndaður úr barnamosum. Notkun mós sem eldsneytis er alþekkt en til þeirra nota er talið að mór sé um hálfdrættingur á við kol. Mótekja hefur líkast til verið stunduð í Norður-Evrópu þúsöldum saman. Um aldamótin 1900 framleiddu Bretar móull úr mó og var hún notuð í fatnað. Þessi framleiðsla náði þó aldrei verulegri fótfestu. Núna eru barnamosar einna helst notaðir til að halda raka að plöntum og dýrum sem senda þarf milli staða og við ræktun í uppeldisstöðvum.
Aðrir mosar sem vert er að nefna eru haddmosarnir. Þeir eru allt öðru vísi byggðir en barnamosar. Úr stönglum hávöxnustu tegundanna, sem geta orðið vel yfir hálfur metri, voru búin til reipi. Fundist hafa margra metra löng haddmosareipi frá því skömmu fyrir Krists burð. Reipin voru meðal annars notuð til að binda saman eikarplanka við bátasmíðar.

mosi-7

Slík notkun er þó enn eldri því haddmosareipi voru notuð við bátasmíðar á bronsöld. Haddmosar voru notaðir a.m.k. fram undir aldamótin 1900 í Lapplandi í dýnur og nokkurs konar rúm. Samarnir brutu rúmin saman, bundu utan um þau og báru þau þangað sem þeir ætluðu að gista næstu nótt. Ef þau urðu of þurr og samþjöppuð voru þau bara bleytt og fengu þá fjaðurmagn sitt á ný. Haddmosastönglar voru notaðir í mottur, körfur og bursta og sitthvað fleira. Notkun haddmosa hélst að einhverju leyti fram á 20. öld í Evrópu.
Mosar hafa verið notaðir í margskonar tilgangi öðrum, t.d. næfurmosar til þéttingar við bátasmíðar, ármosi sem tróð milli skorsteins og veggja til þess að hindra fkveikju og margar tegundir hafa verið notaðar til lækninga og skreytinga. Núna eru mosar talsvert notaðir við athuganir og mælingar á mengun. Tildurmosi er t.d. notaður til slíkra mælinga hér á landi.”

„Mosi” ekki alltaf mosi
mosi-6„Sumar lífverur bera nöfn mosa en eru þó ekki mosi og má þar nefna m.a. að „hreindýramosi” er ekki mosi heldur fléttutegund. Fjallagrös, sem á sumum erlendum tungumálum eru kölluð „íslenskur mosi”, eru einnig flétta. Reyndar eru Þjóðverjar núna farnir að kalla fjallagrösin „íslandsfléttu”. „Litunarmosi” er líka flétta, „írskur mosi” er þörungur og „spænskur mosi” er háplanta. Þannig að orðið „mosi” hefur verið notað um sitt af hverju tagi. Skófir eða fléttur breytast aldrei í mosa. Þær eru myndaðar af sveppi og þörungi sem lifa saman og mynda nýja gerð af lífverum. Þær eru því alls óskyldar mosum. Stundum er það svo að fyrst koma skófir á steina og síðan mosar sem vaxa að lokum yfir skófirnar og drepa þær. í náttúrunni er sífelld barátta um rými milli lífveranna, líka innbyrðis milli mosanna. Oft fá skófirnar reyndar að vera alveg í friði fyrir mosunum. Þetta fer eftir aðstæðum á hverjum stað.
Skófir geta einnig mosi-5vaxið á mosum og geta gert út af við þá. Bygging mosa og lífsferill er rétt á mörkum þess að henta til lífs á þurru landi og ber með sér að mosarnir eru leifar einnar elstu þróunargreinar landplantna. Þessa grein má vissulega líta á sem nokkurs konar þróunarlega blindgötu því að hún leiðir ekki til framhalds yfir í neitt annað. Þrátt fyrir það er tegundafjöldi þeirra meiri en nokkurs annars plöntuhóps að dulfrævingum einum undanteknum. Aðlögunarhæfni þeirra er mikil og þeir eru mikilvægur hluti margra vistkerfa, m.a. þar sem aðrar plöntur vaxa lítt eða ekki.”

Elstu mosasteingervingar taldir um 380 milljón ára
mosi-4„Elstu mosasteingervingar sem vitað er um eru, að ég held, taldir um 380 milljón ára gamlir. Í jarðlögum hafa fundist allmargar ættkvislir útdauðra mosa sem eru verulega frábrugðnar núlifandi mosum. Þrátt fyrir það er þekking okkar aftur í tímann af mjög skornum skammti. Meðal elstu steingervinga eru t.d. útdauðar ættkvíslir sem gætu verið skyldar blettamosa. Nokkru yngri eru ættkvíslir sem gætu verið skyldar haddmosum og barnamosum. Mosar eru skyldir burknum og þörungum en hvaða þörungum þeir eru skyldastir er óljóst. Líklega komast menn að því innan: fárra áratuga. Núna er farið að skipta mosum í þrjár fylkingar. Þótt þessar fylkingar eigi ýmislegt sameiginlegt eiga þær líklega engan sameiginlegan forföður sem teldist vera mosi. Þetta þýðir að mosar eru mun óskyldari innbyrðis en t.d. maður, froskur og fiskur en þessi dýr tilheyra öll sömu fylkingu.”

Mosar eru harðgerðir
mosi-3„Margir mosar þola miklar hitasveiflur og sem dæmi má taka hæruskrúf sem er útbreidd tegund hér, bæði á láglendi og hálendi. Hann þolir að hitinn fari úr 20 gráðu hita í 30 gráðu frost á einum sólarhring. Hann þolir yfir 70 gráðu hita án þess að skaðast og yfir 40 gráðu frost. Sumir mosar þola meira en 100 gráðu frost og aðrir yfir 100 gráðu hita. Veggjasnúður, sem vex hér aðeins á syðsta hluta landsins en er algengur sunnar í álfunni, vex á berum klettum og veggjum þar sem getur orðið mjög heitt, þolir t.d. yfir 100 gráðu hita. Hiti og kuldi eru meðal þeirra þátta sem takmarka útbreiðslu tegunda. Margar tegundir eru breytilegar í þessu tillliti, t.d. er hagstæðasta hitastig fyrir líkamsstarfsemi hraungambra um 10 gráðum lægra nyrst í Skandinayiu en á Bretlandseyjum. Mosar geta einnig aðlagast breyttum aðstæðum. Hvert hagstæðasta hitastigið er getur breyst dálítið eftir árstíðum og mosar sem eru fluttir sunnar eða norðar geta eftir vikudvöl á nýja staðnum verið búnir að færa hagstæðasta hitastigið til í átt að því sem hentar á þeim stað.”

Líftími mosa
mosi-2„Vitað er til að sama tegund mosa hafi vaxið á sama stað í hundrað ár en við lok þess tímabils eru áreiðanlega engar einstakar plöntur þær sömu og voru þar í upphafi tímabilsins. Sumar tegundir vaxa í endann en deyja jafnframt að neðan. Hraungambri er ein þessara tegunda. Þótt mosaplantan sé 20 cm löng eru aðeins um fimm cm fremst á sprotanum raunverulega lifandi. Hraungambri lengist um 1 cm á ári eða þar um bil. Það eru því varla mikið meira en 5 ár frá því sprotahluti verður til þangað til hann hættir starfsemi og deyr.

mosi-1

Þrátt fyrir það má ef til vill halda því fram að þessar plöntur séu allt að því eilífar. Hafi myndast hliðarsprotar verða þeir að nýjum plöntum þegar hlutinn fyrir neðan visnar. Um tildurmosann, annan hávaxinn mosa sem er ekki jarðfastur, gildir það sama. Það er algengt að hann lengist um 2-4 cm á ári en það er varla nema ársvöxtur síðustu 3-5 ára sem er raunverulega lífs hverju sinni. Haddmosar eru jarðfastir og mega ekki missa neðri hlutann vegna þess að þeir taka vatn og steinefni upp í gegnum stöngulinn. Á hávöxnustu tegundunum eru það aðeins blöðin á efsta hluta stöngulsins sem eru lifandi og virk. Ég hef séð haddmosaplöntur sem voru a.m.k. 8 ára gamlar. Sumar mosategundir verða varla yfir 5 mm langar og ársvöxtur þeirra er að sjálfsögðu afar lítill en aldur líklega svipaður og flestra annarra mosa. Ég held að mosar verði yfirleitt ekki gamlir heldur taki nýjar plöntur við þegar hinar deyja. Þeir hafa þróað ýmsar aðferðir til að fjölga sér og mynda nýjar plöntur. Þótt okkur finnist mosagróður á einhverjum steini vera óbreyttur árum saman held ég að það sé að nokkru leyti blekking, breytingar eru örari en við gerum okkur grein fyrir.”

Lítil næring í mosum
mosi-13„Það er lítil næring í mosum en þó er vitað að dýr á norðlægum slóðum éta mosa að vetrarlagi og á vorin, t.d. læmingjar, hreindýr, gæsir og rjúpur. Sum smærri dýr éta einnig mosa, svo sem bessadýr, engisprettur og fiðrildalirfur. Langflestir mosar eru fjölærir og sígrænir. Þeir fella því ekki blöðin eða visna niður á haustin eins og t.d. blómplöntur og grös. Þetta skiptir verulegu máli því þar sem mosaþekja er að einhverju marki vernda þeir jarðveginn allan ársins hring fyrir utanaðkomandi eyðingaröflum.
Mosar vaxa mjög hægt og sé mosaþekju raskað getur það tekið náttúruna marga áratugi að bæta skaðann og í sumum tilvikum veita slík sár eyðingaröflunum, t.d. vindum og vatni, þann aðgang að jarðveginum og mosaþekjunni að skaðinn verður ekki bættur.

mosi-14

Menn ættu því að bera virðingu fyrir mosunum sem klæða verulegan hluta landsins og umgangast gróðurinn varlegar en þeir hafa gert hingað til.
Hver mosategund hefur sitt kjörlendi og sína útbreiðslu. Sumar tegundir vaxa mjög víða, bæði á hálendi og láglendi, aðrar finnast eingöngu á láglendi og enn aðrar eingöngu á hálendi. Sumar vaxa aðallega í mýrum, aðrar í móum, sumar á klettum, aðrar á steyptum veggjum, sumar í ám og lækjum, aðrar í snjódældum, sumar í kjarrlendi, aðrar á þurrum steinum, sumar aðeins í fjörusandi, aðrar eingöngu eða svo til eingöngu í jarðhita o.s.frv. Ef verulegur mosagróður er í næsta nágrenni við nýrunnið hraun eru mosar komnir í það fljótlega eftir að það er kólnað, a.m.k. innan árs. Hversu langur tími líður þar til verulegur mosagróður er kominn í það fer eftir ýmsum aðstæðum, svo sem hæð yfir sjó, áfoki, úrkomu og hita.”

Útbreiðsla tegunda misjöfn á landinu
mosi-15„Útbreiðsla einstakra tegunda er ákaflega mismunandi. Allmargar eru um allt land, aðrar finnast á víð og dreif um mikinn hluta landsins, enn aðrar eru staðbundnar á mismunandi hátt. Nokkuð margar tegundir hafa hér suðlæga útbreiðslu og vaxa eingöngu á Suðurlandi en útbreiðslusvæði þeirra er mismunandi eftir tegundum, sumar eru bundnar við lítið svæði syðst á landinu en aðrar finnast um allan suðurhluta landsins. Það má því skipta þeim í nokkra hópa eftir því hversu suðlægar þær eru. Allmargar tegundir hafa hafræna útbreiðslu hér og eru þá á suður- og vesturhluta landsins. Aðrar tegundir hafa norðlæga útbreiðslu, sumar hafa eingöngu fundist á vesturhluta landsins, aðrar eingöngu á Austurlandi o.s.frv.
mosi-16Síðan eru það tegundirnar sem hafa aðeins fundist á örfáum stöðum eða jafnvel aðeins á einum stað. Sjaldgæfustu tegundirnar þyrfti að vernda á einhvern hátt. Nokkrar tegundir virðast hafa horfið alveg á síðustu áratugum og vaxa líklega ekki hér lengur. Ástæðan er í sumum tilvikum óvarleg meðferð mannsins á náttúrunni og virðingarleysi fyrir þeim gróðri sem fyrir er. Sérstaklega ber okkur skylda til þess að varðveita þær tegundir sem hér vaxa og eru afar sjaldgæfar í heiminum og hafa jafnvel aðalútbreiðslu sína hér á landi. Einnig tegundir sem yaxa ekki annars staðar í Evrópu en hér. Öðrum finnst það kannski ekki mikill skaði þótt mosategundum fækki eitthvað á landinu en fyrir mér er þetta alvörumál. Hver ný tegund sem hér finnst er sem nýr kunningi og það er alltaf dálítið sárt að komast að því að maður eigi ekki eftir að sjá hann oftar nema sem eintak á safni sem er varðveitt sem sönnun þess að einhvern tímann hafi hann vaxið hér og verið hluti af hinni lifandi íslensku náttúru”.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 16. desember 2000, bls. 8-9.

Mosi

Mosi.