Gengið var um Fógetastíg áleiðis að Garðastekk og áfram eftir Garðagötu.
Í leiðinni var hugað að Móslóða í Garðahrauni. Fógetastígur er hin forna leið í gegnum hraunið á leiðinni millum Reykjavíkur og Álftaness (Bessastaða). Garðagata liggur um Garðaholt frá Görðum, inn á Garðahraun við Garðastekk og sameinast Fógetastíg inni í hrauninu. Móstígur er austlægari, liggur frá Fógetastíg nyrst þar sem hann kemur inn á Garðahraun og síðan í suðlæga stefnu áleiðis að Engidalshrauni.
Í fornleifaskráningu fyrir Garðahraun segir m.a.: „Gamli vegurinn (götuslóði) úr Reykjavík út á Álftanes lá yfir Hraunsholtslæk og út með ströndinni. Hann greinist í tvo slóða í Hraunviki. … Hinn götuslóðinn úr Hraunviki hefur vestlæga stefnu, og hefur hann verið alfaraleið á liðnum öldum. Víða sjást djúpir troðningar og hófaför í klöppunum. Hann greinist um mitt hraunið.
Liggur annar í Garðahverfið, en hinn út á Álftanes. Rétt sunnan við, þar sem vegirnir skiptast, er Skyggnir, stór, einstæður klettur.“ segir í örnefnalýsingu. Troðningar sjást meðfram fjörunni í Hraunviki og upp með hraunbrúninni vestan við vikið, en um 50 m frá flæðarmáli, þar sem lítið vörðutyppi er á brúninni liggur gatan upp á hraunið og er þar geil í brúnina. Hraunið er allslétt um 400 m bein vestur frá Hraunviki og liggur leiðin um það slétta svæði og skiptist gatan sumstaðar í fleiri en eina rás en er allsstaðar mjög skýr. Hún liggur síðan í hlykk fram hjá hraunklettum þar sem hraunið er einna hæst og beygir til norðvesturs vestan við klettana. Þar sem gatan beygir er hraunið allslétt og gætu troðningar legið þaðan til suðurs og suðvesturs en ekki eru þeir skýrir. Frá beygjunni liggur gatan beint í um 300 m – og er þar samsíða fyrirhuguðu vegarstæði, sumstaðar innan við 20 m frá því, en fer undir veglínuna við hæl sem merktur er 1660 m. Þar beygir gatan til vesturs og liggur síðan niður úr hrauninu á móts við hleðsluna. Í flagmóunum vestan við hraunið má rekja götuna áfram til vesturs og hefur hún nokkuð beina stefnu á Selskarð. Þar sem gatan nálgast fjörumál í Lambhústjörn eru götupaldrar á stuttum kafla en síðan hverfur hún alveg í mýri og flög. Vestan við Selskarð sést framhald götunnar en þar hefur verið gerður malarvegur, nú aflagður. Líklegt er að gatan hafi klofnað við Selskarð og austari grein legið út á Bessastaði en hin á vesturhluta Álftaness.
Á móts við núverandi Garðaholtsveg liggur annar slóði upp í hraunið, um 100 m norðan við Garðastekk og liggur til norðausturs og sameinast aðalgötunni eftir um 250 m. Þetta mun vera gatan sem lá í Garðahverfi. Sú gata er mun ógreinilegri en aðalgatan út á Álftanes.
Í hrauninu er gatan víðast alldjúp geil, allt að 1 m djúp og 1-2 m breið, algróin. Brotnað hefur af götunni á einum stað við Lambhústjörn. Þessi leið hefur verið notuð fram á síðustu ár 19. aldar en sumarið 1873 var lagður vegur yfir Flatahraun frá Sjónarhóli í Engidal, og framhald á honum áleiðis á Hraunsholtið 1879. Endanleg vegtenging við Reykjavík kom þó ekki fyrr en 1897-99. Eftir það mun aðalleiðin á Álftanes hafa fylgt hinum uppbyggða vegi milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur og beygt útaf honum í Engidal.“
Um Móslóðan segir skráningin: „Stígur úr Garðahverfi, lá meðfram Garðaholti og yfir Flatahraun og svo yfir hraunið inn að Arnarnesvogi, en þar tóku Garðhverfingar upp mó.
Troðningur þessi var nefndur Móslóði. (Ath.: G.S. nefnir hann Gálgahraunsstíg syðra, en ekki kannast Guðmann við það nafn, og mun það rangt. … Gamli vegurinn (götuslóði) úr Reykjavík út á Álftanes lá yfir Hraunsholtslæk og út með ströndinni. Hann greinist í tvo slóða í Hraunviki. Hefur annar suðvestlæga stefnu nokkurnveginn á [Garða]holtsendann (þar sem sandnámið var. Hann var við líði fram um 1920, en er nú að mestu uppgróinn. Er þetta hinn fyrrnefndi Móslóði. Eftir honum var farið með klyfjahesta og reiddur mór úr Hraunsholtsmýri, áður en akvegur kom til sögunnar“, segir í örnefnalýsingu. Þessi stígur hefur verið sá austasti af þeim sem lágu yfir hraunið milli Garða og Hraunsholts. Hann hefur af lýsingunni að dæma legið upp í hraunið á svipuðum slóðum og Álftanesvegur kemur nú niður úr því að sunnan, og þaðan legið til norðurs uns hann sameinaðist Fógetagötu í miðju hrauninu. Víða sjást troðningar á þessum slóðum en hvergi er hægt að rekja ákveðna götu alla þessa leið. Þessi leið hefur verið ívið greiðfærari með reiðingshesta heldur en aðalleiðin sem lá norðar.“
Um Garðastekk segir: „Krummaklettar eru fyrsta örnefnið á hægri hönd, þegar farið er norður hraunbrúnina norðan Álftanesvegar. Hefur hraunskelin brotnað þar niður og myndað klettana. … Rústir af gamalli fjárrétt, Garðastekk, eru u.þ.b. 150 metrum norðan við Krummakletta, á móts við Garðaholtsveg, þar sem hann kemur á Álftanesveg. Rétt þessi var notuð fram yfir 1930.“ segir í örnefnalýsingu.
Tveir túnbleðlar eru sunnan undir hraunbrúninni á móts við Garðaholtsveg. Norðan við austurendann á vestari blettinum er stekkurinn, grjóthlaðin rétt með 4 hólfum og vestan við hana gróin tóft. Réttin er hlaðin utan í hraunkant og hefur stekkjartún verið í kring. Það hefur nú verið ræktað. Fjær eru stórgrýttir flagmóar. Réttin skiptist í fjögur hlaðin hólf en milli hennar og hraunsins myndast einnig tvö hólf til viðbótar. Þá sjást leifar af fimmta hólfinu nyrst. Sunnan við það er 11×9 m hólf með dyrum á vesturvegg og eru hleðslurnar allar bogadregnar í þessu hólfi. Sunnan við það er stærsta hólfið og er ekki gengt á milli. Það er 19×6 m og er aðeins gegnt úr því í annað af tveimur minni hólfum sem eru áföst við það sunnanvið. Þau eru bæði um 5×5 m með dyr á suðurvegg. Í krikanum sem myndast vestan við stekkinn er grasi gróin tóft, 10×4 m að utanmáli og mögulega kró eða smátóft aftan úr henni að austan. Gæti verið hinn eiginlegi stekkur.“ Ekki er minnst á leifar fjárborgar ofan við Garðastekk, sem verður að þykja allmerkilegar mannvistarleifar.
Garðagata sést vel þar sem hún liggur upp holtið norðan Garðaholts.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Heimild:
-Fornleifakönnun – Álftanesvegur milli Engidals og Selskarðs, Orri Vésteinsson, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 1999.