Færslur

Búrfellskot

Tekið verður hús á Þormóðsdalsbóndanum Þorsteini Hraundal og frú. Af því tilefni var gengið að draumóranámum Einars Benediktssonar utan í Búrfelli, beggja vegna Seljadalsár, upp með hinum forna Seljadalsvegi er lá áleiðis til Þingvalla áður en Konungsvegurinn 1907 kom til, yfir steinhlaðnar brýr norðan Leirtjarnar og vestan Silungatjarnar, að Nærseli, fjárborg skoðuð sem og gömul fjárhústóft utan í Grímannsfjalli áður en kveðju var kastað á Þormóðsdalsbóndann (og frú) að lokinni gönguferð.

Tóftir Búrfells(kots) - Hafravatn fjær

Áður en lagt var af stað voru rifjaðar upp örnefnalýsingar fyrir Þormóðsdal og Miðdal yfir göngusvæðið. Heimildarmaður og skrásetjari þessara lýsinga var Tryggvi Einarsson í Miðdal, en hann þekkti einnig vel til í Þormóðsdal, sem er næsta jörð norðan Miðdals. Tryggvi fæddist í Miðdal árið 1901 og átti þar heima alla sína tíð.
“Upp með Seljadalsá að Þormóðsdal eru melar, er Þormóðsdalsmelar heita. Vestur af Þormóðsdalsmelum eru grastorfur, er Torfur heita. Í túninu í Þormóðsdal, skammt sunnan við bæinn, er talið, að Þormóður, sem bærinn dregur nafn sitt af, sé grafinn. Er þar en[n] að sjá upphlaðið leiði. Hefur því verið haldið við, svo lengi sem ég man eftir. Eru ámæli á leiði þessu, að sé það slegið, eiga að farast 3 stórgripir. Leiðið var slegið með vilja og vitund einu sinni í minni tíð. Fórust þá á árinu 3 stórgripir á hryllilegan hátt. Í túninu norðan við Þormóðsdalsbæinn er stór hóll, er Gapi heitir; vestan undir Gapa er Gapamýri.

Gamla þjóðleiðin ofan Búrfells(kots)

Norður af Þormóðsdalsbænum er fell, sem Þverfell heitir að gildragi nokkru austar. Þá tekur við Þormóðsdalsfjall að svonefndum Efri-Sukkum. Á austanverðu Þormóðsdalsfjalli er laus klettur, er Grettir heitir.
Úr Sukkum kemur lækur, er rennur í Seljadalsá, þar sem heitir Árnes. Heitir sá lækur Árneslækur. Bugða í Seljadalsá myndar Árnes. Árnes er allstórt, þurrlent og grasgefið. Voru þar aðalútengjaslægjur Þormóðsdals. Árnes er nú ræktað tún. Upp með Árneslæk að vestan var sauðahús Þormóðsdals. Sést þar vel fyrir tóftum. Frá Árnesi upp með Seljadalsá að norðan, er alllöng valllendismóaspilda; þar mótar fyrir seltóftum. Var það nefnt Nærsel. Nokkru innar með ánni er hóll við ána, sem Hesthóll heitir.”
Og þá heim að Miðdal: “
Norðan við gamla Miðdalstúnið var mýri sem Mómýri hét (nú ræktað tún), mótak var þar gott, mórinn svartur og harður. Ruðningur 4 til 6 stungu mórinn 6 til 9 stungur niður. Ofan við Mómýri er Móholt. Norðan við Mómýri og upp með Seljadalsá er Búrfellsmýri. Austur af Búrfellsmýri eru Hringholtin, en austan við Hringholtin er mýri sem Hringur heitir. Sunnan við Hring er urðarhjalli sem Klif heitir. Norðan við Búrfellsmýri er Búrfell, sunnan við Búrfell er kargaþýfður mói, þar var Búrfellskot. Sést vel fyrir bæjarrústum þar. Búrfellskot var hjáleiga frá Miðdal. Sunnan í Búrfellstind er Búrfellsbrekka. 

Brúin norðaustan Leirtjarnar

Vestan í Búrfelli neðarlega eru grastorfur sem Búrfellstorfur heita. Norðan í Búrfelli eru grónir hjallar er Tjaldstaður heitir. Inn með Búrfelli að norðan er Búrfellsfoss  í Seljadalsá. Norð-austan við Búrfell er Fellsmýri. Austan við áðurnefndan Hring eru Leirtjarnarmelar, þar er jarðfastur bergdrangur sem Grettir heitir. Sunnan við Leirtjarnarmela er Leirtjörn. Sunnan við Leirtjörn er Leirtjarnarurð, þar er fjárrétt og Stekkur. Suð-austur af Leirtjörn er allstór mýri er Leirtjarnarmýri heitir. Austur af Leirtjarnarmýri eru hólar sem Leirtjarnarhólar heita. Norður úr Leirtjörn rennur Leirtjarnarlækur eftir mýri er Leirtjarnarlækjarmýri heitir. Frá Leirtjarnarlæk inn með Seljadalsá er mýrarkriki er Breiðiklofi heitir. Austan við Breiðaklofa er hóll sem Þúfhóll heitir. Austan við Þúfhól er mjótt mýrardrag niður að Seljadalsá sem Oddnýjarklofi heitir. Nokkru innar með Seljadalsá er mjótt gróðurdrag sem Mjóiklofi heitir, þar tekur við Silungatjarnarhæð. Fyrir sunnan Silungatjarnarhæð er Silungatjörn. Fyrir sunnan Silungatjörn er Silungatjarnarurð. Austan við Silungatjarnarhæð er Silungatjarnarlækur sem rennur  í Seljadalsá. Austan við Silungatjörn er Silungatjarnarmýri. Sunnan við Silungatjarnarmýri eru Silungatjarnarbrúnir. Austan við Silungatjarnarmýri er áverandi hóll er Moshóll, heitir. Nokkru innar með Seljadalsá þrengist verulega að Seljadalsá, þar heitir Þrengsli. Austan við Þrengslin er Seljadalur.”

Önnur brú á gömlu þjóðleiðinni til Þingvalla

Tryggvi minntist á Búrfellskot. Í Jarðabókinni 1703 er bærinn nefndur Búrfell. Tóftir bæjarins, sem verður að teljast kot, jafnvel á þeirra tíma mælikvarða, sjást enn vel utan í suðvesturhlíð Búrfells. Gamla þjóðleiðin frá Reykjavík og austur á Þingvöllu lá neðan við bæinn og áfram áleiði upp hlíðina að Búrfellshálsi. Gatan var rakin áfram um hálsinn. Ætlunin var að rekja hana allt upp að vaði á Seljadalsánni norðaustan við Silungatjörn.
Norðan Leirtjarnar sést gatan vel. Gott útsýni er suður yfir vatnið, að Gildruhálsi. 

Haldið var yfir hina hlöðnu brú yfir mýrardrag norðnorðaustan tjarnarinnar. Handan hennar lá gatan upp á örfoka melhæð, niður hana að handan og liðaðist síðan með lágum hæðum til norðausturs. Skammt vestan Silungatjarnar var komið að annarri hlaðinni brú yfir bleytufláka. Handan hans var komið inn á nýjan veg að sumarbústaðabyggð við vatnið, en með þrautseigju var hægt að rekja gömlu götuna áfram um lúpínusvæði og afgirta einstaka sumarbústaðareiti. Hún lá svo til alveg að tjörninni, mjög greinilega, en fjarlægðist hana síðan er nær dró Seljadalsánni. Þegar að ánni var komið lá gatan að vaði og síðan áfram áleiðis inn að Þrengslum.

Hluti hinnar gömlu þjóðleiðar um sumarhúsabyggð vestan Silungatjarnar

Reyndar er alveg ótrúlegt hversu einstaklingar hafa fengið frjálsar hendur að raska þessrai fornu þjóðleið. Verður bæði við Þjóðminjasafnið (áður fyrr) og Fornleifavernd ríkisins að sakast í þeim efnum – því einungis svolitla meðvitund (andstæða sofandaháttar) hefði þurft til að vernda þennan kafla leiðarinnar, sem annars er að mestu óraskaður.
Við vaðið var beitt til norðurs, að Nærseli, norðan Seljadalsár, ofarlega í Neðri-Seljadal. Á litlum grónum “bleðli” norðan árinnar mótar fyrir tóftum. Kargaþýfi er á svæðinu, en kvöldsólin opinberaði allan sannleikan um hinu horfnu húsaskipan. Tóftirnar voru tvær; sú eystri er stök. Dyraop snýr til suðurs, líkt og í vestari tóftinni, sem virtist þrískipt. Stærsta rýmið var nyrst, en síðan tvö minni framan við það, til beggja ganghanda. Tóftirnar eru mjög grónar og því að líkindum gamlar. Álitlegur lækur vestan við þær hafa ákvarðar staðsetningu þeirra á sínum tíma. Ofan við tóftirnar vottar fyrir hleðslu í læknum og í honum skammt vestan við þær virðist hafa verið lagaður (eða jafnvel hlaðinn) brunnur eða aðgengilegt vatnsstæði.
NærselNeðan við tóftirnar mótar fyrir stekk, ofan við barð er hallar niður að Seljadalsánni. Ekki var að sjá aðrar mannvistaleifar, sem telja má með öruggri vissu, í næsta nágrenni við tóftirnar og ekki var að sjá að þarna hefðu verið gerðir garðar eða önnur mannvirki er bent gætu til varanlegri búsetu.
Ekki getið um selstöðu frá Þormóðsdal í Jarðabókinni 1703. Í henni segir að Úlfarsfell hafi haft “selstöðu góða“, en ekki hvar. Í heimildum er þó getið um Nærsel í Seljadal, en ekki er vitað hvar það hefur verið. Viðey á að hafa haft selstöðu á þessum slóðum og samnýtt selstöðu með Bessastöðum. Það er ekki ólíklegt því í Jarðabókinni 1703 er sagt frá því að Þormóðsdalur hafi haft “dagslættir í Viðey”. Þarna gæti hafa verið um hlunnindaskipti að ræða.

Seljadalur

Seljadalur (Nærsel) – uppdráttur ÓSÁ.

Fyrir liggur þó vísbending um Nærsel. Stórt skilti (loftmynd) frá Skógræktinni er rétt innan við beygjuna inn í Þormóðsdal (frá Hafravatnsvegi) og á því eru örnefni, m.a. Nærsel og það sýnt beint framan við bæinn þeim megin árinnar, en Árnes Búrfellsmegin við. Þetta passar ekki miðað við örnefnalýsingu Tryggva frá Miðdal. en hann segir um Þormóðsdal (mörk Miðdals og Þormóðsdals eru um ána): ” Úr Sukkum kemur lækur, er rennur í Seljadalsá, þar sem heitir Árnes. .. Árneslækur…. Bugða í Seljadalsá myndar Árnes. Árnes er allstórt, þurrlent og grasgefið. … Árnes er nú ræktað tún. Upp með Árneslæk að vestan var sauðahús Þormóðsdals. Sérst þar vel fyrir tóftum. Frá Árnesi upp með Seljadalsá að norðan, er alllöng valllendismóaspilda; þar mótar fyrir seltóftum. Var það nefnt Nærsel. Nokkru innar með ánni er hóll við ána, sem Hesthóll heitir….”
Framangreind lýsing getur alveg passað við tóftirnar sem lýst hefur verið. Svo má velta fyrir sér frá hvaða jörð Nærsel var? Og hvaða sel er þá ”fjærsel”? E.t.v. Nessel?
Þekkt er víða um land að kot hafi vaxið upp úr seljum. En einungis örfá dæmi eru um það í landnámi Ingólfs, s.s. í Seljadal ofan við Fossárdal í Hvalfirði og Straumssel ofan við Hraunin. En tóftir þessar virðust ekki hafa hýst kot. Þær voru og keimlíkar öðrum selrústum á Reykjanesskaganum til þess; þrískiptar (vistarverur, búr og eldhús), auk stekks. Þá kemur afstaða og staðsetning tóftanna heim og saman við sambærileg mannvirki víða á svæðinu. 

Haldið var norðvestur með norðanverðum Seljadal, að tóftum fjárhúss og fjárborgar. Jarðýtu hafði verið ekið niður mýrlendið skammt vestan fjárhússtóftarinnar (sauðahússins) og má telja mildi að ekki hafi verið farið yfir hana. Greinilegt er að þarna standa til verulegar framkvæmdir því búið er að koma fyrir miklu magni svína- og hænsnaskíts innan nýrrar girðingar.

Fjárhústóft (sauðahús) frá þormóðsdal

Líklegt má telja að þarna eigi innan skamms að “lagfæra” hlíðina norðanverða og gera hana að bitvænni högum fyrir hross. Dalsbóndinn mun vera þarna að verki. Vonandi er hann vel meðvitaður um minjar að svæðinu, hvort sem um er að ræða Nærselið, fjárhúsið eða fjárborgina. Og auðvitað hlýtur Fornleifavernd ríkisins, sem jafnan vakir yfir framkvæmdum sem þessum, að hafa gert viðhlítandi fyrirbyggjandi ráðstafanir svo varðveita megi menningarminjarnar á svæðinu??!!
Aftur var tekið hús á Þormóðsdalsbónda. Hafði hann þá hitað kaffi fyrir þátttakendur og bar vel á beina. Þá gekk hann með þeim að námusvæðinu og benti á fyrrum námuop, sem nú hefur verið lokað með fyrirgjöf. Sagðist hann hafa fyrrum séð op á námugöngum, bæði norðan og sunnan Seljadalsár. Göngin norðan árinnar hefðu verið mun lengri. Leifar járnbrautarteina hefðu verið innan við opin. Göngin sjálf hefðu ekki verið stærri en svo að meðalmaður hafi þurft að ganga um þau hokinn. Rutt hefði verið fyrir opin til að koma í veg fyrir slysahættu. Auðvelt væri hins vegar að moka þau út að nýju, ef einhverjum sýndist svo.
Bóndinn benti FERLIR á leifar járnbrautarteina í ánni neðan við námusvæðið. Þá hefur fyrrum bónda hugkvæmst að nota þá í girðingarstaura því styttur úr þeim má sjá uppi í hlíð Búrfells þar sem núverandi girðing liggur nú. 

Lefar brautarteina við gömlu gullnámuna við ÞormóðsdalLítið hefur verið fjallað um gullvinnsluna við Þormóðsdal (Miðdal), en í Öldinni okkar (1905) er sagt frá því er gull fanst við rætur Öskjuhlíðar. Þar segir m.a.: “Það varð uppi fótur og fit í Reykjavík laugardagsmorguninn 1. apríl, þegar sú fregn barst um bæinn, að gull hefði fundizt í mýrarkrikanum vestan undir Öskjuhlíðinni rétt fyrir sunnan gamla Hafnarfjarðarveginn.” Gullfréttin flaug víða. Áhöfn á breskum togara, sem legið hafði í höfninni, sigldi til Englands með fréttina. Reiknað var með að erlendir gullgrafarar myndu senn streyma til Reykjavíkur. Bæjarstjórn hélt fund um málið. Skipuð var nefnd um rannsókn málsins. Gullsarf. reyndar í ofurlitlu magni, var lagt fram. Námasvæðið var afmarkað og hlutafélagið Málmur stofnað. Stofnendur voru níu menn, en mönnum var frjálst að kaupa sér hluti í félaginu. Stefnt var að því að kaupa bor og hefja frekari leit að gulli á svæðinu. Ekkert varð úr verki og framkvæmdin dagaði uppi. Ekki er vitað hvað varð um hlutaféð, 100-250 þús. kr. Árið 1908 birtist frétt um að hlutafélagið Málmur væri komið í fjárþröng. Fram kom að búið væri að verja 24 þús. kr. til vélakaupa og rannsókna og að félagið væri komið í 4500 kr. skuld. Hvað varð um mismuninn er enn ekki vitað, tæpri öld síðar.
Talið var að gullævintýrið í Öskjuhlíðinni hafi verið búið til til að afla hlutafjár í einhverju, sem ekki var til. Hið litla gull, sem sýna átti tilefnið, hafi í raun og veru komið úr gullnámu við Þormóðsdal.
Frábært veður. Gangan tók
2 klst og 2 mín. (Kvöldsólin sveipaði Seljadalinn og Nærselið dulúðlegri birtu).

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Þormóðsdal.
-Örnefnalýsing fyrir Miðdal.
-Öldin okkar.
-Þorsteinn Hraundal.

Silungatjörn og nágrenni í kvöldsólinni

Nessel

Nú er ljóst að Seljadalur rís undir nafni. Áður fékkst einungis tilvist einnar seltóftar staðfest í dalnum, Nessels við Nesselslæk ofan við Innri-Seljadal. Fyrir skömmu skoðaði FERLIR Nærsel ofan Árnesgils norðan Seljadalsár í Fremri-Seljadal. Tvær aðrar tóftir á því svæði eru nú til skoðunnar.

Seljadalur

Tóft í Seljadal.

Af loftmyndum að dæma virtist móta fyrir tóftum á tveimur öðrum stöðum í Innri-Seljadal, norðan Seljadalsáar, auk þess sem vísbending hafði borist um aðra þeirra. Ætlunin var að reyna að staðsetja þær og skoða. Ekki er með öllu útilokað að þar kynnu að leynast enn fleiri sel, enda Seljadalsnafnið í fleirtölu.
Á leiðinni upp með Seljadalsánni, austan Þormóðsdals, eru fallegar skemmtilegar rústir, risastór fjárborg, mjög jarðlæg og rétt vestan við hana stórt sauðahús með einskonar gerði fyrir framan og svo hlöðu aftan við. Allt er þetta hlaðið úr torfi. Þetta gæti verið sama sauðahúsið og talað er um í örnefnalýsingunni um Þormóðsdal, sem Tryggvi frá Miðdal skráði; “og þá rennur um gilið Árneslækur”. Ef þetta er rétt túlkað er skilti, er geymir loftmynd af svæðinu niður við gatnamót Hafravatnsvegar og Þormóðsdalsvegar algjör della. Mjög falleg mosagróin varða, hlaðin úr þunnum steinflögum, stendur á holti rétt við línuna, sem þarna liggur. Tryggvi talar um Innri-Seljadal og gæti sá legið fyrir innan Kambhól því þar koma aðeins þrengsli í dalinn.

Seljadalur

Tóft í Seljadal.

Kíkt var á Nærselið á vallendistungu nokkru austan við Árnesgilslæk. Lítill lækur rennur úr grunnu gili ofan við tóftirnar. Þá var haldið áfram til austurs inn að Kambhól og litið á Kambs(hóls)réttina áður en stefnan var tekin í svo til miðjan norðanverðan Innri-Seljadal.
Gömlu þjóðleiðinni var fylgt að mýrarbrú, sem liggur þarna nokkurn spotta beint yfir mýrina. Hann er nú aflagður, enda gatan verið færð ofar á trébrú. Skammt austan hennar var stefnan tekin til norður upp í gróið afhallandi sléttlendi með lágum bakka að austanverðu. Þar undir bakkanum kúrir títil tóft með tveimur rýmum. Stærra rýmið, er hefur dyr mót vestri, hefur verið ca. 120×160 cm að innanmáli. Hitt er norðan hennar og snúa dyr mót norðri. Það hefur verið enn minna, ca. 60×80 cm. Norðan við tóftina virðist vera ferköntuð afmörkun, líkt og garður. Þetta gæti hafa verið sel og þá notað til skjóls og/eða geymslu. Hrístaka hefur verið þarna, sem og mótaka.
Skammt austan við þessa tóft er gróinn hvammur. Í honum miðjum er þúfóttur hóll. Uppspretta er norðan við hann undir grasbakkanum og rennur lítill lækur niður með hólnum að vestanverðu.

Nessel

Nessel.

Ekki sést móta fyrir veggjum eða hleðslum í hólnum, en hann sker sig úr öðru, sem þarna er. Ekki er með öllu útilokað að þar kynna að hafa verið hús, en ef svo er þá er það mjög fornt. Handan við ás ofan við tóftina er Nessel, undir grónum hól í grónum dal, í skjóli fyrir austanáttinni.
Tóftirnar eru mjög greinilegar. Í tóftarhólnum eru þrjú rými, eitt stærra en hin. Lækir renna hjá selinu, bæði að sunnanverðu og vestanverðu. Sameinast þeir í Nesselslækinn sunnar. Þegar svæðið var gaumgæft betur en áður hefur verið gert, komu í ljós tvö önnur mannvirki, að mestu jarðlæg. Sunnan við selið mótar fyrir hringlaga gerði. Annað svipað er skammt suðvestar. Vel má sjá lögunina, en erfitt er að segja til um hvaða hlutverki þessi mannvirki hafa þjónað. Giskað er þó á að það, sem er nær selinu, hafi verið stekkur, en það sem er fjær, hafi verið fjárborg eða nátthagi. Það gæti einnig hafa verið stekkur eða rétt.
Í bakaleiðinni var gengið fram á nokkur lóuhreiður.
Frábært veður – stafalogn og hlýindi. Fuglasöngur mófuglanna fyllti loftið og svanir sveimuðu tignarlega yfir ánni. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Nessel

Nessel – uppdráttur ÓSÁ.

Nærsel

Að minnsta kosti – og einungis – eitt sel, Nessel, er (var) þekkt í Seljadal. En af hverju er þá um fleirtöluorð á dalnum að ræða? Ætti ekki dalurinn þá að heita Seldalur eða Seljardalur, sbr. Selfjall, Selvatn, Selbrekkur eða Seltjörn (Selvatn)!!?? (Margar spurningar hljóta að vakna).

Nærsel

Nærsel.

Nessel er sagt norðan í Seljadal. Það er ofarlega í fallega grónum þverdal, við værukæra lækjarsitru, austarlega í honum norðanverðum, undir suðurbúnum Grímarsfells. Selið er bæði myndarlegt og dæmigert fyrir sel á Reykjanesskaganum (landnámi Ingólfs). Hins vegar virðist það ekki nægilega umkomumikið og ætlast væri af seli af slíkum “stofni”, þ.e. frá stórbýli á þeirra tíma mælikvarða. Auðvitað má ekki véfengja ábendingar fróðra manna um selstöðuna, en í örnefnaskrám segir einungis (og ótilgreint) að Nes hafi haft í seli í Seljadal. En Seljadalurinn er langur, og auk þess er hans jafnan getið í FLEIRTÖLU, eins og hér verður nánar lýst á eftir.
En hvaða sjálfsagða vísbendingu ætti bæði langur og gróinn dalur, í landnámi Ingólfs – með heila á rennandi um sig miðja og ótal læki allt um kring – að gefa? Hvar voru sérfræðingarnir – og hvar er áhuginn??
Hafa ber í huga að áhugi sérfræðinganna liggur jafnan, og eðlilega, í verkefnum er geta gefið eitthvert “lífsviðurværi” af sér. Annað, og allt umfram, er áhugafólksins. Afrakstur þess er þó jafnan vanmetinn – ekki síst af sérfræðingunum. En nóg um það í bili.

Nærsel

Nærsel.

Eftir nákvæma skoðun loftmynda af svæðinu vöknuðu grunsemdir um að dalurinn geymdi fleiri sel, bæði í honum suðaustanverðum (á eftir að gaumgæfa betur) sem og miðsvæðis í honum – og er þá Kambsréttin undanskilin. FERLIR hafði áður skoðað Nesselið fyrrnefnda, Kambsréttina og fleiri minjar í ofanverðum SELJADAL. En eitthvað stemmdi ekki alveg við heildarmynd þess tíma, sem um hefur verið fjallað, hvort sem um var að ræða staðsetningu eða stærð. Nesselið er óneitanlega á fallegum, en vandfundnum, stað og æði myndrænt, en samt…
Á leiðinni upp í Seljadal var rætt við húsmóðurina í Þormóðsdal. Þar er nú járnkætt timburhús, greinilega með nýrri viðbætum. Hún sagði eldra húsið hafa verið byggt um 1932. Nafnið Þormóðsdalur næði einungis yfir bæinn og jörðina, en dalurinn allt frá ofanverðu Illagili sunnan í Grímarsfelli, um hið hrikalega Hrafnagil, sléttlendi milli ása, um Kambshól og niður að Hafravatni norðan og vestan Búrfells hafi ávallt allur verið nefndur Seljadalur, enda áin, sem rennur um dalinn, einatt nefnd Seljadalsá (fleirtala+eintala) – alla leiðina.

Nærsel

Nærsel.

Ávallt hafi verið talið að á Þormóðsdalur hafi verið forn jörð og að þar hafi búið einn landnámsmanna. Þormóðsleiði er einn vottur um það [en það er eitt af verkefnum FERLIRs á næstunni að staðsetja það]. Enn vöknuðu spurningar: Hvers vegna er dalurinn í heild nefndur í eintölu þrátt fyrir að um fleiri dali virðist um að ræða? Var hér um að ræða eina af þessum dæmigerðu nafnabreglum er verða jafnan og óhjákvæmilega í gegnum langa tíð (og umbreytingar)?

Húsmóðirin sagði að tóftir hafi áður verið bæði austan við húsið og ofan við það. Hinar síðarnefndu sjást enn. Þegar grafið var fyrir viðbyggingunni austan við húsið fyrir nokkrum árum hafi verið komið niður á ýmislegt fornfálegt. Ekki er ólíklegt að ætla að þar hafi verið um að ræða leifar enn eldri bæjar. Ekki er hins vegar með vissu vitað hvar bær Þormóðs hafi verið, en hann gæti hafa verið þarna eða skammt austar, handan gilsins, sem þar er. Tóftir sjást þar enn, en ekki væri vitað til þess að þær hafi verið rannsakaðar sérstaklega, ekki frekar en hugsanlegt bæjarstæði við núverandi íbúðarhús.

Nærsel

Nærsel – loftmynd.

Aðspurð um mögulegar tóftir upp með Seljadalsánni, norðan Silungatjarnar, sagðist húsmóðirin oft hafa gengið upp með ánni, en aldrei orðið vör við slíkar tóftir á þeim stað, sem tilnefndur var. Einu tóftirnar, sem hún kannaðist við, væru hleðslur undir Kambhól og rústir ofarlega í Seljadal [Nessel].
Áður en lagt var af stað höfðu grunsemdirnar verið bornar undir Bjarka Bjarnason, þann er líklega veit manna mest um fyrrum mannanna verk í Mosfellsdal og nágrenni. Hann kannaðist ekki við rústirnar, en taldi þó að þarna einhvers staðar hafði áður verið eitthvert ónefnt kot. Vitað er um rústir Búrfellskots sunnan undir Búrfelli. Auk þess mótar fyrir rústum (mögulegu kotbýli) á sléttu, skurðgröfnu (framræstu) túni allnokkru vestan við meintar rústir (svona mitt á milli Þormóðsdals og þeirra).
Og þá var bara að leggja í lokaáfangann að hinum meintu rústum.

Nærsel

Nærsel.

Á litlum grónum “bleðli” norðan Seljadalsár (austan við austasta sumarbústaðinn norðan Silungatjarnar, en sunnan Seljadalsár) mótaði fyrir tóftum. Settir höfðu verið girðingastaurar á “bleðilinn” og hestum greinilega verið beitt á hann um tíma – sem og í tóftirnar báðar. Girðingarstrengir höfðu þó verið fjarlægðir, sem og bikkjurnar. Hið jákvæða var samt sem áður það að bletturinn var nú mun grænni en umhverfið og tóftirnar því greinilegri (og auðveldari til myndatöku). Eflaust hafa þær löngum átt auðvelt með að dyljast þarna á barðinu án nýlegs ágangs.
Tóftirnar voru tvær; sú eystri er stök. Dyraop snýr til suðurs, líkt og í vestari tóftinni, sem virtist þrískipt. Stærsta rýmið var nyrst, en síðan tvö minni framan við það, til beggja ganghanda. Tóftirnar eru mjög grónar og því að líkindum gamlar. Álitlegur lækur vestan við þær hafa ákvarðar staðsetningu þeirra á sínum tíma. Ofan við tóftirnar vottar fyrir hleðslu í læknum og í honum skammt vestan við þær virðist hafa verið lagaður (eða jafnvel hlaðinn) brunnur eða aðgengilegt vatnsstæði.
Neðan við tóftirnar mótar fyrir stekk, ofan við barð er hallar niður að Seljadalsánni. Ekki var að sjá aðrar mannvistaleifar, sem telja má með öruggri vissu, í næsta nágrenni við tóftirnar og ekki var að sjá að þarna hefðu verið gerðir garðar eða önnur mannvirki er bent gætu til varanlegri búsetu.

Nærsel

Nærsel.

Nú var úr svolitlum vanda að velja. Ekki getið um selstöðu frá Þormóðsdal í Jarðabókinni 1703. Í henni segir að Úlfarsfell hafi haft “selstöðu góða“, en ekki hvar. Í heimildum er þó getið um Nærsel í Seljadal, en ekki er vitað hvar það hefur verið. Viðey á að hafa haft selstöðu á þessum slóðum og samnýtt selstöðu með Bessastöðum. Það er ekki ólíklegt því í Jarðabókinni 1703 er sagt frá því að Þormóðsdalur hafi haft “dagslættir í Viðey”. Þarna gæti hafa verið um hlunnindaskipti að ræða. Fyrir liggur þó vísbending um Nærsel. Stórt skilti (loftmynd) frá Skógræktinni er rétt innan við beygjuna inn í Þormóðsdal (frá Hafravatnsvegi) og á því eru örnefni, m.a. Nærsel og það sýnt beint framan við bæinn þeim megin árinnar, en Árnes Búrfellsmegin við. Þetta passar ekki miðað við örnefnalýsingu Tryggva frá Miðdal. en hann segir um Þormóðsdal (mörk Miðdals og Þormóðsdals eru um ána): ” Úr Sukkum kemur lækur, er rennur í Seljadalsá, þar sem heitir Árnes. .. Árneslækur…. Bugða í Seljadalsá myndar Árnes. Árnes er allstórt, þurrlent og grasgefið. … Árnes er nú ræktað tún. Upp með Árneslæk að vestan var sauðahús Þormóðsdals. Sérst þar vel fyrir tóftum. Frá Árnesi upp með Seljadalsá að norðan, er alllöng valllendismóaspilda; þar mótar fyrir seltóftum. Var það nefnt Nærsel. Nokkru innar með ánni er hóll við ána, sem Hesthóll heitir….”

Nærsel

Nærsel – uppdráttur ÓSÁ.

Framangreind lýsing getur alveg passað við tóftirnar sem lýst hefur verið. Svo má velta fyrir sér frá hvaða jörð Nærsel var? Og hvaða sel er þá ”fjærsel”? E.t.v. Nessel?
Þekkt er víða um land að kot hafi vaxið upp úr seljum. En einungis örfá dæmi eru um það í landnámi Ingólfs, s.s. í Seljadal ofan við Fossárdal í Hvalfirði og Straumssel ofan við Hraunin. En tóftir þessar virðust ekki hafa hýst kot. Þær voru og keimlíkar öðrum selsrústum á Reykjanesskaganum til þess; þrískiptar (vistarverur, búr og eldhús), auk stekks. Þá kemur afstaða og staðsetning tóftanna heim og saman við sambærileg mannvirki víða á svæðinu.
Af varfærnislegum ástæðum er niðurstaðan sú að hugsanlega hafi þarna verið um kot að ræða – EN það hafi þá vaxið upp úr fyrrum selstöðu. Hvaðan sú selstaða hefur verið er erfitt um að segja á þessari stundu, en eitt er víst – að Seljadalurinn rís nú loksins undir nafni.
Hafa ber í huga að vangaveltur FERLIRs eru og verða einungis dregnar út frá sýnilegum minjum, sem og útliti þeirra, eins og þær birtast augum sjáandans á vettvangi nútímans – dagsins í dag. Örnefnalýsingar geta hugsanlega staðfest þær, eða jafnvel kveðið á um eitthvað allt annað – fyrrum. Hafa ber þó í huga að áætluð heiti eða staðsetningar örnefna eða rústa geta (og hafa) hnikast til í gegnum tíðina (eins og dæmin sanna) og þannig smám saman orðið aðrar en þær voru.
Rétt er þó jafnan að byggja á fyrirliggjandi bestu og áreiðanlegustu upplýsingum á hverjum tíma, treysta hæfileikum skrásetjarans og vona að þar hafi allt verið eins og best verður á kosið – þá og þegar.
Frábært veður – rigning umhverfis, en himininn opnaði sig með bjartviðri yfir rústasvæðinu. Blómstur

Portfolio Items