Í Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla II, má m.a. lesa eftirfarandi um bæi, s.s. Hlöðunes, Narfakot, Hlöðuneskot, Ásláksstaði, Knarrarnes, Breiðagerði og Vatnsleysubæina, og nokkrar aðrar merkar minjar í sveitarfélaginu.
Hlöðunes (býli)
Hlöðunes.
Jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 127. 9. september 1447: Bréf um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr.), Hlöðunes (20 hdr.), tvenna Ásláksstaði (40 hdr.), Knarrarnes tvö ( 30 hdr.), Breiðagerði fyrir (10 hdr.). DI IV 707-708.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 115. 1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 4 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og Vogar, 26.
1703: Hlöðuneskot eina hjáleigan. JÁM III, 129. 1847: Hjáleigur í byggð eru Narfakot og Hlöðuneskot. JJ, 90. “Hlöðuneshverfi á Vatnsleysuströnd tilheyrðu eftir taldir bæir. Hlöðunes, Halldórsstaðir, Narfakot, Miðhús, Bjarghóll, Nýlenda, Holt var rétt hjá Hlöðunesi og á Töngunum Gerði og Atlagerði.” Ö-Hlöðunes, 3, 5. Klöpp var einnig afbýli sem fór í eyði fyrir aldamótin 1900. GJ: Mannlíf og mannvirki, 253.
Hlöðunes 1939.
Jörðin einnig nefnd Hlöðversnes. Þar var tvíbýli og seinni bærinn nefndur Hlöðversneskot, Gilsbakki og Vesturkot (sjá Hlöðuneskot).
1703: “Túnin brýtur sjór með sandi og grjóti æ meir og meir. Engjar eru öngvar. Úthagar litlir um sumar, nær öngvir um vetur nema fjaran.” JÁM III, 129.
1919: Tún 3,6 teigar, garðar 1500m2 samkvæmt túnakorti.
Hlöðunes.
Bæjarhóll Hlöðuness er á náttúrulegri hæð í miðju túni. Jörðin fór í eyði í kringum 1960 og er nú í eigu Nesbús sem rekur eggjabú á jörðinni suðaustan við gamla heimatúnið, fast norðan við Vatnsleysustrandarveg. Á bæjarhólnum sjást nokkrir grunnar, m.a. líklega síðasta íbúðarhússins. Engar vísbendingar eru um annað en að bærinn í Hlöðunesi hafi staðið á þessum stað um aldir. Í túninu eru grónar hæðir og suðaustan við bæinn hefur verið tjörn eða mýrlendi en það var þurrt þegar skráningarmaður var á ferð í júní 2012.
Hlöðunes.
Sem fyrr segir er bæjarhóll Hlöðuness á náttúrulegri hæð og er bæjarhóllinn sjálfur ekki afgerandi. Hann virðist vera um 30×25 m að stærð og snýr nálega norður-suður. Hann er um 1 m á hæð.
Hlöðunes – uppdráttur.
Á bæjarhólnum er hlaðinn grunnur íbúðarhúss og ummerki um tengd hús. Húsgrunnurinn (kjallarinn) A snýr norðvestur-suðaustur. Hann er um 7×5 m að stærð. Op er á honum á miðri suðvesturhlið. Þar eru þrep ofan í kjallarann. Í veggjum er sementslím milli steina og eru þeir múraðir að utan að hluta. Kjallarahleðslurnar standa um 0,6 m upp úr jörðu. Kjallarinn er um 1,2 m á dýpt og sjást 8 umför í hleðslum. Veggir eru 1-1,5 á þykkt. Hlaðinn skorsteinn er í kjallaranum.
Hlöðunesbrunnur (vatnsból)
Hlöðunesbrunnur.
“Hlöðunesbrunnur. Halldórsstaðabrunnur og þá Narfakotsbrunnur voru allir skammt frá bæjum í Túnunum,” segir í örnefnaskrá. Samkvæmt túnakorti frá 1919 var brunnur um 80 m norðan við bæ og er það að líkindum Hlöðunesbrunnur. Brunnurinn er enn greinilegur.
Brunnurinn er í fremur sléttu og flatlendu túni. Brunnurinn er byrgður og því sést ekki ofan í hann. Hann stendur nokkuð upp úr túninu og er um 3×3 m að stærð og 0,4 m á hæð. Brunnurinn er gróinn. Ekki fengust upplýsingar um það hversu djúpur hann er en ætla má að hann sé grjóthlaðinn.
Hlöðunessel (sel)
Hlöðunessel.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hlöðunesskinn, og eru þar hagir bjarglegar en vatnsból í lakasta máta, so orðið hefur fyrir vatnsskort að flytja heim úr selinu,” “… þaðan beina línu sunnan til við Ásláksstaðaholt upp í Hrafnhóla og þaðan beina línu sunnan til við Hlöðunessel Gamla, til Fjalls …,” segir í örnefnaskrá um sama stað. “Undir Hlöðuneskinn í lægð mót austri stóð Gamla-Hlöðunessel eða Hlöðunessel, þar sjáum við tvær mjög gamlar tóftir en túnið er svo til horfið vegna uppblásturs sem hefur verið mikill þarna,” segir í Örnefnum og gönguleiðum. Selið er um 7,1 km suðaustan við bæ. Selið er langt uppi í heiði þar sem uppblástur er nokkuð mikill.
Selið er í brekku móti austri og hefur verið ágætt seltún austan við það í skjóli hlíða til suðurs og suðausturs. Nánast allt seltúnið er horfið vegna uppblásturs en enn sést grænn graskragi í brekkurótum til suðurs og suðausturs. Uppblásturinn er kominn mjög nærri tóftunum sem enn sjást á svæðinu og stafar þeim mikil hætta af honum.
Minjar í selinu eru á svæði sem er um 90×10 m að stærð og snýr norður-suður.
Halldórsstaðir (býli)
Halldórsstaðir – örnefni.
“Hlöðuneshverfi á Vatnsleysuströnd tilheyrðu eftir taldir bæir. Hlöðunes, Halldórsstaðir, Narfakot, Miðhús, Bjarghóll, Nýlenda, og Holt var rétt hjá Hlöðunesi og á Töngunum Gerði og Atlagerði,” segir í örnefnaskrá. Utan um Halldórsstaðatún er túngarður. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Jörðin var byggð úr 1/4 af torfunni. Búið að slétta allt.” Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru Halldórsstaðir um 150 m norðaustan við bæ. Jörðin fór í eyði á síðari hluta 20. aldar. Á túnakortinu eru sýnd 5 útihús, einn brunnur, ein þró og þrír kálgarðar. Fyrir utan bæjarstæðið sáust þrjár tóftir (ein þeirra er ekki sýnd á túnakorti), leifar af brunni og leifar af tveimur kálgörðum. Á túnakorti er afgirt tún NNA við tún Halldórsstaða og stendur þar að það sé útgræðsla og að þar hafi þurrabúðin Bjarghóll staðið en búið sé að slétta úr minjum um það. Ekki er ljóst hvort að útræktin hafi tilheyrt Halldórsstöðum eða Narfakoti á fyrri hluta 20. aldar þegar túnakortið var gert. Í dag (2012) tilheyrir það hins vegar ábúendum í Narfakoti.
Halldórsstaðir – uppdráttur.
Túnið á Halldórsstöðum er nokkuð flatlent nema meðfram austurjaðri þess en þar eru grónar klappir. Vegur heim að Narfakoti liggur austan og norðaustan við túnið og hefur valdið raski á þeim kálgarði sem er næstur bæjarstæðinu.
1919: Tún 1,9 teigar, garðar 1300m2. Hér eru þær minjar sem tilheyra býlinu skráðar saman undir einu númeri en hverju mannvirki gefinn bókstafur til aðgreiningar. Minjasvæðið er um 145×50 m að stærð og snýr norður-suður.
Halldórsstaðir.
Leifar af íbúðarhúsi og sambyggðu útihúsi A eru norðarlega í túni Halldórsstaða. Þarna eru hlaðin og steypt hús saman sem ná yfir svæði sem er um 20×10 m að stærð og snýr austur-vestur. Íbúðarhúsið var í austurenda svæðisins og var grunnflötur þess um 9×10 m að stærð og sneri það norður-suður. Í norðaustasta hluta hússins er hlaðinn kjallari undir hluta hússins sem er búið að rífa að öðru leyti. Kjallarinn er um 4×4 m að innanmáli en mjókkar til suðurs. Hann er um 1 m á dýpt og sjást 5-6 umför í hleðslum sem eru með sementslími. Kjallarinn er fullur af rusli og steypubrotum. Kjallarinn virðist ekki vera niðurgrafinn, heldur er hann hlaðinn í sprungu í lágum hraunhól sem húsið stóð á.
Miðhús (býli)
Miðhús.
“Hlöðuneshverfi á Vatnsleysuströnd tilheyrðu eftir taldir bæir. Hlöðunes, Halldórsstaðir, Narfakot, Miðhús, Bjarghóll, Nýlenda, Holt var rétt hjá Hlöðunesi og á Töngunum Gerði og Atlagerði,” segir í örnefnaskrá. Þar segir einnig: “Miðhús er álitið að sé 10 álnir, að fornu mati úr Hlöðuneshverfi. Lóð sú er býli því fylgir, sem er upphaflega Matjurtagarður og Stakksstæði, er öll afgirt með Grjótgörðum og liggur við sjóinn …”. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Miðhús var eignarland með lítilsháttar grasnyt og var í Hlöðversneslandi.” Miðhús fóru í eyði upp úr aldamótunum 1900 og lagðist býlið undir Narfakot. Minjar um Miðhús eru um 200 m norðan við bæ.
Samkvæmt túnakorti frá 1919 var tún Miðhúsa afmarkað með túngarði B og innan hans voru tvö mannvirki; bæjarhús.
Minjarnar eru í suðausturhorni lítils túns niður við sjó sem afmarkað er með grjótgörðum. Sjórinn hefur mjög gengið á land á þessum stað og brotið af túninu. Meint bæjartóft er á hól í túninu.
Minjar um Miðhús sjást á svæði sem er um 50×30 m að stærð og snýr austur-vestur.
Bjarghóll (býli)
Hlöðunes.
“Hlöðuneshverfi á Vatnsleysuströnd tilheyrðu eftir taldir bæir. Hlöðunes, Halldórsstaðir, Narfakot, Miðhús, Bjarghóll, Nýlenda, Holt var rétt hjá Hlöðunesi og á Töngunum Gerði og Atlagerði,” segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Jörðin fór í eyði fyrir aldamótin 1900.” Á túnakorti frá 1919 er staðsetning býlisins Bjarghóls sýnd en þar stendur einnig að öll ummerki um býlið séu horfin. Býlið var um 60 m norðan við Halldórsstaði og um 185 m norðaustan við Hlöðunes. Bjarghóll var á fremur litlum og lágum hól í flatlendu og sléttlendu túnstykki norðaustan við veg heim að Narfakoti. Í norðausturhorni túnsins er allhár hóll sem er að hluta innan túns og að hluta utan þess. Hlaðinn garður er meðfram túni og tengist Narfakotstúngarði.
Engar minjar um býlið Bjarghól sjást á vettvangi og hefur það líklega allt verið rifið og sléttað út við túnrækt. Ekkier hægt að útiloka að einhverjar leifar af því leynist enn undir sverði.
Nýlenda (býli)
“Hlöðuneshverfi á Vatnsleysuströnd tilheyrðu eftir taldir bæir. Hlöðunes, Halldórsstaðir, Narfakot, Miðhús, Bjarghóll, Nýlenda, Holt var rétt hjá Hlöðunesi og á Töngunum Gerði og Atlagerði,” segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Nýlenda var í landi Hlöðversness. … Fjölskyldan flutti til Reykjavíkur um 1900 og þá lagðist Nýlenda í eyði.” Ekki fengust neinar upplýsingar um það hvar Nýlenda var og því var ekki unnt að staðsetja býlið með innan við 50 m skekkju. Ekki er útilokað að Nýlenda hafi verið þar sem tóft var skráð en þar er líklegt að hafi verið hjáleiga.
Holt (býli)
Holt.
“Hlöðuneshverfi á Vatnsleysuströnd tilheyrðu eftir taldir bæir. Hlöðunes, Halldórsstaðir, Narfakot, Miðhús, Bjarghóll, Nýlenda, Holt var rétt hjá Hlöðunesi og á Töngunum Gerði.
Í örnefnaskrá segir: “Holt var sem fyrr segir þurrabúð í Hlöðunestúni.” Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Bærinn byggðist fyrir aldamót.” Ekki fengust neinar upplýsingar um það hvar Holt var og því var ekki unnt að staðsetja býlið með innan við 50 m skekkju.
Hlöðversleiði (legstaður)
Hlöðversleiði.
Í Frásögum um fornaldarleifar segir: “Firir utan þennan Hól eru hér i Sókninni 3 önnur Fornmannaleidi; þar af, 2 á Asláksstödum sitt yfir hverju fyrstu Hióna þar / ad sagt er/ 1 á Hlödunesi, Öll þessi snúa ad Höfudgafli i Midmundastad, 9 álma ad leingd hvert, og nær 2 al: breid ofan, eru grasi vaxinn, svo sem þau eru í midjum Túnum, innan smárra gamallra Gyrdínga sem adeins siást hinar sydurstu Rústir af, og eru enn nú kölluð Korngerði, likleg til at hafa á fyrri ölldum til Kornfædis höfð, þó nú séu þýfd orðin; hid minsta þeirra er 49 fadmar hit stærsta herum 250.”
“Halldórsstaðir stóðu í Halldórsstaðatúni og í því rétt við Halldórsstaðastíginn er svo nefnt Hlöðuversleiði. Á þar að vera heygður landnámsmaður Hlöðuness, sem þá ætti að heita Hlöðversnes og er af sumum nefnt,” segir í örnefnaskrá. Fjallað er um Hlöðversleiði á heimasíðu Ferlirs: “Helgi [Davíðsson frá Ásláksstöðum stærri] sagði fyrrnefnt leiði [Hlöðversleiði] vera í eða upp á litlum ílöngum hól í Hlöðunestúninu, milli Narfakots og Hlöðuness. Hann hafi einhverju sinni sett stein upp á hólinn, en steinninn væri nú horfinn. Hlöðversleiðið væri ómerkt, en enn væri vitað hvar það væri.
Hlöðversleiði fremst.
Sesselja Guðmundsdóttir sagði að Klemens Kristmannsson (f. 1917, d. 2005) hafi gengið með henni um túnið í júní 2004 og sýnt henni staðinn þar sem Hlöðvershaugur stóð, ílöng þúst, líktist leiði. Túnið var sléttað út ca 1944. Húsfreyjan þá, Silla, var ekki ánægð með rótið þegar hún frétti af því.. […] Helgi sagði reyndar tvö fornmannaleiði vera við Hlöðunes. Guðrún Kristmannsdóttir, dóttir Kristmanns Runólfssonar, bónda í Hlöðunesi, sýndi honum þau. Það austara er vestast í túni Halldórsstaða, austan í lágum grónum hól. Á því er lítill steinn. Helgi sagði Kristmann hafi eitt sinn þurft að bregða sér til Reykjavíkur, en þá hefðu komið menn að bænum til að plægja. Hann hafði gleymt að segja þeim frá leiðinu svo þeir plægðu yfir það.
Þetta hefði Kristmanni leiðst mjög. Helgi sagði Guðrúnu og hafa sýnt honum annað leiði, vestar, norðan undir bæjarhólnum. Þar ætti að vera svonefnt Hlöðversleiði, en líklega hefði Hlöðunes heitið Hlöðversnes fyrrum. Á því er einnig lítill steinn. Leiðið er á tiltölulega sléttu túni og rétt sést móta fyrir því, óreglulega. Mörkin á Halldórsstöðum og Hlöðunesi voru þarna við hlaðinn garð, sem enn sést að hluta. Kom garðurinn þar rétt austan við brunninn. Svonefnt Hlöðversleiði er því innan garðs á Hlöðunesi, en hitt leiðið, austara, er í Halldórsstaðatúni.” Helgi Davíðsson fór með skráningarmanni á vettvang í þeim tilgangi að staðsetja Hlöðversleiði eins nákvæmlega og hægt er. Hann gekk beint að þeim stað sem er sá austari (hnit A) af þeim tveimur stöðum þar sem talið er að Hlöðversleiði hafi verið. Sá staður er um 80 m NNA við bæ. Vestari staðurinn (hnit B) er um 60 m VSV við þann austari. Hlöðversleiði eru bæði talin vera í túni, það austara á lágum hól en það vestara á flatlendi norðan við bæjarhólinn. Túnið hefur allt verið sléttað og er nýtt fyrir hrossabeit.
Halldórsstaðabrunnur (vatnsból)
Hlöðunesbrunnur.
“Halldórsstaðabrunnur og þá Narfakotsbrunnur voru allir skammt frá bæjum í Túnunum,” segir í örnefnaskrá.
Halldórsstaðabrunnur.
Minjar um brunninn sjást fast austan við afleggjara heim að Narfakoti. Þær eru um 20 m norðaustan við Halldórsstaði. Ekki er útilokað að þessi brunnur sé sá sami og skráður var með býlinu Halldórsstöðum eftir merkingu á túnakorti frá 1919. Brunnurinn er fast austan við malarveg í hraunmóa sem nýttur er fyrir hrossabeit. Brunnurinn hefur verið fylltur með grjóti. Hann er hlaðinn úr grjóti, er um 1,5 m í þvermál að utanmáli og standa hleðslur um 0,1 m upp úr jörðu. Brunnurinn er gróinn en á einum stað sést að steinlím var notað milli steina í hleðslunni. Ekki sést ofan í brunninn og ekki fengust nánari upplýsingar um gerð hans eða aldur.
Árnastekkur (stekkur)
Árnastekkur.
“Suður af Hellum og suðvestan Vorkvía er Árnastekkur sem snýr mót austri og fast neðan hans er Árnastekkshæð. Sumar heimildir kalla stekkinn Arnarstekk og hæðina Arnarstekkshæð […],” segir í Örnefnum og gönguleiðum. “Ofar nokkuð í Strandarheiði [en Kirkjuvörður var Árnastekkur við Árnastekkshæð,” segir í örnefnaskrá Hlöðuness. Árnastekkur er um 925 m suðaustan við bæ.
Stekkurinn er sunnan undir grónum hraunhól í tiltölulega grónum móa. Þó er flagmói fast suðaustan við stekkinn. Tvær tóftir eru á svæði sem er um 5×10 m að stærð og snýr nálega austur-vestur. Tóft A er grjóthlaðin, um 5×7 m að stærð og snýr VSV-ANA. Hún skiptist í tvö hólf, inngangur er á SSA hlið. Stærra hólfið I er um 4×3 m að innanmáli, snýr eins og tóft og er L laga. Hólf II er óljóst vegna mikils hruns í VSV-enda tóftar en virðist vera um 1×1 m að innanmáli. Líklega hefur verið gengt inn í það úr ANA. Aðeins er hlaðið að hluta meðfram NNV hlið tóftarinnar en klapparveggur notaður að hluta. Mesta hleðsluhæð tóftar er 0,5 m og mest sjást 4 umför hleðslu.
Ásláksstaðastekkur (stekkur)
Ásláksstaðastekkur.
“Stuttu ofan og sunnan við Arnarbæli er klapparholt og þar í djúpri kvos mót suðvestri er stór og fallegur stekkur sem líklega heitir Ásláksstaðastekkur. Stekkurinn liggur rétt austan fjárgirðingarinnar en kvosin sjálf heitir Kúadalur,” segir í Örnefnum og gönguleiðum. Stekkurinn er um 1,7 km SSA við bæ og um 1,5 km sunnan við Ásláksstaði. Stekkurinn er í allstórri hvilft innan hraunhólakraga. Hvilftin er gróin og grösug. Stekkurinn er í austurbrekku hólkragans. Hvilftin er opin til vesturs.
Stekkurinn er grjóthlaðinn og skiptist í þrjú hólf. Hann er um 10×7 m að stærð og snýr VNV-ASA.
Rauðstekkur (stekkur)
Rauðstekkur – uppdráttur.
Í örnefnaskrá Ásláksstaða segir: “Fyrir innan Arnarbælishólana er Rauðstekkur, og var grjóthrúga uppi á hólnum, sem hét Rauðhóll,” Í sömu heimild segir: “Rauðstekkur eru stórþýfðir móar eða holt, sem snúa í norðvestur. Komið er að Rauðstekk, ef stefnt er þvert af gamla veginum frá grútarbræðslunni aðeins vestan við deili og gengið 7-8 mínútur. Ekki man Guðjón eftir mannvirkjum þar.” Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir: “Rauðstekkur er nafn á hól eða grjóthleðslum sem standa rétt suðvestan Krummhóls og er u.þ.b. 8 mínútna gangur þangað frá Vatnshólum og Gamlavegi
með stefnu á Keili. Í Rauðstekk var farið með kýrnar frá Sjónarhóli í tíð Magnúsar Jónssonar. Ekki er ljóst af hverju nafnið er dregið.” Stekkurinn er enn greinilegur. Hann er um 1,3 km suðaustan við bæ og um 580 m NNA við Ásláksstaðastekk.
Stekkurinn er á grónu og nokkuð sléttu svæði. Allt umhverfis er hins vegar hraunlendi þar sem mikið er um hæðir og dældir. Stekkurinn er 13×3,5 m á stærð, snýr norður-suður og hallar talsvert til suðurs og er torfhlaðinn að mestu en grjóthlaðinn að hluta.
Ásláksstaðasel (sel)
Knarrarnessel – vatnsstæði.
“Austur með Klifgjánni er Ásláksstaðaholt, margklofið og gengur gjáin í gegn um það. … Í smá graslendi rétt neðan við Ásláksstaðaholt er vatnsstæði en það þornar tiltölulega fljótt upp á vorin. Sagnir eru til um sel neðan við holtið en engar tóftir eru þar sjáanlegar,” segir í Örnefnum og gönguleiðum. Meint selstæði er um 4,9 km sunnan við Ásláksstaðir stærri og um 5,2 km suðaustan við bæ.
Norðvestan undir Ásláksstaðaholt og Klifgjá er nokkur uppblástur á annars grónum svæðum í hrauninu. Klifgjáin er hrikaleg fast sunnan við meint selstæði. Ekki er vitað hvar þetta sel var nákvæmlega og engar minjar um það sáust á vettvangi. Ef sel hefur verið hér er líklegt að það hafi orðið uppblæstri að bráð.
[ÍJarðabókinni 1703 segir um Ásláksstaðasel: “Selstöðu á jörðin frí þar sem heita Knarrarnes sel og eru þar hagar í lakasta máta, en vatnsbrestur til stórmeina”.]
Narfakot (býli)
Narfakot.
Hjáleiga Hlöðuness 1847. JJ, 90.
1919: Tún 1,7 teigar, garðar 700 m2 samkvæmt túnakorti.
Gamli bærinn í Narfakoti stóð á sama stað og núverandi íbúðarhús, á fremur lágum hól í miðju Narfakotstúni. Heilsársbúseta er í Narfakoti. Umhverfis núverandi íbúðarhús eru kálgarðar til norðvesturs og suðvesturs.
Suðaustan við húsið er sléttuð flöt sem er að hluta grasi gróin og að hluta hellulögð. Engar minjar um gamla bæinn sjást og ekki virðist um uppsöfnun mannvistarlaga að ræða á bæjarstæðinu svo að hægt sé að tala um bæjarhól. Ekki virðist vera kjallari undir íbúðarhúsinu en ætla má að eitthvert rask hafi orðið á bæjarstæðinu við byggingu þess.
Narfakotsbrunnur (vatnsból)
Narfakotsbrunnur.
Halldórsstaðabrunnur og þá Narfakotsbrunnur voru allir skammt frá bæjum í Túnunum,” segir í örnefnaskrá. Brunnurinn er merktur inn á túnakort frá 1919 um 40 m austan við bæ. Hann sést enn.
Brunnurinn er fast suðaustan við hæð í túni, um 10 m norðaustan við heimreið að íbúðarhúsi. Brunnurinn er byrgður og ekki hægt að sjá ofan í hann. Hann stendur um 0,3 m upp úr jörðu og er um 3 m í þvermál. Hann er grjóthlaðinn en gróinn. Ferkantaður viðarrammi er ofan á brunninum sem er um 2×2 m að stærð.
Hann er með hlera og ofan á hleranum er grjót.
Hlöðuneskot (býli)
Hlöðunes – túnakort 1919.
Ekki er vitað hvar Hlöðuneskot var og ekki reyndist því unnt að staðsetja það með innan við 50 m skekkju. Ekki er ósennilegt að þetta býli hafi verið á sama stað og eitthvert þeirra býla sem nú eru þekkt undir öðrum nöfnum s.s. Halldórsstaðir eða Miðhús en hvorki fundust heimildir né heimildamenn sem gátu varpað ljósi á það.
Áslákstaðir stærri (ytri) (býli)
Jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 131. 9. september 1447: Bréf um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr.), Hlöðunes (20 hdr.), tvenna Ásláksstaði (40 hdr.), Knarrarnes tvö ( 30 hdr.), Breiðagerði fyrir (10 hdr.). DI IV 707-708.
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 3 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og Vogar, 26. 1547-48 er Minni og Stærri Ásláksstaða getið í fógetareikningum. DI XII, 115.
Atlagerði er hjáleiga árið 1703. JÁM III, 131. Ásláksstaðakot hjáleiga 1847. JJ, 90. “Þá hafa verið nefndar nokkrar þurrabúðir, sem nú eru allar óbyggðar: Rás, Fagurhóll, Gerðar, út á Grandanum nefnist einnig Gerðakot og Atlagerði [049], sem stóð alveg út við vitann. Þá er Miðbær [010], og eitt sinn var svo nýbýli ofan þjóðvegar, Garðhús … “Þá eru grasbýlin. Syðst og vestast er Móakot, og norðaustur frá Ásláksstöðum er Hallandi, eða Nýibær, en undir því nafni gengur bærinn nú. Þá er Sjónarhóll, sem er innsti bær í Ásláksstaðahverfi.” Ö-Ásláksstaðahverfi, 8. Bærinn fór í eyði fyrir 10-20 árum.
Ásláksstaðir.
1703: Túnunum segir bóndinn að spilli tjörn, sem þar liggur innan mitt í túninu og líka nokkur önnur tjörn minni, ogso innangarðs, líka gjörir sjáfarángur nokurt mein, þó ei til stórbaga á heimajörðiunni. Engjar eru öngvar.
Útihagar um sumar og vetur í lakasta máta og nær öngvir nema fjaran.” JÁM III, 131. 1919: Tún alls 1,84 teigar, garðar 1020m2.
Ásláksstaðir – bruni 2019.
“Á Ásláksstöðum var áður þríbýli, og var bæjaröðin norðaustan við núverandi íbúðarhús, sem byggt var um 1884,” segir í örnefnaskrá. Af tilvísuninni að framan má skilja að allir bæirnir þrír hafi verið á bæjarhólnum í röð.
Ef til vill var Miðbær eitt býlanna þriggja en það var þó líklega fast norðaustan við bæ. Bærinn var fast norðvestan við merkin við Ásláksstaði innri og íbúðarhúsið frá 1884 stendur enn á þessum stað. Á túnakorti sést að kálgarður vestan við bæinn var áfastur íbúðarhúsinu. Hann er því einnig skráður sama númeri.
Bærinn fór í eyði fyrir 10-20 árum og húsin sem enn standa eru í niðurníðslu. Bærinn er í grónu túni á dálítilli náttúrulegri hæð sem hallar til norðausturs og er allmikil tjörn skammt norðan við hann.
Ásláksstaðir á Vatnsleysuströnd – eitt húsanna byggt úr timbri Jamestowns.
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Ásláksstaðahúsið sem nú stendur var byggt um 1883-4 úr kjörviði sem seldur var á uppboði úr skipinu James Town, er strandaði í Höfnum …” Ekki sést eiginlegur bæjarhóll á Ásláksstöðum stærri. Sem fyrr segir er bærinn á lágum náttúrulegum hól en ekki er að sjá að á honum sé mikið af uppsöfnuðum mannvistarleifum. Íbúðarhúsið sem byggt var 1884 stendur enn en það er nú ónýtt. Húsið sjálft er um 5×4 m að stærð og snýr NNV-SSA. Með viðbyggingum er það 10×8 m að stærð og snýr eins. Ekki sést hvort grunnur hússins er hlaðinn eða steyptur. Hlaðinn kantur er VSV við húsið. Hann er um 1 m á hæð og um 14 m á lengd, snýr NNV-SSA. Í kantinum sjást 3 umför hleðslu. Fast NNV við íbúðarhúsið er uppistandandi hlaða úr timbri og bárujárni og steypt fjós með niðurgröfnu haughúsi. Þar sem bæjarröðin var, norðaustan við íbúðarhúsið sem enn stendur, er nú slétt plan og um 10 m norðan við íbúðarhúsið er hlöðutóft og sambyggður kálgarður.
Ásláksstaðabrunnur (vatnsból)
Ásláksstaðabrunnur.
Samkvæmt túnakorti frá 1919 var brunnur um 40 m sunnan við bæ. “Ásláksstaðir eiga þrjú túnstykki í Norðurtúni. Túnstykki niður við Tjörn, túnstykki niður að Vesturkofa og túnstykki niður á Ásláksstaðabrunni,” segir í örnefnaskrá. Þar stendur einnig: “Hallandabrunnur var framan bæjar í túninu.”
Hallandabrunnur hét Nýjabæjarbrunnur eftir að nafni Hallanda var breytt í Nýjabæ.
Ásláksstaðabrunnur og Hallandibrunnur/Nýjabæjarbrunnur eru að öllum líkindum sami brunnurinn og á túnakorti sést leið liggja frá Hallandi/Nýjabæ að brunninum. Brunnurinn er fast norðan við kálgarð. Brunnurinn er í túni, fast austan við tjörn.
Brunnurinn er grjóthlaðinn en byrgður þannig að ekki sést ofan í hann og ekki ljóst hversu djúpur hann er. Hann er um 3×2,5 m að utanmáli og um 1 m á hæð þar sem hann er hæstur. Hann er gróinn að utan. Að sögn heimildamanns, Helga Davíðssonar, var gott vatn í brunninum og vatn er í honum enn.
Hallandi (býli)
Hallandi.
“Þá eru grasbýlin. Syðst og vestast er Móakot, og norðaustur frá Ásláksstöðum er Hallandi, eða Nýibær, en undir því nafni gengur bærinn nú,” segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Nýibær í Ásláksstaðahverfi stendur enn með litlum breytingum síðan árið 1917. Nýjabæjarjörðinni var skipt út úr Ásláksstöðum í upphafi, en var fyrir nokkrum árum, eða um 1970, keypt aftur undir Ásláksstaði.” Á túnakorti er sýnd bæjarröðin A, lítið útihús B, útihús í norðausturenda túnsins C, og kálgarðar D umhverfis bæ. Bæjarröðin var 80-90 m
norðaustan við bæ.
Atlagerðisviti (viti)
Atlagerðisviti.
“Sunnan við Tangann er Stóralón, og þar er einnig Litlalón. Hér er svo Atlagerðisvörin, og á Tanganum er Atlagerðisvitinn, en hér mun hafa verið reistur einhver fyrsti viti við strendur landsins,” segir í örnefnaskrá. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir: “Árið 1886 var þar byggð varða og upp úr henni var staur allhár og var olíuljósker halað upp og niður, eftir því hvað við átti. … Ljóskersstaurinn var látinn duga þar til viti, sá sem enn stendur, var byggður árið 1918.” Vitinn sem nú stendur er um 560 m norðan við bæ og um 30 m norðvestan við Atlagerði og af lýsingum má ætla að elsti vitinn hafi verið á sama eða svipuðum stað.
Vitinn stendur á gróðurlausri klöpp á tanga. Vik eru inn í ströndina suðvestan við hann og norðan við hann. Ekki sést til minja um vörðuna sem var forveri núverandi vita. Líklegast hefur sjórinn tekið hana.
Móakot (býli)
Móakot.
“Þá eru grasbýlin. Syðst og vestast er Móakot, og norðaustur frá Ásláksstöðum er Hallandi, eða Nýibær, en undir því nafni gengur bærinn nú,” segir í örnefnaskrá.
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Móakot var tómthús frá Ásláksstöðum, en varð síðar grasbýli og um tíma tvíbýli. Það er suðurhluta Ásláksstaðajarðar og er nú sameinað aðaljörðinni.” Samkvæmt sömu heimild var búið í Móakoti 1 og 2 um aldamótin 1900.
Atlagerði (býli)
Atlagerði og Atlagerðisviti.
Hjáleiga 1703 samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. “Þá hafa verið nefndar nokkrar þurrabúðir, sem nú eru allar óbyggðar: … […], út á Grandanum nefnist einnig Gerðakot og Atlagerði, sem stóð alveg út við vitann,” segir í örnefnaskrá. “Þar var býlið Atlagerði, fjárrétt og túnblettur,” segir í örnefnaskrá.
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Atlagerði er í landi Ásláksstaða sem er móðurjörð þessa hverfis. Bærinn markaði upphaf Gerðistanga, en á þeim tanga stendur Gerðistangaviti, sem áður hét Atlagerðisviti.” Tóft Atlagerðis sést enn. Hún er 540 m norðvestan við bæ og 110 m norðvestan við Gerðakot.
“Túnum hjáleigunnar spillir sjóagángur til stórmeina, þar með líða þau og stóran átroðning af skipsáróðarmönnum heimabóndans, sem fyrir sína nauðsyn verður að brúka hjer skipsuppsátur árið um kring,” segir í Jarðabók Árna og Páls frá 1703. Tóftin er á klöpp og allur gróður er horfinn af henni, nema á tóftinni og á litlum kraga meðfram henni. Allt í kringum tóftina er klapparfjara.
Tóftin er 6×3 m á stærð, tvískipt og snýr norðaustur suðvestur. Norðvesturhliðin er hrunin í hólfi I og norðvestur- og suðvesturhliðar hólfs II eru horfnar. Mesta hæð veggja er 1 m og sjást 4 umför af hleðslu í þeim. Innanmál hólfs I er 4×2 m og snýr það norðaustur-suðvestur. Hólf II er suðvestan við hólf I og er innanmál þess 2×2,5 m og snýr það norðvestur-suðaustur. Frá miðjum suðurvegg tóftarinnar liggur garðlag í sveig til austurs og er það líklega leifar gerðis. Garðlagið er grjóthlaðið og er 7 m í suður og beygir svo 2 m í austur. Hleðslan er 0,5 m á hæð og breidd og sjást mest 3 umför.
Gerðakot (býli)
Gerðakot.
“Þá hafa verið nefndar nokkrar þurrabúðir, sem nú eru allar óbyggðar: […] …, út á Grandanum nefnist einnig Gerðakot og Atlagerði, sem stóð alveg út við vitann,” segir í örnefnaskrá. Tóft Gerðakots sést enn.
Ekki er vitað hvenær býlið var í ábúð en ástand býlistóftarinnar gefur til kynna að hún sé ekki mjög forn og er líklegt að þarna hafi verið búið á síðari hluta 19. aldar og fram undir aldamótin 1900. Ekki er þó hægt að útiloka að býlið hafi verið í byggð með hléum á fyrri öldum. Hún er um 445 m norðan við bæ og 110 m sunnan við Atlagerði.
Tóftin er fast suðvestan við sjávarkambinn en mjó jarðvegsræma liggur eftir honum. Sjórinn nær upp að norðvestanverðri tóft og liggur alveg að henni á flóði. Tóftin er 9×9 m á stærð. Hún er L-laga, grjóthlaðin og þrískipt. Veggir tóftarinnar eru um 1,3 m á hæð og sjást mest 6 umför af hleðslu. Hólf I er í suðvesturhorni tóftarinnar og er 3×3 m að innanmáli. Op er á norðausturvegg þess en ekki innangengt úr því í önnur hólf. Vesturveggur hólfsins er hruninn. Hólf II er austan við hólf I og er 3×2 m að innanmáli og snýr norðvestur suðaustur. Op er á því á norðausturvegg, yfir í hólf III. Hólf III er 2×2 að innanmáli. Nokkuð hefur hrunið úr norðurhorni tóftarinnar vegna landbrots.
“Þá hafa verið nefndar nokkrar þurrabúðir, sem nú eru allar óbyggðar: Rás, Fagurhóll, Gerðar, út á Grandanum nefnist einnig Gerðakot og Atlagerði, sem stóð alveg út við vitann,” segir í örnefnaskrá. Ekki er vitað hvenær Gerðar voru í ábúð en aðeins er þúst sýnileg þar sem talið er að býlið hafi verið.
Það getur bent til þess að nokkuð langt sé síðan það fór í eyði og eru minjar um það t.a.m. mun fornlegri en minjarnar um Gerðakot. Gerðar eru fast suðvestan við fjöruna, um 400 m norðan við bæ. Í tíð heimildamanns, Helga Davíðssonar, voru kýr reknar á beit í Gerðunum.
Minjarnar eru nyrst í þýfðum móa, fast suðvestan við sjávarkamb. Vestan við minjarnar er svæði sem fer á kaf í flóði og virðist sjórinn þá ná alveg upp að minjunum. Til austurs er lítil tjörn. Minjarnar eru á svæði sem er um 33x31m stórt og snýr suðvestur-norðaustur.
Fagurhóll (býli)
Fagurhóll.
“Þá hafa verið nefndar nokkrar þurrabúðir, sem nú eru allar óbyggðar: Rás, Fagurhóll, Gerðar, út á Grandanum nefnist einnig Gerðakot og Atlagerði, sem stóð alveg út við vitann,” segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Fagurhóll var í suðausturhorni Ásláksstaðajarðar, rétt utan túngarðsins. Hann var jarðlaus. Lítið veit ég um þetta kot, en fyrir aldamótin bjuggu þar hjón …” Fagurhóls er ekki getið í Jarðatali Johnsens frá 1847 og ætla má að býlið hafi byggst upp á síðari hluta 19. aldar og líklega farið í eyði um og upp úr aldamótunum 1900. Ástand býlistóftarinnar styður þá grófu aldursgreiningu. Ekki er þó útilokað að býlið hafi verið í byggð með hléum á fyrri öldum. Tóft Fagurhóls og lítil gryfja eru um 140 m vestan við bæ.
Rás (býli)
Rás.
“Þá hafa verið nefndar nokkrar þurrabúðir, sem nú eru allar óbyggðar: Rás, Fagurhóll, Gerðar, út á Grandanum nefnist einnig Gerðakot og Atlagerði, sem stóð alveg út við vitann,” segir í örnefnaskrá. Heimildamaður, Helgi Davíðsson, kannaðist ekki við býlið og vissi ekkert um staðsetningu þess. Á Örnefnauppdrætti eftir Ingólf Einarsson er býlið merkt við tjörn skammt frá Garðhúsum 011. Þar er ein tóft um 240 m suðaustan við bæ 001. Ekki er vitað hvenær býlið Rás var í ábúð. Margrét Þórarinsdóttir, sem fædd var 1911 í Minna-Knararnesi, og maður hennar Brynjólfur Brynjólfsson sem bjó í yfir 40 ár á sömu jörð gerðu athugasemdir og viðbætur við örnefnaskrá Ásláksstaðahverfis árið 1972. Þau könnuðust ekki við að örnefnið Rás ætti við þurrabúð en afrennsli úr Sjónarhólstjörninni var kallað Rás. Býlið hefur líklega dregið nafn sitt af þessari afrennslisrás. Fyrst Margrét og Brynjólfur könnuðust ekki við býlið er líklegt að það sé orðið alllangt síðan það fór í eyði en ekkert verður sagt nánar um hvenær það var nema með frekari rannsóknum. Tóftin er fast austan við tjörn, skammt vestan við sjávarbakkann. Tóftin er tvískipt og gróin en hefur að líkindum verið grjóthlaðin. Hún er um 8×6 m að stærð, snýr norðaustur-suðvestur. Hólf I er um 2,5×2 m að innanmáli og snýr norðaustur-suðvestur. Op er á því í norðurhorni.
Ásláksleiði (legstaður)
Ásláksstaðir – dys.
Helgi Davíðsson, heimildamaður, greindi frá því að hann teldi legstað vera í túni Ásláksstaða stærri, um 100 m norðvestan við bæ. Meintur legstaður er í sléttuðu og nokkuð flatlendu túni.
Helgi telur litla þúst í túninu mögulega vera legstað. Þústin er um 5×2 m að stærð og snýr norður-suður, mjókkar lítillega til suðurs. Hún er 0,2-0,3 m á hæð, hæst í suðurenda. Í suðausturhorni þústarinnar eru ummerki um að grafið hafi verið í hana. Helgi hefur rekið járntein í þústina og fundið grjót undir sverði. Ekki er ósennilegt að lítil klöpp sé undir sverði og að um náttúrufyrirbæri sé að ræða en einföld rannsókn getur skorið úr um það.
Áslákstaðakot (býli)
Hjáleiga Ásláksstaða stærri árið 1847. JJ, 90. Hjáleigan er ekki merkt inn á túnakort Ásláksstaða stærri frá 1917 og kann því að hafa farið í eyði fyrir þann tíma ef það hefur verið í eða við tún heimajarðarinnar.
Engar þekktar heimildir eru til um þetta býli og er staðsetning þess ókunn. Helgi Davíðsson, heimildamaður, kannaðist ekki við þetta býli og ekki er minnst á það í örnefnalýsingum fyrir Ásláksstaðahverfi. Ef til vill er Ásláksstaðakot eldra nafn á Miðbæ eða Hallanda en þau býli voru í túni Ásláksstaða stærri. Líklegt er að Ásláksstaðakot hafi verið í túni Ásláksstaða stærri en ekkert er vitað um hvar það var nákvæmlega og því ekki hægt að staðsetja það með innan við 50 m skekkju.
Jarðadýrleki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 131. 9. september 1447: Bréf um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr), Hlöðunes (20 hdr), tvenna Ásláksstaði (40 hdr), Knarrarnes tvö ( 30 hdr)., Breiðagerði fyrir (10 hdr). DI IV 707-708. 1547-48 er Minni og Stærri Ásláksstaða getið í fógetareikningum. DI XII, 115. 1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 4 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og vogar, 26.
Býlið var þurrabýli á þessari öld og átti engin tún. Ö-Ásláksstaðahverfi, 2. Bærinn oft nefndur Mangabær. Ö-Ásláksstaðir, 3. Jörðin lagðist undir Sjónarhól. GJ: Mannlíf og mannvirki, 272. Í eyði um 1920.
1703: “Túnin spillast af sjáfarágangi mikilega. Engjar er öngvar. Útigangur um vetur og sumur í lakasta máta og nær öngvir nema fjaran.” JÁM III, 132-133.
1919: Tún 1,6 teigar, garðar 360m2.
Ásláksstaðir innri (býli)
Ásláksstaðir.
“Í tíð Vilborgar [Magnúsdóttir, f. 1892 á Innri -Ásláksstöðum] voru Innri-Ásláksstaðir þurrabúð. Bærinn stóð á gamla bæjarstæðinu norðan við traðirnar fáein skref austan við hlöðuna á Sjónarhóli. Vilborg man fyrst eftir torfbaðstofu, sem var tvær rúmlengdir, og sneru bæjardyr upp að vegi, en síðar var reist timburhús. Það hús flutti Magnús, faðir hennar, sem síðastur bjó á Innri-Ásláksstöðum, til Hafnarfjarðar, er hann fluttist þangað,” segir í örnefnaskrá. Samkvæmt heimildamanni, Helga Davíðssyni, var ekki búið á Ásláksstöðum innri eftir 1920. Bæjarhóllinn er um 100 m suðaustan við Ásláksstaði stærri og tæpa 50 m norðaustan við Sjónarhól.
Bæjarhóllinn stendur allhátt í hæðóttu túni skammt vestan við fjöruna. Bæjarhóllinn á Ásláksstöðum innri er ekki afgerandi og er líklegt að bærinn hafi í grunninn verið byggður á náttúrulegri hæð í túninu. Af bæjarhólnum er hæst niður til suðurs og vesturs en minni halli til annarra átta. Hóllinn er um 20×30 m að stærð og snýr austur-vestur. Hann er hæstur um 1,5 m. Á hólnum eru tvískipt tóft.
Sjónarhóll (býli)
Sjónarhóll og Ásláksstaðir.
“Þá eru grasbýlin. … Þá er Sjónarhóll, sem er innsti bær í Ásláksstaðahverfi,” segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Um 1886 byggði Lárus Pálsson “hómópati” Sjónarhól.” Bærinn var stundum nefndur Lárusarhús. Lárusarhúsi var seinna breytt í fjós og steypt, tvílyft hús reist 12 m vestan við það árið 1929. Lárusarhús, elsta bæjarstæði Sjónarhóls er um 45 m suðaustan við bæ. Af túnakorti frá 1919 að dæma tilheyrðu a.m.k. fimm mannvirki Sjónarhól auk bæjarins.
Fornmannaleiði [Hjónaleiði] (legstaður)
Hjónaleiði.
“Tvö aflöng leiði voru í túni Lárusar [sennilega í landi Sjónarhóls] niður undir Hallanda (nú Nýjabæ). Það voru talin leiði fornmanna, en ekki heyrði Vilborg getið um nöfn þeirra. Hún segir þó, að þar kunni að liggja Áslákur og Ásláka …,” segir í örnefnaskrá. Meintur legstaður er um 115 m norðan við bæ og um 45 m suðaustan við Hallanda.
“Leiðin” eru í túni nærri merkjum móti Ásláksstöðum stærri. Nokkuð er um mishæðir og hóla í túninu.
Í Frásögnum af fornaldarleifum segir: “Firir utan þennan Hól eru hér i Sókninni 3 önnur Fornmannaleidi; þar af, 2 á Asláksstödum sitt yfir hverju fyrstu Hióna þar / ad sagt er/ 1 á Hlödunesi, Öll þessi snúa ad Höfudgafli i Midmundastad, 9 álma ad lengd hvert, og nær 2 al: breid ofan, eru grasi vaxinn, svo sem þau eru í midjum Túnum, innan smárra gamallra Gyrdínga sem adeins siást hinar sydurstu Rústir af, og eru enn nú kölluð Korngerði, líkleg til at hafa á fyrri ölldum til Kornfædis öfð, þó nú séu þýfd orðin; hid minsta þeirra er 49 fadmar hit stærsta herum 250.” Á svæði sem er um 19×6 m að stærð og snýr ASA-VNV eru þrír litlir hólar í túninu og eru tveir þeirra aflangir og líklega leiðin sem talað er um í heimildum. Ekki er ljóst hvort leiðin í landi Ásláksstaða innri eða leiðið í Hlöðunesi sé innan nefndra Korngerða. Engar leifar af gerðum sjást í túninu og hefur líklega verið sléttað úr þeim ef þau voru hér. Meint leiði A er í ASA enda svæðisins, er um 5×2 m að stærð og snýr ASA-VNV. Það er allt gróið og er hæst um 0,5 m. Ekki sést grjót í því. Fast suðvestan við leiði A er lítill hringlaga hóll sem er um 3 m í þvermál. Um 4 m VNV við hann er meint leiði B sem er um 5×1,5 m að stærð og snýr ASA-VNV. Mesta hæð þess er um 0,5 m. Leiði B er mjög skýrt afmarkað í túninu. Óvíst er hér séu fornmannaleiði en ekki er hægt að útiloka það nema með frekari rannsókn.
Knarrarnes stærra (býli)
Stóra-Knarrarnes.
Jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 135.
9. september 1447: Bréf um jarðaskipti Einars Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr), Hlöðunes (20 hdr), tvenna Ásláksstaði (40 hdr), Knarrarnes tvö ( 30 hdr), Breiðagerði fyrir (10 hdr). DI IV 707-708.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 115.
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 5 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og vogar, 26.
Árið 1703 er ein hjáleiga í eyði sem heitir Helgahús 041. JÁM III, 136. Í Knarrarnesi var lengi tvíbýli, nefndist Austurbær og Vesturbær. GJ: Mannlíf og mannvirki, 289.
1703: “Túnin fordjarfast árlega af sjáfarágángi og stöðutjörnum þeim, sem innan garðs liggja, og það so frekt, að gamlir menn minnast til þar hafi fóðrast x kýr og i griðúngur, og nú eru þau so spilt, að ekki fóðrast meir en áður er sagt. Þar með blæs upp árlega stórgrýti í túninu. Engjar eru öngvar. Útihagar nær öngvir sumar nje vetur utan fjaran.” JÁM III, 135. 1919: Tún alls 3,1 teigar, garðar 1520m2.
Stóra-Knarrarnes.
“Í Stóra-Knararnesi er tvíbýli og svo hefur lengi verið. Nefnast bæirnir Vesturbær og Austurbær. Gömlu bæirnir voru sambyggðir og eitt hlað. Nýtt hús var byggt í Vesturbænum 1927 og stendur það aðeins ofar og sunnar en gamli bærinn var. Austurbæjarhúsið stendur beint upp af þar sem gamli bærinn var. Það var byggt 1930,” segir í örnefnaskrá KE. Bæjarhóllinn er norðarlega í túni, fast vestan við klapparfjöru. Vesturbærinn er nú um 40 m suðvestan við gamla bæinn 001 og Austurbærinn er um 35 sunnan við hann.
Bæjarhóllinn er í túni en túnið norðaustan bæjarhólsins er ekki lengur í rækt. Allstór tjörn er á sjávarbakkanum norðvestan við hólinn. Til suðurs eru kálgarðar og íbúðarhús Austurbæjar og Vesturbæjar. Hóllinn er um 20×25 m að stærð og snýr ANA-VSV. Hann er hæstur um 3 m. Á honum er bæjartóft og ein önnur tóft. Norðaustan við hólinn eru kálgarðar og er tóft áföst öðrum kálgarðinum. Á túnakorti eru þessar minjar allar tengdar og því skráðar undir einu og sama númeri. Minjarnar fá bókstafi til aðgreiningar í lýsingu. Bæjartóftin A er um 22×11 m að stærð og snýr ANA-VSV. Tóftin er grjóthlaðin og líklegt er að torf hafi verið notað í hleðslurnar en það sést ekki glöggt. Í austurenda er hólf I. Það er um 2×3 m að innanmáli, snýr norður-suður og er op á því til norðurs. Um 3 m norðan við það er hólf II sem er gróin gryfja, líklega þró sem sýnd er á túnakorti. Hún er um 3×2 m að innanmáli, snýr norður-suður. Ekki sést í grjóthleðslur og er hún um 0,5 m á dýpt. Fast vestan við hólf I er hólf III sem er um 5,5×1,5 m að innanmáli. Nokkuð hefur hrunið inn í hólfið úr veggjum. Hólfið er opið til suðurs, ekki sést veggur á þeirri hlið.
Knarrarnesbrunnur/Gamli Brunnur (vatnsból)
Gamli Brunnur.
Samkvæmt túnakorti frá 1919 var mannvirki, líklega brunnur með tröppum ofan í, 20-30 m austan við bæ. Þessi brunnur er að öllum líkindum Gamli Brunnur sem nefndur er í örnefnaskrá. Brunnurinn var þar sem nú er gróinn og lágur sjávarkambur við klapparfjöru. Ekki sést til greinilegra minja um brunninn og hefur sjórinn fyllt hann af möl og grjóti. Mögulega hafa þó hleðsluleifar sem sjást undir sverði í rofi á sjávarbakka tilheyrt þessu mannvirki. Aðeins sést í hluta af hleðslunni sem er um 1 m á lengd og um 0,4 m á hæð. Tvö umför sjást.
Knarrarnesvegur (leið)
Gamli-Knarrarnesvegur.
Upphlaðinn vegbútur er á leið á milli Breiðagerðis og Stóra-Knararness um 385 m suðaustan við bæ. Minjarnar eru á milli tveggja nýbygginga og hefur þeim verið raskað af byggingaframkvæmdum og vegagerð. Vegurinn liggur austur-vestur. Hann sést á um 15 m löngum kafla. Hann er grjóthlaðinn, um 4 m breiður.
Stóra-Knarrarnessteinn (áletrun)
Stóra-Knarrarnes – letursteinn.
Í bók sinni Strönd og vogar segir Árni Óla frá áletrun sem hann fann á steini í Stóra-Knararnesi og er þar sagt frá bónda þeim er bjó þar 1703, Bjarna Eyjólfssyni. Árni fann steininn við gamla garðshliðið þar sem tvö garðbrot mætast 016. Steinninn með áletruninni er fast við suðausturhorn kálgarðs í tröðum 016, um 90 m suðvestan við bæ.
Áletraði steinninn er í óræktarbletti þar sem eystri traðarveggurinn heldur áfram til suðurs frá suðausturhorni kálgarðsins sem er áfastur tröðunum. Steinninn er mikið bjarg en áletrunin er orðin mjög veðruð. Þó er enn hægt að lesa hana að mestu leyti.
Árni Óla las þetta út úr áletruninni: “17 hundruð seiast ár/ sen þó fiogur riett i von/ so þá giorde sem hier stár/ sa hiet Biarne Eiolfsson.”
Helgahús (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Helgahus, eyðihjáleiga, hefur í eyði legið í þrjú ár …” Engar aðrar þekktar heimildir minnast á þetta býli og er staðsetning þess ókunn. Ef til vill er örnefnið Helgavöllur vísbending um hvar býlið var en Helgavöllur er á milli Brandargerðis og sjávar, um 100 m suðvestan við bæ. Ekki reyndist unnt að staðsetja býlið með innan við 50 m skekkju.
Knarrarnes minna (býli)
Minna-Knarrarnes.
Jarðadýrleiki óviss 1703, hét þá Litla Knararnes, konungseign. JÁM III, 134.
9. september 1447: Bréf um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr), Hlöðunes (20 hdr), tvenna Ásláksstaði (40 hdr), Knarrarnes tvö ( 30 hdr), Breiðagerði fyrir (10 hdr). DI IV 707-708.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 115. 1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 3 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og vogar, 26. Þurrabúðirnar Hellur og Vík stóðu í Knarrarnestúni. Ö-Knarrarnes, 2.
1703: “Túnin spillast af vatni og sjáfarágángi. Engjar eru öngvar.” JÁM III, 134 1919:Tún 3 teigar, garðar 1500m2.
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Gamla húsið að Minna-Knarrarnesi ætla ég [GJ] að hafi verið byggt um 1875. Það var timburhús sem var rifið 1930, þegar flutt var í nýtt hús, þar sem nú stendur.”
Minna-Knarrarnes – letursteinn.
Íbúðarhúsið sem byggt var um 1930 og tók við af timburhúsinu er steinsteypt og stendur í jaðri bæjarhólsins. Kjallari er undir húsinu og var byggt við það undir lok 20. aldar af núverandi ábúendum. Í bókinni Benjamín H.J. Eiríksson Í stormum sinna tíða segir um bæinn í Knarrarnesi árið 1917: “Gamalt eldhús með hlóðum stóð áfast við íbúðarhúsið. Þar var eldað. Við hliðina á eldhúsinu var hlaða, en skammt frá bæjardyrunum var stór og mikil hlandfor. Enginn kamar var við bæinn, líklega hafa konurnar notað fjósið. […] Gamall kartöflugarður stóð við bæinn og umhverfis hann hlaðinn veggur.
Knarrarnes – túnakort 1918 lagt yfir loftmynd. ÓSÁ
Steinlögð stétt lá meðfram veggnum. Þar hægði ég mér út í hlandforina.” Bæjarhóllinn er fast norðaustan við núverandi íbúðarhús, á milli malarplans og Eyrartjarnar. Bæjarhóllin er í snyrtilegu túni, sem er snöggt slegið og sést hann því afar greinilega.
Bæjarhóllinn er um 30×22 m að stærð og snýr nálega norður-suður. Mesta hæð er um 2 m. Hóllinn er allur gróinn og ekki sjást neinar mannvirkjaleifar á honum. Ekki virðist hafa orðið mikið rask á honum en þó var grafið fyrir rotþró í jaðri hans og er rotþróin í norðvesturhorni þar sem Birgir Þórarinsson, heimildamaður, sagði að hefði verið gömul steinsteypt þró, úr fjósi sem stóð áður á hólnum en telst ekki til fornleifa. Við gröftinn kom upp mikið af dýrabeinum en ekki hleðslur að vitað sé. Fast austan við suðausturhorn bæjarhóls eru hleðsluleifar kálgarðs sem sést á túnakorti. Leiðin sem farin var á milli bæjar og kirkju á Kálfatjörn (Kirkjugata) lá fast NNV við kálgarðinn. Ekki sjást leifar leiðarinnar.
Litla-Knarrarnesbrunnur (vatnsból)
Litla-Knarrarnesbrunnur.
Samkvæmt túnakorti frá 1919 var brunnur um 60 m SSV við bæ. Líklega er þessi brunnur Litla-Knarrarnesbrunnur sem nefndur er í örnefnaskrá. Brunnurinn var í túni og eru litlir hólar til austurs og norðvesturs frá honum.
Ekki sjást lengur ummerki um brunninn.
Gamlibrunnur.
Gamlibrunnur (vatnsból)
Samkvæmt túnakorti frá 1919 var brunnur 60 m vestan við bæ. Þar sjást enn ummerki um brunninn. Líklega er þessi brunnur Gamlibrunnur sem nefndur er í örnefnaskrá KE. Brunnurinn er í miðju vestanverðu túninu, tæpum 30 m suðaustan við Sjávarhúsið.
Ekki sést í brunninn nema sem lítil dæld túninu á þessum stað. Dældin er 3×2,5 m á stærð.
Vík (býli)
Vík.
“Minni-Knarrarnes vestan með þurrabúðina Hellur og Vík,” segir í örnefnaskrá. “Vík var þurrabúð, syðst í túni Minna-Knarrarness. Hún fór í eyði laust eftir síðustu aldamót,” segir í örnefnaskrá KE. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Vík var syðsti og fyrsti bærinn sem komið var að þegar farið var yfir landamerkin milli Ásláksstaðahverfis og Knarrarnesshverfis. …
Bærinn var þá utangarðs í óskiptu landi suðaustur af Minna-Knarrarnesi, en lagðist í eyði fyrir aldamótin, þegar feðgarnir [Sigurður Sigurðsson og synir hans Magnús og Þorgrímur] fluttu að Minna-Knarrarnesi.” “Sigurður Sigurðsson frá Minna-Knarrarnesi byggði lítið hús innst í girðingum við mörk Knarrarness, skammt frá vegi, og nefndi það Vík,” segir í örnefnaskrá Ásláksstaða.
Samkvæmt túnakorti frá 1919 var útihús áfast afgirtum túnbletti sem var fast suðvestan við gamla heimatúnið, um 140 m SSV við bæ, þar sem býlið Vík stóð líklega. Í bókinni Benjamín H.J. Eiríksson Í stormum sinna tíða segir: “Í jaðri túnsins í Knarrarnesi var búðartóft úr höggnu grjóti, kölluð Vík.” Útihúsið á túnakortinu er að öllum líkindum búðatóftin sem nefnd er í bókinni og var kölluð Vík.
Afar líklegt er að bústaðurinn í Vík hafi verið nýttur sem útihús frá Minna-Knarrarnesi af einhverju tagi eftir að hætt var að búa þar. Býlið Vík var um 140 m suðvestan við bæ en þar stendur nú þrískipt hús sem notað er sem skemma. Vestan við húsið þar sem býlið var er klapparmói en til annarra átta frá því er tún.
Vík – uppdráttur.
Alls eru hér minjar á svæði sem er um 60×16 m að stærð og snýr NNV-SSA. Húsið A sem stendur á bæjarstæði Víkur er þrískipt og er um 16×7 m að stærð, snýr nálega austur-vestur. Elsti hluti hússins er í miðjunni en þar eru langveggir steinhlaðnir og er það vönduð hleðsla, um 1,7 m á hæð og sjást 8 umför. Með veggjum er sá hluti hússins 6×7 m að stærð og snýr norður-suður. Dyr eru á norðurhlið. Líklegt er að þessi hluti sé í grunninn býlið Vík en það var úr höggnu grjóti eins og fram kom hér að ofan. Hólfið í austurenda hússins er um 6×7 m að stærð, snýr norður-suður. Hólfið í vesturenda hússins er um 4×7 m að stærð og snýr norður-suður. Þessi tvö hólf hafa steypta sökkla en eru að öðru leyti út timbri og bárujárni. Á húsinu eru þrjár burstir og er það hæst um 2,5 m. Norðan við húsið er um 1 m hár kantur. Þar sem hann endar í vestri liggur 11 m langur grjótgarður B til norðurs í hlykkjum. Hann er niðurfallinn, er um 1 m á breidd og og um 0,5 m á hæð þar sem hann er hæstur. Í hleðslum sjást 2 umför. Garðurinn beygir til austurs í norðurenda og þar er hann 2 m langur. Fast austan við hornið er þúst sem er um 6×2 m að stærð og um 1 m á hæð. Þessi garður er að öllum líkindum leifar af garði umhverfis túnið sem tilheyrði Vík og sést á túnakorti. Um 2 m norðan við garðinn er áframhaldandi jarðlægur garður E sem er hæstur um 0,3 m. Hann er í tveimur bútum á svæði sem er um 25×10 m og snýr NNV-SSA. Annars vegar er garðurinn um 20 m langur og snýr norðvestur-suðaustu.
Hellur (býli)
Hellur.
“Minni-Knarrarnes vestar með þurrabúðina Hellur og Vík. … Hellur var þurrabúð með Hellnatúni eða Hellnaflöt Hellnalóð. Bæirnir stóðu í Knarrarnestúni,” segir í örnefnaskrá. “Þurrabúðin Hellur er í landi Minna-Knarrarness, ofan þjóðvegar. Hún er enn í byggð,” segir í örnefnaskrá KE. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Hellur voru til skamms tíma eina íbúðarhúsið í hreppnum ofan þjóðvegar. Þar byggði Lárus Pálsson “hómópati” árið 1873.
Árið 1919-20 var byggt nýtt íbúðarhús á Hellum, nokkuð austan þess gamla.” Bærinn í Hellum var um 225 m suðvestan við bæ. Á þessum stað eru talsverðar minjar. Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru þrjú útihús (B, C og D) auk bæjar (A) og gerðis (E) innan túns. Ekki er lengur búið á Hellum en fá ár eru síðan það fór í eyði.
Hellur eru í hæðóttu túni skammt sunnan við veginn um sveitina. Túnið hefur verið stækkað til suðurs frá því sem var 1919.
1919: Tún 0,3 teigar, garðar 920m2. Minjarnar eru á svæði sem er um 105×70 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Bærinn A og útihús B,C og D voru sunnarlega í túninu. Bærinn er horfinn undir afleggjara sem liggur að núverandi íbúðarhúsi en austan við hann sést móta fyrir grunni eða útlínum húss sem er um 3×6 m að stærð og snýr norður-suður. Fast vestan við afleggjarann og um 3 m austan við bæ A er tóft D sem er einföld, um 6×7 m að stærð og snýr norður-suður. Hún er grjóthlaðin og er steinlím í hleðslum.
Litla-Knarrarnesgatan (leið)
Knarrarnes – túnakot 1919.
“Frá bæ lá Litla-Knarrarnesgatan upp á veg,” segir í örnefnaskrá. Í bókinni Benjamín H.J. Eiríksson Í stormum sinna tíða segir: “Síðan gengum við Gísli inn að Knarrarnesi, óðum túnin. […] Gísli var með ketil í hendinni, sem hann lagði frá sér á klöpp, þegar hann tók staurinn úr hliðinu að Knarrarnes-tröðunum.”
Á túnakorti frá 1919 sjást traðir liggja frá suðvesturtúnjaðri á um 50 m löngum kafla en þaðan að bæ er sýnd einföld lína sem táknar að líkindum götu. Gatan í túninu sést ekki lengur en leifar af tröðum eru um 135 m suðvestan við bæ. Gatan lá þar sem nú er tún og liggur núverandi heimreið yfir hana að hluta.
Traðirnar eru í suðurjaðri núverandi túns en til suðurs er mói og vegurinn um sveitina. Traðirnar eru um 30 m langar og liggja norðaustur-suðvestur. Þær sjást sem renna á milli gróinna grjótgarða í þeim hluta túnsins sem kominn er í órækt. Rennan er um 1 m á breidd. Utanmálsbreidd traðanna er um 2 m.
Brandsleiði (legstaður)
Brandsleiði – aftan við kirkjuna.
“Lambhúshóll er austan við Vík og austur af honum er Brandsleiði, aflöng þúfa eins og leiði,” segir í örnefnaskrá KE. Í bókinni Benjamín H.J. Eiríksson Í stormum sinna tíða segir: “Í túninu var leiði. Einhver hafði verið grafinn í óvíðum reit. Sennilega hefir sá eða sú svipt sig lífi.” Leiðið er 110 m suðaustan við bæ og 60 m austan við tóft á Lambhúshóli.
Leiðið er á suðaustanverðu túninu nálega miðju. Umhverfis er slétt tún. Leiðið er aflöng þúfa sem er 3×1 m á stærð og um 0,4 m á hæð og snýr norður-suður. Í minningargrein sem birtist í Morgunblaðinu 20. ágúst 1994 er Brandsleiði sagt vera álagablettur en ekki greint frekar frá því hver álögin voru og ekki hafa fundist aðrar heimildir sem styðja það.
Breiðagerði (býli)
Breiðagerði – túnakort 1919.
Jarðadýrleiki er óviss, konungseign. JÁM III, 137.
9. september 1447: Bréf um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr), Hlöðunes (20 hdr), tvenna Ásláksstaði (40 hdr, Knarrarnes tvö ( 30 hdr), Breiðagerði fyrir (10 hdr). DI IV 707-708. 13.9.1500: segir einnig að jörðin Breiðagerði á Strönd er í Kálfatjarnarkirkjusókn. DI VII, 513, 561. 30.5.1501: Viðeyjarklaustur kaupir Breiðagerði á Strönd fyrir 10 hdr.
DI VII, 561. 1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 115. 1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 4 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og vogar, 26.
Jörðin hefur verið í eyði frá 1926 og liggur undir Auðnum. Þar var þríbýli um aldamótin 1900.
Neðan Vatnsleysustrandarvegar í landi Breiðagerðis er húsaþyrping þar sem aðallega eru sumarbústaðir en einnig íbúðarhúsnæði.
1703: “Túnin spillast af sjáfarágángi og tjörn þeirri, sem innan garðs er. Engjar eru öngvar. Útihagar í lakasta máta og nær öngvir um vetur nema fjaran.” JÁM III, 137. 1919: Tún alls 2,4 teigar, garðar 1100m2.
Breiðagerði – bæjarhóll.
“Breiðagerði bærinn stóð í Breiðagerðistúni innarlega og var túnið að mestu sunnan (vestan) bæjarins,” segir í örnefnaskrá. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir að þríbýli hafi verið á jörðinni um aldamótin 1900 og að síðustu ábúendur hafi flutt af jörðinni um 1926. Bæjarhóllinn í Breiðagerði sést enn vel. Hann er litlu sunnan við sjávarkampinn, umkringdur nýbýlum og sumarbústöðum sem risið hafa á jörðinni á síðustu áratugum.
Bæjarhóllinn er í litlu túni sem komið er í órækt. Íbúðarhús er litlu suðvestan við hann og fleiri hús eru nálægt honum til suðurs og suðausturs.
Bæjarhóllinn er um 54×30 m að stærð, snýr norðvestur-suðaustur. Hann er breiðastur í suðvesturenda. Norðausturhluti bæjarhólsins virðist vera náttúrulegur hóll en þó kunna að leynast í honum mannvistarleifar. Fast suðvestan við þann hól er steyptur húsgrunnur sem er um 5×8 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Önnur mannvirki er ekki að sjá á hólnum. Hóllinn er allur mjög grasgefinn og vex mikið af þistlum á honum. Hann er víðast um 2 m á hæð en hæstur í norðausturenda.
Breiðagerðisbrunnur I (vatnsból)
Breiðagerðisbrunnur I.
Samkvæmt túnakorti frá 1919 var brunnur um 30 m NNV við bæ. Brunnurinn er í lægð í túni sem komið er í órækt. Eitthvert nútímarask hefur orðið í túninu NNA við brunninn en þar sjást 2-3 samliggjandi grónar rákir.
Ekki er ljóst hvernig þær hafa myndast. Brunnurinn er grjóthlaðinn og samanfallinn. Hann er um 1 m í þvermál og 0,2 m á hæð. Lítið op er niður í hann, um 0,3 m í þvermál og um 0,3 m á dýpt.
Breiðagerðisbrunnur II (vatnsból)
Breiðagerðisbrunnur II.
Grjóthlaðinn brunnur er um 20 m norðan við bæ. Brunnurinn er norðvestan undir bæjarhól, við norðausturenda hans þar sem hann er hæstur. Brunnurinn er í lægð í túninu og norðan við hann er nokkurt deiglendi.
Hólmgrímur Rósenbergsson, heimildamaður, greindi frá því að hann hefði byrgt brunninn fyrir um 30 árum með bárujárni og er það enn á sínum stað. Ekki sést því ofan í brunninn en hann var að sögn heill þegar hann var byrgður en ekki fengust frekari upplýsingar um gerð hans eða aldur. Brunnurinn er líklega 2×2 m að stærð en umfang hans sést ekki glöggt.
Knarrarnessel (sel)
Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Selstaða þar sem heitir Knararness sel; eru hagar litlir mjög, en vatnsskortur til stórmeina, so að selstöðuna hafa menn næsta því forlátið, og kaupir bóndinn nokkrum sinnum selstöðu í fjarlægð.” “Þarna voru í eina tíð, og sjást rústir enn, þrjú sel. Fyrst Stóra-Knarrarnessel, Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel,” segir í örnefnaskrá. Í Knararnesseli áttu þrjú lögbýli sel og enn sjást greinilega þrjú selstæði. Selið er um 5,2 km suðaustan við Knararnes stærra og um 5 km suðaustan við Breiðagerði. Samkvæmt landamerkjum frá Sveitarfélaginu Vogum er meirihluti tóftanna í selinu í landi Breiðagerðis og því er það skráð undir Breiðagerði þó að sá bær hafi ekki átt selstöðu í selinu svo vitað sé. Selið er hátt uppi í heiðinni í grónu hrauni. Lágir hólar aðskilja selstæðin sem eru þrjú sýnileg. Grösugt er á selstæðinu og virðist rof ekki ógna því. Stórþýft er á svæðinu.
Knarrarnessel.
Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir: “Knarrarnessel er framundan en það liggur nokkurn spöl ofan Klifgjár og þar er flatlendast miðað við önnur selstæði í heiðinni. Selstígurin er ekki augljós frá Klifgjánni en frá jarðbrúnni yfir hana sveigjum við aðeins til hægri og komum að Leirflagsvatnsstæðinu en í það safnast vatn í rigningartíð. […] Selstæðið er stórt með mörgum tóftum enda höfðu líklega flestir bæir í Knarrarnesshverfi selstöðu þarna og í heimildum er getið um Litla Knarrarnessel og Ásláksstaðasel á þessum stað.” Á heimasíðu Ferlirs segir: “Selstæðið er stórt með mörgum tóftum. Þar má finna átta slíkar, misjafnlega stórar og margflóknar.
Þrjá hlaðna stekki er að sjá í selstöðunni. Fjöldi stekkja benda jafnan til fjölda selja á viðkomandi svæði. Hins vegar má geta þess að stekkir virðast ekki alltaf augljósir. Þannig má ætla að enn einn stekkurinn hafi fylgt austustu tóftunum þremur. Þær eru í grónum krika ofan við hinar tóftirnar. Sjá má móta fyrir hleðslu milli tveggja húsa, en alls eru rýmin í þeim fimm að tölu. Tvær tóftanna eru nokkuð heillegar og jafnvel sjá hversu stór rýmin hafa verið.
Knarrarnessel – stekkur.
Í nyrstu tóftinni mældust innanrýmin 140×280. Það er svipað hlutfall og í öðrum rýmum annarra tófta, ekki einungis í þessu seli heldur og fleirum. Ein tóftin, sú syðsta í vestanverðri selstöðunni, er greinilega stærst umfangs. Hún hefur verið með fleiri rýmum en hinar, líklega einum fjórum, en það er óalgengt í seljum á Reykjanesskaganum, sem jafnan hefur þrjú slík, þ.e. eldhúsið með sérinngangi og búr og svefnaðstöðu með sameiginlegum inngangi. Því, sem hér er lýst, er einungis ályktun út frá því sem sést á yfirborðinu, en ef grafið yrði í rústirnar gæti ýmislegt annað komið í ljós, s.s. tengsl einstakra rýma innbyrðis. Stekkirnir eru svipaðir að gerð,
tvö hólf. Þó má sjá móta fyrir bogadreginni hleðslu við endann á vestasta stekknum. Hlaðin kví er skammt norðan við selstæðið. Líklega höfðu flestir bæir í Knarrarnesshverfi selstöðu þarna og í heimildum er getið um Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel á þessum stað.” Selið nær yfir svæði sem er um 115×100 m að stærð og snýr norður-suður. Það skiptist í þrjú svæði og verður hverju þeirra lýst fyrir sig. Svæði 1 er vestast og á því eru fjórar tóftir. Tóft A er stærsta tóftin í öllu selinu. Hún er um 16x14m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Hún skiptist í sjö hólf. Í greinilegri hluta tóftarinnar til norðvesturs eru fimm hólf.
Vatnsleysa minni (býli)
Minni-Vatnsleysa – flugmynd.
Jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 149. 1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 115.
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 4 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og Vogar, 26.
1703 er ein eyðihjáleiga, Búð 016, og tómthús 017 í eyði. JÁM III, 151.
Grund hét hjáleiga norðan bæjar, Miðengi var einnig hjáleiga, í byggð á 19. öld og fram til um 1916. Ö-Stóra- og Minni-Vatnsleysa, 5. Einnig var kotbýli nefnt Krókur. Ö-Vatnsleysa AG, 1.
Á Vatnsleysu minni bjó oft mikill fjöldi vermanna á vertíð.
1703: “Túnin fordjarfast merkilega af sands og sjáfar ágángi, item leir og vatnsrásum af landi ofan. Engjar eru öngvar. Útihagar lakir um sumur, um vetur nær öngvir nema lítið af fjöru.” JÁM III, 151. 1919: Tún 4,5 teigar, garðar 2200m2 samkvæmt túnakorti.
Minni-Vatnsleysa.
Árið 1953 keypti Þorvaldur Guðmundsson Vatnsleysu minni og reisti hann þar stórt svínabú sem enn er í rekstri. Gamli bærinn í Minni-Vatnsleysu stóð á svipuðum stað og starfsmannabústaður á vinstri hönd þegar ekið er inn á athafnasvæði svínabúsins. Nýtt hús var byggt á bæjarstæðinu árið 1941 en það hús var rifið árið 1978 og nýtt hús byggt fyrir starfsmenn svínabúsins
litlu vestar. Þorvaldur Guðmundsson lét gera styttu til minningar um þá sem sóttu sjóinn og stendur hún um 35 m austan við starfsmannabústaðinn.
Bærinn á Minni-Vatnsleysu stóð þar sem nú er sléttuð grasflöt fast vestan við litlar klappir en á annarri þeirra er áðurnefnd stytta. Vestan við bæjarstæðið er nýlegt íbúðarhús sem byggt var 1978. Á nær öllu gamla heimatúninu eru byggingar í tengslum við svínabú. Brekka er niður af bæjarstæði til norðurs þar sem leifar af kálgarði sjást enn. Jarðvegi og byggingaleifum hefur verið rutt niður brekkuna og sést þar mikið grjót neðst í brekkunni.
Ekki er sýnilegur bæjarhóll þar sem bærinn var og kann honum að hafa verið ýtt út við framkvæmdir um og eftir miðbik 20. aldar, ef hann hefur á annað borð verið til staðar.
Búð (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Hjáleiga ein hefur hjer til forna verið kölluð Búð; hefur í fjögur ár í eyði legið. … Nú er grasnautn lögð til heimajarðarinnar og þykjast ábúendur að skaðlausu ei missa mega.” Staðsetning býlisins Búðar er ókunn en líklegt verður að teljast að það hafi verið í eða við heimatún. Engar minjar fundust á vettvangi sem gefa staðsetningu þess til kynna.
Grund (býli)
Minni-Vatnsleysubrunnur.
“Grund hét hjáleiga einhvers staðar norðan bæjar, ekki veit ég hvar,” segir í örnefnaskrá. “Grund var ein með Grundartúni, smá blett, norðan bæjar,” segir í örnefnaskrá Vatnsleysu. Líklegt er að Grund hafi verið þar sem fremur óljós tóft sést í norðvesturhorni túnsins, um 50 m norðvestan við bæ. Tóftin er í þýfðu túni innan um klapparhóla.
Tóftin er gróin en hefur að líkindum verið torf- og grjóthlaðin. Hún er um 5×7 m að stærð og snýr norður-suður. Mesta hleðsluhæð er um 0,5 m. Tóftin virðist vera einföld. Ekki sést skýrt op á henni en líklegt er að það hafi verið í norðvesturenda þar sem veggir eru óskýrari en í suðurenda. Norðurendi snýr að sjó. Á stöku stað sést í grjót. Ekki sjást fleiri tóftir í túninu sem gætu hafa tilheyrt þessu býli. Grundartún er samkvæmt túnakorti frá 1919 um 50×70 m að stærð og snýr nálega norður-suður. Túnið er sýnt sem hluti af heimatúni Minni-Vatnsleysu og er það afmarkað af kálgörðum til suðurs og austurs. Grjóthleðslur eru meðfram norður- og vesturhliðum.
Miðengi (býli)
Stóra-Vatnsleysa 1950.
Í Jarðatali Johnsens segir: “Prestur einn telur Miðengi hjáleigu jarðarinnar.” “Rétt neðan stígs [milli bæjanna] eru hólar, sem heita Miðengishólar. Rétt austan við stór bær, sem hét Miðengi. [sennilega í landi Minni Vatnsleysu].
Þar hefur sennilega verið járnvarið timburhús, því grunnur þess sést enn og er nokkuð heill. Neðsti hluti eða undirstaða skorsteins sést enn,” segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Árið 1916 var húsið flutt til Hafnarfjarðar.” Búið var á býlinu á 19. öld. Samkvæmt túnakorti frá 1919 var býlið um 220 m SSA við bæ og sjást leifar þess enn.
Minjarnar eru í grónum klapparhólum og hallar landi frá þeim til austurs að sjó. Svæðið umhverfis þær er beitt af hrossum.
1919: Tún 0,5 teigar. Minjar um býlið sjást á svæði sem er um 20×13 m að stærð og snýr norður-suður. Á því sést grunnur íbúðarhússins sem var flutt til Hafnarfjarðar, steinhlaðin tóft og þúst.
Fúli brunnur (vatnsból)
Fúli-brunnur.
“Neðan við Hólshjall er gamall hlaðinn brunnur, sem heitir Fúli. Það er ekki flæðibrunnur eins og aðrir brunnar á bæjunum, heldur safnast í hann úr jarðveginum í kring, enda vatnið ekki neyzluvatn. Fúli var líka kallaður Hólsbrunnur,” segir í örnefnaskrá. Brunnurinn er ekki merktur inn á túnakort frá 1919 og má leiða að því líkum að hann hafi verið hlaðinn eftir gerð þess. Hann er um 245 m suðaustan við bæ og um 50 m norðaustan við Hólshjall.
Brunnurinn er í grónum hraunmóa, nærri sjávarbakka. Brunnurinn er ferköntuð gryfja sem er um 6×5 m að stærð og snýr norður-suður. Hann er fullur af grjóti og drasli. Í suðvesturhorni sjást 3 umför hleðslu en ekki sést til botns í brunninum. Mesta hleðsluhæð utanmáls er 0,2 m.
Líklega er þessi brunnur ekki nógu gamall til að teljast til fornleifa samkvæmt lögum um fornminjar. Hann er hafður með í fornleifaskrá engu að síður þar sem hann er til vitnis um þá hefð að grafa og hlaða vatnsbrunna.
Danski (vatnsból)
“Fleiri brunnar eru nær bænum, sem hafa verið notaðir. Talað er um brunninn Danska,” segir í örnefnaskrá. Engar nánari upplýsingar fengust um brunninn eða staðsetningu hans og tókst því ekki að staðsetja hann með innan við 50 m skekkju. Mögulega var brunnurinn Danski annar tveggja brunna sem merktir eru inn á túnakort frá 1919.
Vatnsleysa stærri (býli)
Stóra-Vatnsleysa 1935.
Jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 151.
1262 : Varðveist hefur gamall máldagi útkirkjunnar á Vatnsleysu, þar segir: “Allra heilagra kirkia a vatnslavsv a fimtan hvndrad j heima lande. tiolld vmhverfuis og allan sinn bvning.” DI II, 65. 1367: “Allra hreilagra kirkia a Vatzlejsu a xvc j heimalande. kluckur ij.” DI III, 221. 1375 segir í máldaga kirkjunnar í Krýsuvík að hún eigi fjórðungspart í Vatnsleysu. DI II, 291.
[1379]: “ok firr nefnd fleckvik aa allann þridivng j vatzleysv jord.” DI III 340.
1479: Síðasti varðveitti miðaldamáldagi kirkjunnar er frá árinu 1397 og segir þar að kirkjan eigi 15 hdr i heimalandi. AM 263 fol. bl. 62.
28.4.1479: Jörðin Vatnsleysa er í Kálfatjarnarkirkjusókn. Í þessu bréfi lýsir Arngerður Halldórsdóttir því yfir að engin ítök séu í jörðinni Vatnsleysu nema að kirkjan í Krýsuvík eigi þar 10 hundruð og jörðin Flekkuvík eigi þriðjung í hvalreka ásamt viðarreka og Vatnsleysa eigi tvo hluta í Flekkuvíkurreka sem og hvalreka. DI VI, 185-86.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 115. 1515 kaupir Ögmundur ábóti Pálsson 20 hdr. í Vatnsleysu fyrir 25 hdr. DI VIII, 596.
1518: Viðeyjarklaustri færð 10 hdr. í Vatnsleysu til viðbótar. DI VIII, 673.
1518: Dómur um að heimatíund af Vatnsleysu skuli greiðast heim ekki til Kálfatjarnar. DI VIII, 649. 1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 6 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og Vogar, 26.
Stóra-Vatnsleysa.
Minjar um fornbýli er að finna nálægt Kúagerði.
1703: hjáleigur í byggð Vatnsleysukot og tvær nafnlausar hjáleigur auk einnar nafnlausrar eyðihjáleigu. Eyðibýlið Akurgerði lagt undir Vatnsleysu á 16. – 17. öld. JÁM III, 153-154. “Austast og neðst var Naustakot, stundum kallað Pallakot … Þá var norðan og ofar Nýibær, Móabær, Sigurjónsbær og Jónasarbær.” Einnig var lítið kot nefnt Kofinn byggt utan í kirkjugarðshleðsluna. Ö-Stóra- og Minni-Vatnsleysa. Garðbær er merktur inná túnakort frá 1919.
Garðhús nefnt í bók GJ, Mannlíf og mannvirki. Heiðarland Vatnsleysubæja er víðáttumikið, nær frá sjó til fjalla. Vesturbærinn í eyði og lagðist undir Austurbæinn og var rifinn um 1940. GJ: Mannlíf og mannvirki, 351.
1703: “Túnum spillir nokkurn part vatnságángur f landi ofan og jarðfast grjót sem árlega blæs upp í túninu. Engjar eru öngvar. Úthagar lítilfjörlegir vetur og sumar.” JÁM III, 153. 1919: Tún alls 7,3 ha, garðar 3800m2 samkvæmt túnakorti.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir að ein hjáleiga jarðarinnar hafi verið “heima við bæinn og innanbæjar” og er hún því skráð með bænum. “Tvö íbúðarhús voru eitt sinn á Stóru-Vatnsleysu, aðeins fáir metrar á milli. Voru þau nefnd Vesturbær og Austurbær,” segir í örnefnaskrá. “Vatnsleysubæirnir voru jafnan tveir. Nefndust Austurbær og Vesturbær og stóðu á Kampinum Gamla en þar var ævaforn Sjávarkampur í því nær miðju Stóru-Vatnsleysutúni […],” segir í örnefnaskrá Vatnsleysu. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Núverandi íbúðarhús var byggt 1952. Í Stóru-Vatnsleysu var þríbýli aldamótin 1900. Þá var skáli norður og niður af Vesturbænum.” Bærinn á Stóru-Vatnsleysu er þar sem Austurbærinn stóð. Hann er ofan við mitt túnið sem er afar mishæðótt og eru margir klapparhólar í því, flestir grónir. Frá bænum er víðsýnt til austurs og suðurs. Íbúðarhúsið sem byggt var 1952 er þrílyft, með kjallara og þreföldum áföstum bílskúr að austanverðu. Þetta hús var byggt á sama stað og húsið sem stóð á undan því en var þó fært um 2 m til norðvesturs. Samkvæmt túnakorti frá 1919 og Sæmundi Þórðarsyni, heimildamanni, var Vesturbærinn 003 um 15 m norðvestan við Austurbæinn.
Bærinn stendur á brún í aflíðandi halla til austurs, niður að sjó.
Kapella (útkirkja)
Vatnsleysa – kapella.
“Sunnan bæjarins skammt frá er matjurtagarður, girtur grjótgarði á þrjá vegu. Í suðurhorni er grjótið mest. Þar, er talið, að staðið hafi bænhús eða kapella, og má merkja þar vegghleðslur enn þá. Þetta er kallað Kapellan,” segir í örnefnaskrá. “Heimundir bæ mátti sjá garðhleðslu. Þar hafði Kirkjan staðið og var þetta Kirkjugarðurinn.
Þetta svæði var einnig nefnt Kapellan. […] Kofinn hét kot, sem byggt var utan í garðhleðslu þessari.
Stóð ekki lengi, því svo var reimt, að ekki hélst við,” segir í örnefnaskrá Vatnsleysu. Í bók Árna Óla, Strönd og vogar, segir: “Upphaflega voru þrjár kirkjur á Ströndinni, hálfkirkjur í
Kvíguvogum (Vogum) og Vatnsleysu, en aðalkirkjan á Kálfatjörn.” Meint staðsetning kapellu er um 50 m suðaustan við bæ, í suðurhorni kálgarðs sem skráður er með þústinni.
Kofinn er einnig skráður á þetta númer, enda eru þessar minjar allar á sama stað.
VATNSLEYSA Á VATNSLEYSUSTRÖND (G) – Allraheilagra (KÁLFATJARNARÞING) – HÁLFKIRKJA [haustið 1269]: gamall maldage Allra heilagra kirkia a vatnslavsv a fimtan hvndrad j heima lande. tiolld vmhverfuis og allan sinn bvning. þar skal syngia annan hvern dag loghelgan fra kalfa tiorn. og kavpa .ij. morkum ad presti. Lysa fyri helga daga fra mariv messv vnz lidur paska vikv. heima týund; Máld DI II 65 [1367]: lxiv. Allra hreilagra kirkia a Vatzlejsu a xvc j heimalande. kluckur ij. les Vilchinzbok; Hítardalsbók DI III 221 1397: a xvc. i Heimalandi portio Ecclesiæ vmm x är .c. oc xiij aurar. brestur kirkiunni iij kugilldi; {1598: hálfkirkja; AM 263 fol. bl. 62, 64} Kálgarðurinn er um 28×26 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Hann er grjóthlaðinn og eru hleðslur 1-1,5 m á breidd og hæstar utanmáls um 1,2 m. Sjást 4-6 umför í hleðslum en hleðslan er úr lagi gengin og bætt hefur verið í hana. Meðfram innanverðum veggjum sem afmarka norðaustur- og suðausturhliðar er 0,3 m há brún um 2 m frá veggjum, líklega leifar eldri hleðslu. Þessi brún heldur áfram til norðvesturs, um 2 m lengra en hlaðni veggurinn og beygir svo upp til suðvesturs og sést á um 11 m löngum kafla. Þúst er í suðurhorni kálgarðsins þar sem talið er að kirkjan hafi staðið en þarna var líka kot sem hét Kofinn, líklega þurrabúð. Þústin er um 6×4 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Hún er hæst um 1,5 m. Í suðausturenda hennar er búið að útbúa blómabeð. Mikið er búið að bæta í þústina af grjóti. Engin ummerki um kirkjugarð eða leiði sjást í næsta nágrenni þústarinnar.
Mögulega er þústin leifar af Kofanum. Ólíklegt er að þær minjar sem sjást á yfirborði hafi tilheyrt kirkjunni sem þarna kann að hafa staðið en sennilegt er að minjar um hana séu enn undir sverði ef þeim hefur ekki verið raskað.
Steinn (áletrun)
Letursteinn.
Steinn með áletrun á, sem er líklega ekki á upprunalegum stað er um 95 m suðaustan við bæ og um 50 m suðaustan við meinta staðsetningu kirkju.
Steinninn er í túni sem komið er í órækt, fast sunnan við miklar grjóthrúgur sem hreinsaðar hafa verið úr túninu.
Steinninn er um 0,7 m á lengd, 0,5 m á hæð og þykkt. Áletrunin er á flatri og sléttri hlið steinsins. Hún er orðin mjög óljós og máð en fjallað er um steininn og áletrunina á heimasíðu Ferlirs og þar kemur fram að áletrunin sé stafirnir GI sem sameinist í krossmarki að ofanverðu og hægra megin að ofanverðu sé ártalið 1643 eða 1649. Óvíst er í hvaða tilgangi áletrunin var rist en líklegast er hér um legstein að ræða. Hálfkirkja var á Stóru-Vatnsleysu. Líklegt er að kirkjugarður hafi tilheyrt kirkjunni en ekki er vitað hversu lengi grafið var í kirkjugarðinum, né hvenær kirkjan lagðist af.
Vesturbær (býli)
Vatnsleysa – Vesturbær.
Samkvæmt túnakorti frá 1919 og Sæmundi Þórðarsyni, heimildamanni, var Vesturbærinn um 15 m norðvestan við Austurbæ. Eitt útihús og kálgarður voru samtengd bænum og eru skráð með honum. Ætla má að þró og útihús hafi tilheyrt Vesturbænum þar sem þau standa næst honum. Þar sem minjarnar voru er nú malbikað bílaplan og steinsteypt fjós. Ekki sést til minja um Vesturbæinn eða mannvirki í næsta nágrenni hans og eru þær horfnar vegna niðurrifs.
Akurgerði (býli)
Akurgerði við Kúagerði.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Akurgierde hefur til forna jörð verið næst Vatnsleysu fyrir innan, hefur í eyði legið lángt fram yfir hundrað ár, vita menn hverki dýrleika hennar nje afgjald hvað verið hafi, og eru landsnytjar allar lángt fyrir þeirra minni, sem nú lifa, lagðar til Stóru-Vatnsleysu, og þaðan brúkaðar frí. Túnin, sem verið hafa, eru af hrauni, vatnságángi og sjáfar aldeiliss eyðilögð, þar sem skortir þar vatn, so jörðin kann ómöglega aftur byggjast.” “Upp af víkinni [Kúagerðisvík] vestanverðri eru grónir bakkar, sem ná upp að þjóðvegi og að hraunjaðrinum. Heita þeir Akurgerðisbakkar. Sagt er, að einu sinni væri búið þar, og hét þar Akurgerði,” segir í örnefnaskrá ÞJ. “Austur af því taka við flatir og má sjá Garðlag gamalt og mun vera garður vestan við býli, sem talið er að hér hafi verið og nefnst Akurgerði.” segir í örnefnaskrá. Akurgerði var á svæði sem nú er afmarkað af fjörunni, Strandarvegi og vegarslóða sem liggur samsíða Reykjanesbraut, norðan hennar við Kúagerðisvík. Svæðið er tæpa 100 m norðan við Reykjanesbraut.
Syðst á þessu svæði er grasi gróið og nokkuð hæðótt en ekki eru tóftir eða önnur mannvirki greinileg. Ekkert er vitað um það hvenær Akurgerði var lagt undir Vatnsleysu en Afstapahraun hlýtur að hafa þrengt mjög að býlinu og kann það að hafa farið í eyði í kjölfar þess að það hraun rann. Aldur Afstapahrauns er ekki þekktur en í grein eftir Jón Jónsson kemur fram að athuganir hafi leitt í ljós að hraunið sé ofan á landnámsgjóskunni (871+/- 2) og giskar hann á að hraunið hafi runnið í kringum árið 1325. Frekari rannsóknir þarf til að finna rökstuddan aldur hraunsins. Sé hraunið svo gamalt eru líkur til þess að Akurgerði hafi lagst snemma í eyði.
Nýibær (býli)
Stóra-Vatnsleysa – ullarþvottur.
“Margar hjáleigur voru í túni Stóru-Vatnsleysu. Voru þær aðallega í neðsta hluta niðurtúnsins og flatanna. Smátúnblettir voru um hvert þeirra og hlaðið í kring með grjótgörðum. Sumir voru ákaflega vel hlaðnir og voru óskemmdir þar til fyrir fáum árum. … Fyrir nokkrum árum var öllum grjótgörðunum rutt burt og niður í sjávarkampinn. Þar eru nú slétt tún. … Þá var norðan og ofar Nýibær, Móabær, Sigurjónsbær og Jónasarbær,” segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Nýibær var lítið grasbýli niður af Móabæ, við sjávarkambinn, í landi Stóru-Vatnsleysu. … Síðar flutti það fólk sem eftir var til Hafnarfjarðar sem það sem nýtilegt var úr Nýjabæ og byggði upp þar sem nú er Vörðustígur 3 í Hafnarfirði.”
Samkvæmt túnakorti frá 1919 var Nýibær um 180 m austan við bæ. Býlinu tilheyrði þrískipt bæjartóft og tvö önnur hús auk einnar þróar. Engin ummerki sjást um bæinn eða önnur mannvirki sem honum tengdust, ef frá er talin tóft af húsi sem sýnt er á túnakorti um 215 m austan við bæ og um 30 m austan við bæjarhús Nýjabæjar. Með þeirri tóft er skráð önnur tóft sem er fast norðan við hana en er utan túns og því ekki inni á túnakorti.
Stóra-Vatnsleysa.
Í örnefnaskrá Vatnsleysu segir: “En neðan við Harðhaus er nú Hrútakofinn. Hann byggði Jónas í Nýjabæ og nefnist Jónasarkofi. Jónasarbær, sama og Nýibær.” Jónasarkofi er að líkindum tóft A sem lýst er hér að neðan. Í fyrstu tilvísun hér að framan úr örnefnaskrá Stóru- og Minni-Vatnsleysu eru bæði Nýibær og Jónasarbær taldir upp eins og um tvö aðgreind býli hafi verið að ræða. Þetta er eina heimildin þar sem þessu háttar svo og er líklega um rugling að ræða. Gengið er út frá því að Nýibær og Jónasarbær séu eitt og sama býlið. Bærinn var austan við klapparhól í sléttuðu túni sem komið er í órækt. Minjarnar sem enn sjást eru á mörkum túns og fjöru.
1919: Tún 0,19 teigar, garðar 260 m2. Á milli Móabæjar og Nýjabæjar er stór þúst þar sem grjóti úr býlunum var ýtt saman og það hulið með jarðvegi. Tóftirnar tvær sem enn sjást og hafa líklega tilheyrt Nýjabæ eru á svæði sem er um 14×10 m að stærð og snýr suðvestur-norðaustur.
Móabær (býli)
Vatnsleysa – örnefni.
“Margar hjáleigur voru í túni Stóru-Vatnsleysu. Voru þær aðallega í neðsta hluta niðurtúnsins og flatanna. Smátúnblettir voru um hvert þeirra og hlaðið í kring með grjótgörðum. Sumir voru ákaflega vel hlaðnir og voru óskemmdir þar til fyrir fáum árum. … Fyrir nokkrum árum var öllum grjótgörðunum rutt burt og niður í sjávarkampinn. Þar eru nú slétt tún. … Þá var norðan og ofar Nýibær, Móabær, Sigurjónsbær og Jónasarbær,” segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Móabær var í landi Stóru-Vatnsleysu, við girðingu milli Vatnsleysanna og austan við götu sem þar er á milli. Var þetta lítið grasbýli. … Jón og Ragnheiður voru í Móabæ fram yfir 1900 og síðustu ábúendur þar.” Lýsing Guðmundar bendir til þess að býlið hafi verið við merki Minni- og Stóru-Vatnsleysu en líklega er átt við girðingu á milli túnhluta Vesturbæjar 003 og Austurbæjar 001, eða á milli eignarhluta Sæmundar og Einars Þórðarsona. Samkvæmt túnakorti frá 1919 var Móabær um 140 m austan við bæ 001. Býlinu tilheyrðu tvö hús, brunnur, kálgarður og túngarðar. Býlið var í sléttuðu túni sem komið er í órækt.
1919: Tún 0,17 teigar, garðar 600m2. Engin ummerki um býlið sjást á yfirborði en mögulega leynast leifar af því undir sverði.
Sigurjónsbær (býli)
Vatnsleysa – túnakort 1919.
“Margar hjáleigur voru í túni Stóru-Vatnsleysu. Voru þær aðallega í neðsta hluta niðurtúnsins og flatanna. Smátúnblettir voru um hvert þeirra og hlaðið í kring með grjótgörðum. Sumir voru ákaflega vel hlaðnir og voru óskemmdir þar til fyrir fáum árum. … Fyrir nokkrum árum var öllum grjótgörðunum rutt burt og niður í sjávarkampinn. Þar eru nú slétt tún. … Þá var norðan og ofar Nýibær, Móabær, Sigurjónsbær og Jónasarbær,” segir í örnefnaskrá. Í annarri örnefnaskrá eftir Ara Gíslason segir: “[…] innan við Naustakot var Sigurjónsbær.” Sigurjónsbær er að öllum líkindum sami bær og Garðhús. Hann er ekki merktur inn á túnakort og hefur verið utan túns. Samkvæmt bókinni Mannlíf og mannvirki bjuggu Sigurjón Jónsson og Guðrún Filippusdóttir í Garðhúsum. Þar segir einnig: “Þau byggðu Garðhús rétt eftir aldamótin [1900] og voru þar í nær 20 ár, en fluttu síðan til Hafnarfjarðar, rifu bæinn og byggðu hann upp þar sem nú er Krosseyrarvegur 11. Eins og fyrr segir var einginn fyrir né eftir þeirra dag í Garðhúsum.” Býlið hefur að líkindum verið um 260 m ASA við bæ en nákvæm staðsetning hans er ekki lengur þekkt.
Garðhús hefur líklega verið á fjörukambinum en þar sem nú eru mörk stórgrýttrar klapparfjöru og túns í órækt. Grjóti sem rutt var úr túninu við sléttun er nú á þessum stað.
Ekki sést til minja um bæinn vegna niðurrifs og sléttunar.
Garðbær (býli)
Vatnsleysa – túnakort 1919 lagt yfir loftmynd.
Samkvæmt túnakorti frá 1919 var býlið Garðbær um 200 m suðaustan við bæ og 65-70 m sunnan við Kotbrunn. Býlinu tilheyrði tvískipt bæjartóft auk þriggja útihúsa, kálgarðs og túngarða. Engar leifar um býlið sjást á yfirborð vegna sléttunar. Ekki er minnst á þetta býli í örnefnaskrám og líklegt að það hafi einnig borið annað nafn.
Ef til vill hefur það líka heitið Jónasarbær og það skýrir þá hvers vegna Nýibær og Jónasarbær eru báðir nefndir í örnefnaskrá Stóru- og Minni-Vatnsleysu. Þar sem býlið var er sléttað tún sem komið er í órækt en dálítill flatur stallur er í túninu þar sem bærinn stóð að líkindum.
1919: Tún 0,25 teigar, garðar 550m2.
Kotbrunnur (vatnsból)
Kotbrunnur.
“Á flötunum, rétt ofan þar sem kotablettirnir voru, er flæðibrunnur, vel hlaðinn innan. Þó mun eitthvað vera hrunið úr veggjum hans nú. Vatnið í honum var saltminna en í brunninum vestar í túninu, sem áður er sagt frá. Þessi brunnur var kallaður Kotbrunnur,” segir í örnefnaskrá. Brunnurinn er merktur inn á túnakort frá 1919 og er um 180 m ASA við bæ. Brunnurinn er í sléttuðu túni sem komið er í órækt. Til vesturs eru hólar og hæðir en nokkuð flatlent er til annarra átta. Brunnurinn er grjóthlaðinn, um 2 m í þvermál, en stendur aðeins lítillega upp úr sverði. Honum virðist lítið sem ekkert hafa verið raskað og er líklegt að hann hafi verið notaður eftir að sléttað var úr býlunum á svæðinu þar sem vatnið í honum þótti betra en í brunni. Brunnurinn er um 8 m á dýpt og sést til botns í honum. Hleðslan í brunninum er 4-5 m á hæð en neðan við hleðsluna er klöpp sem grafið hefur verið ofan í. Ekki sást vatn í botni brunnsins þegar hann var skráður á fjöru á vordögum 2012.
Þýskubúðir (þingstaður)
“Í hafnartali Rexens er Vatnsleysuvík talin höfn á 16. öld, en þess getið, að þangað séu engar siglingar. Þó hafa Hamborgarkaupmenn nokkuð síðar silgt þangað og verzlað þar. … Konungsbréf, sem útgefið var 1602, tilkynnir, að þýzkum kaupmönnum hafi þó verið leyft að sigla á hafnirnar Vatnsleysuvík og Straum þetta sumar, til að innheima skuldir sínar, en þeir megi alls ekki verzla við Íslendinga,” segir í bókinni Strönd og vogar. Í Söguriti XXIX er héraðslýsing Guðmundar Runólfssonar sýslumanns frá 1770 þar sem hann fjallar m.a. Um hafnir. Þar segir: “Auk þessa höfdu Þiisker, þegar höndludu hier vid Land, sýnar Sumar Hafner allvýda i þessu Hierade, er nú ei brúkast, so sem Stroimswiik i Hroinumm, Watnsleysuwiik á Strönd og výdar, hvar umm Búdartofternar enn i Dag audsienar bera ljósast Vitne.” Í örnefnaskrá segir:”Víkin þar fyrir innan [Naustakotsvör] heitir Búðavík.”
Vatnaborg (vatnsból)
Vatnaborg – vatnsstæði.
“Upp af [Stekkhól] nokkuð fyrir ofan gamla þjóðveginn er hóll, sem heitir Grænhóll. Suður af honum er annar minni, sem heitir Efri-Grænhóll. Skammt þar fyrir ofan er slakki eða lægð. Þar á smábletti kemur upp vatn, og myndast þar oft vatnsból. Heitir það Vatnaborg og er rétt ofan steypta vegarins,” segir í örnefnaskrá. Um 150 m ofan Reykjanesbrautar (sunnan) og um 170 m austan við Vatnaborgina sjálfa er vatnsbólið.
Svo er að sjá á gróðri á þessum slóðum að vatnsbólið hafi verið stórt áður eða um 20 m í þvermál. Nú er hins vegar aðeins rakur mosagróður á þessu svæði nema á um 2 X 0,8 m svæði þar sem enn er vatn.
Tóustígur (leið)
Tóustígur.
“Skammt neðan Gráhellu liggur gamall stígur upp hraunið. Liggur hann í suðaustur og endar í allstórri lægð, sem er girt háu hrauni á alla vegu. … Stígurinn frá hraunbrún og upp að þessum lægðum heitir Tóustígur,” segir í örnefnaskrá. Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir: “Austan og neðan við Gráhellu komum við að Tóastíg, Tóarstíg eða Tóustíg en hann liggur upp í Tórnar eða Tóurnar eins og málvenja er núorðið. Stígurinn var eyðilagður að mestu þegar efni í Reykjanesbrautina var tekið en hluti hans sést þó vel enn þá rétt neðst þar sem hraunið er enn óraskað. Stígurinn kemur aftur í ljós fyrir ofan ruðningana.” Leiðin sést þar sem hún liggur ofan í Tó tvö um 2,5 km suðaustan við bæ.
Leiðin liggur um móa innan um hraun.
Gvendarborg á Vatnsleysuheiði.
Gvendarborg (fjárskýli)
“Góðan spöl ofan Gráhellu liggur löng hraunbreiða út í heiðina. Heitir það Hraunsnef. … Rétt ofan Hraunsnefs á heiðarholti er gömul hlaðin rétt eða fjárborg. Heitir það Gvendarborg,” segir í örnefnaskrá. Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir: “Á nokkuð háu klapparholti upp og suðaustur af Djúpadal en suður af Hraunsnefi stendur hálfhrunin fjárborg sem heitir Gvendarborg. Borgina hlóð Guðmundur Hannesson er seinast bjó á Ísólfsskála en hann var fæddur árið 1830 […]” Gvendarborg er um 4,2 km suðaustan við bæ. Borgin er hátt í Strandarheiði á nokkuð flatlendu svæði í hraunmóa. Allgróið er hér í kring en flagmói á stöku stað.
Borgin var líklega um 6 m í þvermál þegar hún var heil en mikið hefur hrunið úr hleðslum, aðallega úr utanverðum veggjum svo leifar af borginni ná yfir svæði sem er um 9×9 m að stærð. Mesta hleðsluhæð er um 1,8 m og mest sjást 8 umför en meirihluti veggjahleðslna er hruninn. Opið inn í borgina sést enn og var gengið inn í hana úr suðaustri. Grjót hefur hrunið í opið sem er aðeins um 0,3 m á breidd og var um 0,7 m á hæð.
Stóri-Kolhóll (kolagröf)
Stóri-Kolhóll.
“Frá Einiberjahól liggja mörkin um hól, sem nefnist Stóri-Kolhóll. Þarna eru fleiri hólar eða holt, sem kallaðir eru einu nafni Kolhólar. Kolhólar eru, sem kallað er, á háheiðinni,” segir í örnefnaskrá. Kolhóll eða Stóri-Kolhóll er um 6,5 km sunnan við bæ 001 og um 1,5 km sunnan við sel. Í Kolhól er mikil hringlaga dæld sem er um 3 m djúp og um 12 m í þvermál. Hóllinn er í mosagrónu, hæðóttu hrauni.
Ekki sést til ummerkja um kolagerð í eða við hólinn en ekki er hægt að útiloka að kolagerði haf farið fram á þessum stað. Varða er um 10 m vestan við dældina í hólnum. Hún er óvönduð og líklega ung að árum eða illa endurhlaðin.
Varðan er 1×1 m að stærð og um 0,5 m á hæð. Ekki er hægt að greina fjölda umfara. Grjótið í vörðunni er skófum vaxið. Viðarprik er á milli steina í vörðunni en hefur líklega áður staðið upp úr henni. Hlutverk þessarar vörðu er óljóst en mögulega hefur hún átt að vísa á hólinn, varðað Þórustaðastíg sem liggur fast suðvestan við hólinn, eða verið landamerki því samkvæmt örnefnaskrá var Kolhóll á merkjum milli Flekkuvíkur og Vatnsleysu sbr. tilvísun hér fyrir ofan.
Oddafellssel (sel)
Oddafellssel.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Selstöðu segja menn jörðin eigi þar sem heitir Oddafell, og er þángað bæði lángt og erfitt að sækja, eru þar hjálplegir hagar og vatn nægilegt.” “Gamall götuslóði eða stígur liggur frá Oddafelli, og fer hann út á hraunið spölkorn vestur með fellinu, frá norðurenda þess vestur yfir hraunið í átt að Keili, og er nefnt Höskuldarvallastígur. Örskammt með fellinu að vestan við hraunbrúnina eru gamlar vegghleðslur. Þar var haft í seli frá Minni-Vatnsleysu,” segir í örnefnaskrá. Selið er um 9,3 km suðaustan við bæ.
Minjarnar eru á mörkum úfins mosagróins hrauns og grösugra hlíða Oddafells sem þó eru uppblásnar á köflum.
Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir: “Næst skoðum við tóftirnar af Oddafellsseli sem var frá Minni-Vatnsleysu en það liggur í vesturrótum fellsins skammt fyrir sunnan Höskuldarvallastíginn (sjá síðar) þar sem hann beygir út í apalhraunið til vesturs. Þar sjást tvær-þrjár tóftir og einnig kvíahleðslur í hraunjaðrinum rétt sunnan við selið.” Tóftir sem tilheyrt hafa selinu eru á svæði sem er um 170×10 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur.
Vatnsleysustekkur (stekkur)
Vatnsleysustekkur.
“Einhversstaðar hér í Heiðinni var Vatnsleysustekkur og hér er Litli-Hrafnhóll …” segir í örnefnaskrá. “Rétt vestan gjárinnar [Hrafnagjá] komum við að Vatnsleysustekk í lítilli kvos fast við og neðan Eiríksvegar en stuttu ofan við nýju tengibrautina. Eiríksvegargerðarmenn hafa látið óhreyft grjótið í stekknum sem segir okkur að líklega hefur hann verið í notkun þegar vinnan stóð yfir,” segir í bókinni Örnefnum og gönguleiðum. Stekkurinn er um 710 m vestan við bæ og um 880 m suðvestan við Minni-Vatnsleysu. Stekkurinn er í gróinni kvos milli tveggja hæða í grónum hraunmóa. Fast sunnan við stekkinn liggur Eiríksvegur og um 50 m eru að stekknum suðvestur af Vatnsleysustrandarvegi.
Tóftin er tvískipt og grjóthlaðin. Hún er um 8,5×7 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Mesta hleðsluhæð er um 0,6 m og mest sjást 3 umför í hleðslum. Þær eru hrundar og grónar, sérstaklega í norðausturhluta tóftarinnar.
Vatnsbergsstekkur (stekkur)
Vatnsbergsstekkur/Vatnaborg.
“Sunnar [en Grænhólar] er Vatnsstæðið, Vatnsberg. Þar er Vatnsbergsrétt, en fyrrum var þarna Vatnsbergsstekkur,” segir í örnefnaskrá. “Upp af honum nokkuð fyrir ofan gamla þjóðveginn er hóll, sem heitir Grænhóll. Suður af honum er annar minni, sem heitir Efri-Grænhóll. Skammt þar fyrir ofan er slakki eða lægð. Þar á smábletti kemur upp vatn, og myndast þar oft vatnsból. Heitir það Vatnaborg og er rétt ofan steypta vegarins,” segir í örnefnaskrá “Sunnan við vatnsstæðið er lágur hóll með miklu grjóti og veggjabrotum og þar hefur fyrrum verið stór fjárborg, Vatnaborg eða Vatnsborg og dregið nafn af vatnsstæðinu.” Minjar um fjárborg og stekk eru 185-195 m sunnan við Reykjanesbraut og um 1,5 km suðaustan við bæ.
Hóllinn sem minjarnar eru á er nokkuð hár. Hann er gróinn mosa og grasi. Umhverfis er þýft, mosa og lyngivaxið svæði með hraunhæðum inn á milli.
“Borgin var hringlaga 10-12 m í þvermál og innan í grjóthringnum eru hleðslur. Líklega hefur verið þar stekkur eftir að Borgin sjálf lagðist af enda geta heimildir um Vatnsbergrétt og Vatnsbergsstekk …”
Fjárborgin er hlaðin úr allstóru grjóti. Hún er hlaðin í hring og er 10 m á annan veginn en 12 m á hinn.
Kúagerði (býli)
Kúagerði.
“Í Kúagerði fyrir sunnan Hvassahraun, má sjá vott þess, að þar hafi bær verið fyrir löngu,” segir Brynjúlfur Jónsson í grein árið 1902 “Sér þar til rústa innan til við sjávarkambinn, og nokkru vestar sést langur partur af niður sokknum grjótgarði og hverfur norðurendi hans í sjávarkambinn. Hefur sjórinn gengið þar á landið og brotið það upp. Þess skal getið að þetta stendur í engu samandi við rúst kot þessa, sem fyrir nokkrum áratugum var byggt í Kúagerði. Þar er hraunsnef á milli og þessarar rústa,” segir Brynjúlfur ennfremur. Ekki sjást greinilegar garðleifar á þessum slóðum. Fast sunnan við Reykjanesbraut og vestan við Kúagerðistjörn er hæð sem hugsanlega gæti verið leifar að garðlagi því sem rætt er um að ofan. Eins líklegt er að hæðin sé náttúruleg. Garðurinn er grasi gróinn en í kring er gróið hraun.
Hæðin er á um 50 m bili frá Reykjanesbraut til slóðans sem liggur samsíða brautinni að norðan. Norðan við slóðann sést svo í framhald sömu hæðar á um 15 m parti að fjörukambi.
Vatnsleysuskóli (hús)
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum er sagt frá upphafi skólahalds í Vatnsleysu. Einnig er fjallað um skólann þar í ritgerð um skólahald í hreppnum eftir Eyjólf R. Bragason og fleiri.
Skólahald hófst á Stóru-Vatnsleysu árið 1910 og var kennt fyrst um sinn í Austurbænum 001. Nýtt skólahús var svo reist á jörðinni, um 200 m suðaustan við bæinn, árið 1912 og var kennt í því til 1914. Skólahald í Vatnsleysuskóla lagðist þá niður um árabil en hófst að nýju árið 1925 og hélst nokkuð samfleytt til ársins 1943 þegar skólaakstur hófst í hreppnum og skólahúsið var selt Þórði Jónassyni, bónda í Stóru-Vatnsleysu.
Skólinn var í grónum hraunmóa sunnan við tún Stóru-Vatnsleysu og skammt austan við heimreið að bænum. Samkvæmt Sæmundi Þórðarsyni, heimildamanni, var skólahúsið rifið fyrir um 20 árum og sjást lítil sem engin ummerki.
Rauðhólasel (sel)
Rauðhólssel.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Selstöðu á jörðin þar sem heitir Rauðhólasel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein á vatnsskorti.” “Grasi gróinn halli eða lægt er vestan undir Rauðhól. Þar eru gamlar rústir eftir kofa og fjárrétt. Þar var haft í seli frá Stóru-Vatnsleysu, og heitir þar Rauðhólssel,” segir í örnefnaskrá. Minjarnar eru um 6,5 km
suðaustan við bæ. Tóftirnar eru á litlu mosavöxnu seltúni vestan við Rauðhól.
“Selið er í litlum Hvammi milli brunahóla. Seltún er þarna lítið. Tættur eftir byggingar eru hér líka. Aðalselið hefur verið undir Rauðhól – Nyrðri en fyrir botni er Stóri-Rauðhóll og norðan undir honum eru Kvíarnar og Réttin. Kvíarnar eru hringbyggðar eins og Borg, en Réttin er aflöng, sporöskjulöguð. Þarna var haft í seli fram um sextándu helgi [svo]. Þá gerðist svo magnaður draugagangur, að ekki varð við vært. Við austurenda Stóra-Rauðhóls hefur hraunið runnið niður brekku og þar hefur það myndað Sjálfkvíar eða djúpa laut, sem var hin ágætasta kví,” segir í örnefnaskrá
Rauðhólssel – uppdráttur ÓSÁ.
Á heimasíðu Ferlirs segir: “Ofarlega í heiðinni eru nokkrir grónir rauðamelshólar. Rauðhólar standa við vesturjarðar Afsta[p]ahrauns, en í kring um þá að hluta hefur hraunið runnið. Þetta eru fjórir hólar eða hæðir og tveir sem standa fjærst hrauninu heita Stóri-Rauðhóll eða Rauðhóll og Litli-Rauðhóll, sem stendur neðan hans. Undir þessum hólum að norðaustanverðu er Rauðhólssel, en þar var frá Stóru-Vatnsleysu. Sagt var fyrrum að ekki hefði verið hægt að hafast við í selinu eftir að sextán vikur voru af sumri vegna draugagangs. Við selið finnst ekkert vatnsból [svo].
Aðalbláberjalyng er mjög sjaldgæf [svo] jurt í hreppslandinu, en við hólana má sjá það teygja sig upp úr þröngum gjám.” Ein tóft og ein þúst sjást í seltúninu á svæði sem er um 35×15 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur.
Tóft A er norðvestast á svæðinu. Hún er um 10×8 m að stærð og snýr norður-suður. Hún er þrískipt, torf- og grjóthlaðin. Hólf I stærst og er í suðurenda tóftarinnar. Það er um 3,5×2 m að innanmáli og snýr norður-suður. Op er inn í það á austurhlið. Úr hólfi I er gengið inn í hólf II til norður sem það hólf er mjög samansigið og óskýrt, sem og opið milli hólfanna. Hólf II er um 1 m í þvermál innanmáls. Hólf III er í norðausturhluta tóftarinnar. Það er um 3,5×0,5 m að innanmáli og snýr norður-suður. Op inn í það er á suðurgafli. Mesta hleðsluhæð tóftarinnar er um 0,6 m. Ekki sést fjöldi umfara í hleðslum. Þúst B er um 4,5×8 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Þústin er gróin en hefur líklega verið torf- og grjóthlaðin. Hvorki sést móta fyrir hólfum í þústinni né opi. Þústin er við jaðar seltúnsins og lækkar landið norðaustan við hana. Mesta hæð hennar er 0,3 m.
Vatnsleysukot (býli)
Vatnsleysa – fornleifar.
Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 var hjáleigan Vatnsleysukot í byggð það ár. Engar frekari upplýsingar fengust um þessa hjáleigu og ekki ljóst hvar hún var. Líklegt er að hún hafi annað hvort verið nærri bæ eða þar sem hjáleignaþyrping var áður vestast í túninu.
Ekki var unnt að staðsetja býlið með innan við 50 m skekkju.
Flekkuvíkursel II (sel)
Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.
Lítið sel er um 185 m norðaustan við Flekkuvíkursel I og 3 km SSA við bæ. Heimildum ber ekki saman um hvað ásarnir heita í kringum Flekkuvíkursel en það skiptir miklu máli í þessu tilviki því landamerki Flekkuvíkur á móti Kálfatjörn annarsvegar og Vatnsleysu hins vegar liggja um ása sitt hvorum megin við selið. Í bókinni Örnefni og gönguleiðir er aðeins talað um Vestari- og Nyrðri-Flekkuvíkurselás eins og gert er í landamerkjalýsingu. Í lýsingum af staðsetningu selsins í sömu heimild er talað um að Selásvarða sé á Vesturásnum. Í örnefnaskrá Flekkuvíkur er hins vegar talað um Selásinn vestari, Selásinn eystri og Mið-Selás. Og samkvæmt sömu heimild er Selásvarðan á Mið-Selás. Á vettvangi og af loftmyndum virðast ásarnir vera þrír og er líklegt að Selásinn eystri í örnefnaskrá sé sami ás og Nyrðri-Flekkuvíkurselás í landamerkjalýsingu en þessi ás er norðaustastur ásanna og því geta bæði nöfnin átt við hann. Mið-Selássins er væntanlega ekki getið í landamerkjaskrám af því að landamerkin liggja ekki um hann. Mið-Selás er suðaustan við Flekkuvíkusel og á honum er stór varða sem að öllum líkindum er Selásvarða en tvær vörður eru á Selásnum vestari sem er vestan við Flekkuvíkursel.
Flekkuvíkursel.
Selið sem hér er skráð er á mörkum Vatnsleysu og Flekkuvíkur. Óvíst er hver tengslin eru milli seljanna tveggja en selið í landi Vatnsleysu virðist vera eldra en Flekkuvíkursel og því tilheyra færri sýnilegar rústir. Selið kann að hafa verið frá Vatnsleysu eða eldra sel frá Flekkuvík þó að selstæði Flekkuvíkursels sé mun ákjósanlegra eins og aðstæður eru nú. Selið er í allgrónu hrauni norðan undir Nyrðri-Flekkuvíkurselási eða Selás eystri. Þar er lítið gróðurlendi og flagmóar eru nærri tóftunum og ógna þeim.
Á heimasíðu Ferlirs segir: “Ásarnir, sem selið stendur við, heita Vestri-Flekkuvíkurselás og Nyrðri-Flekkuvíkurselás. Á vesturásnum er Selásvarða, önnur varða er á miðhluta hans og sú þriðja á nyrðri endanum. Norðan ássins, rétt neðan við vatnsbólið, eru þrjár gamlar tóftir og há grasivaxin grjóthrúga, líklega mjög gömul húsatóft.”
Flekkuvíkursel.
Í ritgerð Ómars Smára Ármannssonar um Sel á Reykjanesskaga segir: “Í selinu [Flekkuvíkurseli sjálfu má vel greina 8 tóttir. Líklega hafa selstöðurnar verið a.m.k. tvær. Stekkur er undir holtinu skammt sunnar, en vestan við selið eru hleðslur er gætu verið rétt og eldra gerði. Vel gróið er í kringum selið, Seltúnið. Norðan við selið er klapparhóll. Í kvos norður undir norðurholtinu er hlaðin kví. Norðan þess eru þrjár tóftir er benda til þess að þar hafi verið minna sel. Norðan þess er u.þ.b. metershár hóll með hleðslum. Talsverð landeyðing er í kringum hann, en þarna gæti hafa verið stekkur, lítil borg eða hlaðið hús.
Hugsanlega gæti þetta hafa verið sel frá öðrum Flekkuvíkurbæjanna, en Flekkuvík skiptist í Austurbæ og Vesturbæ, auk þess sem bærinn Refshali (Rifshali) var býli þar í túnkróknum (fór í eyði 1920).” Minjar um selið eru á svæði sem er um 95×85 m að stærð og snýr VNV-ASA. Á svæðinu eru þrjár tóftir, vatnsstæði og varða.
Kolhólasel (sel)
Kolhólasel – uppdráttur ÓSÁ.
“Í graslendinu fast við hólinn eru fimm greinilega afmarkaðar tóftir eða dældir og er sú stærsta 4×3 m. Ekkert grjót sést í tóftunum. Sagnir eru til um kolagrafir þarna, en hólarnir á þessu svæði heita Kolhólar og grasrindarnir Kolhólalágar. Nú er farið að kalla þessar tóftir Kolhólasel en líklega hefur það heitið Vatnsleysusel fyrrum,” segir í bókinni Örnefni og gönguleiðir. Í örnefnaskrá segir: “Hér suður í heiðinni Vatnsleysuheiði, var fyrr á tímum sel Vatnsleysusel. Nú munu fáir eða engir vita um þann stað, en nafnið lifir meðal eldri manna.”
Kolhólasel.
Á heimasíðu FERLIRs segir: “Markmiðið með þessari ferð var m.a. að finna svonefnda Kolhóla og hugsanlega fornar minjar, sem þar áttu að vera. Hólarnir eru í heiðinni, en í landi Vatnsleysu. Eftir svolitla leit fundust rústirnar norðaustan undir hól á vel grónu svæði; tóftir af tveimur húsum með tveimur rýmum hvort. Austast var stekkur. Af nafninu að dæma gætu þarna hafa verið unnin kol á meðan enn var hrís í heiðinni. Annar Kolhóll er þarna nokkuð sunnar í heiðinni. Í hann er nokkuð djúp gróin skál.
Tóftirnar virðast vera mjög gamlar. Líklegt er að Vatnsleysa hafi haft þarna í seli um tíma, en síðar fært sig ofar, í Rauðhólssel og undir Oddafellið.
Forvitnilegt væri að kanna tóftirnar betur. Þessa er hvergi minnst í seinni tíma ritum, s.s. Jarðabókinni 1703 eða í yfirferð Brynjúlfs Jónssonar um Reykjanesskagann á 19. öld.” Seljatóftir eru um 5 km sunnan við bæ og um 1,35 km suðvestan við Gvendarborg. Minjarnar eru í nokkuð flatlendum og grjónum móa innan um hraunhóla sem mynda hring í kringum svæðið, syðst á svæðinu eru minjar undir allháum hól.
Alls eru þrjár tóftir á svæði sem er um 27×18 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur.
Hrafnagjá (áletrun)
Hrafnagjá áletrun við Magnúsarsæti á Stóru-Vatnsleysu.
“Stuttan spöl sunnan milligarðsins og ofan gamla götuslóðans milli bæjanna er mjög gömul og víða uppgróin gjá. Heitir hún Hrafnsgjá … Gjáin liggur um nokkuð háan klapparhól næstum efst í túninu. Sunnan í hólnum ca. 2 m niður er stallur eða sylla, sem kölluð er Magnúsarbæli. Tveir bókstafir eru höggnir í sylluvegginn og er sá fyrsti H, en hinn man ég ekki, hver er,” segir í örnefnaskrá. Áletrunin er í Hrafnagjá um 165 m vestan við bæ.
Hrafnagjá.
Áletrunin er á innanverðum suðaustari gjárveggnum. Gjáin liggur norðaustur-suðvestur. Bælið og áletrunin eru suðvestan við allháan hól sem sprungan liggur í gegnum.
Samkvæmt heimildamanni, Sæmundi Þórðarsyni, mátti ekki slá of nærri gjánni vegna huldufólks. Það sem sést af áletrun í gjánni er fangamarkið SJ efst, þar fyrir neðan ártalið 1888 og neðst stafurinn M. Annað sést ekki skýrt.
Sigurður Jónsson bjó á jörðinni og er fangamarkið að öllum líkindum hans. Áletrunin er vandlega gerð og hefur ekki veðrast mikið. Sæmundur Þórðarson hefur reynt að fylla upp í gjána með braki úr bragga til að minnka hættu á slysum.
Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla II, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2014.
Vatnsleysuströnd – örnefni – ströndin.
Vatnsleysuströnd – örnefni – heiðin.