Færslur

Geirfugl

Þorvaldur Thoroddsen skrifaði “Landfræðissögu Íslands – Hugmyndir manna um Ísland, náttúruskoðun og rannsóknir, fyrr og síðar“. Bókin var gefin út af Hinu íslenzka bókmenntafjelagi 1904. Í henni má t.d. lesa eftirfarandi um rannsóknir á fuglum hér á landi, auk þess Þorvaldur fjallar um geirfuglinn:

Þorvaldur Thoroddsen

Þorvaldur Thoroddsen: 1855-1921.

“Um dýraríki Íslands vita menn miklu minna en um grasaríkið, enda er það eðlilegt, rannsóknir dýralífsins á æðra og lægra stigi eru miklu örðugri aðgöngu, það er miklu meiri fyrirhöfn að ná í dýrin en plönturnar og nákvæm þekking fæst ekki nema með samvinnu margra vísindamanna, sem hafa sérstaka þekkingu á hinum einstöku dýraflokkum. Rannsóknir dýralífsins eptir kröfum vísindanna nú á dögum útheimta góð söfn náttúrugripa og bóka og hentug verkfæri og eru því yfirleitt miklu kostnaðarsamari en rannsóknir í grasafræði; Íslendingar hefðu því haft lítil tök á að rannsaka dýralíf landsins, þó áhugi hefði verið á því, en hann hefir nú optast líka vantað. Tiltölulega var dýraríki Íslands betur kunnugt um lok 18. aldar en um lok 19. aldar, því fyrst og fremst voru kröfurnar þá miklu minni og svo gjörðu þeir menn, sem þá voru sendir til að kanna Ísland allharðar tilraunir til þess að fá yfirlit yfir dýralíf landsins í heild sinni; hið litla, sem unnið hefir verið að dýrafræðisrannsóknum á 19. öld, er flest í molum, rannsóknir ýmsra dýraflokka án samanhengis, og við suma flokka og það allmarga, hefir ekkert verið fengizt; opt hafa þessar rannsóknir verið framkvæmdar á hlaupum eða í sambandi við dýrarannsóknir annarra landa.
Þorvaldur ThoroddsenEggert Ólafsson lagði grundvöllinn undir dýrafræði Íslands (III., bls. 54—56), hann braut þar ísinn, eins og svo víða í öðrum greinum; 1786 samdi N. Mohr yfirlit yfir allt dýraríki Íslands og ýmsir aðrir skráðu sitthvað fleira um dýrafræði landsins; þessa höfum vér alls getið að nokkru áður, en munum hér fara fáum orðum um það, sem ritað hefir verið á 19. öld. (1800—1880). Frá þessari öld er ekki til nein bók um allt dýraríki Íslands, því tegundatal eptir Th. Gliemann (1824) er varla teljandi. Benedikt Gröndal samdi í Gefn dýrafræðisyfirlit og telur þar nokkrar íslenzkar tegundir og kyn úr flestum flokkum; í dýrafræði sinni telur hann einnig mörg íslenzk dýr og skapar ný nöfn á flokkum og ættum; voru þessi rit mjög þörf, því ekkert hafði áður verið ritað á íslenzku um almenna dýrafræði Íslands. F. A. L. Thienemann rannsakaði mest og bezt íslenzk spendýr, einkum seli, en af riti hans um dýrafræði íslands kom aldrei út nema fyrsta hefti.

Þorvaldur Thoroddsen

Þorvaldur Thoroddsen – Íslandskort 1906.

Um engan íslenzkan dýraflokk hefir verið ritað eins mikið eins og um fugla; margt af því er reyndar ómerkilegt, en sum ritin eru ágæt, svo enginn dýraflokkur á Íslandi er nú eins vel kunnur og þessi, þó vantar enn fullkomna fuglafræði, sem að öllu leyti samsvarar kröfum tímans. Á seinni hluta 18. aldar fékkst þegar allmikil fræðsla um íslenzka fugla og má margt um þá lesa í ritum Eggerts Ólafssonar, N. Mohr’s, M. Th. Brúnnich’s, Sveins Pálssonar o. fl.; höfum vér áður drepið á fuglarit þessara manna. Eggert Ólafsson lýsti 69 fuglategundum, N. Mohr telur 66, Sveinn Pálsson athugaði lifnaðarhátt fugla og tók eptir mörgu, en það kom ekki á prent. Í dýrafræði Danmerkur eptir 0. F. Muller eru einnig nefndir nokkrir íslenzkir fuglar og önnur dýr og þar eru líka allmörg íslenzk dýranöfn; rit þetta er aðeins dýratal með örstuttum lýsingum.

Sveinn Pálsson

Sveinn Pálsson.

Fr. Faber afkastaði miklu meira í þessu efni og hann má heita höfundur og faðir íslenzkrar fuglafræði á 19. öld. Árið 1822 gaf hann út ágrip af íslenzkri fuglafræði, og telur þar 86 fuglategundir. Í ágripi þessu nefnir höf. fyrst hin latnesku nöfn og svo hin íslenzku og eru flestöll alveg rétt.
Faber ritaði síðar miklu meir um íslenzka fugla. Í hinu þýzka tímariti »Isis«, sem L. Oken (1779—1851) gaf út, lét hann á árunum 1824—27 prenta margar ritgjörðir um íslenzka fugla; þær eru viðaukar og skýringar við fuglafræðiságripið, og að vöxtum helmingi lengra mál en sú bók.
Ritgjörðir þessar eru ómissandi fyrir þá, er stunda fuglafræði Íslands, en þeim virðist hafa verið lítill gaumur gefinn. Þar er nákvæm lýsing fuglanna á ýmsum aldri, sagt frá hinni ytri og innri byggingu og fjölda margar athuganir um lifnaðarhátt þeirra. Aptan við þessar greinir er frásögn um ferð þeirra Raben’s greifa, Mörch’s og Faber’s út í Geirfuglasker; þeir gátu engan bát og enga menn fengið til þess að flytja sig þangað, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og urðu að leigja fiskijakt í Keflavík fyrir 32 specíur; þeir komust með lífshættu upp í Geirfuglasker og sýndi Raben greifi mikinn dugnað og dirfsku og var nærri drukknaður; ferðin varð þó árangurslaus, hún var gjörð til þess að ná í geirfugl, en þeir sáu engan.

Japetus Steenstrup

Japetus Steenstrup: 1813-1897.

Aðrir Danir rituðu á þessu tímabili mjög lítið um íslenzka fugla. Charles Teilmann gat um nokkra í fuglariti sínu og J. H. Reinhardt ritaði nokkrar smágreinir; hann getur þess meðal annars, að svartur íbis (ibis falcinellus) hafi komið til suðurstrandar Íslands vorið 1824, þeir voru 10—12 í hóp og voru 5 skotnir, allt fullorðnir fuglar, og komust þeir á dýrasafnið í Kaupmannahöfn. Reinhardt ritaði einnig um íslenzkar álptir, mest um beinabyggingu þeirra og um eyðingu geirfuglsins; hann getur þess, að 1823 hafi tveir geirfuglar náðzt á Eyrarbakka, og voru þeir sendir á dýrasafnið í Kaupmannahöfn, 1828 kom slæmur hamur frá Reykjavík og ennfremur hamir og egg 1830; var þá sagt, að geirfuglinn væri flúinn úr skerinu upp að landi vegna eldgossins, sem þar varð í nánd á því ári; 1831 voru líka boðnir til sölu í Kaupmannahöfn 20 geirfuglshamir og alls náðust þá á Íslandi eptir reikningi Reinhardt’s 27 geirfuglar á tíu árum.

Geirfugl

Geirfuglasker – lýsing af búsetusvæði geirfugls, Geirfuglaskeri, er úr handriti Lbs 44 fol. sem prentað er í 1. bindi Rauðskinnu.

Árið 1833 komu Englendingarnir G. C. Atkinsson og William Proctor til Íslands og veiddu fugla í nágrenni Reykjavíkur. 1837 kom W. Proctor aptur til landsins. O. O. Fowler og Shepherd ferðuðust víða bæði um Suður- og Vesturland 1862 og athuguðu fugla. Þessir menn rituðu ekkert sjálfstætt, en aðrir fuglafræðingar einkum A. Newton fengu hjá þeim ýmsa fræðslu um fuglafræði Íslands. Mönnum var sérstaklega mikil forvitni á að fá að vita eitthvað um geirfuglinn, einkum eptir að hann fór að verða mjög sjaldgæfur og hvarf að lokum. Hina ítarlegustu ritgjörð um geirfuglinn samdi Japetus Steenstrup 1855, síðan ritaði Edvard Charlton um fuglinn 1859 og A. Newton 1861 ágæta ritgjörð.

Geirfugl

Geirfugl – beinagrind.

Í sorphaugum steinaldarþjóða við strendur Danmerkur fann Jap. Steenstrup mikið af geirfuglsbeinum og réði af því, að geirfuglinn mundi í fyrndinni hafa haft miklu víðari útbreiðslu en á seinni öldum; menn höfðu líka fundið allmikið af geirfuglsbeinum vestan hafs á eyjum við Newfoundland og Labrador. Steenstrup safnaði nú saman öllum fregnum um geirfuglinn, er hann gat náð í, til þess að fá vissu um útbreiðslu hans á fyrri öldum. Flestir náttúrufræðingar ætluðu, að geirfuglinn væri mjög norrænn fugl og að varpstaður hans hinn síðasti á Geirfuglaskerjum við Reykjanes væri við hin syðstu takmörk þess svæðis, er var hið upprunalega heimkynni hans, en Steenstrup sýndi með rökum, að þessi skoðun var skökk og að heimkynni geirfuglsins einmitt lágu sunnar.

Geirfugl

Geirfugl – skilti til minningar um útdauðan geirfuglinn á Fogo-eyju á Nýfundnalandi.

Með því að kynna sér gömul rit fann Steenstrup, að geirfuglinn hafði á 16. og 17. öld verið algengur á eyjum og skerjum við austurströnd Norður-Ameríku, en eyddist af gegndarlausu drápi og ofsókn sjómanna, sem þar komu; þeir ráku hina varnarlausu, ófleygu og heimsku fugla þúsundum saman til slátrunar og notuðu þá bæði til fæðu og eldsneytis, og er opt getið um þetta fugladráp í fornum ferðasögum. Á Grænlandi var geirfuglinn aldrei almennur, á 18. öld sázt hann stundum á útskerjum sunnan til á Vesturströndinni. Á Íslandi var geirfuglinn algengari, en þó orðinn sjaldgæfur á dögum Eggerts Ólafssonar og varp þá aðeins á tveim stöðum við Suðurland, á Geirfuglaskerjum við Reykjanes og Geirfuglaskeri við Vestmanneyjar.

Geirfugl

Geirfugl – stytta á Fogo-eyju.

Steenstrup segir, að menn fyrst í útlöndum hafi fengið vitneskju um geirfuglinn á Íslandi af bók Anderson’s borgmeistara í Hamborg 1747, en það er eigi alveg rétt; Pétur Resen hafði um miðja 17. öld lýst geirfuglinum í Íslandslýsingu sinni (II., bls. 187), en rit hans hafa þó líklega fáir þekkt. Um lok 18. aldar var geirfugl horfinn frá skerjum við Vestmanneyjar, en lengur hélst hann við á Fuglaskerjum við Reykjanes, þó geirfuglarnir þar jafnan væri fremur fáir, að minsta kosti á seinni öldum; loks hröktust geirfuglarnir úr skerjunum af eldgosum og ofsóknum manna og tveir hinir síðustu geirfuglar, karlfugl og kvennfugl, létu líf sitt 1844; þeir höfu orpið í Eldey, nær landi en venja þeirra var, og voru teknir þar; síðan hefir fuglategund þessi hvergi sézt.

Geirfugl

Geirfugl – stytta við strönd Ameríku.

Á Færeyjum voru geirfuglar fremur algengir á 17. öld, en fækkaði smátt og smátt og voru alveg horfnir um lok 18. aldar. A St. Kilda við Skotland urpu geirfuglar á 17. öld, en á fyrri hluta 18. aldar voru þeir orðnir sjaldgæfir og seinast á þeirri öld og framan af hinni 19. náðust örfáir flækingar við útsker nærri ströndum Skotlands og Englands. Á þeim tímum, sem sögur fara af, hafa geirfuglar aðeins orpið á útskerjum við hið norðvestlæga Atlantshaf, kringum Newfoundland, við suðurströnd Íslands, á St. Kilda og Færeyjum; aðalheimkynnið mun þó hafa verið við Newfoundland og nálægar strendur.
Áður hefir útbreiðsla fuglsins verið miklu meiri og hann hefir þá verið algengur í Danmörku, við Bretland og líklega sunnan til í Skandínavíu; smátt og smátt hefir geirfuglinn eyðzt af ofsóknum manna, af því hann gat enga björg sér veitt, og svo var viðkoman lítil, því fuglarnir áttu aldrei nema eitt egg á ári.

John Wolley

John Wolley: 1823–1859.

Enskur fuglafræðingur John Wolley jun. (1823—1859) hafði mikinn áhuga á að rannsaka sögu geirfuglsins og hafði í öðrum löndum grafizt eptir fregnum og fræðslu, sem þar að laut; í aprílmánuði 1858 ferðaðist hann til Íslands í sömu erindagjörðum og annar enskur náttúrufræðingur, vinur hans Alfred Newton, slóst í förina með honum. Þeir voru nokkrar vikur í Reykjavík og fóru svo suður á Reykjanes og dvöldu í Kirkjuvogi í Höfnum frá því 21. maí til 14. júlí, ætluðu þeir út í Eldey og Geirfugladrang, en aldrei gaf sakir brima. Þeir félagar söfnuðu öllum fregnum um geirfuglinn, sem þeir gátu uppspurt og Wolley fann töluvert af geirfuglsbeinum í sævarsandi og sorphaugum hjá Kirkjuvogi og Bæjarskerjum. Þeir voru hvatamenn til þess, að Eirikur Magnússon (í Cambridge) fór sama sumar á báti út að Geirfuglaskeri því, sem liggur út af Berufirði; þar var eigi hægt að lenda fyrir brimi, en þeir réru kringum skerið svo nærri, að þeir gátu sannfærzt um, að þar voru engir geirfuglar, enda mundu menn ekki i nálægum héruðum, að fuglinn hefði sézt þar, þó hann ef til vill hafi orpið þar til forna.

Geirfugl

Geirfugl – eyjar og sker undan Reykjanesi.

John Wolley ætlaði að rita bók um geirfuglinn og sögu hans, en entist eigi aldur til þess, því hann andaðist 20. nóvember 18591). Alfred Newton setti síðar saman í ritgjörð ágrip af athugunum þeim og fregnum um geirfuglinn, sem þeir Wolley höfðu safnað á Íslandi og er ritgjörð þessi einkar fróðleg og segir sögu geirfuglsins við Fuglasker betur en nokkurt annað rit, margt eptir munnlegum frásögnum bænda og sjómanna í Höfnum og á Suðurnesjum.
Síðar samdi A. Newton ritgjörð um íslenzka fugla; þar er fyrst yfirlit yfir allt það, sem þá hafði verið skráð um fuglafræði Íslands, þá almennar hugleiðingar um fuglalíf á Íslandi og svo taldar allar þær fuglategundir, sem þá þekktust á Íslandi, og telur Newton 88 tegundir; yfirlitið er fróðlegt og vel frá því gengið.”

Í Wikipedia segir m.a. um geirfuglinn:

Geirfugl

Geirfugl í norsku safni.

“Geirfugl (fræðiheiti Pinguinus impennis) er útdauð fuglategund af álkuætt. Geirfuglinn var allt að 70 cm hár, vó um 5 kg og var ófleygur. Í útliti líktist geirfuglinn nokkuð mörgæsum, en er ekki af sömu ætt. Geirfuglinn var góður sundfugl og nærðist einkum á fiski. Útbreiðslusvæði geirfuglsins voru strandsvæði Norður-Atlantshafsins.

Geirfuglinn var algengur víða í Norður-Atlantshafinu allt fram á 16. öld, en veiði gekk grimmt á stofninn. Lengst lifði geirfuglinn af við Ísland, en síðustu tveir geirfuglarnir voru drepnir í Eldey 3. júní 1844. Einhverjar sögur fara af því að til geirfugls hafi sést eftir það, einkum á Grænlandi allt fram á sjötta áratug 19. aldar, en óvíst er um áreiðanleika þeirra sagna.

Geirfuglaveiðar og útrýming

Geirfugl

Geirfugl – útbreiðslusvæði.

Geirfuglaveiðar voru stundaðar fyrr á öldum og farið út í eyjar þar sem geirfuglar lifðu. Í Íslandslýsingu sem talin er vera eftir Odd Einarsson biskup er þessi lýsing á slíkum veiðum: „Þegar fiskimenn fara þangað til fuglatekju, verða þeir fyrir árásum fugla þessara, sem ráðast á komumenn í þéttri fylkingu og með feiknakrafti og troða þá niður, nema mennirnir sjái við árásinni með því að drepa nokkra hina fremstu í fylkingunni. Þá snúa hinir frá og leggja á flótta,og er þá fyrirhafnarlítið að taka þá á undanhaldinu.”

Geirfugl

Geirfugl – Ole Worm (1588-1654) teiknaði myndina. Eina teikningin, sem til er af lifandi geirfugli.

Framan af var geirfugl veiddur til matar, en þegar fuglinum fór að fækka verulega fóru safnarar og náttúrugripasöfn að borga háar fjárhæðir fyrir fuglinn og má segja að það hafi verið hinn endanlegi dauðadómur tegundarinnar. Um 80 uppstoppaðir geirfuglar hafa varðveist til dagsins í dag. Einn þeirra má finna á Náttúrufræðistofnun Íslands, en hann fékkst á uppboði í London 1971 að undangenginni landssöfnun.

Carl Franz Siemsen kaupmaður í Reykjavík var umboðsmaður fyrir ýmsa erlenda vísindamenn og söfn. Árið 1844 er honum falið að ná í geirfugl og bauð hann bændum í Höfnum 300 krónur fyrir dauðan eða lifandi geirfugl. Það varð til þess að 4. júní 1844 fóru fjórir á stað til Eldeyjar og sjá þar tvo geirfugla sem sátu á klettasnös og sneru þá úr hálsliðnum.”

Í Lesbók Morgunblaðsins 1949 er grein um “Geirfuglinn“:
“Hinn 14. nóvember 1931 voru seld tvö geirfuglsegg á uppboði í London. Annað var selt fyrir 525, en hitt fyrir 524 sterlingspund. Með núverandi gengi samsvarar það hjer um bil 13.650 íslenskum krónum fyrir hvort egg. En hæsta verð, sem fengist hefir fyrir geirfuglsegg, er 682 stpd. 10 sh. og samsvarar það hjer um bil 17.750 ísl. krónum nú. Þetta geipiverð stafar af því, að ekki eru til nema 72 geirfuglsegg í veröldinni, og sum af þeim þó brotin.
GeirfuglGeirfuglinn var álkutegund, en ófleygur. Til þess bendir hið latneska nafn hans „Alca impennis“. En venjulega er hann nefndur pingvin (pengwyn, penguin). Er talið að það nafn sje af keltneskum uppruna. Pen þýðir höfuð og gwyn þýðir hvítt. En fuglinn var með stórar hvítar blesur upp frá nefinu. Íslendingar nefndu hann aftur á móti geirfugl. Halda sumir að það stafi af því að nefið á honum líktist spótsoddi, en mundi það ekki eins geta stafað af hinum hvítu geirum upp frá nefinu, og fuglinn þannig kenndur við það einkenni sitt á íslensku, alveg eins og á keltnesku?
Þegar menn kynntust mörgæsunum á suðurhveli jarðar, þóttu þær svo líkar geirfugli að þær hlutu nafnið pingvin. En enginn skyldleiki er með mörgæsum og geirfuglum. Mörgæsir hafa aldrei komist norður fyrir miðjarðarbaug og geirfuglar aldrei suður fyrir hann. Ekki var þó geirfuglinn íshafsfugl, heldur var hann dreifður um allar strendur norðanvert við Atlantshaf. Hafa leifar hans fundist víða á Norðurlöndum, svo sem Skáni, Jótlandi, Finnmörk og sunnanverðu Íslandi. Einnig á sunnanverðu Grænlandi, á Newfoundland og með austurströnd Ameríku alt suður að Floridaskaga.

Geirfugl

Geirfuglar við Reykjanes.

Geirfuglinn var fjelagslyndur og helt sig í stórhópum. Sjerstaklega var mikið um hann á Newfoundland. Um árið 1500 fóru skip ýmissa þjóða til fiskveiða við Newfoundland og var talið að skipverjar þyrfti ekki að hafa með sjer meiri matarforða en rjett til siglingarinnar vestur yfir hafið; síðan gæti þeir lifað á geirfugli og geirfuglseggjum. Á Funkey, sem er við norðvesturströnd Newfoundlands má enn í dag sjá rjettir, sem menn hlóðu til þess að reka geirfuglahópa inn í. Þar var svo fuglunum slátrað, en umhverfis rjettirnar fannst mikið af geirfuglabeinum og þótti það benda til þess að þessir veiðimenn hefði ekki hirt af þeim annað en fiðrið og látið skrokkana þar eftir.

Geirfuglasker

Geirfuglasker.

Á Geirfuglaskerjum, vestur af Reykjanesi, var ákaflega mikið af geirfugli. Í bók, sem kom út 1746, segir danskur maður, Johan Andersen, frá því að 1723 hafi verið svo mikið af geirfugli á Geirfuglaskerjum, að það hafi hlotið að vera forboði þess, að Friðrik konungur fjórði var feigur!
Árið 1831 sukku Geirfuglasker í sjó og varð fuglinn þá heimilislaus. Eitthvað af honum fluttist til Eldeyjar, en vegna þess að hann var ófleygur komst hann ekki upp á eyna, en varð að hafast við á lægstu stöllum, þar sem brim gekk yfir.
Smám saman var geirfuglinum útrýmt. Seinasti geirfuglinn í Eystrasalti var drepinn i Kielfirðinum 1790. Hann var þá fyrir löngu aldauða vestan hafs. Er talið að um 1700 hafi enginn geirfugl verið til á Newfoundland. Í Orkneyjum var seinasti fuglinn drepinn 1835, og seinustu fuglarnir við Ísland drepnir í Eldey 1844. Um það er þessi saga:
SiemsenCarl Franz Siemsen kaupmaður í Hamborg byrjaði að versla í Reykjavík laust fyrir 1840. Hann bygði verslunarhúsið austur við læk, þar sem Ziemsensverslun var seinna. Carl Fr. Siemsen var hjer aðeins á sumrin. (Það er fyrsta húsið i Reykjavík sem bygt er með leyfi byggingarn.). Hann var mjög vel mentaður maður og var um boðsmaður fyrir ýmsa erlenda vísindamenn og söfn. Árið 1844 hafði honum verið falið að ná i geirfugla. Hann sneri sjer til bændanna í Höfnum og bauð þeim 100 krónur fyrir hvern geirfugl, dauðan eða lifandi, sem þeir gæti fært sjer. Þetta var freistandi tilboð og Hafnamenn stóðust það ekki.

Geirfugl

Geirfugl – horft til Eldeyjar.

Hinn 4. júní 1344 lögðu þeir fjórir á stað til Eldeyjar á báti, Vilhjálmur Hákonarson, bóndi á Stafnesi, Ketill Ketilsson bóndi í Kotvogi, Sigurður Ísleifsson og Jón Brandsson. Þegar til Eldeyjar kom sáu þeir hvar tveir geirfuglar sátu á ofurlítilli klettasnös. Þeir reru þangað og tókst að handsama fuglana. Greip Jón Brandsson annan, en Sigurður hinn og sneru þá úr hálsliðunum. Lítt mun þá hafa grunað að með þessu tiltæki væri þeir að útrýma einni fuglategund úr heiminum. En svo var þó. Þetta eru seinustu lifandi geirfuglarnir, sem nokkur maður hefir sjeð. Þess vegna eru nú geirfuglaegg í slíku verði sem að framan er sagt. Og ekki eru geirfuglahamir ódýrari, en talið er að til muni vera 80 af þeim í heiminum.”

Í Lesbók Morgunblaðsins 1936 var einnig grein um “Geirfuglinn“:

Geirfugl

Geirfugl í Glasgow til minningar um að síðasti geirfuglinn þar var veiddur á St. Kilda um 1840.

“Árið 1534 komu franskir sjófarendur að lítilli ey skammt undan New Foundlandi. Þar var óhemju grúi af stórum sundfuglum, sem ekki gátu flogið. Þetta voru geirfuglar. Og á hálfri klukkustund drápu Frakkar þarna svo marga fugla sem þeir gátu framast flutt með sjer á tveimur bátum.
En 300 árum seinna hefir fuglakyni þessu verið algerlega útrýmt á jörðunni. Eru nú tæp hundrað ár síðan að seinustu fuglamir tveir náðust hjer hjá Eldey. Það var 1844.
Um 200 ára skeið drápu sjómenn og innflytjendur á New Foundland fuglinn miskunnarlaust. Voru fuglarnir rotaðir með stöfum, og kjötið af þeim, sem ekki var etið nýtt, var saltað niður. Eggjunum var líka rænt, og kvað svo rammt að því, að soðin geirfuglsegg vom höfð til beitu.
Um 1622 var enn svo mikið eftir af geirfugli, að sjerstakar veiðiferðir voru farnar út í eyjarnar, þar sem hann hélt til. En nú var það ekki einungis gert til þess að ná í kjöt og egg, heldur í fjaðrirnar. Fuglarnir vom látnir ofan í sjóðandi vatn og lá þá fiðrið laust á þeim, en til þess að hita vatnið, var kynt undir með fuglakroppunum, því að þeir voru svo feitir, að þeir loguðu eins og lýsi.

Geirfugl

Geirfuglsegg.

Geirfuglinn verpti aðeins einu eggi og var viðkoman því lítil, enda gekk fuglinn fljótt til þurðar með þessu framferði og í byrjun 19. aldar var hann aldauða hjá New Foundlandi.
Geirfuglinn hafði áður verið miklu víðar, á Íslandi, Færeyjum, Orkneyjum og nokkrum öðrum stöðum. Um 1753 og lengur verpti hann enn á eynni St. Kilda, en seinasti fuglinn var drepinn þar 1821. Lengst lifði hann í Geirfuglaskerjum, en er þau sukku í sjó í eldsumbrotunum fyrir Reykjanesi 1837, var seinasta athvarf hans farið, og eins og áður er sagt, veiddust seinustu geirfuglarnir, sem sögur fara af, hjá Eldey, hinn 3. júní 1844. Munnmæli ganga þó um það, að geirfugl hafi sjest hjá New Foundlandi 1852, og dauður geirfugl hafi fundist þar 1853, en engar sannanir eru fyrir því.
GeirfuglÍ fornöld hefir geirfuglinn verið miklu víðar. Bein úr honum hafa fundist í sorphaugum í Danmörk, í leirmyndunum hjá Ítalíuströnd, og mynd af honum er í helli, sem steinaldarmenn hafa byggt á Spáni. Bein úr honum hafa einnig fundist í sorphaugum á austurströnd Ameríku, alla leið suður að Floridaskaga.
Geirfuglinum var útrýmt vegna þess hvað hann var stór (á stærð við gæs) og vegna þess að hann gat ekki flogið. Að vísu hafði hann vængi, en þeir voru ekki til flugs, heldur til að synda með í kafi. Og þá var fuglinn svo hraðsyndur, að enginn róðrarbátur hafði við honum.
Talið er, að í öllum heiminum sje aðeins til 80 geirfuglahamir og 75 egg. Auk þess eru til nokkrar beinagrindur af honum. Eggin og hamirnir eru dýrgripir, en sjaldan á boðstólum. Nýlega var þó geirfuglshamur boðinn fyrir 16.000 króna, og fyrir tveimur árum voru seld á uppboði í London 6 geirfuglsegg og tveir hamir. Eggin seldust á 2400—7200 krónur, eftir því hvað vel þau voru útlítandi. En báðir hamirnir voru seldir fvrir 20.000 króna.”

Heimild:
– Landfræðissaga Íslands. Hugmyndir manna um Ísland, náttúruskoðun og rannsóknir, fyrr og síðar, eptir Þorvald Thoroddsen. Gefin ut af Hinu ísienzka bókmenntafjelagi. Kaupmannahöfn 1904, bls. bls. 201-216.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Geirfugl
-Lesbók Morgunblaðsins, 13. tölublað 03.04.1949, Geirfuglinn, bls. 186-187.
-Lesbók Morgunblaðsins 14.06.1936, Geirfuglinn, bls. 180.
-https://www.facebook.com/geirfuglinn/?locale=is_IS
-https://sketchfab.com/3d-models/geirfugl-great-auk-3520470cc4884d018d827d838eed4337

Geirfugl

Geirfugl – skilti um geirfuglinn á Reykjanestá. Sjá meira HÉR.