Tag Archive for: Nauthólsvík

Nauthólsvík

Nauthólsvík er lítil vík norðan megin í Fossvogi suðvestanmegin við Öskjuhlíð. Víkin heitir eftir kotinu Nauthól sem stóð þar við rætur Öskjuhlíðar í landi Skildinganess. Í Nauthólsvík er skeljasandur og þar hefur verið vinsælt útivistarsvæði frá því eftir Síðari heimsstyrjöld þegar Reykjavíkurborg eignaðist landið. Áður hafði breski herinn tekið landið eignarnámi (hvernig s.s. það gekk fyrir sig?) fyrir Reykjavíkurflugvöll og byggingar honum tengdar. Í Nauthólsvík var braggabyggð í stríðinu og hótel fyrir flugvallarfarþega.

Nauthólsvík

Í Nauthólsvík.

Í Nauthólsvík er vinsælt að stunda alls kyns vatnaíþróttir, svo sem sjósund, kajakróður, kænusiglingar, seglbrettasiglingar og kappróður. Siglingafélag ÍTR, Siglunes, Siglingafélag Reykjavíkur, Brokey og Sportkafarafélag Íslands eru þar með aðstöðu, en auk þeirra er fjöldi íþrótta- og áhugamannafélaga með aðstöðu í og við Nauthólsvík.

Nauthólsvík

Öskjuhlíð og nágrenni 1945.

Árið 1932 falaðist Íþróttasamband Íslands eftir lóð í Nauthólsvík til að gera þar sundskála og íþróttavelli. Árið 1936 var þar skipulagt íþróttasvæði með stórum íþróttaleikvangi, átta knattspyrnuvöllum og níu tennisvöllum. Kappróðradeild Ármanns hóf þá að reisa þar hús yfir tvo innróna kappróðrabáta sem félagið átti og hafist var handa við að gera skeiðvöll fyrir kappreiðar. Framkvæmdir við svæðið lögðust hins vegar alveg af þegar breska setuliðið á Íslandi tók það undir braggabyggð í tengslum við Reykjavíkurflugvöll. Á styrjaldarárunum var því farið að horfa til Laugardals sem framtíðarsvæðis fyrir íþróttaiðkun í Reykjavík.

Nauthólsvík

Nauthólsvík – bryggja.

Eftir styrjöldina var róðradeild Ármanns starfrækt í Nauthólsvík. Síðar bættist við bátaskýli Róðrarfélags Reykjavíkur. Siglunes, siglinga- og róðraklúbbur æskulýðsráða Reykjavíkur og Kópavogs, var stofnaður árið 1962 og vorið 1967 keypti klúbburinn síðarnefnda bátaskýlið sem þá átti að rífa og hóf þar starfsemi. Á 8. áratugnum var skýlið stækkað mikið og steyptur rampur frá húsinu að sjó.

Frá 1971 til 1983 voru hátíðahöld á sjómannadaginn haldin í Nauthólsvík, en 1984 var dagskráin flutt yfir í Reykjavíkurhöfn.

Núverandi Ylströnd í Nauthólsvík átti sér nokkrun aðdraganda, allt frá því að setuliðið hlóð frárennisrás frá herkampinum við Nauthól, sem síðar var notaður sem affall frá heitavatnstönkunum á Öskjuhlíð.

Í Vísi 1977 var fjallað um „Nafntogaðan læk„:

Nauthólslækur

Nauthólslækur – loftmynd 2023.

„Sá einstæði atburður gerðist á fimmtudaginn í síðustu viku að fólk lagðist í sólbað á Íslandi, í miðjum október. Fjölmenni var í læknum góða í Nauthólsvík, sem nú getur státað af mörgum ágætum nöfnum. Hann er kallaður: Volga, Læragjá, Beruvík, Læralind og Dóná, svo nokkuð sé nefnt. Nafntogaður lækur það.“

Á Wikipedia er kafli um „Læragjá„:

Nauthólslækur

Nauthólslækur. Vestan við Lyngberg er uppþornaður lækjarfarvegur sem nær frá göngustíg og suður í sjó, um 80 m. Upprunalega var þetta frárennslisskurður frá tíma setuliðsins og lá með öllum Nauthólsvegi að vestanverðu. Nú er einungis syðsti hluti hans sýnilegur og grjóthlaðinn. Hitaveita Reykjavíkur leiddi affallsvatn úr heitavatnsgeymunum á Öskjuhlíð í lækinn á árunum 1968 til 1983. Í örnefnalýsingu Skildinganess segir: „Í Nauthólsvík … fellur til sjávar tilbúinn lækur, heitur, yfirfall frá Hitaveitu Reykjavíkur, nú vinsæll baðstaður, rétt við Lyngberg. Nú hefur lækurinn verið lagfærður og byggður upp. Sumir hafa nefnt lækinn Volgu og gjána þar sem menn baða sig í Læragjá. Vel má vera að þessi örnefni eigi enga framtíð fyrir sér en eru skemmtileg samt sem áður.“ Hætt var að veita affalli frá heitavatnstönkunum á Öskjuhlíð í lækinn 1985 vegna ógætilegrar umgengni baðgesta við lækinn.

„Læragjá var nafn sem var notað um breiðasta og dýpsta hluta lækjarins í Nauthólsvík þar sem fólk baðaði sig, sérstaklega eftir að skemmtistöðum var lokað. Margir böðuðu sig þar naktir og fékk staðurinn nafn af því. Vatnið var yfirfallsvatn úr heitavatnstönkunum uppi á Öskjuhlíð og var affall sem seytlaði í lækinn úr framræsluskurði með hlíðinni. Þar sem menn böðuðu sig var hlaðið dálítið baðsvæði með höggnu grjóti. Löngum fór orð af gjálífi í læknum, og auk þess voru drukknir menn oft nærri drukknaðir í honum, og sökum þessa beindi borgarstjórn því til hitaveitustjóra hvort framkvæmanlegt væri að loka fyrir rennsli í lækinn að næturlagi. Hætt var að láta heitt vatn renna að næturlagi í Læragjá um 1980. Um líkt leyti komu upp hugmyndir um að breyta svæðinu þar í kring í hitabelti undir þaki. Af því varð þó aldrei.
Lækurinn gekk einnig undir ýmsum öðrum heitum, svo sem: Volga, Beruvík, Læralind, Dóná og Rasslind, en var oftast nefndur Læragjá.“

Í Lesbók Morgunblaðsins 1976 skrifar Ásgeir Jakobsson svonefnda „Öskjuhlíðarþanka„:
„Það var eldsnemma, rúmlega sjö, á laugardagsmorgni þann 10. júlí aö ég rölti uppí Öskjuhlíð að njóta sólar eftir langan dumbungskafla. Ég fann orðið til dálítillar sektarkenndar gagnvart þessari vinkonu minni og reykvísku heimasætu eftir langt framhjáhald með öðrum og reisulegri meyjum í nágrenni Reykjavíkur, svo sem Esjunni og fleiri hennar líkum. En nú þarf ég að endurnýja kynnin, og kominn heim eftir langa útivist, sá ég strax margt, sem hafði dulizt mér í hlaðvarpanum.

Nauthólslækur

Nauthólslækur. Farvegur lækjarins er greinilegur frá göngustíg neðan við Nauthólsveg að sjó, liggur nánast norður-suður. Hann er V laga, hlaðinn úr grjóti með steypu á milli. Stærð steina er breytileg frá 20 x 10 cm upp í 40×70 cm, blanda af tilhöggnum brúnsteinum og kantsteinum auk náttúrulegra steina. Sjö þverhleðslur, stíflur, eru í læknum til að stöðva vatnið, lækurinn er um 3 m breiður en sumstaðar er lækjarfarvegurinn breiðari, t.d. fyrir ofan stíflurnar, en þar er hann allt að 7 m að breidd þar sem hann er breiðastur. Neðarlega í lækjarfarveginum eru leifar af trébrú og fyrir neðan hana breikkar farvegurinn aftur og er neðsta þverhleðslan við fjöruna er um 5 m á lengd. Áletrunin „EH77“ er höggvin í einn hleðslusteininn í vesturbakkanum, nánast neðst fyrir ofan syðstu þverhleðsluna. Farvegurinn er nú grasi gróinn með töluverðum trjágróðri og ekkert vatn er í honum lengur. Gengið var með bökkum lækjarins og þeir mældir inn.

Ég fór léttan stíg niður hlíðina, enda í svo góðri þjálfun. Þegar ég nálgaðist, sá ég konur baukuðu sér en karlmenn stóðu álengdar og horfðu til þeirra. Þær vóru að tína af sér spjarirnar. Sú athöfn er vissulega ein af undirstöðuathöfnum mannlífsins og útá hana hefur margur maðurinn fæðst og alltaf er nú þetta forvitnilegt verk — kona að hátta —. Þó að mestu skipti í hvaða tilgangi hún háttar.

Berrassað fólk á asfalti eða í borgarumhverfi er hjákátlegt og særir augað og hjartað og ergir skynsemina. Bert mannsholdið fellur ekki vel við borgarumhverfið. Nakin kona á steinsteypunni er eins og blóm, sem fallið hefur á gangstétt. — Hins vegar myndi allsbert fólk sóma sér vel á beit úti í guðgrænni náttúrunni.
Þegar fólk vill leita uppruna síns í einu eða öðru tilliti þá verður það að gæta þess, að gera það í samsvarandi umhverfi. Sem sagt: Strípaður maður á almannafæri í borg, á þar ekki heima fremur en maður á lakkskóm með pípuhatt og í kjólfötum í fjallgöngu.
Þegar ég hafði uppgötvað hvað var að gerast vissi ég til hvers þetta fólk var komið. Það ætlaði, a.m.k., eitthvað af því, að baða sig í hinni frægu Læragjá, eins og margir nefna þessa nýju heilsulind, sem fellur úr Öskjuhlíðinni. (Rasslind, eins og sumir nefna Lindina finnst mér ósmekklegt, en óneitanlega réttnefni). Ég hafði aðeins heyrt þessarar heilsulindar getið svo og þess að meiningar væru deildar um ágæti hennar. Nú gafst mér tækifæri eldsnemma morguns að fylgjast með heilsuræktinni.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð 1946.

Vatnið í Læragjá er affall frá hitaveitugeymunum uppi á Öskjuhlíðinni, en einnig seytlar í hana skurðvatn úr framræsluskurði í brekkukverkinni vestur með hlíðinni. Í rauninni er heilsulindarfarvegurinn framræsluskurður, sem hefur verið hugsaður til að veita vatnsaganum ofan úr hlíðinni og undan henni til sjávar og þurrka upp svæðið vestan við skurðinn. Vegurinn að bátanaustinu og gufuböðunum og reyndar öllum hinum gamla baðstað liggur yfir skurðinn þar sem affallsrörin koma í hann, en þau liggja senni]ega nokkurn veginn beint frá geymunum efra.

Nauthólslækur

Nauthólslækur (Sigmund-mbl).

Í Læragjá eru þrjú uppistöðulón; það hafa verið hlaðnar stíflur á þremur stöðum í stokknum og þær mynda þessi lón, hvert svo sem eins og tvær mannslengdir. Stíflurnar hljóta náttúrlega að draga úr gegnumstreyminu.
Eiginmenn, (eða það skyldi maður halda), kvennanna, sem voru í vatnsnuddinu, stóðu á skurðbakkanum og horfðu ólundarlega á konur sfnar, en þær brostu alsælar á móti. Þarna var mikið hold, sem þurfti að fjarlægja, og líklegra verkefni fyrir Dettifoss en þessa lækjarsytru úr hitaveitugeymunum. Það kom á daginn, að það hafði fleirum dottið í hug að þörf gæti reynzt á kraftmeira rennsli. Eg spurði:
—Finnst ykkur þetta hafa borið árangur?
Mennirnir vóru seinir til svars.
Loks sagði annar:
— Það skiptir nú minnstu, hvað okkur finnst. Þær segja að þetta grenni þær, en þú sérð nú að eitthvað er eftir þarna niðri í skurðinum.
— Það þarf að auka rennslið, sagði ég hughreystandi.
— Já, sagði nú hinn maðurinn ákafur, þaö var einmitt það, sem ég sagði við mína konu í morgun, að ef hún ætlaði að ná af sér spikinu með vatnsrennsli, segði þessi spræna lítið, hins vegar skyldi ég fara með hana austur í Þjórsá, þar sem hún fellur þrengst og leggja henni þar við stjóra fram yfir aldamót …“

Í Morgunblaðinu 1978 segir: „Menn nær drukknaðir, slagsmál tíð og ástarlíf með áhorfendum„:

Nauthólsvík

Nauthólslækur (Mbl. Ó.K.M)

„Útideild og lögreglustjóri hafa áhyggjur af Læragjá – Menn nær drukknaðir, slagsmál tíð og ástarlíf með áhorfendum.

Fyrir tilstuðlan Æskulýðsráðs Reykjavíkurborgar er nú lækurinn í Nauthólsvík eða Læragjá, eins og hann er oft nefndur, að nýju kominn á dagskrá í borgarstjórn. Upphaf pessa nýja erindis fyrir borgarstjórn má rekja til bréfs frá Útideild/Eskulýðsráðs og Félagsmálaráðs, en þar kemur fram að ástandið að næturlagi við lækinn veldur starfsfólki deildarinnar miklum áhyggjum og að það telur nauðsynlegt að koma vitneskju þeirra um ástandið á framfæri við viðkomandi yfirvöld. Sendi því Útideildin bréf til Æskulýðsráðs, Félagsmálaráðs og Heilbrigðisráðs.
Í bréfi Útideildar kemur fram, að hún hefur margsinnis í störfum sínum kannað ástand og fjölda ungs fólks við hinn margumtalaða læk við Nauthólsvík. Á umliðnum vetri hafi oft verið mjög slæmt ástand þar en þó einkum að næturlagi um helgar.

Nauthólsvík

Nauthólslækur. Mbl. Ó.K.M.)

Þá hafi fólk safnazt saman í tugatali, yfirleitt dauðadrukkið og tekið sér bað í læknum, ýmist í alfatnaði, hálfnakið og jafnvel allsnakið. Ekki hafi verið óalgengt að sjá fólk í samförum og stóran hóp áhorfenda umhverfis. Mikið er um flöskubrot og annan óþrifnað, og fólk gerir þarfir sínar í lækinn eða nánasta umhverfi hans, þar sem engin hreinlætisaðstaða er fyrir hendi. Meiðsli eru einnig tíð að því er fram kemur í bréfinu.
Flest er fólkið yfir tvítugt en einnig eru áberandi hópar unglinga og hefur sá hópur alltaf stækkað með hækkandi sól, að því er segir f bréfinu. Er það álit starfsmanna Útideildar að mesta mildi sé að ekki skuli nú þegar hafa hlotizt þarna af stórslys, og segir í bréfinu að miðað við núverandi aðstæöur telji starfsmenn deildarinnar algjörlega óforsvaranlegt aö fólk hafi aðgang að læknum aö næturlagi.

Nauthólsvík

Nauthólslækur. (Mbl. Ó.K.M.)

Í framhaldi af þessu ritaði Æskulýðsráð lögreglustjóranum í Reykjavík bréf og óskaði umsagnar hans, og er sú umsögn barst var hún lögð fram í borgarráði ásamt bréfi Útideildar. Umsögn lögreglustjóra er mjög á sömu lund og bréf Útideildar. Hann getur þess í upphafi aö þessi afrennslislækur hafi lengi verið búinn aö renna til sjávar í Nauthólsvík án þess að nokkur vandræði hlytust af. Hins vegar hafi loks komið að því að ölvað fólk fór að sækja í lækinn um nætur, dagblöð að birta myndir og þar með hafi verið komin sú athygli og auglýsing er þurfti til að stefna því fólki þangað er sízt skyldi. Borgarstjórn hafi þá látið lagfæra lækjarbakkana og snyrta til svo vistlegra yrði á svæðinu en slíkt hafi dugað skammt er baðgestir kunnu ekki fótum sínum forráð.

Lögreglan

B-vakt lögreglunnar 1975. Hafði nóg að gera að nætulagi við Nauthólsvík.

Fram kemur í umsögn lögreglustjóra, að lögreglan hafi að undanförnu þurft að hafa dagleg afskipti af baðgestum sakir ölvunar, slagsmála og slysa og sé nú svo komið að ekki verði viðunað lengur. Sérstaklega sé ástand við lækinn um nætur slæmt eftir að dansleikjum lýkur, fólk haldi að baðstaðnum, og leggist í lækinn ýmist nakið, á nærfötum eða í öllum fötum. Af þessum sökum hafi hlotizt alvarleg slys og einn maður hafi fundizt örendur í læknum. Hinn 17. júní sl. hafi rænulaus maður verið fluttur í gjörgæzludeild eftir að hafa sofnað í læknum og næstum drukknað og margir hafi þarna skorizt illa á glerbrotum, slasazt í slagsmálum og hrasað.

Nauthólsvík

Nauthólslækur.

Fyrir liggi margar lögregluskýrslur um óhöpp á staðnum og slæma hegðun fólks, m.a. vegna þess að engin snyrtiaðstaða sé á staðnum og menn gangi þar örna sinna á víðavangi og í læknum. Ekki er heldur aðstaða til að hafa fataskipti og geyma verðmæti, svo að talsvert hefur borið þarna á þjófnaði á fötum og munum. Þá kemur fram að aöfaranótt 17. júní þurfti lögreglan tvívegis að fara á björgunarbát og sækja ölvaða menn, sem höfðu lagt til sunds yfir Fossvog eftir bað í læknum og voru báðir aðframkomnir er þeir náðust. Þá kemur fram, að mjög mikið ónæði er á Hótel Lottleiðum af völdum fólks sem kemur úr læknum um nætur og ítrekaðar kvartanir hafa borizt frá hótelinu í því sambandi.“

Í Morgunblaðinu 1978 segir:

Nauthólsvík

Nauthólslækur. Önnur umfjöllun í Morgunblaðinu 1978: “ Læragjá lokuð að næturlagi,“

Læragjá lokað að næturlægi? Dæmi um og að menn hafi jafnvel í ölæði lagzt til sunds úr læknum.
LÆRAGJÁ eða lækurinn í Nauthólsvikinni veldur borgarstjórn áhyggjum eða öllu heldur sú slysahætta sem af honum stafar vegna ásóknar ölvaðs fólks um nætur.
Í borgarráði Reykjavíkur í gær var lagt fram bréf frá framkvæmdastjóra Æskulýðsráðs borgarinnar með skýrslu lögreglustjóra, þar sem lýst er heldur ókræsilegu næturlífi við lækinn vegna mikillar ásóknar ölvaðs fólks. Minnt er á að þegar hafi hlotizt af þessu eitt dauðaslys, fólk hafði verið fiskað meðvitundarlaust upp úr læknum og út í sjálfa víkina.
Þá hefur löngum farið það orð af gjálífi þessu, að það fari langt út fyrir öll velsæmismörk, en engu að síður mun það vera áðurnefnd slysahætta sem af læknum er talin stafa sem veldur borgarstjórn mestum áhyggjum. Var í því sambandi rætt á borgarráðsfundinum í gær hvað væri til ráða og var því beint til hitaveitustjóra og borgarverkfræðings hvort framkvæmanlegt væri að loka fyrir rennsli í læknum að næturlagi og hver kostnaður af því væri.“

Í DV árið 1983 segir:

Lækurinn aldrei framar baðstaður?
Lækurinn vinsæli í Nauthólsvík mun hugsanlega aldrei opnast framar til baða. Heitt vatn hefur ekki runnið í hann frá því í apríl síðastliðnum.
„Það er eins líklegt að þetta verði svona um alla framtíð,” sagði Árni Gunnarsson, verkfræðingur hjá Hitaveitu Reykjavíkur, þegar DV spurði hann um hversu lengi yrði vatnslaust í Læknum.
„Við höfum verið að auka dælingu úr Reykjavíkursvæðunum. Þar af leiðandi höfum við þurft að fullnýta afgangsvatnið,” sagði Árni.

Nauthólslækur

Nauthólslækur.

Borholusvæði Hitaveitunnar eru þrjú; Laugardalssvæði sem er tæplega 130 gráðu heitt; og Reykjasvæði í Mosfellssveit sem er um 80 gráðu heitt.
Hitaveitan selur viðskiptavinum sínum 80 gráðu heitt vatn. Vatnið úr Reykjavíkursvæðunum er hins vegar mun heitara. Það þarf því að kælast niður.
Til kælingarinnar notar Hitaveitan frárennslisvatn. Það vatn er orðið um 40 gráðu heitt eftir að viðskiptavinurinn hefur notað það til upphitunar.
Áður rann afgangur af þessu frárennslisvatni um öryggisventil úr gömlu geymunum á Öskjuhlíð niður í Lækinn í Nauthólsvík. Eftir að Hitaveitan fór að nýta heitari svæðin meira þarf hún á öllu frárennslisvatninu að halda til kælingarinnar.
„Það er ákaflega erfitt að segja til um það hvort það verði til afgangsvatn fyrir Lækinn í framtíðinn. Það þarf ekki að búast við neinu. Þetta er algerlega háð rekstri Hitaveitunnar,” sagði Árni.
Lækurinn var á sínum tíma fjölsóttur baðstaður. Mikil vinna hefur verið lögð í að gera umhverfi hans snyrtilegt.“ -KMU.

Svo mörg voru þau orð – vandinn var einfaldlega leystur með eðlilegri og betri nýtingu í stað langra óþarfa skoðanaskipta stjórnmálamanna…

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Nauth%C3%B3lsv%C3%ADk
-Vísir, 256. tbl., Nafntogaður lækur, 17.10. 1977.
-https://is.wikipedia.org/wiki/L%C3%A6ragj%C3%A1
-Lesbók Morgunblaðsins, Öskjuhlíðarþankar, Ásgeir Jakobsson, 34. tbl. 05.09. 1976, bls. 14 og 15.
-Morgunblaðið, 142. tbl. 06.07.1978, Menn nær drukknaðir, slagsmál tíð og ástarlíf með áhorfendum, bls. 5 og 20.
-Morgunblaðið, 141. árg., Læragjá lokað að Næturlagi?, 1978, bls. 32.
-DV, 205. tbl., Lækurinn aldrei framar baðstaður?, 9. sept. 1983, bls. 40.
-Fornleifaskrá; Borgarhluti 3 – Hlíðar, Reykjavík 2024.
-Morgunblaðið, 167. tbl, 05.08.1978, Læragjá lokuð að næturlagi, bls. 48.

Nauthólsvík

Nauthólsvík og nágrenni 1945.

Reykjavíkurflugvöllur

Í „Fornleifaskrá og húsakönnun fyrir Nauthólsvík og Nauthólsveg“ árið 2019 segir m.a. um nokkra uppistandandi bragga og hús ofan Nauthólsvíkur:

Braggi 1

Nauthólsvík

Braggar við Nauthólsveg 100.

„Þyrping húsa við Nauthólsvík í útjaðri Reykjavíkurflugvallar á lóðinni Nauthólsvegi 100 (áður Hlíðarfótur 81). Um er að ræða nokkur sambyggð, steinsteypt og hlaðin hús ásamt áföstum bragga.
Þessi hús, ásamt stökum bragga norðar á lóðinni (sjá mhl. 10), voru upphaflega hluti af stærri herskálaþyrpingu sem reist var af breska flughernum í Nauthólsvík veturinn 1944-1945 til að hýsa „Transit camp“ eða gistibúðir flugáhafna og farþega flughersins.

Reykjavíkurflugvöllur

Herkampar við Reykjavíkurflugvöll og Nauthólsvík.

Bretar nefndu gistibúðirnar Hótel Winston. Gistirými var í bröggum sem tengdir voru saman með yfirbyggðum gangi en í öðrum húsum voru eldhús, veitingasalur, setustofur o.fl. Eftir að flugmálastjórn tók við rekstri flugvallarins 1946 var rekið þarna flughótel á vegum hennar. Um skeið (1947-1948) var reksturinn í höndum einkaaðila og hótelið þá nefnt Hótel Ritz. Árið 1948 tók Ferðaskrifstofa ríkisins við rekstri hótelsins sem var eftir það kallað Flugvallarhótelið og var starfrækt til 1951, þegar því var lokað fyrir fullt og allt. Á seinni hluta 6. áratugarins var stór hluti bragganna í þyrpingunni rifinn. Árið 1971 fékk Siglingafélag Reykjavíkur, Brokey, aðstöðu í hluta bygginganna og er þar enn í dag (2019). Í júlílok 2008 skemmdist austurhluti húsanna í eldi. Húsin voru í umsjón Flugmálastjórnar Íslands til 2010 en þá urðu þau eign Reykjavíkurborgar.

Nauthólsvík

Nauthólsvík 1946.

Frá 1998 var svæðið ætlað fyrir stríðsminjasafn í deiliskipulagi en því var breytt 2013 og lóðin skilgreind fyrir veitingastað eða aðra starfsemi og þjónustu og leyfð endurbygging á byggingum sem tæki mið af upprunalegri
stærð þeirra og útliti. Í skýrslu Minjasafns Reykjavíkur nr. 161/2013 var lagt til að húsaþyrpingin yrði hverfisvernduð.
Árið 2016 fékkst leyfi til að taka niður braggann austast í þyrpingunni sem dæmdur var ónýtur og byggja nýjan í sömu mynd og innrétta þar veitingastað, einnig endurbyggja og lyfta þaki svokallaðs náðhús norðan við braggann og innrétta þar fyrirlestrarsal, sem og endurbæta áfasta skemmu vestan við braggann og innrétta þar frumkvöðlasetur, auk þess að byggja nýja tengibyggingu milli húsanna í stað eldri millibyggingar. Breytingarnar hafa verið framkvæmdar að hluta (2019).“

Braggi 2

Nauthólsvík

Braggi að Nauthólsvegi 100.

„Stakur braggi af gerðinni BUTLER (bandarísk gerð), matshluti 10 á lóðinni Nauthólsvegi 100 (áður Hlíðarfótur 81). Þessi braggi, ásamt húsaþyrpingu sunnar á lóðinni, var upphaflega hluti af stærri herskálaþyrpingu sem reist var af breska flughernum í Nauthólsvík veturinn 1944-1945 til að hýsa „transit camp“ eða gistibúðir flugáhafna og farþega flughersins.
Bretar nefndu gistibúðirnar Hótel Winston. Gistirými var í bröggum, eins og þessum, sem tengdir voru saman með yfirbyggðum gangi en í syðri húsunum voru eldhús, veitingasalur, setustofur o fl.

Nauthólsvík

Nauthólsvík 15. 10. 1942. Þarna er ekki búið að reisa „Camp Transit“.

Eftir stríð var rekið þarna flughótel á vegum flugmálastjórnar og seinna Ferðaskrifstofu ríkisins (Flugvallarhótelið) en árið 1951 var hótelinu lokað fyrir fullt og allt. Á seinni hluta 6. áratugarins var stór hluti bragganna í þyrpingunni rifinn.
Af loftmyndum má sjá að bragginn hefur upphaflega verið um helmingi lengri en hann er í dag. Í honum munu hafa verið átta herbergi og gangur eftir honum endilöngum. Einhvern tíma á tímabilinu 1954-1965 hefur vesturhelmingur hans verið fjarlægður. Ekki er ljóst hvort þá var komið fyrir stórum skúrdyrum sem eru á vesturgafli. Að öðru leyti virðist bragginn að mestu óbreyttur að ytra byrði. Á stríðsárunum voru reistir mörghundruð braggar af þessari gerð í Reykjavík. Í dag (2019) stendur þessi braggi eftir sem eini upprunalegi bragginn af þessari gerð á svæðinu.

Nauthólsvík

Nauthólsvík 1942.

Svæðið sem bragginn stendur á var frá 1998 ætlað fyrir stríðsminjasafn í deiliskipulagi en því var breytt 2013 og lóðin skilgreind fyrir veitingastað eða aðra starfsemi og þjónustu og leyfð endurbygging á byggingum sem tæki mið af upprunalegri stærð þeirra og útliti. Í skýrslu Minjasafns Reykjavíkur nr. 161/2013 var lagt til að þetta hús ásamt húsaþyrpingunni á lóðinni yrði hverfisverndað.
Bragginn hefur undanfarin ár hýst félagsheimili víkingafélagsins Einherja. Við braggann stendur dreifistöðvarskúr, byggður 1990-1995.“

Braggi 3

Nauthólsvík

Braggar við Nauthólsveg 99.

„Tveir samsíða braggar við Nauthólsvík í útjaðri Reykjavíkurflugvallar á lóðinni Nauthólsvegi 99. Þessi braggar voru reistir af breska setuliðinu og eru af gerðinni Nissen. Annar þeirra, sá sem stendur sunnar, virðist sjást á loftmynd sem tekin var í október 1942 og báðir sjást á loftmynd sem tekin var sumarið 1943 (en byggingarár skv. Fasteignaskrá er 1945). Þeir hýstu meðal annars skósmíðaverkstæði og saumastofu hersins á stríðsárunum. Eftir stríð var þarna lengi aðstaða fyrir Flugbjörgunarsveitina.

Nauthólsvík

Flugröst.

Braggarnir eru nú (2019) í eigu ríkissjóðs. Í öðrum þeirra hefur í mörg ár verið félagsheimili starfsmanna Flugmálastjórnar Íslands sem kallað er Flugröst. Hinn (mhl. 02) er skráður sem vörugeymsla (Fasteignaskrá 2019).

Sportkafarafélagið

Nauthólsvík

Nauthólsvegur 100a.

Timburhús við Nauthólsvík, með staðfangið Nauthólsvegur 100a. Um er að ræða hús sem Sportkafarafélag Íslands reisti sem félagsheimili á árunum 1989-1990. Félagið fékk leyfi fyrir byggingu bráðabirgðahúss á lóðinni í júlí 1989, með þeirri kvöð að húsið yrði rifið borgarsjóði að kostnaðarlausu, þegar krafist yrði. Húsið teiknaði Einar Ingimarsson arkitekt.
Um byggingu hússins segir á vefsíðu félagsins:
„Árið 1987 var ákveðið að fara í að reisa félagsheimili Sportkafarafélags Íslands. Keypt var notað timbur frá trésmiðjunni Völundi sem þá var verið að rífa og síðan hófst leit að stað.

Nauthólsvík

Merki Sportkafarafélags Íslands.

Fleiri en einn staður komu til greina en erfitt var að fá leyfi hjá viðkomandi yfirvöldum. Árið 1989 fékkst fjárstyrkur frá borgaryfirvöldum og fékk félagið úthlutaða lóð í Nauthólsvík og bygging félagsheimilisins hófst. Húsnæðið var tekið í notkun 1994 og hefur verið við haldið af natni síðan“ (www.kofun.is: Um SKFÍ – Sagan, sótt í mars 2019).
Árið 2004 fékk húsið staðfangið Hlíðarfótur 81a en árið 2010 var götuheitinu breytt og húsið fékk þá staðfangið Nauthólsvegur 100a.
Húsinu virðist ekki hafa verið breytt að ráði frá því að það var byggt.

Braggi  við Reykjavíkurflugvöll

Reykjavíkurflugvöllur

Reykjavíkurflugvöllur – braggi.

Þyrping húsa við Reykjavíkurflugvöll. Húsin eru öll skráð undir heitinu Flugvöllur 106748 í Fasteignaskrá en tölunar vísa í landnúmerið. Elsta húsið er byggt árið 1941 en það yngsta árið 1997. Flest eru þau byggð frá 1941-1960. Í dag (2013) eru húsin notuð sem flugskýli, tækjageymsla, fjarskiptastöð, spennistöð, geymslur, skrifstofur og fleira.
Bragginn var upphaflega einn fjögurra sambyggðra skemmubragga. Bragginn var upphaflega notaður af setuliðinu en eftir að flugvöllurinn komst í eigu íslenskra flugmálayfirvalda var hann í fyrstu notaður sem geymsla en síðan flutti slökkvilið flugvallarins aðsetur sitt í braggann.

Reykjavíkurflugvöllur

Bragginn við Reykjavíkurflugvöll.

Árið 1962 brunnu hinir þrír braggarnir. Við suðurhlið braggans hefur verið hlaðin viðbygging og settur steinsteyptur umbúnaður fyrir akstursdyr. Ekki er finna heimildir um hvenær það var gert.
Síðustu áratugi hefur bragginn verið notaður sem vélageymsla flugvallarins.“

Líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum frá fimmta áratug síðustu aldar hefur bröggum, stríðsminjunum, ofan við Nauthólsvík og við Reykjavíkurflugvöll fækkað svo um munar.

Heimild:
-Vatnsmýri – Seljamýri – Öskjuhlíð; Byggðakönnun, Fornleifaskrá og húsakönnun, Reykjavík 2013.

Reykjavíkurflugvöllur

Nauthólfsvík 1946 – braggahverfið.

Naauthólsvík

Við Nauthólsvík, vestan við Nauthólsvíkurveg, er minningarsteinn um veru herdeildar 330 norsku flugsveitarinnar sem var stofnuð sem herdeild í Konunglega breska flughernum (Royal Air Force) í Bretlandi í apríl 1941.

Nauthólsvík

Skjöldur á minnismerkinu.

Verkefni herdeildarinnar var að leita að kafbátum og fylgja lestum flutningaskipa yfir hafið. Hún byrjaði með 24 Northrop N-3PB sjóflugvélar sem Noregur hafði haft í pöntun frá því fyrir apríl 1941. Til þess að fylla í skarð þeirra véla sem töpuðust var bætt við Catalina-sjóvélum í staðinn. Alls töpuðust 12 Northrop vélar í stríðinu og með þeim 21 maður.

Bautasteinninn úr grágrýti með áletrunum á báðum hliðum. Á norðurhliðinni er steypt málmplata. Efst er hringlaga merki flugsveitarinnar með nafni hennar: 330 (NORWEGIAN) SQUADRON 330 ROYAL AIR FORCE, kringum víkingaaldarseglskip. Á borða undir stendur: TRYGG HAVET. Texti undir merkinu: REIST TIL MINNE OM DEN NORSKE 330 SKVADRON SOM FRA APRIL 1941 TIL APRIL 1943 OPERERTE FRA REYKJAVIK, AKUREYRI OG BUDAREYRI.

Nauthólsvík

Áletrun á bakhlið minnismerkisins,.

Á suðurhliðina er meitlað í steininn:
LIÐSMENN ÚR 330. FLUGSVEIT ÞAKKA ÍSLENSKU FRÆNDÞJÓÐINNI HJÁLP OG AÐSTOÐ SEM ÞEIM VAR VEITT Á ÍSLANDI. Steinninn stendur á steyptum fleti og í steypuna hefur verði skrifað nafn og ártalið 1943.

Á vefsíðu Landhelgisgæslunnar má lesa eftirfarandi um nefnda herdeild:
„Upprunaleg herdeild 330 var norsk og var stofnuð sem herdeild í Konunglega breska flughernum (Royal Air Force) í Bretlandi í apríl 1941 . Deildin byrjaði að starfa á Íslandi í september sama ár og var Njörður Snæhólm einn af stofnendum hennar. Herdeildin starfaði á Íslandi frá Reykjavík, Reyðarfirði og Akureyri.

Nauthólsvík

Nauthólsvík – minnismerkið.

Verkefni herdeildarinnar var að leita að kafbátum og fylgja lestum flutningaskipa yfir hafið. Hún byrjaði með 24 Northrop N-3PB sjóflugvélar sem Noregur hafði haft í pöntun frá því fyrir apríl 1941. Til þess að fylla í skarð þeirra véla sem töpuðust var bætt við Catalína sjóvélum í staðin. Alls töpuðust 12 Northrop vélar í stríðinu og með þeim 21 manns.

Nauthólsvík

Northrop N-3PB til sýnis í Reykjavík, mynd: Jón Kr. Friðgeirsson.

Meðfylgjandi mynd var tekin er Northrop N-3PB sem var til sýnis í Reykjavík eftir af hafa verið gerð upp í Bandaríkjunum. Vélin var hluti af norsku flugsveitinni. Hún nauðlenti á Þjórsá 21. apríl 1943, á leið frá Búðareyri til Reykjavíkur. Í lendingunni skemmdist vélin og sökk, en áhöfn hennar, 2 menn, björguðust í land. Í nóvember 1979 var flak hennar tekið úr ánni og 10. nóvember 1980 lauk viðgerð á henni. Þessi flugvél er eina heila eintakið af þessari tegundar í heiminum og er nú til sýnis í Osló í Noregi. Á leið hennar þangað var hún sýnd í Reykjavík.

Nauthólsvík

Vél 330 herdeildarinnar á hafsbotni utan Nauthólsvíkur.

Árið 1943 flutti herdeildin til Oban í Skotlandi og síðar sama ár til Hjaltlandseyja þar sem deildin notaði 13 Short Sunderland sjóvélar. Herdeildin var endurvakin í konunglega norska hernum (RnoAF) eftir seinni heimstyrjöldina og hélt þá sínu upprunalega herdeildarnúmeri frá RAF (Royal Air Force) eða 330. Síðan árið 1973 var hún aftur endurvakin, aðalega með Sea King þyrlum og hennar meginhlutverk er leit og björgun (SAR). Deildin notar 8 Sea King þyrlur og eru aðalstarfsstöðvar deildarinnar í Bodo, Banak, Örland og Stavanger-Sola.

Árið 2002 fannst svo, við sjómælingar á vegum sjómælingasviðs Landhelgisgæslunnar, ein véla 330 herdeildarinnar á hafsbotni. Á mynd af fjölgeislamælingunni má greinilega sjá lögun vélarinnar.“

Heimildir:
-Nauthólsvík og Nauthólsvíkurvegur; Fornleifaskrá og húsakönnun, Reykjavík 2019, bls. 57.
-https://www.lhg.is/frettir-og-fjolmidlar/frettasafn/frettayfirlit/nr/1049

Nauthólsvík - minnismerkið.

Nauthólsvík – minnismerkið.

Nauthóll
Bærinn Nauthóll var reistur um árið 1850. Hann var eitt margra nýbýla, sem risu í nágrenni Reykjavíkur á þessum tíma og einn af sex bæja er byggðust út frá Skildinganesi. Hann var því hjáleiga frá Skildinganesbænum og stóð við fjölfarinn vegaslóða. Taugaveiki kom upp á bænum í kringum aldamótin 1900 og var hann þá brenndur. Tóftirnar sjást enn auk garða og fleiri mannvirkja er tilheyrðu.
Nauthóll

Nauthóll.

„Nauthóllinn, sem bærinn dró nafn sitt af, stendur enn óhreyfður þrátt fyrir að setuliðið hafi flatt flest út á þessum slóðum á stríðsárunum. Bærinn, umgirtur garði, stóð austan við hólinn.
Gamli bærinn á Skildinganesi var rifinn á árunum 1869-1870 og byggður nýr bær. Bærinn var byggður úr grjóti og torfi. Tvíbýlt var á Nesinu og stutt bil milli bæjanna. Á göflunum voru tveir gluggar en báðir bæirnir voru eins. Sex rúðu gluggi niðri en fjögurra rúðu gluggi uppi. Það var ekki hátt til lofts í nýja bænum. Niðri var varla manngengt og urðu stórir menn að ganga hálfbognir eftir göngunum.

Nauthóll

Nauthóll á korti frá 1903.

Á nesinu voru þrjár aðalvarir, austurvör, miðvör og vesturvör. Hafa bæirnir verið byggðir 140-150 faðma upp af vörunum. Í Austurvörinni lenti bóndinn í Austurbænum og vesturvörin var fyrir bóndann í Vesturbænum en miðvörin var fyrir kotin.
Á milli bæjanna var ekki nema tveggja faðma bil eða traðir og þessar traðir lágu áfram norður túnið að túngarðinum, en traðirnar voru hlaðnar upp til beggja handa til varnar túninu. Útihús voru nokkur.

Nauthóll

Nauthóll – matjurtargarður.

Auk aðalbýlanna á nesinu voru þar sex kot. Í túninu stóðu þessi kot. Margrétarkot, Harðarkot og Austurkot. Þetta voru smábýli og fylgdi hverju þeirra eitt kýrgras, nema Harðarkoti.
Margrétarkot var vestast í túninu og bjuggu Árni og Valgerður foreldrar Árna læknis á Akranesi þar.
Fjórða kotið var Nauthóll sem stóð austarlega á landinu, næstum því austur undir Öskjuhlíð, sem fyr var nefnt.
Fimmta kotið var Þormóðsstaðir. Sjötta býlið var Lambhóll sem stóð fast við landamerki Skildinganess og Grímstaðaholts niður við sjó.

Nauthóll

Minjar í bæjarstæði Nauthóls.

Árið 2006 vann Minjasafn Reykjavíkur fornleifaskráningu væntanlegrar lóðar Háskóla Reykjavíkur vestan Öskjuhlíðar að beiðni skipulagsfulltrúa Reykjavíkur vegna deiliskipulagsvinnu. Í henni er m.a. fjallað um jörðina Nauthól ofan Nauthólsvíkur.
„Nauthóll er ein af sex hjáleigum Skildinganess, og var hann kominn í byggð um 1850. Bærinn stóð skammt norður af samnefndri vík. Hann var við vegarslóða sem fyrrum var allfjölfarinn og lá hann með sjónum frá Fossvogsdal yfir í Skildinganes. Um síðustu aldamót mun taugaveiki hafa stungið sér niður í Nauthóli og var hann þá brenndur að ráði Guðmundar Björnssonar landlæknis. Síðan hefur ekki verið búið þar.

Nauthóll

Nauthóll – útihús.

Ýmsar minjar eftir Nauthól hafa varðveist, bæði húsarústir, garðar og brunnar. Tvö kort eru til sem sýna hvernig Nauthóll var í stórum dráttum. Annað kortið er frá árinu 1903, hitt er frá 1933. Með hjálp þeirra er hægt að glöggva sig á rústunum. Hóllinn, Nauthóll, er einnig á sínum stað, þrátt fyrir tilhneigingu setuliðsins á árunum 1940-1945 til að slétta land á þessum slóðum. Kortinn sýna nánast það sama en síðari mælingin er nokkuð nákvæmari, bærinn er þá löngu farinn í eyði.“ Mógrafirnar voru fyrir norðan og norðvestan bæinn, nú jafnan fullar af vatni.

Nauthóll

Nauthóll  og nágrenni 1903.

Um bæjarhúsin í Nauthóli greinir Sigurður í Görðum svo frá í æviminningum sínum, en hann ólst upp í Skildinganesi. „Á Nauthóli var tvíbýli. Bæjarhúsin voru byggð hvort sínu megin við allmikið bjarg og myndaði bjargið sameiginlegan gafl húsanna. Á stríðsárunum, 1940-1945, setti setuliðið upp mastur með steyptri undirstöðu þar sem aðalbæjarhúsin höfðu staðið, svo að nær ekkert er eftir af tóftum þeirra.“ Bjargið sem Sigurður í Görðum minntist á enn á sínum stað.
„Á bæjarhólnum voru nokkur útihús og matjurtagarðar. Greinilegt er að rústunum hefur aðeins verið breytt, frá því að þær voru mældar upp 1933, og má trúlega rekja það til hersetunnar á svæðinu.“

Nauthóll

Nauthóll -Bæjarstæðið árið 1933.

Í fornleifaskráningunni er auk þessa staðháttum lýstþars em m.a. er vitnað í Sigurð í Görðum: „Fjórða kotið á nesinu var Nauthóll. Hann stóð austarlega á landi Skildinganess, næstum því austur undir Öskjuhlíð. Kotið var byggt við hól nokkurn og mun hafa dregið nafn sitt af honum, hóllinn stóð vestur af bænum, en dálítill túnblettur var á milli.“
Jafnframt kemur fram að „…Nauthóll var austasti bærinn í Skildinganeslandi. Uppmæling á bæjarhúsunum er til á kortum frá 1903 og 1933. Bæjarhúsin eru syðst við Hlíðarfót að vestan, ekki langt frá bröggum sem eru á vegum Flugmálastjórnar, svæðið er grasi gróið og þýft og er búið að gróðursetja í hluta af svæðinu.

Nauthóll

Nauthóll – bæjarstæðið fyrrum.

Bæjarhúsin voru 11 x 8 m skv. korti síðan 1933. Veggir voru úr torfi og grjóti, um 1,0 – 1,2 m á breidd og 0,5 – 0,7 m á hæð. Húsið hefur verið með tvær burstir. Hólfin eru nú illgreinanleg.“
Þótt hvorki býlið né búskapur að Nauthóli geti varla talist sérstakrar frásagnar virði umfram önnur kot á svæðinu hefur Minjasafn Reykjavíkur unnið sína vinnu af samviskusemi enda runnið blóðið til skyldunnar þegar boð kom frá skipulagsfulltrúanum að skrá skyldi alla byggðina. Skýrslan um svæðið hefur að öllum líkindum kostað meira en sem samsvaraði kotinu á sínum tíma. Eftir stendur vitundin um minjarnar, sem væntanlega munu hverfa sjónum fólks innan skamms undir byggingar Háskóla Reykjavíkur.

Nauthóll

Nauthóll.

Reykjavíkurbærinn átti land að Skildinganesi. Margar minjarnar vestan Öskjuhlíðar tilheyrðu honum. Á mörkunum er Öskjuhlíðarselið, sem stundum hefur ranglega verið nefnt Reykjavíkursel eða Víkursel. Sú selstaða mun hafa verið við Selvatn þar sem Urðarlágarlækur rennur í vatnið. Sunnan við það voru Litlasel og Stórasel. Víkurselið er nú að mestu horfið í mýri, en þó má enn sjá hvar það var.
Skammt frá Öskjuhlíðarseli eru ýmsar minjar, s.s. fjárborg og stekkur.

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð.

Þótt selsheitið hafi í seinni tíð verið á aðstöðunni þarna undir hlíðinni er ekki fullvíst að hún hafi verið nýtt sem slík. Tóftirnar, sem nú hafa illu heilli verið lagðar undir trjárækt, gætu alveg eins gefið vísbendingu um fráfærur frá Skildinganesbæjunum, sem stóðu þeim næst.
Nauthólsvíkin og Nauthóll munu hins vegar standa vörð um Nauhólsbæjarnafnið enn um sinn þótt eggið hafi auðvitað komið á eftir hænunni. Víkin og bærinn drógu nöfn af hólnum. Þess vegna er hóllinn þar sem naut (þarfanaut til viðhalds lífi) komu fyrrum við sögu, og enn stendur, merkilegastur. Vonandi verður honum hlíft við væntanlegar framkvæmdir á svæðinu.“

Enn í dag (2024) má sjá leifar Nauthóls, s.s. úihúss, matjurtargarða og veggjarbrota, auk hólsins, þrátt fyrir að bænum hafi verið rutt um koll á síðari hluta fjórðaáratugs síðustu aldar.

Heimildir m.a.:
-http://reykjavikurborg.is/Portaldata/1/Resources/skipbygg/
skipulagsm_ /mal_kynningu/adalskipulag_2006/Vatnsmyri_vidauki3.pdf
-http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_nautholsvik.htm
-http://skildinganes.homestead.com/bok.html

Nauthólssvæðið