Tag Archive for: Niðurkot

Álfsnes

Í „Fornleifaskráningu á efnisvinnslusvæði við Álfsnesvík Þerneyjarsundi“ árið 2018 segir m.a. um bæina Sundakot/Niðurkot og Glóru/Urðarkot:

Sundakot

„Saga Sundakots er nokkuð sérstök, þar sem í túnfætinum hefur verið verslunarstaður á miðöldum nefndur Þerneyjarsund. Á þjóðveldisöld voru helstu útflutningsvörur Íslendinga ullarvörur.

Álfsnes

Álfsnes – fornleifar skv. fyrirliggjandi fornleifaskráningu.

Helstu kauphafnirnar, „hin sjálfgerðu skipalægi frá náttúrunnar hendi, hafa verið í grennd við aðallandbúnaðar- héruðin.“ Til eru heimildir um siglingu hafskipa í Elliðaár og Leiruvog á þjóðveldistímanum en líklega hefur Hvítá í Borgarfirði verið helsti verslunarstaðurinn á svæðinu fram til 1340 en þá fer að bera á breytingum.

Álfsnes

Álfsnes – loftmynd.

Á fyrri hluta 14. aldar varð mikil breyting á viðskiptum við Ísland en þá hófst útflutningur á skreið sem átti eftir að vera meginútflutningsvara Íslendinga fram á 19. öld.
Þá urðu nýjar hafnir fyrir valinu, hafnir „sem lágu vel við sjósókn, á sunnan- og vestanverðu landinu.“ Þorleifur Óskarsson telur að langmest af fiski hafi verið flutt út frá Vestmannaeyjum, Faxaflóa, Snæfellsnesi og Vestfjörðum.
Helstu kauphafnir í grennd við Seltirninga voru við Þerneyjarsund, í Hafnarfirði og Hvalfirði.

Þerney

Elsta heimild um höfn við Þerneyjarsund er Kjalnesinga saga en þar segir: „Eftir það býr Örlygur ferð sína og er frá ferð hans það fyrst að segja að allt gekk eftir því sem biskup sagði. Hann tók í Þerneyjarsundi höfn. Síðan fór hann að finna Helga bjólu og tók hann vel við honum. Reisti Örlygur þar nú bú og kirkju og bjó þar síðan til elli.“23 Saga þessi er talin vera rituð á 14. öld og þykir nokkur ævintýrablær á henni. Þrátt fyrir það er ekki óvarlegt að ætla að höfundur hafi þekkt til þess að skip tækju höfn við Þerneyjarsund enda styðja aðrar heimildir það.

Þerney

Þerney – bærinn.

Til dæmis er nokkrum sinnum minnst á Þerneyjarsund í annálum. Sagt er frá því að árið 1391 hafi Þorsteinn Snorrason verið vígður til ábóta að Helgafelli af Miceli biskupi. Kom Þorsteinn út í Þerneyjarsundi á „Hösnabúsunni“. Árið 1411 komst Björn bóndi Einarsson út í Þerneyjarsund heilu og höldnu.
Árið 1419 lét Jón biskup í haf og kom að Íslandi í Þerneyjarsundi heill á húfi.

Til eru skjöl frá byrjun 15. aldar sem sýna fram á tengsl Þerneyjar við siglingar og verslun á þessum tíma.

Álfsnes

Niðurkot / Sundakot – loftmynd.

Þann 3. júlí 1409 var Oddur Þórðarson lögmaður kallaður til af hirðstjóra á Alþingi til að úrskurða um flutning á konungsgóssi til Noregs með kaupskipum frá Íslandi. Ekki hefur verið kallað á þennan úrskurð að tilefnislausu því stuttu seinna, eða 7. júlí 1409, er Oddur lögmaður mættur út í Þerney til að úrskurða um flutning á konungsgóssi frá Íslandi með kaupskipi sem konungur átti hlut í en var leigt öðrum.

Leirvogur

Hafnir í Reykjavík 1831. Björn Þorsteinsson.

Þerneyjarsundi bregður aftur fyrir í úrskurði Stefáns biskups í Skálholti, dagsettum 11. desember 1492. Stefán úrskurðar um þrjá landseta sem ekki höfðu staðið í skilum við hann um það hrossalán sem þeim bar að veita staðnum í Skálholti samkvæmt leigumála þeirra.
Stefán úrskurðar landsetana skylduga til að fara eftir leigumálum og hafa til reiðu lestfæran kapal undir þriggja vætta klyfjar í Grindavík, á Romshvalanes, til Þerneyjarsunds eða á hvern þann stað „sem stadarens naudsyniar standa til.“

Þerney

Þerney – örnefni.

Frá 18. öld eru til tvær lýsingar á Þerneyjarsundi, lýsingar P. de Löwenörn og Skúla Magnússonar, þar sem aðallega er verið að draga fram kosti sundsins sem mögulegrar hafnar fremur en að verið sé að lýsa þáverandi stöðu.
En hvenær lauk tímabili kauphafnar við Þerneyjarsund og hvers vegna? Helgi Þorláksson telur að skipakomur og kaupstefnur hafi verið töluverðar við Þerney um 1400 og fram á 15. öld.
Siglingatækninni hafi svo fleygt fram á 15. öld og um 1500 komust menn næstum því á þá vík er þeir kusu.

Þerney

Þerney.

Björn Þorsteinsson vildi meina að verslunarstaðirnir Þerneyjarsund og Hvalfjörður eða Búðasandur á Hálsnesi hafi líklega lagst af snemma á 15. öld.
Kristján Eldjárn taldi aftur á móti að til væru ritaðar heimildir um notkun Þerneyjarsunds sem hafnar og kaupstefnustaðar á tímabilinu 1300 til 1500. Það gæti verið vel í takt við þá skoðun Þorleifs Óskarssonar að verslunin hafi í byrjun 16. aldar færst nær Víkinni (Reykjavík) sem líklega má rekja til innbyrðis baráttu Þjóðverja um viðskipti við Íslendinga en „elsta dæmið um verslun í Hólminum við Reykjavík sé frá árinu 1521.“
Álfsnes
Kristján Eldjárn taldi miklar líkur benda til þess að lendingarstaðurinn og búðirnar hafi verið á þúfnasvæði við hvamm einn þar sem Sundakot stóð. Á 8. áratugnum voru uppi hugmyndir um að friðlýsa svæðið og má sjá á grein Kristjáns að hann telur að svæðið, bæði búðasvæði og Sundakot, sé þegar friðlýst en það hefur verið á misskilningi byggt.
Svæðið hefur sigið mikið og sjást búðirnar ekki lengur.

Sundakot

Sundakot.

Sundakot (hét Niðurkot í Jarðatali Johnsens) var önnur hjáleiga Þerneyjar á fastalandi og reiknaðist jarðardýrleikinn í heimajörðinni. Svo var enn í Jarðatali Johnsens. Landskuld hennar var sextíu álnir og greiddist með fiski til heimabónda, leigukúgildi eitt og greiddist í smjöri. Kvaðir voru mannslán árið um kring utan sláttar en þó einn dagsláttur. Kvikfénaður var tvær leigu kýr og einn kálfur, eitt hross og eitt veturgamalt trippi. Heimilismenn voru sex. Torfristu, stungu og eldiviðartak sóttu menn á fastaland með heimabónda. Hjáleigan hafði engin sjávarhlunnindi. Tekið er fram að Sundakot hafi verið í byggð lengur en menn reki minni til.

Álfsnes

Sundakot – stekkur við Selvík.

Undir Sundakot eru skráðir 19 minjastaðir, þar ber helst að nefna bæjahólinn, minjar innan hringlaga túngarðs auk búðarrústa sem ekki eru greinanlegar lengur á yfirborði, sjórinn gengur þar á land og minjastaðurinn er í hættu vegna ágangs sjávar.
Engar fornleifar á áætluðu framkvæmdarsvæði eru skráðar undir Sundakot, furða má sig á að engin steinhlaðin skreiðarbyrgi skuli finnast Sundakotsmegin við Fornugrafir, því ætla mætti að byrgjunum væri valinn staður sem næst höfninni á Þerneyjarsundi. Skýring kann að vera að heppilegri steinastærð er að finna á holtinu að norðanverðu.

Glóra

Álfsnes

Álfsnes – Glóra / Urðarkot; loftmynd.

Hjáleiga Álfsness var nefnd Urðarkot eða Glóra (nefnd svo í Jarðabók Johnsens). Ekki er ljóst hvenær byggð hófst þar. Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1705 var dýrleiki reiknaður með heimajörðinni. Hjáleigan var þá ýmist nefnd Glóra eða Urðarkot og á lausu blaði í Jarðabókinni einnig nefnt Hallsneshjáleiga.
Landskuld greiddist til heimabænda í landaurum ef ekki var til fiskur.
Leigukúgildi var eitt og greiddist í smjöri eða fóðri til heimabónda. Vatnsból var á heimajörðinni.

Álfsnes

Glóra – túnakort 1916.

Dýrleika jarðarinnar er hvorki getið í Jarðabók né Jarðatali. Á Glóru var búið til ársins 1896. Þá fór bærinn í eyði og ekki var búið í honum þegar túnakort er gert árið 1916, bæjarhúsin voru þá tóftir. Síðast var búið í Glóru frá 1928 til 1935. Þá bjó þar Benedikt Kristjánsson frá Álfsnesi sem rak þar kúabú ásamt því að halda nokkur hross og kindur.
Fornleifar í Glóru tengjast bæði búsetu og sjósókn. Búsetuminjar eru helst rústir bæjar- og útihúsa, garðlög, mógrafir og landamerki. Sjávarútvegsminjar sem tilheyra landsvæði Glóru eru allar mun eldri og eru rústir eftir fiskbyrgi sem eru allar innan úttektarsvæðisins. Fiskbyrgin voru notuð til að þurrka fisk við framleiðslu á skreið og gætu þau verið frá tímabilinu 1300-1500 þegar Þerneyjarsund var útflutningshöfn. Einnig eru nokkrar yngri minjar í landi Glóru eftir hersetuna.

Minjastaðurinn við Þerneyjarsund

Álfsnes

Álfsnes – Glóra.

„Þessi staður er einn af fyrirrennurum Reykjavíkur og á að varðveitast eins og hann er“. Svo komst dr. Kristján Eldjárn fyrrverandi þjóðminjavörður og forseti Íslands að orði um minjastaðinn við Þerneyjarsund í grein sinni í Árbók Hins íslenska fornleifafélags frá árinu 1980. Þar fjallar hann um hluta þeirra minja sem finna má á Gunnunesi eða Álfsnesi, nánar tiltekið kaupstað sem þar var á miðöldum samkvæmt heimildum. Hann leiðir líkum að því í greininni að kaupstaðurinn hafi verið niður undan túninu í Niðurkoti (einnig kallað Sundakot) en erfitt er að sjá til búðanna vegna mikilla þúfna. Reyndar segir hann einnig að hvort sem þúfurnar séu manngerðar eða ekki þá er minjastaðurinn „engu að síður kaupstaðurinn við Þerneyjarsund, með búðum eða búðalaus“. Hann telur staðinn sem slíkan merkilegan hvort sem sést til minja eða ekki.

Álfsnes

Glóra – útihús.

Kaupstaðurinn er þó bara hluti þeirra stórmerkilegu minja sem finna má á svæðinu. Þar er að finna þrjú bæjarstæði sem hvert um sig hefur mikið minjagildi og saman mynda þau einstaka minjaheild. Það eru Sundakot, Glóra og Þerney.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem rituð er í byrjun 18. aldar segir að að Sundakot hafi verið lengur í byggð en menn muna. Því má gera ráð fyrir að þar hafi verið búið að minnsta kosti frá 16. eða 17. öld og jafnvel fyrr. Rústir bæjarins eru sjáanlegar á yfirborði ásamt útihúsum og túngarði sem afmarkar heimatún bæjarins. Minjarnar í Sundakoti eru gott dæmi um smábýli á Íslandi.

Glóra
Álfsnes

Fornleifar í Glóru tengjast bæði búsetu og sjósókn. Búsetuminjar eru rústir bæjar- og útihúsa, garðlög, mógrafir og landamerki. Minjar sem tengjast sjósókn á landsvæði Glóru eru allar mun eldri og eru helst rústir eftir fiskbyrgi.

Álfsnes

Glóra – túngarðar og bæjartóftir.

Fiskbyrgin voru notuð til að að þurrka fisk við framleiðslu á skreið og gætu þau verið frá tímabilinu 1300-1500 þegar Þerneyjarsund var útflutningshöfn. Heimildir eru um að Þorlákssúðin, skip Skálholtsbiskups, hafi legið í höfninni í Þerneyjarsundi árið 1409 og að þangað hafi komið ráðamenn að loknu Alþingi, m.a. Skálholtsbiskup, Vigfús Ívarsson hirðstjóri, sem hafði aðstöðu á Bessastöðum, og Oddur Þórðarson lögmaður.
Ekki er víst hvenær búseta hefst á Glóru. Vitað er að þar var búið til ársins 1896 og aftur á árunum 1928 til 1935. Glóra er gott dæmi um hjáleigu frá fyrri hluta 20. aldar í nágrenni Reykjavíkur, fyrir tíma vélvæðingar. Fáir staðir státa af svo heillegum minjum sem sýna heilt bæjarstæði og ekkert sambærilegt er að finna í borgarlandi Reykjavíkur.

Þerney

Þerney

Þerney – örnefni.

Í Þerney eru margvíslegar minjar um búsetu fólks í eynni en hún var í eigu Skálholtsstaðar og þar bjó kotbóndi sem leigði jörðina af Skálholtsstað. Kirkja var í eynni líklega allt frá 12. – 13. öld.

Þerney

Þerney – bæjarstæðið. Árið 1933 voru fjórir tarfar af mismunandi holdakyni og kálffull Galloway kvíga sótt til Skotlands. Þessum gripum var komið fyrir úti í Þerney í einangrun, sem var skynsamleg ráðstöfun, því að einn tarfanna bar með sér sveppasjúkdóm, hringorm eða hringskyrfi. Kálfur kvígunnar var geymdur í eldhúsinu á bænum í eyjunni. Þessum gripum var, að kálfinum undanskildum, lógað í janúar 1934 eftir mikið japl, jaml og fuður milli ráðuneyta. Þessum kálfi, nauti, var skotið undan og hann fluttur til Blikastaða, þar sem hann var skírður Brjánn og var í umsjá Magnúsar bónda. Þaðan rataði Brjánn að Gunnarsholti, að Sámsstöðum og loks lenti hann á Hvanneyri hjá Runólfi Sveinssyni á síðustu árum hans þar.

Litlar sem engar rannsóknir hafa verið gerðar á búsetusögu eyjarinnar enn sem komið er en út frá þeim heimildum sem þó eru til má álykta að þar megi finna ósnertar minjar allavega frá miðöldum.
Þegar allt þetta er lagt saman er ljóst að umhverfis Þerneyjarsund er einstakt og enn sem komið er óraskað minjasvæði sem mikilvægt er að varðveita í heild sinni.

Í „Fornleifaskráningu vegna fyrirhugaðra framkvæmda í Álfsnesi í Reykjavík“ frá árinu 2008 segir m.a. um Glóru:

Glóra / Urðarkot
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1713 segir að hjáleigan Glóra eða Urðarkot sé byggt frá Álfsnesi (bls. 333-334). Í manntalinu sem gert var árið 1703 kemur þó einungis fyrir nafnið Urðarkot (bls. 33). Lítill vafi er þó á að bæði nöfnin eigi við einn og sama staðinn. Hugsanlega hefur annað nafnið verið hið opinbera nafn en hitt notað af heimafólki líkt og mímörg dæmi eru til um. Þó býlið komi fyrst fram í heimildum árið 1703 er ekki hægt að útiloka að það sé eitthvað eldra. Úr þessu fæst þó ekki úr skorið nema með frekari rannsóknum.

Álfsnes

Glóra.

Glóra er talin vera farin í eyði laust fyrir aldamótin 1900 (Landnám Ingólfs. 2. Bindi. bls. 101). Eyðibýlið er á fallegum stað norður undir Glóruholti í aflíðandi, grasi grónni og grýttri brekku. Á staðnum eru alls 11 fornleifar. Eyðibýlið telst hafa hátt minjagildi.

Álfsnes

Glóra.

Býlið er ýmist kallað Urðarkot eða Glóra. Í Jarðabókinni koma bæði nöfnin fyrir en í manntalinu árið 1703 kemur aðeins fyrir nafnið Urðarkot. Í Sýslu- og sóknarlýsingu sem gerð var árið 1855 segir: „Glóra 5hndr. Suður frá Álfsnesi við sömu vík [þ.e. Álfsnesvík.] Var áður hjáleiga þaðan“ (Landnám Ingólfs. 3. Bindi. bls. 232).
Í lýsingu sóknarinnar frá árinu 1937 segir aftur á móti: „Álfsnesi fylgir nú býlið Glóra, er byggt var fram undir síðastliðin aldamót [þ.e. 1900]“ (Landnám Ingólfs. 2. Bindi. bls. 101). Því má gera ráð fyrir því að Glóra hafi farið í eyði nokkru fyrir árið 1900.

Háheiði

Álfsnes

Háheiði á Álfsnesi.

Í Jarðabók Árna Magnússon og Páls Vídalíns frá 1713 segir frá eyðibýlinu Háheiði. Rústir þessa býlis hafa ekki fundist, þrátt fyrir talsverða leit, en gætu þó legið innan urðunarsvæðisins (Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. bls. 335). Sumir telja að Háheiði sé að finna undir rúst annarri rúst en verður það að teljast harla ólíklegt. Líklegra er að rústir býlisins liggi í holtinu SV-undir háheiðinni.
Þar sem umræddar fornleifar hafa ekki fundist eru þær enn óskráðar en þær munu að öllum líkindum hafa hátt minjagildi.

Sjá meira um ferð FERLIRs um Álfsnes HÉR.

Heimildir:
-http://www.minjastofnun.is/gagnasafn-/ahugavert-efni/minjar-manadarins/
-Skýrsla um „fornleifaskráningu á Álfsnesi“, Anna Lísa Guðmundsdóttir og Margrét Björk Magnúsdóttir, Borgarsögusafn Reykjavíkur 2018.
-Fornleifaskráning vegna fyrirhugaðra framkvæmda í Álfsnesi í Reykjavík. Desember 2008.

Álfsnes

Álfsnes – Háheiði.

 

Glóra

Á Álfsnesi á Kjalarnesi eru tóftir þriggja bæja, Álfsness, Glóru og Niðurkots. Lítið er til af heimildum um þessi gömlu kot, en talsverðar leifar sjást enn eftir búsetu á Nesinu.
Bæði Glóra og Niðurkot eru í raun ágæt dæmi um heilstæðar

Álfsnes

Álfsnes – loftmynd.

búsetuminjar, annars vegar frá 19. öld og hins vegar frá 17. öld. Flestar eldri minjar við bæinn Álfsnes eru horfnar undir núverandi íbúðar- og útihús, en þessar minjar hafa fengið að vera svo til óraskaðar allt fram á þennan dag.
SORPA er með urðunarstað á Álfsnesi, en ekki er að sjá að þar hafi verið hróflað við minjum. Þær minjar, sem næst standa, eru 19. aldar fjárhústóft frá Álfsnesi. Háir moldarbakkar eru fast við tóftina, en hún hefur fengið að standa vestan í Háheiðarmýrinni, austan við Álfsnesbæjarins.

Nýr Vesturlandsvegur; Sundabrautin svonefnda, á að liggja um þetta svæði. Við það mun verða verulegt rask og ef ekki verður að gætt munu minjar framangreindra bæja (hjáleiga), hverfa eins og aðrar slíkar á Stór-Reykjavíkursvæðinu.

Álfsnes

Álfsnes – Glóra / Urðarkot; loftmynd.

Segja má að minjar nær allra bæja, sem núverandi byggð stendur á, hafi verið þurrkaðar út (að Árbæ undanskyldum). Dýrmætustu minjasvæðin, sem eftir eru næst höfðuborgarsvæðinu, eru Þorbjarnarstaðir í Hraunum, sunnan Hafnarfjarðar, og þessir bæir, sem hér er fjallað um. Stundum þarf einungis örlitla hugsun og frumkvæði til að koma í veg fyrir varanlegan skaða. Ágætt dæmi voru framkvæmdirnar við Tjarnargötu í Reykjavík á fimmta áratug síðustu aldar. Ef einungis einn maður hefði staðið keikur gegn byggingaráformum Hjálræðishersins og húss Happdrættis Háskólans; og sagt sem svo: „Færum okkur 50 metra ofar í landið“ þá ættu landsmenn nú elstu minjar búsetu hér á landi (talið er víst að bær Ingólfs hafi verið þar sem fyrrnefnd hús standa nú).

Brunnur Glóru

Oft munar ekki meiru milli feigs og framtíðar þegar minjarnar eru annars vegar. Allt og oft hafa misvitrir forsvarsmenn skipulagsmála fengið að ráða ferðinni. Þeir hinir sömu virðast, af dæmum að meta, hvorki hafa þekkingu né áhuga á fortíðinni og hafa því, hingað til a.m.k., komist upp með að eyðileggja ómetanlega sögulega verðmætasköpun framtíðarinnar.
Þegar FERLIR kom á svæðið var dagsbirtan u.þ.b. að sigra næturmyrkrið á einum dimmasta degi ársins. Við blöstu urðunarhaugarnir og lyktin var eftir því. Loftmyndir af svæðinu voru dregnar fram og líkleg mannvirki áætluð.

Álfsnes

Niðurkot / Sundakot – loftmynd.

Minjasvæðin virtust aðallega tvö; Glóra og Niðurkot. Ofarlega á túnum Víðinsess vitist móta fyrir tóftum. Annars er það kapítuli út af fyrir sig hversu erfitt það getur verið fyrir áhugasama einstaklinga að nálgast upplýsingar og fróðleik hjá annars kostnaðarsömum ríkisfyrirtækjum. Að vísu er Örnefnastofun Íslands (Svavar og Jónína) alger undantekning þar frá, en aðrar opinberar stofnanir og fyrirtæki virðast „gleypa“ allar upplýsingar og leggja sig fram við að torvelda öðrum aðgengi að þeim. Rándýrar fornleifaskráningar eru sumar hverjar ekki aðgengilegar nema gegn gjaldi og ef fá á eina loftljósmynd frá Landmælingum Íslands þá kostar hún þúsundir króna.

Túngarður Glóru

Að vísu hefur þetta ekki bitnað svo mjög á FERLIR því á þeim bænum hafa þeir einkaðailar, sem leitað hefur verið til, verið einkar hjálpsamir, auk þess sem þátttakendur hafa jafnan verið sjálfum sér nægir, þ.e. þeir hafa leitað og lesið úr torveldum landfræðilegum upplýsingum líkt og aðrir lesa texta í bókum. Aukinheldur hafa þeir sýnt frábæran árangur, bæði í starfi og námi. Einn nemanna fékk t.a.m. 10.0 í fornleifaskráningu við HÍ. Hinar fjölmörgu lýsingar á vefsíðunni eru ágætt dæmi um þetta. Í dag er svo komið að fornleifafræðingar nota vefsíðuna við störf sín og vita til hennar, bæði í myndum og texta.
Áður en lagt hafði verið af stað var leitað til Bjarka Bjarnasonar, höfundar Sögu Mosfellsbæjar. Hann er auk þess sá aðili er hvað best gjörþekkir sögu og minjar bæjarlandsins. Reyndar tilheyrir svæðið nú sameinuðu Kjalarneshreppi og Reykjavík (frá árinu 1998).

Álfsnes

Tóftir Glóru.

Bjarki Bjarnason svaraðir fyrirspurninni eftirfarandi: „Ég kannast við bæjarnafnið Glóru en hins vegar er hvorki Glóra né Niðurkot nefnt í Jarðabókinni [1703] og hafa væntanlega ekki verið í byggð þá. Aftur á móti eru tvær hjáleigur nefndar í jarðabókinni, annars vegar Landakot, sem þá var nýfarið í eyði, og hins vegar Sundakot. Þessi kot virðast hafa verið hjáleigur frá Þerney“.
Þegar lengra er haldið virðist ljóst að Landakot var hjáleiga Þerneyjar í eyjunni sjálfri. Sundakot virðist að öllum líkindum hafa verið umrætt Niðurkot enda benda tóftirnar til þess að þar hafi verið byggð áður en Jarðábókin var skrifuð (sjá uppdrátt).
Minjar á Glóru - gervitunglamynd
Í Jarðabókinni 1703 er getið um Landakot, Sundakot, Vidernes, Alsnes (Alfsnes), Urðarkot (Hallsneshjáleiga/Glóra) og Háheide, auk Þerneyjar. Um síðastnefndu jörðina segir m.a.: „…Hestlán eitt til alþingiss. Dagslættir tveir til Viðeyjar hvort sem á býr einn eður fleiri, og fæðir bóndinn sig sjálfur síðan í tíð Jóhanns Klein; alt þángað til var þar matur gefinn þrímælt, en nú alleina lítilsháttar af mjólk, tveimur eður þrem, sem lítt mætti einum nægja í senn. Hrísshestar tveir og kann bóndinn þeirra ekki að afla nær en suður í Almenningum, og kostar það þriggja daga tíma.

Þerney

Þerney – bæjarstæðið.

Móhestar oftast tveir, skjaldan einn. Móskurður til eldiviðar, síðan aflögðust skipaferðir í Heidemanns tíð; skal bóndinn skera tíu fóta breiða gröf og þrjátíu fóta lánga… Torfrista og stúnga er eydd í eyjunni að mestu og því sókt á fastaland, og liggur þar annar helmingur þessarar jarðar… Heimræði er árið um kring þegar fiskur gekk til sunda, en verstaða hefur hjer aldrei verið fyrir aðkomandi sjófólk… Selstöðu hefur jörðin til forna um lánga æfi brúkað í Stardal, og fæst hún nú ekki síðan þar var bygð sett… Kirkjuvegur lángur og erfiður.“

Uppdráttur af Glóru

Um Landakot segir: „Hjáleiga, nú í auðn og hefur so verið í 3 ár. Hún var bygð að nýju, þar sem ei hafði fyr býli verið fyrir vel þrjáríi árum… Kvaðir voru mannslán ár um kring og dagsláttur einn, hvortveggja til heimabónda. Item að styrkja til móskurðar á Bessastöðum bóndans vegna… Þessi hjáleiga stendur á eyjunni.“
Um Sundakot segir: „Önnur hjáleiga á fastalandi… Ábúandinn Magnús Hákonarson… Kvaðir eru mannslán árið um kring utan sláttar. einn dagsláttur. Hvortveggja til heimabóndans… Sjávarhlunnindi hefur hjáleigan engin. Átroðningur er mikill. Þessi hjáleiga er eldri en menn til minnast.“
Um Vidernes (Víðines) segir: „Heimræði árið um kring þegar fiskur gekk til sunda, en skipgata löng.“ Víðines er á sunnanverðu Álfsnesi. Bendir þetta til þess að gert hafi verið út frá Þerney þó svo að lending sé víða góð við vestanvert Álfsnes. enda voru kvaðir á jörðinni sbr.: „Kvaðir eru mannslán um vertíð og hálfur skiphlutur utan vertíðar, ella mannslán árið um kring utan sláttar…“

Kjalarnes

Kjalarnes – bæir.

Um Alsnes (Alfsnes/Álfsnes) segir: „Tún og engi meinþýft… Landþröng eru mikil og því er þessari jörð til beitar og annara nytja forn eyðijörð hjer nær, sem kallast Háheiði, segja menn, að þá hafi hjer landskuld aukin verið til helminga fyrir þessarar eyðijarðar brúkun. Stórviðri skaðar stundum hús og hey. Kirkjuvegur er lángur og erfiður. Vatnsból er slæmt en skortir þó ekki fyrir pening. Neysluvatn þarf annarstaðar að sækja.“
Um hjáleiguna Urðarkot (Glóru) segir: „Jarðardýrleiki reiknast með heimajörðinni… Vatnsból er á heimajörðinni. (Í Jarðabókinni er á lausu blaði brjef um Urðarkot og hljóðar svo:
Landskuld í Hallsnesshjáleigu, sem kölluð er Urðarkot eður Glóra, betalast með fiski ef til er eður peningum uppá fiskatal).
Glóra - Álfsnes fjærHér virðist Urðarkot, Hallsneshjáleiga og Glóra vera ein og sama bújörðin, auk þess sem Niðurkot og Sundakot virðast vera þær sömu. Af landamerkjavörðum að dæma er að sjá að Niðurkot hafi tilheyrt Þerney sem og Gunnunes. Þá er ljóst að Víðines hafi verið þess megin fyrrum.
Allt eru þetta hinar merkilegustu upplýsingar í ljósi þeirra minja, sem enn má finna á vestanverðu Álfsnesinu.
Við Glóru má sjá bæði tvöfalda fjárhústóft með miðjugörðum, sauðakofa, matjurtargarða o.fl. Af ummerkjum að dæma virðist Glóra hafa verið byggð upp úr eldri hjáleigu (Urðarkoti og Hallsneshjáleigu), en öll núverandi ummerki benda til 19. aldar býlis (reglulaga með fjórum stöfnum mót vestri), auk þess sem túngarðurinn er enn „reisulegur“ á köflum. Hlaðið er um brunnstæðið norðaustan bæjarins og matjurtargarður gefa góða vísbendingu um síðaldur bæjarins.

Rétt suðvestan Niðurkots

Niðurkot (Sundakot) er augljóst dæmi um 17. aldar bæ, sem fyrr segir. Hann er ekki óreglulegur, en ekki heldur reglurlegur. Fjós er norðan í húsaþyrpingunni, sem er af einfaldri gerð. Baðstofa og búr eru mót vestri, þótt dyr baðsofunnar snúi að Þerney. Lendingin er og var neðan bæjarins, sem bendir til þýðingu hjáleigunnar sbr. Jarðabókina 1703. Haðinn garður og gerði eru vestan, sunnan og austan bæjarins. Tóft, sennilega sauðakofi, er skammt suðaustar (innan túngarðs), og einfalt fjárhús sunnar. Það virðist byggt eftir seinni tíma forskrift og hefur því væntanlega tilheyrt Niðurkoti frekar en Sundakoti. Norðvestar virðist vera hleðsla af fiskgeymsluhúsi og mun vestar er hlaðin rétt í gróningum ofan við ströndina. Vörin og aðallending Þerneyjar er neðan við bæinn, malarfjara, sem enn er notuð til flutnings fólks út í Þerney. Bæjarstæðið þar „kallar“ á lendinguna, enda hefur bæði þörfin og mikilvægið augljóslega verið mikið fyrrum. 

Niðurkot

Í Þerney var kirkja á 13. öld. Á 18. öld var leiguliði bóndans verðlaunaður með konungsúrskurði fyrir haglega gerða garðhleðslu.
Sigurður Sigurðarson dýralæknir, Keldum, hefur m.a. skrifað um „Uppruna íslensku kýrinnar og innflutning á lifandi nautgripum og erfðaefni“. Þar segir kemur Þerney við sögu sbr.: „Um landnám mun svipaður nautgripastofn hafa verið á öllum Norðurlöndunum. Samkvæmt tiltækum upplýsingum, sem greint er frá hér á eftir, virðist íslenska kúakynið vera af norskum uppruna. Það er trúlega eitt af örfáum eða jafnvel eina kynið í heiminum sem haldist hefur lítt eða ekki blandað öðrum kynjum jafn lengi eða allt frá því á landnámsöld.
Í Íslandslýsingu sinni frá því um 1590 getur Oddur Einarsson biskup þess, að flestir nautgripir á Íslandi séu hyrndir en kollótt naut komi þó fyrir. Nautgripir frá Danmörku voru nokkrum sinnum fluttir til landsins á 19. öld. Áhrif þess Uppdráttur af Niðurkotiinnflutnings eru talin mjög lítil. Norskur fræðimaður, O. Bæröe, sem ferðaðist um Ísland árið 1902, taldi íslenska nautgripi líkjast mest nautgripum á Þelamörk og í Austurdal í Noregi. Umfangsmiklar blóðrannsóknir voru gerðar á íslensku nautgripunum árið 1962 og samanburður gerður við nautgripakyn í Noregi. Niðurstaðan var sú að íslenskir nautgripir höfðu mjög svipaða blóðflokkagerð og gömlu landkynin í Noregi, þ.e. Þelamerkur-, Dala- og Þrændakýr.
Í „Lýsingu Íslands“, sem út kom árið 1919, getur Þorvaldur Thoroddsen þess að lengi hafi verið talað um nauðsyn þess að bæta kúakynið, en ekki hafi orðið af framkvæmdum nema það að menn fengu sér við og við útlendar kýr á 18. og 19. öld. Innflutningur á 19. öld, sem Þorvaldur nefnir er þessi: 1816 fékk Magnús Stephensen frá konungsbúum Sjálandi rauða kvígu og bola. 1819. Fékk hann veturgamlar 2 kvígur frá Holtsetalandi (óvíst um innfl. M.Steph. 1831).

Túngarðurinn við Niðurkot

Magnús gerði tilraunir með dönsku nautgripina í Viðey. Fyrir 1840 voru danskar kýr fluttar til nokkurra staða á Íslandi skv. sóknarlýsingum. 1933 komu til landsins frá Skotlandi 5 nautgripir af 4 mismunandi holdakynjum. Sagt er frá þessum innflutningi í bókinni „Þættir um innflutning búfjár og Karakúlsjúkdóma“, sem út kom 1947. Gripirnir komu með Brúarfossi til Reykjavíkur hinn 4. júlí 1933 og voru fluttir samdægurs í einangrun til Þerneyjar, en þá var þar bóndi, Hafliði að nafni, með fjölskyldu sína og hafði búið þar m.a. við nautgripi og sauðfé.

Álfsnes

Álfsnes og nágrenni.

Dýralæknirinn í Reykjavík var fjarverandi vegna framboðs til Alþingis, þegar gripirnir komu og var aðstoðarmaður hans Guðmundur Andrésson (ekki dýralæknislærður) fenginn til að skoða nautgripina áður en þeir voru teknir úr skipinu. Taldi hann þá heilbrigða, en ekkert vottorð var gefið út um það. Hinn 10. júlí sama ár voru fluttar til Þerneyjar 20 Karakúlkindur frá Þýskalandi. Ásgeir Þ. Ólafsson dýralæknir í Borgarnesi var fenginn til að gera læknisskoðun á fénu og framkvæmdi hann skoðunina þegar kindurnar voru teknar í land í Þerney og síðan skoðaði hann tarfana, sem þangað voru komnir áður, en kvíguna náðist ekki í til skoðunar. Ásgeir taldi tarfana heilbrigða og hina prýðilegustu að útliti. Samkvæmt skýrslu Hannesar Jónssonar dýralæknis fóru að koma hrúðraðir hárlausir blettir á eitt nautið u.þ.b. einni viku eftir að gripirnir komu til Þerneyjar og fylgdi því mikill kláði.

Þerney - loftmynd

Eftir 3-4 vikur voru allir gripirnir komnir með útbrot. Hannes taldi sjúkdóminn vera Hringorm (Hringskyrfi, Herpes tonsurans) og var sú sjúkdómsgreining seinna staðfest á Rannsóknarstofu Háskólans. Eftir að upplýsingar höfðu fengist erlendis frá og talsverðar vangaveltur var ákveðið að lóga gripunum. Heimanautgripir í Þerney smituðust einnig og voru felldir vorið eftir. Fólk í Þerney smitaðist einnig af hringskyrfi en hvorki sauðfé né hross, sem þar voru. Lógað var öllum innfluttu gripunum 5 að tölu og var það gert hinn 9. janúar 1934, en kálfur undan Gallowaykúnni þá tæplega vikugamall hafði verið tekinn úr karinu og fluttur inn í eldhús. Galloway-kálfurinn í Þerney var fluttur samkvæmt leyfi stjórnvalda í land hinn 16. febrúar 1934. Hann var hafður í einangrun í kjallara á bænum Blikastöðum til 27. apríl sama ár. Hann sýktist ekki og hringskyrfi var upprætt í Þerney.
Glóra (Urðarkot) fór í eyði 1896, tíu árum á eftir Niðurkoti (Sundakoti).
Gengið var um Gunnunes og til baka. Í bakaleiðinni voru m.a. ígrunduð landamerki Þerneyjar o.fl. (3:03).

Heimildir m.a.:
-Jarðabókin 1703, bls. 329-335.
-Sigurður Sigurðarson dýralæknir, Keldum.
-Bjarki Bjarnason.
-Kjalnesingar, 1989.

Álfsnes

Álfsnes – Glóra.