Færslur

Nikurlásatóft

Tvær heillegar minjar má berja augum á Hraunbrúninni svonefndu ofan við Hveragerði. Þær eru Lambabyrgið og Nikulásartóft, báðar hluti af minjum í fyrrum Vorsabæjarlandi.

Lambabyrgid

Samkvæmt örnefnaskrá Vorsabæjar eru leifar lambabyrgis á Hraunbrúninni, norðaustan við Nikulásartóft. Lambabyrgið er byggt í ofanverðri hraunbrún sem er um 3 – 4 m há. Niður undan byrginu er grasi gróin brekka. Um er að ræða heillegt aðhald. það virðist ekki mjög gamalt. Það er engu að síður ágætis dæmi um aðhald af þessari tegund. Veggirnir eru vel hlaðnir. Frekari rannsóknir á aðhaldinu myndu sennilega ekki gefa meiri upplýsingar um notkun þess en gætu þó staðfest að fé hafi verið haft í aðhaldinu. Aðhaldið er nálægt vegi sem liggur inn að hesthúsahverfi Hvergerðinga og því gott aðgengi að því. Trjáplöntum hefur verið plantað neðan við aðhaldið svo líklegt má telja að það hverfi í skóg með tímanum.
NikurlasartoftSamkvæmt sömu örnefnaskrá er Nikulásartóft leifar af sauðahúsi Nikulásar Gíslasonar, bónda í Vorsabæ. Tóftin stendur upp á Hraunbrúninni en svo var brúnin á hrauninu vestan Vallarins kölluð.
Nikulás Gíslason var fæddur á Kröggólfsstöðum árið 1833. Hann giftist Ragnheiði Diðriksdóttur árið 1872. Þau bjuggu á Krossi frá 1874 til 1881 og í Vorsabæ 1883 til 1900. Nikulás dó 1. ágúst 1905.
Nikulásartóft stendur ofan á hraunkanti, nærri brún hans, um 100 m suðvestan við malarvegi sem, liggur að hesthúsahverfi Hvergerðinga. Umhverfis tóftina er hraun vaxið mosa og lyngi. Furutrjám hefur verið plantað í nágrenni tóftarinnar. Tóftin er hlaðin úr hraungrýti, 9m x 7m að stærð og liggur NA-SV. Inngangur hefur verið á SA-gafli. Vegghæð er um 60 cm. Botn tóftarinnar er grasi vaxin en veggir vaxnir mosa og lyngi.
Toft HveragerdiSkammt norðan við hraunkantinn, sem hýsir Lambabyrgið og Nikulásartóftina hvílir nánast jarðlæg tóft, þó greinilega manngerð. Tóft þessi er í hraunkvos og mótar greinilega fyrir hleðslum. Um hefur verið að ræða skjól eða hús fyrir eitthvað eða einhvern um skamman tíma. Líklegt má telja að þarna geti verið um að ræða smalabyrgi fyrir þann er nýtti mannvirkin fyrrnefndu; Lambabyrgi og Nikulásartóft. Ef svo er gæti verið um skemmtilega heilstæðu að ræða frá einhverju ótilteknu tímabili búsetu í upplandi núverandi Hveragerðis. Ástæða væri að skoða svæðið allt betur með tilliti til heilstæðu þess, bæði varðandi búsetu og ekki síður m.t.t. umferðar fyrr á öldum því víða má sjá ummerki hennar í landslaginu.

Heimildir:
-Fornleifaskráning fyrir Hengil og nágrenni – Kristinn Magnússon, 2008.
-Þórður Ögmundur Jóhannsson. Vorsabær. Örnefnaskrá. Örnefnastofnun.
-Eiríkur Einarsson: Ölfusingar. Búendatal Ölfushrepps 1703-1980, 146 -147.

Hveragerði

Hveragerði – berggangur ofan bæjar.