Ætlunin var að staðsetja framangreinda staði m.v. lýsinguna.
Lónakotsvörin sést enn vestan og neðan við vesturtúngarðinn. Túngarðurinn sjálfur var reyndar færður utar, en ef miðað er við leifarnar af hlaðna garðinum liggur vörin þar neðan við. Fast vestan hennar er Mávahella, stór flöt hraunklöpp er stendur upp úr sjónum við meðalsævi.
Til að gera leitina að Nípurétt og Nípuskjóli ekki allt of auðvelda var svæðið næði neðan og ofan við kannað gaumgæfilega – ef ske kynni að einhverjar mannvistarleifar kynnu að leynast þar.
Við Réttarkletta eru gerði, garðhleðslur, skjól og tóftir. Gróið er í kring. Skammt vestra og svolítið ofar er hlaðið fjárskjól fyrir skúta.
Austan við Réttarkletta, ofan garðs, er hlaðið með grunnu, en ílöngu, jarðfalli. Þarna hefur væntanlega verið aðhald um tíma. Svo til beint norðvestur af því er Nípurétt. Annars sést réttin vel þegar gengið er eftir stígnum ofan við ströndina milli Lónakots og Réttarkletta. Hún er skammt austan við hraunhrygg austan Réttarkletta. Réttin hefur verið ferköntuð. Austurveggurinn stendur heillegur, en aðrir veggir eru að mestu fallnir. Réttin hefur verið vel staðsett m.t.t. fjárrekstra ofan við ströndina, en féð hefur væntanlega þá, líkt og nú, sótt talsvert í fjöruna. Engin hólf eða dilkar eru í réttinni.
Ef gömlu vagngötunni er fylgt milli Lónakots og Réttarkletta má vel sjá hvernig hún hefur verið unnin. Bæði hefur verið hlaðið í kanta við bakka og brotið úr skörðum. Að vísu hefur sjórinn kastað grjóti upp á og yfir götuna á köflum, en tiltölulega auðvelt er að feta sig eftir henni enn þann dag í dag.
Tækifærið var notað til að skoða tóftir Lónakotsbæjarins, Norðurfjárhúsanna, brunnsins sunnan bæjarhólsins og Lónakotsréttina suðaustan við túnhliðið.
Strandsvæðið milli Straums og Hvassahrauns, þ.m.t. Lónakotssvæðið, er tilvalið til útivistar. Það hefur að geyma fjöldan allan af minjum fyrri tíma. Það sem þyrfti að gera er að merkja þær helstu svo gönguferðir um svæðið gætu bæði verið fólki til fróðleiks og ánægju. Umhverfið þarna má segja að sé einstakt og það einungis í örskotsfjarlægð frá mesta þýttbýli landsins.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefnaskrá fyrir Lónakot. Gísli Sigurðsson skráði. Örnefnastofnun Íslands.