Í Jarðamati á Íslandi 1858 eru nefndir eftirfarandi bæir í Innri-Njarðvík: Innri-Njarðvík, Stapakot (hjáleiga), Móakot, Hákot, Hólmfastskot, Ólafsvöllur, Tjarnarkot og Narfakot.
Í Faxa, 3. tbl. 1984, fjallar Guðmundur A. Finnbogason um „Fróðleik um Njarðvík„. Þar segir m.a.: „Njarðvík innri. Þar var tvíbýli. Á I býlinu var Egill Sveinbjarnarson húsbóndi, ógiftur, þá 36 ára gamall. Vel skýr og fróður, siðprúður skikkanlegur. Þar voru og bræður Egils, Jón og Ásbjörn, báðir ókvæntir, vel skýrir og fróðir. Jón sagður sniðugur, Ásbjörn skikkanlegur dánumaður, afi Ásbjarnar Ólafssonar er lét byggja kirkjuna. Þar voru 7 manns í heimili. Þar á heimili var elzta kona í sókninni, Ingveldur Tumadóttir, 75 ára niðursetningur, vel fróð. meinhæg.
Á býli II í Njarðvík-Innri, bjuggu hjónin Guðmundur Guðmundsson, 45 ára ekki illa að sér, skikkanlegur og Helga Jónsdóttir 54 ára húsmóðir, ekki vel fróð, og gangssöm. Hjá þeim voru 9 manns í heimili.
Stapakot, þar var tvíbýli. 1 býli, Árni Þorgilsson, 41 árs húsbóndi, vel að sér, forstandur. Hans kona, húsmóðir, Guörún Sigmundsdóttir, 35 ár, vel fróð í andlegu, forstandug. 7 menn í heimili.
Stapakot, II býli, Jón Þórðarson húsbóndi, 39 ára, ekki ófróður, meðallagi skikkaður. Sigríður Jónsdóttir, húsmóðir, 38 ára, í meðallagi skýr, meinhæg. 11 manns í heimili.
Móakot, Þorsteinn Bjarnason, 33 ára húsbóndi, í meðallagi skýr og fróður, forstandugur. Guðrún Halldórsdóttir, húsmóðir, 25 ára, sæmilega kunnandi, meinlítil. 5 manns í heimili.
Hólmfastskot, Magnús Grímsson, 32 ára húsbóndi, í meðallagi upplýstur, skikkanlegur. Ingibjörg Guðmundsdóttir, 38 ára húsmóðir, sæmilega upplýst, meinlítil. 4 í heimili.
Hákot, tvíbýli. I býli, Jón Jónsson, 50 ára húsbóndi, ekki mjög illa að sér. Hegðun bætir sig. Guðbjörg Jónsdóttir, húsmóðir, ekki mjög illa að sér, sæmilega skýr, meinhæg. 3 í heimili.
Hákot, II býli, Jón Þórðarson, 41 árs húsbóndi. Ekki vel að sér, meinlítill. Guðrún Bjarnadóttir, 38 ára húsmóðir, sæmilega kunnandi, meinhæg. 5 manns í heimili.
Tjarnarkot, Jón Guðbrandsson húsbóndi. 41 árs, skýr og fróður, vandaður dánumaður. Margrét Jónsdóttir, 56 ára húsmóðir, sæmilega upplýst, skikkanleg. 3 í heimili.
Narfakot, Snorri Gissurarson, húsbóndi 58 ára, skýr og fróður, forstandugur. Margrét Jónsdóttir, 55 ára húsmóðir, (var ljósmóðir), skikkanleg. 10 manns í heimili. Margrét kona Snorra, tók á móti 37 börnum í Njarðvíkum á árunum 1776 til 1800.“
Í Faxa í júní 1970 fjallar Guðmundur A. Finnbogason um „Njarðvíkinga á 19. öld„, fyrri hluti:
„Þórukot í Ytri Njarðvíkurhverfi er, að ég bezt veit, fyrsta læknissetur hér á Suðurnesjum. Árið 1873 var Þórður Guðmundssen læknir skipaður aukalæknir á Rosmhvalanesi. Var Þórður lausamaður til heimilis í Þórukoti hjá þeim Birni og Vigdísi.
Þórður læknir var fæddur 14. marz 1848, sonur Þórðar Guðmundsen, sýslumanns á Litla-Hrauni og konu hans, Jóhönnu Lárusdóttur Knútsen. Tveir bræður Þórðar læknis voru vel þekktir barnakennarar hér á Suðurnesjum á síðustu áratugum 19. aldar, voru það þeir Oddgeir Guðmundsen kennari á Vatnsleysuströnd, seinna prestur í Vestmannaeyjum, og Þorgrímur Guðmundsen, barnakennari, Gerðum í Garði, seinna í Reykjavík. Þórður læknir var um kyrrt í Þórukoti nokkuð á annað ár og flyzt þaðan út í Garð. Fór hann að búa þar með ráðskonu sinni, Sólveigu Bjarnadóttur, bjuggu þau í nýja barnaskólahúsinu í Gerðum, en þar var Þorgrímur bróðir Þórðar þá til heimilis.
Árið 1878 flytja þau Þórður og Sólveig að Hákoti í Innra Njarðvíkurhverfi, var það af yfirvöldunum talið heppilegra að hafa lækninn staðsettan sem mest miðsvæðis í læknishéraðinu. Þaðan fluttu þau hjón eftir eitt ár heim að Innri-Njarðvík, voru þar í húsmennsku hjá hjónunum Jóel Jónssyni og Elínu Árnadóttur, er bjuggu þar á öðru býli.
Sólveig Bjarnadóttir, ráðskona Þórðar, var Skaftfellingur, fædd að Fossi á Síðu. Vigdís Hinriksdóttir, kona hans, 12. september 1828 (var hún því nær 20 árum eldri en Þórður). Foreldrar Sólveigar voru Bjarni Einarsson og kona hans, Rannveig Jónsdóttir. Var Sólveig ekkja, hafði verið gift Sveini Péturssyni frá Lóni í Skaftafellssýslu. Þau Sveinn og Sólveig bjuggu í Keflavík um og eftir 1860. Meðal barna þeirra var Rannveig, er giftist Magnúsi Guðnasyni, voru þau foreldrar Friðriks Magnússonar heildsala í Reykjavík.
Magnús og Rannveig bjuggu 6 ár í Innra-Njarðvíkurhverfinu, var það á árunum 1882—1887, fluttu þau þaðan út í Keflavík. Eins og fyrr segir, var Sólveig Bjarnadóttir yfirsetukona (ljósmóðir), tók hún á móti börnum í Keflavík, Garði og Njarðvíkum. Á árunum 1878—1885, dvaldi hún í Innra-Njarðvíkurhverfinu, tók hún á móti 25 börnum í sókninni. Síðasta barnið, er hún tók á móti, var Magnús, annað barn þeirra hjóna Ólafs Magnússonar og Oddnýjar Guðmundsdóttur, er þá bjuggu í Smiðshúsum í Ytra Njarðvíkurhverfi. Hafði Oddný nýlega tekið við ljósmóðurstörfum í sókninni.
Árið 1878 flytja þau Ólafur og Oddný að Narfakoti, þar sem þau bjuggu þar til Ólafur dó, 7. maí 1902. Árið eftir flutti Oddný með börnum sínum til Keflavíkur og þar átti hún heima það sem eftir var ævinnar.
Þegar Oddný tók á móti fyrsta barninu hér í Njarðvíkum, átti hún og Ólafur heima í Ólafsvelli, var það árið 1883, og þann 1. september það ár er hún sótt út að Þórukoti til Steinunnar Arinbjarnardóttur frá Tjarnarkoti, er þar bjó með manni sínum, Sæmundi Sigurðssyni frá Barkarstöðum í Fljótshlíð, fæddist þann dag sonur, var hann skýrður daginn eftir og látinn heita Arinbjörn.
Mér hefir verið sagt, að þau Ólafur og Oddný hafi verið mestu sómamanneskjur. Oddný var merk kona, traust og faræl í starfi sínu og dugmikil ljósmóðir, eru þeir býsna margir, Suðurnesjabúar og víðar um landið, er sáu fyrst þessa heims ljós í hinum mjúku og traustu móðurhöndum Oddnýjar. Hafi hún þakkir mínar og annarra, er þess nutu.
Þórður og Sólveig bjuggu í Innri-Njarðvík fram á árið 1884, en árið áður hafði Þórður sagt af sér læknisstarfinu og í Suðurnesjaannáli séra Sigurðar Sívertsen segir: Vorið 1883: Með ýmsum tíðindum má telja, að læknir vor, Þórður Guðmundsen, hefur sagt af sér embætti sínu. Og í sama annál segir árið 1885: Einn maður að nafni Ólafur Helgason, flutti héðan úr Garði alfarinn til Vesturheims og var hann samferða fyrrverandi lækni vorum, Þórði Guðmundsen.
Ýmsar sagnir gengu um Þórð lækni og veru hans hér í Njarðvíkum. Voru það samtíðarmenn hans, sem frá því kunnu að segja. Var Þórður talinn nokkuð drykkfelldur og þá ekki alltaf í sínu fari, eins og bezt hefði verið á kosið. En hitt var þó, sem meira máli skipti, að hann var talinn ágætur læknir, og þó sérstaklega snillingur til hjálpar sængurkonum. Sagt var, að þó Þórður væri mikið undir áhrifum víns, er hann kom þar, sem vandi var á ferð, þá hefði algjörlega runnið af honum og að hann hefði þá gert sín læknisverk vel og dyggilega.
Hinn góðkunni sómamaður, Magnús Magnússon, er bjó í Hólmfastkoti í rösk 50 ár, ólst upp frá 9 ára aldri í Innri-Njarðvík hjá þeim hjónum, Ásbirni Ólafssyni og Ingveldi Jafetsdóttur. Var Magnús sem unglingur samtíða Þórði lækni í Njarðvík og þekkti hann mæta vel. Kunni hann sem von var frá ýmsu að segja varðandi Þórð. Meðal annars sagði Magnús frá því, að þegar hann með öðrum börnum og unglingum var að leika sér á ísilagðri tjörninni, hafi Þórður stundum komið til þeirra dálítið drukkinn og verið með peninga í vösunum. Fór hann að kasta þeim út á svellið og sagði, að sá sem fyrstur næði í, mætti eiga. Kom þá náttúrlega fjör í mannskapinn og þótti jafnt veitanda sem þyggjendum ánægja að.
Á þeim árum voru peningar mikils virði og þá ekki sízt í augum barna og unglinga, og ekki í tízku að hafa þá að leikfangi. Þótti þeim þetta atferli Þórðar því undrunarvert og minnisstætt, þar sem hver eyrir var í þeirra vitund helgur dómur, og allur frómleiki þá í heiðri hafður og flest öllum í blóð borinn. Því var það, að þótt börnin og unglingarnir tækju með fögnuði það sem til þeirra var kastað, fannst þeim með sjálfum sér þau ekki eiga það. Fóru þau því strax daginn eftir heim til Þórðar og vildu skila því til hans, því þau héldu að honum hefði ekki verið sjálfrátt gerða sinna, en þá segir Þórður við þau: „Þið megið eiga þetta, ég vissi vel hvað ég var að gera.“ Urðu þá allir glaðir og ánægðir.
Skömmu eftir að Þórður tók við læknisembættinu, meðan hann dvaldi í Þórukoti, sendi hann frá sér eftirfarandi tilkynningu í Þjóðólfi 19. ágúst 1873 (orðrétt): „Þeir er vitjaði mín, hér eftir eða þyrftu að sækja mig, vildi góðfúslega hafa hest meðferðis handa mér til að ríða á, annars liggr það í augum uppi að hljóti ég sjálfur að leggja til hest, verða ferðir mínar, þegar svo ber að, þeim mun dýrari fyrir hlutaðeigendur. Þórukoti við Ytri-Njarðvík, 23. júlí 1873. Þórður Guðmundsen.“
Eins og fyrr var á minnst, var Guðfinna Eyjólfsdóttir. móðir Finnboga, föður míns, vinnukona hjá þeim Birni og Vigdísi í Þórukoti. Var það á árunum 1869 til 1873. Þessi 4 ár í Þórukoti voru henni minnisstæð alla tíð til æviloka. Líkaði Guðfinnu vel hjá þeim hjónum, og hafði um þau margar og góðar endurminningar.
Guðfinna vann ásamt öðrum vinnukonum að heimilisverkum, bæði innan bæjar og utan, eftir því sem með þurfti. En eitt var það starf þar á heimilinu, er henni einni var ætlað að leysa. Var það hjúkrunarstarf. Átti hún að annast um og hjúkra tveimur karlmönnum, sem þar lágu rúmfastir. Voru þeir veikir af limafallssýki, (eða rotnunarveiki).
Var þessi voða sjúkdómur þó nokkuð áberandi hér um slóðir á þessum árum, bæði fyrr og seinna. Var hann talinn smitandi og sérstaklega varhugavert að hafa mjög náið samband eða snertingu við hina sjúku. En einhverjir urðu að hjálpa þessu harmkvæla fólki, sem barðist vonlausri baráttu árum saman. Var það því mikil reynsla fyrir Guðfinnu, þá rúmlega tvítuga stúlku, að hafa þetta hjúkrunarstarf í sínum verkahring, og þá ekki hvað sízt, þurfa að horfa upp á þjáningar þessara sjúklinga og geta ekkert að gert þeim til lækninga. En allt sem í hennar valdi stóð rétti hún þeim til líknar og huggunar. Þau meðul, er hún gat veitt, voru hennar hlýju hendur samfara huggunar- og bænarorðum. Þótt hennar framlag næði skammt þeim til líkamlegrar lækningar, var það samt mikilvægt smyrsl á sárustu þjáningar þessara sjúku manna. Kunnu þeir vel að meta og þakka það, sem fyrir þá var gert.
Sagði Guðfinna, amma mín, að þeir hefðu oft beðið heitt og innilega til Guðs, að henni yrði ekkert meint af nærveru sinni við þá. Hafa bænir þeirra áreiðanlega verið heyrðar, því aldrei snerti þessi skaðvæni sjúkdómur heilsu Guðfinnu. En alla hennar ævi voru örlög þessara manna henni sérstaklega minnisstæð, og hafa þau áreiðanlega átt sinn þátt í því, að veita henni næman skilning og tilfinningu á kjörum þeirra, er urðu fyrir veikindum, slysum, eða öðrum raunum, því kom það í hennar hlut oft seinna á lífsleiðinni, að til hennar væri leitað vegna sjúkra. Þótti nærvera hennar og góð ráð gefast vel, og heyrði ég oft sem unglingur, eftir að Guðfinna amma mín var dáin, samtíðakonur hennar minnast hennar af miklu þakklæti og virðingu, fyrir þá hjálp, er hún hafði veitt þeim og fjölskyldum þeirra.
Gestkvæmt var í Þórukoti eins og á öðrum stærri býlum hér í þá daga. Margan gest að garði bar gæða mestu hjóna. Veittu beztu veitingar, varma, — og festu skóna. Einn af þeim mörgu gestum, er bar að garði í Þórukoti, var hinn landskunni Símon Dalaskáld. Heimsótti hann Suðurnesjamenn alltaf af og til síðustu tugi nítjándu aldarinnar og fram á annan tug þessarar aldar. Hefur honum, sem fleirum, þótt gott að heimsækja Þórukotshjónin, og hefur skapazt vinátta þeirra á milli, því að í ljóðabókum Símonar eru ljóðabréf frá honum til Björns í Þórukoti. Og eitthvað hafa þeir Björn bóndi og hann látið ljóðadísina leika sín í milli.
Ber þessi vísa Símonar gott vitni um það:
Bóndi stóð við byrtingsrann,
búinn hrósi líða.
Björn í Þórukoti kann
kvæðaglósur smíða.
Er þetta kjarninn úr ljóðabréfi Símonar til Björns i Þórukoti og það sem honum hefur legið á hjarta að segja Birni frá.
Eins og fyrr er að vikið, hafa þeir séra Oddur Gíslason á Stað í Grindavík og Björn í Þórukoti verið góðir vinir, og hefðu samskipti þeirra ein, þótt ekkert annað hefði verið um að ræða, nægt til að halda minningu Björns lengi uppi. En eins og kunnugt er gekk séra Oddur á undan með góðu eftirdæmi við ýmsar framfarir og nýbreytni, er stuðlað gátu að bættri menningu og betri afkomu fólksins, þar með hans þrotlausa starf í orði og verki að öryggis- og björgunarmálum sjómannastéttarinnar. Hafa þeir félagar, hann og Björn í Þórukoti, áreiðanlega átt þar samleið á mörgum sviðum, og við þær aðstæður hafa skapazt gagnkvæmt traust þeirar í milli. Engum treysti Oddur betur en Birni í Þórukoti, til að standa á eigin fótum, sér til aðstoðar, þegar honum mest lá á, er hann tók sína djörfu en þörfu ákvörðun til framkvæmdar að sækja sér konuefnið heim í föðurgarð hennar suður í Hafnir, sem löngu frægt er orðið.
Árið 1881, þ. 20. janúar, dó Björn Jónsson í Þórukoti, 58 ára að aldri. Var hann jarðsunginn frá kirkjunni í Innri-Njarðvík þ. 5. febrúar af sóknarprestinum, séra Stefáni Thorarensen á Kálfatjörn. Var þetta frostaveturinn mikla og voru frosthörkur miklar og víkin öll ísi lögð, og segir í Annál, að Stakksfjörður hafi allur verið ísi lagður frá Hólmsbergi og inn að Keilisnesi. Lík Björns Jónssonar var flutt frá Þórukoti á ís yfir víkina inn að kirkjunni. Var útfararkostnaðurinn kr. 300,00.
Í Suðurnesjaannáli séra Sigurðar Sívertsens segir í febrúar 1881: Í fyrra mánuði deyði nafnkunnur bóndi, Björn Jónsson, í Þórukoti í Njarðvíkum, hafði hann áður verið auðmaður mikill, en mjög gengið af honum nú.
Í Þjóðólfi í febrúar 1881 segir: „Þann 20. janúar s.l. dó hinn merki bóndi Björn Jónsson í Þórukoti, 58 ára að aldri“.
Eftir röska 3 mánuði, frá láti Björns, eða þ. 11. maí 1881, fór fram uppskrift að dánarbúi hans. Voru þar viðstaddir fyrir hönd ekkjunnar, sýslunefndarmaðurinn, Ásbjörn Ólafsson, Innri-Njarðvík, og fyrir hönd tengdasonar þeirra, Þorgilsar Þorgilssonar, var Ársæll Jónsson, bóndi á Höskuldarkoti, og svo hreppstjórinn, Jón Breiðfjörð í Hólmabúð í Vogum. Voru þarna uppskrifuð og verðlögð 124 númer, er búinu tilheyrðu. Kenndi þar margra grasa, sem vonlegt var, úr þessu stóra og myndarlega búi, sem þar hafði staðið í rösk 20 ár. Eins og fyrr segir var Björn með ríkustu bændum hér um slóðir. Voru jarðeignir dánarbúsins þessar: Ytri-Njarðvík og Þórukot. Böðmóðsstaðir í Laugardal, virtir á kr. 1500,00, og Halldórsstaðir á Vatnsleysuströnd, sem voru virtir á kr. 1300,00. Ekki var nú verðið á hlutunum hátt, jafnvel þótt þeir væru góðir og gagnlegir, og tæpast með réttu hægt að segja, að verðlag þeirra væri nútíma verðbólguverð. Af þessum 124 númerum voru 108 verðlagðir frá 50 aurum til 9 króna hver.
Langverðmætasta uppskriftarnúmerið var einn áttæringur með allri útreiðslu, var hann verðlagður á 300 krónur.
Eftir lát Björns bjó Vigdís, ekkja hans, á Þórukoti í nokkur ár. Hafði hún nöfnu sína og dótturdóttur hjá sér. En árið 1888 flytja þær alfarnar til Hafnarfjarðar. Vigdís Þorgilsdóttir giftist þar síðar, Guðmundi Helgasyni sparisjóðsstjóra. Hjá þeim dó Vigdís Hinriksdóttir, 11. okt. 1909, þá 88 ára að aldri. Hún var jörðuð þ. 21. sama mánaðar og lögð til hynztu hvíldar í kirkjugarðinum að Görðum, var hún þá komin aftur á sínar fæðingar- og bernskuslóðir.
Ekki höfðu ættingjar Björns og Vigdísar að fullu sagt skilið við Njarðvíkurnar, því árið 1894 komu að Þórukoti til búsetu þau Björn Þorgilsson, dóttursonur þeirra og kona hans, Helga Sigurðardóttir. Björn og Helga bjuggu í Þórukoti í 5 ár en fluttu þaðan alfarin 1899 austur að Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum, þar sem þau bjuggu síðan í rösk 20 ár.
Á þeim árum er Björn Þorgilsson bjó í Þórukoti, var Finnbogi faðir minn drengur innan við fermingu hjá foreldrum sínum í Hákoti hér í Innra hverfinu. Á hann margar ánægjulegar endurminningar um Björn frá þeim tímum. Lýsir hann honum sem myndarlegum manni, fjörmiklum, glaðlynd og ævinlega tilbúinn að gera að gamni sínu við krakkana, er sóttu eftir að njóta góðrar nærveru hans, og ekki spillti það ánægjunni, að Björn spilaði ágætlega á harmoniku. Spilaði hann á böllum, sem þá voru haldin í barnaskólanum hér, en sá skóli stóð nokkra faðma í norður frá Akri. Var í því húsi, þótt lítið væri, all rúmgóð skólastofa. Voru dansleikirnir haldnir í þeirri stofu. Var þar oft dansað af miklu fjöri fram á nætur. Skemmti fólk sér innilega og átti músikin frá Birni þar ekki minnstan þátt í. Voru þessar ánægjustundir í litla barnaskólanum hressandi aflgjafi í daglegu striti þeirra, tíma, og entist lengi hjá þeim, er þeirra nutu. Eftir að Björn fluttist austur undir Eyjafjöllin, hélt hann samt sinni tryggð við æskustöðvarnar.
Enn í dag liggur þráðurinn frá þeim Birni og Vigdísi hingað suður í Njarðvíkur, því skammt frá Þórukoti þar sem þau bjuggu, býr nú fósturdóttir Björns Þorgilssonar og konu hans. Tóku þau hana til fósturs á fyrsta ári og ólst hún upp hjá þeim í Stóru-Mörk, meðan Björn lifði, en fór skömmu síðar með Helgu fóstru sinni til Vestmannaeyja. Þessi fósturdóttir þeirra er Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, kona Óskars Jónssonar kennara. Eru þau hjón vel virtir borgarar hér í Njarðvíkum, eiga þau heima á Holtsgötu 32 hér í Ytri Njarðvík.
Hefur hér að framan verið minnst nokkuð á tvo af þeim fjórum Þórukotsbændum, er borið hafa nafnið Björn þar á síðastliðnum 200 árum. En sá síðasti af þeim nöfnum og fjórði í röðinni, sem gert hafa þar garðinn frægan á þessum tveim öldum, var hinn góðkunni Björn Þorleifsson, er átt hafði þar heima samfleytt í rösk 78 ár, er hann lézt þar haustið 1968, nær 84 ára að aldri.“
Í jólablaði Faxa 1970 er framhald Guðmundar A. Finnbogassonar á „Njarðvíkingum á 19. aldar„: „Árið 1801 voru skráðir 119 íbúar í Njarðvíkursókn. Vatnsnes var þá ekki skráð sem byggt býli. Þá voru í báðum Njarðvíkurhverfum 15 búendur á 11 býlum.
Í Innra hverfinu voru 69 íbúar, 8 búendur á 6 býlum. Í Ytra hverfinu voru 50 íbúar, 7 búendur á 5 býlum. Tvíbýli var í Innri-Njarðvík, Stapakoti, Ytri-Njarðvík
og Höskuldarkoti.
Árið 1820 hafði íbúum Njarðvíkur aðeins fjölgað um 3 (frá 1801), þá búa 65 manns á 9 býlum í Innra hverfinu og 47 manns á 5 býlum í Ytra hverfinu. Vatnsnes var þá ekki enn skráð.
Árið 1830 eru íbúar í sókninni orðnir 154, þá er Vatnsnes fyrir 6 árum skráð og er þar tvíbýli og 9 manns á báðum heimilunum. Þá eru í Innra Njarðvíkurhverfi 9 býli með 65 íbúum og í Ytra hverfinu 5 býli með 63.
Árið 1840 búa 117 manns í Innra hverfi, 58 í Ytra hverfi og 10 á Vatnsnesi. Næstu tíu árin fækkar í sókninni um 7 manns og árið 1850 búa 124 í Innra hverfi, 45 í Ytra hverfi og 9 á Vatnsnesi, samtals 178 manns. Næsta áratuginn fjölgar í sókninni um 39 rnanns, og árið 1860 búa 137 í Innra hverfinu, 66 í Ytra hverfi og 14 á Vatnsnesi, samtals 217 manns.
Frá 1860—1870 verður fólksfjölgunin 35 manns og við fólkstal í Njarðvíkursókn, þann 1. október 1870, (fyrir 100 árum), 155 íbúar í Innra hverfi, 78 í Ytra hverfi, 233 í báðum Njarðvíkurhverfum. 18 íbúar voru þá á Vatnsnesi eða samtals í sókninni 251.
Næstu 10 árin stóð íbúatala nær óbreytt og árið 1880 búa 161 í Innra hverfi, 67 í Ytra hverfi og 25 á Vatnsnesi, samtals 253. Næsta áratuginn fjölgaði um 20 íbúa í sókninni, varð sú aukning öll í Ytra hverfinu. Varð íbúatalan í sókninni þá sú hæsta, sem hún varð á nítjándu öldinni. Árið 1890 bjuggu 160 íbúar í Innra hverfinu, 90 í Ytra hverfinu og 23 á Vatnsnesi, samtals 273 í allri sókninni.
Svo kom síðasti tugur aldarinnar með sín miklu fiskileysisár, og þá fækkaði fólkinu í Njarðvíkursókn, hvorki meira né minna, en um 90 manns og var þá fólkstalan árið 1900 orðin 183, og þá komin niður í að vera aðeins 5 manns fleiri en hún var hálfri öld áður, árið 1850.
Ennþá fækkaði fólkinu, þótt 20. öldin kæmi og árið 1910 búa 72 í Innra hverfi, 39 í Ytra hverfi eða 111 manns í Njarðvíkum báðurn og 14 á Vatnsnesi, samtals 125 manns.
Fólkið sem flutti burt, fór flest til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Þá var skútuöldin í uppsiglingu og eftir aldamótin var hún í fullum blóma. Svo kom togaraútgerðin í kjölfar hennar. Var þá ekki í önnur hús að venda, þegar sjávaraflinn brást á opnu bátunum hér á grunnmiðunum.
Nokkrar fjölskyldur fluttu til Ameríku og ílentust þar. Svo liðu tímar og aftur fjölgaði fólkinu í Njarðvíkursókn, en það er önnur saga.
Í dag er þar margt um manninn og í báðum Njarðvíkurhverfum að meðtalinni nýlendu þeirra, er nefnist Grænás, voru í árslok 1969 1.522 íbúar.
Á manntali fyrir réttum 100 árum, þann 1. okt. 1870, voru sem fyrr segir: 251 íbúi skráður í Njarðvíkursókn. 13.3 karlmenn og 118 konur. Af þeim voru 50 á aldrinum 0—9 ára, 47 voru 10—19 ára, 44, 20—29 og 62 30—39 ára, og 31 voru 40—49 ára, 9, 50—59 og 6, 60—69 ára. Einn karl og ein kona voru eldri.
Í Innra-Njarðvíkurhverfi voru eftirtalin býli og búendur: Stapakot 1. býli: Þórður Árnason (56 ára) og Elín Klemensdóttir, kona hans (53 ára), (9 manns í heimili.
Stapakot 2. býli: Ari Eiríksson (34 ára) og kona hans Kristjana Jóhannsdóttir (35 ára), (7 í heimili).
Móakot: Bjarni Bjarnason (28 ára) og kona hans Ástríður Asgrímsdóttir (36 ára), (6 í heimili).
Innri-Njarðvík 1. býli: Pétur Lárus Guðmundsson Petersen (38 ára) og kona hans Anna Margrét Þorgrímsdóttir (32 ára), (12 i heimili).
Innri-Njarðvík 2. býli: Kristján G. Schram (36 ára) og kona hans Margrét Pétursdóttir (32 ára). Húsfólk þar: Jón Þorleifsson (61 árs) og kona hans Margrét Einarsdóttir (31 árs), (10 í heimili).
Innri-Njarðvík 3. býli: Ásbjörn Ólafsson (38 ára) og kona hans Ingveldur Jafetsdóttir (30 ára). Þurrabúð: Eggert Jónsson (42 ára) og kona hans Kristrún Þorvaldsdóttir (42 ára), (23 í heimili).
Alls voru þá skráðir til heimilis í Innri Njarðvík og gengu þar um stéttar á staðnum 44 heimamenn.
Hákot: Pétur Bjarnason (38 ára) og kona hans Kristín Jóhannsdóttir (34 ára), 16 í heimili.
Hólmfastskot: Grímur Andrésson (30 ára) og kona hans Kristrún Arnadóttir (29 ára), 9 í heimili.
Ólafsvöllur: Guðmundur Bjarnason (33 ára) og kona hans Guðrún Andrésdóttir (26 ára), 8 í heimili.
Garðbær: Þórður Sveinsson (69 ára) og kona hans Guðbjörg Guðmundsdóttir (57 ára), 4 í heimili.
Tjarnarkot 1. býli: Arinbjörn Ólafsson (35 ára) og kona hans Kristín Björnsdóttir (34 ára), 16 í heimili.
Tjarnarkot 2. býli: Bjarni Bjarnason (43 ára) og kona hans Guðrún Árnadóttir (46 ára), 10 í heimili. Samtals í Tjarnarkoti 26 manns.
Narfakot 1. býli: Jón Magnússon (35 ára) og kona hans Halla Arnadóttir (36 ára), 12 í heimili.
Narfakot 2. býli: Jón Þórðarson (35 ára) og kona hans Margrét Jónsdóttir (28 ára), 8 í heimili. Samtals 20 manns í Narfakoti.
Stekkjarkot: Jón Gunnlaugsson (41 árs) og kona hans Rósa Ásgrímsdóttir (43 ára), 5 í heimili.
Samtals í Innra hverfi 155 manns.“
Í „Fornleifaskrá Reykjanesbæjar“ frá 2008 segir um Innri-Njarðvík: „Annað [merkilegt] slíkt svæði er að finna við tjörnina í Innri – Njarðvík.
Bæjarrústir Ólafsvalla og Hólmfastskots eru þar að finna, ásamt fallegum gerðum, stórum öskuhaug og vel varðveittum brunni. Rústirnar eru heillegar og umhverfið er snoturt“. Meira var nú ekki að finna í fornleifaskránni um minjar í Innri-Njarðvvík.
Heimildir:
-Í Jarðamati á Íslandi 1858.
-Faxi, 3. tbl. 01.03.1984, Fróðleikur um Njarðvík, Guðmundur A. Finnbogason, bls. 78-84.
-Faxi, 6. tbl. 01.06.1970, Njarðvíkingar á 19. öld, Guðmundur A. Finnbogason, bls. 87-94.
-Faxi, 10. tbl. 01.12.1970, Njarðvíkingar á 19. öld; Guðmundur A. Finnbogason, bls. 179-181.
-Fornleifaskrá Reykjanesbæjar, Sandra Sif Einarsdóttir og Bjarni F. Einarsson, 2008.