Færslur

Grænás

Eftirfarandi frásögn Skúla Magnússonar um álfa og huldufólk í klettunum í Njarðvíkurásum ofan við Ytri-Njarðvík birtist í Faxa árið 2008.

“Lengi hefur legið orð á því meðal fólks í Njarðvík og Keflavík að álfar eða huldufólk væri í klettunum sem næstir liggja utan við Grænásbrekkuna, að norðan og ofan við hús íslenskra aðalverktaka. Ekki man ég þó eftir sögnum um slíkar verur í Njarðvíkurásunum í elstu og stærstu þjóðsagnasöfnum Íslendinga, hvorki hjá Jóni Árnasyni, Ólafi Davíðssyni né Sigfúsi Sigfússyni. Óljóst er hve gömul þessi trú manna í Keflavík og Njarðvík er þar sem heimildir um hana sem ég þekki eru ekki eldri en frá 20. öld.
Sagnirnar um Háaleitisdrauginn og Guðmund Klárt. virðast þó vitna um að gömul dulræna og forn átrúnaður hafi loðað við Háaleitið, þótt sagnir um það hafi ekki verið skráðar fyrr en á 19. og 20. öld.

Sagnir um huldufólk í Njarðvíkurásunum
NjarðvíkurásarÞau dæmi sem ég þekki um frásagnir af huldufólkinu i Njarðvíkurásum eru öll frá 20. öld. Rétt er að benda á frásögn Helgu Kristinsdóttur frá Akri í Inni-Njarðvík sem birtist í jólablaði Faxa 2007. Þar minnist Helga, sem er látin fyrir stuttu, á örnefnið Álfakirkju, sem talið var tilheyra álfum sem bjuggu í Ásunum.
Álfakirkjan var efst í brekkunni upp af húsi Babtistakirkjunnar amerísku sem þarna stendur. Ekki verður ráðið af frásögn Helgu hve gamalt örnefnið Álfakirkja er, en átrúnaður á það virðist þó vera kominn upp a.m.k. á seinni hluta 19. aldar, að því er skrif Helgu benda til.
Þegar ég var innan við tíu ára gamall heyrði ég föður minn segja sögur af tveimur atvikum sem hentu hann sem stálpaðan krakka inn í Njarðvíkurásum. Það sem einkum togaði krakka og unglinga þangað upp eftir var góð berjaspretta. Lögskilarétt fyrir Hafnir og hreppana yst á Rosmhvalanesi, Ásarétt, var líka hlaðin úr grjóti uppi á hömrunum í Grænási, skammt neðan við lögreglustöðina sem þar stendur, og þarna voru réttir hvert haust allt frá því að réttin var þarna hlaðin árið 1900 eða 1901, eins og lesa má um í fundargerðabók sýslunefndar Gullbringusýslu. Þegar herinn tók þetta landi til afnota var það lýst bannsvæði og réttirnar hurfu og heyra nú sögunni til.
Útiskemmtanir og upphaf þeirra í Ásunum Auk réttanna sem haldnar voru hvert haust í Ásunum voru útiskemmtanir haldnar þar uppi er líða tók á 20. öld og sótti þær fólk úr Njarðvík og Keflavík. Almenningur hafði því allmikli kynni af Ásunum og þær stundir lifða enn í minningu þeirra sem muna timann fyrir stríðið 1940. Ungmennafélag Keflavíkur hélt líka árlega íþróttakeppni og skemmtanir í Hjallatúni, líklega frá um 1930, og allt þar til herinn tók landið 1940. Þá var efnt til keppna og skemmtana í kvosinni í Keflavík, þar sem nú er stóra fánastöngin í skrúðgarði bæjarsins. Upphaf þess garðs má rekja til útiskemmtananna í Hjallatúni sem féllu niður við hernámið.

Huldufólkið hopaði ekki úr Ásunum
En huldufólkið hopaði ekki úr Njarðvíkurásunum þótt fólkið hyrfi þaðan að mestu. Ystu mörk línu þeirrar sem myndaði bannsvæði hersins austan á Háaleiti var dregin skammt ofan við klettabeltið í Ásunum og hið gamla Hjallatún féll líka undir bannsvæðið, en þar niður af komu síðar olíutankar hersins. Á mörkum þess var svo reist meira en mannhæðarhá girðing með gaddavír og vék hún loks ofar í heiðina þegar smíði nýrrar flugstöðvar hófst 1985-1987 og nýr vegur var lagður þangað af Njarðvíkurfitjum. Hluti af þessu svæði, ofan við og í Hjallatúnum, var þó áfram innan girðingar fram að því að herinn hugðist fara á brott alfarinn á árunum 1993-2001.
Huldufólkið hélt tryggð við heimahaga sína í Ásunum og fór hvergi þrátt fyrir allann þann gauragang sem fylgdi vígvélum og vinnutólum næstu árin í nágrenni við bústaði þess. Líklegt er að huldufólkinu hafi liðið þar vel.

Frásagnir föður míns
NjarðvíkurásarFyrri frásögn föður míns um atvik sem hann sagði mér frá og gerðist i Njarðvíkurásum varð líklega þegar hann var 9 eða 10 ára, 1933 eða 34 og fram um fermingu. Svo vildi til að faðir minn og eldri bróðir hans, Snorri Sólon (f. 1916 – d. 1944) fóru saman hjólandi á reiðhjólum sínum inn í Ása til að týna þar krækiber einn sólskinsdag. Líklega var þetta nær þeim tíma þegar faðir minn var á fermingaraldri. Snorri hefur þá verið um tvítugt eða tæplega það. Berjaferðinni lauk fyrr en ætlað var og með skjótari hætti. Bræðurnir hjóluðu eins og leið lá inn undir klettana í Grænási, skildu hjólin eftir við veginn og gengu upp undir klettana þar efra. Þeir gleymdu sér við berjatínsluna og urðu brátt viðskila. I miðju kafi varð Magnúsi föður mínum snögglega litið upp og sá þá torkennilegan mann sem hann bar engin kennsl á. Hann sat á steini skammt frá, horfði út á sjóinn og reykti pípu. Við þetta brá föður mínum svo að hann tók þegar til fótanna, hljóp niður á veg, náði í hjólið og hélt heim á leið. Snorra brá í brún við þessi hlaup og hjólaði á eftir bróður sínum uns hann náði honum og fékk skýringar á háttalagi hans. Sagði Magnús þá Snorra alla söguna en sjálfur hafði Snorri ekki séð neinn mann þar uppfrá meðan á berjatínslunni stóð.
Þegar faðir minn sagði mér þessa sögu rúmum 20 árum seinna hafði óttinn vikið fyrir skilningi á að huldar vættir væru til í ríki nátturinnar. Að mati hans bar mönnum að umgangast huldufólk með virðingu og það viðhorf mótaði mig frá bernsku þótt ég hefði aldrei séð það sjálfur því skyggn var ég ekki.
Hin sagan sem faðir minn sagði mér af torkennilegum verum í Njarðvíkurásum gerðist fyrir stríðið 1939. Þá var hann ásamt fleiri strákum á ferð til Keflavíkur þegar þeir komu auga á konu upp við Ásana. Hún vakti athygli þeirra því hún var að tína eitthvað í svuntu sína við klettana og leit út eins og hún hefði snöggvast brugðið sér af bæ. Sem fyrr segir er töluverður spotti neðan úr byggð í Ytri-Njarðvík á þessum árum og engan mann sáu drengirnir koma þar neðan að. Í hvorugt skiptið gat faðir minn þó um hvernig fólkið var klætt og hvort klæði þess væru í sterkum litum, t.d. rauð, græn eða blá. En helst er að sjá að þetta hvortveggja hafi birst skyndilega þeim sem til sáu. Við fyrstu athugun gæti litið út sem hér hefði verið ósköp venjulegt mennskt fólk á ferð en ekki huldar verur.
Slíkt mætti líka álykta af sögunni „Konan í Hafnaheiðinni” sem Jón Thorarensen skráði eftir frásögn Ólafs Ketilssonar og birti í Rauðskinnu. En þessa ókunnugu og torkennilegu veru sá Ólafur á ferð sinni yfir Hafnaheiði um 1906 en fékk aldrei skýringar á hvernig á ferðum hennar stóð. Klæðnaður hennar stakk í stúf við allt umhverfi og aðstæður þarna suður frá. Ekki var konan þó klædd í litklæði. Á þessum slóðum eru allskemmtilegar samfelldar klappir ekki langt frá leiðinni yfir Hafnaheiðina sem ekki sjást þó frá bílveginum. Aðstæður þar minna mjög á Ásana enda er sagt að huldufólk búi einatt í gömlu bergi, ekki nýrra eldhrauni sem víða má sjá á Reykjanesskaga.

Rauðklæddi maðurinn

Njarðvíkurásar

Njarðvíkurásar.

Að morgni þriðjudags 26. ágúst sl. hélt ég frá stöðvarhúsi SBK í Grófinni með áætlunarbíl. Ég sat fremst í bílnum hægra megin næst aðaldyrum og sá eins vel út úr bílnum og fram fyrir hann og kostur var. Auk mín og bílstjórans komu í rútuna ensk hjón við upphaf ferðar en síðan bættist í hópinn íslensk kona. Enginn var í biðskýlinu í Ytri-Njarðvík svo við héldum áfram að hringtorginu sem er við gatnamót Reykjanesbrautar, Sjávargötu og Gónhóls.
Þegar rútan beygði inn á hringtorgið varð mér litið upp eftir þar sem Ásarnir blöstu við. Þá kom ég skyndilega auga á rauðklæddan mann sem stóð framan við klettana. Mér varð starsýnt á þennan mann bæði vegna klæðnaðar hans og vaxtarlags. Ég hélt strax að þarna væri einhver íbúi úr húsunum neðan við Ásana á morgunrölti en ýmislegt mælti gegn því. Frá bílnum að sjá var hann í dökkrauðum kufli eða mussu sem virtist samfelld frá hálsi niður á fætur og með sérkennilega rauða húfu sem liktist alpahúfu listamanns á 19. öld. Maðurinn var dvergvaxinn og hélt ég fyrst að hann sæti á hækjum sér fremur en að hann stæði uppréttur, en fljótlega sá ég að hann virtist þó keikur og hnarreistur þar sem hann var fyrir framan klettavegginn. Ég sá síðan að hann stóð uppréttur við klettinn. Hann stóð þarna grafkyrr og horfði beint til austurs yfir byggðina og út á sjó. Ég sá vel á milli hans og klettanna og því á bak hans að hluta og gat ráðið af því að hann stóð uppréttur.
Þennan morgun var veðrið milt og gott, suðvestan átt með stuttum hellidembum en glaðasólskini inn á milli. Fjölbreytileiki birtunnar gerði allt umhverfið dulúðugt, fínn suddinn spilaði saman við sílglitrandi, nýfallna og litfagra daggardropana og varpaði dularblæ yfir umhverfið, hæðir og lægðir í umhverfinu og landinu öllu en jörðin merlaði í úðanum í ótal litbrigðum. Þegar ég sá Rauðklæðung leit út fyrir regnbogaveður og síðar þennan dag mynduðust fagrir regnbogar á himni.

Mennskur maður af holdi og blóði?
Hann hvarf síðan þegar við ókum áfram upp brekkuna að húsum Keilis þar sem hópur fólks beið rútunnar. Enginn í bílnum virtist hafa veitt honum athygli nema ég, þótt litirnir á fötum hans hefðu verið svo sterkir að mér datt ekki annað í hug en að allir í rútunni sæju manninn þarna eins og ég enda datt mér ekki annað í hug, meðan við ókum upp Grænásbrekkuna, en að þarna færi mennskur maður af holdi og blóði. Ég gerði því engum vart við sýn mína enda aðrir farþegar það aftarlega að ógjörningur var fyrir mig að ná til þeirra. Enginn annar en ég virtist hafa séð rauðklædda manninn því enginn mælti orð af vörum meðan við ókum þessa stuttu leið.

Áhrifamikil sýn
Rauðklæddi maðurinn minnti mig helst á dverginn sem lék hlutverk álfsins í alþekktri kvikmynd Óskars Gíslasonar, Síðasti bærinn í dalnum. Það átti bæði við um vaxtarlagið og andlitið. Hann var greinilega ófríðari en gengur, skegglaus, andlitið mjög dökkleitt og nefið frekar uppbrett. Höfuðið var sverara og digrara en almennt gerist og þrátt fyrir smæð sína var hann allur meiri um sig og þéttvaxnari en maður á að venjast. Sérstaka athygli vakti hinn sterki dökkrauði litur á klæðnaði hans og að sjá þennan skæra lit innan um dökka klettana og grængresi var svo áhrifamikið að því gleymi ég aldrei.
Ég hélt í fyrstu að ég hefði séð einn af íbúum við göturnar neðan við Ásana en þegar við ókum til Reykjavíkur rann það upp fyrir mér að ég hefði sennilega séð einn af íbúunum í Ásunum og væri hann hvorki af holdi og blóði. Sögur föður míns virtust staðfesta þetta og einnig þjóðsögur fyrri tíma. Fomlegur og sérkennilegur klæðnaður styrkti mig í þessari trú. Mér varð skemmt í huga gömul ósk mín að sjá huldufólk hafði skyndilega ræst og þetta var eins og í ævintýrunum.
Þegar ég kom aftur heim til Keflavíkur um kvöldið og rútan ók niður Grænásbrekkuna sátu tveir strákar á fermingaraldri undir klettunum skammt frá þeim stað þar ég hafði séð Rauðklæðung. En hann var hvergi sjáanlegur þá stundina að minnsta kosti.”

Heimild:
-Faxi, Rauðklæddi maðurinn í Njarðvíkurásum, Skúli Magnússon, 4. tbl. 01.12.2008, bls. 10.

Njarðvíkurásar

Njarðvíkurásar.