Á uppdrætti, sem fylgir örnefnalýsingu fyrir Grafarholt og Korpúlfsstaði má sjá gamlar þjóðleiðir frá og til Reykjavíkur að norðan og austan, þ.e. „Norður- og Vesturlandsveg fyrir aldamótin 1900“, „Þingvallaveg hinn forna“ og „Austurveg hinn forna„.
Í „Byggðakönnun 7 fyrir Árbæ“ frá árinu 2017 m.a lesa eftirfarandi um „fornar leiðir og greiðasölu„:
„Elsta þjóðleiðin til og frá Reykjavík lá frá Skólavörðuholti um Öskjuhlíð og áfram austur Bústaðaholt á þeim slóðum þar sem Bústaðavegur er nú. Frá Bústöðum lá leiðin austur yfir vaðið á vestari kvísl Elliðaánna, um Árhólmann sunnan við Drekkjarhyl og rústirnar af húsum Innréttinganna og yfir eystri kvísl Elliðaánna á Ártúnsvaði, rétt austan við þar sem Toppstöðin er í dag og framundan bæjarhól Ártúns. Á meðan Ártún var í þjóðleið var rekin þar greiðasala. Þaðan lá leiðin að Árbæ um Reiðskarð en þar var skarð í gömlu ísaldaráreyrina og því greiðast að fara þar upp.
Leið þessi var aðalvegurinn austur úr bænum þar til byggðar voru tvær brýr yfir Elliðaárnar árið 1883 og nýr vegur var lagður í framhaldi af Laugavegi norður fyrir Grensás og í gegnum Sogamýri, sem ýmist var nefndur Suðurlandsvegur eða Suðurlandsbraut (núverandi Suðurlandsbraut). Fyrir austan brýrnar færðist vegstæðið norðar og eftir það var Ártún ekki í sömu alfaraleið og áður og greiðasala lagðist af þar. Um svipað leyti hófu ábúendur í Árbæ rekstur greiðasölu, eins og áður er nefnt, sem var rekin þar fram undir 1940.
Um 1900 var búið að gera vagnveg frá Elliðaárbrúm að Árbæ og áfram austur. Þessi vegur (gamli Suðurlandsvegur) er þar sem gatan Rofabær er nú. Vegurinn hélt síðan áfram til austurs framhjá Rauðavatni og að Geithálsi.
Áður lá vegurinn hjá Rauðavatni aðeins sunnar, samanber kort sem til er af svæðinu frá 1902 en þar eru merktir nokkrir gamlir slóðar. „Gamli vegurinn“ er sennilega elsti slóðinn sem lá á milli Árbæjar og Hólms yfir Klapparholtsmóa og er líklega elsti forveri Suðurlandsvegar. Enginn örugg merki eru sjáanleg eftir hann nema hugsanlega nyrst við núverandi Norðlingabraut. Annar slóði lá suðvestur frá Rauðavatni inn Margrófina og inn að Norðlingaholti.
Þessi vegur var forveri Breiðholtsbrautar og er nyrsti hluti hans nú notaður sem reiðvegur. Þá lá slóði yfir Klapparholtsmóa og Klapparholtsvað vestan við býlið Klapparholt yfir að Elliðavatni. Inn á kortið er einnig teiknaður vagnavegurinn meðfram Rauðavatni eða fyrsti Suðurlandsvegurinn“.
Norður- og Vesturlandsvegur lá fyrrum yfir Elliðaár frá Bústöðum að Ártúni. Þar beygði vegurinn upp á brúninar og niður að botni Grafarvogs, upp með vestanverðum Keldum að Korpúlfsstöðum að vaði ofan ósa Blikdalsár.
Þingvallavegur hinn forni og Austurvegur lágu yfir vaðið á Elliðaánum, upp ásinn að Árbæ að Selási. Þar skyldu leiðir. Fyrri vegurinn lá áfram um holtið að Bullaugum, áfram hvylftina ofan Grafarholt (þar sem nú er golfvöllur), upp að Reynisvatni, upp með því til austurs að norðanverðu með Langavatni, niður að austanverðu Hafravatni, upp með Búrfellskoti að Selvatni og áfram inn Seljadal. Síðari vegurinn fór suður fyrir Selásinn og áfram i gegnum Rauðhólanna. Þar skyldiu leiðir; önnur lá upp að Elliðakoti og áfram til austurs að norðanverðu Lyklafelli, hin upp Lækjarbotna um Bolöldur og upp með norðanverðu Svínahrauni. Þar mættust vegirnir til áframhalds upp Hellisskarð og yfir Hellisheiði.
Heimildir:
-Byggðakönnun, Borgarhluti 7 – Árbær; Reykjavík 2017, bls. 17-19.
-Ártúnshöfði – Fornleifaskrá; Reykjavík 2021.