Norðurhellrar hafa líklega tilheyrt Garðakirkjulandi því við Egilsbúð, sem byggð var út úr konungsjörðinni Hliði, segir: “Selstöðu hefur jörðin haft þar sem heita Norðurhellrar, þó ei ummælalaust af Garðastaðarhaldara, en ei hefur sú misgreining til laga komið.” Jarðirnar Brekka og Breiðabólstaður eru einnig sagðar hafa selstöður við Norðurhellra.
Norðurhellrar eru nyst í Selgjá. Í gjánni, sem nefnd af Norðurhellragjá, eru leifar af selstöðum 11 bæja í Garðahreppi. Norðurgjárhellrir er í beinu framhaldi af hrauntröðinni, sem myndar gjána. Fyrir munna hans eru hleðslur.
Stærsti hellirinn er svonefndur Þorsteinshellir skammt suðvestar. Við munna hans eru miklar hleðslur, hlaðinn gangur er greinist í tvennt. Annar hluti hellisins hefur væntanlega verið fyrir sauði og hinn, sá stærri, fyrir kindur. Sumir vilja tengja nafnið við Þorstein Þorsteinsson, sem bjó um tíma í Kaldárseli á síðari hluta 19. aldar.
Tveir aðrir hellar eru skammt frá, báðir með hleðslum fyrir. Hvort þessi skjól hafi verið notuð í tengslum við seljabúskapinn eða í annan tíma er ekki vitað. Þau eru öll í landi Urriðakots, en kotið mun hafa haft í seli í eða við Norðurhellragjá. Í Selgjánni eru tvö önnur skjól með hleðslum fyrir.
Heimildir m.a.:
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, 3. b. s. 195.