Gengið var norður með vestanverðum Núpshlíðarhálsi og upp í Hraunssel neðan við Þrengslin.
Eftir að hafa skoðað selstóftirnar var gengið á hálsinn og honum fylgt niður að gígaröð syðst á honum austanverðum. Um er að ræða mjög fallega gíga, myndarlegar hraunæðar og hrauntraðir í hlíðinni neðanverðri. Vestan undir sunnanverðu Núpshlíðarhorni var, að sögn Jóns Jónssonar, jarðfræðings, einn fallegasti hraungígur landsins, en hann hefur nú að miklum hluta verið notaður sem ofaníburður í þjóðveginn.
Suður lægðina austan Méltunnuklifs, hefur tunga úr Leggjabrjótshrauni runnið vestur um skarð á milli Sandfells og Höfða og suður með honum að vestan. Slóði liggur nú þvert yfir Leggjabrjótshraunið og áfram upp með Núpshlíðinni, inn á Selsvelli og áfram niður á Höskuldarvelli suðvestan Trölladyngju.
Gamlar vörður eru við slóðann yfir hraunið svo líklega hefur hann verið gerður ofan í eldri götu, sem þarna var, enda liggur gata þarna áfram upp á hálsinn við Línkrók, í móbergsskarð á honum og síðan í sneiðingum niður hann að austanverðu. Gatan sést síðan á ný sunnan Djúpavatnsleiðar skammt ofan við gatnamót Ísólfsskálavegar.
Gömul gata er á köflum grópuð í hraunið á þessari leið. Litlu norðar er Hraunsel en þar var sel frá Hrauni í Grindavík. Hér sér greinilega til tófta sem eru nú minnisvarði um löngu liðna búskaparhætti. Eftir að hafa skoðað stekkina í hrauninu norðan selsins, sem eru þrjár heillegar tóttir undir Núpshlíðarhálsinum, kom í ljós ein tótt, greinilega elst þeirra, neðar og á milli tóftana og stekksins. Sunnan við þennan hlaðna stekk var annar mun eldri. Selsstígur liggur frá selinu að suðurhlíð Hraunssels-Vatnsfells. Hraunsselið er síðasta selið, sem lengst var brúkað á Reykjanesi, eða allt til ársins 1914.
Ofan við Hraunsselið eru Þrengslin, sem fyrr sagði. Neðan við Hraunsselið að sunnanverður heita einnig Þrengsli. Frá Hraunseli liggur leiðin eftir gamalli götu á milli hrauns og hlíðar norður með Núpshlíðarhálsi að vestan. Þegar komið er norður fyrir Þrengsli er fljótlega komið á Selsvelli, u.þ.b. 20 mín. ofar.
Selsvellir eru allmikið gróðurlendi sem myndast hefur með framburði lækja úr hálsinum.
Vellirnir eru eins og vin í eyðimörk, og hér var eftirsótt beitiland fyrir búfé. Selsvellir tilheyrðu Stað í Grindavík og notuðu Staðarprestar og hjáleigubændur þeirra selstöðuna. Um miðja nítjándu öld höfðu hér 6 bændur í seli ásamt prestinum á Stað og átti hver sitt selhús. Samtals voru þá um 500 fjár og 30 nautgripir á Selsvöllum.
Núpshlíðarhálsinn er vel gróinn ofan við Hraunssel. Haldið var niður hálsinn og kíkt á hraungígana syðst á honum austanverðum. Þeir eru hver öðrum fallegri. Flestir eru opnir til suðausturs og hefur hraunið, sem rann undan hallanum og niður hlíðina, skilið eftir sig fallegar hraunæðar og traðir.
Moshóll var loks skoðaður niður undan suðvesturhorni hálsins. Jón Jónsson sagði hann merkilegan, ekki síst fyrir það að hægt væri að sjá í honum þversnið af gígrás. Því miður hefur þeirri ásýnd nú verið svipt á brott með stórtækum vinnuvélum.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.
Heimild m.a.:
-http://www.utivist.is/utivist/greinar/