Tag Archive for: Núpshlíðarháls

Selsvellir

Gengið var norður með vestanverðum Núpshlíðarhálsi og upp í Hraunssel neðan við Þrengslin.

Hraunssel

Hraunssel – stekkur.

Eftir að hafa skoðað selstóftirnar var gengið á hálsinn og honum fylgt niður að gígaröð syðst á honum austanverðum. Um er að ræða mjög fallega gíga, myndarlegar hraunæðar og hrauntraðir í hlíðinni neðanverðri. Vestan undir sunnanverðu Núpshlíðarhorni var, að sögn Jóns Jónssonar, jarðfræðings, einn fallegasti hraungígur landsins, en hann hefur nú að miklum hluta verið notaður sem ofaníburður í þjóðveginn.
Suður lægðina austan Méltunnuklifs, hefur tunga úr Leggjabrjótshrauni runnið vestur um skarð á milli Sandfells og Höfða og suður með honum að vestan. Slóði liggur nú þvert yfir Leggjabrjótshraunið og áfram upp með Núpshlíðinni, inn á Selsvelli og áfram niður á Höskuldarvelli suðvestan Trölladyngju.

Hraunssel

Hraunsselsstígur.

Gamlar vörður eru við slóðann yfir hraunið svo líklega hefur hann verið gerður ofan í eldri götu, sem þarna var, enda liggur gata þarna áfram upp á hálsinn við Línkrók, í móbergsskarð á honum og síðan í sneiðingum niður hann að austanverðu. Gatan sést síðan á ný sunnan Djúpavatnsleiðar skammt ofan við gatnamót Ísólfsskálavegar.
Gömul gata er á köflum grópuð í hraunið á þessari leið. Litlu norðar er Hraunsel en þar var sel frá Hrauni í Grindavík. Hér sér greinilega til tófta sem eru nú minnisvarði um löngu liðna búskaparhætti. Eftir að hafa skoðað stekkina í hrauninu norðan selsins, sem eru þrjár heillegar tóttir undir Núpshlíðarhálsinum, kom í ljós ein tótt, greinilega elst þeirra, neðar og á milli tóftana og stekksins. Sunnan við þennan hlaðna stekk var annar mun eldri. Selsstígur liggur frá selinu að suðurhlíð Hraunssels-Vatnsfells. Hraunsselið er síðasta selið, sem lengst var brúkað á Reykjanesi, eða allt til ársins 1914.

Leggjabrjótshraun

Gígur ofan Höfða – Leggjabrjótshraunsskapari.

Ofan við Hraunsselið eru Þrengslin, sem fyrr sagði. Neðan við Hraunsselið að sunnanverður heita einnig Þrengsli. Frá Hraunseli liggur leiðin eftir gamalli götu á milli hrauns og hlíðar norður með Núpshlíðarhálsi að vestan. Þegar komið er norður fyrir Þrengsli er fljótlega komið á Selsvelli, u.þ.b. 20 mín. ofar.
Selsvellir eru allmikið gróðurlendi sem myndast hefur með framburði lækja úr hálsinum.
Vellirnir eru eins og vin í eyðimörk, og hér var eftirsótt beitiland fyrir búfé. Selsvellir tilheyrðu Stað í Grindavík og notuðu Staðarprestar og hjáleigubændur þeirra selstöðuna. Um miðja nítjándu öld höfðu hér 6 bændur í seli ásamt prestinum á Stað og átti hver sitt selhús. Samtals voru þá um 500 fjár og 30 nautgripir á Selsvöllum.

Höfði

Hrauntröð við Höfða.

Núpshlíðarhálsinn er vel gróinn ofan við Hraunssel. Haldið var niður hálsinn og kíkt á hraungígana syðst á honum austanverðum. Þeir eru hver öðrum fallegri. Flestir eru opnir til suðausturs og hefur hraunið, sem rann undan hallanum og niður hlíðina, skilið eftir sig fallegar hraunæðar og traðir.
Moshóll var loks skoðaður niður undan suðvesturhorni hálsins. Jón Jónsson sagði hann merkilegan, ekki síst fyrir það að hægt væri að sjá í honum þversnið af gígrás. Því miður hefur þeirri ásýnd nú verið svipt á brott með stórtækum vinnuvélum.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.utivist.is/utivist/greinar/

Hraunssel

Hraunssel – uppdráttur ÓSÁ.

Kristinn Benediktsson

Í Víkurfréttum 1994 er stutt grein eftir blaðamanninn og ljósmyndarann Kristinn Benediktsson undir fyrirsögninni „Reykjanes; sækum það heim„:

Saga svæðisins

Krýsuvík

Krýsuvík 1810.

„Allur Reykjanesfólkvangur er í hinu upprunalega landnámi Ingólfs Arnasonar, en brátt komu aðrir til sem segir í Landnámu.
Þórir Haustmyrkur nam þá Krýsuvík ásamt Selvogi. Gamli bærinn þar sem nú heitir Húshólmi í Ögmundarhrauni, sem eftir síðustu rannsóknum dæmist hafa runnið á fyrri helmingi 11. aldar. Þá hefur verið hörfað með bæjarhúsin uppundir Bæjarfellið þar sem þau stóðu öldum saman og þar stendur kirkjan enn. Bæjarrústir eru í Húshólma og rústir gamalla fjárborga í Óbrennishólma nokkru vestar í hrauninu.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Krýsuvík var höfuðból og kirkjustaður og fylgdu henni margar hjáleigur. Alls eru til heimildir um 13 býli í Krýsuvíkurlandi að höfuðbólinu meðtöldu.
Þetta var byggðahverfi og kirkjusókn um aldir. Krýsuvík var mikil jörð, beitiland mikið og heyskapur góður, að minnsta kosti þegar ekki var mikið í Kleifarvatni, sem átti það til að standa hátt í kvos sinni árum saman en lækka síðan, allt eftir áhrifum úrkomunnar- því afrennsli hélst jafnt og það eingöngu neðanjarðar. Hlunnindi voru mikil og telur jarðabók Arna Magnússonar og Páls J. Vídalín skóg til kolagerðar fyrir ábúendur, móskurð, fjörugrös sem ábúendum nægi, eggjatekju og fuglaveiði í bergi, selveiði, rekavon í betra lagi og sölvatekju nokkra og útræði fyrir heimamenn á Selatöngum. Selstöður eru taldar tvær, önnur til fjalla en hin niður við sjó.

Krýsuvíkurleið

Gamli Krýsuvíkurvegurinn.

Krýsuvík var öldum saman í alfaraleið. Þar lágu leiðir milli Suðurlands og Suðurnesja og Grindavíkur, um Móhálsa (Vigdísarvelli) og Selvelli á Suðurnes og Ketilsstíg (Sveifluháls norðan Arnarvatns) inn til kaupstaðanna við Faxaflóa. Þarna fóru m.a. miklir vöruflutningar fram, skreið og landafurðir.
Á Bleiksmýri austur af Arnarfelli var fastur áningastaður lestanna. Farið var um Deildaháls ofan Eldborgarinnar undir Geitahlíð, sem merki sjást um enn í dag. Svo fór þó að Krýsuvík gerðist afskekkt. Ný viðhorf komu til í samgöngum, búskap og sjávarútvegi og býlin fóru í eyði hvert af öðru. Nú er Krýsuvík aftur í þjóðbraut síðan akvegur var lagður þar um á árunum 1934-40 og 1944-48. Hafnarfjarðarbær keypti hluta af landi Krýsuvíkur 1941. Í vesturhlíðum Vesturháls (Núpshlíðarháls) og vestan undir honum og Trölladyngju liggja lönd Grindvíkinga og Vatnsleysustrandamanna.

Hraunssel

Hraunssel – uppdráttur ÓSÁ.

Þetta voru afréttalönd og löngum notuð til selstöðu. Í Þrengslum var sel frá Hrauni í Grindavík og á Selvöllum voru sel frá öðrum bæjum í Grindavík. Í Sogunum vestast voru sel frá Kálfatjörn og Bakka t.d. Sogasel og stóðu þau í Sogaselsgíg. Á þessum slóðum eru stærstu samfelld gróðurlönd á Reykjanesi svo sem Selvellir í fólkvanginum og Höskuldarveilir, sem liggja við vesturjaðar fólkvangsins. Norður frá löndum Vatnsleysustrandamanna og Krýsuvíkur tóku við afréttarlönd Álftaneshrepps, Undirhlíðar og landið umhverfis Helgafell norður undir Víðistaðahlíð.
Sjá má af heimildum, að á þessu landi hefur mikill skógur vaxið og af honum hafðar miklar nytjar og óspart á hann gengið, hann höggvinn og rifinn til kolagerðar og eldiviðar, ofan af honum slegið á vetrum til fóðurs og beitar.

Geldingadalir

Geldingadalir í Krýsuvíkum.

Þarna gekk búpeningur mjög sumar og vetur og hellar hafðir til fjárgeymslu og skjóls fjármönnum á vetrum, þegar henta þótti. Heyskapur var lítill á þessum slóðum. Varð því að bjargast á vetrarbeitinni og kom það hart niður á þessu landi. Ekki bætti það úr skák að hrískvöð var á öllum jörðum á Reykjanesi til Bessastaða og Viðeyjar og gekk svo, þangað til svo nærri var gengið að breyta varð hrískvöðinni í fiskikvöð.
Í dag eru helstu akvegir um fólkvanginn Krýsuvíkurvegur úr Vatnsskarði suður í Krýsuvík og áfram austur í Selvog, Nesvegur, sem er þjóðvegurinn milli Krýsuvíkur og Grindavíkur og Bláfjallavegur af Krýsuvíkurvegi við Óbrynnishóla og norður á Suðurlandsveg. Fyrir nokkrum árum var lagður vegur fær fólksbílum að Djúpavatni og áfram suður um Vigdísarvelli og á Nesveg, og opnast þannig hringleið um suðurhluta svæðisins. Af þessum akvegum má komast á fjölbreyttar gönguleiðir í fólkvangnum.“- KB

Heimild:
-Víkurfréttir, 28. tbl. 14.07.1994, Reykjanes; sækjum það heim, Kristinn Benediktsson, bls 11.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Tag Archive for: Núpshlíðarháls