Færslur

Kálffell

Veður var eins og samið hafði verið um – 10 stiga hiti og rakavænn andvari af suðri.

Nýjasel

Nýjasel.

Fyrst var komið við í Nýjaseli undir Nýjaselsbjalla og það skoðað. Kvengöngufólkið þótti eldhúsið tilkomumikið, enda í stærra lagi miðað við önnur svipuð, sem skoðuð hafa verið – 90×120 cm.
Þá var haldið eftir Skógfellavegi að Brandsgjá og skoðuð gjáin þar sem Brandur missti niður tvo hesta á leið sinni að Ísólfsskála. Brandur var þá að koma úr Vogum og hafði fengið sér í staupinu áður en lagt var af stað. Við brúna yfir gjána er fallega hlaðin varða.
Áfram var genginn Skógfellavegur uns beygt var út af honum til suðurs og gengið niður Mosadalagjá og haldið að Kálffelli. Skoðaðar voru hleðslur í og við fellið, litið á fjárhellinn og síðan farið ofan í Oddshelli, sem nefndur er eftir Oddi frá Grænuborg austan Voga. Oddur hélt til í hellinum og þar var hann er Ólafur Þorleifsson ætlaði að heimsækja hann á aðfangadag um aldarmótin 1900, en átti ekki afturkvæmt. Hann féll ofan í sprungu á leiðinni. Heitir sprungan Ólafsgjá. Þar fannst hann um 40 árum síðar, sitjandi á syllu.

Oddshellir

Í Oddshelli.

FERLIRsfólkið átti góða stund í Oddshelli. Kveikt var á jólakerti, snætt var hangikjöt og því rennt niður með Malti og Appelsíni. Þá var boðið upp konfekt og því skolað niður með úrvals koníaki. Sesselja Guðmundsdóttir, sem var með í ferð og þekkir hverja þúfu á þessu svæði. Færði hún FERLIR að gjöf bók sína, “Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi”, sem nú er uppseld og var henni við þetta tækifæri afhent FERLIRshúfa, sem hún hafði áunnið sér fyrir þátttöku sína í FERLIRsferðum.

Kálffell

Kálffell – fjárskjól við Oddshelli.

Þegar út var komið var ákveðið að ganga nokkra hringi um einiberjarunna, sem þar er – svona í tilefni hátíðarinnar, sem í hönd fór.

Oddshellir

Oddshellir.

Frá Oddshelli var haldið í Nýja-Vogasel og það skoðað. Um er að ræða nokkur hús, stekk og kví. Eitt húsanna hefur verið nokkuð stór með nokkrum vistarverum. Þaðan var haldið niður í Gamla-Vogasel og það skoðað.
Þá var haldið til baka og má segja að dagsbirtan og góða veðrið hafi verið nýtt til hins ýtrasta.

Kálffell

Í Kálffelli.

Pétursborg

Gengið var að Nýjaseli. Tvær tóttir kúra þar undir Nýjaselsbjalla, misgengi, skammt austan við Snorrastaðatjarnir. Frá brún bjallans sést vel upp í Pétursborg á brún Huldugjár. Þangað er um 10 mínútna ganga.

Pétursborg

Pétursborg.

Borgin er nokkuð heilleg að hluta, þ.e. vestari hluti hennar. Sunnan við borgina eru tvær tóttir. Önnur þeirra, sú sem er nær, virðist hafa verið stekkur. Þá var haldið upp á brún Litlu-Aragjár og sést þá vel upp að Stóru-Aragjá í suðaustri. Rétt austan við hæstu brún hennar eru Arasel eða Arahnúkssel. Þetta eru 5 tóttir undir gjárveggnum.

Skammt vestan þeirra er fallegur, heillegur, stekkur, fast við vegginn. Arasel

Ara(hnúks)sel – uppdráttur ÓSÁ.

Svæðið undir gjánni er vel gróið, en annars er heiðin víða mjög blásin upp á þessu svæði. Þaðan var haldið að Vogaseljum. Á leiðinni sést vel að Brunnaselstorfunni í suðaustri, en austan undir Vogaholti, sem er beint framundan, eru Vogasel eldri. Þau eru greinilega mjög gömul og liggja neðst í grasi vaxinni brekku utan í holtinu.

Vogasel

Vogasel yngri.

Ofar í brekkunni, undir hraunkletti, eru Vogasel yngri. Þar eru þrjár tóttir, ein undir klettinum efst, önnur framar og enn önnur, sú stærsta, utan í grasbakka enn neðar. Austan við tóttirnar er stór stekkur á bersvæði. Frá seljunum var haldið á brattan til suðurs. Frá brúninni sést vel yfir að Kálffelli í suðri, berggangana ofar í hrauninu og Fagradalsfjöllin enn ofar.

Oddshellir

Oddshellir.

Haldið var áleiðis suður fyrir fellið og er þá komið að Kálfafellsfjárhellunum suðaustan í því. Hleðslur eru fyrir opum hellanna.

Gengið var til vesturs með sunnanverðu fellinu og kíkt inn í gíg þess í leiðinni. Í honum eru garðhleðslur sunnanvert, en norðanvert í gígnum eru hleðslur í hraunrás. Sunnan til, utan í fellinu, eru tveir hraunhólar. Efri hóllinn er holur að innan og á honum tvö göt. Þetta er Oddshellir, sá sem Oddur frá Grænuborg hélt til í um aldramótin 1900. Enn má sjá bæði bein og hleðslur í hellinum, sem er rúmbetri en í fyrstu má ætla. Gangan upp að Kálffelli með viðkomu framangreindum seljum tók um tvær klst.

Brandsgjá

Brandsgjá við Skógfellastíg.

Nú var gengið svo til í beina stefnu á skátaskálann við Snorrastaðatjarnir, niður Dalina og áfram til norðurs með vestanverðum Brúnunum. Sú leið er mun greiðfærari en að fara yfir holtin og hæðirnar austar. Útsýni var gott yfir Mosana og Grindavíkurgjána. Gengið var yfir Brúnagötuna og komið var við í Brandsgjá og Brandsvörðu, en í gjána missti Brandur á Ísólfsskála hesta sína snemma á 20. öldinni. Skógfellavegurinn liggur þarna yfir gjána. Stefnunni var haldið að Snorrastaðatjörnum. Þegar komið var að þeim var haldið vestur fyrir þær og síðan gengið að Snorrastaðaseli norðan þeirra. Selið er lítið og liggur undir hraunbakkanum fast við nyrsta vatnið, gegn skátaskálanum (sem nú er reyndar horfinn).
Gangan tók í allt um 3 klst. Frábært veður.

Oddshellir

Í Oddshelli.

Oddshellir

Í Kálffelli var setið yfir sauðum um og eftir aldamótin 1900 og var frægasti sauðamaðurinn þar Oddur Stefánsson frá Grænuborg (d. 1925). Í gígjum eru hlaðnir garðar, aðhald og rétt og við hellaop ofan við gíginn eru einnig hleðslur sem líklega hafa átt að beina fé í skjól ef veður var vont. Tvö fjárskjól eru utan í fellinu suðaustanverðu.

Op Oddshellis

Oddshellir.

Einn hellanna, skammt sunnar, heitir Oddshellir og er í Brunnhól rétt suðaustan við gígskálina. Hóllinn dregur nafn af lögun hellisins og eða “dyrum” hans. Opið er eins og brunnop og til þess að komast niður þarf að stökkva niður á nokkrar hellur sem hlaðnar hafa verið upp neðan “dyranna”. Oddshellir er nokkuð rúmur og á einum stað er hlaðið upp í einn afkimann. Líklega hefur Oddur í Grænuborg átt afdrep í þessum helli og af því er nafngiftin trúlega komin.
Oddur hélt a.m.k. til í hellinum og þegar Ólafur Þorleifsson mun hafa ætlað að heimsækja hann á aðfangadag um aldamótin 1900, en átti ekki afturkvæmt. Hann féll ofan í sprungu á leiðinni. Heitir sprungan Ólafsgjá. Þar fannst hann um 30 árum síðar, sitjandi á syllu.
Sagnir er um að þegar mest var af sauðum í hellum Kálffells hafi þeir verið á annað hundrað.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.

Kálffell

Fjárskjól við Oddshelli í Kálffelli.

 

Oddshellir

Gengið var inn á Skógfellaveg frá Reykjanesbraut og upp fyrir Brandsgjá, upp Vogaheiði um Huldugjá, að Péturborg og síðan áfram upp heiðina í Kálffell.

Kálffell

Fjárskjól við Oddshelli í Kálffelli.

Í Kálffelli eru hlaðin mannvirki, s.s. gerði, kví, rétt, fjárskjól og þar er mannvistarbústaður; Oddshellir.
Kálffellið er, séð úr fjarlægð, líkt og lítil þúst í heiðinni. Þegar komið er að því kemur í ljós að um fallegan eldgíg er að ræða og það nokkuð stóran.
Þegar gengið er beint upp heiðina tekur hver hæðin og lægðin við af annarri. En þegar farið er suður með vestanverðri heiðinni er gengið rétt utan við lyngsvæðið og þar er öllu sléttara aðgöngu að fellinu. Á þeirri leið ber ýmislegt skemmtilegt fyrir augu, s.s. gjár og mosasléttur, misgengi og litlir hraungígar á NA-lægum sprungureinum.

Syðri-Mosadalagjá liggur fast neðan Kálffells (87 m.y.s.), en það er á hreppamörkum og liggur norðaustan við svonefnda Aura. Kjörin fjárfesting fyrir einhverja bankastofnunina, sem ekki veit aura sinna tal.

Kálffell

Kálffell.

Fellið er stærsti gígurinn í nokkuð stórum gígaklasa á þessum slóðum. Megin hraunstraumurinn hefur runnið norðvestur úr og þekur hraunið um 3.5 ferkm. Fell er varla réttnefni því Kálffell er aðeins ávöl hæð, sem fellur inn í landið, sérstaklega séð neðan frá eins og fyrr sagði.

Oddshellir

Oddshellir.

Það eru snöggtum fleiri fell en fjöll á Reykjanesskaganum og séra Geir Backmann gerir eftirfarandi greinarmun á felli og fjalli í lýsingu sinni á Grindarvíkursókn árið 1840: “Þann mun gjöri ég á felli og fjalli, að fell kalla ég klettalausa, alls staðar að snarbratta, uppmjóa og toppvaxna, háa hæð, sem hvar vill má upp ganga; en fjall, hvar klettar eða klungur hamla uppgönguna, og hvers hæð er í hið minnsta 200 faðmar; þó sé hverjum leyfi að gjöra þar þann mismun, er sjálfur vill.”.

Kálffell

Rétt í Kálffelli.

Í Kálffelli var setið yfir sauðum um og eftir síðustu aldamót og var frægasti sauðamaðurinn þar Oddur Stefánsson frá Grænuborg (d. 1925). Í gígnum eru hlaðnir garðar og við hellaop ofan við gíginn eru einnig hleðslur, sem líklega hafa átt að beina fé í skjól ef veður var vont.
Einn hellanna heitir Oddshellir og er í Brunnhól rétt sunnan við gígskálina. Hóllinn dregur nafn af lögun hellisins og eða “dyrum” hans. Opið er eins og brunnop og til þess að komast niður þarf að stökkva niður á nokkrar hellur, sem hlaðnar hafa verið upp neðan “dyranna”.

Kálffell

Kálffell.

Oddshellir er nokkuð rúmgóður og á einum stað er hlaðið upp í einn afkimann. Líklega hefur Oddur í Grænuborg átt afdrep í þessum helli og af því er nafngiftin trúlega komin. Sagnir eru u að þegar mest var af sauðum Í Kálffelli hafi þeir verið á annað hundrað.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysutrönd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Kálffell

Fjárskjól í Kálffelli.