Færslur

Reykjanes

Flestir sem fara um eða leiða áhugasamt ferðadólk um Reykjanesskagann enduróma gjarnan uppgötvanir annarra. Þó eru þeir/þau til er miðla fróðleik út frá eigin uppgötvunum. Í þessum fróðleik felast mikil verðmæti – miklu mun meiri en virðist við fyrstu sýn. Hafa ber í huga að þetta er fólkið er horfir til langrar framtíðar – það veit og skilur hvað komandi kynslóðum muni gagnast helst og best.
LóuhreiðurFERLIR hefur um nokkurt skeið leitað uppi minjar og staði á Reykjanesskaganum (í “landnámi Ingólfs”), sem getið hefur verið um í gömlum og nýjum heimildum, sögum, sögnum sem og munnmælum. Oftar en ekki hefur verið hægt að ganga að þessum stöðum vísum, en að sumum hefur þurft að leita, stundum oftar en einu sinni og jafnvel margoft. Við þær leitir hefur fundist ýmislegt, sem ekki er vitað að hafi verið skráð.
Þótt sumir minja- og sögustaðir hafi verið týndir eru þar á meðal staðir, sem í rauninni hafa alltaf verið til staðar. Heimafólk eða kunnugir hafa vitað af þeim þó svo að aðrir, jafnvel “sérfræðingarnir”, hafi ekki vitað um þá.
Fólkið á sérhverjum stað býr yfir ótrúlega miklum upplýsingum, sem stundum bíða þess einungis að verða “leystar úr læðingi” eða athugaðar nánar.
Ef þú, lesandi góður, telur þig búa yfir vitneskju um stað í líkingu við framangreint, ert þú vinsamlegast beðinn um að hafa samband við
ferlir@ferlir.is. Allar ábendingar verða skoðaðar.
Sem dæmi um ófundna staði er getið er um í heimildum má nefna eftirfarandi:

Fornmannagröf við Stóra-Hólm1. Steinunn gamla mun hafa búið á Hólmi. Í túninu er bátslaga álagahóll, sem aldrei hefur mátt hrófla við – talinn fornmannagröf. Sagan segir og að smali hafi látist þar eftir áverka. Áður en hann lést óskaði hann þess að verða grafinn við götuna heim að bæ. Mun hann hafa verið grafinn “skammt innan við hliðið”. Yfir honum á að vera hella og á henni áletrun. Grjótgarðar eru þarna víða. Einnig hlið. Þó er eitt einstaklega áhugavert. Hlaðið hefur verið upp í garðinn, en innan hans er vatnsból. Við það lá gatan heim að bænum til forna. Á 20. öldinni komu menn frá Símanum, ómeðvitaðir um forsöguna, og grófu skurð um svæðið, umbyltu grjóti. Talið er að eitt grjótið hafi verið umræddur letursteinn. Sá, eða þeir, sem hafa séð eða vita af áletruninni eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband.

2. Ofan við tóftir Brekku undir Stapanum (skammt frá Hólmabúðum) á að vera ártal höggvið í stein. Ártalið mun vera 1925. Sá, eða þeir, sem hafa séð áletrunina og vita hvar hún er, eru beðnir um að hafa samband.

Fjárskjól3. FERLIR hefur leitað að fjárskjóli bóndans frá Hömrum við Húsatóftir. Hlaðið á að vera fyrir munna, sem er í tiltölulega litlu niðurfalli er horfir til suðurs. Staðsetning er sögð eiga að vera austan við Sundvörðuhraunið, nálægt Eldvörpum (ekki þó Útilegumannahellirinn (Brauðhellirinn)). Sú saga fylgir að Þorsteinn, bóndi á Hömrum, hafi reiðst við sýslumanninn á Tóftum vegna ágreinings um fjörubeit og flutt þá í skyndi og haldið sauðum sínum í umræddum helli. Sá, sem hefur séð eða veit hvar fjárskjólið er, er beðinn um að hafa samband.

4. Ásrétt er sögð hafa verið ofan eða nálægt Háaleiti ofan við Keflavík. Talsvert hefur verið raskað á svæðinu líkt og um gjörvallan Reykjanesbæ. Svo virðist sem verðmæti fortíðar hafi algerlega gleymst á þeim bænum í kapphlaupinu um nútímaþægindin. Vitað var af réttinni fyrir nokkrum árum. Sá, þeða þeir, sem gefa annað hvort sagt til hvar réttin er eða hvar hún var, eru beðnir um að hafa samband.

5. Ef einhver, eða einhverjir, vita hvar Bolafótsbrunnur í Ytri-Njarðvík er eða var, eru þeir hinir sömu vinsamlegast beðnir um að hafa samband. Brunnurinn var nálægt bæ þeim er Hallgrímur Pétursson, prestur og sálmaskáld, bjó í um tíma. Þar er nú forgengileg skipasmíðastöð. Tóftum bæjarins hefur verið eytt. Spyrja má hvort samfélagið hefði ekki verið mun ríkara í dag ef leifum bæjar Hallgríms hefði verið hlíft þegar ákvörðun var tekin um athafnasvæði fyrir skipasmíðastöðina?

Netfangið er ferlir@ferlir.is. Hafið í huga að hinar minnstu vísbendingar geta auðveldlega leitt til ávinnings.Gráhella