Færslur

Katlahraun

Í Dagblaðinu Vísir, helgarblaði árið 1983 er fjallað um Ögmundar- og Katlahraun undir fyrirsögninni “Aðrar dimmuborgir” og undirsögninni “svipast um á skrítnum slóðum í Ögmundarhrauni við Grindavík“.

“Suðurhluti Reykjanesskaga er ekki í alfaraleið. Þjóðbrautin liggur tugi kílómetra frá, og því hefur svo verið lengi að fáir ferðamenn hafa lagt leið sína til þessa landshluta. Það verður að teljast miður, ef höfð er í huga sú merkilega en jafnframt hrikalega náttúrufegurð sem þar gefst að skoða.

Í Katlahrauni
Katlahraun
Einhver sérstæðasti staður suðurstrandar Reykjanesskagans er án efa Ögmundarhraun. Það liggur milli Grindavíkur og Krýsuvíkur — á láglendinu milli fjalls og fjöru — og þekur um sextán ferkílómetra í það heila.
Í hrauninu er að finna marga sérkennilega staði. Einn þeirra er þar sem heitir í Katlahrauni. Hann er nánast inni í miðju Ögmundarhrauni og er harla vandfundinn enda hafa fáir Íslendingar séð hann. Staðurinn er eiginleg sigdæld og markast af háum hraunveggjum allt í kring.
Katlahraun
Þegar gengið er fram á brún sigdældarinnar er sem yfir víðfeðman íþróttaleikvang að líta, slík er lögun hennar. Niðri í þessari hraunborg er yfir illfært og gróft helluhraun að fara, sem er víða sprungið, og því hættulegt yfirferðar en fjölbreytnin í landslaginu þarna er töfrandi og svo til endalaus. Háa hraunstapa er að finna niðri í dældinni svo og ýmsar aðrar sérstæðar hraunmyndanir, svo sem þar sem helluhrauniö hefur brotnað í hluta og staflast upp í þyrpingar og myndað allskyns hella og skúmaskot.

Hellar og skútar
Katlahraun
Í veggjunum eða hraunfjöllunum sem afmarka sigdældina eru margir hellar, misstórir eins og gengur, en þeir stærstu eru allt að tíu metra langir og álíka háir. Litlir bergskútar eru um allt í veggjunum og á einum stað er eins og þeir myndi eins konar hillusamstæðu í hraunfjallinu.
Á öðrum stað má skoða einhverja sérkennilegustu hraunmyndun sigdældarinnar. Þar jafnast lögun bergsins á við kirkjuhurð! „Ef huldufólk er á annað borð til, þá býr það þarna,” lét einhver hafa eftir sér sem leið átti um. Þessi náttúrlega hurð sést á einni ljósmyndinni sem fylgir þessum texta og er rétt að geta að hún er um tveir metrar á hæð en breiddin um hálfur annar metri. Í heild sinni minnir þessi hraunborg í Ögmundarhrauni — sigdældin og hraunveggirnir í kringum hana — mjög á Dimmuborgir í Mývatnssveit.
Katlahraun
Gróðurinn er þó ekki eins mikill og nyrðra en kynjamyndirnar og sérkennileg lögun hraunsins er allt eins mikil. Og fyrst minnst er á gróður þá er vert að geta þess að fyrir utan mosann vex í þessari hraunborg um eins metra hár burkni um hásumartímann, og segja þeir sem komið hafa á staðinn á þeim tíma að hvergi annars staðar í landinu hafi þeir séð svo merkilegt blómskrúð sem þennan burknagróður inni í stórbrotnu helluhrauninu.

Ögmundur og vegurinn

Ögmundarhraun

Hin forna gata um Ögmundarhraun, áður en vagnvegurinn var lagður.

Nafn sitt dregur Ögmundarhraun af manni þeim sem fyrstur er álitinn hafa rutt vegslóða yfir þetta illfæra svæði. Er sagt frá því í heimildum frá átjándu öld að Ögmundur nokkur hafi rutt veg um hraunið og verið myrtur að launum austan við það, þar sem dys hans sé. Á nítjándu öldinni voru svo skráðar ítarlegri sagnir um Ögmund þennan. Jón Vestmann prestur í Selvogi skráir sögu um Ögmund og Ögmundarhraun tvisvar á fyrri hluta nítjándu aldar. Hjá honum er sagan lík um Ögmund, nema þar vinnur hann við vegagerðina gagngert til að fá dóttur bónda nokkurs í héraðinu sér til handa, en bóndi drepur hann sofandi áður en hann fær hennar.
Brynjólfur frá Minna-Núpi skráði einnig sögu um Ögmund og þetta hraun sem við hann er kennt á síðari hluta nítjándu aldar. Þar er sagan svipuð hinum fyrri en vegurinn um Ögmundarhraun fær þessa einkunn:

Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar
fáka meiða fæturnar
og fyrir oss brjóta skeifurnar.

Deilt um aldur
Katlahraun
Annars hefur mikið veriö skrifaö um ögmundarhraun sem slíkt. Einkum og sér í lagi hefur mikið verið fjallað um hugsanlegan aldur þess — og eru menn ekki á eitt sáttir um hvenær þetta hraun hafi flætt yfir. Þó er vitað með vissu að það hafi gerst eftir að landnám hófst. Er Ögmundarhraun samkvæmt því yngsta hraunið á Reykjanesskaga.
Katlahraun
En hvenær í sögu Íslandsbyggðar hraunið rann eru menn ekki vissir um og um getgátur eru menn ekki sammála, sem fyrr segir. Hafa menn reyndar skipst í tvo nokkuð vel afmarkaða hópa í þessum efnum. Vill annar ætla að hraunið hafi runnið á fyrri hluta elleftu aldar, nánar tiltekið árið 1010, og byggir hann þá ágiskun sína á geislakolsaðferðinni svokölluðu, þar sem tekin eru sýni víða úr hrauninu og þau aldursgreind á rannsóknarstofu.
Hinn hópurinn rýnir fremur í ritheimildir en jarðsýni og telur þær gefa eðlilegri og raunhæfari vísbendingu um aldur hraunsins. Er bent á að ekki sé getið hraungosa á Reykjanesskaga í heimildum fyrr en komi fram á sexlándu öld. Um sama leyti hafi kirkjustaðurinn Krýsuvík verið lagður niður sem slíkur og telur hópurinn orsökina vera hraunrennslið. Af þessu, svo og mörgu öðru, megi draga þá ályktun að Ögmundarhraun hafi runnið seint á árabilinu 1558 til 1563.

Hver maður hrífst af

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Hvað sem aldri Ögmundarhrauns líður, þá er það að finna í öllu sínu veldi við suðurströnd Reykjanesskaga — og þeir sextán ferkílómetrar sem það þekur eru mikilfengleg náttúruundur sem hver maður hrífst af. Til vitnisburðar um það eru myndirnar sem hér birtast á síðunni, en þær eru teknar í þeirri merkilegu sigdæld sem er að finna inni í miðju Ögmundarhrauni og áður var minnst á.” – SER

Heimild:
-Dagblaðið Vísir, 131, tbl., helgarblað 11.06.1983, Aðrar dimmuborgir, bls. 16-17.

Katlahraun

Kaltlahraun – Selatangar fjær.

Vigdísarvellir

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar, jólablaðinu 1960, er birt þjóðsagan  “Í risaklóm“. Sagan birtist einnig í Æskunni árið 1981:

Vigdísarvellir

Móhálsadalur austan Vigdísarvalla.

“Endur fyrir löngu bjuggu hjón á bæ þeim, skammt frá Krýsuvík, er Vigdísarvellir hét. Sá bær er nú í eyði. Þau hjón áttu sér eina dóttur. Hún hét Guðrún. Guðrún var forkunnar fögur. Svo fögur að hennar líki fannst enginn á öllu íslandi. Ekki er þess getið að þau hjón hafi átt fleiri barna. Og bjuggu þau með dóttur sinni einni á Vigdísarvöllum.

Þegar þessi saga gerðist eru hjónin hnigin mjög á efri aldur, en dóttir þeirra gjafvaxta. Fregnir um fegurð Guðrúnar og gjörvuleik fóru víða. Menn komu víðsvegar að til þess að biðja hennar. En allt var það árangurslaust.
Hversu fríðir og föngulegir og fémiklir sem biðlarnir voru, neitaði Guðrún þeim öllum. Og getur sagan ekki um ástæðu fyrir því. Gekk svo um langan tíma.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir.

Eitt kvöld síðla sumars er barið all-harkalega á bæjardyrnar á Vigdísarvöllum. Verður þeim hjónum og Guðrúnu bilt við, og hikaði bóndi við að fara til dyra. Er þá aftur barið og enn þunglegar en áður. Verður bónda nú ekki um sel og fer hvergi. Þess er þá skammt að bíða, að barin eru þrjú bylmingshögg á bæjardyrnar. Og þorir bóndi nú eigi annað en út að ganga. Nokkuð var farið að rökkva. Koldimmt var í göngum. Uggur var í bónda. Þreifaði hann sig fram eftir göngunum, fálmaði eftir slagbrandinum, tók hann gætilega frá dyrunum og gægðist út. Sá hann þá hvar stór maður, ferlegur útlits og ófríður, stóð frammi fyrir honum. Fannst bónda maðurinn mikilúðlegur og illa vaxinn. Þóttist hann aldrei hafa séð svo ljótan mann fyrr á ævi sinni. Sýndist honum hann meira líkur risa en mennskum manni. Hugði nú bóndi að hér væri ekki allt með felldu, en reyndi sem allra minnst að láta á ótta sínum bera. Heilsaði hann manni þessum, spurði um heiti hans og innti hann eftir erindi hans, og hvaðan hann væri. Kvaðst maðurinn heita Ögmundur og vera kominn til þess að biðja dóttur hans.
Ekki sagðist hann geta sagt hvaðan hann væri. Svo óttasleginn sem bóndi var fyrir, varð hann hálfu hræddari, er hann heyrði erindi komumanns og hinn hrikalega málróm hans. Bóndi varð fár við í fyrstu en sá fljótt að nú var annað hvort að duga eða drepast. Bað hann komumann hinkra ögn við meðan hann brygði sér í baðstofu og færði þetta í tal við konu sína og dóttur.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraunið rutt.

Þarf ekki að orðlengja það, að bónda þótti nú þunglega horfa, og að konu hans og Guðrúnu þóttu tíðindin ill. Æddi bóndi nú eirðarlaus fram og aftur um baðstofugólfið. Álasaði hann dóttur sinni harðlega fyrir að hafa ekki þegið bónorð einhvers af þeim mörgu ágætu og glæsilegu mönnum, er höfðu beðið hennar. Hefði þá þessum vansa verið bægt frá dyrum þeirra. En um það dugði ekki að fást, úr því sem komið var. Hér var vandi á ferðum. Góð ráð voru dýr. Hryllti bónda við að láta dóttur sína í hendurnar á þessum hræðilega risa. Og ef hann neitaði, var eins líklegt að hann tæki Guðrúnu með valdi og flytti hana á brott með sér. Í öngum sínum og ráðaleysi ráfaði bóndi nú til dyranna, en kona hans og dóttir fylgdu honum eftir með skelfdum augum. Komumaður leit löngunarfullum augum til bónda er hann kom út. En í því er bónda varð litið upp til hins ljóta og afskræmda andlits risans, kom honum skyndilega ráð í hug. —

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Nú er frá því að segja að skammt frá Vigdísarvöllum var hraun nokkurt, ógreiðfært og illt yfirferðar. Var það ákaflega úfið, holótt og þversprungótt og lá víða á því mosaslæða, svo að stórhættulegt var yfir að fara. Kom það eigi sjaldan fyrir að slys urðu á mönnum og dýrum. Bóndi hafði þá nýlega misst hest sinn og hafði hann fótbrotnað í klungri hraunsins.
Bóndi bað komumann fylgja sér. Mæltu þeir fátt en gengu hratt. Þegar þeir komu að hraunjaðrinum, mælti bóndi: “Ég skal gefa þér dóttur mína fyrir konu en með einu skilyrði þó. Þú skalt ryðja þetta hraun. Skaltu ryðja greiðfæran veg í gegnum það og vera búinn að því að sólarhring liðnum. Verðurðu ekki búinn að því fyrir lágnætti annað kvöld, verður þú af dóttur minni.” Að svo mæltu gekk bóndi snúðugt burtu. Varð fátt um kveðjur. En risinn tók til óspilltra málanna við að ryðja hraunið.
Bóndi gekk glaður heim á leið og þóttist nú heldur en ekki vel hafa dugað sér og sínum. Sváfu þau hjónin vel um nóttina. Guðrún svaf illa. Hafði hún ýmist þunga drauma eða lá andvaka. Gat hún ekki varist þeirri hugsun, að verið gæti að risanum tækist að ryðja hraunið. En bóndi kvað það hina mestu fjarstæðu, taldi í hana kjark og bað hana sofa.

Ögmundardys

Ögmundardys.

Árla næsta morgun reis bóndi úr rekkju. Hann gekk út á bæjarhólinn og skyggði hönd fyrir auga. Sá hann þá hvar risinn hamaðist sem mest hann mátti. Var engu líkara en kominn væri á hann berserksgangur. Grýtti hann grjótinu til beggja handa sem óður væri. Fannst bónda atgangur hans mikill og æðisgenginn. Og ekki var ásýnd risans ásjálegri.
Bónda leist nú ekki á blikuna. Hvarf hann inn í bæinn aftur og tjáði konu sinni, að tvísýnt væri nú að ráð hans dygði nokkuð. Kvað hann vera komið æði á risann enda miðaði honum drjúgum. Svo gæti farið að honum tækist að ryðja hraunið og yrðu þau hjónin að láta af hendi dóttur sína.
Ögmundardys
Þennan dag var eigi rótt í koti karls og kerlingar og varð lítið úr verki á Vigdísarvöllum. Var sem enginn gæti innt af hendi nokkurt verk til hlítar.
Tíðum var þeim hjónum og Guðrúnu gengið út á hólinn, einkum þó Guðrúnu. Og var sem hún hefði enga eirð í sínum beinum.

Ögmundastígur

Dys Ögmundar við Ögmundarstíg í Ögmundarhrauni. Jón Guðmundsson frá Skála við dysina.

Risanum miðaði æ betur og betur. Eftir því sem á daginn leið lengdist vegurinn og styttist nú óðum sá kafli er eftir var.

Leið nú dagurinn uns komið var fram í myrkur. Tóku hjónin að örvænta að úr þessu mundi rætast. Guðrún var orðin vonlaus. Fór hún að búa sig undir brottförina, og gerði hún það ekki sársaukalaust. Hjartað barðist ótt í brjósti hennar. Bar hún sig næsta aumlega, sem vonlegt var. Hafði hún aldrei úr föðurgarði farið áður enda ætlað sér vænlegra hlutskipti en að lenda í risaklóm. Grét hún beisklega yfir örlögum sínum. Móðir hennar reyndi að hughreysta hana þótt það kæmi einnig við hjarta hennar að skilja svo við dóttur sína.
Bóndi horfði á dapur í bragði. Rann honum svo til rifja að sjá örvæntingu dóttur sinnar, að hann ákvað að gera eitthvað, hvort sem það dygði eða dygði ekki. Æstur í skapi, samanherptur og þrútinn í andliti af reiði, yfirgaf hann mæðgurnar í þessu ástandi.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – bóndinn tekst á við tröllið.

Bóndi gekk út í skemmu. Hann tók sveðju eina mikla og stóra og brýndi snarplega. Er hann hafði lokið því gekk hann rakleiðis út í hraunið. Stóð það heima að risinn hafði lokið hlutverki sínu. Greiðfær og allgóður vegur var nú kominn yfir hraunið.
Eins og bóndi bjóst við var risinn yfirkominn af þreytu. Var hann kominn miðja vegu til baka aftur og skjögraði til beggja hliða, er hann gekk.
Bóndi beið risans við hraunjaðarinn.
Honum var órótt. Eftir alllanga stund kom risinn að hraunjaðrinum. Gekk hann upp og niður af mæði og var þreyttur mjög. Réðst bóndi þegar að honum. Er hann sveiflaði sveðjunni og sá blika á hana, óx honum ásmegin. Ekki var allt afl þrotið úr æðum risans. Var þetta bæði harður leikur og langur, en þó fór svo að bóndi felldi risann. Var hann svo þjakaður eftir viðureignina að hann gat sig hvergi hreyft. Er hann hafði jafnað sig dysjaði hann risann þarna við hraunjaðarinn. Og heitir þar síðan Ögmundardys og hraunið Ögmundarhraun. Má enn þann dag í dag sjá Ögmundardys við vegarendann í Ögmundarhrauni.
Er bóndi kom heim voru heldur en ekki fagnaðarfundir á Vigdísarvöllum.
Af Guðrúnu er það að segja að hún giftist skömmu síðar og lifði við gæfu og gengi allt sitt líf.
Og lýkur svo þessari sögu.”

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 1960, Í risaklóm – þjóðsaga, bls. 33-34.
-Sagan birtist einnig í Æskunni, 1. tbl. 01.01.1981, bls. 16-17.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – uppdráttur ÓSÁ.