Sunnan við húsið Þingholtsstræti 9 á safnlóð Árbæjarsafns er grágrýtissteinn ættaður úr Örfirisey, kallaður „Apótekarasteinn„.
Steinninn lá við sjávarmálið og var á góðri leið með að eyðileggjast þegar hann var fluttur á safnið árið 1963. Steinninn dregur nafn sitt af apótekarakeri sem er dregið utan um ártal, en vafalaust tengist hann verslunarstaðnum í Örfirisey á 18. öld. Þekkt var að danskir verslunarstjórar hjuggu nöfn í steinana á eyjunni.
Lýsing: Steinninn er 1,6 x 1,5 m að stærð og á hann er rist einföld mynd af keri, 60 x 63 cm og á því miðju er fangamarkið HCB og ártalið 1747. Letrið er orðið mjög óljóst.
Sem fyrr segir eru fjölmörg fangamörk og ártöl klöppuð í klappirnar í Örfirisey, á bak við olíugeymana, sem þar eru.