Í 12. lið fundargerðar Bæjarráðs Grindavíkur þann 5. maí 2021 má lesa eftirfarandi um örnefnanefnu í Fagradalsfjalli:
„Nafn á nýju hrauni og gígum við Fagradalsfjall – 2103090.
Lögð fram umsögn Örnefndanefndar á heiti á nýju hrauni og gígum í mótun við Fagradalsfjall. Með vísan til laga nr. 22/2015 leggur bæjarráð til við bæjarstjórn að nýtt hraun austan Fagradalsfjalls verði nefnt Fagradalshraun.„
Skv. framangreindu virðast hlutaðeigendur ekki vera meðvitaðir um staðhætti í og við Fagradalsfjall. Fjallið er nefnt eftir Fagradal norðan þess. Dalurinn er óháður gosstöðvunum í Geldingadölum.
Í Fagradal eru m.a. Nauthólar og Dalssel, fyrrum selstaða frá Þórkötlustöðum. Hún hvílir þar við uppþornaðan lækjarfarveg er áður myndaði Aurana neðar í dalnum.
Gígar hraunsins, er málið snýst um, urðu til á sprungu uppi í hlíðum Geldingadala – í miðju Fagradalsfjalli. Sunnar er Hrútadalur millum Einihlíða og Langahryggs og norðaustar eru Merardalir millum Merardalahnúka og Stóra-Hrúts. Afurð gíganna rann fyrst niður í Geldingadali, annars gróðurlitlar kvosir og kaffærði meinta dys Ísólfs á Skála, áður en hún tók upp á því að venda niður í Merardali.
Nefnt hraun hefur, a.m.k ekki hingað til, runnið niður í Fagradal. Til þess þyrfi það að fylla Gildingadalina upp fyrir neðanverðan Langhól eða Merardalina út fyrir Merardalahnúkana og síðan renna upp á við sunnan Þráinsskjaldar áður en það gæti náð rennsli milli Fagradalsfjalls og Fagradals-Vatnsfells og Fagradals-Hagafells.
Í örnefnalýsingu fyrir Hraun segir m.a. um Fagradalsdalsfjall og nágrenni:
„Borgarfjall er eiginlega fremsti hluti Fagradalsfjalls en Fagradalsfjall er eitt stærsta fjall á Reykjanesskaga. Á milli Borgarfjalls og Mókletta er Borgarhraun. Vinkillaga flatlendi framan við Fagradalsfjall heitir Nátthagakriki. Einbúi er þar nokkuð stór stakur hóll. Selskál er grasbrekka framan í Fagradalsfjalli. Trippalágar er graslendi á milli Borgarhrauns og Beinavörðuhrauns og nær fram að Móklettum. Vestan við Trippalágar við hraunjaðarinn á Beinavörðuhrauni er Bleikshóll. Kast er fell sem gengur út úr Fagradalsfjalli að suðvestan. Görn heitir skarðið á milli og nær hún alla leið inn í Innstadal. Stóragil er uppi á fjallinu fyrir ofan Innstadal. Norður af Kasti eru allháir grasgeirar í fjallshlíðinni og heita Fremstidalur, Miðdalur og Innstidalur. Þetta eru ekki raunverulegir dalir heldur brekkur og kvosir.
Hraunið vestur af Kasti heitir Beinavörðuhraun og nær fram að Hrafnshlíð, Fiskidalsfjalli og Vatnsheiði. Norður á móts við áður getinna er hraunið mikið sléttara með stórum mosaþembum og heitir þar Dalahraun. Í Dalahrauni eru tveir hólar með nokkru millibili og heita Innri-Sandhóll og Sandhóll sem er hærri og sunnar.
Gömul gata inn með Fagradalsfjalli að vestan og allt til Voga heitir Sandakravegur. Norðan við hraunið eru Nauthólaflatir og ná þær upp að Fagradalsfjalli. Dalssel heitir innst með fjallinu fyrir norðan Nauthólaflatir. Austast á Nauthólaflötum er hóll sem heitir Nauthóll. Vestan flatanna er uppblásið land, nú aurmelar, kallað Aurar en hét áður fyrr Fagridalur og er svo nefnt á korti. Nyrsti hluti Fagradalsfjalls heitir Fagradalsvatnsfell og er í landi Þórkötlustaða. Þar norður af er Fagradalshagafell, lítt áberandi að norðanverðu. Vatnskatlar uppi á Fagradalshagafelli eru landamerki á milli Hrauns og Þórkötlustaða. Eitthvað af nefndum örnefnum vestan Fagradalsfjalls að innanverðu gætu verið í landi Þórkötlustaða.
Uppi á Fagradalsfjalli er hæsti hnúkur á norðausturhorninu og heitir Langhóll. Að suðaustan er annar hnúkur og heitir sá Stórhóll.
Austan undir Borgarfjalli og á milli þess og Langahryggs er Nátthagi. Þetta er nokkuð breitt skarð á milli fjallanna og við suðurenda þess er Drykkjarsteinsdalur. Austan undir Fagradalsfjalli og norðan við Nátthagaskarð og í austur frá Stórhól er smáás og heitir Nátthagaskarð. Þar norður af eru Geldingadalir. Smádalkvosir grónar nokkuð. Þar er sagt að Ísólfur, fyrsti ábúandi á Ísólfsskála, sé grafinn og hafi hann viljað láta grafa sig þar sem geldingarnir hans höfðu það best.
Norðaustur frá Langhól er lítið fell fast við Fagradalsfjall sem heitir Kálffell. Norð-norðaustur af Langahrygg er Stóri-Hrútur og síðan þar norður af Meradalir. Þetta eru gróðurlitlar leirflatir.
Þar norður af eru Meradalshlíðar og vestur frá þeim er Kistufell í austur frá Langhól. Norður af Meradalshlíðum er Litli-Hrútur og þar norður af er Litli-Keilir.
Þaðan í norðaustur er Keilir, alþekkt fjall. Austan undir Kistufelli er smáhryggur sem nefndur er Rjúpnahryggur. Þarna eru víðast hraun á milli fjallanna og örnefnalaust.
Suðaustan og framan í Langahrygg eru Lyngbrekkur og þar framan við er Stóri-Leirdalur. Austan við Langahrygg eru Einihlíðar. Þetta eru ávalar, gróðurlitlar bungur en hafa sjálfsagt verið vel grónar þegar þær hlutu nafn. Litli-Leirdalur er framan við Einihlíðar að vestan og hlíðin þar austur af, þar sem gamli Krýsuvíkurvegurinn liggur upp, heitir Brattháls (Skyggnir). Litli-Hrútur heitir nyrsti hluti Einihlíða. Þverbrekkur heita grasigrónar brekkur nyrst í Litla-Leirdal.
Skarðið á milli Langahryggs og Einihlíða heitir Hrútadalur og við hann eru Hrútadalsbörð. Austan í Einihlíðum eru allmiklar grasigrónar kvosir og heita Bratthálskrókur sú fremri og Einihlíðarkrókur sú innri. Sandurinn þar norður af inn með Einihlíðum heitir Einihlíðasandur.„
Örnefnanefnd og fulltrúar Grindavíkurbæjar virðast, skv. ofangreindu, fara villu vegar er þeir ákveða að nefna hið nýja hraun í Geldingadölum „Fagradalshraun„. Til álita kæmu hins vegar með réttu örnefnin „Fagrahraun“, „Fagradalsfjallshraun“ eða „Geldingadalahraun“. En örnefnið „Fagradalshraun“ til framtíðar litið er eins og út úr kú, a.m.k. að teknu tilliti til framangreindra örnefna. Fulltrúum Grindavíkurbæjar er þó fyrirgefið því flestir þeirra virðast vera aðkomnir, en ekki er vitað undan hvaða hól fulltrúar Örnefnanefndar hafa skriðið. Ef örnefnið verður að veruleika mun það verða sem myllusteinn um háls nefndarinnar um ókomna tíð…
Sjá meira um Fagradal HÉR.