Laugardaginn 15. júní 2013, kl 14:00, var afhjúpað minningarskilti um búsetu þjóðskáldsins Einars Benediktssonar og Hlínar Johnson, síðustu ábúendur í Herdísarvík í Selvogi. Nemendafélagið Grimmhildur, félag HÍ-nemenda (e. mature students) á Hugvísindasviði við Háskóla Íslands, hafði með stuðningi hollvina Herdísarvíkur látið útbúa minningarskiltið.
Sama dag, skömmu síðar, var og afhjúpað örnefna- og minjaskilti sem gönguhópurinn FERLIR hafði veg og vanda að – án þóknunar. Skiltastandurinn var hannaður hjá Martak í Grindavík að beiðni hópsins og myndflöturinn álprentaður hjá Stapaprenti í Keflavík. Á skiltinu er að finna margvíslegan fróðleik sem FERLIR hefur aflað á löngum tíma um staðhætti, tóftir sjóbúða og búskap á jörðinni, bæði með aðstoð örnefnalýsinga og staðbundnum leiðarlýsingum hinna elstu manna, s.s. Þórarins Snorrasonar á Vogsósum og Þórðar Sveinssonar úr Selvogi, er enn muna þá tíð er búskapur var í Herdísarvík. Auk þess veitti Ingólfur Árnason, barnabarn Hlínar góðar upplýsingar um svæðið.
Einar Benediktsson ánafnaði Háskóla Íslands jörðina Herdísarvík, sem í hans tíð var afskekkt. Með tilkomu Suðurstrandarvegar er Herdísarvík komin í alfaraleið. Við það opnast nýir möguleikar til að sinna verndun viðkvæmra sögu- og menningarminja sem þar eru. Uppbygging Herdísarvíkur getur orðið mikilvægt skref í átt til þess að minningu skáldsins sé haldið á lofti.
Á minningarskiltinu má m.a. lesa eftirfarandi: „Hér stendur síðasta heimili þjóðskáldsins Einars Benediktssonar og sómakonunnar Hlínar Johnson. Bæði voru þau sannir heimsborgarar sem fluttu til Herdísarvíkur, í lítið hús við sjóinn í afskektri sveit, þar sem útsærinn er á aðra hönd og klettahamrarnir á hina. Einar ánafnaði Háskóla Íslands jörðina með gjafarbréfi árið 1935.
Einar Benediktsson var fæddur 31. október 1864 að Elliðavatni, sonur hjónanna Benedikts Sveinssonar, sýslumanns og alþingismanns, og Katrínar Einarsdóttur frá Reynistöðum í Skagafirði. Einar nam við Lærða skólann og las síðan lög við Hafnarháskóla. Hann kvæntist Valgerði Zoëga (1881-1955) og varð þeim sex barna auðið. Þau skildu.
Einn þekktastur varð Einar Benediktsson fyrir skáldskap sinn en hann var einnig kunnur sem stórhuga frumkvöðull og lífskúnstner. Hann starfaði sem lögfræðingur og sýslumaður og var bæði fyrsti dagblaðsútgefandi og fasteignasali á Íslandi. Einar þótti örlátur og gjafmildur gleðinnar maður. Einar Benediktsson hefur verið kallaður „…einhver jötunefldasti andi sem fæðst hefur á Íslandi “ [Guðjón Friðriksson, 2000]. Síðustu átta árin dvaldi hann í Herdísarvík ásamt Hlín. Hér lést hann 12. janúar árið 1940.
Hlín Johnson (f. 16.11.1876, d. 15.10.1965) fæddist að Sandhaugum í Bárðardal. Hún giftist Ingólfi Jónssyni frá Jarlsstöðum í sömu sveit og varð þeim átta barna auðið. Þau skildu. Hlín þótti listagóð saumakona, sem saumaði bæði kven- og karlmannsföt. Þau Einar og Hlín kynntust árið 1927 og fluttu til Herdísarvíkur í júlí 1932 og tók Hlín við bústjórninni. Hér í Herdísarvík var búskapur með kýr, sauðfé, hænsni og endur. Fiskur var veiddur úr tjörninni og seldur til erlendra sjómanna, ásamt lagnaðarís úr tjörninni sem geymdur var í sérstöku íshúsi [nú horfið] hér á staðnum. Lambakjöt og bleikja var reykt í reykofni og var frægt að gæðum, ekki síður en göróttur landinn sem Hlín bruggaði.
Halldór Laxness lýsti Hlín með þessum orðum: „…lík fornkonu, þolir ekki annað lögmál en sjálfrar sín, og þess vegna fer strandleingjan og fjallið og einveran og úthafið henni best“ [Björn Th. Björnsson]. Hlín bjó í Herdísarvík allt fram um 1960.
Höfundarverk Einars er æði mikið. Eftir hann liggja meðal annarra verka: Sögur og kvæði, Hafblik, Hrannir, Vogar og Hvammar, ásamt þýðingum, ritgerðum og fleiru. Margir íslenskir málshættir eiga rætur sínar í ljóðum Einars“.
Athöfnin var öllum opin. Erindi fluttu m.a. Halldór Blöndal, fyrrum alþingismaður, ráðherra og forseti Alþingis og Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra. Komst þeim báðum vel að orði, bæði til minningar um Einar og Hlín sem og tengsl þeirra við Herdísarvíkina á síðustu æviárum skáldsins. Lét Illugi þau orð falla í kjölfar tölu sinnar „að hann væri enn ekki búinn að venjast því að tala sem ráðherra“, en að teknu tilliti til tölunnar lærist honum það vonandi aldrei – því talan var bæði einstaklega einlæg og efnisrík.
Jafnframt var á þessum degi afhjúpað örnefnaskilti í Herdísarvík.
Jóhann Davíðsson hélt „velkomst“ við sögu- og minjaskiltið og bauð síðan Guðrúnu Ásmundsdóttur, leikkonu að afhjúpa það. Að orðum hennar loknum var eins og við manninn mælt; tók þá svo til samstundis sólin að skína með tilheyrandi yl og hlýju.
Jóhann þakkaði sérstaklega Ómari Smára Ármannssyni fyrir hans framlag við gerð uppdráttarins. Sjá upptökuna HÉR.
Jóhann við athöfnina.
Í lok formlegrar afhjúpunar leiddi FERLIR stutta göngu um svæðið. Að henni lokinni var boðið upp á kaffihressing í húsi skáldsins og Hlínar.
Frá 1895 til 1927 bjó í Herdísarvík með fjölskyldu sinni Þórarinn Árnason, sonur Árna Gíslasonar stórbónda í Krýsuvík og fyrrum sýslumanns Skaftfellinga. Hafði Þórarinn gagnsamt bú og bjó við rausn að fornum hætti.
Ómar Smári Ármannsson við athöfnina.
Árið 1908 eignast Einar skáld Benediktsson Herdísarvík (ásamt Krýsuvík, sem hann átti þó með erlendum mönnum), en mun lítt hafa skipt sér af högum landseta sinna. Árið 1927 leigir hann jörðina Ólafi Þorvaldssyni, síðar kunnum fræðimanni og rithöfundi, sem þar bjó með sinni fjölskyldu fram til 1933 en leigumáli hans var ekki endurnýjaður eftir það. Hafði Ólafi búnast prýðisvel á jörðinni og hefði, að eigin sögn, feginn vfljað vera þar lengur.
Guðrún Ásmundsdóttir afhjúpaði minja- og örnefnakort FERLIRs við Herdísarvík.
Í júlímánuði 1932 fluttist eigandi jarðarinnar, Einar Benediktsson, þá viðurkennt höfuðskáld þjóðarinnar með litríkan afhafna- og umsvifaferil að baki, til Herdísarvíkur ásamt sambýliskonu sinni, Hlín Johnson. Hófst þá smíði nýs íbúðarhúss (járnvarins timburhúss) á jörðinni, norðarlega í túninu og allnokkurn spöl frá gamla bænum. Var húsið fullbúið snemma í septembermánuði það ár. Stendur það enn, nú uppgert, og hefur um allmörg ár verið notað sem sumarorlofshús háskólastarfsmanna. Meðan á byggingu hússins stóð höfðust Einar og Hlín við í gamla bænum ásamt fjölskyldu Ólafs, en fluttu síðan inn í húsið nýja jafnskjótt og það varð íbúðarhæft. Yfirsmiður hússins var Sigurður Halldórsson úr Reykjavík, en allt byggingarefni var flutt sjóleiðina frá Reykjavík að Herdísarvík á strandferðaskipinu Skaftfellingi, en síðan á opnum báti frá skipshlið í lendingarvör. Bjuggu þau Einar og Hlín síðan í húsi þessu þar til Einar andaðist 12. janúar 1940, sem fyrr er getið, þá farinn að heilsu og kröftum eins og kunnugt er, en Hlín síðan, mest ein en stundum með aðkeyptri hjálp, nokkuð á annan tug ára, þar til hún brá búi og byggð lagðist af í Herdísarvík.“
Heimild:
-Morgunblaðið 15. janúar 2000, bls. 34-35.
Herdísarvík – skilti nemendafélags Grimmhildar.